Hoppa yfir valmynd

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tunguAð tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur. Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.

Dagur íslenskrar tungu 2018

Á þessum degi í ár eru fjölmargir með eitthvað sérstakt á prjónunum. Allt miðar það að sama marki að halda íslenskri tungu í heiðri. Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins verður haldin hátíðardagskrá í Nýheimum á Höfn í Hornafirði. Þar verða veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstök viðurkenning á degi íslenskrar tungu. Mikil stemmning hefur skapast fyrir verðlaununum og iðulega ríkir spenna um hver hreppir hnossið, en um peningaverðlaun er að ræða.

Í ár verður svo opnaður nýr banki sem kemur til með að geyma nýyrði. Í bankanum verður vettvangur fyrir orðasmiði landsins til að koma sínum orðum á framfæri, fá viðbrögð og umræður. Í tengslum við nýyrðabankann verður kynntur afrakstur skólabarna á Höfn sem hafa verið að læra að smíða orð.

Viðskiptaráð Íslands, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Árnastofnun standa saman að hvatningarverðlaunum viðskiptalífsins að morgni dags íslenskrar tungu. Athöfnin fer fram í höfuðstöðvum Arion banka við Borgartún. Þar verður ljósinu varpað á það sem vel er gert meðal fyrirtækja sem hafa lagt sig fram um að vinna íslenskunni gagn og haldið uppi heiðri hennar. Eliza Reid forsetafrú mun mæta á þennan viðburð og afhenda hvatningarverðlaunin til þess sem verður hlutskarpastur af þeim þremur tugum sem tilnefndir voru.

Íslenskunemar við Háskóla Íslands hafa um margra ára skeið haldið veglega upp á dag íslenskrar tungu. Þeir bregða ekki út af þeim vana og standa fyrir myndarlegri hátíðardagskrá í Árnagarði við Suðurgötu á milli kl. 16 og 18. Þar verður stokkið á milli þess að fjalla um bókarkápur, ungskáld á fimmta áratug síðustu aldar og málsambýli íslensku og ensku á stafrænni öld.

Borgarbókasafnið heldur upp á daginn í Grófarsafni með því að fagna öllum hljómbrigðum íslenskunnar sem finna má í Reykjavík. Nemendur og kennarar í íslensku sem öðru mál munu ræða um gildi tungumálsins og miðla reynslu sinni til gesta.

Í Norræna húsinu blása nokkrir tónlistarmenn til veislu orða og tóna undir yfirskriftinni: Ekkert ú í tunga. Þar fara fremstir í flokki Magni og Mattias. Dagskráin hefst kl. 19 og er stútfull af íslenskri tónlist. Þeim Magna og Mattiasi til halds og trausts verða Örvar Erling Árnason á trommur, Sigurlaug Björnsdóttir á flautu og Romain Denuit á píanó.

Í tilefni af degi íslenskrar tungu verður Málræktarþing Íslenskrar málnefndar haldið í Þjóðminjasafninu 15. nóvember kl. 15.30-18. Þar verður veitt viðurkenning Íslenskrar málnefndar fyrir mikilvægt framlag til íslenskunnar.

Menntamálastofnun efnir til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2018, í tilefni af deginum. Þetta er áttunda árið í röð sem keppnin er haldin og þriðja árið í samstarfi við KrakkaRúv. keppninni spreyta nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Um er að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi verða veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl.

Háskólinn á Hólum mun halda upp á daginn með því að opna fræðsluvef um náttúru Skagafjarðar. Vefurinn er fyrir stálpaða krakka, unglinga og áhugasaman almenning. Hann fjallar um jarðfræðileg fyrirbæri, landslag, byggðalög, örnefni, áhugaverða staði, lífríkið, umgengni mannsins, sjálfbærni og veður. Á vefnum er líka fjöldi skapandi verkefna. 

Þeir sem hafa í hyggju að halda sérstaklega upp á dag íslenskrar tungu geta deilt viðburðum sínum á Facebooksíðuna:  Dagur íslenskrar tungu eða sent tölvupóst til [email protected] 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira