Hoppa yfir valmynd

Kvikmyndir

Kvikmyndamiðstöð / Kvikmyndasjóður

Kvikmyndamiðstöð Íslands styrkir framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda með framlögum úr Kvikmyndasjóði, stuðlar að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskum kvikmyndum hér á landi og erlendis. Hún aflar upplýsinga um íslenskar kvikmyndir og gefur þær út, eflir kvikmyndamenningu hér á landi með ýmsu móti og stuðlar að auknum samskiptum við erlenda aðila á sviði kvikmyndamála. Kvikmyndaráð veitir stjórnvöldum ráðgjöf um kvikmyndamálefni og gerir tillögur til ráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.

Kvikmyndasafn Íslands

Samkvæmt lögum er hlutverk Kvikmyndasafns Íslands  að safna, skrásetja og varðveita íslenskar kvikmyndir, kvikmyndir sem eru samvinnuverkefni íslenskra og erlendra aðila og erlendar kvikmyndir sem teknar hafa verið á Íslandi. Það skal varðveita skilaskylt efni og hafa eftirlit með að efni sé látið safninu í té samkvæmt lögum um skylduskil til safna. Auk þessa skal Kvikmyndasafnið standa fyrir sýningum á innlendri og erlendri kvikmyndalist, sjá um viðhald og endurgerðir á kvikmyndum í vörslu safnsins, skapa fræðimönnum og fagmönnum aðstöðu til að stunda kvikmyndafræðilegar rannsóknir og vinna að því að efla kvikmyndamenningu á Íslandi. 

Samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016-2019

Í samkomulaginu, sem byggt er á skýrslu Kvikmyndaráðs, koma fram áherslur á sviði kvikmyndagerðar og kvikmyndamenningar á Íslandi er varða þróun styrkjakerfis á sviði kvikmyndamála. Auka á fjármagn í Kvikmyndasjóð og auka hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af heildarframleiðslukostnaði einstakra verkefna og efla aðrar greinar kvikmyndagerðar, s.s. gerð heimildamynda, stuttmynda og leikinna sjónvarpsmynda.

Tryggja á jafnan hlut karla og kvenna í styrkveitingum Kvikmyndasjóðs m.a. með því að veita tímabundið sérstaka handrita-, þróunar-  og framleiðslustyrki til kvenna jafnframt því að jafna hlut kynjanna í öðrum listrænum stöðum í kvikmyndagerð. Einnig er sett það markmið að styðja sérstaklega við konur og karla sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð. Í samkomulaginu er einnig lögð áhersla á barnaefni og það verði kappkostað að a.m.k. eitt slíkt verkefni verði framleitt árlega. Samkomulagið felur í sér að stuðningur við kvikmyndagerð á Íslandi í gegnum Kvikmyndasjóð eykst úr 844,7 millj. kr. á yfirstandandi ári í 1.084,7 millj. kr. árið 2019.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 29.1.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum