Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 1/2010: Dómur frá 26. maí 2010

Drífandi stéttarfélag gegn Samtökum atvinnulífsins.

Ár 2010, miðvikudaginn 26. maí, er í Félagsdómi í málinu nr. 1/2010:

Drífandi stéttarfélag

gegn

Samtökum atvinnulífsins

kveðinn upp svofelldur

 

dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 29. apríl síðastliðinn, var höfðað 25. janúar 2010 af Drífandi stéttarfélagi, Miðstræti 11, Vestmannaeyjum, gegn Samtökum atvinnulífsins.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Hilmar Magnússon og Valgeir Pálsson.

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur félagsmanna stefnanda til þess að umsaminn launaliður kjarasamnings stefnanda og stefnda frá 17. febrúar 2008 sé óbreyttur og að umsamdar launahækkanir komi til framkvæmda miðað við 1. mars 2009 og 1. janúar 2010. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans að mati dómsins.

Með úrskurði dómsins 10. mars síðastliðinn var kröfu stefnanda um að viðurkennt yrði að stefnda væri skylt að verða við kröfu stefnanda um viðræður um gerð nýs aðalkjarasamnings vísað frá dómi, en hafnað kröfu stefnda um frávísun þeirrar stefnukröfu er að ofan greinir.

 

I

Þann 31. desember 2007 féllu úr gildi kjarasamningar stéttarfélaga innan landssambanda Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem og fjöldi annarra kjarasamninga. Kjarasamningar milli stefnda og fjögurra landssambanda ASÍ, Landssambands íslenskra verslunarmanna, Rafiðnaðarsambands Íslands, Samiðnar-sambands iðnfélaga og Starfsgreinasambands Íslands, sem stefnandi á aðild að, voru undirritaðir 17. febrúar 2008. Á sama tíma voru gerðir kjarasamningar milli stefnda og Eflingar, Hlífar, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, Boðans (Flóabandalagsins) og þriggja landsfélaga ASÍ, Félags bókagerðarmanna, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Matvíss. Jafnframt var gert samkomulag milli stefnda og samninganefndar ASÍ um sameiginleg mál, þar á meðal framlengingu kjarasamninga og forsenduákvæði. Stefnandi átti ekki aðild að samflotinu, en kjarasamningur milli aðila þessa máls var undirritaður að lokinni undirritun samninga stefnda við önnur félög ASÍ og tók samningurinn sömu breytingum og kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Við hrun íslenska fjármálakerfisins í október 2008 lagði stefndi til að öllum launabreytingum kjarasamninga yrði frestað til ársins 2010. Sú tillaga var kynnt ASÍ sem hóf við svo búið víðtækt samráð við aðildarfélög sín um gerð gagntilboðs. Fimm aðildarfélög SGS, þar á meðal stefnandi, gerðu athugasemdir við drög samninganefndar ASÍ að gagntilboði, en stefnandi taldi ekki ástæðu til að svara tillögunni efnislega. Samkomulag um frestun endurskoðunar kjarasamninga var undirritað 25. febrúar 2009 af hálfu samninganefndar ASÍ og stefnda. Samkvæmt samkomulaginu skyldi ákveða tímasetningar launabreytinga fyrir júnílok 2009. Í maí 2009 hófust viðræður aðila samhliða viðræðum um „stöðugleikasáttmála“ með aðkomu ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga opinberra starfsmanna og náðist samkomulag 25. júní 2009 um fyrirkomulag launabreytinga. Stöðugleikasáttmálinn, sem byggir á þeirri sátt sem náðst hafði um þróun kjaramála á vinnumarkaði, var undirritaður á sama tíma. Í júlí 2009 sendi stefnandi stefnda bréf og lýsti þeirri afstöðu sinni að samningar væru úr gildi fallnir og óskaði stefnandi eftir viðræðum við stefnda um gerð nýs kjarasamnings, en þeirri málaleitan var hafnað af hálfu stefnda.

        

II

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnandi sé lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. og 3. kafla laga félagsins. Verði samningsumboði stefnanda ekki ráðstafað í hendur öðrum, til dæmis SGS, nema til komi sérstök, skýr og ótvíræð ákvörðun þar að lútandi af hálfu stefnanda.

Þegar samstarfssamningur allra landssambanda ASÍ, VR, félaga með aðild að samningi Flóabandalagsins og félaga með beina aðild, var undirritaður 22. júní 2007 hafi SGS undirritað þann samning fyrir hönd þeirra aðildarfélaga sinna sem veitt höfðu SGS sérstakt umboð þar að lútandi. Hafi stefnandi ekki verið í þeim hópi og  þannig staðið utan þess samstarfs sem að var stefnt. Hafi samninganefnd ASÍ þannig ekki verið bær um að semja fyrir hönd stefnanda um kaup og kjör félagsmanna nema til kæmi sérstakt umboð beint frá stefnanda til nefndarinnar. Liggi þannig ljóst fyrir  að samninganefnd félagsins hafi að öllu leyti séð um kjarasamningaviðræður við stefnda haustið 2007 og í ársbyrjun 2008 og hafi samningaviðræðunum lokið 17. febrúar 2008 með undirritun sérstaks kjarasamnings málsaðila.

Í 26. kafla kjarasamnings málsaðila sé að finna samhljóða framlengingarákvæði og fólust í kjarasamningi SGS og stefnda sem einnig hafi verið undirritaður 17. febrúar 2008. Þar komi fram að ef tilgreindar forsendur kjarasamningsins brystu skyldi samninganefnd ASÍ leita samkomulags við stefnda um „viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn haldi gildi sínu“.

Stefnandi heldur því fram að meginmarkmið með kjarasamningunum 17. febrúar 2008 hafi verið þríþætt. Í fyrsta lagi hækkun launa þeirra tekjulægstu, í öðru lagi kaupmáttaraukning og í þriðja lagi efnahagslegur stöðugleiki. Stefnandi heldur því einnig fram að þegar samninganefnd ASÍ var falið að leita samkomulags við stefnda, ef forsendunefndin mæti hinar tvær forsendur kjarasamninganna brostnar, um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samninganna, festa forsendur þeirra í sessi og tryggja að samningarnir héldu gildi sínu, hafi nefndinni borið að tryggja að þessi meginmarkmið kjarasamninganna héldust. Stefnandi telur því fara víðs fjarri að nefndin hafi náð þessu takmarki með samkomulaginu 25. febrúar 2009 og síðar samkomulaginu 25. júní 2009. Þvert á móti hafi kjör þeirra tekjulægstu ekki verið tryggð eða þau hækkað, kaupmáttaraukningin hafi ekki náðst eða verið tryggð og markmiðið um efnahagslegan stöðugleika hafi engan veginn náðst.

Stefnandi byggir á því að ákvæðin í 26. kafla kjarasamnings SGS og stefnda, sem jafnframt hafi verið hluti kjarasamnings stefnanda og stefnda, hafi falið í sér mjög takmarkað og afar þröngt umboð af sinni hálfu og sinna félagsmanna til samninganefndar ASÍ. Reyndar séu áhöld um þetta umboð, en ASÍ hafi verið þeirrar skoðunar að samninganefndin hafi alls ekki haft umboð stefnanda, heldur hafi í ákvæðinu falist einhliða ákvörðun stefnanda um að una þeirri niðurstöðu sem fengist úr viðræðum samninganefndarinnar og stefnda. Stefnandi sé þessu ósammála og bendir á að í aðdraganda viðræðna samninganefndarinnar og stefnda í lok febrúar 2009, þar sem rætt var um komandi viðræður við stefnda og reynt að móta sameiginlega stefnu og afstöðu, hafi forsvarsmenn stefnanda ávallt verið kallaðir til, ásamt forsvarsmönnum annarra stéttarfélaga. Telur stefnandi að túlka megi samskipti forsvarsmanna sinna við forsvarsmenn ASÍ svo að þeir sjálfir hafi talið samninganefndina hafa verið að undirbúa viðræðurnar og taka þátt í þeim, meðal annars í umboði stefnanda. Hafi samninganefnd ASÍ, sem stefnandi átti ekki fulltrúa í,  ekki mátt fara út fyrir þetta umboð, svo bindandi væri fyrir stefnanda, til dæmis með því að semja um að fella niður, fresta eða breyta áður umsömdum launahækkunum eða með öðrum hætti að rýra kjör félagsmanna stefnanda. Bendir stefnandi á að lögum samkvæmt sé meginreglan sú að félagið sjálft fari með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna sinna og að allar undantekningar frá þeirri grundvallarreglu beri að  skýra þröngt. Samninganefnd ASÍ hafi þannig farið út fyrir samningsumboð sitt að því er kjarasamning málsaðila varðar. Hvorugt samkomulag samninganefndarinnar og stefnda sé því bindandi fyrir stefnanda.

Þá bendir stefnandi á að í 26. kafla kjarasamningsins við stefnda komi fram að náist ekki samkomulag í kjölfar forsendubrests falli samningurinn úr gildi frá lokum febrúar 2009, en ella framlengist hann til 30. nóvember 2010. Hafi  samninganefndin ekki haft umboð stefnanda til þess að breyta eða víkja frá þessum tímafrestum.

Í febrúarlok 2009 hafi komið fram skýrar yfirlýsingar frá stefnda um að samtökin treystu sér ekki til að standa við launalið kjarasamninganna á þeim tímasetningum sem um var samið. Þrátt fyrir það hafi kjarasamningnum þá hvorki verið sagt upp né honum rift. Stefnandi telur því að engin uppsögn hafi farið fram fyrr en í bréfinu til stefnda þann 2. júlí 2009, en þá hafi stefnandi talið fullreynt að kjarasamningurinn héldi gildi sínu. Stefnandi telur að umsamdar launahækkanir eigi því að koma til framkvæmda, 13.500 krónur 1. mars 2009 og 6.500 krónur 1. janúar 2010, enda sé það venjuhelguð regla í vinnumarkaðsrétti að ákvæði kjarasamninga halda gildi sínu þar til samið hafi verið að nýju.

 

III

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefnandi sé bundinn af kjarasamningi við stefnda frá 17. febrúar 2008 og þar með af ákvæðum samningsins um framlengingu. Í ákvæði um framlengingu samningsins sé sérstakri forsendunefnd ASÍ og stefnda falið að meta hvort forsendur samningsins hafi staðist og hlutverk samninganefndar ASÍ og SA að leitast við að ná samkomulagi um viðbrögð ef forsendur stæðust ekki. Samkomulag hafi náðst milli þessara aðila og sé stefnandi bundinn af því. Kjarasamningur stefnanda og stefnda sé því í fullu gildi með þeim breytingum sem samkomulag hafi náðst um milli þar til bærra aðila.

Stefnandi hafi með kjarasamningi við stefnda falið samninganefnd ASÍ og stefnda að semja um viðbrögð ef til þess kæmi að forsendur kjarasamninga brystu. Engu málir skipti í því sambandi hvort stefnandi eigi beina aðild að samninganefndinni eða hvort hann hafi falið Starfsgreinasambandi Íslands umboð til samningsgerðar. Stefnandi hafi undirritað kjarasamning við stefnda þar sem umboð samninganefndar ASÍ sé ótvírætt. Sé stefnandi þar í sömu sporum og fjölmörg stéttarfélög utan ASÍ sem í kjarasamningum séu með tilvísun til niðurstöðu samninganefndar ASÍ og stefnda og því bundin af henni.

Samninganefnd ASÍ og stefnda hafi rúmt umboð samkvæmt  kjarasamningum til að bregðast við brostnum forsendum. Bresti forsendur sé samninganefnd ASÍ og stefnda ætlað að stuðla að framgangi markmiða samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn haldi gildi sínu. Því sé ljóst að í kjarasamningi aðila sé höfuðáhersla lögð á að hann haldi gildi sínu þótt forsendur bresti. Ríkar skyldur hvíli á samninganefnd ASÍ og stefnda að ná fram því markmiði og hafi stefndi og samninganefnd ASÍ ekki farið út fyrir þann ramma sem kjarasamningar afmarka.

Í janúar 2009 hafi legið fyrir sú afstaða stefnda að atvinnulífið gæti ekki tekið á sig aukinn launakostnað 1. mars 2009 eins og kjarasamningar gerðu ráð fyrir. Hafi stefndi gert samninganefnd ASÍ grein fyrir þeirri afstöðu sinni á fundi í janúar 2009 og jafnframt sent frá sér ítarlega skýrslu um atvinnustefnu þar sem tillaga var gerð um frestun launabreytinga. Hagdeild ASÍ hafi einnig sent frá sér skýrslu 11. febrúar 2009 um horfur í efnahagsmálum þar sem rakin sé erfið rekstrarstaða fyrirtækja og svartar horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Samninganefnd ASÍ hafi haft víðtækt samráð við aðildarfélög ASÍ. Haldnir hafi verið fundir innan einstakra aðildarsamtaka og formenn stéttarfélaga innan ASÍ voru kallaðir saman. ASÍ hafi lagt mikla áherslu á að lýðræðisleg umræða færi fram innan hvers sambands. Hafi tilgangur samráðs meðal annars verið að tryggja að hver fulltrúi í samninganefnd ASÍ hefði víðtækan stuðning og skýrt umboð þegar kæmi til atkvæðagreiðslu innan samninganefndarinnar. Verði að hafna þeirri fullyrðingu stefnanda að samráð ASÍ við aðildarfélög sín gefi vísbendingar um umboðsleysi samninganefndar ASÍ. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að koma skoðun sinni á framfæri. Hafi hann gert það á fyrrnefndum fundum og einnig með ályktun stjórnar stefnanda þar sem beinlínis sé gert ráð fyrir að ASÍ og stefndi hafi heimild til að breyta kjarasamningi stefnanda. Segi þar að stjórnin geti „fallist á að forsendunefndin fresti að öðru leyti viðbrögðum vegna kaupmáttarrýrnunar og hárrar verðbólgu fram til 1. júlí.“ Stefnandi hafi verið ósáttur við frestun sérstakrar hækkunar kauptaxta kjarasamninga. Af því tilefni hafi forseti ASÍ kallað eftir afstöðu stefnanda til þess hvort ASÍ ætti að leita eftir samkomulagi við stefnda um heimild einstakra stéttarfélaga til að standa utan samkomulags um frestun launabreytingar. Í tölvupósti formanns stefnanda til forseta ASÍ frá 25. febrúar 2009 segi að stjórn stefnanda telji ekki ástæðu til að svara honum efnislega. Jafnframt hafi stefnandi áréttað þá tillögu sína að samkomulag um frestun launahækkana fari í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarfélaga ASÍ. Undirstriki framangreind viðbrögð stefnanda þá afstöðu að hann hafi talið sig bundinn af samkomulagi samninganefndar ASÍ og stefnda og því gert sitt til að hafa áhrif á endanlega niðurstöðu. Einnig liggi fyrir að stefnandi hafi verið ósáttur við niðurstöðuna, en talið sig samt sem áður bundinn af henni.

Samkomulag stefnda og samninganefndar ASÍ um frestun launabreytinga hafi byggst á vandaðri greiningu á horfum í efnahagsmálum. Eftir víðtækt samráð hafi það verið mat samninganefndar ASÍ að farsælast væri fyrir launafólk að fresta launabreytingum tímabundið vegna erfiðra aðstæðna í atvinnulífinu. Með því móti væri hægt að verja grunngildi kjarasamninganna frá febrúar 2008, þ.e. hækkun lægstu launa og lækkun verðbólgu. Hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem hnekkt geti þessu mati.

 

IV

Svo sem áður greinir féllu kjarasamningar, meðal annars innan landssambanda ASÍ, úr gildi 31. desember 2007. Voru kjarasamningar milli stefnda og fjögurra landssambanda ASÍ, þ.e. Landssambands íslenskra verslunarmanna, Rafiðnaðar-sambands Íslands, Samiðnar-sambands iðnfélaga og Starfsgreinasambands Íslands, sem stefnandi á aðild að, undirritaðir 17. febrúar 2008. Á sama tíma voru gerðir kjarasamningar milli stefnda og Eflingar, Hlífar, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, Boðans (Flóabandalagsins) og þriggja landsfélaga ASÍ, þ.e. Félags bókagerðarmanna, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Matvíss. Jafnframt var gert samkomulag milli stefnda og samninganefndar ASÍ um sameiginleg mál, þar á meðal framlengingu kjarasamninga. Stefnandi átti ekki aðild að samflotinu, en kjarasamningur milli aðila þessa máls var undirritaður að lokinni undirritun samninga stefnda við önnur félög ASÍ. Tók samningurinn, sem skyldi gilda frá 1. febrúar 2008 til 30. nóvember 2010, sömu breytingum og kjarasamningar SGS, sbr. beina og óskilyrta tilvísun kjarasamnings aðila til síðastgreinds kjarasamnings.

Samkvæmt 21. gr. kjarasamnings SGS og stefnda, sem fjallar um framlengingu samningsins, skyldi sérstök forsendunefnd, skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af samninganefnd ASÍ og tveimur af stefnda, taka þegar til starfa. Skyldi nefndin fjalla um þróun efnahagsmála á samningstímanum og eftir atvikum leita eftir samstarfi við stjórnvöld í því skyni að stuðla að því að markmið samningsins um lága verðbólgu og sérstaka hækkun lægstu launa næðu fram að ganga. Skyldi í byrjun febrúar 2009 fjalla sérstaklega um framlengingu samnings fyrir tímabilið 1. mars 2009 til 30. nóvember 2010. Þá segir að til að samningurinn framlengdist þyrfti í senn að vera uppfyllt sú forsenda að kaupmáttur launa á almennum vinnumarkaði hefði haldist eða aukist á samningstímanum og að verðbólga hefði farið lækkandi svo sem nánar greinir. Hefði önnur hvor þessara samningsforsenda eða báðar ekki staðist skyldi þegar í stað kalla saman fund samninganefndar ASÍ og stefnda sem leita skyldi samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn héldi gildi sínu. Næðist ekki samkomulag skyldi sá aðili sem ekki vildi framlengingu samningsins skýra frá þeirri ákvörðun og félli samningurinn þá úr gildi frá lokum febrúar 2009, ella framlengdist hann til 30. nóvember 2010.

Ljóst var í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008 að forsendur  kjarasamninga voru brostnar. Samkomulag náðist milli ASÍ og stefnda 25. febrúar 2009 um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga samtakanna. Í samkomulaginu segir meðal annars að fyrir liggi úrskurður forsendunefndar um að samningsforsendur hefðu ekki staðist og skuli samninganefndir ASÍ og stefnda því leita samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samninganna um lága verðbólgu og hækkun lægstu launa, festa forsendur þeirra í sessi og tryggja að þeir haldi gildi sínu. Efnahagskreppan í landinu hafi gerbreytt afkomu heimila, starfsskilyrðum atvinnulífs og forsendum fyrir atvinnustigi og launagreiðslum. Atvinnuleysi hafi vaxið hratt og kaupmáttur launa rýrnað þannig að hagur heimila hafi versnað stórlega. Þá hafi mikil verðbólga kippt forsendum undan kjarasamningunum sem gerðir voru 17. febrúar 2008. Í ljósi þessara aðstæðna hafi samninganefndir ASÍ og stefnda ákveðið að fresta endurskoðunar- og framlengingarákvæði samninganna þannig að fyrir lok júní 2009 verði samið um endanlegar dagsetningar launahækkana út samningstímann. Að sama skapi frestist launabreytingar sem taka áttu gildi 1. mars 2009 að undanskilinni lágmarkstekjutryggingu fyrir fullt starf og öðrum ákvæðum samninganna, þ. á  m. lengingu orlofs.

Í framhaldinu gerðu ASÍ og stefndi með sér samkomulag 25. júní 2009 um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga samtakanna og stefnda frá 17. febrúar 2008 og síðar samhliða undirritun svonefnds stöðugleikasáttmála. Var endurskoðunar- og framlengingarákvæði samninga skilyrt frestað og skyldi endurskoðun og ákvörðun um framlengingu vera endanlega lokið eigi síðar en 27. október 2009. Skyldu launabreytingar, sem áttu að taka gildi 1. mars 2009 en var frestað, koma til framkvæmda með nánar tilgreindum hætti. Þá skyldu launahækkanir, sem taka áttu gildi 1. janúar 2010, færast til 1. júní 2010.

Stefnandi telur sig óbundinn af ofangreindu samkomulagi, sbr. bréf hans, dagsett 2. júlí 2009, til stefnda, og krefst þess að  viðurkenndur verði með dómi réttur félagsmanna stefnanda til þess að umsaminn launaliður kjarasamnings stefnanda og stefnda frá 17. febrúar 2008 sé óbreyttur og að umsamdar launahækkanir komi til framkvæmda miðað við 1. mars 2009 og 1. janúar 2010.

Eins og fram er komið var kjarasamningu aðila máls þessa undirritaður 17. febrúar 2008 í kjölfar undirritunar samninga stefnda við önnur félög ASÍ. Kjarasamningur málsaðila hefur ekki að geyma sjálfstæð ákvæði um launabreytingar, heldur er einungis tekið fram að kjarasamningurinn taki sömu breytingum og greinir í kjarasamningum aðildarfélaga SGS (utan Flóa) sem undirritaðir voru 17. febrúar 2008. Að öðru leyti er vísað til þess að kauptaxtar fiskvinnslufólks verði undirritaðir sérstaklega svo og til samkomulags um sérmál í Vestmannaeyjum. Samkvæmt þessu felst inntak kjarasamnings málsaðila í óskilyrtri tilvísun til kjarasamninga aðildarfélaga SGS. Með vísan til þessa kann að vera nærtækt að álykta að stefnandi sé bundinn af ákvæðum hinna tilvísuðu samninga, þ.m.t. ákvæðum um framlengingu, eins og stefndi heldur fram, og þar með breytingum þeim sem gerðar voru 25. júní 2009. Hvað sem því líður verður að telja að það beri undir stefnanda að sýna fram á hið gagnstæða.

Í málinu liggur fyrir ályktun stefnanda sem send var forseta ASÍ með tölvupósti 18. mars 2009. Í ályktuninni segir í niðurlagi hennar: „Drífandi krefst þess að nú þegar verði sagt upp samkomulaginu við Samtök atvinnurekenda um frestun kjarasamninga og farið verði í viðræður við samtökin með nýrri samninganefnd.“ Er hér augljóslega verið að vísa til fyrrnefnds samkomulags milli ASÍ og stefnda frá 25. febrúar 2009. Af þessu svari verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi talið sig bundinn af samkomulaginu frá 25. febrúar 2009. Þá er þess að geta að þann 9. febrúar 2009 var af hálfu SGS sent bréf formanns samtakanna til allra aðildarfélaga innan sambandsins. Í bréfinu er vísað til efnisákvæðis 21. gr. áðurnefnds kjarasamnings um að kalla skyldi saman fund samninganefndar ASÍ og stefnda í febrúar 2009 til að fjalla um samningsforsendur, en ljóst væri að þær aðstæður, sem uppi væru í þjóðfélaginu, settu alla umræðu um framlengingu kjarasamninga í uppnám. Óskaði formaðurinn eftir afstöðu félaga innan SGS um frestun samninga fram á sumar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að svar hafi verið sent af hálfu stefnanda til SGS, en í tölvupósti formanns stefnanda til forseta ASÍ frá 25. febrúar 2009, sem er svar við bréfi hins síðarnefnda þar sem fyrirspurn er beint til stefnanda um hver afstaða hans sé til fyrirhugaðs samkomulags milli ASÍ og stefnda, segir að stjórn stefnanda hafi ekki talið ástæðu til að svara bréfinu efnislega. Þá segir í svarinu að stefnandi ítreki þá tillögu sína að samkomulag um frestun launahækkana fari í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarfélaga ASÍ. Af þessu svari þykir einnig mega ráða að stefnandi hafi á þeim tíma talið sig bundinn af áðurnefndu samkomulagi, enda þótt hann væri ósáttur við það og viljað bera það undir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ.

Þegar litið er til þess er að framan greinir um tilhögun og inntak kjarasamnings aðila og að virtum þeim atriðum, sem þykja benda til þess að stefnandi hafi talið sig bundinn af samkomulagi um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og stefnda frá 25. febrúar og 25. júní 2009, eins og rakið er, verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á hið gagnstæða. Að því virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.

 

Dómsorð:

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, er sýkn af kröfum stefnanda, Drífandi stéttarfélags, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Hilmar Magnússon

Valgeir Pálsson
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira