Hoppa yfir valmynd

1/2000 Úrskurður frá 27. júní 2000

Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998.

Ár 2000 þriðjudaginn 27. júní kom nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

 Fyrir var tekið mál nr. 1/2000 kæra Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi, vegna álagninar Grímsnes- og Grafningshrepps á sorphirðugjöldum fyrir árið 1997.

 Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

Úrskurður:

I.

Aðdragandi máls þessa er að þann 11. febrúar árið 2000 barst nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 erindi frá Sjálfseignarstofnuninni Sólheimum og Styrktarsjóði Sólheima, Grímsnesi og tekið fram að framangreindir aðilar "vilji með erindi þessu vísa til úrskurðar nefndarinnar ákvörðun Grímsneshrepps (nú Grímsnes- og Grafningshrepps) um álagningu sorphirðugjalds fyrir árið 1997"

Með bréfi nefndarinnar til Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 24.2.2000 var hreppnum gefinn kostur á andsvörum og bárust þau nefndini með bréfi dags. 27.3.2000.  Svör hreppsins voru send til Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima sem gerði athugasemdir við andsvör hreppsins með bréfi dags. 18. apríl 2000.

Ekki þótti ástæða til að kalla eftir frekari andsvörum frá Grímsnes- og Grafningshreppi og var erindi Sólheima og Styrktarsjóðsins tekið til úrskurðar.

Uppkvaðning úrskurðar hefur hins vegar dregist vegna mikilla anna nefndarmanna.

 

II.

Í erindi Sólheima og Stryktarsjóðsins frá 11. febrúar 2000 segir: "Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps hefur ítrekað skuldfært Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima vegna sorphirðugjalda fyrir árið 1997 með því að draga sorphirðugjöld fyrir umrætt ár frá óskildum fjárveitingum ríkisins og sveitarfélagsins til Sólheima."

Síðan er rakið að þann 15. maí 1997 hafi borist innheimtuseðlar frá Landsbanka Íslands vegna fasteignagjalda 1997 og í innheimtufjárhæð hafi fylgt gjald vegna sorphirðu og hafi það verið í fyrsta sinn sem slíkt gjald var til innheimtu.  Fasteignagjöld hafi verið greidd skilvíslega en greiðslu vegna sorphirðu hafi verið hafnað.  Þá hafi verið spurst fyrir með bréfi dags. 12. júní 1997 um hvenær gjaldskrá vegna sorphirðu hafi verið staðfest af umhverfisráðuneyti og sú

fyrirspurn ítrekuð með bréfi dagsettu 14. nóvember 1997 og aftur 20. júní 1998, en svör loks borist þann 20. júlí 1998.

Þá segir í erindinu: "Sólheimar og Styrktarsjóður Sólheima líta svo á að gjaldtaka sem þessi geti ekki verið afturvirk og sveitarstjórn hafi því verið óheimilt að leggja sérstakt sorphirðugjald á fasteignir Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima með fasteignagjöldum fyrir árið 1997.  Hafa ber í huga að hér var um nýja og áður óþekkta gjaldtöku að ræða að hálfu sveitarfélagsins, sem samkvæmt eðlilegum stjórnsýsluháttum og venjum ber að tilkynna gjaldendum með eðlilegum fyrirvara."

 Í niðurlagi erindisins er síðan beðist velvirðingar á því hve seint erindið er á ferðinni en vísað til þess að sorphirðugjaldið fyrir árið 1997 hafi verið dregið frá styrk vegna fráveitukerfis þann 29. desember 1999.  Erindinu fylgdu afrit þeirra bréfa sem gengið hafa á milli aðila þessa máls.

 

III. 

Í svari Grímsnes- og Grafningshrepps frá 27. mars 2000 er aðdragandi álagningar sorphirðugjalds fyrir 1997 rakinn og honum lýst svo: "Á fundi Grímsneshrepps, þann 10. desember 1996, voru sorpgjöld fyrir árið 1997 samþykkt  (sjá fskj. nr. 1).  Í bréfi hreppsins til Umhverfisráðuneytisins dags. 7. mars 1997 er óskað eftir staðfestingu á áður samþykktri gjaldskrá (sjá fskj. nr. 2).  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 4. júní 1997 kemur fram að það geti ekki samþykkt gjaldskrána þar sem að ekki liggi fyrir nægileg rök fyrir upphæð gjalda í þeirri gjaldskrá sem lögð hefur verið fram.  Einnig telur ráðuneytið að frekari útfærslu vanti hvernig gjald vegna akstur og að upphæð vegna þess verði að koma fram í erindinu (sjá fskj. nr. 3).  Skv. bréfi Grímsneshrepps dags. 16. september 1997 er lögð endurbætt gjaldskrá (sjá fskj. nr. 4) skv. óskum ráðuneytisins (sjá fskj. nr. 3).  Rétt er að benda á að þau gjöld sem um er rætt hefur ekkert verið breytt frá samþykki fundar hreppsnefndar dags. 10. desember 1996 til bréfs dags. 16. september 1997.  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 29. september 1997 er gjaldskráin staðfest (sjá fskj. 5) og send samdægurs til Stjórnartíðinda til auglýsingar í B-deild (sjá fskj. nr. 6).

 

Eins og fram kemur í bréfi dags. 4. júní 1997 (sjá fskj. nr. 3) hefur þetta verið þrautarganga að fá gjaldskrána samþykkta enda var um að ræða álagningu sorpgjalda í fyrsta sinn hjá hreppnum.  Formgallar og ákveðnar kröfur ráðuneytisins gerðu það að verkum að gjaldskráin fékkst ekki samþykkt fyrr.  Í þessu bréfi verður ekki rætt um þá skýringu hversvegna farið var að leggja á sorphirðugjöld sérstaklega.

 

Skv. bréfi Grímsnes og Grafningshrepps dags. 29. desember 1999 (sjá fskj. nr. 7) var gerð leiðrétting á þessum gjöldum.  Fram til þessa hafa erindi ávallt borist í nafni Sólheima en ekki gerður greinarmunur á m.a. Styrktarsjóð Sólheima eða Sjálfseignarstofnun Sólheima.  Þess vegna er eðlilegt að Grímsneshreppur (hér áður) og Grímsnes og Grafningshreppur (í dag) hafi ávallt svarað erindum til Sólheima, eins og um eina stofnunin sé að ræða."

Þau gögn sem fylgdu svari hreppsins eru m.a. endurrit hreppsnefndarfundar þann 10. desember 1996 þar sem samþykkt er tillaga um sorphirðugjald.  Bréf umhverfis-ráðuneytis frá 4. júlí 1997 þar sem ráðuneytið tilkynnir um endursendingu (synjun innsk. nefndar) gjaldskrárinnar.  Bréf hreppsins 16. september 1997 þar sem fram kemur að þann 9. sama mánaðar hafi hreppsnefnd samþykkt gjaldskrá vegna sorphirðu og loks bréf ráðuneytisins þar sem gjaldskráin er samþykkt þann 29. september 1997 og mun gjaldskráin síðan hafa verið birt í því hefti Stjórnartíðinda sem kom út 10. október 1997.

 

IV.

Í 18 gr. l. 81/1988 (nú 25 gr. l. 7/1998) segir að sveitarfélög geti sett sér sínar eigin heilbrigðissamþykktir og m.a. má setja í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu.  Skv. 3 mgr. 18 gr. l. 81/1988 skal upphæð gjalda ákveðin í sérstakri gjaldskrá, sem ráðherra staðfestir og í 4 mgr. segir efnislega að sveitarstjórnir skuli senda slíkar gjaldskrár til ráðherra í formi samþykktar.

Synji ráðherra staðfestingu endursendir hann samþykktina með leiðbeiningum um hvað þurfi til staðfestingar henni.

Um sumarið 1997 þegar Grímsnes- og Grafningshreppur krefur Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima um sorphirðugjald vegna ársins 1997 hafði ráðherra synjað um staðfestingu gjaldskrárinnar og hún því ekki í því formi sem lög krefjast.  Hvort síðar tilkomin staðfesting ráðherra á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Grímsneshreppi þann 29. september 1997 réttlæti álagningu og innheimtu sorphirðugjalds fyrir það ár er álitamál, sem nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 mun ekki taka afstöðu til.  Hér stendur svo á að skv. 27 gr. l. 37/1997 er kærufrestur þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnavaldsákvörðun og skv. 28 gr. s.l. skal kærum ekki sinnt, ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Því verður að vísa frá kæru Sjálfseignarstofnunar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima.

 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kæru Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Stryktarsjóðs Sólheima

 

 

                                                ____________________________

                                                Sigurmar K. Albertsson hrl.

 

 

______________________________           ________________________________

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri                           Óðinn Elísson hdl.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira