Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 149. löggjafarþings 2018–2019

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 149. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlunin er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra mála. Í samræmi við 2. mgr. 47. gr. laganna mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi ásamt áætluðum útbýtingardegi.


Endurskoðuð áætlun um framlagningu þingmála á vetrar- og vorþingi 2019 til útprentunar

Þingmálaskrá 149. löggjafarþings 2018–2019 til útprentunar  

Forsætisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 83/1994, um umboðsmann barna.
  Ýmsar breytingar, m.a. í tengslum við þær skuldbindingar sem fylgja lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, o.fl. (tjáningarfrelsi og þagnar­skylda opinberra starfsmanna).
  Frumvarp unnið af nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem skipuð var af forsætisráðherra m.a. til að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp frá stýrihópi sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Markmið frumvarpsins er að nánar verði kveðið á um inntak tjáningarfrelsis og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. (Desember - 21. janúar)
 3. Frumvarp til laga um heilindi í vísindarannsóknum.
  Með frumvarpinu verður mótuð umgjörð um setningu viðmiða fyrir heilindi í vísindarannsóknum og sett á laggirnar nefnd/ráð til að fylgja þeim eftir. (15. mars)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012.
  Einföldun og samræming (orðalag lagfært og tilvísanir til laganna í öðrum lögum uppfærðar, lög um upplýsingarétt um umhverfismál felld niður og ákvæðum þeirra bætt við upplýsingalög). Gildissvið útvíkkað þannig að nái til stjórnsýslu Alþingis og dómstóla í tengslum við fyrirhugaða fullgildingu á samningi Evrópuráðsins um aðgang að opinberum upplýsingum. Bætt við heimild til að takmarka upplýsingarétt almennings hvað varðar upplýsingar um ráðgjöf um siðareglur o.fl. (28. febrúar)
 5. Frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands. [Breytt heiti frumvarps.]
  Ýmsar breytingar. (31. mars)
 6. Frumvarp til laga um vernd uppljóstrara.
  Frumvarpinu er ætlað mæla fyrir um réttarreglur um vernd uppljóstrara, þ.e. þeirra sem skýra frá lögbrotum eða brotum á siðareglum sem þeir verða áskynja um í starfi. Lagt er til að gildissvið verndarinnar nái bæði yfir starfsmenn opinberra aðila og einkaaðila og að hún verði virk þegar starfsmaður miðlar upplýsingum um alvarleg brot í starfsemi vinnuveitanda síns í góðri trú til bærs aðila. Inntak verndarinnar felur fyrst og fremst í sér að óheimilt verður að láta slíka uppljóstrara sæta óréttlátri meðferð, svo sem uppsögn eða kjaraskerðingu. (31. mars)
 7. Tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
  Í þingsályktunartillögunni er kveðið á um fyrirhugaða breytingu á fjölda og heitum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem felur í sér að í stað velferðarráðuneytis komi annars vegar heilbrigðis-ráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti. (September - lögð fram)
 8. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2017.
  Árleg skýrsla. (Október - lögð fram)
 9. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna.
  Árleg skýrsla. (31. maí)
 10. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
  Regluleg skýrsla. (31. maí)
 11. Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði.
  Með frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Frumvarpinu er einnig ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. [Flutt til FOR frá FÉL.] (28. febrúar)
 12. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks.
  Tillagan felur í sér að Alþingi samþykki þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Tillagan byggist á þingsályktun nr. 7/143 um skipan nefndar um málefni hinsegin fólks sem falið var að gera tillögu að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu. Aðgerðir áætlunarinnar fjalla m.a. um bætta félagslega stöðu, upprætingu ofbeldis í nánum samböndum og fræðslu. (31. mars)

Dómsmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum (óflekkað mannorð).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum þar sem lagt er til að horfið verði frá því að gera að skilyrði fyrir starfi eða embætti að viðkomandi hafi óflekkað mannorð, að undan­skildum lögum um kosningar til Alþingis vegna ákvæða stjórnarskrárinnar. Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af breytingum á almennum hegningarlögum árið 2017 þar sem felld var niður heimild forseta Íslands til að veita manni sem fengið hefur refsidóm sem hefur í för með sér flekkun mannorðs uppreist æru. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðlega skráningu og réttarvernd fjárhagslegra réttinda yfir farartækjum og tengdum búnaði.
  Með frumvarpinu er lagt til að heimild verið veitt til að fullgilda samning um alþjóðlega skráningu og réttarvernd fjárhagslegra réttinda yfir farartækjum og tengdum búnaði ásamt bókun við samn­inginn um búnað loftfara. Í frumvarpinu er lagt til að sérstakar reglur gildi um fullnustu krafna sem falla undir samninginn og jafnhliða gerðar breytingar á öðrum lögum s.s. lögum nr. 60/1998, um loftferðir, lögum nr. 21/1966, um skrásetningu réttinda í loftförum, og lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. (September - lagt fram)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á þinglýsingalögum, nr. 39/1978 (rafrænar þinglýsing­ar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þinglýsingalögum svo unnt verði að þinglýsa skjölum með rafrænni færslu. Þannig verði heimilt að leggja að jöfnu þinglýsingu skjala og að ákveðin atriði verði skráð með rafrænum hætti í þinglýsingabók. Lagt er til að með reglugerð verði kveðið á um hvaða skjölum megi þinglýsa með rafrænni færslu og hverjir hafi heimildir til að skrá í hið rafræna þinglýsingakerfi. (September - lagt fram)
 4. Frumvarp til laga um refsingu við hópmorðum.
  Með frumvarpinu eru innleiddir í íslenskan rétt sáttmáli um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð frá 1948, Genfarsamningar frá 1949 og viðaukar við þá frá 1977 sem og Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn frá 1998 og þannig tryggt að íslensk löggjöf sé í samræmi við ákvæði þessara alþjóðaskuldbindinga. (September - lagt fram)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2016, um dómstóla, lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (endurupptaka dæmdra mála).
  Í frumvarpinu er lagt til að endurupptökunefnd verði lögð niður og settur verði á fót sérdómstóll sem skera á úr um hvort heimila skuli endurupptöku mála sem dæmd hafa verið í héraði, Lands­rétti eða Hæstarétti. Í frumvarpinu er lagt til að dómendur í þeim dómstól verði fimm; einn frá hverju dómstigi og auk þess einn lögmaður og einn háskólakennari með sérþekkingu á réttarfari. Jafnframt er lagt til að heimilt verði að endurupptaka mál oftar en einu sinni og skilyrði fyrir endurupptöku einkamála verði rýmkuð. Endurflutt. (September - lagt fram)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 80/2016, um útlendinga, og lögum nr. 16/2000, um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar vegna nauðsynlegra lagfæringa á löggjöfinni til frekari skýringar sem og tilvísanir í ákvæði útlendingalaga í lögum um Schengen-upp­lýsinga­kerfið. Jafn­framt er tollyfirvöldum veitt heimild til beinlínutengingar í kerfið. Endurflutt. (September - lagt fram)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2005, um dómstóla, o.fl. (birting dóma).
  Með frumvarpinu er lagt til að reglur um birtingu dóma verði samræmdar á milli dómstiga og að dómstólasýslunni verði falið að setja reglur um birtinguna. (Fellt niður)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verka (tilskipun um peningaþvætti).
  Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/849, fjórða tilskipunin um peningaþvætti. Fjórða peningaþvættistilskipunin hefur að geyma reglur um hvernig einstakir aðilar, yfirvöld og aðrar stofnanir, auk aðildarríkjanna, geta komið í veg fyrir að hinn frjálsi mark­að­ur sé misnotaður í því skyni að þvætta peninga og fjármagna hryðjuverk. Þannig eru aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka styrktar enn frekar. Innleiðing. (Október - lagt fram)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála (greiðslur vegna táknmálstúlks, munnlegur málflutningur).
  Með frumvarpinu er lagt til að kostnaður vegna notkunar á táknmálstúlki við meðferð einkamála verði greiddur úr ríkissjóði. Jafnframt eru lagðar til breytingar vegna niðurstöðu Mannréttinda­dómstóls Evrópu um að heimilt verði að flytja mál munnlega í æðri dómi þó svo að gagnaðili taki ekki til varna í málinu. (Október - 31. janúar)
 10. Frumvarp til laga um meðferð persónuupplýsinga í löggæslutilgangi (löggæslutilskipunin).
  Með frumvarpinu er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/680 um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu lögbærra yfirvalda á persónuupplýsingum í tengslum við að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsi­viðurlögum og frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og um niðurfellingu rammaákvörðunar ráðsins (2008/977/DIM). Innleiðing.(Nóvember - 31. janúar)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 32/1997, um helgidagafrið (starfsemi á helgi­dögum).
  Með frumvarpinu er lagt til að rýmkuð verði heimild til starfsemi á ákveðnum helgidögum þjóð­kirkjunnar. (Nóvember - 31. janúar)
 12. Frumvarp til laga um bætur vegna ærumeiðinga.
  Frumvarp unnið af nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem skipuð var af forsætisráðherra m.a. til að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp frá stýrihópi sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um ærumeiðingar verði endurskoðuð með hliðsjón af dómaframkvæmd hérlendis og hjá Mann­réttinda­­dómstól Evrópu og æruvernd verði flutt yfir á svið einkaréttar. (Desember - 31. mars)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (haturs­orð­ræða).
  Frumvarp unnið af nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem skipuð var af forsætisráðherra m.a. til að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp frá stýrihópi sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Með frumvarpinu er lögð til breyting á almennum hegningarlögum þannig að skilyrði fyrir því að mönnum verði gert að sæta refsingu fyrir hatursáróður verði skýrari. (Desember - 31. janúar)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2006, um dómstóla (hagsmunaskráning dómara).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um hagsmunaskráningu dómara þannig að aukið verði aðgengi að upplýsingum um aukastörf dómara og fjárhagslega hagsmuni. (28. febrúar)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (bótafjárhæðir).
  Í frumvarpinu er lögð til einföldun á meðferð bótakrafna vegna brota á 9.˗14. kafla laganna vegna ólögmætrar handtöku, þvingunarráðstafana og gæsluvarðhalds á þann hátt að settar verði reglur um viðmiðunarfjárhæðir bóta sem ríkislögmaður styðst við uppgjör slíkra bóta. Samhliða er felld á brott skylda til að veita gjafsókn í slíkum bótamálum. Með þessum breytingum er unnt að flýta uppgjöri bóta og fækka dómsmálum vegna ágreinings um bætur. (28. febrúar)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (upplýsingar um tengsl farsíma við farsímasenda).
  Með frumvarpinu er lögð til breyting á 80. gr. laganna um að lögreglu verði unnt í þágu rannsókn­ar sakamáls að afla upplýsinga hjá fjarskiptafyrirtækjum um öll fjarskiptatæki sem eru tengd eða hafa tengst farsímasendum á tilteknu svæði á tilteknu tímabili. (Fellt niður)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, og fleiri lögum (skipt búseta barna).
  Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild foreldra til þess að semja um skipta búsetu barns og breytingar á ákvæðum er varða framfærslu barns og greiðslu meðlags. Af breytingunni leiða breytingar á fjölmörgum öðrum lögum. (28. febrúar)
 18. Frumvarp til laga um mannréttindastofnun.
  Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sjálfstæð mannréttindastofnun sem hefur m.a. það hlutverk að veita stjórnvöldum ráðgjöf í mannréttindamálum, stuðla að því að löggjöf og stjórn­sýsla sé í samræmi við mannréttindasamninga og fjalla um ástand mannréttindamála í landinu. (Fellt niður)
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2005, um happdrætti (netspilun).
  Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að spila happdrætti á netinu. (Fellt niður)
 20. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipunin).
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagfæringar á III. og IV. kafla laganna auk þess sem frumvarpið er liður í innleiðingu tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. (31. mars)
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952 (biðtími vegna refsinga o.fl.).
  Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á ákvæðum laganna um biðtíma vegna refsinga með hliðsjón af reglugerðarbreytingu um hækkun sekta vegna brota á umferðarlögum. Í þeim tilgangi að skýra nánar tiltekin ákvæði laganna eru samhliða lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum um skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Til að auka jafnræði og sambærilega meðferð við afgreiðslu ríkisborgaraumsókna er jafnframt stefnt að því að færa afgreiðslu umsóknanna alfarið til Útlendingastofnunar þannig að afgreiðsla þeirra verði á einni hendi. (31. mars)
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (ýmsar breytingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála og einkamála sem eru lagfæringar á ýmsum atriðum sem í ljós hefur komið eftir að Landsréttur var settur á fót að betur mega fara. Ávallt var gert ráð fyrir að eftir því sem reynsla kæmist á meðferð mála fyrir Landsrétti þyrfti að lagfæra atriði sem betur mættu fara í lögunum. (28. febrúar)
 23. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði (skipting embættisverka milli sýslumanna).
  Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra fái heimild til að skipa sama sýslumanninn yfir fleiri embætti til allt að fimm ára í senn og um leið fela sýslumanni að ákveða hvernig embættisverkefnum er skipt milli starfsmanna embættanna, að höfðu samráði við ráðherra. (31. mars)

 

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga (texti ársreiknings).
  Með frumvarpinu er brugðist við ábendingum haghafa um lagfæringar á löggjöfinni, m.a. um texta ársreiknings. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um endurskoðendur.
  Innleiðing á tilskipun ESB nr. 2014/56 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðu­reikninga og reglugerð ESB nr. 537/2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endur­skoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Einnig er með frumvarpinu farið yfir gildandi lög og lagðar til breytingar í ljósi reynslu síðustu ára. Innleiðing. (Október - lagt fram)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmt­ana­hald (heimagisting o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum varðandi heimagistingu o.fl. (Október - 31. mars)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003 (áskilnaður um samþykki Alþingis fyrir tengingu við raforkukerfi annars lands).
  Með frumvarpinu er lagt til að samþykki Alþingis þurfi fyrir tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands í gegnum raforkusæstreng. (Október - 28. febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005 (almenn endurskoðun og norrænn samstarfssamn­ingur).
  Frumvarpið felur í sér almenna endurskoðun samkeppnislaga og breytingu vegna norræns sam­starfssamnings o.fl. (Nóvember - 31. mars)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2002, um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu (takmörkuð ábyrgð hýsingaraðila).
  Frumvarp unnið af nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem skipuð var af forsætisráðherra m.a. til að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp frá stýrihópi sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Lögð er til breyting á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu þess efnis að undanþágur frá ábyrgð hýsingaraðila á gögnum sem hann hýsir verði skýrari. (Desember - 31. janúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög (misnotkun á félagaformi, hæfisskilyrði).
  Með frumvarpinu er tekið á misnotkun á félagaformi og að í ákveðnum tilvikum verði unnt að setja einstaklinga í atvinnurekstrarbann. (Janúar - 28. febrúar)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna heitis Einkaleyfastofunnar.
  Með frumvarpinu er lagt til að heiti Einkaleyfastofu verði breytt í „Hugverkastofan“. (31. janúar)
 9. Frumvarp til laga um traustþjónustu.
  Frumvarpið er til innleiðingar á reglugerð ESB nr. 910/2014 og fjallar um rafrænar auðkenningar á milli landa, traustþjónustuveitendur og traustþjónustu, þ.e. auðkenningu, undirskriftir, innsigli, raf­ræn pósthólf og vefsíður. Innleiðing. (28. febrúar)
 10. Frumvarp til laga um lausn deilumála utan dómstóla og kærunefnd neytendamála.
  Frumvarpið er til inn­leiðingar á tilskipun 2013/11/ESB og reglugerð 524/2013/ESB og felur í sér að neytendur hafi aðgang að úrræðum utan dómstóla. Lagt er til að gildissvið kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa verði útvíkkað þannig að það nái yfir öll þjónustu og vöru­viðskipti. Innleiðing. (28. febrúar)
 11. Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla.
  Markmið frumvarpsins er að skjóta traustari stoðum undir frjáls félagasamtök sem geta talist almannaheillasamtök. (28. febrúar)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun (inn­leiðing gerðar).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB að því er varðar sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar. Innleiðing. (28. febrúar)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2015, um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum m.a. í kjölfar ábendinga í skýrslu Ríkis­endurskoðunar um kísilverksmiðju Sameinaðs Sílikons hf. (31. mars)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem lúta að afmörkun á hver skilyrði fyrir endur­greiðslum vegna kvikmyndagerðar eigi að vera, o.fl. (Fellt niður)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/2011, um Framkvæmdasjóð ferðamanna­staða (endurskoðun laga).
  Með frumvarpinu verður ráðist í endurskoðun á lögunum, m.a. framtíðarhlutverki og tilgangi sjóðsins, með hliðsjón af breytingum sem gerðar voru sumarið 2017 og innleiðingu landsáætlunar um uppbyggingu innviða. (31. mars)
 16. Frumvarp til laga um raunverulega eigendur og breytingar á lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá (skrá yfir raunverulega eigendur).
  Með frumvarpinu eru innleidd ákvæði tilskipunar ESB nr. 2015/849 (fjórða tilskipun um peningaþvætti), um skrá um raunverulega eigendur og brugðist við skýrslu FATF, alþjóðlegs vinnuhóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Innleiðing. (31. mars)

 

Félags- og barnamálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um Ábyrgða­sjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar (framlag í lífeyrissjóði).
  Vinnumarkaðstengd framfærslukerfi, svo sem atvinnuleysistryggingakerfið og fæðingarorlofs­kerfið, gera ráð fyrir að kerfin greiði mótframlag atvinnurekanda meðan viðkomandi á rétt á greiðslum innan þeirra. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands gerðu með sér sam­komulag um hækkun á framlagi atvinnurekenda á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Þannig verður skylduiðgjald til lífeyrissjóða samkvæmt samningi aðila samtals 15,5% frá 1. júlí 2018, sem skiptist í 4% iðgjald launamanns og 11,5% mótframlag atvinnurekenda. Mun frumvarpið því gera ráð fyrir að mótframlag þeirra framfærslukerfa sem hlut eiga að máli verði 11,5%.        
  (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794, um farmenn (bætt vinnuskilyrði og réttur til upplýsingamiðlunar og samráðs farmanna).
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794 frá 6. október 2015, um farmenn. Með tilskipuninni er kveðið á um breytingar á ýmsum EES-gerðum sem hafa það að markmiði að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða sem og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs. Felur frumvarpið í sér breytingu á lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, lögum nr. 151/2006, um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, lögum nr. 63/2000, um hópuppsagnir, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Innleiðing. (September - 31. janúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð).
  Gert er ráð fyrir að í frumvarpinu verði kveðið á um heimild til víkja frá ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í tengslum við hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum notendastýrða persónubundna aðstoð (NPA). Þykir nauðsynlegt að unnt sé að semja um frávik frá þeim vinnutímareglum sem lögin kveða á um í því skyni að tryggja að unnt sé að veita þá þjónustu sem lög nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem taka gildi 1. október 2018, gera ráð fyrir. (September - lagt fram)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
  Að ósk dómsmálaráðuneytisins tilnefndu ráðuneytin tengiliði í samráðshóp sem hafði það hlutverk að fara yfir ákvæði sérlaga um persónuvernd í því skyni að meta hvaða breytingar kynnu að vera nauðsynlegar vegna innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679 frá 27. apríl 2016 (Almenna persónuverndarreglugerðin). Yfirferð samráðshópsins leiddi í ljós að gera þarf ýmsar efnislegar breytingar á ákvæðum sérlaga. Í frumvarpi til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (148. löggjafarþing, 622. mál) voru þó eingöngu lagðar til lágmarks­breytingar sem nauðsynlegar eru vegna tilvísana til gildandi laga. Frumvarp þetta felur því í sér efnislega endurskoðun á ákvæðum ýmissa sérlaga sem falla undir málefnasvið félags- og jafn­réttismálaráðherra vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar. (Október - 31. janúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar (hálfur líf­eyrir).
  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingum á því skilyrði fyrir greiðslu hálfs lífeyris frá almanna­tryggingum að samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatrygg­ingum verði að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri almannatrygginga. Enn fremur er í frumvarpinu lagt til að það skilyrði verði sett fyrir töku hálfs lífeyris að lífeyrisþegi stundi að hámarki hálft starf og jafnframt að greiðslur verði tekjutengdar. (Október - 31. mars)
 6. Frumvarp til laga um starfsendurhæfingu og greiðslur vegna skertrar starfsgetu.
  Frumvarpið felur í sér nýtt kerfi starfsendurhæfingar þar sem áherslan er á að meta þjónustuþarfir einstaklingsins ásamt starfsgetu hans. Byggist matið á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhrifaþáttum. Mikilvægt er að tryggja þverfaglega sýn og því lögð áhersla á aukið samstarf félags­þjónustu sveitarfélaga, heilsugæslu, Vinnumálastofnunar, VIRK starfsendurhæfingarsjóðs ses. og Tryggingastofnunar ríkisins. Frumvarpið felur einnig í sér breytingar á örorku- og endurhæfingar­lífeyri almannatrygginga í samræmi við tillögur samráðshóps um breytt framfærslukerfi almanna­trygginga. Er kerfinu ætlað að tryggja hvata til atvinnuþátttöku þar sem aukin áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og starfsendurhæfingu með þverfaglega nálgun að leiðarljósi. (Október - 31. mars).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (bætt réttarstaða leigjenda við lok leigusamnings).
  Frumvarpið felur í sér að ákvæði 50. gr. húsaleigulaga verði fellt brott úr lögunum þar sem ekki þykir tilefni til að kveða svo á um í húsaleigulögum að réttarstaða leigjanda sé lakari í þeim tilvikum þegar hann leigir íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum heldur þyki eðlilegt að í slíkum tilvikum sé útbúinn hefðbundinn húsaleigusamningur á grundvelli húsaleigulaga og um samnings­samband fari eftir lögunum. (Nóvember - 31. mars)
 8. Frumvarp til laga breytingu á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk (fyrir­komu­lag réttinda­gæslunnar, málsmeðferð).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar sem snúa að því að einfalda málsmeðferð vegna ráðgjafar og umsókna um undanþágur frá banni við beitingu nauðungar. Einnig eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu réttindavaktarinnar. (28. febrúar)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál.
  Í frumvarpinu er lagðar til breytingar á lánaheimildum Íbúðalánasjóðs með það að markmiði að styðja betur við fyrstu kaupendur, tryggja jafnt aðgengi að lánsfé á sambærilegum vaxtakjörum óháð búsetu og til að styðja við kaupendur sem eiga erfitt með að komast inn á húsnæðismarkað­inn. (Fellt niður)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 52/2016, um almennar íbúðir (stuðningur við svæði sem búa við misræmi byggingarkostnaðar og markaðsverðs o.fl.).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almennar íbúðir til þess að mæta betur svæðum sem búa við misræmi byggingarkostnaðar og markaðsverðs. (31. mars)
 11. Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði.
  Með frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og tryggja að kynvitund þeirra njóti viður­kenn­ingar. Frumvarpinu er einnig ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og jafnréttis fyrir lögum óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. (Fellt niður) [Flyst til FOR]
 12. Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002.
  Frumvarpinu er m.a. fyrirhugað að endurspegla niðurstöðu þeirrar kortlagningar, úttekta og þróunar­vinnu sem á sér stað í málaflokknum nú. Markmið frumvarpsins verði m.a. það að efla og þróa barnaverndarstarf í landinu og styrkja stjórnsýslu málaflokksins. (Fellt niður)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga (endur­skoðun laganna).
  Frumvarpinu er ætlað að endurskoða lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, í ljósi reynslunnar með það að markmiði að treysta umgjörð þeirra enn frekar. (31. mars)
 14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 26/1994, um fjöleignarhús.
  Frumvarpið mun fela í sér endurskoðun á einstökum ákvæðum laganna í ljósi reynslunnar á framkvæmd þeirra en þar má nefna hvernig unnt er að bregðast við breyttri notkun bílastæða vegna fjölgunar rafbíla og aukningu í rekstri heimagistinga í fjöleignahúsum. (31. mars).
 15. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2018–2022.
  Áætlun, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. (Október - 31. janúar)
 16. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.
  Í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi er lögð áhersla á að auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Byggt er á samstarfi fjögurra ráðherra um samvinnu gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess. (Október - lögð fram)

 

Fjármála- og efnahagsráðherra

 1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019.
  (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2018.
  (Október - lagt fram)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2019 (tekjufrum­varp, safnlög).
  Frumvarpið felur í sér breytingar sem lagðar eru til grundvallar fjárlagafrumvarpi ársins 2019 sem lagt er fram á sama tíma, þ.m.t. hækkun kolefnisgjalds. Frumvarpið verður samið að höfðu samráði við önnur ráðuneyti. (September - lagt fram)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda (trygginga­gjald, tekjuskattur einstaklinga).
  Í frumvarpinu er að finna breytingar á tryggingagjaldi og tekjuskatti einstaklinga sem er liður í samkomulagi ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins frá því í febrúar á yfirstandandi ári. (September - lagt fram)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs (gjaldskrár­breytingar).
  Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar gjaldskrárbreytingar. (September - lagt fram)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald á ökutæki, eldsneyti o.fl., lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (koltví­sýringslosun fólksflutninga- og sendibifreiðar o.fl.).
  Í frumvarpinu er lögð til breyting á viðmiðum koltvísýringslosunar við álagningu vörugjalds á ökutæki og bifreiðagjalds og breytt skilgreining sendibifreiðar vegna álagningar vörugjalds.
  (September - lagt fram)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (endurskoðun og stjórn).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á VII. kafla (stjórn) og XI. kafla (endurskoðun) laganna sem byggja á 3.–6. mgr. 91. og 63. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Í frumvarpinu verður kveðið á um takmarkanir á því hversu margar stjórnarsetur stjórnarmaður í fjármála­fyrirtæki getur tekið að sér samhliða setu í stjórn fjármálafyrirtækis. Einnig verða lagðar til tvær breytingar er varða endurskoðun fjármálafyrirtækja. Annars vegar breytingar á 1. mgr. 92. gr. laganna sem varðar upplýsingaskyldu endurskoðenda. Hins vegar verður lagt til að heimill starfs­tími endurskoðenda verður lengdur úr fimm árum í tíu ár en sú breyting byggir á reglugerð (ESB) nr. 537/2014 um endurskoðun í einingum tengdum almannahagsmunum. Innleiðing. (September - lagt fram)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda (heimild­ir lána­miðlara til að veita þjónustu yfir landamæri).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fasteignalán til neytenda sem fela í sér að teknar eru upp samræmdar Evrópureglur um heimildir lánamiðlara til að stunda viðskipti yfir landamæri. Ekki er um verulega breytingu að ræða frá gildandi rétti. Markmið frumvarpsins er að ljúka innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði (Mortgage Credit Directive, MCD) en efnisreglur gerðar­innar voru að mestu teknar upp í íslenskan rétt með fasteignalánalögunum. Innleiðing.
  (Fellt niður)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga nr. 130/2016, um kjararáð (launafyrirkomulag).
  Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyrðu undir úrskurðarvald kjararáðs samkvæmt lögum nr. 130/2016. Í frumvarpinu er stefnt að því að þeir sem geta farið undir það fyrirkomulag sem ákveðið er í 39. gr. a laga nr. 70/1996 geri það. Í ljósi eðlis nokkurra starfa þykir þó ekki rétt að ráðherra skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996 eða hlutaðeigandi ráðherra hafi aðkomu að ákvörðun launa og starfskjara þeirra vegna sjónarmiða um sjálfstæði starfanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í frumvarpinu er því lagt til að laun þessara aðila verði fest við ákveðna krónutölufjárhæð í samræmi við tillögu starfshóps um kjara­ráð. Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á lögum með það að markmiði að koma á fót nýju fyrirkomulagi launaákvarðana þeirra sem heyrðu undir kjararáð.
  (September - lagt fram)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði skattamála (rafræn birting tilkynn­inga um álagningu skatta og gjalda).
  Með frumvarpinu er lagt til að rafræn birting verði meginreglan þegar kemur að birtingu tilkynn­inga um álagningu skatta og gjalda.
  (September - lagt fram)
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki (skattívilnanir vegna hlutabréfakaupa, skattfrá­drátt­ur nýsköpunarfyrirtækja).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á ákvæðum um hlutabréfaafslátt einstaklinga á móti tekjuskatti og einnig breytingar á frádrætti fyrirtækja í nýsköpun og þróun frá álögðum tekjuskatti. (Október - lagt fram)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (upplýsingagjöf ferðamanna, VRA vottun og rafræn tollafgreiðsla).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 27. gr. og 162. gr. tollalaga með það fyrir augum að bregðast við athugasemdum FATF á skilyrðum VRA vottunar og á gjaldtökuákvæðum tollalaga vegna rafrænnar tollafgreiðslu. (Október - lagt fram)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (fyrirkomulag inn­heimtu).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi innheimtu opinberra gjalda með hlið­sjón af tillögum nefndar um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opin­berra gjalda. (Október - lagt fram)
 14. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 51/1924, um ríkisskuldabréf.
  Með frumvarpinu er lagt til að lög nr. 51/1924, um ríkisskuldabréf, verði felld brott. Yngri löggjöf á sviði ríkisfjármögnunar hefur leyst lög um ríkisskuldabréf af hólmi og er því talið æskilegt að fella þau brott. Eina efnislega breytingin sem felst í brottfalli laganna er sú að reglan um að ríkis­skuldabréf skuli ekki gefa út til lengri tíma en 25 ára mun falla úr gildi. (Október - lagt fram)
 15. Frumvarp til laga um staðfestingu ríkisreiknings.
  Samkvæmt 58. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, skal ráðherra leggja fram frumvarp á Alþingi til staðfestingar ríkisreikningi. Í greinargerð með frumvarpinu skal fjalla um niðurstöðu­tölur reikningsins og gera grein fyrir frávikum tekna, útgjalda og lánamála frá samþykktum heimildum Alþingis. Í frumvarpinu er einnig áformað að leita staðfestingar á ýmiss konar útfærsl­um í tenglum við gerð stofnefnahagsreiknings. (Október - lagt fram)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2009, um Bankasýslu ríkisins (niður­lagningar­ákvæði).
  Í frumvarpinu verður lögð til endurskoðun á niðurlagningarákvæði laganna. (Október - lagt fram)
 17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/2016, um opinber innkaup (heimild til samningskaupa og sameiginlegra innkaupa).
  Í frumvarpinu verður lögð til breyting á ákvæðum er varða heimild til samningskaupa þegar engin aðgengileg tilboð berast, ákvæðum um innkaup í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins og um lögbundna fresti í samkeppnisviðræðum og efnabætur. Jafnframt verður endurskoðað ákvæði í 10. kafla laganna er varðar starfsemi innkaupastofnunar til að styðja við nýjar áherslur í opinberum innkaupum. (Október - lagt fram)
 18. Frumvarp til laga um Þjóðarsjóð.
  Í samræmi við tillögur sérfræðinganefndar sem þáverandi forsætisráðherra skipaði í febrúar 2017 og samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar verður með frumvarpinu lagt til að komið verði á fót svonefndum Þjóðarsjóði. Sjóðnum verður ætlað að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag. Í þessu skyni verði sjóðnum falið að annast um uppsöfnun á nánar skilgreindum tekjum ríkissjóðs af nýtingu auðlinda, sem til að byrja með væru einkum arð­greiðslur frá Landsvirkjun. Varðandi umbúnað um úthlutanir úr sjóðnum er gert ráð fyrir að það verði ávallt með aðkomu Alþingis á þann hátt að þingið lýsi vilja sínum til samþykkis í þings­ályktunartillögu en veiti síðan lagaheimild í næstu fjárlögum. (Október - lagt fram)
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum (endurskoðun á ákvæðum um sölumeðferð fjármálafyrirtækja).
  Í frumvarpinu verður lögð til endurskoðun á ýmsum ákvæðum, einkum um sölumeðferð eignar­hluta með tilliti til frumskráningar á markað. (Fellt niður)
 20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda (cfc-ákvæði, samsköttun, takmörkun á frádrætti vaxta­gjalda, endanlegt tap, útleiga vinnuafls).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar nauðsynlegar breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, m.a. vegna skattlagningar eignarhalds á lágskattasvæðum auk athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA vegna samsköttunar félaga og heimildar til frádráttar endanlegs taps frá tekjum af atvinnurekstri. Þá er í frumvarpinu að finna tillögu sem samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið án þess þó að koma niður á eðlilegri fjármögnun samstæðna sem ekki beinist að því að takmarka skattgreiðslur vegna brottfalls b-liðar 3. mgr. 57. gr. b laga um tekjuskatt þann 1. janúar 2019, sbr. nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 110 – 3. mál. Þá eru lagðar til breytingar á skattskyldu í tengslum við útleigu á vinnuafli eða annars konar vinnuframlag starfsmanna erlendra aðila hér á landi en þörf er á að útvíkka og skilgreina enn frekar ábyrgð innlendra aðila á skattskilum starfsmanna erlendra aðila vegna vinnu hér á landi, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á 148. löggjafarþing 2017–2018, þingskjal 1149 – 561. mál. (Nóvember - lagt fram)
 21. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (gildisdagsetn­ing­ar, virðisaukaskattskylda alþjóðaflugvalla o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á gildisdagsetningum í virðisaukaskatti í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 1. júní 2018. Þá verða einnig lagðar til breyt­ingar í tengslum við virðisaukaskattskyldu alþjóðaflugvalla o.fl. (Nóvember - lagt fram)
 22. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (eiginfjár­aukar).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum um eiginfjárauka sem kveðið er á um í X. kafla laganna (86. gr. a – 86. gr. f). Með frumvarpinu verður lagður til nýr eiginfjárauki, þ.e. eigin­fjárauki vegna alþjóðlegra mikilvægra fjármálafyrirtækja. Jafnframt verður lagt til að Fjármála­eftirlitið birti stjórnvaldsfyrirmæli um gildi eiginfjárauka á grundvelli 86. gr. b – 86. gr. e í stað þess að teknar séu stjórnvaldsákvarðanir um þá. Einnig verða lagðar til nokkrar breytingar á 86. gr. a – 86. gr. f laganna til viðbótar þannig að ákvæði um eiginfjárauka séu í fullu samræmi við efni 129.–142. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjármálafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Innleiðing. (Nóvember - 31. mars)
 23. Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar.
  Frumvarpið felur í sér að sérlög verða um ökutækjatryggingar í stað þess að hafa kafla um öku­tækjatryggingar í umferðarlögum. Í frumvarpinu verða því lagaákvæði um lögmæltar ökutækja­tryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja auk nýrra ákvæða sem eiga að tryggja enn frekar réttaröryggi vegna tjóna af völdum vélknúinna ökutækja. (Nóvember - lagt fram)
 24. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármála­fyrirtæki (skatthlutfall).
  Með frumvarpinu verður skatthlutfall bankaskatts lækkað í fjórum áföngum, úr 0,376% í 0,145%, á árunum 2020–2023. (Nóvember - 31. janúar)
 25. Frumvarp til laga um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 (Regulation on improving securities settlement in the European Union and on central securities depositories, CSDR) sem er ætlað að bæta verðbréfauppgjör á EES-svæðinu og samræma kröfur sem gerðar eru til starfsemi verðbréfamiðstöðva sem reka verðbréfauppgjörskerfi. Frumvarpið mun enn fremur fela í sér nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignar­skrán­ingu verðbréfa. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (28. febrúar)
 26. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald (ráðstöfun trygg­inga­gjalds).
  Með frumvarpinu er lagt til að fjárveitingu sem samsvarar tekjum af tryggingagjaldi verði ráðstafað til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almanna­trygginga en um aðra ráðstöfun samkvæmt gildandi lögum verði kveðið á um í sérlögum. (31. mars)
 27. Frumvarp til laga um milligjöld.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 751/2015 um milligjöld vegna kortatengdra greiðslna (Regulation on interchange fees for card-based payment transactions, IFR). Í frumvarpinu verður kveðið á um hámark milligjalda vegna notkunar debit- og kreditkorta og er því ætlað að auka gagnsæi og samkeppni á korta­markaði. Unnið er að upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn. Innleiðing. (28. febrúar)
 28. Frumvarp til laga um meðferð ríkisaðstoðarmála.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu breytinga á samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlits­stofnunar og dómstól er varða valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA þegar kemur að eftirliti með ríkisaðstoð. Hliðstæðar breytingar, að því er varðar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB, tóku gildi innan ESB árið 2013. Með frumvarpinu verða lagðar til heimildir um sektir og samstarf við innlenda dómstóla. Jafnframt mun frumvarpið hafa að geyma ákvæði sem nú er að finna í samkeppnislögum, um málsmeðferð ríkisaðstoðarmála. Innleiðing. (31. mars)
 29. Frumvarp til laga um sérleyfissamninga vegna afnota af landi í eigu ríkisins.
  Með frumvarpinu er ætlunin að marka ramma utan um undirbúning, gerð og eftirfylgni með samningum um sérleyfi vegna nýtingar á landssvæðum í eigu ríkisins. (28. febrúar)
 30. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 176/2006, um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli (endurskoðun á ákvæðum um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.).
  Frumvarpið felur í sér breytingu á þeim þáttum sem snúa að Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. og skilgreiningu á þeim svæðum sem varða starfssvæði félagsins og verður unnið í samráði við utanríkisráðuneytið. (Fellt niður)
 31. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum (endurskoðun).
  Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögum um bindandi álit í skattamálum. (28. febrúar)
 32. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs (færslu­gjöld).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs í því skyni að heimila ríkissjóði innheimtu færslugjalda vegna greiðslna með greiðslukorti. (Fellt niður)
 33. Frumvarp til laga um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja.
  Frumvarpið, sem felur í sér heildarlög, er innleiðing á síðari hluta tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB (Bank Recovery and Resolution Directive, BRRD). Með frumvarpinu verður kveðið á um reglur sem varða undirbúning og framkvæmd skilameðferðar og önnur atriði sem tengjast endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu verður kveðið á um ný stjórnvöld eða stjórnsýslueiningar, skilavald og skilasjóð, sem ætlað er að fara með opinbera stjórnsýslu við skilameðferð og fjármögnun skilameðferðar. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 9. febrúar 2018 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018. Innleiðing. (28. febrúar)
 34. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis (ökutæki og eldsneyti).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skattlagningu ökutækja og eldsneytis í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 2018. (31. mars)
 35. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (rekstrarumhverfi fjölmiðla, skattlagning tekna af höfundarréttindum).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á rekstrarumhverfi fjölmiðla í samræmi við tillögur nefndar á vegum menntamálaráðuneytisins um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla frá árinu 2018. Þá er í frumvarpinu gerður greinarmunur í skattalegu tilliti á höfundarlaunum annars vegar og tekjum af höfundaréttindum hins vegar þar sem lagt verður til að hvers konar endurgjald til höfunda og rétthafa fyrir afnot af hugverki, að undanskildum höfundarlaunum, teljist til fjár­magnstekna. (31. mars)
 36. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005 (gjafafríðindi, persónu­upplýs­ing­ar, aðstaða til tolleftirlits, rafræn skil upplýsinga, sektargerðir, leit á mönnum, tollfríð­indi).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga með það fyrir augum að endurskilgreina gjafafríðindi, treysta heimildir tollstjóra til vinnslu og meðferðar persónuupplýs­inga, tryggja aðstöðu til tolleftirlits hjá inn- og útflytjendum, undirbyggja rafræn skil á skýrslum og gögnum og rafrænar greiðslur, einfalda sektargerðir á vettvangi, endurskoða ákvæði um leit á mönnum, endurskilgreina hugtök í 6. og 7. gr. tollalaga, kveða nánar á um réttaráhrif brota gegn skilyrðum tollafríðinda, o.fl. (31. mars)
 37. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (bygginga­starfsemi, almenningssamgöngur o.fl.).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða byggingastarfsemi, almenningssamgöngur o.fl. (31. mars)
 38. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (samstæður, útibú, þjónustu­starfsemi og starfsemi milli landa).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á V. kafla laganna sem fjallar um starfsemi fjármála­fyrirtækja á milli landa og XIII. kafla laganna sem fjallar m.a. um eftirlit á samstæðugrunni. Frum­varpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB um stofnun og starfsemi fjár­málafyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (CRD IV). Með frumvarpinu verða lagðar til breyt­ingar á lagareglum um starfsemi og eftirlit með útibúum og þjónustustarfsemi fjármála­fyrirtækja á EES-svæðinu, starfsemi og eftirlit með útibúum fjármálafyrirtækja utan EES-svæðisins hér á landi, eftirlit á samstæðugrunni, samstarf og upplýsingaskipti eftirlitsaðila. Innleiðing. (Fellt niður)
 39. Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (Alternative Investment Fund Managers Directive, AIFMD). Um er að ræða heildarlög og frumvarpið hefur meðal annars að geyma ákvæði um starfsleyfi sérhæfðra sjóða, vörsluaðila og skipulags- og gagnsæiskröfur. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 30. september 2016, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 202/2016. Innleiðing. (31. mars).
 40. Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2366 (Pay­ment Services Directive, PSD) um greiðsluþjónustu á innri markaðnum og kallar á endurskoðun laga nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu. Samkvæmt tilskipuninni verða bankar að opna fyrir aðgengi nýrra greiðsluþjónustuveitenda að bankaupplýsingum neytenda með samþykki þeirra. Tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Innleiðing. (Fellt niður)
 41. Frumvarp til laga um miðlun og sölu vátrygginga.
  Með frumvarpinu verður lögð til ný heildarlöggjöf um miðlun og sölu vátrygginga, byggð á tilskipun 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga (Insurance Distribution Directive, IDD). Til­gangur frumvarpsins er að vernda hagsmuni neytenda og tryggja að þjónusta þeirra sem miðla og selja vátryggingar sé með sambærilegum hætti. Nýmæli verður að frumvarpið nær einnig til sölu vátrygginga hjá vátryggingafélögum. Ítarlegar kröfur verða gerðar um hæfi og hæfni þeirra aðila sem miðla og selja vátryggingar og skylt verður að veita viðskiptavinum mun meiri upplýsingar en nú tíðkast. Innleiðing. (31. mars)
 42. Frumvarp til laga um markaði fyrir fjármálagerninga.
  Með frumvarpinu, sem felur í sér innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 600/2014 um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II/MiFIR), er lagt til að sett verði ný heildarlög um markaði fyrir fjármálagerninga. Um nokkuð umfangsmikla breytingu er að ræða á gildandi rétti sem kallar á breytingar á m.a. lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og lögum nr. 110/2007, um kauphallir. Innleiðing. (Fellt niður)
 43. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 128/2011, um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á núverandi lögum um verðbréfasjóði, vegna innleið­ingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB (UCITS V). Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn þann 9. febrúar 2018, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018. Innleiðing. (Fellt niður)
 44. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir (endurskoðun heildarlaga).
  Frumvarpið felur í sér samræmingu ákvæða er varða áhættugjald og ábyrgðagjald ásamt nokkrum öðrum atriðum í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar og Ríkisábyrgðasjóðs. (31. mars)
 45. Frumvarp til laga um opinberar framkvæmdir og fasteignaumsýslu ríkisins.
  Með frumvarpinu verður lögð til ný heildarlöggjöf um skipan opinberra framkvæmda og fast­eigna­umsýslu ríkisins (bæði byggingar og land). Frumvarpið mun hafa að geyma ákvæði um hagkvæmnismat, áhættugreiningu og gæðatryggingu auk ákvæða um um fjárfestingaráætlun og breytta skipan stofnana. Frumvarpið mun jafnframt fela í sér breytingu á lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 34/1992, um Jarðasjóð. (31. mars)
 46. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun.
  Samkvæmt 5. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, skal ráðherra leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára hið skemmsta. Fjármálaáætlunin skal byggð á fjármálastefnu skv. 4. gr. og skilyrðum hennar skv. 7. gr. laganna. (31. mars)
 47. Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (breytingar á iðgjaldi).
  Frumvarpið felur í sér breytingar á almennu iðgjaldi í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), í samræmi við breytt reglu- og eftirlitsumhverfi, eignastöðu og vænta ávöxtun af eignum TIF. (28. febrúar)
 48. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt (ríki-fyrir-ríki, skýrsla um skattskil).
  Með frumvarpinu verður brugðist við athugasemdum OECD og skerpt á núgildandi ákvæðum tekjuskattslaga um ríki-fyrir-ríki skýrsluskil, svo sem ákvæðum um fjárhæðarmörk og skilgreiningum hugtaka. Ákvæði um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum byggjast á mikilli samvinnu milli skattyfirvalda þvert á landamæri og því er mikilvægt að regluverk um skil sé samræmt. (28. febrúar)
 49. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátrygginga-starfsemi og lögum um vátryggingasamstæður.
  Með frumvarpinu verða sett ákvæði í lögin sem verða lagastoðir fyrir Fjármálaeftirlitið til að setja reglur um afmörkuð atriði sem byggjast á framkvæmdarreglugerðum framkvæmdastjórnar ESB. Einnig verður skerpt á tilteknum ákvæðum til að gera lagastoð fyrir afleiddum reglum skýrari. (28. febrúar)
 50. Frumvarp til laga um skattlagningu eldsneytis (heildarlög).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á skattlagningu eldsneytis í samræmi við skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra frá 2018). (31. mars)
 51. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs (gjald vegna þinglýsingar með rafrænni færslu).
  Með samþykkt laga um breytingu á þinglýsingalögum, lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu og lögum um aukatekjur ríkissjóðs hinn 14. desember sl. var gert heimilt að þinglýsa með rafrænni færslu. Lögin öðlast gildi 1. mars 2019. Áður en að gildistöku laganna kemur er talið að laga þurfi orðalag 1. mgr. 8. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, sem kveður á um að fyrir þinglýsingu skjala skuli greiða 2.000 kr., til þess að skýrt sé að þinglýsingu með rafrænni færslu muni einnig fylgja gjald að sömu fjárhæð. (28. febrúar)
 52. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins (sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins).
  Í frumvarpinu verða lagðar til þær breytingar á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem nauðsynlegar eru vegna sameiningar Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Þá verða jafnframt lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og á öðrum lögum sem gilda um fjármálastarfsemi til samræmis við áðurnefnda sameiningu og það skipulag sem mun gilda um verkefni sameinaðrar stofnunar. Loks verða lagðar til breytingar á lögum um fjármálastöðugleikaráð vegna breytts hlutverks þess. Frumvarpið verður lagt fram samhliða frumvarpi forsætisráðherra til nýrra heildarlaga um Seðlabanka Íslands og efni frumvarpanna tveggja er nátengt. (31. mars)
 53. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, 90/2003, með síðari breytingum (uppbætur á lífeyri undanþegnar skattlagningu). [Utan þingmálaskrár.] (Nóvember - lagt fram)
 54. Frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um gjaldeyrismál, aflandskrónulosun og bindingarskylda á fjármagnsinnstreymi. [Utan þingmálaskrár.] (Desember - lagt fram)

 

Heilbrigðisráðherrra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar (ákvæði um dvalar- og dagdvalarrými o.fl.).
  Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði ákvæðum í lög um heilbrigðisþjónustu er varða dvalar­heimili og dagdvöl og endurskoðuð ákvæði í lögum um málefni aldraðra. Markmið með breyting­unni er að dagdvöl og dvalarheimili séu úrræði sem standi fólki til boða óháð aldri. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um sjúkratryggingar til samræmingar. Endurflutt. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/2014, um vísindarannsóknir (heimild til að setja reglugerð – gjaldtaka).
  Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vísindarannsóknir verður lagt til að sett verði í lögin reglugerðarheimild sem heimili vísindasiðanefnd að taka gjald fyrir umsóknir um vísinda­rannsóknir samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að veita undanþágur frá gjaldtöku vegna vísindarannsókna námsmanna. (Október - lagt fram)
 3. Frumvarp til laga um þungunarrof.
  Með frumvarpi til laga um þungunarrof verður lagt til að sett verði ný lög sem munu fella úr gildi lög nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemis­aðgerðir. Frumvarpið byggir á niðurstöðum starfshóps sem ætlað var að endurskoða lögin og skiluðu ráðherra skýrslu 1. nóvember 2016 sl. Með frumvarpinu verður lagt til að ný lög um þungunarrof hafi það meginmarkmið að tryggja að sjálfsforræði kvenna sé virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu fyrir þær konur sem óska eftir þungunarrofi eða fósturfækkun af völdum óráðgerðrar þungunar eða af tilteknum læknisfræðilegum ástæðum. (Október - lagt fram)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994 (rýmkaðar heimildir til ávísunar lyfja).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lyfjalögum þess efnis að hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum verði heimilað að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum. Mark­mið frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar að stuðla að betra aðgengi kvenna að kyn­heilbrigðis­þjónustu og hins vegar að nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra innan heilbrigðisþjónustunnar á sviði kynheilbrigðisþjónustu. (Október - lagt fram)
 5. Frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir.
  Með frumvarpi til laga um ófrjósemisaðgerðir verður lagt til að sett verði ný lög sem munu fella úr gildi lög nr. 25/1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Frumvarpið byggir á niðurstöðum starfshóps sem ætlað var að endurskoða lögin og skiluðu ráðherra skýrslu 1. nóvember 2016 sl. Með frumvarpinu verður meðal annars lagt til að aldurstakmark laganna, sem nú er 25 ár, verði fært niður í 18 ár. (Nóvember - lagt fram)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
  Að ósk dómsmálaráðuneytisins tilnefndu ráðuneytin tengiliði í samráðshóp sem hafði það hlutverk að fara yfir ákvæði sérlaga um persónuvernd í því skyni að meta hvaða breytingar kynnu að vera nauðsynlegar vegna innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679 frá 27. apríl 2016 (Almenna persónuverndarreglugerðin). Yfirferð samráðshópsins leiddi í ljós að gera þarf ýmsar efnislegar breytingar á ákvæðum sérlaga. Í frumvarpi til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga (148. löggjafarþing, 622. mál) voru þó eingöngu lagðar til lágmarks­breytingar sem nauðsynlegar eru vegna tilvísana til gildandi laga. Frumvarp þetta felur því í sér efnislega endurskoðun á ákvæðum ýmissa sérlaga sem falla undir málefnasvið heilbrigðisráðherra vegna nýrrar persónuverndarlöggjafar. (28. febrúar)
 7. Frumvarp til lyfjalaga.
  Með nýjum lyfjalögum verða lagðar til breytingar á regluverki lyfjamála m.a. vegna breytinga sem orðið hafa á íslensku heilbrigðiskerfi síðan núgildandi lög tóku gildi sem og vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Meðal þeirra breytinga sem lagðar verða til með frumvarpinu eru flutningur lyfjagreiðslunefndar til Lyfjastofnunar, rýmkun heimilda til að selja lyf utan lyfjabúða og að setja á stofn lyfjanefnd innan Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar. (Febrúar - 31. mars)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar (samningar um heilbrigðisþjónustu og stjórn sjúkratryggingastofnunar).
  Frumvarpinu er ætlað að breyta ákvæðum í IV. kafla laga um sjúkratryggingar sem fjalla um samninga um heilbrigðisþjónustu. Enn fremur er frumvarpinu ætlað að breyta þeim ákvæðum II. kafla laganna sem fjalla um stjórn sjúkratryggingastofnunar og hlutverk stjórnarinnar. (Fellt niður)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu (kvartanir og eftirlitsmál).
  Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laga um landlækni og lýðheilsu sem snúa að kvörtunum vegna heilbrigðisþjónustu. Breytingarnar lúta að því að skýra nánar heimildir til að kvarta til Embættis landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu, tilgang ákvæðanna sem og málsmeðferð í kvörtunarmálum. (31. mars)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir (EES-reglur).
  Með frumvarpinu verður lagt til að gerð verði breyting á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, til að innleiða að mestu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2014/40/ESB frá 3. apríl 2014 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði bann við tóbaki með einkennandi bragði sem og tilteknum aukefnum í tóbaksvörum. Einnig er lagt til að settar verði reglur um jurtavörur til reykinga, sbr. 21. gr. fyrrgreindrar tilskipunar. Innleiðing. (Fellt niður)
 11. Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu.
  Með tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu er leitast við að móta skýra og markvissa heilbrigðisstefnu þar sem lögð verður áhersla á jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu fólks, og á skynsamlega nýtingu almannafjár. Í framhaldi af heilbrigðisstefnunni verða gerðar aðgerðaáætlanir þar sem verkefnum verður forgangsraðað. Heilbrigðisstefna og aðgerða­áætlanir verða nýttar sem verkfæri í skipulagningu og fjárlagagerð velferðarráðuneytisins. (31. mars)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni (neyslurými). 
  Tilgangurinn með frumvarpinu er að bæta við ákvæði sem heimili rekstur og starfsemi neyslurýma en svo það sé unnt verður að setja undanþáguheimild frá ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni sem banna vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna á íslensku forráðasvæði. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar 18 ára og eldri, undir handleiðslu heilbrigðisstarfsmanna, geta tekið vímuefni um æð á öruggan hátt þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Neyslurými lúta hugmyndafræði skaðaminnkunar sem felst í því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna án þess endilega að draga úr vímuefnanotkun, en fjöldi fólks heldur áfram að nota vímuefni þrátt fyrir viðleitni samfélagsins til að fyrirbyggja notkun vímuefna. (28. febrúar)

 

Mennta- og menningarmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um stuðning við bókaútgáfu á íslensku.
  Frumvarpið felur í sér heimild til endurgreiðslu hluta framleiðslukostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka hér á landi. Meginmarkmið frumvarpsins er að styðja við og efla innlenda bókaútgáfu í ljósi mikilvægis hennar fyrir vernd íslenskrar tungu, eflingu læsis o.fl. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um þátttöku Íslands í Samtökum um evrópska rannsóknainnviði (ERIC - European Research Infrastructure Consortium).
  Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2015 frá 20. mars 2015 var tekin upp í EES-samninginn reglugerð ráðsins (EB) nr. 723/2009 frá 25. júní 2009 um lagaramma Evrópu­sambandsins um samtök um evrópska rannsóknainnviði (ERIC). Umrædd gerð var tekin upp í bókun 31 við EES-samninginn, sem mælir fyrir um samvinnu utan fjórþætta frelsisins. Vald­heim­ildir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) ná ekki til þeirrar bókunar. Með frumvarpinu er leitast við að skapa lagagrundvöll fyrir þátttöku Íslands í ERIC. Innleiðing. (Nóvember - 31. janúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010, um viðurkenningu á menntun og hæfi til starfa hér á landi (evrópskt fagskírteini, vinnustaðanám o.fl.).
  Frumvarpið varðar innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/55/EB um breytingu á tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 frá 5. maí 2017. Í frum­varpinu er mælt fyrir um upptöku evrópsks fagskírteinis til auðvelda frjálsa för starfsmanna og viðurkenningu faglegrar menntunar yfir landamæri, veitingu takmarkaðrar viðurkenningar, upp­setn­ingu þjónustumiðju fyrir lögverndaðar starfsgreinar, samræmdar menntunarkröfur og lokapróf, viðurkenningu vinnustaðanáms yfir landamæri og rýni á þörfinni fyrir lögverndun. Innleiðing. (Nóvember - 31. mars)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2003, um opinberan stuðning við vísinda­rannsóknir (samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana og sjálfstæð stjórn Innviða­sjóðs).
  Frumvarpinu er ætlað að liðka fyrir möguleikum á samfjármögnun Rannsóknasjóðs á alþjóðlegum rannsóknaráætlunum til að tryggja að íslenskir vísindamenn hafi aðgang að slíkum áætlunum. Þá er mikilvægt fyrir stefnumótandi hlutverk Innviðasjóðs að yfir honum sé sjálfstæð stjórn sem ekki er jafnframt stjórn Rannsóknasjóðs þar sem eðli þessara tveggja sjóða er um margt ólíkt.
  (Nóvember - lagt fram)
 5. Frumvarp til laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar og netafnot tónlistar yfir landamæri.
  Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/26/ESB um sam­eiginlega umsýslu höfundaréttar og skyldra réttinda og leyfisveitingar yfir landamæri vegna net­notkunar á tónverkum á innri markaðnum. Í frumvarpinu er mælt fyrir um samræmdar reglur um stjórnhætti samtaka rétthafa höfundarréttar, gagnsæi starfsreglna slíkra samtaka og fjármála­skipulag þeirra. Í öðru lagi er í frumvarpinu mælt fyrir um samræmdar reglur um fjölþjóðleg leyfi sem veitt verða af rétthafasamtökum um afnot af tónlist á netinu í þeim tilgangi að tryggja aukið framboð slíkrar þjónustu. Innleiðing. (Nóvember - 31. mars)
 6. Frumvarp til sviðslistalaga.
  Frumvarpið felur í sér rammalöggjöf um sviðlistastarfsemi, þar með talið Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn, auk sviðslistaráðs og sviðslistasjóðs. Endurflutt – áður lagt fram á 140. og 141. löggjafarþingi. (Nóvember - 31. janúar)
 7. Frumvarp til laga um samskiptafulltrúa íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar.
  Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði tímabundið til starfs samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Markmiðið er að íþrótta- og æskulýðsstarf sé öruggt umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþróttir eða tómstundir í öruggu umhverfi og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldi sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar. Einnig er lagt til að bæta við ákvæði í íþróttalög þar sem m.a. er mælt fyrir um að óheimilt verði að ráða einstaklinga til starfa hjá íþróttafélögum eða þiggja framlag þeirra sem sjálfboðaliða hafi þeir hlotið refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum kynferðisbrota­kafla almennra hegningarlaga. (Nóvember - lagt fram)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skóla­stjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla (framsal leyfisveitinga o.fl.).
  Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra verði heimilt að fela þar til bæru stjórnvaldi útgáfu leyfis­bréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Þá er einnig lögð til breyting til að skýra heimild um gildissvið leyfisbréfa gagnvart næsta skólastigi.
  (Nóvember - 31. mars)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2011, um fjölmiðla (stuðningur við rekstur einkarekinna fjölmiðla).
  Frumvarpið felur í sér ýmsar aðgerðir sem ætlað að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla, enda hafi þeir hlutverki að gegna í samfélaginu við að efla samfélagslega umræðu, tjáningarfrelsi og lýðræðisþátttöku almennings með miðlun frétta, fréttatengds efnis og um samfélagsmál. (28. febrúar)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 91/2007, um bókmenntir (greiðslur vegna afnota bóka á bókasöfnum).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um greiðslur fyrir afnot bóka á bókasöfnum. (Fellt niður)
 11. Frumvarp til laga um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markað­inum.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnisveituþjónustu á netinu yfir landamæri á innri markaðnum, sem miðar að því að fjarlægja hindranir á því að neyt­endur geti notið þjónustu frá efnisveitum, sem þeir eru áskrifendur að, eða geti fengið aðgang að efni, sem þeir hafa áður keypt eða leigt í heimalandi sínu, þegar þeir ferðast í til annarra EES-aðildarríkja. Innleiðing. (28. febrúar)
 12. Frumvarp til laga um lýðskóla.
  Á 145. löggjafarþingi samþykkti Alþingi þingsályktun um lýðháskóla, nr. 41/145, þar sem mennta- og menningarmálaráðherra var falið að hefja vinnu við gerð frumvarps til almennrar lög­gjafar um lýðháskóla á Íslandi. Í ljósi þess að heitið „háskóli“ er lögverndað fyrir þær stofnanir sem hafa hlotið viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðherra skv. 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, er lagt til að notað verði heitið „lýðskóli“. Frumvarpið fjallar um lagalega stöðu lýðskóla í íslensku skólakerfi, viðurkenningu og ábyrgð á starfsemi þeirra. (31. mars)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (aðgengi lestrarhamlaðra að útgefnu efni – Marakess-samningur).
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um sérstök leyfileg afnot verka og annars efnis verndað af höfundarétti og skyldum réttindum í þágu einstaklinga sem eru blindir, sjónskertir eða geta ekki fært sér prentað mál í nyt, sem felur í sér innleiðingu á svonefndum Marakess-samningi um aðgengi sjónskertra að útgefnu efni frá 27. júní 2013 og breytir tilskipun 2001/29/EB um samræmingu á tilteknum þáttum höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu, felur í sér að gera þarf tilteknar breytingar á höfundalögum. Innleiðing. (Fellt niður)
 14. Tillaga til þingsályktunar um íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.
  Lagt er til að Alþingi álykti um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Gerð verði aðgerðaáætlun á því sviði með víðtæku samráði. Allir sem eru búsettir á Íslandi skuli eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi, sbr. lög nr. 61/2011, um íslenska tungu og íslenskt táknmál. Framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð og unnið að því markmiði samkvæmt verkáætlun um máltækni fyrir íslensku 2018–2022, sbr. áherslur þar um í fjármálaáætlun til 2022 og brautargengi þess verði tryggt til framtíðar. (Október - lögð fram)
 15. Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum skólaárin 2010–2011 til 2015–2016.
  (28. febrúar)
 16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum (afnám ábyrgða ábyrgðarmanna á námslánum við andlát ábyrgðarmanna). 
  Með frumvarpinu er felldar niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum við andlát ábyrgðarmanna. (28. febrúar)

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum (stjórnvalds­sektir).
  Frumvarpið mælir fyrir um sektarheimildir sem viðurlög en lögin heimila einungis íþyngjandi úrræði að undangengnum dómi sem leitt hefur til mikilla vandkvæða við framfylgd þeirra, bæði hjá Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands. Endurflutt. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.
  Frumvarpið lýtur að því að tryggja rétta framkvæmd við ákvörðun matsverðs fasteigna. Með frum­varpinu er bætt við ítarlegri skilgreiningu á heimildum Þjóðskrár Íslands til aðgangs að gögnum við ákvörðun matsverðs fasteigna. (September - lagt fram)
 3. Frumvarp til umferðarlaga.
  Markmið með nýju frumvarpi til umferðarlaga er m.a. að færa ákvæði eldri laga í nútímalegra horf, búa til lagabálk sem er ítarlegri og skilvirkari en gildandi umferðarlög, skýra óskýr ákvæði laganna og hafa við þá vinnu öryggissjónarmið og bætta umferðarmenningu að leiðarljósi.
  (September - lagt fram)
 4. Frumvarp til laga um póstþjónustu.
  Ný lög um póstþjónustu – innleiðing þriðju tilskipunar ESB um afnám einkaréttar ríkisins á sviði póstþjónustu. (September - lagt fram)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun.
  Ábendingar hafa komið fram um þörf á endurskoðun laga um svæðisbundna flutningsjöfnun. M.a. hefur komið í ljós að sjóðurinn nýtir ekki þær fjárheimildir sem Alþingi hefur ákvarðað vegna þröngra reglna í lögunum. Þá er bent á að margvísleg svið eru undanskilin stuðningi, t.d. græn­metis­framleiðsla. Þá hefur verið rætt um stuðning við verslun í dreifbýli. Lögin eru tímabundin til ársloka 2020. (September - lagt fram)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
  Markmið frumvarpsins er að leggja til þær lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum til að ná því markmiði sem felst í nýjum persónuverndarlögum. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að vinnsla persónuupplýsinga hjá þeim stofnunum sem getið er í frumvarpi þessu byggi á viðhlítandi lagastoð. Ekki er um að ræða útvíkkun á núverandi verkefnum stofnana.(September - lagt fram)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga (hafnsaga).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vaktstöð siglinga að því er varðar hafnsögu. Lög og reglugerðir eru mjög fámálar um hafnsögu. Lagt er til að gerðar verði nauðsyn­legar breytingar á lögum sem mæli fyrir um hafnsögu með það að markmiði að framkvæmd hennar, skírteinaútgáfa og undanþágur séu samræmdar. (September - lagt fram)
 8. Frumvarp til laga um net- og upplýsingaöryggi – NIS.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun 2016/1148/EB, svokallaðri NIS tilskipun. Gildissvið fyrirhugaðrar löggjafar er vítt og nær til orkuveitna, flutninga, bankaþjónustu, fjármálamarkaða, heilbrigðisþjónustu, vatnsveitna og stafrænna grunnvirkja. Að auki falla veitendur stafrænnar þjónustu undir gildissviðið en þar er átt við netmarkaði, leitarvélar á netinu og aðila sem veita skýjaþjónustu. Þá mun frumvarpið fela í sér heildarlöggjöf um net- og upplýsingaöryggi og þörf er á að færa tiltekin ákvæði sem nú eru í fjarskiptalögum inn í frumvarpið. (Október - lagt fram)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, og lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála (afnám gagnageymdar o.fl.).
  Frumvarp unnið af nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis sem skipuð var af forsætisráðherra m.a. til að fara yfir fyrirliggjandi lagafrumvörp frá stýrihópi sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Lagt er til að afnumin verði ákvæði um lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda. (Fellt niður)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti (EES-innleiðing „samlegðaráhrifatilskipunin“).
  Frumvarpið varðar innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/61/EB. Um er að ræða reglur um samnýtingu jarðvegsframkvæmda á sviði fjarskipta-, raforku- og veitukerfa. Megin­markmið tilskipunarinnar snúa að því að draga úr kostnaði við uppbyggingu háhraða fjarskipta­neta. Gera þarf m.a. breytingu á fjarskiptalögum nr. 81/2003. (28. febrúar)
 11. Frumvarp til laga um skráningu einstaklinga.
  Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um skráningu einstaklinga sem koma eiga í stað laga nr. 54/1962, um þjóðskrá og almannaskráningu. Núgildandi lög eru ekki í takt við núverandi samfélagsgerð og tæknibreytingar undanfarinna áratuga. (28. febrúar)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga (endur­skoðun reglu­verks Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga).
  Í frumvarpinu verðar útfærðar breytingar á ákvæðum tekjustofnalaganna um Jöfnunarsjóð sveitar­félaga sem byggja á niðurstöðum nefndar sem falið var að leggja fram tillögur um fyrirkomulag nýrra aðferða hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um úthlutun framlaga. (Fellt niður)
 13. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjármálakafli o.fl.).
  Í frumvarpinu verða útfærðar breytingar á fjármálakafla sveitarstjórnarlaga eftir því sem þörf verður talin á við endurskoðun hans. Jafnframt aðrar breytingar sem taldar eru nauðsynlegar. (Fellt niður)
 14. Frumvarp til laga um gjaldtöku í samgöngum.
  Frumvarp til að fylgja eftir stefnu um framtíðarfjármögnun vegakerfisins. (31. mars)
 15. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2019–2023.
  Ráðherra hefur falið samgönguráði að stilla upp nýrri fimm ára samgönguáætlun. (September - lögð fram)
 16. Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2019–2033.
  Ráðherra hefur falið samgönguráði að stilla upp nýrri fimmtán ára samgönguáætlun. (September - lögð fram)
 17. Tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun 2019–2023.
  Áætlun/stefna sem nær til fjarskipta, póstmála, netöryggismála og málefna Þjóðskrár Íslands. (Október - lögð fram)
 18. Tillaga til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun 2019–2033.
  Áætlun/stefna sem nær til fjarskipta, póstmála, netöryggismála og málefna Þjóðskrár Íslands. (Október - lögð fram)
 19. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir.
  Frumvarpinu er ætlað að efla varnaðaráhrif ákvæða laga sem snúa að flug- og siglingavernd og tryggja úrræði til að bregðast við brotum gegn þeim ákvæðum. (31. mars)

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (krafa um vald á íslensku).
  Frumvarpið felur í sér breytingu á 6. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Lagt er til að skilyrði þess að dýralæknar í opinberum störfum skuli hafa vald á íslenskri tungu sé breytt þannig að það verði ekki skilyrðislaus krafa heldur verði kveðið á um það í reglugerð í hvaða tilvikum nauðsynlegt er að dýralæknar í opinberum störfum hafi vald á íslenskri tungu. Breytingin er lögð til vegna skorts á íslenskum dýralæknum til að sinna lögbundnum verkefnum Matvæla­stofnun­ar en umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um ráðningu erlendra dýralækna til starfa hjá stofnuninni í máli nr. 9510/2017. Þá tekur breytingin mið af ákvæðum laga nr. 105/2014, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 27/2011, um útflutning hrossa (gjald í stofn­verndarsjóð íslenska hestsins).
  Frumvarpið felur í sér breytingu á 6. gr. laga nr. 27/2011, um útflutning hrossa, þar sem gjald af hverju útfluttu hrossi sem greitt er í stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins verði hækkað. (September - lagt fram)
 3. Frumvarp til laga um veiðigjald.
  Gildandi lög nr. 74/2012, um veiðigjald, falla úr gildi í lok ársins 2018 og er því nauðsynlegt að endurnýja þau. Unnið hefur verið að þeirri endurskoðun í tíð núverandi ríkisstjórnar til samræmis við áherslur í stjórnarsáttmála. (September - lagt fram)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi o.fl. (áhættumat erfða­blöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.)
  Haustið 2017 skilaði starfshópur um fiskeldi tillögum til ráðherra og var unnið frumvarp til laga á grundvelli þeirra tillagna sem kynnt var almenningi og síðan lagt með nokkrum breytingum fyrir 148. löggjafarþing en varð ekki útrætt. (Nóvember - 28. febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993 (breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar)
  Gert er ráð fyrir að gerðar verði breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar fyrir áramót í kjölfar samningaviðræðna Bændasamtaka Íslands og ríkisins. Frumvarpið mun fela í sér breytingar á ákvæðum búvörulaga í samræmi við niðurstöðu viðræðnanna og einnig verður kveðið á um tæknilegar lagfæringar vegna framkvæmdar við búvörusamninga. (Nóvember - 28. febrúar)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma (innflutningur á hráum kjötvörum o.fl.).
  Undanfarna mánuði hafa íslensk stjórnvöld unnið markvisst að því að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins frá 14. nóvember 2017. Forsagan er sú að eftirlitsstofnun EFTA vísaði tveimur málum til EFTA-dómstólsins varðandi reglur um innflutning á hráum kjötvörum og vörum úr eggjum og mjólk. EFTA-dómstóllinn kvað á um í dómi sínum að ákvæði íslenskra laga brjóti gegn skuldbind­ingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. (28. febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (stjórn veiða á grá­sleppu).
  Starfshópur vinnur að því að fara yfir reynsluna af stjórnkerfi grásleppuveiða með það fyrir augum að tryggja betur framkvæmd ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og auka möguleika á hagkvæmni í rekstri. Gera má ráð fyrir að tillögur nefndarinnar liggi fyrir haustið 2018 og geti leitt til tillagna um breytingar á lögum. (Febrúar - 31. mars)
 8. Frumvarp til laga um gjaldtöku vegna nýtingar á eldissvæðum í sjó.
  Frumvarpið felur í sér löggjöf um ákvörðun, álagningu og innheimtu gjalds vegna nýtingar á eldissvæðum í sjó við strendur landsins. Frumvarið tekur að stærstum hluta mið af tillögum starfs­hóps um stefnumótun í fiskeldi frá því í ágúst 2017. (28. febrúar)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að styrkja traust og skilvirkt eftirlit með nýtingu auðlinda sjávar. (Fellt niður)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða (strandveiðar).
  Til stendur að setja á fót starfshóp til að fara m.a. yfir reynslu af stjórnfyrirkomulagi strandveiða. Mögulegt er að í framhaldi verði lagðar til breytingar á 6. gr. a. laga um stjórn fiskveiða. (31. mars) 
 11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði (selveiðar).
  Lagt er til að lögfest verði ákvæði um að ráðherra geti með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða, og bannað eða takmarkað selveiðar um allt land eða á tilteknum svæðum ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsókna-stofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna. (31. mars)
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Matvælastofnun, nr. 30/2018, og búvörulögum, nr. 99/1993.
  Með frumvarpinu er lagt til að ákveðin verkefni er varða framkvæmd búvörusamninga verði flutt frá Matvælastofnun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Markmiðið er að sameina stjórnsýslu vegna búvörusamninga á einn stað. (28. febrúar)
 13. Frumvarp til laga á breytingu á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi (rekstrarleyfi til bráðabirgða).
  [Utan þingmálaskrár.] (Október - lagt fram)

 

Umhverfis- og auðlindaráðherra

 1. Frumvarp til laga um skóga og skógrækt.
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um skógrækt, en gildandi lög eru lög nr. 3/1955, um skógrækt, og lög nr. 95/2006, um skógrækt á lögbýlum. Frumvarpið byggist m.a. á greinargerð starfs­hóps sem skilað var 2012 og víðtækri endurskoðun á málaflokknum. Endurflutt, að mestu óbreytt. (September - lagt fram)
 2. Frumvarp til laga um landgræðslu.
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um landgræðslu, en gildandi lög eru lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti. Frumvarpið byggist m.a. á greinar­gerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endurskoðun á málaflokknum. Endurflutt, að mestu óbreytt. (September - lagt fram)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum (EES-reglur, stjórnvaldssektir o.fl.).
  Um er að ræða innleiðingu á tilskipun 2014/52/ESB sem breytir tilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum. Þau nýmæli sem er að finna í tilskipuninni og kalla á breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum eru m.a. eftirfarandi: eftirfylgni með ákvæðum í framkvæmdaleyfum um mótvægisaðgerðir og vöktun, umhverfismat framkvæmdar þarf að vera í fullu gildi við útgáfu framkvæmdaleyfis, ákvæði um upplýsingaskyldu til almennings, kröfur um sérfræðiþekkingu við gerð og yfirferð matsskýrslu, stjórnvaldssektir og ákvæði er varða hagsmunaárekstra þegar sami aðili er leyfisveitandi og framkvæmdaaðili. Endurflutt með breytingum. Innleiðing. (Nóvember - 31. janúar)
 4. Frumvarp til laga um stofnun um verndarsvæði.
  Í frumvarpinu er lagt til að komið verði á fót stofnun um verndarsvæði sem tæki við verkefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, þjóðgarðsins á Þingvöllum og verkefna á sviði náttúruverndar á vegum Umhverfisstofnunar. Stofnunin myndi því fara með umsjón með rekstri þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra náttúruverndarsvæða í landinu en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarðsins og er stefnt að því að efla aðkomu heimamanna að stjórnun verndarsvæða. Jafnframt að efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu, faglega getu og ná fram skilvirkari nýtingu fjármuna sem varið er til starfsemi á sviði náttúruverndar.    
  (Nóvember - 28. febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunar­varnir, og lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs (stjórnvalds­sektir o.fl.).
  Lagt til að stjórnvöld hafi heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um holl­ustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs. Með frumvarpinu verða einnig gerðar ýmsar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, s.s. samþætting á skilum rekstraraðila á umhverfisupplýsingum, afmörkun á undanþáguheimild ráðherra, heimild útgefanda starfsleyfis að framlengja tímabundið starfsleyfi á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, endurskoðun á starfsemi sem fellur undir lögin og lagfæringar á orðalagi. Endurflutt að hluta. (Desember - 31. janúar)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunar­varnir, og lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs (EES-reglur).
  Með frumvarpinu verður innleidd tilskipun 2015/720 um aðgerðir til þess að draga úr notkun á plastpokum. Lagt verður til að óheimilt verði að afhenda burðarpoka úr plasti án endurgjalds og að gjaldið þurfi að koma fram á kassakvittun. Innleiðing. (Desember - 31. janúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðu­föllum og lögum nr. 160/2010, um mannvirki (innheimta ofanflóðagjalds og bygginga­öryggisgjalds).
  Í frumvarpinu er lagt til að innheimta ofanflóðagjalds og byggingaöryggisgjalds verði færð til Inn­heimtumanns ríkissjóðs og samtímis verði viðeigandi vald- og upplýsingaheimildir settar í lög til að tryggja forsvaranlega innheimtu þessara gjalda. (Fellt niður)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á efnalögum, nr. 61/2013 (EES-reglur, Minamata alþjóða­samningur, ýmsar lagfæringar o.fl.).
  Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum nr. 61/2013. Breytingarnar eru tilkomnar vegna fullgildingar á Minamata alþjóðasamningnum um að draga úr notkun kvikasilfurs, breytinga á reglugerðum ESB auk ýmissa lagfæringa á lögunum í ljósi reynslunnar. Innleiðing. (28. febrúar).
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd (almannaréttur, inn­flutn­ingur framandi tegunda o.fl.).
  Um er að ræða breytingar vegna tveggja ákvæða til bráðabirgða við lögin þar sem kveðið er á um endurskoðun þeirra kafla laganna er fjalla annars vegar um almannarétt og hins vegar um inn­flutning framandi lífvera. Að auki eru lagðar til breytingar á öðrum ákvæðum laganna í ljósi þeirrar reynslu sem komin er frá gildistöku þeirra haustið 2015. (31. mars)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál (loftslagsráð o.fl.).
  Í frumvarpinu verður í fyrsta lagi kveðið á um loftslagsráð, hlutverk þess og skipan, en Alþingi samþykkti með þingsályktun í júní 2016 að sett yrði á fót sérstakt loftslagsráð sem yrði stjórn­völd­um til aðhalds með ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir í loftslagsmálum. Í öðru lagi verður með frumvarpinu innleidd tilskipun ESB 2018/410 um aukningu á samdrætti í losun á kostnaðar­hagkvæman hátt og lágkolefnisfjárfestingar sem breytir tilskipun 2003/87/EB um viðskipta­kerfi ESB með losunarheimildir. Í þriðja lagi verður lögð til breyting á fyrirkomulagi við loftslags­bókhald. Í frumvarpinu verður einnig lögð til breyting á ákvæðum laganna um loftslagssjóð (IX. kafli) sem fyrirhugað er að setja á stofn 2019. Innleiðing. (28. febrúar)
 11. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár.
  Samkvæmt 34. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd, leggur ráðherra fram tillögu til þingsálykt­unar um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár til fimm ára. Um er að ræða tillögu um skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi ákveður að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og skal ráðherra byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætluninni. (Fellt niður)
 12. Tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.
  Tillaga lögð fram í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. (31. mars)

 

Utanríkisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið.
  Frumvarpinu verður ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á lögum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. (28. febrúar)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands.
  Með frumvarpinu eru gerðar breytingar er m.a. lúta að forstöðu í sendiskrifstofum Íslands erlendis. (31. mars)
 3. Frumvarp til laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.
  Heildarendurskoðun á ákvæðum gildandi löggjafar um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, m.a. til að mæta kröfum Financial Action Task Force (FATF). (31. mars)
 4. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu rammasamkomulags milli Grænlands/Dan­merk­ur, Íslands og Noregs um verndun loðnustofnsins og stjórnun veiða úr honum.
  (Október - 31. janúar)
 5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/59/ESB frá 15. maí 2014 sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja og um breytingu á tilskipun ráðsins 82/891/EBE og tilskipunum 2001/24/EB, 2002/47/EB, 2004/25/EB, 2005/56/EB, 2007/36/EB, 2011/35/ESB, 2012/30/ESB og 2013/36/ESB og reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010 og (ESB) nr. 648/2012. (Október - lögð fram)
 6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2018 um breytingu á XI. viðauka (rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upp­lýsinga­samfélagið) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenn­ingu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB. (Október - lögð fram)
 7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2018 um breytingu á XXII. viðauka (félagaréttur) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/56/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2006/43/EB um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikningsskila.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 537/2014 frá 16. apríl 2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum og niðurfellingu á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/909/EB. (Október - lögð fram)
 8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2018 um breytingu á XVII. viðauka (hugverkaréttindi) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1128 frá 14. júní 2017 um flytjanleika efnis­veitu­þjónustu á Netinu yfir landamæri á innri markaðnum. (28. október)
 9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upp­lýsinga­samfélagið) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/61/ESB frá 15. maí 2014 um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða rafrænum fjarskiptanetum. (Október - lögð fram)
 10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2018 um breytingu á XI. viðauka (Rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upp­lýsinga­samfélagið) við EES-samninginn.
  Ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/899 frá 17. maí 2017 um notkun tíðnisviðsins 470–790 MHz í Sambandinu. (Október - lögð fram)
 11. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.
  Endurflutt. (28. febrúar)
 12. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Ekvadors.
  (28. febrúar)
 13. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2018 um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/14/ESB frá 21. maí 2013 um breytingu á tilskipun 2003/41/EB um starfsemi og eftirlit með stofnunum sem sjá um starfstengdan lífeyri, tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) og tilskipun 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða að því er varðar oftraust á lánshæfismöt.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/91/ESB frá 23. júlí 2014 um breytingu á tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um verðbréfasjóði (UCITS) að því er varðar störf vörsluaðila, starfskjarastefnu og viðurlög. (31. mars)
 14. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 63/2018 um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Framseld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/438 frá 17. desember 2015 um viðbætur við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB að því er varðar skyldur vörsluaðila.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/1212 frá 25. júlí 2016 um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar staðlaðar málsmeðferðir og form fyrir framlagn­ingu upplýsinga í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/65/EB. (31. mars)
 15. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 frá 17. apríl 2013 um evrópska áhættu­fjármagnssjóði.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 346/2013 frá 17. apríl 2013 um evrópska félags­lega framtakssjóði.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 593/2014 frá 3. júní 2014 um tækni­lega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 345/2013 um evrópska áhættufjármagnssjóði.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 594/2014 frá 3. júní 2014 um tækni­lega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga samkvæmt 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 346/2013 um evrópska félagslega framtakssjóði. (31. mars)
 16. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2018 um breytingu á IX. viðauka (fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breytingu á tilskipunum 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlitsstofnunar­innar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin). (28. febrúar)
 17. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands og landbúnaðarsamningi milli Íslands og Tyrklands.
  (28. febrúar)
 18. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (flutningar) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/352 frá 15. febrúar 2017 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og um sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. (Felld niður)
 19. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á V. viðauka (frjáls för launþega) við EES-samninginn.
  Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/716 frá 11. maí 2016 um niður­fellingu framkvæmdarákvörðunar 2012/733/ESB um framkvæmd reglugerðar Evrópuþings­ins og ráðsins (ESB) nr. 492/2011 að því er varðar afgreiðslu atvinnutilboða og atvinnuumsókna og endurreisn EURES-netsins.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/589 frá 13. apríl 2016 um vinnumiðlunarnet Evrópu (EURES-netið), aðgang launafólks að þjónustu vegna hreyfanleika og frekari samþættingu vinnumarkaða, og breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 492/2011 og (ESB) nr. 1296/2013.    (Felld niður)
 20. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (flutningar) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu og niðurfellingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008. (Felld niður)
 21. Tillaga til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.
  Stefna stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fimm ára (2019–2023) í samræmi við 5. gr. laga nr. 121/2008 þar sem fram koma markmið og áherslur í málaflokknum. Stefnunni mun fylgja umsögn þróunarsamvinnunefndar auk aðgerðaáætlunar til tveggja ára (2019–2020). Í samræmi við 9. gr. sömu laga mun skýrsla um framkvæmd stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands verða lögð fram sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni.
  (Nóvember - lögð fram)
 22. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samninga við Bretland vegna útgöngu þeirra úr EES (réttindi borgaranna og hugsanlega önnur útgönguatriði).
  Staðfesting samninga sem gerðir verða í tengslum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. (Felld niður)
 23. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2018.
  Árlegur samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (Nóvember - 31. janúar)
 24. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XVII. viðauka (hugverkaréttindi) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðar­upplýs­inga um sérþekkingu og viðskipti (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra. (Felld niður)
 25. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 258/2018 um breytingu á XVIII. viðauka (öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafn­rétti kynjanna) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/1794 frá 6. október 2015 um breytingu á tilskip­unum Evrópuþingsins og ráðsins 2008/94/EB, 2009/38/EB og 2002/14/EB og tilskipunum ráðsins 98/59/EB og 2001/23/EB, um farmenn. (28. febrúar)
 26. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (orka) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1228/2003.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas og um niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 1775/2005.
  Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 543/2013 frá 14. júní 2013 um afhendingu og birtingu gagna á raforkumörkuðum og um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu tilskipunar 2003/54/EB.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/73/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 2003/55/EB.
  Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 10. nóvember 2010 um breytingu á 3. kafla I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutnings­kerf­um fyrir jarðgas.
  Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 24. ágúst 2012 um breytingu á I. viðauka við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 715/2009 um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum fyrir jarðgas.
  Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 16. maí 2011 um niðurfellingu ákvörðunar 2003/796/EB um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi. (28. febrúar)
 27. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2019.
  Árlegur samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu. (28. febrúar)
 28. Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál.
  (30. apríl)
 29. Frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008 (öryggissvæði við Gunnólfsvík).
  Frumvarpið felur í sér endurskilgreiningu á mörkum öryggissvæða. (31. mars)
 30. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/97 frá 20. janúar 2016 um sölu vátrygginga (endurútgefin).
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/411 frá 14. mars 2018 um breytingu á tilskipun (ESB) 2016/97 að því er varðar hvaða dag lögleiðingarráðstafanir aðildarríkjanna koma til framkvæmda. (28. febrúar)
 31. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 242/2018 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/720 frá 29. apríl 2015 um breytingu á tilskipun 94/62/EB að því er varðar að draga úr notkun á þunnum burðarpokum úr plasti. (28. febrúar)
 32. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1129 um lýsingu sem birta skal við útboð verðbréfa á almennum markaði eða þegar þau eru tekin til viðskipta og um niðurfellingu á tilskipun 2003/71/EB. (28. febrúar)
 33. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.
  Samningur milli Íslands og níu annarra samningsaðila sem undirritaður var í Ilulisat á Grænlandi 3. október 2018. (31. mars)
 34. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 909/2014 um bætt verðbréfauppgjör í Evrópusambandinu og um verðbréfamiðstöðvar og um breytingu á tilskipunum 98/26/EB og 2014/65/ESB og reglugerð (ESB) nr. 236/2012. (28. febrúar)
 35. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/751 um milligjöld fyrir kortatengdar greiðslur. (28. febrúar)

 

Eldri Þingmálaskrár ríkisstjórna er að finna á vef Alþingis

Síðast uppfært: 11.09.2018
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira