Hoppa yfir valmynd

4/2000 Úrskurður frá 01.03.2001

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998

Lágmúla 7

108 Reykjavík

 

Ár 2001 daginn mars kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal hrl. og Óðinn Elísson hdl. Fyrir var tekið mál nr. 4/2000, kæra Sigurjóns Kjartanssonar, Bjarnarvöllum 3, Keflavík, vegna gjaldtöku Reykjanesbæjar vegna fráveituframkvæmda í Reykjanesbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður.

I.

Forsaga málsins er að nefndinni barst bréf dags. 30. nóvember 2000 frá umhverfis-ráðuneyti en þangað hafði kærandi upphaflega sent erindi sitt. Nefndin bar sjónarmið kæranda undir Reykjanesbæ og bárust svör bæjarins með bréfi dags. 16. janúar 2001. Bréfinu fylgdu gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ, samþykkt af umhverfisráðuneyti þann 10. mars 1997, yfirlit bæjarverkfræðings yfir framgang útboða vegna framkvæmda og yfirlit fjármálastjóra Reykjanesbæjar yfir innheimtu gjalda árin 1997 – 2000. Framangreind gögn voru borin undir kæranda sem gerði athugasemdir vegna þeirra með bréfi dagsettu 1. febrúar 2001. Ástæða þótti að gefa Reykjanesbæ kost á andsvörum og bárust þau nefndinni með bréfi dags. 12. mars 2001.

II.

Í bréfi kæranda dags. 29. nóvember 2000 segir m.a.: ,,Undanfarin ár hefur Reykjanesbær innheimt gjald sem ýmist er kallað ,,GJALD VEGNA FRÁVEITUFRAMKVÆMDA" eða GJALD VEGNA HREINSUNAR Á FRÁVEITUVATNI". Og er þetta gjald 6000 kr. á ári á hvert fasteignanúmer.

Í Reykjanesbæ á sér ekki stað nein hreinsun á fráveituvatni og engar eru fráveituframkvæmdirnar. Ég held að þessi gjaldtaka sé ekki lögleg.

Reykjanesbær á ekki að geta rukkað íbúana um annað en lögboðna skatta og greiðslur fyrir veitta þjónustu. Þetta gjald fellur undir hvorugt. Gjaldið miðast ekki við verðmæti eignar eða tekjur manna og leggst því á fólk með öðrum hætti en ef holræsagjald eða útsvar hefði verið notað til framkvæmdanna. Ef þessar framkvæmdir eru lögboðnar þá ber að greiða þær af útsvari. Það getur ekki gengið að bæjarfélög innheimti skatta og bæti síðan aukagjöldum ofan á þá til að fjármagna framkvæmdir eins og þessa eða skóla, áhaldahús, íþróttahús o.s.frv. til hvers eru þá skattarnir?"

Í andsvari kæranda við sjónarmiðum Reykjanesbæjar segir m.a.: ,,Í bréfi til mín dags. 22. janúar 2001 biðjið þér um viðhorf mitt til gagna sem með því fylgdu. Mitt viðhorf er það að hér sé um skattheimtu að ræða en ekki þjónustugjald. Og þar sem engin lög heimila þessa skattheimtu þá sé hún ólögleg. Skatta má ekki leggja á nema lög

kveði svo um. Reglugerðir og heimildir ráðuneyta duga ekki til.

Skattar fara t.d. í að byggja skóla, sorpeyðingarstöðvar og sjúkrahús, síðan eru innheimt þjónustugjöld fyrir þjónustuna. Þess eru að ég held hvergi dæmi að byggingin sjálf flokkist undir þjónustu. Heldur aðeins sú starfsemi sem þar fer fram. Þjónustugjöld mega ekki vera hærri en kostnaðurinn við þjónustuna. Skattar eru ekki bundnir af þessu ákvæði og því geta t.d. fasteignagjöld (sem eru skattar með stoð í lögum) verið töluvert hærri en kostnaður þeirrar þjónustu sem veitt er. Þegar skolphreinsunarstöðin fer að starfa er Reykjanesbæ stætt á því að innheimta þjónustugjöld en ekki fyrr."

Síðan vitnar kærandi til l. nr. 53/1998 um framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og vísar til 12. og 25. gr. l. nr. 7/1998.

Í niðurlagi andsvarsins segir síðan: ,,Hvergi gat ég fundið lagastoð fyrir þessari gjaldtöku. Ég tel því að umhverfisráðuneytinu beri að afturkalla staðfestingu á gjaldskrá dags. 10. mars 1997. Og að Reykjanesbæ beri að endurgreiða alla upphæðina með vöxtum."

III.

Í bréfi Reykjanesbæjar frá 16. janúar 2001 segir m.a.: ,,Innheimta á gjaldi vegna fráveituframkvæmda byggir á ,,Gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ" sem samþykkt var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 4. febrúar 1997 og staðfest af umhverfisráðuneytinu þann 10. mars 1997. Gjaldið rennur í sérstakan sjóð skv. 2. gr. gjaldskrárinnar og er ekki notað til annarra hluta en fráveituframkvæmda. Gert er ráð fyrir að gjaldið falli niður þegar framkvæmd lýkur.

Þá fylgir yfirlit yfir meðferð fjármuna til framkvæmda frá bæjarverkfræðingi Reykjanesbæjar, þar kemur fram að framkvæmdir eru í fullum gangi. Nú hefur verið framkvæmt eða samið um fyrir kr. 272.000.000,-

Heildarkostnaðaráætlun er kr. 1.150.000.000,-

Innheimt hefur verið samtals á árunum 1997-2000 kr. 100.000.720,- sbr. bréf fjármálastjóra Reykjanesbæjar."

Í fylgigögnum staðfestir bæjarverkfræðingur Reykjanesbæjar annars vegar kostnaðaráætlun og hins vegar staðfestir fjármálastjóri Reykjanesbæjar þegar innheimt gjöld og sundurgreinir fjárhæðir eftir árlegri innheimtu vegna áranna

1997–2000. Í lokasvari Reykjanesbæjar segir: ,,Eins og fram kom í bréfi voru og gögnum sem dagsett er 16. janúar 2001, er gjaldið til greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja. Þegar stofnkostnaður er að fullu greiddur fellur gjaldið niður. Frá þeim tíma, þegar rekstur hefst er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði greiddur af álögðu holræsagjaldi.

Allur undirbúningur og meðferð málsins var samkvæmt samþykkt frá heilbrigðis-nefnd Suðurnesja og einnig umhverfisráðuneytinu, farið var eftir ráðgjöf lögmanna í hvívetna. Reykjanesbær telur sig hafa uppfyllt allar þær lagaskyldur sem fyrir voru lagðar af hálfu yfirstjórnar málaflokksins."

 

IV.

Í gögnum málsins kemur fram að þau gjöld sem um er deilt voru fyrst lögð á árið 1997 og síðan árlega og samtala innheimtra gjalda 1997–2000 kr. 100.000.720.- og ljóst að ætlunin er að innheimta gjöld til framkvæmdaáætlunar, sem nemur ríflega einum milljarði króna, enn um sinn. Því telur nefnd skv. 7. gr. l. nr. 7/1998 þrátt fyrir ákvæði 27 gr. og 28 gr. l. 37/1993 ekki efni til að vísa máli þessu frá að eigin frumkvæði, en krafa hefur ekki komið fram um slíkt.

V.

Í 7. gr. l. nr. 45/1998 segir m.a.: ,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim er falin að lögum." Síðan segir: ,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast."

Í 9. gr. s.l. segir m.a.: ,, Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf."

Í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir: ,,Auk tekna skv. 1. gr. (þ.e. fasteignaskatta, framlaga úr jöfnunarsjóði og útsvars) hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um."

Í 25. gr. l. nr. 7/1998 segir ennfremur að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur sem fram koma í þeim og er heimilt m.a. að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og sorps svo og gjaldtökuleyfi, leigu eða veitta þjónustu. Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda en þau gjöld mega ekki vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.

18. gr. l. nr. 81/1988 sem gilti um hluta þessa tímabils sem mál þetta snýst um er eins að mestu leyti en þó var skylt skv. því ákvæði að leyta samþykktar ráðherra á gjaldskrá og var það gert en sú samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem var grundvöllur gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ var staðfest af umhverfisráðherra þann 10. mars 1997.

Ekki er um það deilt að eitt af verkefnum hvers sveitarfélags er að annast skólp- og fráveitur sbr. t.d. X kafla l. nr. 15/1923 og l. nr. 53/1995. Í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 sem sett er með stoð í l. nr. 81/1988 (nú l. nr. 7/1998) er einnig að finna ýmis ákvæði sem leggja ríkar skyldur á sveitarfélög um meðferð skólps og annars úrgangs og m.a. með tilliti til krafna skv. reglugerðinni mun Reykjanesbær hafa ákveðið að endurnýja fráveitur bæjarins eða eins og segir í 2 gr. þeirrar gjaldskrár sem staðfest var 10. mars 1997: ,,Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ."

Skv. framanrituðum lagatilvitnunum er það álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að Reykjanesbær hafi lagaheimildir til að haga gjaldtöku eins og gert er í samræmi við staðfesta gjaldskrá frá 10. mars 1997 og engin þau atriði hafi komið fram sem benda til að ekki hafi verið gætt réttra sjónarmiða og aðferða við setningu gjaldskrárinnar.

 

 

Úrskurðarorð.

Hafnað er kröfum kæranda, Sigurjóns Kjartanssonar, um afturköllun gjaldskrár frá 10. mars 1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ og kröfum um endurgreiðslu þegar greiddra gjalda.

 

_____________________________

Sigurmar K. Albertsson hrl.

 

___________________________ ______________________________

Gunnar Eydal hrl. Óðinn Elísson hdl.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira