Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Andri Heiðar Kristinsson ráðinn stafrænn leiðtogi

Andri Heiðar Kristinsson  - mynd

Andri Heiðar Kristinsson hefur verið ráðinn stafrænn leiðtogi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en starfið var auglýst í nóvember síðastliðnum. Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og hefur ríkisstjórnin ákveðið að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið almennings við hið opinbera fyrir lok ársins 2020. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett á fót verkefnastofu um stafrænt Ísland til að tryggja framgang markmiða ríkisstjórnarinnar. Verkefnastofan vinnur með ráðuneytum, stofnunum og öðrum opinberum aðilum að því að efla stafræna þjónustu við almenning og tryggja þannig skýr, einföld og hraðvirk samskipti.

Andri lauk BS námi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Stanford háskóla í Kaliforníu. Þar lagði hann áherslu á frumkvöðlafræði, tækni og leiðtogafærni. Andri hefur aflað sér fjölbreyttrar reynslu á sviði nýsköpunar. Hann var einn af stofnendum Icelandic Startups (áður Innovit) og hefur starfað með fjölda sprotafyrirtækja. Andri starfaði sem starfaði um árabil sem þróunarstjóri hjá samfélagsmiðlafyrirtækinu LinkedIn í Bandaríkjunum á miklu vaxtarskeiði fyrirtækisins og var þar ábyrgur fyrir þróun og innleiðingu hugbúnaðarlausna fyrir fjölda notenda fréttaveitu LinkedIn. Frá árinu 2017 hefur Andri verið framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Travelade. Einnig hefur hann kennt frumkvöðlafræði í Háskólanum í Reykjavík.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum