Hoppa yfir valmynd

2/2009

Mál nr. 2/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní  kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2009 Gunnar Bernhard, kt, 020430-4789, Langholtsvegi 78, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Fljótsdalshéraði, Lynghálsi 12, 700 Egilsstaðir, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 28. janúar 2009, kærði Gunnar Bernhardúnbogason HH, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Fljótsdalshéraðs, (hér eftir nefnd kærði) frá 9. september 2008 þar sem því var hafnað að lækka eða falla frá rotþróargjaldi sem lagt var á frístundarhús í Hjallaskógi. 

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að hreinsun á rotþró fari fram á fjögurra til sex ára fresti en ekki á tveggja ára fresti og að gjaldtaka fyrir hreinsunina verði lækkuð.   

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 28.01.2009 ásamt fylgiskjölum. 

2. Athugasemdir kærða dags. 16.04.2009. 

3.  Athugasemdir kæranda dags. 2. júní 2009. 

4.  Bókun frá fundi fasteigna- og þjónustunefndar Fljótsdalshéraðs dags. 12.04. 2006 og 21.11.2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 28. janúar 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik

Með bréfi dags. 14. mars 2003 og aftur 10. janúar 2006 fór kærandi fram á lækkun á gjaldtöku fyrir hreinsun á rotþróm þar sem kærandi taldi hana ekki réttmæta.   

Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dags. 12. apríl 2006. Í svari til kæranda kemur m.a. fram sú ákvörðun að ekki sé hægt að fallast á kröfu um lækkun eða niðurfellingu þjónustugjalda þar sem staðfestar samþykktir liggja fyrir um gjaldtökuna.    

Með stjórnsýslukæru dags. 28.01.2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. 

Kærða var með bréfi dags. 27.03.2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 16.04.2009.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 20.05.2009 og bárust athugasemdir þann 02.06.2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er landeigandi í Hjallaskógi á Egilsstöðum og á þar frístundarhús. Kærandi segir að landeigendur í Hjallaskógi hafi ávallt séð sjálfir um frárennslismál, sorphirðu og þess háttar enda sé landeigendum afar kært að halda umhverfi Hjallaskógar hreinu. Kærandi segir að landeigendur í Hjallaskógi hreinsi rotþrær og endurnýi þær eftir þörfum og hafi þeir gert það frá 1980.  Kærandi telur því gjaldtöku Fljótdalshéraðs fyrir hreinsun á rotþróm vera „ósanngjarna og tilhæfulausa“.

Kærandi byggir kröfu sína á því að þar sem landeigendur annist sjálfir þessa vinnu sé ekki rétt að krefjast greiðslu fyrir þjónustu sem ekki var innt af hendi. Þá séu öll frístundarhúsin í Hjallaskógi sumarhús en ekki heilsárshús. Því sé ekki rétt að innheimta rotþróargjald fyrir hreinsun á rotþróm annað hvert ár eins og um heilsárshús sé að ræða. Kærandi kveður mörg húsanna aðeins notuð 30 daga á ári og sum jafnvel minna. Þá sé lokað fyrir vatn í byrjun september ár hvert og fram í miðjan apríl vegna frosthættu. Þá séu húsin í Hjallaskógi ekki leigð út. Kærandi telur því óásættanlegt að Fljótdalshérað innheimti kr. 9.059 ár hvert fyrir hreinsun á rotþró sem fari fram annað hvert ár og telur að rotþró frístundarhúsanna þurfi aðeins að hreinsa fjórða til sjötta hvert ár vegna lítillar notkunar. Kærandi telur því ásættanlegt rotþróargjald sé kr. 3.020, þar sem  hreinsun fari fyrst og fremst eftir notkun.

Kærandi byggir ennfremur á því að kærði geti fylgst með notkun frístundarhúsanna í  Hjallaskógi þar sem þau séu aðeins í notkun yfir sumarmánuðina. Þá sé kærandi með rafmagnsmæli frá RARIK þar sem lesa má dvalartíma hans í frístundarhúsi sínu. Að lokum fellst kærandi á að greiða kr. 24.898 gegn því að hreinsun fari fram fjórða hvert ár.

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði, Fljótsdalshérað, byggir á því að álagning rotþróunargjalda byggi á samþykktri gjaldskrá fyrir hreinsun rotþróa á Fljótdalshéraði, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda undir númerinu 301/2005. Fyrirkomulag tæmingar byggi á samþykkt Fljóstdalshéraðs um hreinsun, losun og frágang rotþróa á Fljótsdalshéraði nr. 260/2005, sem gerð var eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands og staðfest af umhverfisráðuneytinu.

Kærði byggir á því að eigendum rotþróa sé skylt að hlýta ákvörðun sveitarstjórna m.a að greiður aðgangur sé að rotþró sbr. 2. mgr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005. Álagning rotþróargjaldsins sé í samræmi við skyldur sveitarfélagsins í málaflokkum og miðast hún við að leggja gjald á þá sem þjónustuna nota og er í raun skylt að nota. 

Kærði telur að hreinsun á rotþróm annað hvert ár sé í samræmi við þá skyldu sem á hann er lagt í 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru þar sem segir að sveitarfélög eigi að koma á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Kærði bendir jafnframt á að það sé skylda á frístundahúsaeigendum að láta losa hjá sér seyru í samræmi við lög og reglur.

Kærði telur að sveitarfélög hafi heimild skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að kveða á um meðhöndlun úrgangs úr rotþróm við sumarhús. Kærði bendir á að þessi atriði byggi á því mati sem löggjafar og reglugerðarhandhafar hafa talið vera nauðsynlegt að fari fram m.t.t. heilbrigðissjónarmiða og almannahagsmuna.

Kærði telur að ákvörðun og fyrirkomulag tæmingar byggi á skýrum lagaheimildum og sé innan sjálfsstjórnunarréttiar sveitarfélaganna og telur að slíkt eigi ekki að vera endurskoðað af úrskurðarnefnd.

Kærði bendir á að frístundarhús séu mismikið í notkun og því óframkvæmanlegt að með tilliti til öryggis, jafnræðis og kostnaðar að miða gjaldtöku við mismunandi afnot. Kærði byggir á því að hvergi komi fram í stjórnsýslukæru kæranda að álagning og gjöld vegna hreinsunar rotþróa séu í ósamræmi við meginreglur um þjónustugjöld. Kærði geti lagt fram yfirlit yfir kostnað hreinsunar á rotþróm, sé þess óskað. Kærði bendir á að Fljótsdalshérað sé stærsta sveitarfélag landsins auk þess sem það sé dreifbýlt og dýr tækjabúnaður sé notaður við losun á seyru.

Kærði telur að álagningin sé í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins sem byggi á samþykkt um hreinsun og losun og fágang rotþróa á Fljótsdalshéraði og lagaheimildum sem hún hvílir á. Kærði bendir á að hann hafi ávallt svarað fyrirspurnum kæranda varðandi álagningu rotþróargjalda Fljótsdalshéraðs, þar hafi kærði skýrt fyrir kæranda  heimildir sveitarfélagsins til gjaldtökunnar.

Kærði telur að lokum að heimildir til gjaldtöku vegna seyrulosunar vera í samræmi við sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og í samræmi við ákvæði laga.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Ágreiningur í máli þessu snýst um álagningu rotþróargjalds og hvort kærða beri að lækka eða falla frá gjaldtöku sinni fyrir hreinsun rotþróa.   

Í 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að hollustuhættir og mengunarvarnir taki í lögunum til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.  Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála. 

Mengunarvarnaeftirlittekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits. 

 

Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna. 

Reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar með síðari breytingum. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

 

Í 1. gr. reglugerðar nr. 799/1999 kemur fram að markmið hennar sé að setja reglur um notkun seyru og koma í veg fyrir skaðleg áhrif hennar á umhverfið og heilsu almennings. Í 3. gr. kemur fram að eftirlitsaðilar séu viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins. Þá kemur fram í 14. gr. að sveitarstjórnum sé skylt að koma upp kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.

 

Í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuvernd og mengunarvarnir kemur skýrt fram að sveitarfélög megi setja sér samþykktir og gera þar ítarlegri kröfur en fram koma í reglugerðum. Á grundvelli þess setti kærði samþykkt Fljótsdalshéraðs nr. 260/2005 um hreinsun, losun og frágang rotþróa við Fljótsdalshérað þann 22. febrúar 2005 í samræmi við nefnda 25. gr. sem staðfest var af ráðherra. Í 1. gr. samþykktar nr. 260/2005 kemur fram að hreinsun rotþróa sveitarfélagsins skuli fara eftir þeirri samþykkt. Í 2. gr. samþykktarinnar segir að Fljótsdalshérað annist alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu þ.e. seyrulosun úr rotþróm og hreinsun. Í 4. gr. kemur svo fram að hreinsun skuli fara fram annað hvert ár.

 

Gjaldskrá nr. 301/2005 fyrir hreinsun rotþróa á Fljótsdalshéraði er byggð á samþykkt um hreinsun, losun og frágang rotþróa á Fljótsdalshéraði nr. 260/2005 og 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum. Gjaldskrá þessi var samþykkt af umhverfis- og náttúruverndarnefnd Fljótsdalshéraðs þann 16. febrúar 2005, og staðfest af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 2. mars 2005. Í 2. gr. gjaldskrárinnar kemur skýrt fram hvert þjónustugjald sé fyrir hreinsun á rotþró og er þá farið eftir fermetrastærð viðkomandi eigna. Í 3. gr. gjaldskrárinnar er skýrt ákvæði um gjalddaga rotþróargjalds.

 

Kærandi telur að fella eigi niður eða lækka árleg rotþróargjöld út frá sanngirnissjónarmiðum, þar sem kærandi dveljist aðeins nokkra mánuði á ári í frístundarhúsi sínu í Hjallaskógi m.a. þar sem húsið sé ekki heilsárshús og hreinsun annað hvert ár sé því óþörf. Kærði telur ekki fært að fylgjast með dvöl kærða eða annarra í frístundarhúsum í Hjallaskógi. Slíkt  hefði í för með sér aukna vinnu og kostnað fyrir kærða. Kærði bendir á að kostaður af þessum málaflokk megi skýra með því að um sé að ræða stærsta sveitarfélag landsins auk þess að það sé mjög dreifbýlt og tækjabúnaður sem notaður sé við seyrulosun sé dýr. Þá séu þeir sem annist seyrulosun starfsleyfisskyldir og eyðing og urðun seyru kostnaðarsöm.

Árlegt þjónustugjald fyrir hreinsun á rotþró sem hér er deilt um á sér stoð í gjaldskrá nr. 301/2005 sem sett er á grunni samþykktar nr. 260/2005 og 25. gr. l. 7/1998. Innheimta kærða á umdeildu þjónustugjaldi á sér því skýra laga- og reglugerðarheimild og því er innheimta þess ekki ólögmæt og ekkert hefur komið fram í málatilbúnaði kæranda að gjaldtakan sé ómálefnaleg eða í andstöðu við þær reglur sem gilda um þjónustugjöld. Þvert á móti er um skyldu að ræða sem laga- og reglugerðarhandhafar hafa lagt á kærða sem kæranda og öðrum frístundarhúsaeigendum er skylt að fara eftir.

Kærði hefur vald til þess að kveða á um inntak skyldu sinnar í skjóli sjálfstjórnarréttar síns sem hann hefur ákveðið að fari fram annað hvert ár sbr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005 en sú samþykkt hefur lagastoð sbr. 25. gr. l. 7/1998. Kærða ber ekki skylda samkvæmt nefndum reglugerðar- og lagaákvæðum að fylgjast með dvöl frístundarhúsa í Hjallaskógi, heldur þvert á móti ber eigendum frístundarhúsa Hjallaskógar skylda til að fara eftir aðgerðum sveitastjórnar Fljótdalshéraðs sbr. 5. mgr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005. Því verður ekki fallist á kröfur kæranda þess efnis að kærði skuli hreinsa rotþrær á öðrum tíma en samþykkt nr. 260/2005 kveður á um.

Með vísan til þess, sem að framan greinir er það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun Fljótsdalshrepps frá 9. september 2008 þar sem kröfu kæranda var hafnað um að lækka eða fella niður rotþróargjald.

 

                                                             Úrskurðarorð                                                            

Ákvörðun Fljótsdalshrepps frá 9. september 2008 er staðfest.    

 

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

Gunnar Eydal                                    

 

Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira