Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 19. júní 2025

Efni: Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs

Fundur haldinn í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Ráðsmenn: Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, formaður, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.

Aðrir fundarmenn: Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits, Flóki Halldórsson, settur framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, Rósa Björk Sveinsdóttir, hagfræðingur á skrifstofu bankastjóra í Seðlabankanum, Sigríður Dís Guðjónsdóttir, forstöðumaður Greiðslumiðlunar og viðnámsþróttar á fjármálastöðugleikasviði Seðlabankans, Sigurður Páll Ólafsson, skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Gunnlaugur Helgason, staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Eggert Páll Ólason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Sigríður Rafnar Pétursdóttir, ritari fjármálastöðugleikaráðs.

Fundur hófst kl. 11:00.

1. Staða og horfur í fjármálakerfinu og hagkerfinu
Seðlabankinn fór yfir stöðu, horfur og helstu áhættuþætti í fjármála- og hagkerfinu. Til umræðu var meðal annars greiðslujöfnuður og alþjóðleg skilyrði. Langímavextir í þróuðum ríkjum hafa hækkað og fjármögnunarkostnaður því aukist. Hlutabréfaverð hefur hækkað aftur á helstu mörkuðum eftir að Bandaríkjastjórn ákvað að fresta umfangsmiklum tollahækkunum um 90 daga. Gengi krónunnar gagnvart evru hafði verið stöðugt, en hækkað um 8,8% gagnvart Bandaríkjadal frá áramótum, sem hafði haft áhrif á erlenda eignastöðu. Staða greiðslujafnaðar er góð. Þó að halli hafi verið á viðskiptajöfnuði undanfarin ár hefur hrein erlend staða batnað mikið og mældist jákvæð um 46% af VLF í lok árs 2024. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa ekki verið minni síðan um aldamótin. Fjármagnsinnflæði jókst árið 2024 og erlendir aðilar höfðu fjárfest í nokkrum mæli í ríkisbréfum og skráðum hlutabréfum það sem af var ári. Rætt var um þróun gjaldeyrisforða, reglubundin gjaldeyriskaup Seðlabankans, gjaldeyrisviðskipti ríkissjóðs o.fl. Gjaldeyrisforði Seðlabankans var 865 ma.kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2025 sem samsvaraði um 116% af forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um miðjan júní hafði hann stækkað í 895 ma.kr. og stefnir Seðlabankinn að því að forðinn nemi á hverjum tíma a.m.k. 120% af forðaviðmiði.

Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna er sterk og fjármögnunarskilyrði þeirra og ríkissjóðs hagstæð og hafði aukin óvissa á alþjóðavettvangi haft lítil sem engin áhrif á fjármögnunarkjör. Rætt var um stöðu og horfur á byggingamarkaði. Á íbúðamarkaði er sölutími nýbygginga langur, einkum í tilviki stærri íbúða og íbúða utan höfuðborgarsvæðisins. Fjallað var um virk þjóðhagsvarúðartæki og mat á árangri af beitingu þeirra, einkum lánþegaskilyrða sem þykja hafa skilað jákvæðum áhrifum m.t.t. fjármálastöðugleika. Lánþegaskilyrðunum er ætlað að varðveita viðnámsþrótt lántaka, en Seðlabankinn hefur á grundvelli laga um fasteignalán til neytenda sett reglur um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda og hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda. Bankinn vinnur að undirbúningi sérrits um lánþegaskilyrðin.

2. Sérstök umræða
a) Greiðslumiðlun og stefnur (fjármálainnviðir og yfirsýn)
Seðlabankinn kynnti nýlega samþykktar stefnur um fjármálainnviði og yfirsýn. Markmið bankans er að stuðla að því að innviðir fjármálakerfisins séu á hverjum tíma öruggir, skilvirkir, hagkvæmir og aðgengilegir. Rætt var um viðbúnað og viðlagahandbók Seðlabankans, þróunarvinnu um kortagreiðslur án nettengingar, reiðufé sem staðgönguleið í rofi á rafrænni greiðsluþjónustu, vinnu við undirbúning miðlægs innviðar fyrir greiðslubeiðnir, helstu áskoranir og Evrópureglur á sameiginlegum innri markaði greiðsluþjónustu.

3. Önnur mál
Á fundinum var gerð grein fyrir störfum skilavalds frá síðasta fundi ráðsins og upplýst um nýlegar skipulagsbreytingar í Seðlabankanum.


Drög að fréttatilkynningu voru samþykkt.

Fundi slitið um kl. 12:10.

Fundargerð fjármálastöðugleikaráðs 19. júní 2025 (PDF)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta