Lækningatæki til meðferðar á fæðingarfistli afhent í Úganda
Sendiráð Íslands í Kampala hefur afhent völdum heilbrigðisstofnunum í Úganda mikilvæg lækningatæki og búnað til meðferðar á konum sem þjást af fæðingingarfistli. Áfanginn er liður í verkefni sem Ísland styður í gegnum Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) en markmið þess er að vinna gegn fæðingarfistli og styðja konur sem þjást af þeim sökum til að fóta sig á ný í samfélaginu.
Fæðingarfistill er alvarlegt og viðvarandi vandamál í fátækustu ríkjum heims en kvillinn þekkist varla á Vesturlöndum. Orsök fæðingarfistils er rifa í fæðingavegi sem ekki er meðhöndluð. Mikil skömm fylgir þessum áverka og algengt að konur sem glíma við hann hætti samfélagsþátttöku með tilheyrandi afkomubresti. Það er því til mikils að vinna fyrir þær að fá bót meina sinna.
Búnaður sem hefur mikla þýðingu
Það var hátíðleg stund þegar fulltrúar sendiráðs Íslands í Kampala, utanríkisráðuneytisins og UNFPA tóku á dögunum þátt í afhendingu á bæði búnaði og lækningatækjum á aðalheilsugæslustöð Namayingo, samstarfshéraðs Íslands. Tækin og búnaðurinn verða notuð til aðgerða á fæðingarfistli á heilsugæslustöðvum í héraðinu og sjúkrahúsinu í borginni Jinja. Afhending er liður í svonefndu STOP-verkefni sem Ísland hefur stutt við í gegnum UNFPA frá því í ársbyrjun 2024.
„Búnaðurinn sem við afhentum er af ýmsu tagi, allt frá hlífðarfatnaði upp í fullkomin skurðarborð og lækningatæki til að greina og meðhöndla fæðingarfistil. Heilbrigðisstofnanir í Úganda, ekki síst til sveita, búa við viðvarandi skort og því á varningurinn sem við afhentum eftir að hafa mikla þýðingu við meðhöndlun kvenna sem þjást vegna fæðingarfistils,“ segir Hildigunnur Engilbertsdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala.
Stuðningur sem skiptir sköpum
Samhliða afhendingunni var efnt til sérstaks átaks á heilsugæslustöðinni þar sem konum úr héraðinu gafst tækifæri til þess að gangast undir aðgerð við fæðingarfistli sér að kostnaðarlausu. Um leið kynntu fulltrúar sendiráðsins og utanríkisráðuneytisins sér framvindu verkefnisins og ræddu meðal annars við konur sem þjáðst hafa af fæðingarfistli en fengið endurhæfingu og stuðning við að fóta sig í samfélaginu á ný.
„Ein þeirra kvenna sem ég ræddi við hafði þjáðst af fæðingarfistli í 28 ár og verið fyrir vikið utanveltu í samfélaginu. Fyrir tilstuðlan verkefnisins gekkst hún undir aðgerð í fyrra. Í framhaldinu fékk hún fjárstuðning til að leigja sér dálítið ræktarland og kaupa geit og þannig koma undir sig fótunum aftur. Það hefur heldur betur tekist og nú er hún meira að segja orðin gjaldkeri þorpsstjórnarinnar eftir að hafa sigrað í kosningum. Stuðningur Íslands hefur þannig gjörbylt lífi þessarar konu,“ segir Hildigunnur.
Ísland fjármagnar svipuð verkefni með UNFPA í Malaví og Síerra Leóne. Með stuðningi við verkefnið í Úganda leggur Ísland því sitt af mörkum í að berjast gegn fæðingarfistli í öllum tvíhliða samstarfsríkjum sínum á sviði þróunarsamvinnu.
Fulltrúar Íslands hafa á undanförnum dögum jafnframt kynnt sér framgang tveggja nýrra verkefna á sviði kyn- og frjósemisheilbrigði í Úganda með sérstakri áherslu á tvö héruð í landinu. Annað verkefnið er unnið í samstarfi við sendiráð Hollands í Kampala og beinist sérstaklega að Kalangala-eyjum í Viktoríuvatni, fyrrverandi samstarfshéraði Íslands. Hitt verkefnið, sem er framkvæmt af alþjóðlegu félagasamtökunum Ipas snýst um að bæta umönnun og þjónustu við konur í Tororo-héraði sem gengist hafa undir þungunarrof. Bæði verkefnin hófust í byrjun þessa árs og staðfestu fulltrúar Íslands í heimsóknum sínum að framgangur þeirra væri samkvæmt væntingum.