Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra leggur fram tillögur vegna fæðuöryggis

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, lagði fyrir ríkisstjórn 17. maí, tillögur og greinargerð Landbúnaðarháskóla Íslands að fæðuöryggisstefnu fyrir Ísland. Tillögurnar eru í 16 liðum og miða að því að efla fæðuöryggi. Í framhaldinu verður unnið með þessar tillögur í annarri stefnumótun stjórnvalda.

Meðal annars er lagt til að svonefnt GFSI mat (Global Food Security Index) verði gert sem fyrst fyrir Ísland. Slíkt mat segir til um hversu góðar aðstæður eru fyrir fæðuöryggi í landinu. Það er til dæmis gert með því að meta reglulega heildarfæðuneyslu á íbúa og fylgjast með þróun matvælaverðs og hvaða áhrif sú þróun hefur á þau sem búa við lökustu kjörin.

Hlutverk innan stjórnkerfisins eru nú þegar skýr hvað varðar kröfur til næringargildis fæðunnar, og mikilvægt að tryggja að svo verði áfram. Landlæknisembættið gegnir lykilhlutverki hér með opinberum ráðleggingum um alhliða, næringarríkt matarræði, bæði fyrir börn og fullorðna.

Áhersla lögð á vöktun

Til að tryggja megi fæðuöryggi til framtíðar er í tillögunum lögð áhersla á vöktun á umhverfisbreytum og skuldbindingu stjórnvalda um að ná stjórn á áhrifum loftslagsbreytinga á fæðukerfi.

Fram kemur að neyðarbirgðir geti skipt sköpum í öryggisviðbúnaði þjóðarinnar. Stofnaður hefur verið sérstakur starfshópur um neyðarbirgðir á vegum forsætisráðuneytis sem ætlað er að taka ákvarðanir þar að lútandi, og því eru ekki settar fram tillögur um magn neyðarbirgða í skjalinu.

Þrátt fyrir að í tillögunum sé gert ráð fyrir neyðarbirgðum er engu að síður lögð megináhersla  á öryggi fæðuframboðs. Þá er lagt til að vinna þurfi áhættugreiningar fyrir einstaka atburði sem geta snögglega leitt til ójafnvægis í framboði og fæðukeðjum. Dæmi um slíkt eru stríðsógnir, heimsfaraldrar og náttúruvá.

Afkoma bænda undirstaða fæðuöryggis

Bent er á í tillögunum að ásættanleg fjárhagsleg afkoma bænda sé ein af undirstöðum fæðuöryggis sem þurfi að huga að ásamt því að styrkja sem best jarðrækt á Íslandi hvort sem um er að ræða gras- eða kornrækt, útiræktun eða ylræktun.

Einnig er bent á mikilvægi orkuskipta þar sem áhersla er lögð á innlenda orkugjafa s.s. rafmagn og jarðhita ásamt endurnýtingu næringarefna frá heimilum og fyrirtækjum. Samfélagslegt átak í þeim efnum sé í senn undirstaða framfara í fæðuöryggi, sjálfbærni fæðuframleiðslu til lengri tíma og mikilvægt umhverfismál.

Tillögurnar voru unnar af Jóhannesi Sveinbjörnssyni dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta