Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 08010095

Þann 29. maí 2009 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

Ráðuneytinu bárust þann 12. febrúar 2008 tvær stjórnsýslukærur, annars vegar frá eigendum jarðarinnar Svelgsár í Helgafellssveit, þeim Jóhanni G. Hálfdánarsyni og Vilhelmínu Salbergsdóttur, og hins vegar frá Fuglavernd, vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 11. janúar 2008 um að virkjun í Svelgsá í Helgafellssveit skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Kæruheimild er í 14. gr. nefndra laga. Þá barst ráðuneytinu þann 14. febrúar 2008 kæra frá Náttúrustofu Vesturlands. Var erindi Náttúrustofu Vesturlands vísað frá með bréfi ráðuneytisins þann 25. febrúar 2008 á grundvelli þess að Náttúrustofa Vesturlands hefði ekki lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000.

I. Málavextir.

Þann 17. janúar 2007 tilkynnti Svelgur ehf. Skipulagsstofnun fyrirætlanir um virkjun í Svelgsá, allt að 655 kW, í landi Hrísa í Helgafellssveit. Vísað var til 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og a. liðar 3. tölul. 2. viðauka laganna. Barst Skipulagsstofnun annað erindi frá Svelg ehf. um breytt fyrirkomulag með bréfi dags. 12. mars 2007 og endurbætta greinargerð þeirra með bréfi dags. 1. október 2007.

Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar var sú að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í Helgafellssveit væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Af hálfu ráðuneytisins var óskað eftir umsögnum Skipulagsstofnunar, Svelgs ehf., Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Helgafellssveitar, Veiðimálastofnunar, Landbúnaðarstofnunar, Náttúrustofu Vesturlands, Orkustofnunar, Iðnaðarráðuneytis og Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, með bréfum dags. 25. febrúar 2008, um fyrrgreinda kæru. Umsögn barst frá Skipulagsstofnun þann 10. mars 2008, frá Hannarr ráðgjafarþjónustu fyrir hönd Svelgs ehf. þann 7. mars 2008, frá Umhverfisstofnun þann 28. apríl 2008, frá Náttúrufræðistofnun Íslands þann 12. mars 2008, frá Helgafellssveit þann 10. mars 2008, frá Veiðimálastofnun þann 5. mars 2008, frá Matvælastofnun (áður Landbúnaðarstofnun) þann 11. mars 2008, frá Orkustofnun þann 29. febrúar 2008, frá Iðnaðarráðuneyti þann 12. mars 2008 og frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands þann 6. mars 2008. Ekki barst umsögn frá Náttúrustofu Vesturlands þrátt fyrir ítrekun af hálfu ráðuneytisins. Ráðuneytið óskaði ráðuneytið eftir viðbótargögnum frá framkvæmdaraðila hvað varðar fuglalíf, gróðurfar og staðbundinn fiskistofn á svæðinu, með bréfi dags. 2. júlí 2008. Í kjölfarið barst ráðuneytinu bréf frá Landlínum dags. 12. ágúst 2008, ásamt meðfylgjandi skýrslu frá Veiðimálastofnun um athugun á útbreiðslu ferskvatnsfiska í Svelgsá, dags. í júlí 2008, sem og skýrslu Tómasar G. Gunnarssonar, vistfræðings, vegna vettvangskönnunar á fuglalífi og gróðurfari á áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar, dags. 25. júlí 2008. Voru skýrslurnar unnar að beiðni framkvæmdaraðila. Með bréfum dags. 7. maí og 14. ágúst 2008 var kærendum gefinn kostur á því að koma að athugasemdum vegna áðurgreindra umsagna og vegna þeirra viðbótargagna sem aflað var að beiðni ráðuneytisins. Barst ráðuneytinu athugasemdir frá Fuglavernd með bréfi dags. 31. ágúst 2008. Einnig barst ráðuneytinu athugasemdir frá Skipulagsstofnun vegna umræddra viðbótargagna með bréfi dags. 29. apríl 2009.

Í framlögðum kærum er þess krafist að fyrirhugaðar framkvæmdir við virkjun í Svelgsá skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

II. Einstakar málsástæður kæranda og umsagnir um þær.

1. Annmarki á málsmeðferð.

Eigendur jarðarinnar Svelgsár gera athugasemdir við að ekki hafi verið leitað umsagna þeirra eða álits í ljósi þess að áin Svelgsá skipti löndum Svelgsár og Hrísa. Segir að ekki hafi verið rætt við kærendur um að til stæði að virkja ána og að það væri fyrir algera tilviljun og þau hafi rekist á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Hafi því verið hrein heppni að þau hafi getað kært ákvörðunina; ákvörðun sem hlyti að varða hagsmuni þeirra verulega. Segir að þessum vinnubrögðum sé mótmælt harðlega og að það sé mat kærenda að þau standast ekki lög.

Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum beri stofnuninni að leita umsagna leyfisveitanda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls, áður en tekin sé ákvörðun um matsskyldu tilkynningarskyldra framkvæmda. Leiti stofnunin ávallt til opinberra aðila sem ætla megi að hafi lögbundið hlutverk varðandi einhverja þá þætti sem framkvæmdin kunni að hafa áhrif á. Við meðferð máls þessa hafi verið leitað umsagna Helgafellssveitar, Fornleifaverndar ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Umhverfisstofnunar og veiðimálastjórnar Landbúnaðarstofnunar. Leiti stofnunin aldrei beint til landeigenda eða ábúenda á framkvæmdasvæði vegna tilkynningarskyldra framkvæmda enda sé umfjöllun um eignar- og bótarétt ekki umfjöllunarefni mats á umhverfisáhrifum. Hins vegar geti landeigendur komið sjónarmiðum sínum á framfæri við sveitarstjórn Helgafellssveitar sem fari með skipulagsvald og gefi út framkvæmdaleyfi. Nefndi Skipulagsstofnun þá að við gerð deiliskipulags svæðisins fari fram kynning fyrir hagsmunaaðilum, en umfjöllun um deiliskipulag sé ætíð aðgengileg almenningi. Kveðst Skipulagsstofnun þá vilja vekja athygli á því að á bls. 14 í greinargerð framkvæmdaraðila segi að ekki þurfi að fá leyfi landeiganda þar sem hann sé sá sami og standi að virkjuninni. Hafi Skipulagsstofnun því ekki haft ástæðu til að ætla annað en að allir landeigendur væru með í ráðum.

Í athugasemdum framkvæmdaraðila segir að athugasemdir landeigenda Svelgsár byggi m.a. á þeirri forsendu að Svelgsá skipti löndum Svelgsár og Hrísa. Segir að á meðfylgjandi korti megi sjá hvar landamörk jarðanna liggi, en þau séu frá fjalli talið eftir Svelgsárhrauni miðju og þegar því sleppi fylgi mörkin ánni niður að sjó. Umrædd virkjun sé ofan þess staðar þar sem mörkin séu um ána, næst séu þau u.þ.b. 1 km upp með ánni og að öllu leyti í landi Hrísa. Segir að það að hluti af vatni árinnar, sem geti verið stór hluti þegar minnst sé í ánni, renni í gegnum túrbínu virkjunar, hafi ekki áhrif á ána þar sem hún komi að mörkum jarðarinnar Svelgsár og eftir það.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að stofnunin telji að sjónarmið eigenda Svelgsár hefðu átt að koma fram áður en Skipulagsstofnun hafi tekið ákvörðun um matsskyldu framkvæmdarinnar. Í umsögninni koma fram tillögur Náttúrufræðistofnunar um breytingar á lögum til að tryggja aðkomu landeigenda vegna framkvæmda hverju sinni.

Iðnaðarráðuneytið vísar til þess að ekki þurfi leyfi iðnaðarráðherra til að reisa og reka umrætt raforkuver samkvæmt 1. mgr. 4. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, þar sem það verði með uppsettu afli undir 1 MW. Liggi þó fyrir tengisamningur við dreifikerfi RARIK ohf., sem kalli á rekstrarleyfi hvað varðar tengingu við dreifikerfið. Það leyfi taki hins vegar ekki til framkvæmda við að reisa virkjun, nýtingar á auðlind eða umhverfisþætti virkjunar. Kveðst ráðuneytið þ.a.l. ekki óska eftir því að gera athugasemdir vegna umræddra kæra.

Í umsögn Orkustofnunar er vísað til umsagna stofnunarinnar frá 26. mars og 29. mars 2007 til Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að stofnunin telji fyrirhugaða framkvæmd ekki líklega til að hafa veruleg umhverfisáhrif í för með sér þar sem ekki verði um að ræða veruleg neikvæð áhrif á nýtingu auðlindarinnar til annarra nota. Segir að ekkert í fram komnum kærum breyti afstöðu Orkustofnunar.

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands kveðst í umsögn sinni ekki gera athugasemdir við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir og vísar til umsagnar sinnar til Skipulagsstofnunar frá 3. desember 2007. Segir að í þeirri umsögn hafi heilbrigðiseftirlitið bent á nokkur atriði sem athuga bæri við framkvæmdir og umgengni um svæðið eftir framkvæmdalok. Samkvæmt umsögninni lutu þau atriði að því að á framkvæmdatíma yrðu ekki geymd nein hættuleg efni eða eiturefni á svæði ofan við vatnsbólið og ætti það einnig við um að olíutanka. Farartæki og vélar yrðu skoðaðar með hliðsjón af mengun sem þær gætu valdið, læst hlið yrðu sett upp á vegi norðan við grannsvæði vatnbólsins og að sótt yrði um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar vegna fyrirhugaðrar vatnsaflsvirkjunar, sbr. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

2. Áhrif á staðbundinn fiskistofn, lífríki Svelgsár, gróðurfar, fuglalíf og landslag.

2.1 Staðbundinn fiskistofn.

Landeigendur Svelgsár segja það alþekkt að í ánni fyrir ofan Tröllkonufoss sé staðbundinn fiskistofn og segjast telja að fyrirhuguð virkjun muni hafa áhrif á fiskistofninn og þar með lífríki árinnar. Vísa þeir í ákvörðun Skipulagsstofnunar þar sem segir að þegar rennsli Svelgsár verði í lágmarki verði talsverð ásýndarbreyting í ánni og á þeim tíma verði farvegur árinnar á um 1 km kafla milli stíflu og stöðvarhúss nánast þurr fyrir utan smárennsli sem berist til hans úr hliðarlækjum á kaflanum. Telja kærendur að skv. þessu muni verða mikil breyting á vatnasvæði árinnar sem muni hafa veruleg og óafturkræf áhrif á lífríki hennar.

Í kæru Fuglaverndar segir að aðeins sé getið um það að Tröllkonufoss sé ófiskgengur en kanna þurfi hvort staðbundinn stofn silungs eða urriða sé að finna ofan við Tröllkonufoss.

Skipulagsstofnun bendir á að í greinargerð framkvæmdaraðila komi fram að ekki sé gert ráð fyrir að framkvæmdirnar hafi áhrif á veiði eða fiskgengd. Þrátt fyrir það hafi verið leitað umsagnar veiðimálastjórnar Landbúnaðarstofnunar. Í þeirri umsögn hafi það álit verið gefið að virkjunin myndi ekki hafa áhrif á göngufisk miðað við fyrirliggjandi áætlanir og þ.a.l. væri ekki nauðsynlegt að fyrirhuguð framkvæmd yrði háð mati með hliðsjón af hagsmunum veiðimála. Hvatti Skipulagsstofnun ráðuneytið til að afla frekari upplýsinga frá landeigendum og eftir atvikum vesturlandsdeild Veiðimálastofnunar til að fá skorið úr mótsagnarkenndum upplýsingum um fiskgengd og veiði.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hafi veitt Skipulagsstofnun umsagnir með bréfum dags. 13. mars 2007, 12. apríl 2007 og 19. nóvember 2007. Hafi það að lokum verið niðurstaða stofnunarinnar að miðað við fyrirliggjandi gögn væru ekki líkur á að framkvæmdin hefði umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Í umsögninni til ráðuneytisins segir að það sé álit stofnunarinnar að eðlilegt sé að gerð verði frekari grein fyrir áhrifum virkjunar á lífríki í Svelgsá í ljósi athugasemda í kæru Fuglaverndar. Ekki sé ásættanlegt að fallast á framkvæmdina nema fyrir liggi upplýsingar um hvort í ánni sé staðbundinn fiskistofn.

Veiðimálastofnun segir engar rannsóknir hafa verið gerðar á fiskstofnum eða öðru vatnalífi af hálfu Veiðimálastofnunar á vatnasvæði Svelgsár og að engar skýrslu liggi fyrir um veiðinýtingu í ánni. Séu því engar forsendur til umfjöllunar um áhrif fyrirhugaðrar virkjunar á vatnalíf og fiska.

Í umsögn veiðimálastjórnar Matvælastofnunar (áður Landbúnaðarstofnunar) segir að í umsögn veiðimálastjórnar til Skipulagsstofnunar hafi komið fram það álit að fyrirhuguð virkjun þyrfti ekki að undirgangast mat á umhverfisáhrifum vegna hagsmuna veiðimála.

Framkvæmdaraðili segir engin gögn eða tilvísanir styðja fullyrðingar í kæru um staðbundinn fiskistofn fyrir ofan Tröllkonufoss. Séu þær andstæðar þeim upplýsingum framkvæmdaraðila að enginn fiskur sé í Svelgsá á þeim kafla sem virkjunin hafi áhrif á. Sé um veiði að ræða neðar í ánni hafi það hins vegar engin áhrif á hana að vatn fari í gegnum túrbínur virkjunarinnar ofar í ánni. Sé áin þá lindará og því köld og þannig ekki heppileg sem heimkynni fiska.

Helgafellssveit kveðst hafa upplýsingar um að ekki sé veiði eða fiskgengd í Svelgsá á því svæði sem umrædd virkjun verði. Segir hún að fullyrðingar um staðbundinn fiskistofn í ánni fyrir ofan Tröllkonufoss séu á skjön við upplýsingar sveitarstjórnar. Sé fiskgengd neðar í ánni muni virkjunin ekki hafa teljandi áhrif á hana eða lífríki árinnar þar sem lífrænt æti og smádýralíf muni áfram berast sína leið með vatninu sem fari um fallpípurnar, jafnvel þótt rennsli árinnar á þessum kafla muni minnka verulega. Segir að sveitarstjórnin telji að fyrirhuguð framkvæmd muni ekki hafa nein teljandi áhrif á umhverfið, nema hvað varði minnkun á rennsli árinnar á kaflanum frá inntaki að stöðvarhúsi sem nemi því vatni sem fari í gegnum aðfallspípuna. Felist breyting árinnar í því að vatn minnki í farveginum á umræddum kafla. Ekki sé fyrirhugað að hrófla við farvegi Svelgsár nema við inntaksmannvirkið.

Í athugasemdum Fuglaverndar segir að rannsóknir á fiskum sé ekki að finna og því standist ekki fullyrðingar framkvæmdaraðila um fisk í ánni, tegundir og stofna þeirra. Þurfi könnun að fara fram hvað þetta varðar til að eyða óvissu. Þá hafi ekki verið fjallað um smádýralíf og sé það að öllum líkindum einnig ókannað.

Athugun Veiðimálastofnunar á útbreiðslu ferskvatnsfiska í Svelgsá, sem gerð var fyrir framkvæmdaraðila, fór fram þann 24. júlí 2008. Segir í framlagðri skýrslu að virkjunaráform geri ráð fyrir virkjun linda efst í Svelgsá sem safnað sé í lítið inntakslón. Úr lindunum verði veitt vatni um niðurgrafna þrýstipípu að stöðvarhúsi sem staðsett sé skammt ofan við vatnsból Stykkishólmsbæjar. Segir að Svelgsá sé um 9 km að lengd og vatnasviðið 26 km² og sé áin fiskgeng rúmlega 1 km að Tröllkonufossi. Flokkist Svelgsá sem lindá með dragáreinkennum, en lindaráhrifin verði sterkari er ofar dragi í ánna. Við athugunina hafi verið farið upp með Svelgsánni og hún könnuð allt frá ármótum gilja skammt ofan við vatnsból Stykkishólmsbæjar og langleiðina að ósi árinnar. Hafi búsvæði árinnar verið skoðuð m.t.t. botngerðar og straumlags árinnar og mælt hitastig og rafleiðni árvatnsins. Segir í niðurstöðum að ekki hafi verið vart við ferskvatnsfiska á ófiskgenga árhluta árinnar. Ekki sé þó útilokað að fiskar séu til staðar á ófiskgenga svæðinu. Óhætt sé þó að fullyrða að þéttleiki þeirra sé lágur fyrst þeir hafi ekki komið fram á veiðistöðum, en mjög góð skilyrði fyrir fiskseiði hafi verið að finna á þeim stöðum sem hafi verið teknir til athugunar. Segir að á fiskgenga hluta árinnar hafi verið vart við urriða en ekki aðrar tegundir ferskvatnsfiska. Engar upplýsingar liggi fyrir um veiðinýtingu í ánni en þar sem urriði finnist á fiskgenga hluta árinnar sé líklegt að lítill sjóbirtingsstofn sé til staðar í ánni. Í skýrslunni segir þá: „Ekki verður séð að virkjun á efsta hluta Svelgsár muni hafa neikvæð áhrif á fiskframleiðslu eða veiðar á laxfiskum í Svelgsá. Engin miðlun er við virkjunina þannig að áhrif á farveg og rennsli árinnar neðan við væntanlegt stöðvarhús verða væntanlega mjög lítil. Rennsli á farvegi árinnar frá inntakslóni að stöðvarhúsi mun skerðast við virkjunina, en þar sem fiskar hafa ekki fundist á ófiskgenga hluta árinnar verður ekki séð að um neikvæð áhrif geti verið að ræða á fiskframleiðslu á þeim hluta árinnar.”

Í athugasemdum Fuglaverndar segir að athuganir hafi verið afar takmarkaðar og aðeins lítill hluti vatnasviðsins skoðaður. Beri niðurstöður þess ljóslega merki að aðeins hafi verið skoðaður mjög lítill hluti árinnar sem sé 9 km löng og hafi 26 km² vatnasvið.

Skipulagsstofnun segir áðurgreinda athugun Veiðimálastofnunar renna styrkari stoðum undir niðurstöður hinnar kærðu ákvörðunar.

2.2 Gróðurfar og fuglalíf.

Fuglavernd segir ljóst að náttúrufar við Svelgsá hafi ekki verið kannað og að upplýsingar um það séu af skornum skammti. Sé það vel þekkt staðreynd að litlar framkvæmdir geti valdið miklum spjöllum og nýlegt dæmi sé virkjunin nærri Stórumörk undir Eyjafjöllum og einnig Múlavirkjun í Straumfjarðará í Hnappadal og virkjun Fjarðarár á Seyðisfirði. Segir að eftir viðtöl við heimamenn sé það mat stjórnar Fuglaverndar að Skipulagsstofnun hafi a.m.k. átt að fara fram á að náttúrufræðingar færu um svæðið á varptíma fugla í júní og að grasafræðingur athugaði gróðurfar þar í júlí til ágúst. Segir þá að vitað sé að við virkjunarstaðinn vaxi óvenju stórar breiður af burkna, sem sé fátítt, en tegundin/tegundirnar hafi ekki verið greindar til tegundar. Þá séu all margar burknategundir hérlendis friðaðar. Kveðst Fuglavernd telja upplýsingar Náttúrufræðistofnunar um náttúrufar rangtúlkaðar, en stofnunin veki sérstaklega athygli á skorti á gögnum um gróður og dýralíf. Því geti vaxið þar sjalfgæfar plöntur án þess að það sé þekkt. Þetta þurfi að kanna áður en framkvæmdir verði heimilaðar eða mögulegu umhverfismati hafnað.

Fuglavernd segir það vitað að straumendur séu á Svelgsá og að þær haldi mest til nærri mögulegu virkjanasvæði. Telji Trausti Tryggvason sennilegt að þar verpi 2-3 pör. Af öðrum fuglum sem séu á válista og haldi til á eða nærri Svelgsá séu t.d. grágæs, gulönd og haförn. Séu þessar tegundir allar taldar verpa á svæðinu utan gulandar þar sem varp hennar hafi ekki verið staðfest. Hafi músarrindlar haldið til við lindirnar eða kaldavermslin á veturna og verpi mögulega í hraunkantinum. Segir að íslenski músarrindillinn sé einlend undirtegund islandia og fremur fágætur á heimsvísu. Í Helgafellssveit sé ekki mikið af stöðum sem henti músarrindlum til vetrardvalar, en þeir séu mest á gróðursælum stöðum þar sem sé sífellt rennsli linda og kaldavermsla á veturna. Ennfremur segir að hafernir verpi reglulega í hrauninu og eigi sér þar tvö hreiðurstæði og marga setstaði. Um sé að ræða gott hreiðurstæði fjarri alfararleið sem sé erninum mjög til hagsbóta, enda sé hann enn í dag ofsóttur þrátt fyrir ströng friðunarákvæði og því sé afar mikilvægt að hreiðurstaðir arnarins séu verndaðir, þá sérstaklega þeir sem ekki séu í eyjum eða við sjó þar sem æðarvarp sé nærri. Telur Fuglavernd að vegna ónógrar þekkingar á náttúrufari og þar sem framkvæmdirnar geti haft slæm áhrif á varp straumanda og fugla á válista, sem og hugsanlega á fiskistofna og landslag, beri að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Lágmarkskrafa sé að fram fari ítarleg náttúrufarskönnun.

Skipulagsstofnun vísar til þess að í gögnum framkvæmdaraðila komi fram að fuglalíf á framkvæmdasvæðinu njóti á engan hátt sérstöðu. Hafi stofnuninni þó borist ábendingar varðandi nálægð við arnarhreiður og hafi því verið leitað umsagnar Náttúrufræðistofnunar. Í þeirri umsögn hafi komið fram að tveir varpstaðir væru þekktir og væru báðir í rúmlega 1 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu. Rask og umgangur tengdur framkvæmdum kynni að trufla arnarvarp eitthvað á varptíma þeirra og færi eftir tímasetningu og fyrirkomulagi framkvæmda. Að öðru leyti væri ólíklegt að framkvæmdin hefði langtímaáhrif á arnarvarp í Svelgsárhrauni. Vegur um framkvæmdasvæðið að inntakslóni myndi að vísu gera hið afskekkta svæði aðgengilegra og þyrfti e.t.v. að huga að því að takmarka umferð óviðkomandi um veginn ef ástæða þætti til. Kvaðst Skipulagsstofnun hafa tekið ábendingar Náttúrufræðistofnunar um að framkvæmdaraðili ráðfærði sig við Náttúrustofu Vesturlands í tengslum við arnarvarp, upp í niðurstöðu sína og hvatt sveitarfélagið til að binda framkvæmdaleyfið slíkum skilyrðum. Kvaðst stofnunin ekki vera kunnugt um annað fuglalíf á svæðinu.

Skipulagsstofnun segir óhjákvæmilegt að nokkuð rask verði á gróðri en þar sem inntakslón ofan stíflu verði lítið og nánast eingöngu bundið við farveg Svelgsár verði gróðri fyrst og fremst spillt þar sem vegslóð og inntakslögð verði komið fyrir en hvorki verði raskað votlendi né vistkerfum sem njóti sérstakrar verndar skv. 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Segir að í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila komi fram að samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands séu ekki á svæðinu friðlýstar plöntur eða plöntur á válista. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar til stofnunarinnar segi að þær fullyrðingar séu réttar svo langt sem þær nái en grasafræðingar stofnunarinnar kannist ekki við að haft hafi verið samband við þá vegna málsins og byggist því umræddar fullyrðingar væntanlega á birtum upplýsingum. Samkvæmt upplýsingum grasafræðinganna Harðar Kristinssonar og Starra Heiðmarssonar séu hvorki friðlýstar plöntur né plöntur á válista í þeim reit, þ.e. 10 x 10 = 100 km², sem framkvæmdasvæðið sé í. Afar fáar athuganir séu í gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar frá jörðinni Svelgsá, þ.e. í nágrenni framkvæmdasvæðisins, og nánast ekkert verið skráð nema nokkrir tugir mosasýna og lúpína. Segir að hvorki háplöntur né fléttur hafi verið skráðar þar svo nokkuð sé á byggjandi. Væru því engar forsendur til staðar til að meta eða vita með vissu hvort sjaldgæfar plöntur væru að finna á framkvæmdasvæðinu.

Skipulagsstofnun segir að í gögnum framkvæmdaraðila komi fram að svæðið sem um ræði sé mói sem ekki hafi verið nýttur nema sem beitiland sauðfjár og að ekkert votlendi sé á þeim kafla sem um ræði. Hafi sérfræðingur Umhverfisstofnunar skoðað vettvang og Skipulagsstofnun verið í sambandi við hann áður en ákvörðun hafi verið tekin um matsskyldu. Í kjölfarið hafi borist frekari umsögn Umhverfisstofnunar þar sem fram hafi komið að ekki væri líklegt að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hvatti stofnunin ráðuneytið til að afla upplýsinga hjá Fuglavernd um staðsetningu tilgreindra burknabreiða og taldi að kanna þyrfti hvort þær væru í hættu vegna framkvæmdanna, en ekki væri ljóst af kærunni hvort svo væri.

Umhverfisstofnun vísar í umsögn Náttúrufræðistofnunar og kveðst telja að sýnt hafi verið fram á að ólíklegt væri að framkvæmdin myndi hafa langtímaáhrif á arnarvarp í Svelgsárhrauni svo fremi að farið yrði eftir því verklagi sem Náttúrufræðistofnun Íslands hafi lagt til og vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun. Bendir Umhverfisstofnun á að upplýsingar í kæru Fuglaverndar um straumendur og aðrar fuglategundir á válista hafi ekki komið fram áður og kveðst telja að staðfesta verði hvort hætta sé á að framkvæmdir raski búsvæðum fuglategunda á válista. Séu straumönd og grágæs á válista sem tegundir í yfirvofandi hættu og gulönd sem tegund í hættu.

Náttúrufræðistofnun Íslands telur að náttúrufar við Svelgsá hafi ekki verið kannað og að upplýsingar um það séu af skornum skammti. Kveðst stofnuninni vera kunnugt um að framkvæmdir við Straumfjarðará hafi ekki verið í samræmi við kynningu framkvæmdaraðila hjá Skipulagsstofnun og hafi kjörlendi straumanda verið raskað mikið með virkjun árinnar. Segir þá að nánast engar rannsóknir á gróðri hafi farið fram við Svelgsá eða á fuglalífi við ána. Hvað varðar ábendingar um hugsanleg áhrif á arnarvarp vísar stofnunin á umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar frá 13. desember 2007. Segir þar að ernir hafi orpið öðru hverju í Svelgshrauni frá 1985, síðast 2005. Þekktir séu tveir varpstaðir í rúmlega 1 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu. Kunni rask og umgangur tengdur framkvæmdum á varptíma arna að trufla arnarvarp eitthvað, en það sé háð tímasetningu og því hvernig staðið verði að vinnunni. Séu ernir sérstaklega viðkvæmir á fyrri hluta varptíma, þ.e. frá apríl fram í miðjan júlí. Að öðru leyti sé ólíklegt að framkvæmdin muni hafa langtímaáhrif á arnarvarp í Svelgsárhrauni. Segir þá að vegur um framkvæmdasvæðið muni að vísu gera varpsvæðið aðgengilegra og þyrfti e.t.v. að huga að því að takmarka umferð óviðkomandi um veginn ef ástæða þyki til. Lagði stofnunin til að framkvæmdaaðili ráðfærði sig við Náttúrustofu Vesturlands um hvort arnarvarp væri í hrauninu á framkvæmdatíma og hagaði framkvæmdum í samræmi við ráðleggingar Náttúrustofu.

Í athugasemdum Náttúrustofu Vesturlands frá 12. febrúar 2008 segir að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki nefnt að á umræddu framkvæmdasvæði sé nokkur hætta á að röskun verði á votlendi og varpi straumandar, en staðkunnugur hafi vakið athygli Náttúrustofu á þessu. Segir að ekki hafi verið gerð könnun á náttúrufari svæðisins og séu grundvallarupplýsingar, s.s. um fuglavarp eða útbreiðslu plantna, ekki fyrir hendi. Þá sé Náttúrustofu ekki kunnugt um hversu umfangsmikil meint röskun á votlendi og fuglavarpi verði og mælist til þess að beðið verði með framkvæmdir þar til náttúrufar svæðisins hafi verið kannað vorið 2008.

Í athugasemdum framkvæmdaraðila segir að leitað hafi verið umsagna þeirra aðila sem Skipulagsstofnun og aðrir opinberir aðilar hafi óskað eftir. Hafi framkvæmdaraðili enga burkna séð við væntanlegan virkjunarstað og ekkert komið fram í umsögnum um slíkan gróður. Vaxi burkni helst í klettum og gjótum en ekki á bersvæði eins og sé á framkvæmdarsvæðinu. Spurning sé hvort ekki sé verið að vísa í hugsanlegan burknagróður í Svelgshrauninu, en gróður þar yrði ekki fyrir áhrifum. Hvað varðar fuglalíf segir að í umsögn Náttúrufræðistofnunar til Skipulagsstofnunar hafi ekki verið fjallað um fugla á válista á umræddum stað. Ekki hafi þó verið spurt um það. Segir að kaldavermsli og lindir árinnar verði nánast óbreyttar eftir að virkjað verði þar sem hvergi sé hróflað við slíku, nema ef slíkt sé að finna á inntaksstað, sem ekki hafi verið athugað sérstaklega. Ef slíkt væri myndi það þá vera í litlum mæli. Sé raunin sú að varp einhverra fugla sé nálægt virkjunarstað verði truflun á því á meðan á framkvæmdum standi, en að þeim loknum yrði umhverfið mjög svipað og nú væri hvað varðar fuglalíf. Hvað varðar arnarvarp segir að fram hafi komið að eitt arnarpar hafi verpt í Svelgsárhrauni og hafi framkvæmdaraðili lýst því yfir að hann hyggist loka vegi frá aðalvegi upp að stöðvarhúsi með læstu hliði.

Í umsögn Helgafellssveitar segir að landslag og gróðurfar í næsta nágrenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis sé að mestu móar sem ekki séu verndarsvæði skv. lögum um náttúruvernd og sé ekkert votlendi á svæðinu. Þá hafi sveitarstjórn ekki vitneskju um að á svæðinu sé að finna stórar breiður af fátíðum burknum og hafi slíkt auk þess ekki komið fram í umsögnum lögaðila.

Helgafellssveit telur að framkvæmdin muni ekki hafa teljandi áhrif á fuglalíf. Segir í umsögn hennar að tilgreindir varpfuglar geti mögulega orðið fyrir truflun, en líklega einungis á framkvæmdatíma. Verði virkjunarsvæðið lokað með hliði til að lágmarka truflun óviðkomandi umferðar. Segir að áréttað sé að Svelgsárhraunið, sem sé meintur varpstaður músarrindla, sé hinum megin við Svelgsána og því ólíklegt að músarrindillinn verði fyrir truflun vegna virkjanaframkvæmda. Jafnframt sé dregið í efa að Helgafellssveit sé einn af fáum stöðum sem henti músarrindlum til vetrardvalar. Mikilvægt sé að vernda hreiðurstæði arnarins en sveitarstjórn telji þó ekki ástæðu til að ætla, með vísan til umsagnar Náttúrufræðistofnunar, að hreiðurstæðin séu í hættu vegna framkvæmdanna, auk þess sem Skipulagsstofnun hafi í hinni kærðu ákvörðun hvatt sveitarstjórnina til að binda framkvæmdaleyfi því skilyrði að framkvæmdaaðili ráðfæri sig við Náttúrustofu Vesturlands um stöðu arnarvarpsins á viðkvæmasta varptímabili arnarins áður en framkvæmdir á varptíma hæfust.

Fuglavernd segir ljóst af fyrirliggjandi umsögnum að upplýsingar hvað varðar fuglalíf séu ófullnægjandi. Þó sé vitað að á svæðinu sé að finna sjaldgæfar fuglategundir, t.d. haförn og válistategundir eins og straumönd. Segir að í maí 2008 hafi þrjú straumandarpör verið við Svelgsá og þar af tvö við virkjunarstaðinn. Til að kanna þetta þurfi að skoða alla ána frá ósum til upptaka. Hafi verið óheppilegt að ekki hafi verið fengin umsögn frá Náttúrustofu Vesturlands. Séu þá upplýsingar um gróðurfar nær engar utan gamallar athugunar á mosum. Því sé ekki vitað hvort þar sé að finna sérstakt gróðurlendi, fágætar tegundir, tegundir á válista eða friðlýstar tegundir.

Vettvangskönnun Tómasar G. Gunnarssonar, vistfræðings, á fuglalífi og gróðurfari á áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar, fór fram samkvæmt skýrslu hans þann 18. júlí 2008 og tók einkum til fugla og háplantna. Segir í skýrslunni að talningar á fuglum um miðjan júlí gefi einkum mat á ungaframleiðslu og þar með gæði viðkomandi svæðis, en á þeim tíma séu flestir andfuglar og mófuglar sem varp hafi heppnast hjá með unga og því enn á staðnum. Sýni rannsóknir á algengum íslenskum vaðfuglum að talningar um miðjan júlí séu ágætur mælikvarði á gæði svæða, en svæði sem framleiði lítið af ungum séu oftast orðin auð og tóm af fuglum þá en góð svæði séu enn með talsvert af fuglum. Séu flestir andfuglar einnig á varpstöðvum með unga um þetta leyti og því auðtaldir. Hafi gróðurfar þá verið kannað á ómagnbundinn hátt, einkum háplöntur, en lágplöntur hafi ekki verið skoðaðar. Segir að gengið hafi verið meðfram ánni að austan, þ.e. Hrísamegin, frá ósi og um 150 m upp fyrir fyrirhugað inntakslón sem sé nokkurn spöl ofan við Nátthagafoss. Hafi allir fuglar á ánni verið taldir og allir fuglar á um 100 m belti meðfram ánni Hrísamegin og þeir sem komið hafi í ljós á hinum bakkanum. Hafi gróður verið kannaður á ómagnbundinn hátt á melum þar sem vegur muni liggja að stöðvarhúsi og í hallamýri og hjöllum þar sem veituör liggi frá inntakslóni að stöðvarhúsi. Þá hafi verið leitað kerfisbundið að válistaplöntum þar sem stöðvarhús muni standa og þar sem inntakslón verði. Hafi sérstaklega verið leitað að sjaldgæfum burknum og öðrum plöntum í gjótum þar sem inntakslón muni liggja. Í samantekt segir að undanskildum tveimur straumandarkollum hafi engar sjaldgæfar tegundir fugla eða háplantna fundist ef miðað sé við válista Náttúrufræðistofnunar 1 og 2. Hafi svæðið virst fremur fábreytt hvað varðar fuglalíf og gróður. Segir að ólíklegt verði að teljast að Svelgsá sé mikilvæg uppeldisstöð fyrir straumendur þar sem aðeins einn ungahópur hafi verið á ánni. Sama megi segja um stokkendur sem séu mjög algengar um allt land. Fáir mófuglar með unga, þ.e. vaðfuglar og spörfuglar, hafi fundist sem bendi til þess að svæðið framleiði ekki mikið. Segir að miðað við fyrirliggjandi gögn, þ.e. drög að deiliskipulagi, virðist ólíklegt að fyrirhuguð virkjunarframkvæmd hafi umtalsverð staðbundin áhrif á fuglalíf eða gróðurfar og hún hafi án efa hverfandi áhrif á landsmælikvarða. Þá sé rétt að ítreka að könnun sem þessi, sem gerð sé um miðjan júlí, missi af hámarksfjölda fugla, sem sé yfirleitt seinni hluti maí, en gefi þó ágæta hugmynd um mikilvægi svæðisins. Þá hafi engar lágplöntur verið kannaðar.

Fuglavernd segir athugun á fuglum hafa verið framkvæmda of seint. Almennt sé talið rétt að framkvæma fuglaathuganir seinni hluta í maí og í júní og eigi það einnig við um straumendur. Staðfesti athugunin þó að við ána séu straumendur. Segir að Fuglavernd sé áfram þeirrar skoðunar að gera beri formlegt umhverfismat á lífríki árinnar og hennar næsta umhverfi. Kunni uppsöfnuð áhrif slíkra smávirkjana og hér um ræði að verða veruleg á lífríki smærri straumvatna og fuglalíf sem við þau þrífist. Lifi straumönd og gulönd dreift um landið, en fjöldi smávirkjana gæti haft verulega slæm áhrif á stofna þeirra. Sé kunnugt að virkjanir hafi mikil áhrif á straumvötn og hefti rek fæðuagna sem að smádýr lifi á, t.d. lirfur bitmúsa, sem séu mikilvæg fæða straumanda og fiska sem gulendur lifi á. Kveðst Fuglavernd telja rétt að fram fari ítarleg vinna og upplýsingasöfnun um hvernig best væri að standa að gerð smávirkjana svo að lífríki og umhverfi beri sem minnstan skaða af áður en frekari leyfi séu veitt.

Skipulagsstofnun telur athuganir Tómasar G. Gunnarssonar, vistfræðings, renna styrkari stoðum undir niðurstöður hinnar kærðu ákvörðunar .

2.3 Landslag, sjónrænir þættir o.fl.

Í kæru Fuglaverndar segir að ekki liggi fyrir deiliskipulag varðandi fyrirhugaða virkjun í Svelgsá. Segir þá að í upplýsingum um fyrirhugaða virkjun sé mjög óljóst hversu stórt svæðið sé sem raskað verði, t.d. sé stöðvarhús virkjunar sagt verða 40 til 60 til 120 m². Ekki sé vitað um stærð hússins eða hvernig það verði. Ómögulegt sé því að meta áhrif þess í umhverfinu, en húsið geti haft mikil áhrif á hið fallega landslag. Þá verði lagður vegur, 1,8 km langur og 4 m breiður, þar sem enginn vegur sé nú. Á svæðinu séu einungis hjólför að vatnsbólinu sem séu það ógreinileg að varla sé hægt að tala um slóða. Auk stöðvarhússins sé gert ráð fyrir 0,3 km² lóni og 200 m stíflu. Segir að allt verði þetta mjög áberandi, séð frá útivistarsvæðinu á Drápuhlíðarfjalli, en þar sé mikil umferð útivistarfólks. Þá hafi komið fram í málinu að Nátthagafoss verði ónýtur við umrædda framkvæmd og þurfi því að skoða fossinn og meta náttúruverðmæti hans. Bendir Fuglavernd á að fossar njóti sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga.

Skipulagsstofnun segir að í greinargerð framkvæmdaraðila hafi verið gerð grein fyrir stíflu úr steinsteypu og jarðvegi, inntakslóni og þrýstilögn milli stíflu og stöðvarhúss. Í gögnunum komi fram að sverleiki lagnar sem og stærð stöðvarhúss liggi ekki fyrir þar sem endanleg stærð myndi ráðast af þeim vélbúnaði sem yrði valinn. Fram hafi komið að um 4 m breið og 1.800 m löng vegslóð liggi frá þjóðveginum að þeim stað sem fyrirhugað sé að reisa stöðvarhús, en slóðin verði lengd upp með inntakslögn og að stíflustæði. Þess utan hafi verið fyrirhugað að leggja 19 kV rafstreng í jaðri slóðarinnar að línu RARIK. Þá hafi verið lýst aðstæðum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði og fjallað um helstu umhverfisáhrif. Segir að ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi byggt á því að áhrif á landslag og jarðmyndanir yrðu óveruleg.

Skipulagsstofnun bendir á að í hinni kærðu ákvörðun segi að þegar rennsli Svelgsár verði í lágmarki verði talsverð ásýndarbreyting á ánni. Á þeim tíma verði farvegur árinnar, á um 1 km kafla milli stíflu og stöðvarhúss, nánast þurr fyrir utan smárennsli sem muni berast til hans úr hliðarlækjum á kaflanum. Geri stofnunin því ekki lítið úr þeim breytingum sem verði á rennsli Svelgsár, þ.m.t. Nátthagafossi, en um sé að ræða fórnarkostnað á um 1 km kafla í ánni, þar sem samkvæmt gögnum framkvæmdaraðila sé ekki að finna náttúrufar sem njóti sérstakrar verndar.

Umhverfisstofnun bendir á að í umsögn stofnunarinnar frá 13. mars 2007 til Skipulagsstofnunar segi að Nátthagafoss sé á skrá Náttúruverndarráðs frá 1978 yfir fossa á Íslandi sem æskilegt sé talið að friðlýsa. Því þyrfti að leggja fram upplýsingar um þær breytingar á vatnsmagni í þeim hluta árvegarins þar sem áhrifa virkjunar myndi gæta og hvaða áhrif það hefði á útlit fossins. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að rennsli árinnar frá stíflu og niður fyrir stöðvarhús muni breytast og verði frá því að vera ekki neitt og upp í 2,7 m³/s. Vegna þessa verði Nátthagafoss mjög vatnslítill og vatnslaus eftir því sem rennsli yfir stíflu minnki.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur undir þá skoðun Fuglaverndar að óljóst sé hversu stórt svæði það sé sem umrædd virkjun kunni að raska og að mannvirki gætu orðið áberandi frá ýmsum sjónarhornum útivistarfólks, þ.á.m. úr Drápuhlíðarfjalli. Segir að Svelgsárhraun og næsta nágrenni þess sé algerlega óraskað. Telur stofnunin að meta skuli umhverfisáhrif virkjunar við Svelgsá og kveðst benda á að undirbúningi og byggingu margra smávirkjana á landinu hafi verið verulega ábótavant.

Framkvæmdaraðili segir að mjög glöggt komi fram í gögnum málsins um hvaða svæði sé að ræða sem verði fyrir áhrifum. Uppkast hafi legið fyrir að deiliskipulagi svæðisins og sé það hluti af málinu og í því ferli sem málið sé að öðru leyti. Hvort stöðvarhúsið verði stærra eða minna innan þeirra marka sem tillagan geri ráð fyrir komi í ljós þegar liggi fyrir hvaða búnaður verði fyrir valinu, en út frá hagkvæmnissjónarmiðum muni stærðin ekki verða meiri en þörf verði á. Kveðst framkvæmdaraðili telja virkjanasvæðið lítt áberandi þar sem stöðvarhúsið verði í skjóli hrauns frá umferð og önnur mannvirki verði að mestu hulin jarðavegi. Þá hafi því verið lýst yfir að vegi frá aðalvegi upp að stöðvarhúsi verði lokað með læstu hliði og verði svæðið því áfram að loknum framkvæmdum lítt áberandi og utan alfararleiðar.

Helgafellssveit telur að sýnt hafi verið fram á að umhverfisáhrif umræddrar virkjunar verði í lágmarki. Sé um að ræða rennslisvirkjun og því miðlunarlón lítið og að sár sem komi vegna stíflugerðarinnar verði að mestu undir vatni við framkvæmdalok og aðfallspípa hulinn þeim jarðvegi sem fáist upp úr lagnaskurðinum. Fyrirhugað sé að græða upp það land sem hróflað verði við með svipuðum gróðri og fyrir sé á svæðinu. Eigi það jafnt við um jarðrask kringum jarðvegsstíflu, inntakið, aðfallspípu og umhverfi stöðvarhússins. Ekki sé fyrirhugað að hrófla við farvegi Svelgsár nema við inntaksmannvirkið. Hins vegar muni Nátthagafoss minnka eða hverfa. Muni sjónræn áhrif aðallega verða vegna stöðvarhússins sem standa muni við ána. Segir að sveitarstjórn telji ekki óljóst hversu stórt svæðið verði raskað og telji fullyrðingu Fuglaverndar í þá veru ranga. Telji hún þá sjónræn áhrif virkjunarinnar lítil miðað við umfang framkvæmdanna.

3. Reynsla af öðrum stíflum vegna smávirkjana.

Í kæru landeigenda Svelgsár segir að í skýrslu Skipulagsstofnunar sé bent á að á síðustu árum hafi stíflur þriggja smávirkjana brostið með tilheyrandi flóðum og slysahættu. Segir í kærunni að þau ummæli séu m.a. ein stoðin undir mótmæli kærenda.

Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni að stofnunin hafi vakið sérstaka athygli á hættu á stíflubresti og tilheyrandi afleiðingum og því lagt ríka áherslu á að til hættunnar væri horft við endanlega hönnun stíflumannvirkja. Hafi ástæða þessa verið sú að þrjár aðrar stíflur hafi brostið og því ástæða til að fyrirbyggja eins og kostur væri endurtekningu slíkra hamfara. Ekki fylgi þá umræddu framkvæmdasvæði einhver meiri áhætta hvað þetta varðar umfram aðra staði.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er vísað í umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar frá 19. nóvember 2007 og ítrekaðar ábendingar þess efnis að nauðsynlegt sé að unnt sé að sannreyna að staðið verði að framkvæmdum á þann hátt sem lýst sé í gögnum framkvæmdaraðila.

Framkvæmdaraðili kveðst meðvitaður um að stíflur smávirkjana hafi brostið og segir byggingaryfirvöld munu sjá til þess að hönnunin standist þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til slíkra mannvirkja og að framkvæmdin sjálf standist settar kröfur.

Helgafellssveit segir sveitarstjórn vel meðvitaða um þá hættu sem bent sé á en bendir á að stíflur séu framkvæmdaleyfisskyld mannvirki skv. skipulags- og byggingarlögum. Segir að skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins muni lögum samkvæmt fylgja því eftir að framkvæmdin verði í samræmi við samþykkt hönnunargögn og deiliskipulag af svæðinu. Telji sveitarstjórn að umrædd hætta sé einungis til staðar við meiriháttar náttúruhamfarir.

III. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum skulu framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Eru veruleg umhverfisáhrif í lögunum skilgreind sem veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Í 2. viðauka laganna eru tilgreindar þær framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum, sbr. 3. viðauka laganna. Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar er tilgreind í a. lið 3. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, en þar eru m.a. tilkynningarskyld vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira.

1. Annmarki á málsmeðferð.

Landeigendur Svelgsár telja þá málsmeðferð ekki standast lög að ekki hafi verið leitað umsagna þeirra eða álits áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Tilkynningarskylda framkvæmd samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum ber framkvæmdaraðila að tilkynna til Skipulagsstofnunar og skal stofnunin innan fjögurra vikna frá því að gögn berast tilkynna hvort framkvæmdin skuli háð mati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Skipulagsstofnun skal gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og kynna hana almenningi, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Skal almenningi heimilt að tilkynna framkvæmd eða bera fram fyrirspurn um matsskyldu framkvæmda sem taldar eru upp í 2. viðauka til Skipulagsstofnunar og skal stofnunin þá leita upplýsinga um framkvæmdina hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og taka ákvörðun um hvort hún eigi undir greinina, sjá 3. mgr. 6. gr. laganna. Segir í greinargerð með lögunum að markmiðið með ákvæði þessu hafi verið að auðvelda aðkomu almennings og stuðla að því að þær framkvæmdir sem kunni að vera matsskyldar samkvæmt frumvarpinu verði tilkynntar stofnuninni.

Ráðuneytið telur með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að auk framkvæmdaraðila og leyfisveitanda beri Skipulagsstofnun eftir atvikum einnig að leita til annarra aðila og þá einkum stofnana sem búa yfir sérþekkingu á viðkomandi sviði og hafa lögbundið hlutverk sem nýtist við mat á því hvort tiltekin framkvæmd teljist hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ber stofnuninni að meta hverju sinni hvaða aðilar þetta eru. Tekur ráðuneytið undir þau ummæli Skipulagsstofnunar að umfjöllun um eigna- og bótarétt sé ekki umfjöllunarefni mats á umhverfisáhrifum. Er því ekki leitað umsagna landeigenda eða annarra hagsmunaaðila í slíkum málum, enda ekki gerð krafa um það í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt lögunum lýtur aðkoma mögulegra hagsmunaaðila hverju sinni og almennings að því að Skipulagsstofnun ber skylda til að kynna fyrir almenningi ákvörðun um matsskyldu. Þá geta þeir sem lögvarða hagsmuni eiga að gæta, sem og umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, kært slíka ákvörðun til ráðherra, eins og nánar er kveðið á um í 2. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur ráðuneytið að Skipulagsstofnun hafi ekki verið skylt að leita umsagnar kærenda sem landeigenda jarðarinnar Svelgsár áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

2. Áhrif á staðbundinn fiskistofn, lífríki Svelgsár, gróðurfar, fuglalíf og landslag.

Í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum eru tilgreindar þær viðmiðanir sem líta ber til við mat á því hvort framkvæmd samkvæmt 2. viðauka laganna geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. til 3. tölul. 3. viðauka laganna. Þegar litið er til eðlis framkvæmdar ber m.a. að taka tillit til stærðar og umfangs framkvæmdar, sbr. i. liður 1. tölul. Varðandi staðsetningu samkvæmt 2. tölul. þarf að athuga hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, m.a. með tilliti til landnotkunar sem fyrir er eða er fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, sbr. i. liður, og álagsþols náttúrunnar, m.a. með tilliti til sérstæðra jarðmyndana, svo sem vatnsfalla, sbr. iv. liður 2. tölul. Hvað varðar eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar þá ber að skoða áhrif framkvæmdar í ljósi viðmiðana sem fram koma á undan, m.a. með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum, sbr. i. liður, stærðar og fjölbreytileika áhrifa, sbr. ii. liður, og þess hverjar líkur eru á áhrifum, sbr. iii. liður 3. tölul.

2.1 Staðbundinn fiskistofn og lífríki Svelgsár.

Landeigendur Svelgsár halda því fram í kæru sinni að í ánni fyrir ofan Tröllkonufoss sé staðbundinn fiskistofn. Telja þeir að fyrirhuguð virkjun muni hafa áhrif á fiskistofninn og þar með lífríki árinnar. Þá muni mikil breyting verða á vatnasvæði árinnar sökum breytinga á rennsli í ánni, sem muni hafa veruleg og óafturkær áhrif á lífríki hennar. Í kæru Fuglaverndar segir að kanna þurfi hvort staðbundinn stofn silungs eða urriða sé að finna ofan við Tröllafoss. Taldi Fuglavernd í tilefni af skýrslu Veiðimálastofnunar um athuganir á ferskvatnsfiskum í Svelgsá að þær athuganir hafi verið afar takmarkaðar og aðeins lítill hluti vatnasviðsins skoðaður.

Í ljósi framkominna kæra hvatti Skipulagsstofnun ráðuneytið í umsögn sinni til að afla frekari upplýsinga til að fá skorið úr þeim þáttum er vörðuðu fiskgengd og veiði í Svelgsá. Segir í umsögninni að í greinargerð framkvæmdaraðila hafi komið fram að ekki væri gert ráð fyrir að framkvæmdirnar hefðu áhrif á veiði eða fiskgengd og í umsögn veiðimálastjórnar Landbúnaðarstofnunar að fyrirhuguð virkjun myndi ekki hafa áhrif á göngufisk.

Eins og fram hefur komið var við athugun Veiðimálastofnunar á ferskvatnsfiskum í Svelgsá farið upp með ánni og hún könnuð, allt frá ármótum gilja skammt ofan við vatnsból Stykkishólmsbæjar og langleiðina að ósi árinnar. Voru búsvæði árinnar skoðuð m.t.t. botngerðar og straumlags árinnar og mælt hitastig og rafleiðni árvatnsins. Samkvæmt niðurstöðum athugunarinnar var ekki vart við ferskvatnsfiska á ófiskgengna árhluta árinnar. Talið var að ekki væri útilokað að fiskar væru þar en þó fullyrt að þéttleiki þeirra væri lágur þar sem þeir höfðu ekki komið fram á veiðistöðum. Var talið að mjög góð skilyrði væru fyrir fiskseiði á þeim stöðum sem höfðu verið teknir til athugunar. Segir að á fiskgengna hluta árinnar hafi verið vart við urriða en ekki aðrar tegundir ferskvatnsfiska. Ekki liggi fyrir upplýsingar um veiðinýtingu í ánni en líklegt sé að lítill sjóbirtingsstofn sé til staðar í ánni í ljósi þess að urriði hafi fundist á fiskgengna hluta árinnar. Segir að ekki verði séð að virkjun á efsta hluta Svelgsár muni hafa neikvæð áhrif á fiskframleiðslu eða veiðar á laxfiskum í Svelgsá en engin miðlun sé við virkjunina þannig að áhrif á farveg og rennsli neðan við væntanlegt stöðvarhús verði væntanlega mjög lítil. Muni rennsli á farvegi árinnar frá inntakslóni að stöðvarhúsi skerðast við virkjunina en í ljósi þess að fiskar hafi ekki fundist á ófiskgengna hluta árinnar verði ekki séð að um neikvæð áhrif geti verið að ræða á fiskframleiðslu á þeim hluta árinnar.

Samkvæmt 1. gr. laga um Veiðimálastofnun, nr. 59/2006, er stofnunin rannsóknastofnun á sviði ferskvatnsfiska og lífríkis þeirra og heyrir undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra. Um hlutverk stofnunarinnar er fjallað í 4. gr. laganna. Stundar stofnunin m.a. rannsóknir á lífríki í ám og vötnum, rannsakar fiskstofna í ám og vötnum, veitir ráðgjöf um veiðinýtingu og hvort auka megi veiði eða arðsemi hennar og er ráðgefandi varðandi lífríki og umhverfi áa og vatna, t.d. varðandi mannvirkjagerð. Telur ráðuneytið stofnunina afar vel til þess fallna að framkvæma áðurgreinda athugun fyrir framkvæmdaraðila og ekkert í málinu gefa tilefni til að ætla að ekki hafi verið skoðaður nógu stór hluti vatnasviðs árinnar. Eins og áður greinir eru niðurstöður athugunarinnar þær að ekki er talið að virkjun á efsta hluta Svelgsár muni hafa neikvæð áhrif á fiskframleiðslu eða veiðar á laxfiskum í Svelgsá og þó svo að rennsli á árfarvegi frá inntakslóni að stöðvarhúsi skerðist sé ekki talið að neikvæð áhrif geti verið um að ræða þar sem fiskar hafi ekki fundist á ófiskgengna árhlutanum. Í ljósi niðurstaðna Veiðimálastofnunar sem og annarra gagna málsins telur ráðuneytið ekkert benda til þess að fyrirhuguð áhrif á mögulega fiskistofna og lífríki í ánni Svelgsá verði umtalsverð.

2.2 Gróðurfar og fuglalíf.

Fuglavernd segir upplýsingar skorta um gróðurfar og fuglalíf á umræddu framkvæmdasvæði. Telur hún að við virkjunarstaðinn vaxi stórar breiður af burkna og að þar geti vaxið sjaldgæfar tegundir án þess að þekkt sé. Segir í kærunni að straumendur séu á Svelgsá og að aðrir fuglar þar á válista séu t.d. grágæs, gulönd og haförn. Telja kærendur einnig að músarrindlar hafi haldið til á svæðinu.

Í tilefni af skýrslu framkvæmdaraðila vegna athugana í tengslum við fuglalíf og gróður kvaðst Fuglavernd telja fuglaathuganir hafa verið framkvæmdar of seint og að almennt væri talið rétt að framkvæma fuglaathuganir seinni hluta í maí og júní. Taldi hún athugunina þó staðfesta að straumendur væru við ána. Í athugasemdum sagði þá að uppsöfnuð áhrif vegna smávirkjana kunni að verða veruleg á lífríki smærri straumvatna og fuglalíf.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að samkvæmt gögnum framkvæmdaraðila njóti fuglalíf á svæðinu á engan hátt sérstöðu. Bendir stofnunin á að hún hafi tekið upp þá ábendingu Náttúrufræðistofnunar Íslands í niðurstöðu sína að framkvæmdaraðili ráðfærði sig við Náttúrustofu Vesturlands hvað varðar áhrif framkvæmdanna á arnarvarp og hvatt sveitarfélagið til að binda framkvæmdaleyfið skilyrðum hvað þetta varðaði.

Skipulagsstofnun bendir á að í gögnum framkvæmdaraðila komi fram að samkvæmt Náttúrufræðistofnun Íslands séu ekki á svæðinu friðlýstar plöntur eða plöntur á válista og að í umsögn Náttúrufræðistofnunar segi að þær fullyrðingar séu réttar svo langt sem þær nái, en ekki hafi verið haft samband við grasafræðinga stofnunarinnar vegna málsins. Hafi Náttúrufræðistofnun þó talið engar forsendur vera til að meta eða vita með vissu hvort sjaldgæfar plöntur væru að finna á framkvæmdasvæðinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Skipulagsstofnun segir að samkvæmt gögnum framkvæmdaraðila sé um að ræða móa sem ekki hafi verið nýttur nema sem beitiland sauðfjár og að ekkert votlendi sé á þeim kafla sem um ræði. Hafi sérfræðingur Umhverfisstofnunar skoðað vettvang og gefið það álit að ekki væri líklegt að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Hvatti stofnunin ráðuneytið til að afla upplýsinga hjá Fuglavernd um tilgreindar burknabreiður.

Umhverfisstofnun telur með vísan til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands að sýnt hafi verið fram á að ólíklegt væri að framkvæmdin myndi hafa langtímaáhrif á arnarvarp í Svelgsárhrauni svo framarlega sem farið yrði eftir því verklagi sem Náttúrufræðistofnun hafi lagt til. Taldi Umhverfisstofnun að staðfesta yrði hvort hætta væri á að framkvæmdir myndu raska búsvæðum fuglategunda á válista.

Náttúrufræðistofnun Íslands telur að náttúrufar við Svelgsá hafi ekki verið kannað og segir að nánast engar rannsóknir hafi verið gerðar á gróðri eða fuglalífi við ánna. Segir hún tvo varpstaði arna kunnuga í um 1 km fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu. Telur hún rask og umgang tengdum framkvæmdum á varptíma arna kunna að trufla arnarvarp eitthvað en að öðru leyti ólíklegt að framkvæmdin hefði langtímaáhrif á arnarvarp í Svelgsárhrauni. Telur hún að e.t.v. þurfi að huga að því að takmarka umferð óviðkomandi um veginn að framkvæmdasvæðinu. Lagði stofnunin til að framkvæmdaraðili ráðfærði sig við Náttúrustofu Vesturlands hvað varðar framkvæmdir á varptíma arna. Hefur Náttúrustofa Vesturlands einnig vakið athygli ráðuneytisins á því að ekki hafi verið gerð könnun á náttúrufari svæðisins og að upplýsingar um fuglavarp eða útbreiðslu plantna séu ekki fyrir hendi.

Athugun Tómasar G. Gunnarssonar, vistfræðings, fór fram um miðjan júlí 2008 og tók einkum til fugla og háplantna. Rökin fyrir tímasetningunni eru þau að á þessum tíma séu þeir andfuglar og mófuglar sem varp hafi heppnast hjá enn á staðnum og er því til stuðnings vísað til rannsókna á algengum íslenskum vaðfuglum. Voru allir fuglar á ánni taldir og allir fuglar á um 100 m belti meðfram ánni Hrísamegin og þeir sem komu í ljós á hinum bakkanum. Var gróður kannaður á ómagnbundinn hátt á melum þar sem vegur mun liggja að stöðvarhúsi og í hallamýri og hjöllum þar sem veiturör mun liggja frá inntakslóni að stöðvarhúsi. Þá var leitað kerfisbundið að válistaplöntum þar sem stöðvarhús mun standa og þar sem inntakslón verður. Var sérstaklega leitað að sjaldgæfum burknum og öðrum plöntum í gjótum þar sem inntakslón mun liggja. Niðurstöður athugunarinnar voru þær að engar sjaldgæfar tegundir fugla eða háplantna fundust miðað við válista Náttúrufræðistofnunar 1 og 2, að undanskildum tveimur straumandarkollum, og virtist svæðið fremur fábreytt hvað varðar fuglalíf og gróður. Var talið ólíklegt að Svelgsá væri mikilvæg uppeldisstöð fyrir straumendur þar sem aðeins einn ungahópur fannst á ánni og gilti það sama um stokkendur sem segir að séu mjög algengar á landinu. Fundust fáir mófuglar með unga, þ.e. vaðfuglar og spörfuglar, sem segir að bendi til þess að svæðið framleiði ekki mikið. Telur skýrsluhöfundur ólíklegt miðað við fyrirliggjandi gögn að fyrirhuguð virkjunarframkvæmd muni hafi umtalsverð staðbundin áhrif á fuglalíf eða gróðurfar og hún hafi án efa hverfandi áhrif á landsmælikvarða. Tekur hann fram að sökum þess að könnunin hafi verið gerð um miðjan júlí missi hún að hámarksfjölda fugla, sem séu yfirleitt seinni hlutann í maí. Telur hann hana þó gefa ágæta hugmynd um mikilvægi svæðisins.

Eins og áður greinir er tekið tillit til þess í niðurstöðum umræddrar athugunar að hún hafi sökum tímasetningar ekki gefið mynd af hámarksfjölda fugla á svæðinu. Var það mat skýrsluhöfundar að tímasetningin myndi gefa góða mynd af gæði svæðisins með tilliti til fuglaframleiðslu. Telur ráðuneytið að ekkert í umræddri athugun gefa tilefni til að draga mat þetta í efa, en eins og áður greinir er m.a. vísað í íslenskar rannsóknir því til stuðnings. Eru niðurstöður þær að ólíklegt sé að Svelgsá sé mikilvæg uppeldisstöð fyrir straumendur og stokkendur og fundust einnig fáir mófuglar með unga. Er talið ólíklegt að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa umtalsverð staðbundin áhrif á fuglalíf eða gróðurfar og að hún hafi án efa hverfandi áhrif á landsmælikvarða. Í athuguninni fundust engar sjaldgæfar tegundir háplantna miðað við válista Náttúrufræðistofnunar 1 og 2 og þá engar burknabreiður. Þá hefur komið fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar að ólíklegt sé að umræddar framkvæmdir hafi langtímaáhrif á arnarvarp þó svo að þær geti haft einhver áhrif á meðan á framkvæmdum standi, þ.e. á þeim tíma sem arnarvarp standi yfir. Ljóst er hins vegar samkvæmt umsögninni að einungis er um að ræða tvenn arnarvörp sem eru í nokkurri fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu, þ.e. 1 km.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið og þá sérstaklega með vísan til niðurstaðna í skýrslu Tómasar G. Gunnarssonar, vistfræðings, sem og fyrirliggjandi umsagna, telur ráðuneytið að möguleg áhrif á fuglalíf og gróðurfar á umræddu framkvæmdasvæði við Svelgsá verði ekki umtalsverð. Tekur ráðuneytið hins vegar undir ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar Íslands og mælist til þess að framkvæmdaraðili ráðfæri sig við Náttúrustofu Vesturlands hvað varðar framkvæmdir á varptíma arna vegna hugsanlegra áhrifa framkvæmda á varp þeirra.

2.3 Landslag, sjónrænir þættir o.fl.

Fuglavernd bendir á að ekki liggi fyrir deiliskipulag varðandi fyrirhugaða virkjun í Svelgsá. Telur hún óljóst hversu stórt svæði verði raskað og bendir á að fram komi að stöðvarhús verði 40 til 60 til 120 m² og ekki komi fram hvernig það verði, en það hús geti haft mikil áhrif á landslag. Þá verði vegur lagður þar sem enginn vegur sé nú, en óljós hjólför séu að vatnsbólinu en ekki slóði. Telur kærandi þessi atriði ásamt 0,3 km² lóni og 200 m stíflu verða mjög áberandi séð frá útivistarsvæði á Drápuhlíðarfjalli og telur einnig að meta þurfi verðmæti Nátthagafoss sökum þess að hann verði ónýtur við framkvæmdina.

Sú framkvæmd sem hér um ræðir er tilgreind í a. lið 3. tölul. 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Ber framkvæmdaraðila að tilkynna Skipulagsstofnun um framkvæmdina samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Setur ráðherra í reglugerð ákvæði um hvaða gögn skuli lögð fram til Skipulagsstofnunar.

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum, nr. 1123/2005, skulu fylgja tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar eftirfarandi gögn um framkvæmd eftir því sem við á: a) lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, sbr. 1. tl. 3. viðauka reglugerðarinnar, b) uppdráttur af fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi þar sem fram koma mörk framkvæmdasvæðis, mannvirki sem fyrir eru á svæðinu og upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd, c) upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum, d) lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, sbr. 2. tl. 3. viðauka við reglugerð þessa, e) lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, sbr. 3. tl. 3. viðauka reglugerðar þessarar, f) upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá framkvæmdaraðila er um að ræða 655 kW virkjun og verður virkjað rennsli um 0,77 m³/sek miðað við 105 m fall. Var meðfylgjandi kort af svæðinu þar sem staðsetning virkjunar er sýnd, sem og loftmynd af svæðinu. Segir að um sé að ræða rennslisvirkjun og verði því ekki vatnsmiðlun í ánni. Verði um 200 m löng stífla reist og verði miðhluti hennar í farvegi árinnar steinsteyptur með yfirfalli en til hliðar verði stíflan úr jarðvegi. Þá verði jarðvegsstíflurnar hefðbundnar, þ.e. varnargarður með kjarna og varnarlagi. Segir að steypti hlutinn verði allt að 6 m en jarðvegshlutinn að hámarki 5,5 m. Gert verði þá ráð fyrir að inntakslónið verði um 3.000 m². Frá inntaki í stíflu muni liggja niðurgrafin þrýstilögn sem verði 1.050 m löng og 60-92 cm í þvermál. Muni stærð og form stöðvarhúss taka nokkurt mið af þeim vélbúnaði sem verði valin, en miðað sé við að húsið verði 40 til 60 m², en að hámarki 120 m² og mesta hæð þess 5 m frá gólfplötu. Það efni sem verði grafið upp úr grunni stöðvarhúss verði jafnað út og grætt upp líkt og yfirborð Svelgsá. Þá muni um 4 m breið og 1.800 m löng vegslóð sem liggi frá þjóðveginum, þ.e. Snæfellsnesvegi, að þeim stað sem fyrirhugað sé að reisa stöðvarhús, lengd upp með inntakslögn og að stíflustæði. Sé þá fyrirhugað að leggja 19 kV rafstreng í jaðri lóðarinnar að línu Rarik. Segir að í framlögðum gögnum komi fram að efni í jarðvegshluta stíflunnar, 4.000-5.000 m³, verði fengið með því að ýta upp af svæði sem komi til með að lenda undir lóninu. Stefnt sé að því að nota það efni sem komi úr skurði fyrir þrýstilögn til framkvæmdanna, en reynist það ekki unnt verði efni sótt í opna námu sem staðsett sé skammt austan við vegslóðina um 500 m frá Snæfellsnesvegi. Þar sem vegslóð verði að stærstum hluta á mel þurfi lítið efni til vegagerðar, en það verði tekið úr fyrrgreindri námu.

Eins og fram hefur komið tiltekur Fuglavernd í kæru sinni að ekki sé í gildi deiliskipulag vegna umrædds svæðis. Telur ráðuneytið með vísan til áðurgreinds c. liðar 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum að ekki þurfi að liggja fyrir gildandi deiliskipulag vegna tiltekins framkvæmdasvæðis til að heimilt sé að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar, en samkvæmt umræddri grein skal einungis gert grein fyrir því hvernig framkvæmdirnar falli að gildandi skipulagsáætlunum.

Í kæru Fuglaverndar segir að óljóst sé hversu stórt það svæði sé sem verði raskað og að stærð stöðvarhúss sé óljós auk þess sem sá vegslóði sem til standi að lengja sé ekki slóði heldur óljós hjólför. Að mati ráðuneytisins með vísan til þess sem að framan greinir felur tilkynning framkvæmdaraðila í sér nægjanlega skýra lýsingu á þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru og umfangi þeirra og er í samræmi við kröfur í reglugerð um mat á umhverfisáhrifum. Af þessu má greina hvaða svæði verði raskað við framkvæmdirnar og einnig umfang þess. Í umræddri lýsingu kemur m.a. fram hvernig hagað verði efnistöku, tilgreind er stærð umræddrar stíflu og byggingarefni hennar, stærð inntakslónsins, stærð hinnar niðurgröfnu þrýstilagnar og hversu breiður og langur fyrirhugaður vegur verði. Um umrætt stöðvarhús liggja fyrir þær upplýsingar að stærð þess verði að lágmarki 40 m² og að hámarki 120 m² og að hámarkshæð þess frá gólfplötu verði 5 m. Samkvæmt þessu liggja fyrir upplýsingar um hámarksstærð stöðvarhússins, bæði hvað varðar hæð og flatarmál, og því unnt að gera ráð fyrir þeirri stærð við ákvarðanatöku í máli þessu. Ljóst er að ekki er gerð krafa um það í c. lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum að framkvæmdaraðili leggi fram hönnunargögn vegna bygginga tengdum framkvæmdum, en slík gögn eru lögð fram þegar sótt er um byggingarleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi. Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. Skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, skal sá sem óskar byggingarleyfis senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum. Í byggingarreglugerð, nr. 441/1998, er nánar kveðið á um hvaða önnur gögn skuli fylgja leyfisumsókn og hvernig frá umsókn og uppdráttum skuli gengið. Í ljósi þessa telur ráðuneytið fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir í máli þessu um stærð og gerð umrædds stöðvarhúss. Hvað varðar tilgreindan vegaslóða, sem fyrirhugað er að lengja upp með inntakslögn og að stíflustæði, telur ráðuneytið ekki skipta sköpum hvort hann sé skilgreindur sem slóði eða hjólför, eins og segir í kæru. Er sá þáttur einungis lítill hluti fyrirhugaðra framkvæmda og hafa ekki verið gerðar sérstakar athugasemdir við hann í veittum umsögnum. Telja verður þó að máli skipti að allur frágangur sé viðunandi við slíkt rask til að sjónræn áhrif vegna framkvæmdanna verði sem minnst. Ljóst er þá að umrædd virkjun verður í nágrenni við Svelgsárhraunið, en eins og segir í hinni kærðu ákvörðun þá verður hvergi farið inn á hraunið. Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að sjónræn áhrif umræddra framkvæmda, sem og áhrif á landslag og jarðmyndanir verði óveruleg. Segir að óhjákvæmilega verði sýnilegt nokkuð jarðrask á framkvæmdatíma en að honum loknum beri fremur lítið á mannvirkjum að því tilskyldu að vandað verði til verka við frágang og ummerki máð út líkt og framkvæmdaraðili áformi. Telur stofnunin þá að þar sem nokkur fjarlægð sé frá þjóðvegi að mannvirkjum og Svelgsárhraun byrgi að nokkru leyti sýn frá þjóðvegi verði mannvirki lítt sýnileg frá veginum. Fuglavernd telur hins vegar að fyrirhugaðar framkvæmdir verði áberandi séð frá útivistarsvæðinu í Drápuhlíðarfjalli og segir einnig í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands að stofnunin taki undir það að mannvirki gætu orðið áberandi frá ýmsum sjónarhornum útivistarfólks, þ.á.m. úr Drápuhlíðarfjalli. Ráðuneytið telur að ekki sé ástæða til að draga í efa að fyrirhuguð mannvirki muni hafa sjónræn áhrif séð frá útivistarsvæðum. Í málum sem þessum verður þó að líta á framkvæmdirnar í heild sinni, m.a. með tilliti til umfangs þeirra og sjónrænna áhrifa í heild sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, njóta ýmsar jarðmyndanir og vistkerfi sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Samkvæmt d. lið 1. mgr. þeirrar greinar njóta m.a. fossar þessarar sérstöku verndar.

Í gögnum frá framkvæmdaraðila segir að engin teljandi áhrif verði af framkvæmdinni, nema að vatn muni minnka í núverandi farvegi á því svæði sem áhrifa virkjunarinnar gæti. Segir að á meðfylgjandi myndum af ánni komi fram að á einum stað á umræddum kafla sé lítill foss (flúðir). Í hinni kærðu ákvörðun segir þá að fram hafi komið að rennsli Svelgsár frá stíflu og niður fyrir stöðvarhús muni breytast og verða frá því að vera ekki neitt og upp í 2,7 m³/s. Af þeim sökum muni Nátthagafoss verða mjög vatnslítill og vatnslaus eftir því sem rennsli yfir stíflu minnki. Ráðuneytið tekur því undir þau ummæli Skipulagsstofnunar að talsverð ásýndarbreyting verði á Svelgsá þegar rennsli í ánni verði í lágmarki og telur ljóst að um sé að ræða áhrif á um 1 km kafla í ánni. Ljóst er samkvæmt þessu að lítið sem ekkert rennsli mun verða í Nátthagafossi á köflum. Ráðuneytið telur með vísan til þessa að þau áhrif sem fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa á Nátthagafoss liggi fyrir og bendir ennfremur á að við framkvæmdar sem þessar megi gera ráð fyrir þeim áhrifum sem hér ræðir um í ljósi þess að um virkjun er að ræða.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það mat ráðuneytisins að áhrif vegna umræddra framkvæmda á landslag og sjónræn áhrif vegna þeirra verði ekki veruleg. Ber í því sambandi að líta til þess að Svelgsárhraunið sjálft verður ekki raskað og þess að hraunið mun að nokkru leyti hylja umrædd mannvirki séð frá þjóðvegi. Er það þá mat ráðuneytisins eins og áður sagði að lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum gera ekki þær kröfur að fyrir liggi gildandi deiliskipulag við tilkynningu um matsskylda framkvæmd vegna þess svæðis sem fyrirhugað er að framkvæma á hverju sinni.

3. Reynsla af öðrum stíflum vegna smávirkjana.

Í kæru landeigenda Svelgsár er bent á að á síðustu árum hafi stíflur þriggja smávirkjana brostið með tilheyrandi flóðum og slysahættu.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að stofnunin hafi vakið sérstaka athygli á hættu á stíflubresti og tilheyrandi afleiðingum og því lagt ríka áherslu á að til þess væri horft við endanlega hönnun stíflumannvirkja. Hafi þeim orðum verið sérstaklega beint til sveitarstjórnar Helgafellssveitar, sem veiti byggingar- og framkvæmdaleyfi fyrir virkjun innan sveitarfélagsins.

Ráðuneytið telur ljóst að í málum er varða matsskyldu tilkynningarskyldrar framkvæmdar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum ber ekki að fjalla um hönnunarþætti einstakra mannvirkja. Eins og fram hefur komið er sú skylda ekki lögð á framkvæmdaraðila í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum að leggja fram hönnunargögn vegna mannvirkja. Sækja ber um byggingarleyfi vegna virkjunar til sveitarfélagsins, þ.e. Helgafellssveitar, og er þá tekin afstaða til hönnunar og hugsanlega hættu af slíkri virkjun þegar tekin er ákvörðun um veitingu byggingarleyfis.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið þá málsástæðu landeigenda Svelgsár, að hætta sé á því að fyrirhuguð virkjun í Svelgsá bresti með tilheyrandi flóðum og slysahættu, ekki eiga við í máli þessu.

4. Niðurstaða.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki beri að fallast á kröfu kæranda og staðfesta beri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. janúar 2008 þess efnis að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í Helgafellssveit sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem orðið hafa við meðferð málsins, en þær skýrast af gagnaöflun vegna málsins sem og miklum önnum ráðuneytisins.

Úrskurðarorð.

Staðfest er ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. janúar 2008 um að allt að 655 kW virkjun í Svelgsá í Helgafellssveit sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum