Hoppa yfir valmynd

Alþjóðlegar skuldbindingar og samstarf á sviði höfundaréttarmála

Ísland er aðili að nokkrum alþjóðlegum sáttmálum um vernd höfunda, listflytjenda, framleiðenda og útvarpsfyrirtækja. Samkvæmt sáttmálunum ber Íslandi að tryggja þegnum annarra aðildarlanda ákveðin lágmarksréttindi og sambærilega meðferð og innlendum aðilum að því er tekur til höfundaréttar og skyldra réttinda. Sáttmálarnir eru eftirfarandi:

 • Bernarsáttmálinn frá 9. september 1886 til verndar bókmenntum og listaverkum, skv. endurskoðaðri Parísargerð hans frá 24. júlí 1971, sbr. lög nr. 74/1947, auglýsingu nr. 110/1947, lög nr. 80/1972 og auglýsingu nr. C18/1984.
 • Alþjóðasáttmáli um höfundarétt samþykktur í Genf 6. september 1952, skv. endurskoðaðri Parísargerð hans frá 24. júlí 1971; Universal Copyright Convention.
 • Rómarsáttmálinn um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana frá 26. október 1961, sem tók gildi 15. júní 1994, sbr. auglýsingu nr. C2/1974.
 • TRIPS samningurinn um viðskiptalega þætti hugverkaréttinda; Trade-related aspects of intellectual property rights, sem er einn af viðaukasamningum við GATT samningana frá 1994 um stofnun Heimsviðskiptastofnunarinnar.
 • Brussel sáttmálinn frá 21. maí 1974 um vernd útvarpsstofnana miðlun sjónvarpsmerkja um gervihnött. Ísland er ekki aðili að þessum sáttmála.
 • Höfundaréttarsáttmáli WIPO eða WIPO Copyright Treaty (WCT) um vernd tiltekinna réttinda í tilteknum verkum frá 20. desember 1996. Ísland er ekki aðili að þessum sáttmála en stefnt er að aðild.
 • Sáttmáli WIPO um réttindi skyld höfundarétti eða WIPO Performances and Phonograms Treaty (WPPT) frá 1996 um vernd réttinda listflytjenda vegna beins listflutnings og hljóðupptöku af listflutningi þeirra og vernd hljóðritaframleiðenda að hljóðritum. Ísland er ekki aðili að þessum sáttmála en stefnt er að aðild.
 • Genfarsáttmálinn frá 29. október 1971 um vernd hljóðritaframleiðenda gagnvart ólögmætri endurgerð hljóðrita. Ísland er ekki aðili að þessum sáttmála.
 • Beijing-samningur um listflutning í hljóð- og myndverkum frá 24. júni 2021. Ísland er ekki aðili að þessum sáttmála en unnið er að aðild.
 • Marakess-sáttmálinn um að greiða fyrir aðgengi þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum frá 27. júní 2013. Ísland verður formlegur aðili í mars 2021.

EES skuldbindingar 

Með samningnum um evrópska efnahagssvæðið hefur Ísland skuldbundið sig til að innleiða í landslög samræmdar reglur innri markaðarins um vernd hugverkaréttinda. Eftirfarandi gerðir á sviði höfundaréttar hafa verið innleiddar í íslensk lög (tenglar eru á enska útgáfu tilskipana og íslenska þýðingar, ef munur er á milli gildir enski textinn): 

 • tilskipun um útsendingar um gervihnött og endurvarp um kapal (93/83/EBE),
 • tilskipun um lögverndun gagnagrunna (96/9/EB),
 • tilskipun um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu (2001/29/EB),
 • tilskipun um rétt höfundar til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks ( 2001/84/EB)
 • tilskipun um leigu- og útlánsrétt (2006/115/EB, endurútgáfa),
 • tilskipun um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda (2006/116/EB, endurútgáfa)
 • tilskipun um lögvernd fyrir tölvuforrit (2009/24/EB, endurútgáfa),tilskipun um breytingu á tilskipun um verndartíma höfundaréttar og tiltekinna skyldra réttinda (2011/77/ESB),
 • tilskipun um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum (2012/28/EB),
 • tilskipun um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna netnotkunar á tónverkum (2014/26/ESB),
 • reglugerð um flytjanleika efnisveituþjónustu á Netinu yfir landamæri ((ESB) 2017/1128),
 • tilskipun um tiltekna leyfilega notkun á efni sem er verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun ( (ESB) 2017/1564)

Eftirfarandi tilskipanir sem varða höfundarétt hafa ekki verið innleiddar:

 • tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um framfylgni hugverkaréttinda (2004/48/EB)
 • tilskipun um reglur um nýtingu höfundarréttar og skyldra réttinda sem gilda um tilteknar netútsendingar útvarpsfyrirtækja og endurvarp hljóðvarps- og sjónvarpsefnis og um breytingu á tilskipun ráðsins 93/83/EBE ( (ESB) 2019/789)
 • tilskipun um höfundarétt og skyld réttindi á stafræna innri markaðnum og um breytingu á tilskipunum 96/9/EB og 2001/29/EB ( (ESB) 2019/790).

Verið er að vinna að innleiðingu síðastnefndu tveggja tilskipana. Ísland á sæti í sérfræðingahópi Evrópusambandsins og EFTA um hugverkaréttarmál sem fjallar m.a. um undirbúning og framkvæmd tilskipana á sviði hugverkaréttarmála. Fulltrúi menningar- og viðskiptaráðuneytis á sæti í sérfræðingahópnum ásamt fulltrúa frá Hugverkastofu sem gætir hagsmuna háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins. Ísland á enn fremur sæti í svonefndri tengslanefnd EB um höfundaréttarmál.

Alþjóðlegt samstarf á sviði höfundaréttar

Alþjóðahugverkastofnunin (WIPO World Intellectual Property Organization) á rætur sínar að rekja til Parísarsáttmálans frá 1883 um vernd hugverka í iðnaði og Bernarsáttmálans frá 1886 um vernd bókmennta og listaverka. Stofnsamningur í núverandi mynd gekk hins vegar ekki í gildi fyrr en 1970 og stofnunin telst til sérstofnana Sameinuðu þjóðanna frá 1974.

Hlutverk Alþjóðahugverkastofnunarinnar er að efla vernd hugverka og alþjóðlegt samstarf á því sviði. Stofnunin sér um rekstur fjölmargra alþjóðlegra samninga um hugverkaréttindi og skráningu hugverkaréttinda, jafnt á sviði uppfinninga og iðnhönnunar sem bókmennta og lista. Megintekjustofn er skráningargjöld og er stofnunin ekki rekin nema að takmörkuðu leyti með framlögum aðildarríkja. Aðstoð og ráðgjöf til þróunarlanda er verulegur hluti starfsemi stofnunarinnar og fer vaxandi.

WIPO hefur umsjón með öllum framangreindum alþjóðlegum samningum á sviði höfundaréttar, að undanskildum alþjóðasáttmála um höfundarétt (Universal Copyright Convention), sem önnur alþjóðastofnun á vegum SÞ, UNESCO, hefur umsjón með. Aðild Íslands að hinum alþjóðlegu sáttmálum er m.a. tilkomin vegna skuldbindinga í EES samningnum. Hugverkastofa og menningar- og viðskiptaráðuneyti fara með málefni Íslands gagnvart WIPO í umboði utanríkisráðuneytisins og sækja fundi á vegum stofnunarinnar.

Norrænt samstarf á sviði höfundaréttar

Löng hefð er fyrir því að þau ráðuneyti hjá Norðurlandaþjóðunum, sem með höfundaréttarmálefni fara, hafi með sér samráð um þróun höfundaréttarlöggjafar. Íslensku höfundalögin, sem eru frá árinu 1972 eru afrakstur slíks samstarfs á sjöunda áratug 20. aldar. Síðasta samræmda endurskoðun norrænnar höfundaréttarlöggjafar fór fram á tíunda áratug síðustu aldar og eru höfundalög flestra annarra Norðurlandaþjóða frá árinu 1995. Íslensku höfundaréttarlögin hafa ekki verið færð til samræmis við þá endurskoðun en verið er að vinna að því. Norðurlandaþjóðirnar hafa jafnframt haft með sér náið samstarf um fyrirkomulag og lausnir við innleiðingu tilskipana EB og nýrra alþjóðlegra sáttmála á sviði höfundaréttar í landsrétt.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 7.6.2023 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum