Notkun fánans
Fánadagar og fánatími
Í forsetaúrskurði frá 1991 nr. 5 23. janúar kemur fram að draga skuli fána á stöng á húsum opinberra stofnana eftirgreinda daga:
- Fæðingardag forseta Íslands ( 26. júní)
- Nýársdag
- Föstudaginn langa
- Páskadag
- Sumardaginn fyrsta
- 1. maí
- Hvítasunnudag
- Sjómannadaginn
- 17. júní
- 1. desember
- Jóladag
- 16. nóvember, fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar.
Alla ofangreinda daga skal draga fána að hún, nema föstudaginn langa, þá í hálfa stöng.
Fána skal ekki draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og að jafnaði skal hann eigi vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.
Um notkun hins almenna þjóðfána
Heimild til að nota fánann
Öllum er heimilt að nota hinn almenna þjóðfána, enda sé farið að lögum og reglum, sem um hann gilda. Æskilegt er að almenningur dragi fána á stöng á fánadögum, þá daga sem ríkisfáninn er hafður uppi á opinberum byggingum. Fánann má nota við öll hátíðleg tækifæri, jafnt þau sem tengjast einkalífi sem önnur eða á sorgarstundum, þá dreginn í hálfa stöng.
Fánastöng og fánastærð
Fánastöng getur verið annaðhvort upp af húsi eða út frá hlið þess. Skal stönginni komið fyrir á smekklegan hátt. Einnig má reisa fánastöng á jörðu.
Á efri enda fánastangar er æskilegt að sé hnúður með skoruhjóli, sem fánalínan leikur liðlega í. Neðarlega á stönginni eða í beinu framhaldi af henni sé snerill til að festa fánasnúruna.
Hentugt er að fánastöng sé þannig komið fyrir að auðvelt sé að losa hana eða fella.
Fánastöng skal vera einlit.
Þegar fánastöng er reist á jörðu skal leitast við að hafa hlutfall milli stærðar fána og lengdar fánastangar við hæfi. Æskilegt er að miða við að breidd fánans sé 1/5 af lengd fánastangar. Ef stöng er upp af húsþaki, sé hún þrisvar sinnum breidd fánans að lengd, en 2 og 1/2 sinnum, ef hún er skáhallt út frá húsvegg, en stöng, sem myndar rétt horn við húsvegg, sé tvöföld breidd.
Á skipum skal stönginni komið fyrir í skut eða á ásenda aftur af því siglutré, sem aftast er.
Ef um smáskip eða bát er að ræða, má draga fánann að hún á siglutré eða aftasta siglutré, ef fleiri eru en eitt.
Fánatími
Fána skal eigi draga á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og skal hann að jafnaði eigi vera lengur uppi en til sólarlags og aldrei lengur en til miðnættis.
Ef flaggað er við útisamkomu, opinbera athöfn, jarðarför eða minningarathöfn, má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir, en þó aldrei lengur en til miðnættis.
Að því er varðar fána á bátum og skipum, skal leita leiðbeininga hjá Landhelgisgæslu Íslands og Siglingamálastofnun ríkisins.
Fáni dreginn að hún
Þegar draga á fána að hún, er rétt að halda honum samanbrotnum undir holhendi. Festingar viti fram (venjulega sigurnagli eða þverspýta að ofan, en lykkja að neðan). Þegar fánalínan hefur verið leyst, er sá endi hennar, sem vindur ber lengra frá stönginni, hnýttur með fánahnút við efri festingu fánans, en hinn endinn við lykkjuna að neðan, einnig með fánahnút. Fáninn er dreginn með jöfnum hraða að hún og skal efra horn hans falla að húninum. Fánalínan skal vera strengd.
Fáni dreginn niður
Þegar fáni er dreginn niður, er það gert með jöfnum, hægum hraða. Fáninn er leystur af neðri festingu, tekinn saman undir holhendi og síðan leystur frá efri festingu. Fánasnúran er jöfnuð, snúruendar lagðir saman og hnýttur á þá lykkjuhnútur og snúran síðan vafin um snerilinn og fest traustlega.
Fáni dreginn í hálfa stöng
Ef draga á fána í hálfa stöng, er það gert með þeim hætti, að fáninn er fyrst dreginn að hún og síðan felldur, svo að 1/3 stangarinnar sé fyrir ofan efri jaðar fánans.
Við jarðarför eða aðra sorgarathöfn skal fáninn dreginn að hún, þegar henni er lokið, og skal hann blakta þar uns fánatíma lýkur.
Fáni á líkkistu
Sé líkkista sveipuð þjóðfánanum, skal krossmarkið vera við höfðalag og eigi skal leggja neitt ofan á fánann. Hvorki má kasta rekunum á fánann né láta hann síga niður í gröf.
Fánahylling
Þegar hylla á fána, er hann borinn á hyllingarstað samanbrotinn og liggjandi á öxl eða handlegg þess, sem kemur með hann, eða þaninn milli handgripa fjögurra til átta manna. Gæta skal þess að fáninn verði ekki fyrir hnjaski.
Fari fánahylling fram undir berum himni, er fáninn dreginn að hún. Fari hyllingin fram innan húss, er æskilegt að fáninn sé borinn inn á stöng, sem komið verði fyrir á hyllingarstað.
Frágangur fána eftir notkun
Þegar ganga skal frá fána eftir notkun, er hann brotinn í fernt eftir endilöngu og vafinn upp þannig að einungis blái liturinn snúi út. Fáninn skal ávallt geymdur á öruggum stað.
Fáni, sem hefur blotnað, skal eigi brotinn saman til geymslu fyrr en hann hefur þornað.
Íslenski fáninn með öðrum þjóðfánum
Að jafnaði eru erlendir þjóðfánar einungis notaðir hér á landi af opinberum fulltrúum erlendra ríkja eða milliríkjastofnunum. Á milliríkjamótum eða öðrum fjölþjóðlegum samkomum má hafa uppi þjóðfána erlendra ríkja ásamt íslenska fánanum.
Í röð þjóðfána skal íslenski fáninn vera lengst til vinstri séð frá áhorfanda (eða þegar komið er að fánastað), en öðrum þjóðfánum raðað til hægri frá honum í stafrófsröð íslenskra heita hlutaðeigandi ríkja.
Sé þjóðfánum hvirfilraðað, má íslenski fáninn vera í miðju milli hinna fánanna.
Leitast skal við að hafa alla fánana af sömu stærð. Ef fánarnir eru á stöngum og ekki unnt að draga þá alla samtímis að hún eða niður, skal íslenski fáninn dreginn fyrstur að hún og síðastur niður.
Ekki skal raða merkjum eða fánum sveitarfélaga, félaga eða fyrirtækja inn á milli þjóðfána. Slíkir fánar skulu hafðir í röðum eða þyrpingum aðskildum frá þjóðfánum.
Heimilt er, ef heiðra skal við sérstakt tækifæri ákveðna erlenda þjóð eða milliríkjastofnun, t.d. Sameinuðu þjóðirnar eða Evrópuráðið, að hafa fána slíks aðila milli íslenska fánans og þess þjóðfána, sem annars ætti að vera næstur honum.
Aldrei skal hafa tvo eða fleiri þjóðfána á sömu stöng. Sé íslenski fáninn og erlendur þjóðfáni hengdir á vegg á stöngum, sem liggja í kross, skal íslenski fáninn vera til vinstri séð frá áhorfanda og stöng hans yfir stöng hins fánans.
Ýmsar reglur um fánann
- Þegar fáni er dreginn á stöng eða dreginn niður, skal gæta þess að hann snerti ekki jörð, vatnsyfirborð eða gólf.
- Sé fáni á stöng við altari, ræðustól eða ræðuborð, leiksvið eða annan sambærilegan stað, skal hann vera vinstra megin séð frá áhorfanda. Séu fánarnir tveir, skulu þeir vera sinn til hvorrar handar.
Hvorki skal sveipa ræðustól þjóðfánanum né hafa hann framan á ræðustól.
Eigi má nota þjóðfánann til að sveipa með honum styttu eða annan hlut, sem á að afhjúpa, og aldrei skal nota hann sem borðdúk eða gólfábreiðu.
Um burðarfána
Þegar um burðarfána er að ræða, þ.e. þjóðfána á burðarstöng, má festa fánann á stöngina.
Venjur og reglur
- Með burðarfána er átt við þjóðfánann á burðarstöng. Í hópgöngum er stærð slíks fána venjulega annaðhvort 150×208 sentímetrar eða 120×167 sm, en lengd stangar þrisvar sinnum breidd fánans. Heimilt er að festa fánann á stöngina.
- Í hvíldarstöðu skal stangarendi nema við utanvert táberg hægri fótar fánaberans.
- Þegar burðarfána hefur verið lyft til göngu, skal neðri endi stangar vera í greip hægri handar fánaberans, nokkuð frá bolnum, en olbogi hægri handleggs hvíla þétt við bolinn.
- Þegar burðarfáni er borinn í fetli, skal fetillinn liggja yfir vinstri öxl fánaberans og slíðrið vera við hægri lærhnútu hans. Sé burðarfáni borinn í höndum, skal þess gætt að olbogi hægri handleggs hvíli þétt við bol fánaberans, en grip hægri handar um stangarendann sé nokkuð frá bolnum. Stönginni skal hallað lítið eitt fram. Gæta skal þess að fánann beri hátt. Sé notaður fetill, ræður slíðrið hæðinni.
- Eigi hópgöngufylking að láta í ljós á ákveðnum stað virðingu sína fyrir lifandi eða látnum, fella fánaberar niður stöngina, annaðhvort þannig að sá handleggur, sem hefur efra takið, verði láréttur eða stöngin verði lárétt út frá axlarhæð fánabera.
- Hafi hópgöngufylking numið staðar og eigi að sýna virðingu, t.d. heiðursgesti eða við leik þjóðsöngs, fella fánaberar neðri stangarenda að jörð og halla stönginni til hægri.
- Heilsa má og kveðja með fánakveðju, en einungis einn úr hópi fánabera framkvæmir hana. Er það gert með þrennu móti:
a. Stöngin er felld fram í lárétta stöðu í axlarhæð og síðan flutt aftur í burðarstöðu.
b. Stönginni er lyft í seilingarhæð og snúið til vinstri í lárétta stöðu og síðan flutt aftur í burðarstöðu.
c. Báðar framangreindar aðferðir viðhafðar, hvor á eftir annarri. Fánakveðja fer fram með hægum, jöfnum hreyfingum.
Meðan fánakveðja fer fram, rétta aðrir fánaberar úr þeim handlegg, sem styður fánastöngina, svo að fáninn hallast fram. Þegar kveðjunni lýkur, draga fánaberar stöngina að sér og halla henni til hægri, sbr. 6. tl. - Á samkomu, þar sem fánakveðja skal viðhöfð, er rétt að hún fari fram við setningu og/eða slit samkomu, en ekki milli dagskráratriða. Burðarfáni er stundum borinn inn á sýningarsvið í tengslum við dagskráratriði eftir að fánakveðja hefur farið fram og hefur fánaberi hann þá í hvíldarstöðu. Ef eigi er staðið við fánann, skal honum komið fyrir á virðulegum stað á sviðinu.
Þegar fánakveðja er viðhöfð, er ætlast til að viðstaddir rísi úr sætum.
Um vernd fána
Íslenski fáninn
Í fánalögum segir að enginn megi óvirða þjóðfánann, hvorki í orði né verki, og að brot gegn þessu ákvæði varði sektum, varðhaldi eða fangelsi.
Önnur ákvæði til verndar fánanum eru þessi:
- Engin aukamerki má hafa í fánanum önnur en þau, sem heimiluð eru í fánalögum, reglugerðum samkvæmt þeim eða forsetaúrskurðum um fánann.
- Enginn má nota fána, sem er ekki í samræmi við ákvæði fánalaga og auglýsingar um fánaliti. Eigi má nota upplitaða fána, óhreina, trosnaða eða skemmda. Sé ekki unnt að lagfæra slíkan fána, skal hann ónýttur með því að brenna hann. Lögreglan skal hafa eftirlit með því að farið sé eftir fyrirmælum þessum og má gera slíka fána upptæka, séu þeir notaðir á almannafæri.
- Óheimilt er að hafa á boðstólum, selja eða leigja aðra fána en þá, sem gerðir eru í réttum litum og réttum hlutföllum reita og krossa.
- Óheimilt er að nota fánann sem einkamerki einstaklinga, félaga eða stofnana eða sem auðkennismerki á aðgöngumiðum, samskotamerkjum eða öðrum þessháttar skilríkjum.
- Óheimilt er einstökum stjórnmálaflokkum og öðrum að nota fánann í áróðursskyni við kosningaundirbúning eða kosningar.
- Óheimilt er að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, umbúðir varnings eða í auglýsingum á vörum.
- Ef skrásett hefur verið af misgáningi vörumerki þar sem fáninn er notaður án heimildar, skal afmá það úr vörumerkjaskrá samkvæmt kröfu forsætisráðuneytisins. Ef maður setur fánann á söluvarning eða umbúðir hans, skal leitað dómsúrskurðar um að honum sé óheimilt að nota fánamerkið eða hafa vörur til sölu, sem auðkenndar eru með því. Auk þess má skylda hann til þess, ef nauðsyn krefur, að ónýta vöru eða umbúðir hennar, svo framarlega sem þær eru þá í vörslu hans eða að hann á annan hátt hefur umráð yfir þeim.
- Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna, ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum, skjaldarmerki íslenska ríkisins eða öðrum hliðstæðum þjóðlegum táknum eða skírskotað til þeirra á annan hátt. (Lög nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, 37. gr., 3 mgr.).
Erlendir fánar
Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum, ef miklar sakir eru. (Almenn hegningarlög nr. 19, 12. febrúar 1940, 95. gr.)
Lög og stjórnvaldsfyrirmæli
- Lög um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið
- Forsetaúrskurður um fánadaga og fánatíma
- Auglýsing um liti íslenska fánans
Um notkun íslenskra sérfána
Ríkisfáninn
Ríkisfánann (tjúgufánann) nota Alþingi, ríkisstjórn, Hæstiréttur, ráðuneyti, aðrar stofnanir ríkisins og fulltrúar utanríkisþjónustunnar erlendis, þ.e. sendiráð, ræðisstofur og aðrar sendistofnanir.
Á byggingum þeirra aðila hér á landi, sem nota ríkisfánann samkvæmt a-lið, skal draga fánann á stöng eftirgreinda daga (sjá forsetaúrskurð):
- Fæðingardag forseta Íslands.
- Nýársdag.
- Föstudaginn langa.
- Páskadag.
- Sumardaginn fyrsta.
- 1. maí.
- Hvítasunnudag.
- Sjómannadaginn.
- 17. júní.
- 1. desember.
- Jóladag.
- 16. nóvember, fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar.
Alla ofangreinda daga skal draga fána að hún, en fella í hálfa stöng á föstudaginn langa.
Hverja daga aðra en segir í b-lið og við hvaða tækifæri draga skal ríkisfánann að hún, fer eftir ákvörðun forsætisráðuneytisins.
Fáni forseta Íslands
Notkun fána forseta Íslands fer eftir ákvörðun forsetaembættisins.
Tollgæslufáni
Tollgæslufáni er eingöngu notaður á byggingum og farartækjum tollgæslunnar.
Texti og myndir á síðunni eru úr ritinu Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki eftir Birgi Thorlacius, útg. af forsætisráðuneyti 1991
Fáni Íslands
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.