Hoppa yfir valmynd

Saga fánans

Fáninn og frelsisbaráttan

Baráttan fyrir íslenskum fána var þáttur í sjálfstæðisbaráttunni. Nokkur ágreiningur ríkti um gerð fánans og lengi munu menn ekki hafa gert mikinn greinarmun á fána og skjaldarmerki.

Hugmynd Sigurðar Guðmundssonar málara var sú, að merki landsins, sjálfsagt bæði fáni og skjaldarmerki, skyldi vera hvítur fálki með þanda vængi á bláum grunni. Átti þessi fánagerð fylgi að fagna um skeið, t.d. meðal latínuskólapilta og stúdenta.

Þingvallafundurinn 1885 ályktaði fyrir atbeina Valtýs Guðmundssonar að Ísland ætti rétt á sérstökum verslunarfána. Sama sumar flutti stjórnskipunarlaganefndin í neðri deild Alþingis frumvarp til laga um þjóðfána fyrir Ísland. Var gert ráð fyrir að fánanum yrði skipt í fjóra ferhyrnda reiti með rauðum krossi, hvítjöðruðum. Skyldu þrír reitanna vera bláir og í hverjum þeirra hvítur fálki. En fjórði reiturinn, stangarreiturinn efri, skyldi vera rauður með hvítum krossi, þ.e. eins og danski fáninn. Jón Sigurðsson á Gautlöndum var formaður nefndarinnar og mælti fyrir frumvarpinu í þinginu. Frumvarpið varð ekki útrætt, en þarna er gerð tillaga um þá þrjá liti, sem síðar urðu í fánanum: blátt, hvítt og rautt.

Hinn 13. mars 1897 ritaði Einar skáld Benediktsson grein í blað sitt Dagskrá, þar sem hann segir, að þjóðlitir Íslands séu blátt og hvítt og að krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands verði hvítur kross í bláum feldi.

Á fundi í Stúdentafélagi Reykjavíkur 27. september 1906 sýndi Matthías Þórðarson, síðar þjóðminjavörður, fánahugmynd sína: hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Áttu litirnir að tákna fjallablámann, ísinn og eldinn.

Í Statens Sjöhistoriska Museet í Stokkhólmi er mynd frá hafnar- og iðnaðarborginni Calicut (Kozhikode) í Keralafylki á Indlandi úr bók Mathias Gustaf Holmers skipstjóra hjá sænska Austur-Indíafélaginu frá því um 1740-1750. Á myndinni sjást m.a. tveir fánar, hinn danski og fáni, sem að lögun og litum virðist eins og íslenski fáninn: hvítur kross í bláum feldi með rauðum krossi innan í hvíta krossinum. Þetta hefur e.t.v. verið sérfáni einhvers verslunarfélags. Ekki er vitað til að Matthías Þórðarson hafi þekkt þennan fána eða haft hann að fyrirmynd, þegar hann árið 1906 kom fram með hugmynd sína um gerð íslenska fánans. - Pétur Sigurðsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, kom auga á þessa mynd í sænska safninu árið 1957.

Fánatillaga Matthíasar sigraði að lokum. En á þessu stigi málsins hölluðust menn miklu fremur að hugmynd Einars Benediktssonar, bláum fána með hvítum krossi. Varð sú fánagerð vinsæl víða, ekki síst eftir að danskt herskip gerði 1913 upptækan slíkan fána, sem var á kappróðrarbáti á Reykjavíkurhöfn. Hleypti þetta atvik miklum hita í fánamálið.

Umræður um íslenskan fána fóru að sjálfsögðu fram á Alþingi, m.a. árið 1911, þegar borið var fram frumvarp um bláhvíta fánann, og 1913.

Eftir þinglok 1913 bar Hannes Hafstein ráðherra fánamálið upp fyrir Kristjáni konungi X. í ríkisráði 22. nóvember og gerði grein fyrir að afgreiða mætti fánamálið með konungsúrskurði, án löggjafar. Hér var einungis um að ræða sérfána fyrir Ísland, þ.e. fána, sem nota mætti á Íslandi og í íslenskri landhelgi. Féllst konungur á tillögu ráðherra og er konungsúrskurðurinn, sem út var gefinn, þannig:

„Fyrir Ísland skal löggildur vera sérstakur fáni. Gerð hans skal ákveðin með nýjum konungsúrskurði, þegar ráðherra Íslands hefur haft tök á að kynna sér óskir manna á Íslandi um það atriði. Þennan fána má draga á stöng hvarvetna á Íslandi og íslensk skip mega sigla undir honum í landhelgi Íslands. Þó er það vilji Vor að á húsi eða lóð Stjórnarráðs Íslands sé jafnframt dreginn upp hinn klofni Dannebrogsfáni á ekki óveglegri stað né rýrari að stærð heldur en íslenski fáninn. Þessi Vor allrahæsti úrskurður skerðir að engu rétt manna til að draga upp Dannebrogsfánann eins og að undanförnu. Eftir þessu eiga allir hlutaðeigendur sér að hegða."

Um leið og konungur gaf út þennan úrskurð, lét hann svo um mælt, að hann gengi að því vísu að fáninn yrði ekki eftirtakanlega líkur fána neins annars lands. Lutu þessi ummæli konungs að því að fram hafði komið í umræðum um fánamálið að bláhvíti fáninn líktist mjög grískum fána.

Fánanefndin 1913

Eftir heimkomu sína skipaði ráðherra hinn 30. desember 1913 nefnd „til þess að taka gerð fánans til rækilegrar íhugunar, kynna sér eftir föngum hvað fullnægja myndi óskum þjóðarinnar í þessu efni og koma fram með tillögur til stjórnarinnar um lögun og lit fánans svo snemma að stjórnin geti gert Alþingi, þá er það kemur saman næst, kost á að láta uppi skoðun sína um þær."

Í nefndina voru skipaðir Guðmundur Björnson landlæknir, formaður, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson listmálari.

Eins og áður er vikið að var talið af sumum, að bláhvíti fáninn líktist svo mjög grískum fána, að konungur myndi eigi vilja á slíka fánagerð fallast fyrir Ísland. Leitaði ráðherra að beiðni fánanefndar álits konungs á því, hvort hann myndi vilja löggilda bláhvíta fánann. Svar konungs var neitandi, þar eð fáninn líktist um of grískum fána. Vegna þessarar andstöðu konungs hætti nefndin við að gera tillögu um bláhvíta fánann. Einnig var álitið eftir athugun, sem skólastjóri Stýrimannaskólans gerði, að slíkur fáni kynni í miður góðu skyggni að reynast of líkur sænska fánanum, sem er gulur kross í bláum feldi, eins og kunnugt er.

Fánanefndin skilaði tveimur tillögum um liti fánans:

  • (1) Fáninn skyldi vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum, eða
  • (2) hvítur með heiðbláum krossi og hvítri og blárri rönd utan með beggja vegna.

Segir nefndin í greinargerð sinni að vissa sé fyrir því eins og ráðherra sé kunnugt, að konungur muni staðfesta hvora sem sé af þessum tveimur fánagerðum.

Á fyrsta degi Alþingis 1914, 1. júlí, gerði ráðherra, Hannes Hafstein, grein fyrir hvað gerst hefði í fánamálinu og lét útbýta skýrslu fánanefndarinnar. Lýsti ráðherra meinbugum, er á því væru að fá bláhvíta fánann staðfestan, en á eindæmi hefði hann ekki talið fært að gera tillögu til konungs um aðra gerð. Hefði hann því skipað áðurgreinda nefnd í málið. Ætlaðist ráðherra til að málið yrði rætt í sameinuðu þingi og a.m.k. fyrst fyrir luktum dyrum, en Skúli Thoroddsen, Bjarni Jónsson frá Vogi, Benedikt Sveinsson, Jón Jónsson, Björn Kristjánsson og Sigurður Eggerz báru hinn 3. júlí fram í neðri deild Alþingis tillögu til þingsályktunar um að deildin kysi sjö manna nefnd til þess að íhuga fánamálið og koma fram með tillögur er að því lytu. Taldi framsögumaður, Skúli Thoroddsen, að fánamálið væri íslenskt löggjafarmál og hefði síðasta þing ætlast til þess að ráðherra legði fram lagafrumvarp um fánann, en eigi að viðhöfð yrði sú aðferð, sem raun væri á orðin. Hannes Hafstein lagðist fast gegn tillögunni. Hún var eigi að síður samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og nefndin kjörin. Málið var þó rætt á lokuðum fundi í sameinuðu þingi eins og ráðherra ætlaðist til. En í efri deild var einnig kosin nefnd í málið, fimm manna, og sameinuðust nefndirnar og komu sameiginlega fram með nefndarálit og tillögu í sameinuðu þingi. Nefndarmenn vildu nota konungsúrskurðinn frá 22. nóvember 1913 til þess að fá sérfána. Með því væri nokkuð unnið en engu tapað. Skúla Thoroddsen og Bjarna frá Vogi fannst þó of skammt gengið. Kynni sérfáni að draga úr áhuga manna á fullgildum fána. Einnig virtist þeim og fleirum að málið hefði átt að afgreiðast sem löggjafarmál eins og Alþingi hefði ætlast til, en ekki með konungsúrskurði. Um liti fánans voru menn ekki sammála. Sumir vildu bláhvíta fánann að viðbættri stórri hvítri stjörnu í efra stangarreit og loks vildu sumir fána þann sem fánanefndin gerði að aðaltillögu sinni, hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi í miðju.

Í sameiginlegri tillögu nefnda efri og neðri deilda til þingsályktunar um gerð fánans var í fyrsta lagi mælt með bláhvíta fánanum óbreyttum, í öðru lagi með þeim fána að viðbættri stórri hvítri fimmblaða stjörnu í efra stangarreit og í þriðja lagi með þrílita fánanum. Sjö nefndarmenn rituðu þó undir nefndarálitið með fyrirvara og einn (Guðmundur Björnson) lýsti sig samþykkan öllu, sem ekki bryti í bága við álit hinnar stjórnskipuðu fánanefndar. Síðan báru fjórir þingmenn, Guðmundur Hannesson, Sigurður Gunnarsson, Sigurður Stefánsson og Pétur Jónsson, fram breytingartillögu, er fól í sér að hverfa frá að mæla með stjörnufánanum. Var sú breytingartillaga samþykkt með 20 atkvæðum gegn 18, og þar með ákveðið að mæla einungis með bláhvíta fánanum og þrílita fánanum.

Þess má geta að nokkrar umræður urðu um kostnaðinn við hina stjórnskipuðu fánanefnd, sem mun hafa verið fyrsta milliþinganefndin, sem skipuð var hér á landi án tilefnis frá Alþingi. Gerði Einar Arnórsson fyrirspurn á þingi 1915 um kostnaðinn, ekki til að hneykslast á honum, heldur til að eyða kviksögum, sem um hann gengju. Sagði fyrirspyrjandi að þess hefði jafnvel verið getið í blöðum að greiddar hefðu verið til nefndarinnar sex þúsund krónur og að ógreiddar væru tvö þúsund krónur. Upplýsti ráðherra að allur kostnaður við nefndina hefði orðið 6.164,26 krónur.

Á myndinni efst á síðunni má sjá fánanefndina 1913, talið frá vinstri: Þórarinn B. Þorláksson, Ólafur Björnsson, Jón J. Aðils, Matthías Þórðarson og Guðmundur Björnsson (fremst).

Neitun konungs

Ráðherraskipti urðu um þingtímann. Hannes Hafstein lét af embætti, en Sigurður Eggerz tók við. Á ríkisráðsfundi í Kaupmannahöfn 30. nóvember 1914 skýrði ráðherra konungi frá gangi fánamálsins og lagði til að konungur staðfesti þrílita fánann. En konungur neitaði að svo komnu að gefa út úrskurð um gerð fánans, þrátt fyrir gefið fyrirheit. Stafaði þetta af því að deila var milli þings og ráðherra annarsvegar og konungs hinsvegar um uppburð íslenskra sérmála í ríkisráði, og neitaði konungur að staðfesta stjórnarskrárfrumvarp, er Alþingi hafði samþykkt og ráðherra lagt fyrir hann með ákveðnum fyrirvara um uppburð íslenskra sérmála fyrir konungi. Hafði ráðherra fyrst lagt stjórnarskrárfrumvarpið fyrir konung til staðfestingar, og er konungur synjaði, lýsti ráðherra yfir að hann myndi biðjast lausnar. Konungur neitaði síðan einnig að gefa út úrskurð um gerð íslenska sérfánans, þótt hann hefði áður sagt eins og í skýrslu fánanefndarinnar greinir, að hann myndi staðfesta hvora þá fánagerð, sem nefndin hefði bent á. Ráðherra tók þá fram, að neitun konungs um að gefa út fánaúrskurðinn styrkti sig enn betur í þeirri fyrirætlan að segja af sér ráðherraembætti og gerði hann það á þessum ríkisráðsfundi.

Sérfáni

Nokkru síðar tók Einar Arnórsson við ráðherraembætti og 19. júní 1915 var gefinn út konungsúrskurður, sem með tilvísun til konungsúrskurðar frá 22. nóvember 1913 ákveður gerð fánans þannig: „Heiðblár (ultramarineblár) með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum. Armar krossanna skulu ná alveg út í jaðra fánans á alla fjóra vegu. Breidd krossmarksins skal vera 2/9 af breidd alls fánans, en rauði krossinn helmingi mjórri, 1/9 af breidd fánans. Reitirnir við stöngina skulu vera rétthyrndir ferhyrningar og allar hliðar þeirra jafnstórar; ytri reitirnir skulu vera jafnbreiðir stangarreitunum, en helmingi lengri. Hlutfallið milli breiddar fánans og lengdar hans verður 18:25."

Þetta er hin sama fánagerð og konungur neitaði að staðfesta 30. nóvember 1914.

Þessi fáni var einungis sérfáni, en ekki hið þráða fullveldistákn.

Siglingafáni

Það leið því ekki á löngu áður en fánamálið bar aftur á góma. Bændaflokkurinn hafði á stefnuskrá sinni 1915 að fá sem fyrst viðurkenndan íslenskan siglingafána.

Stjórnarskipti urðu 1917. Einar Arnórsson fékk lausn, Jón Magnússon myndaði ráðuneyti með Birni Kristjánssyni og Sigurði Jónssyni, en síðar á árinu kom Sigurður Eggerz í stað Björns. Að ósk Sjálfstæðisfélagsins í Reykjavík þreifaði forsætisráðherra fyrir sér vorið 1917 hjá dönsku stjórninni um möguleika á því að fá siglingafána, en C.Th. Zahle, sem þá var forsætisráðherra, kvaðst ekki hafa búist við að því máli yrði hreyft svo fljótt eftir afgreiðslu sérfánamálsins 1915 og minnti á ummæli sín í ríkisráði 22. nóvember 1913, að breytingar á hinum almenna danska siglingafána yrði að bera undir Ríkisþingið. Gæti hann ekki sætt sig við að Íslendingar tækju slíkt mál upp eitt sér. En ef fara ætti að breyta sambandinu milli Íslands og Danmerkur væri réttara að taka sambandsmálið upp í heild. Óráðlegt var og talið af hálfu sumra í Danmörku að taka málið fyrir, einkum siglingafánamálið, meðan á heimsstyrjöldinni stæði.

Þegar Alþingi kom saman í byrjun júlí 1917 skýrði forsætisráðherra alþingismönnum frá þessum viðræðum. Tíu þingmenn báru fram á öndverðu þingi tillögu um kosningu sjö manna nefndar til þess að íhuga og koma fram með tillögur um, hverjar ráðstafanir skuli gera til að ná sem fyrst öllum vorum málum í vorar hendur og fá viðurkenning fullveldis vors. Var tillagan samþykkt í einu hljóði og nefndin kjörin. Nefndin bar síðan fram svofellda tillögu: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að sjá um, að Íslandi verði þegar ákveðinn fullkominn siglingafáni með konungsúrskurði og ályktar að veita heimild til þess að svo sé farið með málið."

Bjarni frá Vogi mælti fyrir tillögunni og taldi höfuðnauðsyn að Íslendingar eignuðust eigin siglingafána, þar sem enginn vissi, hvenær þeim kynni að verða meinað að sigla undir danska fánanum og kynnu flutningar til landsins að stöðvast. Forsætisráðherra lýsti yfir því að stjórnin myndi leggja fram alla sína krafta til að fá málinu framgengt. Var tillagan síðan samþykkt einróma í neðri deild. Í efri deild kom fram frumvarp um fána, flutt af Magnúsi Torfasyni og Karli Einarssyni, en niðurstaðan varð sú, að fánatillagan frá neðri deild var einnig borin fram í efri deild og afgreidd þar einróma og í fullu samráði við flutningsmenn fánafrumvarpsins, en í fyrstu var lítillega deilt um, hvort réttara væri að samþykkja frumvarp um fána eða þingsályktun um útvegun konungsúrskurðar um fullkominn siglingafána. Að lokum sameinuðust allir um þingsályktunarleiðina, því að aðalatriðið væri vilji þingsins, en ekki formið, sem hann birtist í.

Forsætisráðherra Jón Magnússon bar tillögu um siglingafána upp fyrir konungi í ríkisráði 22. nóvember 1917, en konungur synjaði, enda lagðist Zahle, forsætisráðherra Dana, eindregið gegn málinu. En bæði hann og konungur tóku fram að þeir væru fúsir til að semja um deiluatriði í sambandi Íslands og Danmerkur. Jón Magnússon gerði ekki synjun konungs að fráfararatriði eins og á stóð, en tók skýrt fram í ríkisráðinu, að það að hann bæðist ekki lausnar mætti ekki skilja svo, að eigi væri lögð hin mesta áhersla á málið og væri vitað með vissu, að Alþingi myndi ekki láta málið niður falla.

Sambandsmálið og fáninn

Síðan varð rás viðburðanna sú að á næsta ári var skipuð nefnd af hálfu Dana og Íslendinga til þess að fjalla um sambandsmál landanna. Hóf nefndin störf í Reykjavík sumarið 1918. Sambandslög Íslands og Danmerkur voru samþykkt af Alþingi og Ríkisþingi og síðan staðfest af konungi 30. nóvember 1918. Þann dag voru einnig gefin út bráðabirgðalög um að ekkert íslenskt skip mætti frá 1. desember hafa annan þjóðfána uppi en hinn íslenska. Þá var og gefinn út nýr konungsúrskurður um fánann. Var þar í engu breytt lögun og lit fánans frá því sem ákveðið var 1915, en bætt við ákvæði um að stjórnin og opinberar stofnanir skuli nota fána klofinn að framan og skuli nánari ákvæði um notkun klofna fánans sett með sérstökum konungsúrskurði.

Til þess að fullnægja því ákvæði fánaúrskurðarins frá 1915 „að á húsi eða lóð Stjórnarráðs Íslands sé jafnframt dreginn upp hinn klofni Dannebrogsfáni á ekki óveglegri stað né rýrari að stærð heldur en íslenski fáninn" voru sumarið 1915 reistar tvær fánastengur á baklóð Stjórnarráðshússins, önnur fyrir íslenska fánann, hin fyrir Dannebrogsfánann. Fyrir 1. desember 1918 var svo fánastöng reist yfir dyrum Stjórnarráðshússins svo sem enn er, en hinar stengurnar voru auðar 1. desember.

Fullveldisfáni

Á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 var klofinn fáni dreginn að hún á fánastöng Stjórnarráðshússins er sambandslögin gengu í gildi. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra, er gegndi störfum forsætisráðherra í fjarveru Jóns Magnússonar í Kaupmannahöfn, flutti ræðu af þrepum Stjórnarráðshússins og sagði m.a.: „Og í gær hefur konungurinn gefið út úrskurð um þjóðfána Íslands, sem blaktir frá því í dag yfir hinu íslenska ríki... Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna, sem þjóð vor á fegurstar, hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er, þess göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar... Vér biðjum alföður að styrkja oss til að lyfta fánanum til frægðar og frama..."

Um leið og fáni hins fullvalda íslenska ríkis var dreginn að hún, kvað við tuttugu og eitt fallbyssuskot frá varðskipinu „Islands Falk". Skipherra varðskipsins, Victor Lorenz Lorck, flutti ávarp, og einnig forseti sameinaðs Alþingis Jóhannes Jóhannesson. Loks var leikinn konungssöngurinn og danski og íslenski þjóðsöngurinn.

Klofinn fáni (tjúgufáni) var notaður 1. desember 1918 á Stjórnarráðshúsinu, þótt ekki hefði þá verið gengið frá ákvæðum um gerð hans, og var það ekki gert fyrr en 12. febrúar 1919. Endanleg gerð tjúgufánans var að því er hlutföll varðaði dálítið frábrugðin fánanum, sem notaður var 1. desember. Sá fáni er nú varðveittur í Þjóðminjasafni Íslands (nr. 7961).

Þingsályktanir og lagafrumvörp

Árið 1940 bar Jónas Jónsson fram í efri deild Alþingis þingsályktunartillögu, sem samþykkt var, um notkun þjóðfánans. Var þar skorað á ríkisstjórnina að safna heimildum um löggjöf og venjur í öðrum löndum um rétta notkun þjóðfána og leggja síðan fyrir næsta þing í frumvarpsformi, hversu fara skuli með þjóðfána Íslendinga. Næsta ár lagði ríkisstjórnin svo fyrir þingið frumvarp til laga um þjóðfána Íslendinga. Frumvarpið hafði Sveinn Björnsson samið. Þar var ekki einungis fjallað um notkun fánans eins og þingsályktunin hljóðaði um, heldur var gerð fánans einnig tekin í frumvarpið. Allsherjarnefnd neðri deildar gerði breytingar á frumvarpinu. Í frumvarpi Sveins Björnssonar stóð að fáninn væri heiðblár (ultramarineblár) með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum, - og er þetta orðalag konungsúrskurðarins, sem gilti um fánann. Eftir meðferð allsherjarnefndar hljóðaði lýsing fánans svo: Hinn almenni þjóðfáni Íslendinga er heiðblár (ultramarineblár) með mjallhvítum krossi og eldrauðum (hárauðum) krossi innan í hvíta krossinum. Er þetta lýsing fánalitanna í gildandi fánalögum, nema hvað orðið „ultramarineblár" var fellt út.

Nokkrar umræður urðu á Alþingi um gerð fánans, þ.á m. um bláhvíta fánann. Fánafrumvarpið dagaði uppi í neðri deild.

Árið 1942 á 59. löggjafarþingi var frumvarpið borið fram af þingmanna hálfu eins og allsherjarnefnd neðri deildar hafði viljað hafa það á þinginu 1941. Málið fór enn til allsherjarnefndar, sem skilaði áliti og lagði til einróma að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Samt dagaði frumvarpið enn upp í deildinni.

Í þingsályktun, sem samþykkt var í sameinuðu þingi 10. mars 1944, fluttri af Gunnari Thoroddsen og Sigurði Bjarnasyni, var skorað á landsmenn að auka notkun íslenska fánans og ríkisstjórninni falið m.a. að gefa út tilkynningu um fánadaga og vinna að undirbúningi löggjafar um íslenska fánann og leggja frumvarp til fánalaga fyrir Alþingi, er það komi saman næst. Benti framsögumaður m.a. á að engin refsiákvæði væru í íslenskri löggjöf við því að óvirða íslenska fánann. Hins vegar væru í hegningarlögunum þungar refsingar lagðar við því að smána fána erlendra ríkja.

Hinn 12. júní 1944 lagði ríkisstjórnin fyrir neðri deild Alþingis, er þingið kom saman eftir þinghlé, frumvarp til laga um þjóðfána. Var það samhljóða frumvarpi því, sem lá fyrir Alþingi 1942 og inn í höfðu verið felldar breytingar allsherjarnefndar. Nokkrar breytingar voru gerðar á frumvarpinu í meðförum þingsins, en engar vörðuðu sjálfa fánagerðina. Við meðferð málsins í neðri deild kom fram rödd um að taka bæri upp bláhvíta fánann, en þingmaðurinn, Jörundur Brynjólfsson, kvaðst þó ekki mundu flytja um þetta breytingartillögu við frumvarpið, en sagðist geta búist við að það mál yrði vakið upp síðar. Var frumvarpið afgreitt sem lög frá alþingi 15. júní 1944 og hafði málið þá að því sinni einungis verið fjóra daga til meðferðar í þinginu.

Lýðveldisstofnunin fór í hönd. Lögin um þjóðfána Íslendinga voru fyrstu lögin, sem hinn nýkjörni forseti Íslands, Sveinn Björnsson, staðfesti. Fór staðfesting laganna fram á ríkisráðsfundi, sem haldinn var 17. júní 1944 í svonefndum ráðherrabústað eða konungshúsi á Þingvöllum, sem nú er brunnið. Lögin eru meðundirrituð af forsætisráðherra dr. juris Birni Þórðarsyni.

Í fánalögunum eru fyrirmæli um að út skuli gefinn forsetaúrskurður um fánadaga o.fl. Var úrskurðurinn gefinn út 17. ágúst 1944. Eru þar fyrirmæli um að opinberar stofnanir skuli draga upp fána eftirgreinda daga: Fæðingardag forseta Íslands, nýársdag, föstudaginn langa (í hálfa stöng), páskadag, sumardaginn fyrsta, 1. maí, hvítasunnudag, 17. júní, 1. desember og jóladag. Í lögunum er heimild til að setja í reglugerð sérstök ákvæði til skýringar lögunum, ef þörf þykir. Með lögum nr. 20/1987 var sjómannadagurinn gerður að fánadegi. Gildandi úrskurður um fánadaga og fánatíma er frá 23. janúar 1991, svo og auglýsing um liti fánans.

Ýmislegt

Frá því er baráttan fyrir íslenskum fána hófst var hún samofin sókninni fyrir endurheimt frelsis og fullveldis. Sá frelsisgustur, sem fylgdi bláhvíta fánanum, átti án efa meiri þátt í því að konungur synjaði Íslendingum um þann fána en hitt, hve líkur hann var fána Grikkja, a.m.k. höfðu Grikkir sjálfir ekkert við þá fánagerð að athuga.

Í tveimur heimsstyrjöldum reyndu Íslendingar, að þeir urðu fyrst og fremst að treysta á sjálfa sig. Atburðarásin við lok fyrri heimsstyrjaldar var okkur hliðholl. Þegar dró að styrjaldarlokum 1918 og ljóst var að Bandamenn myndu sigra, var líklegt að þeir myndu veita undirokuðum þjóðum frelsi og þjóðarbrotum sjálfsákvörðunarrétt um það, til hverra nágrannaríkjanna þau vildu teljast. Dönum var mikið í mun að fá aftur nyrstu héruðin á Suður-Jótlandi, þar sem Danir voru í miklum meirihluta, en byggðir þessar höfðu Þjóðverjar skilið frá Danmörku og lagt undir þýska ríkið 1864. Var því mest samræmi í því að Danir sýndu frjálsræði gagnvart þeim þjóðum, sem lutu forræði þeirra, ef þeir ætluðust til að fá sinn hlut réttan að því er Suður-Jótland varðaði. Allir stjórnmálaflokkar í Danmörku nema Íhaldsflokkurinn voru því um þetta leyti hlynntir frjálslyndari stefnu gagnvart Íslendingum en áður, til þess að hafa betri vígstöðu í sínum málum hjá Bandamönnum.

Síðari heimsstyrjöldin hjó svo á öll þau bönd, sem tengdu okkur Dönum stjórnarfarslega.

Bláhvíti fáninn er nú skólamerki Menntaskólans að Laugarvatni. Á stofndegi sínum 13. apríl 1953 fékk skólinn að gjöf bláhvíta silkifánann, sem kista Einars Benediktssonar var sveipuð við minningarathöfn um hann í Dómkirkjunni í Reykjavík 26. janúar 1940, og er fáninn varðveittur í skólanum. Þá hefur Ungmennafélag Íslands helgað sér bláhvíta fánann og notar sem sitt merki. Ungmennafélögin áttu mikinn og merkan þátt í baráttunni fyrir íslenskum fána.

Fáni Jörundar

Til fróðleiks er rétt að geta þess, að þegar Jörgen Jörgensen eða Jörundur „hundadagakonungur" ríkti hér nokkra sumardaga 1809, þá birti hann auglýsingu á strætum Reykjavíkur 26. júní, þar sem hann skipar svo fyrir, að Ísland skuli hafa sérstakan fána. Í annarri auglýsingu Jörundar, 11. júlí, segir að íslenski fáninn skuli vera blár með þremur þorskfiskum í efsta horni. Merki Íslands var þá og hafði lengi verið þorskur með gullinni kórónu yfir á rauðum skildi. Sennilega er erfitt að fá örugga vitneskju um það nú, hversvegna Jörundur valdi fánanum bláan lit. Segir hann síðar sér til varnar að fáninn, sem hann lét draga á stöng, hafi verið hið forna flagg landsins svo sem sjá megi á innsigli þess. Á hann þar sjálfsagt einungis við þorskmerkið í fánanum en ekki litinn. Hugsanlegt er að honum hafi verið kunnugt um að Skúli Magnússon fógeti fékk Eggert Ólafsson til þess að teikna fána fyrir Innréttingarnar og duggur þeirra tvær, „Friðriksósk" og „Friðriksgæfu" á árunum 1752-1754. Var þetta flagg með flöttum þorski ásamt stöfunum PII (Privilegerede Islandske Interessenter). Þetta var þó vitanlega ekkert landsflagg. En þegar Jörundur valdi fána sínum lit, hefur þess e.t.v. þegar gætt að blátt hafi verið álitið einskonar þjóðarlitur á Íslandi. Sigurður Guðmundsson málari segir árið 1857 í grein um kvenbúninga á Íslandi, að þjóðlitur Íslendinga í fornöld hafi verið sá sami og um hans daga: dökkblár eða hrafnblár. Af fornum innsiglum verður ekkert ráðið um liti, en hinn gullkrýndi þorskur í innsigli landsins frá 1593 mun ekki sýndur á rauðum skildi fyrr en eftir að hann hafði verið tekinn í danska ríkisskjaldarmerkið, en aðallitir þess eru rautt, gult og blátt.

Þótt blái liturinn sé að sögn Sigurðar málara ríkjandi í klæðnaði hér á landi gegnum aldirnar og þau skjaldarmerki íslenskra höfðingja, sem kunn eru frá 15. öld, séu á bláum grunni, þá tíðkuðust fyrr meir einnig aðrir litir, svo sem rauð klæði og rauðir skildir, þótt þar væri ekki um eiginleg skjaldarmerki að ræða. Má vel vera að blámi fjallanna, fegurð hins sumarbláa íslenska himins og hafs eða áhrif frá bláa litnum í hinum forna skoska fána (St. Andrews) eða hinum sameiginlega fána Englands, Skotlands, Írlands og Wales (Union jack), sem var aðeins nokkurra ára (síðan 1801) þegar Jörundur var hér við stjórn, hafi ráðið litnum í fána Jörundar, er hafði dvalist löngum með Englendingum. Einnig gæti það einfaldlega hafa ráðið, að nærtækasta efnið í þennan skyndifána hafi verið blátt. Hvað sem um það er, þá virðist það hafa verið óumdeilt á öllum stigum fánamálsins, að aðalliturinn í fána Íslands skyldi vera blár.

Hinn 12. júlí 1809 var fáni, sem að framan er lýst - blár með þremur þorskfiskum í horni - dreginn að hún á fánastöng Petræusarvöruhúss, en það stóð við Hafnarstræti sunnanvert (nr. 6). Freigátan „Margaret and Ann", sem lá fyrir landi undir bresku merki og oddveifu, skaut ellefu skotum fánanum til heiðurs.

Fáni þessi leið undir lok með Jörundi, en þetta er fyrsta hugmyndin um sérstakan þjóðfána handa Íslandi.

 

Eftir Birgi Thorlacius. Áður birt í ritinu Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki, útg. af forsætisráðuneyti 1991.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum