Utanríkisráðherra sótti fund á Spáni um tveggja ríkja lausnina
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sótti í dag utanríkisráðherrafund í Madríd á Spáni um tveggja ríkja lausnina svokölluðu í Mið-Austurlöndum. Um var að ræða undirbúningsfund vegna ráðstefnu sem Frakkar og Sádi-Arabar hafa veg og vanda af í Sameinuðu þjóðunum í New York 18. júní nk. Aðstandendur leggja áherslu á að við núverandi aðstæður skipti öllu að afgerandi skref verði stigin í átt að sjálfstæðu ríki Palestínu við hlið Ísraels.
Spánverjar buðu til fundarins en auk Þorgerðar Katrínar sóttu fundinn utanríkisráðherrar og fulltrúar 18 ríkja frá Evrópu, Mið-Austurlöndum, Brasilíu, Evrópusambandinu, Arababandalaginu og Samtökum um íslamska samvinnu.
Þorgerður Katrín sagði að fulltrúar þeirra ríkja sem hefðu sóttu fundinn í Madríd væru sammála um mikilvægi þess að hefja markvissar aðgerðir til að stuðla að varanlegum friði, meðal annars væri mikilvægt að fleiri ríki tækju höndum saman og viðurkenndu sjálfstæði palestínsks ríkis sem tæki sér stöðu við hlið Ísraels. Hún sagði Ísland reiðubúið að leggja sitt af mörkum til að stuðla að áframhaldandi samtali og framkvæmd á þessu mikilvæga verkefni.
„Staðan á Gaza er gjörsamlega ólíðandi og ríkin hér eru öll sammála um að þessu hörmulega ástandi verði að linna. Fyrsta skrefið er að vopnahlé komist á, mannúðargögn komist inn á svæðið hratt og örugglega og í samræmi við mannúðarlög og gíslarnir verði tafarlaust leystir úr haldi,“ sagði Þorgerður Katrín. „Í kjölfarið verður að vinna áfram að tveggja ríkja lausn og í því samhengi þarf að tryggja öryggi beggja þjóða, Palestínu og Ísraels. Sú kyrrstaða sem hefur verið í þessum efnum gengur ekki lengur, varanlegur friður fæst aldrei nema með pólitískri framþróun. Í þessu samhengi hefur Ísland þá sérstöðu að hafa stutt Ísraelsríki frá stofnun þess og verið fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna Palestínu. Eins og í allri okkar utanríkisstefnu leggjum við mikla áherslu á að alþjóðalög séu virt.“
Utanríkisráðherra átti einnig tvíhliða fund með utanríkisráðherra Jórdaníu um stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs og tvíhliða samskipti Íslands og Jórdaníu.