Hoppa yfir valmynd

Minjavernd

Minjavernd felur í sér að vernda ummerki um umsvif mannsins á fyrri tímum. Verndargildi minja er metið út frá ólíkum þáttum. Þó svo að áherslan hafi í gegnum tíðina verið lögð á að vernda stök hús, mannvirki og fornminjar, er áherslan nú í ríkari mæli lögð á að vernda minjaheildir og ummerki mannsins í umhverfinu í víðum skilningi.

Friðlýsing og friðun

Fornminjar, þ.e. forngripir, fornleifar og minningarmörk sem eru eldri en 100 ára, njóta sjálfkrafa lagaverndar á Íslandi. Sama gildir um hús og mannvirki sem byggð voru árið 1923 eða fyrr. Bátar flokkast til forngripa og aldursfriðun þeirra miðar við árið 1950.

Friðlýsing er hæsta stig friðunar minja og um hana gilda strangari skilmálar en friðun á grundvelli aldurs.

Tölulegar upplýsingar um hús:

  • Friðlýst hús eru 557 talsins. 
  • Aldursfriðuð hús, sem bera fastanúmer, eru 4124 talsins.

Tölulegar upplýsingar um jarðfastar fornleifar:

  • Friðlýstir minjastaðir eru nú 858 talsins
  • Heildarumfang jarðfastra fornleifa er óljóst, en áætlað hefur verið að talan hlaupi á bilinu 250 til 300 þúsund á landinu öllu

Varðveisla, rannsóknir og skráning

Fornleifaskráning og húsaskráning eru grunnrannsóknir á minjum.

Minjavernd felur einnig í sér að varðveita minjar á söfnum, styðja við rannsóknir sem tryggja vernd minja, veita hagsmunaaðilum ráðgjöf og leiðbeiningar og veita umsagnir um mál sem áhrif hafa á minjar.

Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í landinu. Fornleifarannsóknir og skráning menningarminja fer að mestu fram á vegum einkaaðila sem starfa í faginu. Fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér eru háðar leyfi Minjastofnunar og skráning menningarminjar þarf að vinnast samkvæmt stöðlum stofnunarinnar.

Minjastofnun Íslands er vörsluaðili Fornminjasjóðs og Húsafriðunarsjóðs.

Eldri hús á Eyrarbakka.

Eldri hús á Eyrarbakka.

Lög og reglugerðir

Lög um menningarminjar nr. 80/2012 er meginlöggjöf málaflokksins. Tilgangur laganna er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Í lögunum eru hlutverk Minjastofnunar, fornminjanefndar, húsafriðunarnefndar og minjaráða skilgreind.

Eftirfarandi reglugerðir og reglur eru settar á grundvelli laga nr. 80/2012:

·         Reglur um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda nr. 620/2019

·         Reglur um veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér nr. 621/2019

·         Úthlutunarreglur fornminjasjóðs nr. 1245/2022

·         Reglur um úthlutun úr húsafriðunarsjóði nr. 577/2016

·         Reglugerð um minjasvæði og minjaráð nr. 344/2022

Lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015 er ætlað að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi og sem ástæða er að varðveita vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis. Reglugerð um verndarsvæði í byggð nr. 575/2016 er sett á grundvelli þeirra.

Lög um skil menningarverðmæta til annarra landa nr. 57/2011 eiga að tryggja að skil á menningarverðmætum hafi þau verið flutt til Íslands með ólögmætum hætti.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum