Hoppa yfir valmynd
20. maí 2025 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við Úkraínu og skuggaflotinn í brennidepli á utanríkisráðherrafundi Eystrasaltsráðsins

Hópurinn sem tók þátt í fundi Eystrasaltsráðsins. - myndAron Urb / MFA Estonia

Áframhaldandi stuðningur við Úkraínu, fjölþáttaógnir og vaxandi áskoranir tengdar hinum svokallaða skuggaflota Rússlands voru efst á baugi á fundi utanríkisráðherra Eystrasaltsráðsins sem lauk í Vihula í Eistlandi á föstudag. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu lýstu ríkin yfir áframhaldandi stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu gegn ólöglegu innrásarstríði Rússlands. Binda þurfi enda á innrásarstríðið og tryggja réttlátan og varanlegan frið í Úkraínu. 

Þá lýstu utanríkisráðherrarnir ánægju sinni með nýja skýrslu sem felur í sér tillögur um framtíðarhlutverk Eystrasaltsráðsins og skrifuðu jafnframt undir sameiginlega viljayfirlýsingu um öryggi neðansjávarinnviða í Eystrasalti (MoU on on the Protection of Critical Undersea Infrastructure in the Baltic Sea). Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

Eystrasaltsráðið var stofnað árið 1992 og eiga þar sæti Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Pólland, Þýskaland og Evrópusambandið. Ráðið hefur aðsetur í Stokkhólmi og á vettvangi þess fer fram margþætt samstarf aðildarríkjanna um málefni á borð við barnavernd, málefni ungmenna, aðgerðir gegn mansali og almannavarnir. Rússlandi var meinuð þátttaka í Eystrasaltsráðinu í byrjun mars 2022. Í kjölfarið, eða 17. maí 2022, tilkynnti Rússland svo formlega um úrsögn sína úr ráðinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta