Hoppa yfir valmynd

Hugmyndabanki fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla

Leikskólar

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í leikskólanum með samkomu þar sem börnin koma fram með verkefni tengd deginum. 

1. Jónas Hallgrímsson

Vísur sem Jónas orti á barnsaldri, t.d.:

Buxur, vesti, brók og skó,
bætta sokka nýta
húfutetur, hálsklút þó
háleistana hvíta.

 • Börnin geta velt fyrir sér hvernig þessi vísa passar við klæðnað okkar í dag.
 • Hvernig var klæðnaður barna í gamla daga? Börnin búi til vísur um nútímafatnað.

Önnur ljóð Jónasar, sem henta leikskólabörnum vel, eru t.d.:

- Álfareiðin
- Heylóarvísa (Heiðlóarkvæði)
- Hættu að gráta, hringaná
- Sefur selur á steini
- Um hana systur mína (Sáuð þið hana systur mína)
- Óhræsið
- Veðurvísur
 • Börnin búi til leikrit út frá ljóðum Jónasar.

2. Eitthvert annað skáld eða rithöfundur

Hér eru nokkur þekkt nöfn nefnd ásamt fáeinum verkum sem hægt er nota á degi íslenskrar tungu, t.d. í söng og tónlist, leikrænni tjáningu eða myndlist.

 • Jóhannes úr Kötlum: Vísur Ingu Dóru – Bakkabræður – Saga af Suðurnesjum – Ljóðið um Labbakút
 • Davíð Stefánsson: Við lítinn vog – Konan sem kyndir ofninn minn
 • Halldór Laxness: Bráðum kemur betri tíð – Hvert örstutt spor – Íslenskt vögguljóð á hörpu – Maístjarnan
 • Stefán Jónsson: Aravísur – Einn skakkur og skrítinn maður – Guttavísur – Kisa mín – Stíllinn sem endaði aldrei – Systa mín –
 • Theodóra Thoroddsen: Tunglið, tunglið taktu mig – Fuglinn í fjörunni - Glugginn minn
 • Þorsteinn Erlingsson: Í Hlíðarendakoti – Snati og Óli – Þér frjálst er að sjá
 • Þórarinn Eldjárn: Heimskringla – Óðfluga

3. Heimsóknir

 • Fá í heimsókn höfund til að lesa upp úr verkum sínum. Leikskólar í þéttbýli gætu sameinast um að fá slíka heimsókn.
 • Nemendur í grunnskóla (t.d. í 7. bekk) koma í heimsókn í leikskólana og hver nemandi les fyrir 2–3 börn í leikskólanum.

4. Bókadagur

 • Í tilefni af degi íslenskrar tungu eru bækur skoðaðar og lesnar.
 • Fara í heimsókn á bókasafn. Hugsanlega til að fá þar bækur tengdar afmörkuðu sviði sem ætlunin er að skoða betur.

5. Gátur

Sem dæmi um gátur má nefna:

Hver er sá veggur víður og hár,
vænum settur röndum
gulur, rauður, grænn og blár
gerður af meistara höndum.
(Svar: Regnboginn)

Hver er það, sem læðist lágt,
líka stundum slæðist hátt?
Yrði mörgum æði bágt,
opin ef ei stæði gátt.
(Svar: Reykur)

Margt er smátt í vettling manns
gettu sanns, gettu sanns.
Þótt þú getir í allan dag,
þú getur aldrei hans.
(Svar: Sandur. Sanns og sands er oft eins í framburði)

Fuglinn flaug fjaðralaus,
settist á vegginn beinlaus,
þá kom maður handalaus
og skaut á fuglinn bogalaus.
(Svar: Snjókornið og vindurinn)

Liggur í göngum
í löngum spöngum,
gullinu fegra,
en grípa má það enginn.
(Svar: Sólargeisli)

6. Málshættir

Fjalla um merkingu einfaldra málshátta, s.s:

Aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Barnið vex en brókin ekki.
Margur er knár þótt hann sé smár.
Þröngt mega sáttir sitja.

7. Rím

Finna orð sem ríma við heiti í umhverfi okkar, nöfnin okkar eða heiti líkamshluta. Áfram má svo fjalla um orðin sem upp koma og búa til vísur. Vísurnar má flytja á skemmtunum og/eða setja þær í bókarform sem börnin myndskreyta.

8. Þjóðsögur og þjóðtrú

Álfar, dvergar, huldufólk, draugar og útilegumenn.

 • Hvaða hugmyndir gerum við okkur um útlit þeirra og hegðun eða framkomu?
 • Setja upp leiksýningu eftir þjóðsögu.
 • Skipta börnunum upp í litla hópa og semja eigin sögur í anda þjóðsagna.
 • Sögurnar settar í bók og síðan lesnar fyrir hin börnin og jafnvel settar upp í leikþætti.
 • Kvæði, vísur og þulur sem innihalda þjóðtrú, t.d.
 • Á Sprengisandi (álfadrottning, óhreinn andi, útilegumenn)
 • Grýla kallar á börnin sín (Grýla og börnin hennar)
 • Íslenskt vögguljóð á Hörpu (myrkfælni, vofa)
 • Karl sat undir kletti (huldan)
 • Kónguló (kónguló vísar á berjamó)
 • Völuvísa (dvergar, huldumey)
 • Þurs (tröll)

Börnin velti fyrir sér hvort tröll, dvergar og aðrar slíkar verur séu til. Ræða við þau um það úr hvaða umhverfi slíkar sögur voru sprottnar. Ræða við börnin um tilfinningar eins og myrkfælni og hræðslu. Hjálpa þeim að færa slíkar tilfinningar í orð.

9. Náttúran

Huga að veðri á degi íslenskrar tungu og finna öll orð sem við þekkjum yfir það veðurfar og birtu sem þá er.
Vísur og kvæði sem tengjast ákveðnum þáttum í náttúrunni:

 • Dýr
 • Fuglar
 • Haf
 • Líkaminn
 • Veður
 • Heiti í umhverfi s.s. holt, mói, hóll, hæð, fjall, laut, dalur o.s.frv.

10. Þulur

Börnin slá púls með hljóðfærum eða líkamanum um leið og farið er með þulurnar. Börnin skipta á milli sín þeim persónum sem fram koma í þulunni og færa í mynd. Hvert barn kemur síðan fram með sína persónu þegar hún er nefnd í þulunni. Nota þulur til heimspekilegra viðræðna við börnin.

11. Leikföng

 • Hvernig léku börn sér áður fyrr? Hvað er líklegt að finna í gullastokk Jónasar Hallgrímssonar?
 • Hægt er að fá að láni leikjakassa hjá Þjóðminjasafni Íslands.Börnum sagt frá búleik og sýnd horn, leggir, völur, kjálkar og kjúkur og sagt frá hvaða húsdýr hvert bein táknaði.
 • Einnig mætti kenna börnunum þuluna Vala, Vala spákona.
 • Bera saman leikföng þeirra við heimatilbúin leikföng áður fyrr.
 • Heiti á brúðum og leikföngum, eru það íslensk nöfn?
 • Heimsókn í Árbæjarsafn eða önnur byggðasöfn sem hjálpa okkur að fá innsýn í gamla tíma.

Grunnskólar

1. Jónas Hallgrímsson

Ljóð

 • Hver er sagan á bak við ljóðið? Börnin setja sig í spor skáldsins og snúa ljóðinu í sögu og lýsa atburðinum sem er kveikjan að ljóðinu. Heylóarvísa, (Heiðlóarkvæði), Grátittlingurinn og Óhræsið henta t.d. vel. Söguna má myndskreyta, setja í hefti, finna titil og lesa síðan upp.
 • Læra ljóð og vísur eftir Jónas og flytja.
 • Læra að búa til vísu með ljóðstöfum og endarími og flytja. Læra einfaldar bragreglur og skoða í vísum, m.a. Jónasar.
 • Setja upp gamanþátt utan um vísurnar um Hringaná.
 • Veðurvísur Jónasar og tengja þær verkefni um veðrið. Vísurnar má myndskreyta, t.d. með veðurtáknum svo sem vindhraða, þoku- og súldarmerki og fleiru. Skoða orðaforða yfir veður. Skrifa veðurlýsingar fyrir daginn í dag, eftirminnilegan dag eða aðra merkisdaga.
 • Nemendum skipt í hópa þannig að tveir eða fleiri fjalli um ljóð eftir Jónas sem þeir velja sér ellegar hafa dregið. Hver hópur finnur síðan sögur frá þeim stað sem ljóðið er um. Þeir útbúa þátt, nota myndir, skyggnur og annað ítarefni. Ljóðið ætti þó alltaf að vera þungamiðjan. Efnið er síðan flutt fyrir samnemendur eða aðra.

Sögur

 • Skoða ævintýri Jónasar. Hver er boðskapurinn í þeim?
 • Grasaferð, t.d. búa til leikrit sem nemendur leiklesa.
 • Leiklesa sögurnar Leggur og skel og Fífillinn og hunangsflugan eftir Jónas.
 • Bera saman Legg og skel eftir Jónas og Flibbann eftir H.C. Andersen.
 • Stúlkan í turninum. Þjóðsögur og ævintýri og rómantíska stefnan. H.C. Andersen, Grimmsbræður og Jónas Hallgrímsson.

2. Söngdagskrá

 • Nemendur eða skólakór flytji verk Jónasar Hallgrímssonar eða annarra íslenskra skálda.

3. Upplestur

 • Nemendur í eldri bekkjum lesa sögur og ljóð fyrir nemendur í yngri bekkjum.
 • Verðlaunahafi úr upplestrarkeppni skólans frá síðasta ári kemur í heimsókn.

4. Bækur

 • Nemendur lesa bækur sem fólk af næstu kynslóð á undan las á sama aldri og getur mælt með. Nemendur rekja svo söguþráð bókanna og segja af hverju heimildarmanni þeirra þótti bókin góð.

5. Leikrit

 • Nemendur gætu leiklesið gömlu leikritin úr lestrarbókunum.

6. Leikjavefurinn

 • Á Leikjavefnum eru margir leikir sem henta vel til notkunar á degi íslenskrar tungu. Má þar t.d. nefna flokk um orðaleiki, leiki til að finna málshátt, búa til orð og safna orðum. http://www.leikjavefurinn.is/

7. Ýmislegt

 • Ljóða- og smásagnasamkeppni
 • Málshættir
 • Þulur

Framhaldsskólar

1. Jónasarhátíð

a. Taka saman efni eftir Jónas Hallgrímsson og flytja, ljóð, sögur o.fl.

Hugmyndir:

 • Æviferill Jónasar
 • Ást og söknuður í verkum Jónasar
 • Fuglar í verkum Jónasar
 • Ást Jónasar á hinu smáa í náttúrunni
 • Náttúrufræði í verkum Jónasar
 • Söguljóð Jónasar
 • Ættjarðarkvæði Jónasar
 • Óbundið mál Jónasar
 • Nýyrðasmíð Jónasar
 • Hvað hefur verið sungið af ljóðum Jónasar?

b. Önnur skáld

Á svipaðan hátt væri hægt að taka fyrir verk annarra íslenskra skálda.

c. Söngdagskrá

Skólakór gæti flutt verk Jónasar Hallgrímssonar eða verk annarra íslenskra skálda.

d. Heimsóknir

Fá rithöfund eða ljóðskáld í heimsókn til að lesa upp verk sín.

Fá t.d. stúdenta í íslensku við Háskóla Íslands til að kom í heimsókn.

2. Ýmis verkefni sem vinna mætti í tengslum við dag íslenskrar tungu

Safna örnefnum í næsta nágrenni við skólann

 • Að heilsa og kveðja
 • Heiti á verslunum og fyrirtækjum
 • Skoða íslenska dægurlagatexta
 • Heiti á gæludýrum
 • Skoða orðaforða um veður
 • Skoða tölvumálið
 • Hvers eðlis eru íslensk blótsyrði?
 • Hugmynd að skemmtilegasta, íslenska bílnúmerinu (7 stafir, með bili)
 • Velja skýrmæltasta útvarpsmanninn

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum