Hoppa yfir valmynd

Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tunguAð tillögu menntamálaráðherra ákvað ríkisstjórn Íslands, haustið 1995, að 16. nóvember ár hvert, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, yrði dagur íslenskrar tungu. Í framhaldi af því hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg og efndu til viðburða af þessu tilefni. Má þar nefna fjölmiðla, skóla, stofnanir og félög. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt hátíðarsamkomu og veitti þar í fyrsta sinn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskunnar. Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur með svipuðu sniði og sífellt fleiri aðilar taka virkan þátt í honum með ýmsu móti.

Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur. Hinn 16. nóvember skal draga fána á stöng á húsum opinberra stofnana, sem eru í umsjá valdsmanna eða sérstakra forstöðumanna ríkisins, sbr. 2. gr. forsetaúrskurðar um fánadaga og fánatíma nr. 5/1991 . Einnig fer vel á því að aðrir dragi íslenska fánann að húni á degi íslenskrar tungu.

Dagur íslenskrar tungu 2019

Á degi íslenskrar tungu í ár eru fjölmargir með eitthvað á prjónunum. Allt miðar það að sama marki, að setja íslenskuna í öndvegi.

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar, verður haldin opinn viðburður í Gamla bíói þar sem listamenn nokkurra kynslóða tjá sig á íslensku, hver með sínu nefi. Þar koma fram tónlistarmennirnir Hundur í óskilum, GDRN og Auður. Einnig segir Meistari Jakob Birgisson okkur frá sinni samvinnu við málið. Vilhelm Neto er ein af samfélagsmiðlastjörnum samtímans en hann mun halda áfram að taka sinn snúning á íslenskunni. Leikkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir er kynnir á dagskránni sem Karl Ágúst Úlfsson stjórnar.

Mennta- og menningarmálaráðherra veitir við þessa athöfn verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstaka viðurkenning á degi íslenskrar tungu. Mikil stemmning hefur skapast fyrir verðlaununum og iðulega ríkir spenna um hver hreppir hnossið, en um peningaverðlaun er að ræða.

Í anddyri Gamla bíós verður hægt að kynna sér verkefni sem tengjast íslenskunni og arfleifð Jónasar Hallgrímssonar, s.s. Eldfjallasjá Veðurstofu Íslands og gagnvirku sýninguna Óravíddir – orðaforðinn í nýju ljósi. Píanóið verður nýtt til að efna til hópsöngs og sýnd verða verk barna í 2. bekk, þar sem þau túlka ýmis forvitnileg orð íslenskunnar, með teikningum.

Þegar myrkrið skellur á, kl. 17 verður ljósahjúpur tónlistarhússins Hörpu vettvangur orðalistaverks.

Þeir sem hafa í hyggju að halda sérstaklega upp á dag íslenskrar tungu geta deilt viðburðum sínum á Facebooksíðuna: Dagur íslenskrar tungu eða sent tölvupóst til [email protected] og [email protected]

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira