Þegar búið að tryggja bóluefni fyrir 87% þjóðarinnar
Íslensk stjórnvöld hafa þegar tryggt bóluefni sem dugir fyrir 87% þjóðarinnar í gegnum samstarf Evrópuþjóða með samningum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Samningar sem Ísland hefur þegar lokið við lyfjaframleiðendurna Pfizer og Astra Zeneca tryggja 400.000 bóluefnaskammta sem nægja fyrir 200.000 einstaklinga. Þriðji samningurinn við bóluefnaframleiðandann Janssen verður undirritaður 23. desember næstkomandi og tryggir Íslandi 235.000 skammta sem nægja fyrir 117.500 manns. Alls tryggja þessir þrír samningar bóluefni fyrir rúmlega 317.500 einstaklinga. Þann 31. desember næstkomandi verður undirritaður samningur við Moderna en umfang samningsins varðandi fjölda skammta liggur ekki fyrir að svo stöddu. Hér má sjá yfirlit um stöðu samninga Íslands og verður það uppfært reglulega eftir því sem málum vindur fram.