Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 202/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 202/2016

Miðvikudaginn 1. febrúar 2017

A

gegn

Barnavernd Reykjavíkur

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi 1. júní 2016 kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Barnaverndar Reykjavíkur frá 3. maí 2016 um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannskostnaðar kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að um hafi verið að ræða mál barna kæranda, Cog D, sem lúta forsjá móður þeirra, E. Vegna vímuefnavanda móður hafi börnin verið vistuð hjá kæranda frá X til X, fyrst á grundvelli úrskurðar Barnaverndarnefndar Reykjavíkur og síðar á grundvelli dómsáttar í Héraðsdómi Reykjavíkur X. Máli barnanna var lokið hjá Barnavernd Reykjavíkur í X en þá hafi börnin flutt að nýju til móður sinnar.

Með bréfi kæranda 13. nóvember 2015 til Barnaverndar Reykjavíkur var þess óskað að veittur yrði fjárstyrkur vegna vinnu lögmanns í málinu. Vísað var til 2. mgr. 47. gr. bvl. og reglna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar. Í beiðni kæranda kom fram að vinna lögmanns á tímabilinu 1. ágúst 2014 til 16. júní 2015 hafi verið 11,5 klukkustundir samkvæmt tímaskýrslu.

Með ákvörðun 3. maí 2016 var beiðni kæranda synjað með vísan til þess að kærandi teldist ekki aðili máls og því fullnægði hann ekki svohljóðandi 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. bvl.:

,,Barnaverndarnefnd Reykjavíkur veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Eftir atvikum er jafnframt veittur styrkur til kynningar á niðurstöðum nefndarinnar. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns.“

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um að hafna beiðni um styrk vegna lögmannskostnaðar verði afturkölluð og að Barnavernd Reykjavíkur, Barnaverndar-nefnd Reykjavíkur eftir atvikum, verði gert að greiða fjárstyrk samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu lögmanns sem miði við 11,5 klukkustundir. Auk þess er þess krafist að viðkennt verði að kærandi eigi rétt á fjárstyrk vegna málsins þar sem því sé ekki lokið. Jafnframt sé þess krafist að fjárstyrkurinn nái einnig yfir þá vinnu sem fylgi kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í kæru er greint frá aðdraganda málsins. Fram kemur að kærandi og móðir barnanna hafi slitið samvistum fyrir nokkrum árum og hafi börnin átt lögheimili hjá henni. Árið X hafi þótt vera tilefni til afskipta barnaverndar vegna neyslu hennar á fíkniefnum og voru börnin vistuð hjá kæranda sem [...].

Kærandi kveðst uppfylla skilyrði 47. gr. bvl. til þess að fá fjárstyrk vegna barnaverndarmálsins þar sem hann hafi verið aðili að málinu. Skilgreining á því hver sé aðili máls eða hvaða skilyrði séu sett fyrir aðild komi hvorki fram í barnaverndarlögum né í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Lögskýringargögn gefi það hins vegar til kynna að aðildarhugtak í stjórnsýslumálum beri að skýra rúmt, þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eigi beina aðild að máli heldur einnig þá sem hafi óbeinna hagsmuna að gæta. Líta beri til hvers tilviks fyrir sig, en almennt sé sá talinn aðili að máli sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarðra hagsmuna að gæta. Bent er á álit umboðsmanns Alþingis í máli 3609/2002 þar sem nákomnir ættingjar, sem hefðu lagt fram formlega umsókn um að taka barn í fóstur, teldust hafa einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta í því stjórnsýslumáli sem lyki með fósturráðstöfun barnaverndarnefndar og skyldu þar af leiðandi njóta aðildar að máli. Þetta skuli hafa í huga við mat á því hvort kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrrnefndrar lagagreinar.

Kærandi kveður málið hafa verið honum erfitt. Hann hafi þurft að þiggja fjárhagsaðstoð þar sem hann hafi ekki lengur [...]. Efnahagur hans sé því önnur ástæða fyrir því að hann eigi að njóta umbeðins fjárstyrks, bæði vegna málsins fyrir Barnavernd Reykjavíkur sem og fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála. Sé óskað frekari gagna líkt og skattframtali kæranda þá muni hann fúslega veita aðgang að slíkum gögnum.

Kærandi kveður kostnað vegna málsins vera honum ofviða í ljósi þeirrar stöðu sem barnaverndaryfirvöld hafi sett hann í. Tímaskýrsla lögmanns hafi verið hófleg en málið hafi undið verulega upp á sig og sé enn í vinnslu. Kærandi kveðst hafa verulega hagsmuni af því að fá úr málinu skorið þar sem nauðsynlegt hafi verið fyrir hann á sínum tíma að láta málið til sín taka, sérstaklega með hagsmuni barna sinna að leiðarljósi.

Þá gerir kærandi athugasemd við að Barnavernd Reykjavíkur hafi ekki lagt beiðni hans um fjárstyrk fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, en með vísan til hinnar kærðu ákvörðunar sé ekki að sjá að nefndin hafi tekið málið fyrir.

III. Sjónarmið Barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur frá 3. maí 2016 kemur fram kærandi hafi ekki fullnægt 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. bvl., þar sem hann hafi ekki verið aðili að máli barna sinna hjá Barnavernd Reykjavíkur eins og honum hafi verið kynnt með bréfum 8. ágúst 2014 og 10. nóvember 2014. Þá hafi málið aldrei farið fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hvað kæranda varðar.

Í umræddi grein reglnanna komi fram að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur veiti foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. bvl.

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 18. júlí 2016 er greint frá því að með bréfi 11. september 2014 hafi þess verið krafist að kæranda yrði veitt staða aðila í máli barna hans sem var til meðferðar hjá barnaverndinni. Með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 10. nóvember 2014 hafi kæranda verið svarað og þar meðal annars vísað til þess að við túlkun á aðildarhugtaki 45. gr. barnaverndarlaga verði að byggja á þeim almennu grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem gildi um aðila að stjórnsýslumáli, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5186/2007. Lagt hafi verið til grundvallar að sá eigi aðild að stjórnsýslumáli sem eigi einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls. Verði því að leggja heildstætt mat á hagsmuni og tengsl viðkomandi við úrlausn fyrirliggjandi barnaverndarmáls á grundvelli framangreindra sjónarmiða.

Í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur frá 10. nóvember 2014 hafi einnig verið bent á að mál barnanna, C og D, hjá Barnavernd Reykjavíkur hafi varðað aðbúnað þeirra hjá móður sem fari ein með forsjá þeirra. Því hafi stuðningsaðgerðir og meðferðarúrræði beinst að móður. Kærandi hafi aldrei farið með forsjá barnanna og hafi ekki verið aðili að máli þeirra hjá Barnavernd Reykjavíkur hvað varðar áætlanir um meðferð máls, meðferðarúrræði og stuðningsúrræði að öðru leyti en því að börnin voru vistuð hjá kæranda. Niðurstaðan hafi verið sú að hafna kröfu kæranda um að vera veitt staða aðila í máli barnanna nema hvað varaðar stöðu hans sem vistunaraðila þeirra á grundvelli 84. gr. bvl.

Varðandi vangaveltur kæranda um hvort Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki átt að bera beiðni um fjárstyrk undir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur er vísað til reglna um könnun og meðferð einstakra barnaverndamála eða málaflokka hjá starfsmönnum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Í 1. gr. þeirra reglna, sem settar voru á grundvelli 3. mgr. 14. gr. bvl., veitir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur umboð til að taka ákvörðun í einstaka málum að undanskildum þeim málum sem óheimilt er samkvæmt ákvæðum bvl. að framselja til starfsmanna.

Barnavernd Reykjavíkur krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að greiddur verði styrkur vegna aðstoðar lögmanns á grundvelli 47. gr. bvl. Barnavernd Reykjavíkur hafnaði því að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar á grundvelli þess að kærandi hefði ekki verið aðili umrædds barnaverndarmáls.

Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

Samkvæmt gögnum málsins voru börn kæranda vistuð hjá honum árið X vegna fíkniefnaneyslu móður barnanna sem hafði forsjá þeirra. Kærandi er forsjárlaus faðir barnanna og sótti hann um leyfi til að vera fósturforeldri þeirra á meðan börnin voru hjá honum í vistun. Kærandi krafðist þess með bréfi 9. september 2014 að honum yrði veitt aðild að máli barnanna en því var hafnað með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur 10. nóvember 2014. Með bréfi dags. 13. nóvember 2015 barst beiðni frá kæranda um fjárstyrk. Með bréfi dags. 3. maí 2016 synjaði Barnavernd Reykjavíkur um greiðslu styrksins þar sem kærandi hefði ekki verið aðili máls barna sinna hjá Barnavernd Reykjavíkur eins og kynnt hafði verið með bréfum, dags. 8. ágúst 2014 og 10. nóvember 2014.

Aðkoma kæranda að máli barnanna sem var til meðferðar Barnaverndar Reykjavíkur var því einungis á grundvelli þess að hann vistaði börnin tímabundið og átti hann því ekki aðild að umræddu máli barnanna. Skilyrði þess að veittur sé fjárstyrkur samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. er að um sé að ræða kostnað vegna lögmannsaðstoðar sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls. Kærandi var ekki aðili að málinu, auk þess sem umrædd lögmannsaðstoð var ekki veitt í tilefni af andmælarétti eins og skilyrði er samkvæmt lagagreininni. Að þessu virtu verður ekki fallist á kröfur kæranda.

Skylda barnaverndarnefndarinnar til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga er því ekki fyrir hendi. Með vísan til þess ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur um að synja kæranda um greiðslu styrks vegna lögmannsaðstoðar, sbr. bréf dagsett 3. maí 2016, er staðfest.

Guðrún A. Þorsteinsdóttir formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira