Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 617/2017 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi af mannúðarástæðum ásamt því að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 617/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070044

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. júlí 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Jafnframt var honum synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að viðurkennd verði staða kæranda sem flóttamaður og honum veitt vernd hér á landi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga með vísan til 37. gr. sömu laga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi hér á grundvelli sérstakra tengsla skv. 78. gr. laga um útlendinga. Þá krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um endurgjaldslausa réttaraðstoð verði felld úr gildi og viðurkennt verði að kærandi eigi rétt á greiðslu þóknunar úr ríkissjóði fyrir réttargæslu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. nóvember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 10. maí 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 23. júní 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá var honum synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 19. júlí 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 21. ágúst 2017. Viðbótargögn bárust frá kæranda þann 24. ágúst 2017. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 5. október 2017 ásamt talsmanni sínum. Notast var við túlkaþjónustu símleiðis.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun bar kærandi því við að hann búi við ofsóknir af hálfu yfirvalda í […] vegna stjórnmálaskoðana sinna.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við það að í gögnum Útlendingastofnunar komi ekki fram ástæðurnar fyrir því að umsókn kæranda hafi verið tekin til efnismeðferðar hér á landi, t.d. hvort 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sbr. 42. gr. eigi við í máli hans. Í ljósi reglunnar um stöðugleika í stjórnsýslunni og að sambærileg mál skuli sæta sömu meðferð telur kærandi að hér sé um að ræða galla á stjórnsýslumeðferð.

Í greinargerð kæranda er farið yfir uppruna og aðstæður kæranda í heimaríki. Tekið er fram að kærandi sé ókvæntur en eigi föður á lífi. Faðir kæranda hafi starfað í lögreglunni í […], en hafi hætt störfum þegar hann hafi fengið fyrirmæli um að skjóta á friðsamleg mótmæli […]. Skömmu síðar hafi faðir kæranda gengið í stjórnmálaflokk […] og hafi hann verið virkur félagi í flokknum. Flokkurinn hafi barist gegn spillingu og fyrir bættu lýðræði og sjálfstæði […]. Í kjölfarið hafi fjölskylda kæranda farið að finna fyrir alls kyns hindrunum og þvingunum af hálfu opinberra aðila. Á endanum hafi fjölskylda kæranda misst fyrirtæki sitt, en þau hafi rekið fataverksmiðju. Faðir kæranda hafi þá flutt […] þegar kærandi hafi sífellt oftar orðið fyrir áreiti og óútskýrðum „óhöppum“.

Kærandi hafi innritast í lögregludeild háskólans […]. Hann hafi tekið hlé frá námi á árunum 2011-2013 á meðan hann hafi gegnt herþjónustu. Árið 2015 hafi hann verið ráðinn til starfa hjá lögreglunni þar sem hann hafi unnið í umferðarlagadeild meðfram námi sínu. Hann hafi starfað í lögreglunni til ársins 2016 þegar hann hafi útskrifast úr háskóla. Kærandi tilheyri […] og hafi verið virkur meðlimur. Þá hafi hann verið virkur í öðrum ungmennahreyfingum, […]. Hann hafi átt þátt í að skipuleggja mótmæli og ýmiskonar andóf gegn stjórnvöldum í heimaríki.

Kærandi áréttar að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá því að hann hafi verið virkur í baráttunni gegn spilltum stjórnvöldum í […]. Hann hafi greint frá aðkomu sinni að ýmsum mótmælum, bæði sem þátttakandi og síðar sem einn af skipuleggjendum fjölmennra mótmæla. Frásögn hans samræmist opinberum gögnum marktækra mannréttindasamtaka og fréttamiðla. Hann hafi þá greint frá því að lögreglan hafi ráðist á hann, handtekið hann og beitt hann líkamlegu ofbeldi. Hann hafi aftur á móti þekkt rétt sinn og hafi tekið þátt í að kæra lögregluna fyrir framgöngu sína við löggæslustörfin. Málin hafi hins vegar verið felld niður án þess að fá eðlilega meðferð. Kærandi hafi lagt fram sýnileg sönnunargögn varðandi rekstur málsins. Af hálfu kæranda er því haldið fram að frásögn hans hafi verið stöðug frá upphafi og í samræmi við alþjóðlegar skýrslur.

Kærandi telur að hann sé nokkuð þekktur, einkum meðal lögreglunnar þar sem hann hafi starfað áður, og að það hafi leitt til þess að hann hafi ekki óttast um líf sitt þrátt fyrir þátttöku í opinberum mótmælum. Þegar reynt hafi verið að ráða hann af dögum með því að koma eiturgufum fyrir í kyrrstæðri bifreið hans með þeim afleiðingum að hann hafi fallið í ómegin hafi hann hins vegar orðið hræddur. Hann hafi, með hjálp vegfaranda, komist á sjúkrahús. Hann hafi lagt fram sýnileg sönnunargögn varðandi sjúkrahúsdvöl sína. Málið hafi aldrei verið rannsakað með eðlilegum hætti af lögreglu. Eftir atvikið hafi kærandi reynt að komast úr landi með því að fara til […]. Þaðan hafi hann ætlað að fara áfram til Evrópu. Hann hafi þó snúið til baka til […] og sótt um áritun. Á meðan hafi kærandi látið lítið fyrir sér fara, en annað atvik hafi þó komið upp þegar hann hafi verið á veitingastað með vini sínum. Einstaklingur tengdur einum helsta valdamanni ríkisins hafi þá komið inn ásamt lífvörðum sínum og veist að kæranda að tilefnislausu. Í kjölfarið hafi hafist ofsóknir á vandamenn kæranda, m.a. fjölskyldu unnustu hans. Eftir þennan atburð hafi kærandi verið fullviss um að áframhaldandi dvöl í heimaríki gæti haft í för með sér verulega hættu fyrir líf hans og öryggi. Á grundvelli þessa telur kærandi að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu yfirvalda vegna stjórnmálaskoðana og því geti hann ekki fært sér í nyt vernd heimaríkis. Hann sé því pólitískur flóttamaður í skilningi 37. gr. laga um útlendinga.

Kærandi gerir athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Kærandi telur að framburður hans sé trúverðugur og að leggja beri hann til grundvallar við afgreiðslu umsóknar hans. Kærandi gerir athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að leggja frásögn hans til grundvallar í öllum verulegum atriðum fyrir utan frásögn hans af ástæðum mótmælanna og skýringar hans sjálfs á áhrifum yfirvalda í […]. Þá hafi Útlendingastofnun hafnað því að leggja hlutverk kæranda í skipulagningu mótmælanna til grundvallar vegna skorts á sönnunargögnum. Kærandi heldur því fram að þær forsendur sem Útlendingastofnun tefli fram og eigi að sýna að framburður kæranda sé ótrúverðugur standist ekki. Útlendingastofnun haldi því fram að samskipti yfirvalda í […] sanni að frásögn kæranda m.a. af áhrifum […] stjórnvalda á innanríkismál í […] eigi ekki við rök að styðjast. Kærandi geti ekki fallist á þetta og bendir á að Útlendingastofnun hafi m.a. látið hjá líða að horfa til þess hve nákvæm frásögn kæranda hafi verið. Þá hafi stofnunin horft framhjá eða vanmetið opinberar heimildir sem styðji frásögn kæranda um stöðu […]. Því sé ekki hægt að fallast á það með Útlendingastofnun að framburður kæranda varðandi afskipti […] af innanríkismálum í […], viðbrögð stjórnvalda í […] og mótmæli íbúanna hafi verið ótrúverðugur. Þvert á móti fái hann stuðning í gögnum málsins, bæði almennum gögnum um aðstæður í heimaríki og þeim gögnum sem varði kæranda sjálfan.

Kærandi gerir jafnframt athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi gengið út frá því að kæranda hafi ekki tekist að sanna aðkomu sína að skipulagningu mótmælanna í […] á síðasta ári þrátt fyrir framlagningu tveggja myndbanda. Í öðru myndbandinu sjáist kærandi í baksviði viðtals sem tekið hafi verið við annan mótmælanda, en hitt myndbandið sýni viðtal við kæranda sjálfan. Útlendingastofnun hafi ekki treyst sér til þess að fallast á síðara myndbandið vegna skorts á merkingu þess. Kærandi tekur fram að mikill hluti umfjöllunar af mótmælum hafi verið fjarlægður af internetinu því algengt sé að heimildum sem ekki þóknist ráðamönnum sé jafnóðum eytt. Kærandi tekur þá fram að framburður hans hafi verið metinn trúverðugur af Útlendingastofnun og byggja verði á því þegar sýnileg sönnunargögn séu ekki til staðar. Þá sýni annað myndbandið kæranda í mynd sem bendi til þess að hann hafi verið í framvarðarsveit mótmælenda.

Í greinargerð kemur fram að í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar sé ekki dregið í efa að kærandi hafi tekið þátt í mótmælum í […]. Þá sé hvorki þátttaka hans í mótmælum dregin í efa né aðild hans að kærumálum gegn lögreglunni, enda hafi kærandi lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Kærandi telur að með þessu hafi hann sýnt fram á ástæðuríkan ótta gegn ofsóknum vegna skoðana sinna. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi komist ranglega að þeirri niðurstöðu að handtaka fyrir að mótmæla opinberlega sé ekki brot vegna stjórnmálaskoðana heldur lögbrot framið af stjórnmálaástæðum. Friðsamleg mótmæli séu auðvitað tjáning eða skoðun mótmælandans. Með því að handtaka mótmælanda fyrir að tjá skoðanir sínar með friðsamlegum mótmælaaðgerðum sé verið að brjóta gegn grundvallarmannréttindum borgarans.

Kærandi bendir á að hann geti ekki vænst þess að fá þá vernd sem hann þurfi við heimkomu enda megi rekja þær ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir til stjórnvalda. Þá veiti opinberar heimildir að einhverju leyti forspá um hvaða meðferð hann fái verði honum snúið til baka, en þær sýni að yfirvöld […] hiki ekki við að fangelsa menn sem séu í svipaðri stöðu og kærandi án dóms og laga. Kærandi hafi enga tryggingu fyrir því að ofsóknum verði ekki haldið áfram við heimkomu. Eftir að málið hafi verið tekið til ákvörðunar hjá Útlendingastofnun hafi kærandi fengið þær upplýsingar að búið væri að kveða hann til að mæta til skýrslugjafar hjá hernaðaryfirvöldum. Í bréfinu komi fram að mæti hann ekki án þess að gera grein fyrir ástæðum þess verði hann færður með lögregluvaldi. Bréfið hafi valdið óróleika hjá kæranda því að slíkar kvaðningar séu ekki eðlilegar.

Kærandi tekur þá fram að telji kærunefnd að hann falli ekki undir hin ströngu viðmið flóttamannahugtaksins þá eigi hann samt sem áður rétt á vernd á grundvelli 42. gr. laga um útlendinga og 33. gr. flóttamannsamningsins vegna hins hættulega ástands í heimaríki hans. Telur kærandi að þrátt fyrir góð áform og viðleitni stjórnvalda […] hafi þeim ekki tekist að tryggja öryggi allra íbúa landsins sem leyfi sér að gagnrýna stjórnvöld. Miða verði við raunverulegt ástand í landinu eða framkvæmd laga enda nægi ekki að miða við dauðan lagabókstaf.

Varðandi kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða bendir kærandi á að miklar líkur séu á því að hann muni sæta ómannlegri og vanvirðandi meðferð af hálfu yfirvalda verði hann sendur til heimaríkis, en það brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og ákvæðið hafi verið lögfest með lögum nr. 62/1994. Í tengslum við kröfu sína um dvalarleyfi hér á landi vegna sérstakra tengsla tekur kærandi fram að hann eigi unnustu hér á landi og þau búi saman. Í viðbótargögnum frá kæranda kemur fram að þau hafi nú óskað eftir því að vera skráð í sambúð í þjóðskrá og þau séu að afla gagna til að fá leyfi til að ganga í hjúskap.

Í greinargerð sinni gerir kærandi kröfu um endurgjaldslausa réttaraðstoð. Telur kærandi að Útlendingastofnun hafi farið út fyrir lagaheimild sína með því að synja honum um slíka aðstoð. Þegar kærandi hafi komið hingað til lands hafi verið í gildi lög sem ekki hafi haft að geyma heimild fyrir Útlendingastofnun til að semja við Rauða krossinn um einkarétt til að sinna réttindagæslu fyrir einstaklinga í leit að alþjóðlegri vernd. Í ljósi lögmætisreglunnar verði kæranda ekki synjað um greiðslu kostnaðar við réttargæslu án lagaheimildar enda uppfylli talsmaður skilyrði lögmannalaganna. Ný lög sem takmarki rétt einstaklinga til að velja sér talsmann geti ekki skert réttindi kæranda í ljósi þess að þau hafi tekið gildi löngu eftir að kærandi hafi sótt hér um vernd. Kærandi byggir þá á því að það valdaframsal sem komi fram í 41. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 standist ekki stjórnarskrá, og mikilvægt sé að bera það undir dómstóla.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga með áorðnum breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[…]

[…] Ríkið er aðili að Evrópuráðinu og hefur fullgilt mannréttindasáttmála Evrópu. Ríkið er jafnframt aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Ofangreind gögn bera það með sér að mannréttindi og grundvallarréttindi séu almennt tryggð í […]. Í stjórnarskrá sé m.a. kveðið á um bann við mismunun á grundvelli stjórnmálaskoðana og trúar. Þá sé í stjórnarskrá og lögum landsins kveðið á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi, en virðing stjórnvalda fyrir slíku frelsi sé þó í framkvæmd misjöfn. Almennt geti þó einstaklingar gagnrýnt stefnu stjórnvalda óáreittir. Umfjöllun í fjölmiðlum sé yfirleitt einhliða og í þágu stjórnvalda þar sem að eigendur einstakra miðla séu yfirleitt stuðningsmenn ríkjandi stjórnar. Þá sé ritskoðun algeng hjá fjölmiðlum til þess að komast hjá áreiti af hálfu yfirvalda.

[…] Þjóðaratkvæðagreiðsla hafi átt sér stað […] þar sem samþykktar hafi verið breytingar á stjórnarskrá sem m.a. minnki völd forseta landsins og færi þau til forsætisráðherra og þingsins. Breytingarnar hafi verið gagnrýndar og ríkjandi stjórnvöld m.a. sökuð um að reyna að festa stöðu sína enn frekar í sessi.Samkvæmt lögum eigi dómskerfið að vera sjálfstætt en í raun sé sjálfstæði dómstóla takmarkað þar sem stjórnvöld hafi töluverð afskipti af því sem þar fari fram. Töluverða spillingu sé að finna á vettvangi hins opinbera og opinberir starfsmenn séu sjaldan látnir sæta ábyrgð. Stjórnvöld hafi að einhverju leyti reynt að stuðla að umbótum hvað þetta varði, en það hafi gengið hægt og ekki verið fylgt vel eftir. Mútur þekkist víða, auk þess sem frændhygli og klíkuskapur séu algeng. Vantraust sé mikið meðal almennings vegna þessa.

Karlmönnum […] sé skylt að gegna herþjónustu […]. Lög geri ráð fyrir að einstaklingar geti neitað að gegna herskyldu af samviskuástæðum á grundvelli trúar en sé þá skylt að sinna annars konar þjónustu fyrir ríkið í ákveðinn tíma. Almenna reglan sé þá sú að einstaklingur sem sé eldri en […] og hafi forðast herkvaðningu geti sloppið við saksókn með greiðslu sektar.[…] Lögreglan hafi verið sökuð um að hafa gengið of hart fram gegn mótmælendum, þar á meðal gegn fjölmiðlafólki. Tekið hafi verið á þessum ásökunum að einhverju leyti af hálfu yfirvalda, m.a. hafi lögreglustjóra […] verið vikið úr starfi. Þá hafi verið gerðar breytingar á ríkisstjórn […]. Til staðar séu úrræði til þess að kvarta undan störfum lögreglu og þá sé til staðar embætti umboðsmanns í landinu, en þangað geti íbúar landsins leitað sé brotið á réttindum þeirra. Þá sé til staðar fjöldi virkra borgaralegra og frjálsra félagasamtaka sem starfi við ágætar aðstæður í landinu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi ber fyrir sig að hann verði fyrir ofsóknum í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna og þátttöku í mótmælum.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi ber fyrir sig að hann óttist ofsóknir í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana. Hann hafi verið virkur í baráttunni gegn spilltum stjórnvöldum í landinu og komið að mörgum mótmælum, bæði sem þátttakandi og skipuleggjandi. Vegna þessa hafi hann m.a. verið handtekinn og beittur líkamlegu ofbeldi af lögreglunni. Jafnframt hafi eitri verið komið fyrir í bíl hans og hafi kærandi þurft að dvelja á spítala vegna þess. Þá hafi kærandi orðið fyrir líkamsárás þegar hann hafi verið á veitingastað með vini sínum.

Kærandi kveður samkvæmt framangreindu að hann hafi verið ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið í ungliðahreyfingu […] og hafi verið virkur meðlimur. Aðspurður um þetta í viðtali hjá kærunefnd sagði kærandi að faðir hans hefði verið virkur í umræddum stjórnmálaflokki en að kærandi sjálfur hefði ekki haft þar sérstaka stöðu. Verður því ekki byggt á því að kærandi sé virkur meðlimur […]. Þá ber kærandi því við að hann hafi verið virkur í mótmælum árin 2015 og 2016 meðal annars í hreyfingunni […]. Aðspurður sagði kærandi að hann hefði m.a. haft orð fyrir hópi manna í deilum við lögreglu. Í ljósi framburðar kæranda telur kærunefnd að leggja verði til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi vegna stjórnmálaskoðana sinna verið þátttakandi í mótmælum í heimaríki sínu árin 2015 og 2016 og að einhverju leyti verið áberandi þar.

Kærunefnd telur að ljóst sé af landaupplýsingum að eitthvað sé um takmarkanir á tjáningar- og fundafrelsi í heimaríki kæranda. Slíkt hafi til að mynda verið áberandi í kjölfar mótmæla sem hafi átt sér stað eftir að hópur einstaklinga hafi lagt undir sig lögreglustöð í höfuðborg landsins […]. Almennt eigi þó einstaklingar að geta gagnrýnt stefnu stjórnvalda óáreittir. Þá sé til staðar úrræði til þess að kvarta undan störfum lögreglu í heimaríki kæranda, auk þess sem íbúar landsins geti leitað til embættis umboðsmanns í landinu sé brotið á réttindum þeirra.

Kærandi ber því við að hann hafi orðið fyrir ýmiss konar áreiti vegna stjórnmálaskoðana sinna. Hann hafi til að mynda verið laminn í andlitið af lögreglumanni í mótmælum í júní 2016. Spurður nánar út í atvikið í viðtali hjá kærunefnd tók kærandi fram að umræddur lögreglumaður hafi verið leystur tímabundið frá störfum vegna atviksins. Í gögnum málsins kemur fram að brugðist hafi verið við kvörtun kæranda vegna þess ofbeldis sem kærandi varð fyrir af hálfu lögreglumannsins með rannsókn sakamálsins gagnvart umræddum lögreglumanni. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir eitrun þegar einhvers konar búnaði sem fyllti bíl hans af reyk hafi verið komið fyrir inni í bílnum og hann hafi þurft að dvelja á spítala vegna þess. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður hvort að hann teldi að atvikið í bílnum tengdist þátttöku hans í stjórnmálum og tók þá kærandi fram að hann gæti ekki verið viss um það. Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd að kærandi hafi sýnt fram á að hann hafi tekið þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum og að einhverju leyti verið áberandi sem slíkur, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur þó að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi orðið fyrir athöfnum sem geta talist ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eða eigi slíkar ofsóknir á hættu snúi hann aftur til heimaríkis síns. Við það mat hefur m.a. verið litið til framburðar kæranda, gagna sem hann hefur lagt fram og skýrslna um aðstæður í heimaríki kæranda.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu einstaklinga sem tengist forseta landsins. Kærunefnd telur að framburður kæranda bendi til þess að það ofbeldi hafi tengst deilu á bar sem faðir vinar kæranda hafi rekið. Kærunefnd telur að ekki hafi verið sýnt fram á að það megi rekja til afstöðu kæranda til stjórnvalda eða að það ofbeldi hafi að öðru leyti verið á grundvelli þeirra ástæðna sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga tekur til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna.

Kærunefnd telur því, að teknu tilliti til gagna málsins, upplýsinga um aðstæður í heimaríki kæranda og framburðar hans, þ. á m. um hvenær og í hvaða mæli kærandi kveðst aðallega hafa verið að tjá skoðanir sínar og afleiðingar þess, að kærandi teljist ekki hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Fjallað hefur verið um aðstæður kæranda í heimaríki en kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við ágæta andlega heilsu. Hann hafi þó fæðst með hjartavandamál en það hafi ekki háð honum hingað til. Frekari gögn eða upplýsingar um heilsufar kæranda hafa ekki borist kærunefnd. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála samhliða synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geta m.a. talist tengsl sem útlendingur hefur stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hefur staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verður ekki endurnýjað eða hefur verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skal að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt er heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 5. mgr. 78. gr. laganna segir m.a. að til sérstakra tengsla við landið skv. 2. mgr. geti ekki talist þau tengsl sem útlendingur myndar við dvöl hér á landi samkvæmt 77. gr. laganna. Kærunefnd telur að dvöl vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, hvort sem umsækjandi hefur fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi samkvæmt 77. gr. laga um útlendinga eða ekki, geti ekki talist til lögmætrar dvalar í skilningi 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins liggur fyrir að kærandi hefur dvalið hér á landi í um tólf mánuði vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Í viðtali hjá Útlendingastofnun var kærandi spurður út í tengsl sín við Ísland. Kvaðst hann ekki hafa tengsl við landið.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi eigi unnustu hér á landi og að þau búi saman. Þau hafi í júlí 2017 óskað eftir því að vera skráð í sambúð. Í viðtali við kæranda hjá kærunefnd kom þá fram að þau vildu ganga í hjúskap en að kæranda gangi illa að afla tilskilinna gagna. Kærunefnd tekur fram að í 5. mgr. 78. gr. laganna segir m.a. að með sérstökum tengslum í ákvæðinu sé ekki átt við fjölskyldutengsl viðkomandi útlendings, en um þau fari skv. VIII. kafla laganna. Tengsl kæranda við unnustu sína hér á landi geta því ekki ein og sér verið grundvöllur veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla.

Með vísan til þess að kærandi hefur aldrei dvalið hér á landi í lögmætri dvöl telur kærunefnd ljóst að tengsl kæranda hér á landi geti ekki verið grundvöllur veitingar dvalarleyfis á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er því staðfest.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 10. nóvember 2016. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal yfirgefa landið innan 15 daga frá birtingu úrskurðar þessa.

Athugasemd kæranda við synjun Útlendingastofnunar á endurgjaldslausri réttaraðstoð

Í greinargerð sinni til kærunefndar krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um endurgjaldslausa réttaraðstoð verði felld úr gildi og viðurkennt verði að sá talsmaður sem kærandi hefur valið eigi rétt á greiðslu þóknunar úr ríkissjóði fyrir réttargæslu. Kærunefnd tekur fram að enginn vafi er um að kærandi hefur notið aðstoðar lögmanns við meðferð máls hans á tveimur stjórnsýslustigum. Jafnframt er ekki vafi á að kæranda stóð til boða að Útlendingastofnun skipaði honum talsmann skv. 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga sem myndi fá greidda þóknun úr ríkissjóði. Er það því mat kærunefndar að ekki hafi verið annmarkar á meðferð þess stjórnsýslumáls sem er til umfjöllunar í úrskurði þessum að því er varðar réttaraðstoð við kæranda.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar að öðru leyti en því að lagt er fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 15 daga frá birtingu úrskurðar nefndarinnar.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Kærandi skal yfirgefa landið innan 15 daga.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant shall leave the country within 15 days.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                                                              Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira