Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tunguAð tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur. Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.

Dagur íslenskrar tungu 2017

Í ár eru nemendur og kennarar hvattir til að vinna saman að gerð örmyndbanda þar sem leitað verði svara við tveimur spurningum: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? og Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna? Myndböndin mega ekki vera lengri en ein mínúta og hugmyndin er að skólarnir birti þau í kjölfarið á vefsíðum sínum og á samfélagsmiðlum. Valin myndbönd verða kynnt á Facebook síðu dags íslenskrar tungu. Merkja skal myndböndin með myllumerkinu #daguríslenskrartungu en þeim má einnig deila á vegg dags íslenskrar tungu á Facebook. Myndbandaherferðin er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vigdísarstofnunar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Stofnun Árna Magnússonar íslenskum fræðum að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2017. Þeir sem vilja kynna viðburði sína á vef dags íslenskrar tungu eru hvattir til að senda upplýsingar á netfangið [email protected] Þangað má jafnframt beina fyrirspurnum um hvað eina sem varðar hátíðisdaginn.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi öllum skólum og undirstofnunum ráðuneytisins bréf með hvatningu um að nota 16. nóvember, eða dagana þar í kring, til að hafa íslenskuna alveg sérstaklega í öndvegi, meðal annars með því að taka þátt í gerð örmyndbanda. Bréfið má nálgast hér.

Viðburðadagskrá 2017

Hér má finna yfirlit yfir viðburði tengda degi íslenskrar tungu. Listinn er ekki tæmandi og viðburðir bætast við eftir því sem upplýsingar berast.

13. - 19. nóvember
Norræna bókasafnavikan og dagur íslenskrar tungu í Snorrastofu 

15. nóvember

Ritun í skólakerfinu - málræktarþing Íslenskar málnefndar og MS

16. nóvember

Hátíðardagskrá dags íslenskrar tungu

Dagskrá í Bókasafni Dalvíkurbyggðar

Café Lingua í Gerðubergi

Vísubotn 2017 - vísnasamkeppni grunnskólanema

Fyrirlestraröð Miðaldastofu Háskóla Íslands.
Kristján Árnason flytur fyrirlesturinn Upphaf íslenskrar tungu - Formvandi og stöðuvandi á norrænum miðöldum.

Dagskrá í Norðurlandahúsinu Færeyjum

18. nóvember

Lestur er lykill að ævintýrum - ráðstefna um læsisverkefni á leik- og grunnskólastigi

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn