Hoppa yfir valmynd

3/2009

Mál nr.3/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní  kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2009 Friðbjörn Ó. Valtýsson, kt. 200250-2499, Smáragötu 2, Vestmannaeyjum, hér eftir nefndur kærandi, gegn heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfossi, hér eftir nefndur kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23 febrúar 2009, kærði Friðbjörn Ó. Valtýsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands, (hér eftir nefnd kærði) frá 25. nóvember 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Millet ehf. kt. 640908-0760, Höllinni Vestmannaeyjum vegna of mikils hávaða þar sem húsnæði Hallarinnar uppfylli ekki skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.   

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að starfsleyfið verði fellt úr gildi og nýtt starfsleyfi verði ekki veitt fyrr en tryggt sé að húsnæði Hallarinnar standist skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. 

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 23. febrúar 2009 ásamt fylgiskjölum. 

2. Athugasemdir kærða dags. 20. apríl  2009. 

3. Rannsókn frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins dags. 2. desember 2002.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 27. mars 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik

Millet ehf. er rekstararaðili skemmtistaðarins Hallarinnar í Vestmannaeyjum en um er að ræða veislu- og ráðstefnuhús. Íbúar sem búa í námunda við skemmtistaðinn hafa kvartað mikið undan hávaða sem þeir telja að berist frá Höllinni. Rannsókn var gerð á hávaða frá Höllinni dags. 2. desember 2002. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að endurbætur á þaki og þakglugga væru nauðsynlegar þar sem hávaði sem frá húsinu stafaði væri  langt umfram þau mörk sem sett eru fram í reglugerðum um hávaða. Þann 25. nóvember 2008 veitti heilbrigðisnefnd Suðurlands Millet ehf. starfsleyfi til handa Höllinni í Vestmannaeyjum. Kærandi kvartaði undan ákvörðun nefndarinnar með tölvupósti þann 30. nóvember 2008 og óskaði eftir frekari upplýsingum sem lágu til grundvallar ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Kærði svaraði þeirri fyrirspurn kæranda með tölvupósti þann 1. desember 2008.

Með stjórnsýslukæru dags. 23. febrúar 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. 

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 20. maí 2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda. 

Kærandi málsins, Friðbjörn Ó. Valtýsson, er íbúi í efsta hverfi Vestmannaeyja sem staðsett er upp undir Helgafelli. Kærandi telur að óásættanlegt sé að hafa skemmtistað staðsettan innan friðsæls íbúahverfis sem staðsett sé langt frá athafnarsvæði bæjarins.

 

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir miklu ónæði vegna skemmtistaðarins og telur að um sé að ræða mjög óvandaða byggingu hússins til þeirrar notkunar sem um er rætt.

 

Til stuðnings kröfu sinni bendir kærandi á að hávaði af völdum tónlistar frá Höllinni sé langt umfram það sem telst vera ásættanlegur fyrir íbúa innan íbúahverfis.

 

Þá telur kærandi túlkun heilbrigðisnefndar Suðurlands vera alranga þ.e. að túlka  rafmangnaða rokktónlist þannig að ekki sé um að ræða ríkjandi tón eða högghljóð sem falli þar af leiðandi ekki undir ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

 

Kærandi telur að niðurstaða heilbrigðisnefndar Suðurlands sem kveður á um að ekkert ónæði sé frá dansleikjum í Höllinni umfram það sem fyrir er í hverfinu, sé alröng og telur hana vera „grátbroslegt yfirklór“.  Kærandi bendir á að ástæða þess að kvartað er undan skemmtistaðnum, sé ófullnægjandi húsnæði sem skemmtistaðurinn er staðsettur í. Það að verklagsreglur séu settar fram í starfsleyfi sé ekki vandamálið sem hér sé deilt um.

 

Kærandi telur sig því verða að kæra útgáfu starfsleyfis frá 20. nóvember 2008 af hálfu heilbrigðisnefndar Suðurlands, til skemmtistaðarins Hallarinnar og krefst þess að stafsleyfið verði fellt út gildi á grundvelli reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða og ekki gefið út nýtt starfsleyfi fyrr en tryggt sé að húsnæðið standist kröfur um hljóðmengun.

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði, heilbrigðisnefnd Suðurlands telur að málið eigi ekki undir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem kæra kæranda varði útgáfu á starfsleyfi en samkvæmt 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal leggja allan ágreining er varðar útgáfu starfsleyfis fyrir ráðherra.  Kærði telur því að fella eigi málið niður fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærði bendir á að þegar kæranda var tilkynnt ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu starfsleyfis með bréfi dags. 25.11.2008 var hann upplýstur, fyrir mistök, um kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir í stað Umhverfisráðuneytis, þar sem um útgáfu á starfsleyfi var að ræða. Þegar þessi mistök urðu ljós hafði kærði samband við úrskurðarnefnd og upplýsti um framangreind mistök.

Kærði telur að kærur sem borist hafa úrskurðarnefndinni eigi að framsenda til Umhverfisráðuneytsins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Mál þetta snýst um útgáfu á starfsleyfi til Hallarinnar Vestmannaeyjum af heilbrigðisnefnd Suðurlands þann 25. nóvember 2008 og hvort mál þetta eigi undir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Almenn kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. 

Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og megunarvarir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. mgr. 31. gr. laganna segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskuðarnefndar. Í síðari málslið 1. mgr. 31. gr. segir að framangreint gildi þó ekki þegar umhverfisráðherra fari með úrskurðarvald samkvæmt lögunum, sbr. ákvæði 32. gr., eða þegar ágreiningur rís vegna ákvörðunar um útgáfu starfsleyfis samkvæmt ákvæði 6. gr. laganna.   

Ágreiningur aðila varðar ekki eftirlit eða skort á eftirliti með stafsemi Hallarinnar eða framkvæmd laganna sem þá ætti undir úrskurðarnefndina sbr. 1. ml. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Sjórnsýslukæra kæranda ber það skýrt með sér að kærð er ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um útgáfu á stafsleyfi til handa Höllinni Vestmannaeyjum. Ágreiningur er varðar ákvörðun um útgáfu starfsleyfi á réttilega undir umhverfisráðherra samkvæmt nefndri 32. gr., ekki úrskurðarnefnd. Þá hefur umhverfisráðuneytið ekki kveðið upp úrskurð varðandi þennan ágreining.

Kæranda var tilkynnt með bréfi kærða dags. 25. nóvember 2008 að kæruheimild í málinu væri til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir í stað Umhverfisráðuneytis þar sem um útgáfu starfsleyfis var að ræða. Kærði leiðrétti framangreind mistök um leið og þau urðu ljós með því að setja sig í samband við úrskurðarnefndina og tjáði henni að málið ætti réttilega undir Umhverfisráðuneytið, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga. Ber að fallast á þær röksemdir kærða.

Það er afstaða úrskurðarnefndar að vísa beri frá kæru Friðbjörns Ó Valtýssonar. 

                                                        Úrskurðarorð:                                                           

Kæru Friðbjörns Ó. Valtýssonar er vísað frá úrskurðanefndinni. 

                                                                                                

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

Gunnar Eydal

                                 

Guðrún Helga Brynleifsdóttir

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira