Hoppa yfir valmynd

Hugtök á sviði höfundaréttar

Eintakagerð

Íslensku höfundalögin eru þannig upp byggð að í fyrsta kaflanum er að finna hver séu réttindi höfunda og rétthafa. Í öðrum kafla laganna má svo finna undantekningar frá þeim rétti.

Réttur höfunda skiptist í fjárhagslegan og ófjárhagslegan rétt (sæmdarétt).

Fjárhagslegi réttur höfunda kemur fram í 2. gr. höfundalaga en þar segir:
„Með þeim takmörkunum sem í lögum þessum greinir hefur höfundur einkarétt til að gera eintök af verki sínu og til að gera það aðgengilegt almenningi í upphaflegri eða breyttri mynd, í þýðingu eða annarri aðlögun, í annarri tegund bókmennta eða lista eða með annarri tækni.”

Hugtakið eintakagerð er skilgreint í 2. mgr. 2. gr. höfundalaga. Þar segir:
„Eintakagerð telst sérhver bein eða óbein, tímabundin eða varanleg gerð eintaks af verki, í heild eða af hluta þess, með hvaða aðferðum sem er og í hvaða formi sem er. Það telst m.a. eintakagerð ef verk er flutt yfir á miðil sem nota má til endurmiðlunar.“

Það að höfundur eigi einkarétt til eintakagerðar þýðir að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að gera eintök af verkum hans nema búið er að semja við hann um annað eða undantekning sé í lögum. Einkaréttur höfundar til eintakagerða nær til allra gerða eintaka af verki hans, hvort sem um er að ræða eintak af hluta verksins, aðlagað verk eða allt verkið. Sem dæmi má taka þegar tónlist er færð af geisladisk yfir á mp3-spilara en við slíka athöfn myndast eintak af verkinu og þá er verið að tala um eintakagerð.

Hugtakið eintakagerð nær ekki aðeins yfir þegar höfundur setur verk sitt á efni í fyrsta sinn heldur til allrar síðari eftirgerðar. Skiptir þá ekki máli hvort sé gert eintak af upphaflega verkinu eða eftirgerð þess.

Mikilvægt er að hafa í huga að þó að höfundur hafi gert eintak af verkinu sínu og svo selt það eða jafnvel gefið þá á höfundurinn ennþá einkaréttinn til eintakagerðar en ekki eigandinn af verkinu eða afriti af verkinu.

Hugtakið eintakagerð í 2. mgr. 2. gr. höfundalaga nær yfir þau eintök sem myndast á netinu, t.d. þegar verið er að hlaða niður eða upp efni.

Að gera verk aðgengilegt

Að höfundur eigi einkarétt á að gera verk sitt aðgengilegt almenningi felur í sér höfundur hefur einkarétt til í fyrsta lagi að dreifa eintökum af verkum sínum t.d. með því að bjóða þau til sölu, leigu eða láns eða á annan hátt; í öðru lagi að höfundur hefur einkarétt á að sýna verkið opinberlega og í þriðja lagi að höfundur hefur einkarétt til að flytja verkið opinberlega. Þegar höfundur hefur gert verk sitt aðgengilegt telst það vera birt. Einkaréttur höfundar til að gera verk sín aðgengileg almenningi þýðir að öllum öðrum en höfundi verks er óheimilt að birta verk hans nema búið sé að semja við hann eða hana eða hán um annað eða undantekning sé í lögum.

Höfundalög gera engan greinarmun á upphaflegri birtingu á verki eða síðari birtingu og því á höfundur einkarétt á allri birtingu á verki sínu.

Verk telst birt þegar það hefur verið flutt, sýnt eða gefið út opinberlega þannig að almenningur eigi frjálsan aðgang að hvort heldur sem greiða þurfi fyrir aðgang eður eigi. Aftur á móti telst það ekki opinber birting þegar slíkt fer fram inni á heimilum manna, fyrir fjölskyldu eða vinum. Til að ákveða hvað telst opinber birting er litið til meðalhófs, sanngirnis og eðlis. Nánar um hvenær verk telst vera gert aðgengilegt almenningi eða birt:

1. Dreifing

Verk telst gert aðgengilegt almenningi þegar það er boðið til sölu, leigu eða láns eða dreift til almennings á annan hátt. Hugtakið dreifing eintaka tekur eingöngu til dreifingu áþreifanlegra eintaka, ekki til miðlunar verka t.d. á netinu. Slík miðlun fellur undir hugtakið opinber flutningur, sjá neðar.

2. Opinber sýning

Það telst opinber sýning er þegar eintak af listaverki er haft til sýningar á listasafni, galleríum og þess háttar. Eintak af verki getur á þann hátt einnig verið til sýningar jafnvel þótt að sýningin samanstandi af afriti af upphaflega verkinu. Einnig er átt við dagblöð á kaffihúsum, bækur til lestrar á bókasöfnum og þess háttar. Hugtakið opinber sýning tekur eingöngu til sýningar áþreifanlegra eintaka eins og á við hugtakið dreifining. Miðlun t.d. myndlistarverka á netinu fellur undir hugtakið opinber flutningur, sjá næst.

3. Opinber flutningur

Í 4. mgr. 2. gr. höfundalaga er skilgreint hvað telst vera opinber flutningur. Þar segir:

„Það telst vera opinber flutningur í skilningi 3. tölul. 3. mgr. þegar:
1. verki er miðlað til almennings um þráð eða þráðlaust, þar á meðal þegar það er sent út í útvarpi eða gert aðgengilegt almenningi þannig að hver og einn getur fengið aðgang að verkinu á þeim stað, á þeirri stundu og með þeim búnaði sem hann sjálfur kýs,
2. verk er flutt á vinnustað fyrir stóran hóp manna sem endranær er talinn vera lokaður hópur,
3. útvarpsflutningur á tónlist eða bókmenntaverki er gerður aðgengilegur almenningi á þann hátt að honum er endurvarpað með hátalara eða á annan sambærilegan hátt í rými sem er opið almenningi.“

Fyrsti töluliður tekur til alls flutnings verka t.d. í útvarpi (bæði hljóðvarpi og sjónvarpi), á netinu og alls flutnings verka t.d. í leikhúsum eða tónleikasal. Hver flutningur nýtur sjálfstæðrar verndar. Það þýðir að ef verk sem flutt er í tónleikasal fyrir áhorfendum er tekið upp og síðan flutt í útvarpi eða netinu þá þarf samþykki höfundar og annarra rétthafa, t.d. flytjenda, fyrir síðarnefnda flutningnum. Fleiri dæmi um opinberan flutning er spilun tónlistar í veitingahúsum eða verslunum.

Ekki skiptir máli hvort að verkið sé flutt af listflytjanda í tónleikasal með áheyrendum, eða spilað af diski eða lagalista á netinu á opinberum eða útvarpssendingu sé miðlað til áheyrenda í gegnum hátalarakerfi. Það skiptir heldur ekki máli hvað margir náðu að sjá eða heyra flutninginn heldur hvort að almenningur hafi haft aðgang að þeim stað þar sem flutningurinn fór fram.

Það sem fellur utan við þennan rétt höfundar er flutningur sem er algerlega á einkasviði notenda verksins svo sem spilun tónlistar í heimahúsi, sjónvarpsútsending í stofunni, upplestur úr dagblaði fyrir fjölskyldumeðlimi og þess háttar. Fyrir utan kjarnafjölskylduna mega frænkur og frændur, tengdafólk, nágrannar og svo framvegis vera til staðar án þess að flutningurinn teljist vera opinber. Vert er að geta þess að miðlun efnis í lokuðum hópum á netinu getur talist opinber flutningur eins og Hæstiréttur kvað á um í Ásgarðsdómnum svonefnda í máli nr. 472/2008 sem varðaði miðlun höfundaréttarvarins efnis í gegnum jafningjanet.

Í öðrum tölulið 4. mgr. 2. gr. höfundalaga er sérstaklega tekið fram að það teljist opinber flutningur þegar verk er flutt á vinnustað fyrir stóran hóp manna sem endranær teldist vera lokaður hópur. Í eldri gerð laganna var miðað við 10 manna vinnustað en nú er það mat dómsstóla hversu margir starfsmenn teljist „stór hópur“ manna.

Í þriðja tölulið 4. mgr. 2. gr. höfundalaga er áréttað að það teljist sérstakur opinber flutningur þegar útvarpssendingu með höfundaréttarvörðu efni er gerður aðgengilegur almenningi með því að endurvarpa sendingunni í gegnum hátalara eða á annan sambærilega hátt í rými sem er opið almenningi. Þetta þýðir að ef verslunareigandi vill spila t.d. útvarpstónlist í verslun sinni þannig að viðskiptavinir njóti hennar einnig þá þarf viðkomandi að fá leyfi til þess, t.d. hjá STEFi.

 

Takmarkanir á höfundarétti

Höfundaréttur er takmarkaður í tíma og er almenna reglan að höfundavernd gildir í 70 ár eftir dauða höfundar. Önnur ákvæði um takmarkanir á einkarétti höfunda er að finna í II. kafla höfundalaga. Þeim má skipta í þrennt, sjá hér að neðan:

Allar takmarkanir á höfundarétti verða að vera í samræmi við alþjóðaskuldbindingar.

1. Frjáls og endurgjaldslaus not skv. höfundalögum

Ákvæði höfundalaga um frjáls og endurgjaldslaus not fela í sér að hægt er að nota verk höfunda sem falla undir ákvæðin án sérstaks samþykkis höfunda og án greiðslu til þeirra. Dæmi um frjáls og endurgjaldslaus not er eintakagerð til einkanota skv. 11. gr. og tilvitnanaréttur skv. 14. gr. Önnur tilvik er að finna í ákvæðum 13. gr., 16. gr., 21. gr., 22. gr. og 25. gr. Not verka í skopstælingum og ádeilum teljast líka heimil án heimildar höfundar og án endurgjalds þó ekki sé kveðið á um það berum orðum í höfundalögum.

2. Afnotakvaðir skv. höfundalögum

Ákvæði höfundalaga um afnotakvöð fela í sér að ákveðin not verks eru heimil án sérstaks leyfis höfundar en gegn gjaldi. Dæmi um slíkar afnotakvaðir eru réttur höfundar til þóknunar ef bygging eða listaverk utanhúss er aðalatriði myndar sem er nýtt til markaðssölu, sbr. 16. gr.; heimild til útgáfu safnverka, sbr. 17. gr.; heimild til að nota texta þegar lög eru sungin opinberlega á hljómleikum, sbr. 20. gr.; opinber flutningur í fræðslustarfsemi og á samkomum sem greitt er fyrir og við kirkjulegar athafnir, sbr. 21. gr. og opinber dreifing hljóðrita, sbr. 47. gr.

3. Samningskvaðir skv. höfundalögum

Samningskvaðaákvæði í höfundalögum heimila rétthafasamtökum höfunda, svokölluðum sameiginlegum umsýslustofnunum, að gera samninga um not verka sem binda bæði félagsmenn samtakanna og þá sem ekki eru í samtökunum

Það þýðir að notandinn, t.d. útvarpsstöð, getur treyst að með samningum við viðkomandi rétthafasamtök, t.d. STEF, þá hefur hún heimild til að nota alla tónlist hvort sem höfundar hennar eru í STEF eða ekki. STEF er síðan ábyrgt fyrir að úthluta þóknunum sem útvarpið greiðir til allra rétthafa, hvort sem þeir eru félagar í STEF eða ekki.

Eftirfarandi samningskvaðir er að finna í höfundalögum:
•12. gr. b um heimild safna til að gera eintök af verkum í safni sínu og að gera þau aðgengileg almenningi;
•3. mgr. 14. gr. um heimild til að endurbirta í fjárhagslegum tilgangi listaverk í fræðsluskyni, vegna vísindalegrar umfjöllunar eða gagnrýni;
•1. mgr. 18. gr. um fjölföldun verka í menntastofnunum og í fyrirtækjum;
•4. mgr. 19. gr. um mynd- eða hljóðupptöku af hljóðvarpi og sjónvarpi í þágu einstaklinga sem eiga við fötlun að stríða
•1. mgr. 23. gr. um notkun útvarpsstöðva á útgefnum verkum
•23. gr. a um endurvarp verka sem er útvarpað í gegnum kapalkerfi;
•1. mgr. 23. gr. b um endurmiðlun eigin framleiðslu útvarpsstöðva (hljóðvarp og sjónvarp) sem framleitt er fyrir 2016
•Að lokum er að finna almenna samningskvöð sem heimilar að rétthafasamtök fái heimild til að samningskvaðasamninga á afmörkuðum vel tilgreindum notum sem væri hægt að koma á með öðrum hætti , sjá ákvæði 2. mgr. 26. gr. a höfundalaga.
Það eru ýmis skilyrði fyrir gerð samningskvaðasamninga sem er kveðið á um í 26. gr. a, b og c höfundalaga.

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum