Ísland tók þátt í stærstu netöryggisæfingu heims
Hópur íslenskra netöryggissérfræðinga tók þátt í stærstu netöryggisæfingu í heiminum, Skjaldborg 2025 (Locked Shields 2025), dagana 28. apríl til 9. maí. Rúmlega 4.000 þátttakendur frá 41 landi tóku þátt í æfingunni, sem skiptust í 17 fjölþjóðleg lið sem kepptust sín á milli. Ísland myndaði sameiginlegt lið með Svíþjóð og Bandaríkjunum.
Þetta var þriðja árið sem Ísland tekur þátt í æfingunni sem fram fer árlega, en íslenski hópurinn var að þessu sinni skipaður 24 sérfræðingum frá 14 opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum; Reiknistofu bankanna, Íslandsbanka, Arion banka, Varist, Umbru, Landspítalanum, Ambaga ehf., Lögreglu á höfuðborgarsvæðins, Syndis, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Seðlabankanum og Nanitor auk CERT-IS og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
„Á þessum víðsjáverðu tímum er afar mikilvægt að við eflum netöryggi og ekki síst samstarf opinberra stofnana og einkageirans til að mæta þeim ógnum og áskorunum sem að okkur steðja sem ein öflug heild. Við höfum verið að leggja aukna áherslu á netöryggismálin m.a. með því flytja netöryggisveitina nær öryggis- og varnarmálunum í ráðuneytinu. Þá er afar ánægjulegt að dýpka enn frekar samstarf okkar við Svíþjóð og Bandaríkin á þessu sviði, “ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Æfingin er haldin af netvarnarsetri Atlantshafsbandalagsins (NATO Cooperative Cyber Defence Center of Excellence, CCDCOE) og fer fram í sýndarumhverfi þar sem liðin verja í sameiningu skáldað land gegn netárásum á tölvukerfi og innviði á borð við orku-, veitu-, og fjarskiptakerfi. Þá þurfa liðin að eiga við upplýsingaóreiðu og lagaleg úrlausnarefni tengd átökum í netheimum og sinna markvissri upplýsingagjöf.
Þátttaka í Locked Shields er mikilvægur liður í að styrkja netvarnir á Íslandi og er hluti af netaðgerðaáætlun stjórnvalda. Æfingin er mikilvægur vettvangur til að efla samstarf opinberra aðila og einkageirans á sviði netöryggis og styrkir getu þeirra til að verja mikilvæga innviði á Íslandi. Hún styrkir einnig alþjóðlegt samstarf Íslands á þessu sviði, bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða við Svíþjóð, Bandaríkin og önnur bandalags- og samstarfsríki.