Hoppa yfir valmynd
3. september 2025 Forsætisráðuneytið

Einarður stuðningur NB8-ríkjanna við Úkraínu á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn

Mette Frederiksen, Kristrún Frostadóttir og Volodímír Selenskí. - myndMynd: Skrifstofa forseta Úkraínu

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í fundi leiðtoga Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, NB8-ríkjanna svokallaðra, með Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta í Kaupmannahöfn, í boði Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur.

„Á fundinum í dag var alger eining og samstaða meðal NB8-ríkjanna um áframhaldandi og aukinn stuðning við Úkraínu í varnarbaráttu sinni,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætiráðherra.

„Við sem funduðum í dag með Úkraínuforseta erum á meðal helstu stuðningsríkja Úkraínu. Við teljum afar mikilvægt að sýna slíka samstöðu á þessum tímapunkti. Það er brýnt að auka enn frekar þrýsting á Rússa, t.d. með þvingunaraðgerðum. Við megum ekki gleyma því að á meðan við ræðum forsendur fyrir friði halda Rússar áfram stríðsrekstri sínum með eldflauga- og drónaárásum á almenna borgara og borgaralega innviði,“ segir forsætisráðherra.

„Þessi staða er ótæk með öllu. Jafnvel þótt stríðið virðist mörgum fjarlægt þá er stuðningur okkar við Úkraínu beintengdur öryggishagsmunum Íslands, á meðan ógnin frá Rússlandi er jafn viðvarandi og raun ber vitni.“

Kristrún áréttar að stríðið bitni verst á almennum borgurum og að ein afleiðing stríðsrekstrar Rússa sé að tugþúsundir úkraínskra barna og ungmenna hafi verið numin brott af heimilum sínum og komið fyrir í Rússlandi. „Þessar aðgerðir Rússa eru með því skelfilegasta í þessu stríði og brýnt að við gleymum ekki örlögum þessara barna,“ segir Kristrún.

Á fundinum áréttuðu ríkin stuðning sinn við Úkraínu og í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu leiðtogarnir að það væri ljóst að Rússlandsforseti vildi ekki frið á meðan Úkraína hefði hins vegar sýnt vilja til að semja um frið. Í yfirlýsingunni kemur fram að af Rússum stafi langtímaógn, sem beindist ekki aðeins að Úkraínu heldur að öryggi Evrópu og Evró-Atlantshafssvæðisins.  Sögðu leiðtogarnir í yfirlýsingu sinni að þeir hyggist efla enn frekar stuðning sinn við Úkraínu og að brýnt sé að hraða flutningi vopna, skotfæra og loftavarnarkerfa til Úkraínu hið fyrsta. Ítreka leiðtogarnir að aðeins Úkraína geti ákvarðað eigin framtíð.

Leiðtogafundurinn var haldinn í Marienborg, embættisbústað Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur. Fundinn sóttu, auk leiðtoga Íslands, Danmerkur og Úkraínu, þau Alexander Stubb, forseti Finnlands, Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Gitanas Nausėda forseti Litáen, Evika Siliņa forsætisráðherra Lettlands og Kristen Michal forsætisráðherra Eistlands.

Sameiginleg yfirlýsing leiðtoga NB8-ríkjanna og Úkraínu (á ensku)

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta