Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2022 Forsætisráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherranefnd um íslenska tungu sett á laggirnar

Ráðherranefnd um íslenska tungu hefur verið skipuð samkvæmt tillögu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ráðherra greinir frá skipun nefndarinnar í ávarpi sínu á málþinginu Íslenskan er okkar allra sem haldið er í tilefni af viku íslenskrar tungu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu. Er þar lögð sérstök áhersla á að börn og ungmenni nýti tungumálið og á stuðning við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra.

Ráðherranefndinni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.

„Íslensk tunga er ómetanleg fyrir íslenskt samfélag. Hins vegar stendur tungumálið frammi fyrir áskorunum í örum tækni- og samfélagsbreytingum sem mikilvægt er að bregðast við. Við verðum að auka aðgengi að og miðlun á íslensku efni og efla kennslu fyrir fjölbreytta samfélagshópa ásamt því að tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eiga fast sæti í ráðherranefndinni. Munu ráðuneyti þeirra hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu.

Fyrrnefnt málþing Íslenskan er okkar allra hefst kl. 16 í Veröld – húsi Vigdísar. Á málþinginu verður fjallað um stöðu íslenskunnar út frá ýmsum hliðum samfélagsins og flytur Vígdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hugvekju.

 

Dagskrá málþings um íslenskuna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum