Ísland styður jafnréttissjóð Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna
Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að nær tvöfalda stuðning sinn við jafnréttissjóð Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) en sjóðurinn heldur úti verkefnum í þróunarríkjum sem miða að því að auka jafnrétti og valdeflingu stúlkna, með sérstaka áherslu á menntun stúlkna og aukið aðgengi þeirra að tækni- og raungreinum. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn við UNICEF í síðustu viku.
Íslensk stjórnvöld hafa styrkt sjóðinn frá árinu 2022 með góðum árangri og því var gert er ráð fyrir 50 milljóna króna framlagi á ári næstu fjögur árin í nýjum samningi. Um er að ræða nánast tvöföldum frá framlagi fyrri ára.
Stuðningur Íslands hefur meðal annars verið nýttur til að styrkja verkefnin Skills4Girls og Power4Girls en þau miða gagngert að því að valdefla stúlkur og veita þeim haldbæra þjálfun og þekkingu í tækni-og raungreinum, lífsleikni og fræðslu um kynbundið ofbeldi. Þannig náði Skills4Girls verkefnið í Bólivíu til 1,8 milljóna ungmenna, þar af 930 þúsund stúlkna. Power4Girls er tilraunaverkefni í Líbanon þar sem áhersla er lögð á þjálfun fyrir líbanskar stúlkur og stúlkur á flótta.
Valdefling stúlkna lykilatriði í þróunarsamvinnu
Ráðuneytisstjóri sagði við undirritunina að „íslensk stjórnvöld væru stolt af því að fá að koma að þessum mikilvægu verkefnum enda er jafnrétti kynjanna, og valdefling og menntun stúlkna lykilatriði í þróunarsamvinnu og framgangi samfélaga.“
Ísland er eitt af fjórum ríkjum sem styrkja sjóðinn. Kitty van der Heijden, varaframkvæmdastjóri UNICEF, skrifaði undir samninginn fyrir hönd samtakanna og sagði að það væri einkar ánægjulegt að sjá aukningu á framlagi Íslands til jafnréttissjóðsins í ljósi þess að mörg ríki væru að draga úr framlögum til þróunarsamvinnu. „Umfang niðurskurðarins og hraði breytinganna veldur truflun og töfum á þróunaraðstoð, en það setur milljónir barna í hættu. Framlag Íslands til jafnréttissjóðsins er því sérstaklega mikilvægt. Það gerir okkur kleift að halda þeim verkefnum áfram sem eru að sýna árangur. Þetta er viðurkenning á því góða starfi sem unnið er á vettvangi og við erum afskaplega þakklát.“
Sjóðurinn hefur einnig lagt áherslu á að stuðla að lagabreytingum sem ýta undir kynjajafnrétti, breyta skaðlegum viðhorfum gagnvart réttindum og málefnum kvenna, og að kynjasjónarmið séu höfð að leiðarljósi í mennta- og heilsugæsluverkefnum UNICEF, til dæmis með kynskiptri hreinlætisaðstöðu og aðgengi að bólusetningu gegn leghálskrabbameini. Einnig er lagt mikið upp úr þátttöku unglingsstúlkna við stjórn og umsýslu verkefnanna.
UNICEF er ein af fjórum áherslustofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Stofnunin sinnir fjölmörgum verkefnum sem ætlað er að efla réttindi barna, veita neyðaraðstoð og bæta lífsgæði og aðgang að þjónustu. Auk stuðnings við jafnréttissjóð UNICEF, veitir Ísland kjarnaframlög, styður við verkefni um útrýmingu kynfæralimlestingar kvenna og stúlkna og tekur þátt í verkefnum UNICEF í tvíhliða samstarfslöndum Íslands í Síerra Leóne og Úganda.