Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 04110110

Hinn 8. nóvember 2005, er kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Ráðuneytinu bárust þrjár eftirfarandi kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 19. nóvember 2004 um mat á umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar:

Kæra Jóhanns Páls Símonarsonar, Bjarka Júlíussonar, Jóns V. Gíslasonar og Kolbeins Björgvinssonar dags. 28. desember 2004. Með kærunni fylgdi undirskriftarlisti 337 íbúa Grafarvogs.

Kæra Árna B. Helgasonar dags. 28. desember 2004.

Kæra Eimskipafélags Íslands dags. 28. desember 2004.

I. Hin kærða ákvörðun.

Í matsskýrslu er kynnt lagning 1. áfanga Sundabrautar í Reykjavík. Sá áfangi nær frá Sæbraut yfir Kleppsvík að Hallsvegi og Strandvegi. Framkvæmdaraðilar eru Vegagerðin og Reykjavíkurborg. Í matskýrslunni eru lagðir fram þrír framkvæmdakostir: leið I (hábrú), leið II (botngöng) og leið III (eyjalausn). Leið III er valkostur Vegagerðarinnar en Reykjavíkurborg hefur ekki tekið afstöðu til einstakra kosta.

Skipulagsstofnun féllst í úrskurði sínum frá 19. nóvember 2004 á alla framlagða kosti fyrirhugaðrar framkvæmdar að frátöldu því að hafnað var þeirri útfærslu á leið III að leggja Sundabraut á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfða. Í úrskurðinum setti stofnunin framkvæmdinni eftirfarandi skilyrði:

1. Reykjavíkurborg og Vegagerðin tryggi að vatnsskipti haldist óbreytt í Kleppsvík. Framkvæmdaraðilar standi að rannsóknum á seltustigi í Kleppsvík, Grafarvogi og Elliðaárvogi áður en framkvæmdir hefjast og eftir að framkvæmdum lýkur verði ráðist í lagningu eyjalausnar skv. leið III. Nánari ákvarðanir um vöktun á seltubreytingum, s.s staðsetning og fjöldi mælistaða, tímalengd og annað fyrirkomulag ásamt mótvægisaðgerðum s.s. stækkun brúaropa, skulu vera í samráði við Umhverfisstofnun og veiðimálastjóra.

2. Reykjavíkurborg og Vegagerðin tryggi að framkvæmdir sem þyrla upp gruggi í einhverjum mæli í Kleppsvík vegna allra framlagðra kosta og útfærslna á þeim fari fram utan göngutíma laxfiska, þ.e. frá maí til loka september.

3. Reykjavíkurborg og Vegagerðin mæli styrk mengunarefna í botnseti áður en framkvæmdir hefjast vegna botnganga skv. leið I og eyjalausnar og lágbrúar yfir Kleppsvík skv. leið III og hafi samráð við Umhverfisstofnun um förgun á menguðu botnseti. Nánari ákvarðanir varðandi staðsetningu og fjölda mælistaða ásamt mótvægisaðgerðum skulu vera í samráði við Umhverfisstofnun.

4. Reykjavíkurborg og Vegagerðin tryggi að afrennsli allra framlagðra kosta 1. áfanga Sundabrautar berist ekki óhreinsað í Kleppsvík og ósasvæði Elliða- og Grafarvogar.

5. Reykjavíkurborg og Vegagerðin tryggi að hljóðstig fari ekki yfir 65 dB(A) í íbúðarbyggð vestan og sunnan Sæbrautar, 60 dB(A) við Kleppsspítala og 55 dB(A) í Hamrahverfi. Jafnframt verði við endanlega útfærslu hljóðvarna við Sæbraut kannaðir möguleikar á að tryggja hljóðstig neðan 55 dB(A) í íbúðarbyggð í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

6. Reykjavíkurborg standi fyrir reglubundnum mælingum á hávaða við efri hæðir húsa meðfram Sæbraut sem lagðar verði til grundvallar ákvörðunum um mótvægisaðgerðir í samráði við íbúa og eigendur viðkomandi fasteigna.

7. Reykjavíkurborg og Vegagerðin setji fram áætlun um förgun úrgangs og vöktun á gasútstreymi og sigvatni vegna lagningar umferðarmannvirkja á gömlu sorphaugunum í Gufunesi. Nánari ákvarðanir um vöktun áhrifa varðandi staðsetningu og fjölda mælistaða, tíðni mælinga og annað fyrirkomulag ásamt mótvægisaðgerðum skulu vera í samráði við Umhverfisstofnun.

8. Reykjavíkurborg og Vegagerðin standi fyrir reglubundnum mælingum á styrk köfnunarefnisoxíða og kolmónoxíðs og ráðstöfunum til úrbóta ef hætta er á því að styrkur efnanna geti náð heilsuspillandi mörkum við gangamunna botnganga skv. leið I.

9. Reykjavíkurborg og Vegagerðin hafi samráð við hafnaryfirvöld um endanlega útfærslu leiðar I þannig að umferð skipa að og frá hafnarsvæði Sundahafnar verði greið.

10. Reykjavíkurborg og Vegagerðin taki tillit til samgangna gangandi og hjólandi vegfarenda við endanlega ákvörðun legu og útfærslu 1. áfanga Sundabrautar.

11. Reykjavíkurborg og Vegagerðin grípi til ráðstafana til að takmarka umferð innan íbúðarbyggðar í nágrenni við Sæbraut samhliða endanlegri hönnun og byggingu 1. áfanga Sundabrautar.

II. Kröfur kærenda.

Í kæru Jóhanns Páls Símonarsonar, Bjarka Júlíussonar, Jóns V. Gíslasonar og Kolbeins Björgvinssonar er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Jafnframt er þess krafist að Sundabraut austan Kleppsvíkur verði færð eins langt frá íbúðarbyggð og hægt er.

Í kæru Árna B. Helgasonar eru ekki gerðar sérstakar kröfur en að hans mati er ekki tekið tillit til þess í úrskurðinum hve tenging Sundabrautar komi til með að valda mikilli röskun í hverfunum í kringum Sæbraut. Gerir kærandi tillögu um að í stað einnar umfangsmikillar Sundabrautar komi tvær tveggja akreina leiðir yfir Kleppsvík þ.e. önnur þar sem gert var ráð fyrir leið III og hin þar sem gert var ráð fyrir leið I skv. matsskýrslu. Einnig eru lagðar til breytingar á tengingum beggja vegna Kleppsvíkur.

Eimskipafélag Íslands krefst þess í kæru sinni að úrskurður Skipulagsstofnunar verði ómerktur og málinu vísað aftur til stofnunarinnar og henni falið að taka tillit til þeirra athugasemda Eimskips sem fram komu í bréfi félagsins 24. júní 2004 og lúta að lausn á umferðartengingum og umferðarflæði á hafnarsvæðum í Sundahöfn.

III. Einstakar málsástæður kærenda og umsagnir um þær.

Framangreindar kærur voru þann 7. janúar 2005 sendar til umsagnar Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, Umhverfisstofnunar og Faxaflóahafna ehf. Umsögn Skipulagsstofnunar barst þann 11. febrúar 2005, Umhverfis- og heilbrigðisstofu þann 28. janúar 2005, Umhverfisstofnunar þann 22. febrúar 2005, Faxaflóahafna ehf. þann 15. febrúar 2005 og sameiginleg umsögn Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar þann 3. febrúar 2005. Umsagnirnar voru þann 4. mars 2005 sendar kærendum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við þær. Athugasemdir bárust frá Eimskipafélagi Íslands þann 13. júní 2005, Árna B. Helgasyni þann 14. mars 2005, Ragnari Aðalsteinssyni hrl. f.h. Jóhanns Páls Símonarsonar þann 4. apríl 2005 og Jóni V. Gíslasyni og Bjarka Júlíussyni þann 4. apríl 2005.

1. Hljóðvist.

Kærendur Jóhann Páll Símonarson, Bjarki Júlíusson, Jón V. Gíslason og Kolbeinn Björgvinsson, hér eftir nefndir íbúar Grafarvogs, telja að ekki komi nægjanlega skýrt fram í umhverfismati Sundabrautar hvernig eigi að fullnægja reglugerðarákvæðum um hljóðvist vegna framkvæmdanna. Greinilega komi fram í matsskýrslu að til að fullnægja reglum um umferðarhávaða þurfi sértækar aðgerðir við fjölda húsa sem geti verið íþyngjandi fyrir íbúa. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa um þetta en fram komi í hinum kærða úrskurði að þeir muni m.a. þurfa að þola háreista veggi á lóðarmörkum húsa sinna. Muni það skerða rétt íbúanna til útsýnis og annarra réttmætra nota af eignum sínum. Einnig sé ljóst að allar hljóðmælingar eigi einungis við um fyrstu hæð húsa en ekki komi fram hvernig halda skuli hljóðstigi undir viðmiðunarmörkum á annarri hæð húsa með mótvægisaðgerðum en öllum megi vera það ljóst að það muni reynast mjög erfitt. Að auki taki hljóðvistarmælingar ekki tillit til ríkjandi vindáttar á framkvæmdasvæðinu. Nauðsynlegt sé að framkvæma vandaðar vindmælingar á svæðinu og taka tillit til landfræðilegra þátta eins og legu þeirra svæða sem verða fyrir áhrifum af framkvæmdinni. Í framhaldi af þeim mælingum verði að taka mið af niðurstöðum vindrásanna og byggja útreikninga á hljóðvist út frá þeim. Benda kærendur á að Umhverfisstofnun hafi talið framsetningu gagna er varða hljóðvist ábótavant. Kærendur benda ennfremur á að í byggð á fyrirhuguðu fyllingarsvæði við Gufunes vestan Sundabrautar muni umferðarhávaði alltaf fara yfir hávaðamörk.

Í umsögn framkvæmdaraðila, Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar, kemur fram að í gögnum sem framkvæmdaaðilar hafi sent Skipulagsstofnun við meðferð málsins sé birt hljóðstig á öllum hæðum húsa, bæði fyrir leið I og III. Í töflunni sé birt hljóðstig bæði fyrir og eftir varnir fyrir allar hæðir. Taflan sýni að fyrir eftirfarandi hús verði hljóðstig yfir 55 dB(A) eftir að fyrirhuguðum hljóðvörnum sem tilgreindar eru í matsskýrslu hefur verið komið fyrir:

Leiðhamrar 22 hljóðstig 56-57 dB(A)

Leiðhamrar 46, önnur hæð: hljóðstig 58-59 dB(A)

Leiðhamrar 24, hljóðstig 57-58 dB(A)

Leiðhamrar 44, önnur hæð, hljóðstig 58-60 dB(A)

Leiðhamrar 50, önnur hæð, hljóðstig 56, aðeins fyrir hábrú á leið I.

Neshamrar 12, önnur hæð, hljóðstig 56, aðeins fyrir hábrú á leið I.

Neshamrar 18, önnur hæð, hljóðstig 57-59 dB(A)

Neshamrar 16, önnur hæð, hljóðstig 57-59 dB(A)

Þær hljóðvarnir sem miðað er við í framangreindum útreikningum eru eftirfarandi:

· Meðfram Sundabraut frá gangamunna á leið III að gatnamótum er tveggja metra veggur.

· Meðfram Hallsvegi er 4 metra jarðvegsmön. Þessi mön er yfirleitt langt fyrir neðan húsin vegna halla en athuga þarf þó hús við Stakkhamra.

· Fyrir framan Krosshamra við göngustíg er 2,5 metra hár veggur. Þessi veggur er nokkuð langt frá lóðarmörkum. Efri brún hans er í 28 m y.s., en gólfhæð fyrstu hæðar á Krosshömrum 20 er í 29,5 m y.s. Veggurinn veldur því ekki útsýnisskerðingu. Þessar varnir fylgja einungis leið III.

· Fyrir framan Leiðhamra og Neshamra er 2 metra hár veggur nánast á lóðarmörkum. Fyrir Leiðhamra 46 er hæð ofan á vegg rétt neðan við gólfplötu efri hæðar. Fyrir Leiðhamra 44 er hæð veggjarins 1 metra ofan við gólfhæð neðri hæðar og fyrir Neshamra 18 og 16 er hæð ofan á vegg nánast sú sama og gólfhæð fyrstu hæðar.

Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að hægt sé að ná hljóðstigi á fyrstu hæð allra húsa undir 55 dB(A) með því að bæta við þær varnir sem raktar eru í matsskýrslu. Þannig yrði gangamunninn þar sem Sundabraut fer í gegnum Gufuneshöfðann lengdur um rúma 100 metra og veggur settur á brúna þar sem Sundabraut fer yfir Hallsveg. Þessi veggur sé framhald af gangamunna og byrji í 4 metrum en lækki í tengirampa Sundabrautar að Hallsvegi í 2 metra. Með þessari lausn náist þó ekki alveg að uppfylla kröfuna fyrir aðra hæð í þremur húsum. Munurinn sé þó mjög lítill nema í Leiðhömrum 46 þar sem hljóðstigið verði 55.9 dB(A) á annarri hæð.

Í umsögn framkvæmdaraðila er tekið undir niðurstöðu Skipulagsstofnunar í hinum kærða úrskurði að ákvarðanir um hæð og útfærslu hljóðvarna vegna íbúðabyggðar í Hamrahverfi þurfi að gera í deiliskipulagi. Leið hafi ekki verið valin og útfærslur á gatnamótum liggi ekki fyrir með nákvæmni. Deiliskipulag sem sýni hæð og útfærslu hljóðvarna við íbúðabyggð verði unnið samhliða nánari útfærslu mannvirkja. Við gerð deiliskipulags séu skýr ákvæði um aðkomu og samráð við íbúa og aðra hagsmunaaðila.

Hvað varðar hávaða á fyrirhuguðu nýbyggingarsvæði á landfyllingu í Gufunesi kemur fram í umsögn framkvæmdaraðila að hönnun byggðar, skipulagning hennar og nýting muni taka mið af Sundabrautinni og þeirri umferð sem um hana muni fara. Hægt sé að draga úr umferðarhávaða í byggðinni með vörnum á og við mannvirkin og skipuleggja síðan svæðið þannig að næst Sundabrautinni komi starfsemi sem ekki sé viðkvæm fyrir hávaða.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á umfjöllun á bls. 7 í hinum kærða úrskurði um hljóðvarnir austan Kleppsvíkur þar sem segir: „Í matsskýrslu kemur fram að austan Kleppsvíkur verði gerð 4 – 5 m há hljóðmön meðfram Hallsvegi auk þess sem 2 m hljóðveggur verði reistur á lóðamörkum húsa við Leiðhamra nr. 22, 24, 44 og 46 og Neshamra nr. 12, 16 og 18 til að halda hljóðstigi undir viðmiðunarmörkum reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða." Hvað varðar þá fullyrðingu í kærunni að fjöldi íbúa muni þurfa að þola háreista veggi á lóðamörkum húsa sinna og að ákvörðun um þá hafi verið tekin án samráðs við íbúa, bendir Skipulagsstofnun á að gerð hafi verið grein fyrir hljóðveggjum í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði og hafi niðurstaða stofnunarinnar verið sú að sýnt hafi verið nægilega fram á að mótvægisaðgerðir eigi að geta tryggt hljóðvist í íbúðarbyggð í Hamrahverfi sem uppfyllir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða. Stofnunin telur að ákvarðanir um endanlega gerð, hæð og útfærslu hljóðvarna vegna íbúðarbyggðar í Hamrahverfi þurfi að taka í deiliskipulagi að höfðu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. Úrskurðurinn útilokar því ekki að mati stofnunarinnar aðrar leiðir til að halda hljóðstigi neðan við 55 dB(A) ef samráð við íbúa leiðir til annarra lausna.

Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt reglugerð um hávaða miðast viðmiðunarmörk við hljóðstig utan við opnanlegan glugga. Aðgerðirnar þurfa því að skoðast fyrir hvert einstakt hús þ.e. ef opnanlegur gluggi er til staðar á þeirri hlið sem reiknast ofan marka. Skipulagsstofnun bendir á að í útreikningum á dreifingu hávaða, skv. reglugerð um hávaða, skuli styðjast við samnorrænt reiknilíkan fyrir umferðarhávaða, en á bls. 4 í sérfræðiskýrslu um hljóðvist, sem lögð hafi verið fram við athugun Skipulagsstofnunar, komi fram að það hafi verið gert. Að síðustu bendir Skipulagsstofnun á 5. skilyrði í hinum kærða úrskurði, en þar segi m.a.: „Reykjavíkurborg og Vegagerðin tryggi að hljóðstig fari ekki yfir 65 dB(A) í íbúðarbyggð vestan og sunnan Sæbrautar, 60 dB(A) við Kleppsspítala og 55 dB(A) í Hamrahverfi." Skipulagsstofnun telur því að í hinum kærða úrskurði sé nægjanlega fjallað um áhrif framkvæmdarinnar á hljóðvist jafnt á fyrstu og efri hæðum íbúðarhúsa og skýrt hvernig eigi að fullnægja reglugerðarákvæðum um hljóðvist í Hamrahverfi vegna framkvæmdarinnar.

Hvað varðar hljóðvist í fyrirhugaðri byggð á landfyllingum við Gufunes þá bendir Skipulagsstofnun á að auk þess að reisa vegg á hábrú skv. leið I og meðfram Hallsvegi vestan Sundabrautar eigi jafnframt að vera unnt að haga skipulagi hverfisins þannig að atvinnuhúsnæði myndi hljóðtálma fyrir íbúðarhús í því skyni að tryggja að hljóðvist standist viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin hafi bent á það við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun að mikilvægt væri að hljóðvarnir væru hannaðar og kynntar íbúum áður en ákvörðun lægi fyrir, enda þekkt að samspil útsýnis og hljóðvistar á upplifun íbúa væri flókið. Jafnframt hafi stofnunin bent á að í svörum framkvæmdaraðila við umsögnum væru lögð fram margvísleg ný gögn sem kynna ætti almenningi, hagsmunaaðilum og íbúum svo að þeir gætu kynnt sér heildarumhverfisáhrif framkvæmdanna. Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni nauðsynlegt að haft verði samráð við íbúa og hagsmunaaðila við útfærslu hljóðvarna eins og Skipulagsstofnun hafi gert að skilyrði í úrskurði sínum. Telur Umhverfisstofnun að það skilyrði sé ein af forsendum þess að hægt sé að fallast á fyrirhugaða lagningu Sundabrautar. Að mati stofnunarinnar hefði þó verði eðlilegt að slíkt samráð hefði farið fram í matsferlinu sjálfu og að íbúum og hagsmunaaðilum hefði gefist kostur á að kynna sér og gera athugasemdir við öll framlögð gögn framkvæmdaraðila er varða hljóðvist.

Hvað varðar þá athugasemd kærenda að hljóðvistarmælingar taki ekki tillit til ríkjandi vindáttar á framkvæmdarsvæðinu, þá segir Umhverfisstofnun í umsögn sinni að stofnunin hafi í umsögnum sínum um mat á umhverfisáhrifum vegagerðar í þéttbýli gert athugasemdir ef veðurfarsgögn hafi vantað eða þau verið ófullnægjandi. Athugasemdir stofnunarinnar um birt veðurgögn hafi fyrst og fremst varðað loftmengun, en þó einnig hljóðstig ef ástæða hafi þótt til. Í umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar í máli þessu hafi fyrir mistök ekki verið gerðar athugasemdir við skort á upplýsingum um veðurfar og umfjöllun um áhrif veðurfars á hljóðstig í matsskýrslu og frekari gögnum framkvæmdaraðila. Stofnunin taki undir athugasemdir kærenda hvað þetta varðar og bendir á mikilvægi þess að framkvæmdaraðili afli gildra veðurgagna í mati á dreifingu loftmengunar og hávaða, einkum hægum vindáttum sem beri hávaða betur en aðrar veðurfarslegar aðstæður. Umhverfisstofnun bendir á að ekki sé hægt að fullyrða um áhrif veðurfarslegara þátta vegna skorts á gögnum, svo sem hver verði mögnunaráhrif vinds á hávaða, m.a. út frá mismunandi legu brautarinnar.

Kærandi Jóhann Páll Símonarson bendir í athugasemdum sínum á að hvergi í hinum kærða úrskurði sé fjallað um þá töflu sem framkvæmdaraðilar vísa til í umsögn sinni og þar sem birt er hljóðstig á öllum hæðum húsa í Hamrahverfi. Kæranda hafi ekki verið kynntir þessar hljóðmælingar/hljóðreikningar fyrr en nú í umsögn framkvæmdaraðila. Gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við þessa framsetningu upplýsinga sem að öllu eðlilegu hefði átt að kynna kæranda og öðrum hlutaðeigandi mun fyrr og með ítarlegum hætti. Kærandi gerir ennfremur athugasemdir við þann málatilbúnað framkvæmdaraðila sem fram kemur í umsögn þeirra. Þar sé talið mögulegt að ná hljóðstigi allra húsa í nágrenni framkvæmdasvæðis niður fyrir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða með því að „bæta þær varnir sem raktar eru í matsskýrslu". Telur kærandi þennan málatilbúnað framkvæmdaraðila mjög handahófskenndan og ótraustvekjandi og efast kærandi af þeim sökum að framkvæmdaraðilar geti í raun uppfyllt skilyrði um hljóðvist í og við heimili kæranda og annarra hlutaðeiganda skv. reglugerð um hávaða.

Kærendur Jón V. Gíslason og Bjarki Júlíusson kalla í athugasemdum sínum eftir þeim útreikningum eða mælingum sem sýna fram á að mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaraðilar leggja til og Skipulagsstofnun gengur út frá dugi til að framfylgja reglugerðarákvæðum um hljóðvist. Telja þeir tilefni til að sýna útreikninga að baki þeim hljóðkortum sem sett séu fram þar sem kærendur telja myndrænar niðurstöður hljóðútreikninga ótrúverðugar. Kærendur mótmæla því að endanleg gerð og útfærsla á hljóðveggjum á lóðarmörkum eigi að fara fram í deiliskipulagi. Það geti ekki talist eðlileg aðgerð gagnvart þeim eigendum fasteigna sem þurfi þá að hlíta íþyngjandi aðgerðum við hýbýli sín vegna framkvæmdanna. Spyrja kærendur hvaða mótvægisaðgerða verði unnt að grípa til ef íbúar umræddra húsa í Hamrahverfi sætti sig ekki við 2 m háa veggi á lóðarmörkum. Benda þeir á að í aðalskipulagi sé meginlega og stærð framkvæmdarinnar ákveðin en í deiliskipulagi fjallað um nánari útfærslur. Á deiliskipulagsstigi geti verið orðið of seint að grípa til þeirra aðgerða sem dugi.

 

2. Loftgæði.

Íbúar Grafarvogs benda í kæru sinni á að Umhverfisstofnun hafi gert athugasemdir við ófullnægjandi upplýsingar um skaðleg loftmengandi efni og svifryk í andrúmsloftinu gagnvart íbúum á svæðinu og á nærliggjandi svæðum. Hafi stofnunin talið ófullnægjandi að ekki skyldi í matsskýrslu vera fjallað um áætlaðan styrk svifryks í andrúmsloftinu umhverfis Sundabraut og aðliggjandi götur.

Í umsögn Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar kemur fram að Umhverfisstofnun hafi gert athugasemdir við þá aðferð sem hefðbundið hafi verið að beita við athugun á mengun frá umferð, þ.e. að beina sjónum einkum að útblæstri bifreiða og hvernig sú mengun dreifist og breytist. Þessi aðferð hafi verið viðhöfð vegna þess að útblásturinn hafi verið talinn innihalda mest mengandi efnin í svifrykinu. Gerði Umhverfisstofnun athugasemd við að ekki hafi verið gerð grein fyrir heildarsvifryki í andrúmsloftinu. Sama gerði Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur. Í framhaldi af því hafi farið fram samskipti ráðgjafa framkvæmdaraðila og framangreindra stofnana um málið. Framkvæmdaraðilar hafi bent á að framkvæmdin myndi minnka heildarfjölda ekinna kílómetra í umferðarkerfi borgarinnar og svifryk myndi því minnka í borginni vegna framkvæmdarinnar. Þá hafi framkvæmdaraðilar bent á að skortur væri á mælingum og prófuðum reiknilíkönum til að hægt væri að leggja fram áreiðanlegar niðurstöður. Engu að síður hafi framkvæmdaraðilar gert greiningar á mælingum á svifryki á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar til að reyna að greina líkleg svifryksgildi á gatnamótum Sundabrautar og Sæbrautar sem Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur hafi ekki gert athugasemdir við. Umhverfisstofnun hafi heldur engar athugasemdir gert við viðbótarathuganir og reikninga framkvæmdaraðila í svörum sínum sem bárust eftir að framkvæmdaraðilar höfðu lagt fram viðbótarskýrslu.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að í hinum kærða úrskurði komi fram að samkvæmt framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar, móttekin 27. september 2004, sýni samanburður á mælingum á svifryki við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar og áætlaðri umferð um gatnamót Sundabrautar og Sæbrautar og Sundabrautar og Hallsvegar fyrir árið 2024 að búast megi við að styrkur svifryks geti í mesta lagi orðið af svipaðri stærðargráðu og nú er við gatnamót Grensásvegar en þar hafi styrkurinn farið yfir viðmiðunarmörk nokkrum sinnum á ári. Um sé að ræða gróft mat þar sem á Grensásvegi séu gatnamót í plani en gatnamót Sundabrautar og Sæbrautar annars vegar og Sundabrautar og Hallsvegar hins vegar verði mislæg. Ástæða þessa sé fyrst og fremst jafnari hraði við mislæg gatnamót sem geri það að verkum að slit á vegum verði mun minna. Skipulagsstofnun telur að búast megi við því að styrkur svifryks fari nokkrum sinnum á ári yfir viðmiðunarmörk reglugerðar nr. 251/2002, um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings. Því telur stofnunin nauðsynlegt að Reykjavíkurborg og Vegagerðin leiti allra leiða til að draga úr svifryksmengun svo unnt verði að tryggja viðunandi loftgæði umhverfis Sundabraut.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er ennfremur bent á að í hinum kærða úrskurði komi fram að Skipulagsstofnun telji ýmsa annmarka á mati á áhrifum einstakra umferðarmannvirkja 1. áfanga Sundabrautar á loftgæði. Ennfremur hafi stofnunin bent á vandkvæði þess að greina áhrif einstakra verkefna á borð við 1. áfanga Sundabrautar frá almennum áhrifum umferðar á höfuðborgarsvæðinu á loftgæði. Við úrvinnslu mælinganna væri því nauðsynlegt að athuga sérstaklega hversu staðbundin loftmengun sé við verstu skilyrði þegar ryk fari yfir viðmiðunarmörk. Skipulagsstofnun telur að með ofangreindum samanburði og umfjöllun hafi verið fjallað um styrk svifryks með fullnægjandi hætti í hinum kærða úrskurði.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að samkvæmt upplýsingum framkvæmdaraðila og úrskurði Skipulagsstofnunar megi búast við því að árið 2024, miðað við óbreytta nagladekkjanotkun og svipaða tegund slitlags og við Grensásveg, fari styrkur svifryks (PM10) oftar yfir heilsuverndarmörk en reglugerð nr. 251/2002 kveði á um. Sömuleiðis megi búast við að hæsti styrkur svifryks (sólarhringsgildi) geti farið upp í 100 ìg/m3 við verstu hugsanlegu skilyrði. Með hliðsjón af því sé ljóst að grípa verði til sértækra aðgerða til að draga úr svifryksmengun. Umhverfisstofnun telur slæmt að ekki sé í úrskurði Skipulagsstofnunar tilgreint til hvaða aðgerða unnt sé að grípa til að draga úr svifryksmengun umhverfis Sundabraut.

Kærendur Bjarki Júlíusson og Jón V. Gíslason benda í athugasemdum sínum á að árið 2010 taki gildi ný viðmið um mengun með verulegri fækkun á leyfilegum fjölda daga sem magn mengunarefna megi fara yfir tiltekin mörk, sbr. reglugerð nr. 251/2002. Með hliðsjón af reiknaðri umferð um svæðið, Sundabraut, Hallsvegur og Strandvegur, fjölgun ökutækja og aukinnar sölu á bifreiðaolíum og bensíni, geti það ekki verið annað en áhyggjuefni allra þeirra sem málið varðar. Telja kærendur að það sæti furðu að við hönnun mannvirkja sem eiga að standa um ókomin ár skuli ekki vera tekið mið af ákvæðum framangreindrar reglugerðar. Ljóst sé að áhrifanna muni gæta mest hjá þeim íbúum sem næst framkvæmdinni búi. Undrast kærendur sérstaklega að Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur skuli ekki gera athugasemdir við þetta í umsögn sinni og hlutist til um frekari varnir á svæðum innan umdæmis stofunnar. Ennfremur telja kærendur að Skipulagsstofnun hafi vanrækt í úrskurði sínum að benda á að mengun muni fara verulega oftar fram úr viðmiðunarmörkum þegar nýjar reglur hafa tekið gildi. Kærendur mótmæla þeirri fullyrðingu framkvæmdaraðila að framkvæmdin muni minnka heildarfjölda ekinna kílómetra í umferðarkerfi borgarinnar og svifryk muni þar af leiðandi minnka í borginni vegna framkvæmdarinnar. Þeir benda á að umferð um Sundabraut og Hallsveg sé til komin vegna aukningar á heildarumferð borgarinnar og leið III muni ekki hafa í för með sér styttingu vegalengda né fækkunar umferðartíma á hvern ekinn kílómetra. Þeir sem búi á svæðum næst framkvæmdinni geti ekki sætt sig við framangreind rök.

 

3. Aflagður sorpurðunarstaður í Gufunesi.

Íbúar Grafarvogs benda í kæru sinni á að fram komi í skýrslum Umhverfisstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd muni liggja yfir aflagðan sorpurðunarstað í Gufunesi þar sem stjórnlaus urðun hafi átt sér stað um áratugi. Vitað sé að þarna hafi verið urðuð mjög hættuleg efni svo sem PCB, þungmálmar, rafgeymar, spennar, smitað kjöt, spilliefni og fleira. Jafnframt sé vitað að undirlagið sé óstöðugt vegna rotnandi úrgangs með gasmyndun. Hafi Umhverfisstofnun bent á að framkvæmdir á þessu svæði geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að það sé stefna þeirra að hanna mannvirkið þannig að ekki þurfi að koma til sneiðings ofan í urðunarstaðinn. Nákvæm þykkt fyllingarefnis ofan á haugnum sé ekki þekkt stærð en reynt hafi verið að meta hana. Ef mannvirkin verði hönnuð þannig að líklegt þyki að sneitt verði ofan í hauginn muni verða sett upp áætlun um förgun spilliefna í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerðum og í samvinnu við Umhverfisstofnun. Sömuleiðis muni áætlun um vöktun gasútstreymis og sigvatns sett upp á hönnunarstigi framkvæmdarinnar. Þessar áætlanir sé ekki tímabært að setja upp á þessu stigi þegar hönnun hafi ekki enn átt sér stað. Verði leið III eða hábrú á leið I valin til framkvæmda sé mjög ólíklegt að það komi til þess að það þurfi að sneiða í hauginn. Neikvæð áhrif af sneiðingu í haugana án varnarráðstafana snerti einkum vegfarendur eftir að framkvæmd lýkur. Beitt yrði varúðarráðstöfunum við framkvæmd til varnar verktökum og einnig yrði gengið þannig frá vegi og lögnum að ekki komi til uppsöfnunar á gasi.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að í hinum kærða úrskurði komi m.a. fram að á gömlu sorphaugunum hafi farið fram urðun á margvíslegum úrgangi, þ.á m. spilliefnum, án fullnægjandi eftirlits. Það liggi fyrir að mislæg gatnamót Sundabrautar og Hallsvegar, samkvæmt öllum framlögðum kostum og útfærslum, séu fyrirhuguð á gömlu sorphaugunum í Gufunesi og ekki sé ljóst hve þykk sú jarðvegsfylling er sem hylur úrganginn. Ennfremur segir í úrskurðinum: „Skipulagsstofnun telur því að full ástæða sé til að setja fram áætlun um förgun úrgangs og vöktun á gasútstreymi og sigvatni á svæðinu, hvort sem sneitt verður ofan í sorphaugana eða ekki, vegna framkvæmdanna og þannig verði tryggt að 1. áfangi Sundabrautar hafi ekki heilsuspillandi áhrif á verktaka á framkvæmdatíma og aðra vegfarendur sem eiga leið um svæðið meðan á framkvæmdum stendur og eftir að þeim lýkur." Skipulagsstofnun taldi að setja þyrfti skilyrði fyrir framkvæmdinni vegna þessa þáttar sbr. 7. skilyrði í hinum kærða úrskurði.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að í úrskurði Skipulagsstofnunar hafi verið tekið tillit til athugasemda Umhverfisstofnunar varðandi sorpurðunarstaðinn í Gufunesi.

 

4. Náttúruminjar.

Í kæru íbúa Grafarvogs er bent á að allir fyrirhugaðir valkostir framkvæmdarinnar muni raska þeim svæðum sem séu á náttúruminjaskrá auk svæða sem falli undir hverfisvernd. Þar megi nefna Gufuneshöfðann og hamrasvæðið norðanvert í Hamrahverfi.

Í umsögn framkvæmdaraðila er bent á að í matsskýrslu komi fram að Elliðaárdalur, Gufuneshöfði og Háubakkar við Elliðavog séu á náttúruminjaskrá. Elliðaárnar og Háubakkar skerðist ekki sama hvaða leið verði valin. Verði leið I á hábrú valin skerðist Gufuneshöfðinn að norðvestan. Verði leið III í gegnum höfðann valin skerðist höfðinn þar sem vegurinn skerst inn í höfðann. Þetta hverfi ef farið er með veglínuna út fyrir höfðann. Framkvæmdaraðilar benda á að framkvæmdir hafi farið fram í fjörunni undir höfðanum og sé hún ekki óskert í dag.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á umfjöllun í hinum kærða úrskurði þar sem fram kemur að Gufuneshöfði, sem er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar skv. aðalskipulagi Reykjavíkur, muni skerðast við jarðgangamunna á leið III og að norðanverðu á leið I. Að því tilskildu að Reykjavíkurborg og Vegagerðin fylgi þeirri framkvæmdatilhögun sem kynnt er í matsskýrslu telur Skipulagsstofnun að áhrif 1. áfanga Sundabrautar skv. leið I og III á jarðmyndanir verði ekki veruleg. Skipulagsstofnun telur að fjallað hafi verið um áhrif á svæði á náttúruminjaskrá og svæði sem falla undir hverfisvernd með fullnægjandi hætti í hinum kærða úrskurði.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnunin telji ekki líklegt að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif á náttúruminjar eða fuglalíf. Leið III muni hafa mest áhrif á náttúruminjar þar sem hún liggi um svæði sem sé á náttúruminjaskrá, þ.e. svæði nr. 127, Gufuneshöfða. Stofnunin minnir þó á að skylt sé að leita umsagnar stofnunarinnar skv. 38. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd ef farin verður leið III.

 

5. Sjónræn áhrif.

Íbúar Grafarvogs telja að sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verði veruleg fyrir íbúa svæðisins. Ekki séu færð nein rök fyrir því í matinu af hverju Sundabraut sé ekki færð niður fyrir sjávarbakka en það myndi að þeirra mati veita sjónrænt og hljóðrænt skjól fyrir nærliggjandi íbúðahverfi.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að í svörum hans til Skipulagsstofnunar dagsett 5. september 2004 sé fjallað mjög nákvæmlega um þetta atriði og m.a. birtar tölvugerðar myndir af sjónrænum áhrifum framkvæmdarinnar.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að stofnunin hafi talið í úrskurði sínum að allir framlagðir kostir 1. áfanga Sundabrautar ættu það sameiginlegt að valda verulegum staðbundnum sjónrænum áhrifum næst fyrirhuguðum mislægum gatnamótum, þ. á m. gatnamótum Sundabrautar og Hallsvegar, sem væru sambærileg fyrir alla framlagða kosti og líkleg til að vera talin neikvæð, sérstaklega þar sem gatnamótin standi nærri íbúðarbyggð og upplifun af mannvirkjum geti tengst umferðarhávaða og loftmengun. Fram komi í hinum kærða úrskurði að hljóðvarnir sem ráðast þyrfti í vegna hávaða frá umferð myndu bæði skerma umferðarmannvirkin sjónrænt af frá byggð, en jafnframt myndu þær hugsanlega skerða útsýni frá byggð og sjónræn áhrif þeirra á íbúa nærliggjandi svæða því hugsanlega verða bæði jákvæð og neikvæð. Skipulagsstofnun hafi talið engan grundvallarmun á hinum ólíku kostum á 1. áfanga Sundabrautar hvað varðar sjónræn áhrif af mislægum gatnamótum Sundabrautar og Hallsvegar og öðrum tengdum mannvirkjum.

Kærandi Jóhann Páll Símonarson bendir í athugasemdum sínum á að þau gögn sem fylgt hafi svari framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar varðandi sjónræn áhrif hafi aldrei verið kynnt fyrir íbúum svæðisins. Að mati kæranda er þetta einkennandi fyrir vinnubrögð framkvæmdaraðila, þ.e. slæleg kynning á fyrirætlunum og gögnum málsins.

 

6. Lífríki.

Íbúar Grafarvogs benda á að nálægð við náttúru og fuglalíf sé hluti af lífsgæðum íbúanna. Benda kærendur á að Umhverfisstofnun hafi talið neikvæð áhrif þessara framkvæmda á lífríki og náttúru veruleg með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Íbúar Grafarvogs benda á að fram komi hjá Umhverfisstofnun að hönnun á uppfyllingu, sérstaklega við leið III sem hafi áhrif á strauma og seltu megi ekki „rétt sleppa". Sé þá átt við að breytingar á lífríki vegna slíkra framkvæmda gætu haft óbætanleg áhrif á náttúrufar. Ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmdirnar hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki í Kleppsvík.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að í svörum hans til Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar við meðferð málsins hafi verið fjallað mjög nákvæmlega um framangreind atriði. Gerð hafi verið straumlíkön og þau aðlöguð að athugasemdum Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðilar hafi lagt fram mjög nákvæma útreikninga á straumum og seltu. Algjör misskilningur sé að þetta „rétt sleppi". Framkvæmdaraðilar telja sig hafa með framangreindum svörum sýnt fram á að engin áhrif verði af þessum framkvæmdum á leirur eða aðra staði þar sem fuglalíf er mikið í dag.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að Kleppsvík sé talin hafa mikla þýðingu fyrir vistkerfi Elliða- og Grafarvogar, þ.m.t. fyrir laxfiska Elliðaár og fugla. Svæðið sé undir álagi vegna mengunar m.a. frá umferð og mengandi starfsemi á svæðinu. Til að koma í veg fyrir veruleg neikvæð áhrif 1. áfanga Sundabrautar á laxfiska og fugla þurfi að tryggja full vatnsskipti við Elliðavog og Grafarvog, óbreytt seltustig, draga úr raski á botnseti í Kleppsvík þannig að mengunarefni í seti berist ekki um víkina og koma í veg fyrir að óhreinsuðu ofanvatni verði veitt í Kleppsvík í næsta nágrenni Elliðaárósa. Skipulagsstofnun taldi í úrskurðinum að hábrú skv. leið I myndi hafa lítil áhrif á vatnsskipti, seltu og gruggmyndun og hefði því ekki veruleg neikvæð áhrif á lífríki Kleppsvíkur en að botngöng skv. leið II væru ótvírætt sísti kosturinn m.t.t. áhrifa á lífríkið þar sem grafið verði í botnset Kleppsvíkur en við það geti mengandi efni þyrlast upp í miklum mæli með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífríkið. Ennfremur hafi komið fram að leið III á lágreistri brú yfir Kleppsvík væri ótvírætt betri kostur en leið III með tveimur brúm og eyju m.t.t. áhrifa á lífríki vegna minni áhrifa á vatnsskipti, seltu og gruggmyndun. Skipulagsstofnun telur að með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðilar hafi lagt til og varði m.a. að framkvæmdir sem þyrla upp gruggi í einhverjum mæli fari fram utan göngutíma laxfiska og skilyrða 1, 2, 3, og 4 í hinum kærða úrskurði, að 1. áfangi Sundabrautar í Reykjavík skv. öllum framlögðum kostum og útfærslum, að frátalinni þeirri útfærslu á leið III að leggja Sundabraut á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfða, muni ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á vistkerfi Elliða- og Grafarvogs.

Hvað varðar áhrif á laxfiska bendir Umhverfisstofnun í umsögn sinni á að ekki sé í matsskýrslu fjallað um þann möguleika að reisa lágreista brú yfir Kleppsvík sem hluta af leið III. Að mati stofnunarinnar væri rétt að skoða þann valmöguleika enda hafi verið sýnt fram á mikilvægi ósasvæðis Elliðaánna og Grafarvogs fyrir lífríki. Með þeim valkosti væri ekki þrengt að ósasvæði Elliðaáa með miklum uppfyllingum og hægt að draga verulega úr áhrifum framkvæmdarinnar á lífríki. Umhverfisstofnun bendir á að Skipulagsstofnun hafi tekið undir þetta í úrskurði sínum.

 

7. Útivistarsvæði.

Fyrirhuguð framkvæmd mun að mati íbúa Grafarvogs hafa alvarleg áhrif á útivistarsvæði Grafarvogsbúa við Gufunes, en þar hafi verið gert ráð fyrir útivistarsvæði (grænu svæði) í aðalskipulagi frá upphafi. Fram komi í gögnum að allt í kringum þetta útivistarsvæði muni í framtíðinni fara yfir 100 þús. bílar á sólarhring með gífurlegum hávaða og mengun. Þarna í miðri íbúðarbyggð verði því eitt stærsta umferðarmannvirki landsins, m.a. þjóðvegur 1 með sex akreina hraðbraut. Benda kærendur á að Umhverfisstofnun hafi gagnrýnt að ekkert sé í matsskýrslu rætt um hljóðstig á útivistarsvæðum eða varnir gegn hávaða á þeim.

Í umsögn framkvæmdaraðila segir að eins og fram komi í svari hans til Umhverfisstofnunar frá 9. september 2004 megi lækka hljóðstig á útivistarsvæðinu með því að setja varnir eins og mön 3-4 m á hæð meðfram Hallsvegi og rampa af Hallsvegi á Sundabraut. Með því mætti lækka hljóðstig niður fyrir 55 dB(A) á stærstum hluta svæðisins milli Gufunesbæjarins og Sundabrautar og Hallsvegar. Athuga beri þó að umferð á Strandvegi komi til með að hafa afgerandi áhrif á hljóðstig á svæðinu næst honum. Framkvæmdaraðilar telji sig því hafa sýnt fram á hvernig hægt sé að skerma Sundabrautina frá útivistarsvæðinu.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að sex akreina vegur með 100 þús. bifreiða umferð á sólarhring hafi ekki verið til umræðu í hinum kærða úrskurði. Þar komi fram að árið 2024 sé reiknað með að mesta umferð um Sundabraut verði 53.000 bílar á sólarhring ef hábrú verði fyrir valinu. Sú umferð skiptist síðan niður á Hallsveg til austurs og norðurs auk þeirrar umferðar sem haldi áfram Sundabraut til norðausturs. Ályktun um 100.000 bíla umferð á sólarhring, byggt á þeim gögnum sem lágu til grundvallar hinum kærða úrskurði, virðist því að mati Skipulagsstofnunar byggja á misskilningi. Að sama skapi sé ekki gert ráð fyrir 6 akreina vegi í matsskýrslu, öðrum framlögðum gögnum sem bárust stofnuninni á athugunartíma eða í hinum kærða úrskurði stofnunarinnar. Varðandi hljóðvist á útivistarsvæði Grafarvogsbúa við Gufunes þá kemur fram í umsögninni að Skipulagsstofnun telji að með gerð hljóðmana meðfram aðliggjandi götum við útivistarsvæðið í Gufunesi megi tryggja hljóðstig neðan við 55 dB(A) fyrir leið I og III og framlagðar útfærslur á þeim.

Í athugasemdum kærenda Bjarka Júlíussonar og Jóns V. Gíslasonar er bent á að ekki hafi verið lagðar fram mælingar á hljóðvist né loftmengun á útivistarsvæðinu. Ekkert liggi því fyrir um áhrif þeirra hljóðmana sem framkvæmdaraðilar bendi á að setja megi meðfram svæðinu, hvorki áhrif á hljóðvist eða uppsöfnun mengunarefna á útivistarsvæðinu sjálfu eða áhrif á nærliggjandi byggð í Hamrahverfi.

 

8. Heildaráhrif framkvæmdarinnar.

Að mati íbúa Grafarvogs ber að kynna lagningu Hallsvegar frá byrjun til enda og framkvæmdir við hann sem eina heild en ekki hlutaframkvæmd. Þeir benda ennfremur á að við sölu lóða á svæðinu um 1984-1991 hafi einungis verið gert ráð fyrir Hallsvegi sem tveggja akreina tengibraut skv. aðalskipulagi. Séu reyndar ýmsir íbúar staðfastir í því að Hallsvegur neðan Hamrahverfis hafi alls ekki verð til á þeim tíma. Í dag sé Hallsvegur kynntur sem fjórar akreinar frá Sundabraut að Strandvegi. Í litlu hafi verði tekið tillit til þeirra möguleika sem Umhverfisstofnun hafi bent á sem lausn eða mögulegar leiðir til að milda áhrif framkvæmdarinnar hjá þeim íbúum svæðisins sem hún hefur mest áhrif á. Framkvæmdin eins og hún sé kynnt nú sé í engu samræmi við þær forsendur sem gengið hafi verði út frá við sölu lóða þar sem mestra áhrifa gætir. Kærendur benda á að í skilyrðum fyrir framkvæmdinni sé þess krafist að vaktaðar mælingar verði viðhafðar. Hins vegar komi hvergi fram hvað gera eigi ef mælingar fara fram úr viðmiðunarmörkum. Ekki sé úr vegi að ætla framkvæmdaraðilum að koma fram með tillögur til úrbóta ef mælingar fari fram úr viðurkenndum viðmiðum.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að framkvæmdir við Hallsveg séu í samræmi við gildandi aðalskipulag. Gert sé ráð fyrir Hallsvegi sem fjögurra akreina götu í framtíðinni enda sýni umferðarspár að full þörf sé fyrir þeim afköstum á þessum kafla Hallsvegar. Þannig séu strax metin umhverfisáhrif Hallsvegar til lengri framtíðar litið og tekið tillit til uppbyggingar á veginum í heild sinni. Ekki sé því um mat á hlutaframkvæmd að ræða gagnvart íbúum í Hamrahverfi.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur einnig fram að Hallsvegur hafi verið sýndur sem tengibraut í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1984 – 2004 en breytt í stofnbraut við endurskoðun skipulagsins 1990 og þar með undirstrikað mikilvægi vegarins í samgöngukerfi borgarinnar. Með skilgreiningu Hallsvegar sem tengibraut sé ekki verið að ákveða fjölda akreina. Tengibrautir á aðalskipulagi séu ýmist tveggja eða fjögurra akreina götur. Suðurlandsbraut sé ágætt dæmi um fjögurra akreina tengibraut. Á deiliskipulagi af Hamrahverfi sem samþykkt var í borgarráði 9. ágúst 1988 sé Hallsvegur ekki sýndur, enda hafi hann ekki verið hluti deiliskipulagsins. Hins vegar hafi, á breyttu deiliskipulagi af Leiðhömrum og Neshömrum, sem samþykkt var í borgarráði 8. nóvember 1988, Hallsvegur verið sýndur til hliðar sem fjögurra akreina vegur, þá nefnd Vetrarbraut. Hallsvegur sem fjögurra akreina vegur eigi því ekki að koma íbúum á óvart. Í umsögninni kemur síðan fram að með hljóðvörnum séu milduð áhrif framkvæmdarinnar á íbúðarhúsnæði. Vegurinn liggi norðan við húsin og umtalsvert neðar og hafi almennt ekki áhrif til skerðingar á útsýni. Veggir við einstakar lóðir muni þó skerða útsýni að vissu marki. Að lokum taka framkvæmdaraðilar fram að fari hávaði fram úr viðmiðunarmörkum geti heilbrigðisnefnd gripið í taumana og gert kröfur um mótvægisaðgerðir.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að þriðji verkhluti framkvæmdarinnar sé tenging Sundabrautar við Hallsveg á Gufunesi með mislægum gatnamótum og Hallsvegur verði lagður að Strandvegi. Skipulagsstofnun telur að nægjanleg grein sé gerð fyrir Hallsvegi frá Strandvegi niður á fyllingasvæði við Gufunes og áhrifum hans á umhverfið. Þess beri að geta að framhald Hallsvegar austan Strandvegar sé nú þegar komið en fyrirhugað sé að færa gatnamót hans við Strandveg lengra til norðurs frá íbúðarbyggðinni.

Síðan segir í umsögn Skipulagsstofnunar: „Í kærunni er gerð athugasemd við að ekki sé getið um lausnir ef mælingar á hljóðstigi sýni að það fari yfir viðmiðunarmörk. Þetta er rétt hjá kæranda en Skipulagsstofnun bendir á að vöktunin tekur til efri hæða húsa meðfram Sæbraut og þar þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig. Í gögnum framkvæmdaraðila kom fram að einvörðungu verði unnt að bregðast við með aðgerðum á húsunum sjálfum. Það er því vart um annað að ræða en skoða hvers konar aðgerðir henta hverju húsi, ef vöktun leiðir í ljós að hljóðstig er yfir viðmiðunarmörkum. Því þótti Skipulagsstofnun ekki raunhæft að mæla fyrir um tilteknar aðgerðir í hinum kærða úrskurði."

Í athugasemdum kærenda Bjarka Júlíussonar, Jóns V. Gíslasonar og Jóhanns Páls Símonarsonar kemur fram að af hálfu Reykjavíkurborgar hafi því verið lýst yfir árið 2004 að unnið væri að breytingu á aðalskipulagi borgarinnar á þann veg að Hallsvegur yrði einungis tvær akreinar. Benda kærendur á að þessi yfirlýsing sé í ósamræmi við þær áætlanir sem fram komi í matsskýrslu. Ennfremur benda kærendur á að komið hafi fram að forsenda framtíðarbyggðar í og við Úlfarsfell sé tenging byggðarinnar við væntanlega Sundabraut, sem að mati kærenda þýðir tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg. Þó að núverandi skipulag geri ekki ráð fyrir þeirri tengingu þá telja kærendur ljóst að áform framkvæmdaraðila séu í þá átt.

 

9. Kynning.

Íbúar Grafarvogs benda á að margvísleg gögn sem lögð hafi verið fram í svörum framkvæmdaraðila, sem og þau gögn sem þegar vanti, ætti að kynna almenningi, hagsmunaaðilum og íbúum svo að þeir geti kynnt sér heildaráhrif framkvæmdanna. Ennfremur telja kærendur að framkvæmdir við 1. áfanga Sundabrautar hafi verið illa kynntar á kynningartíma og hafi auk þess farið fram á hásumarleyfistíma. Íbúar Hamrahverfis hafi mótmælt slælegri kynningu með undirskriftarlistum en Skipulagsstofnun hafi kosið að gera mótmæli íbúanna léttvæg í úrskurði sínum.

Framkvæmdaraðilar telja í umsögn sinni að gerð sé grein fyrir framangreindum gögnum í úrskurði Skipulagsstofnunar enda hafi þau orðið til við vinnslu hans sem svör við fyrirspurnum stofnunarinnar.

Skipulagsstofnun bendir á í umsögn sinni að matsskýrslan hafi verið til kynningar frá 21. maí til 2. júlí 2004 á Aðalsafni, Foldasafni og Sólheimasafni Borgarbókasafns Reykjavíkur, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Einnig hafi matsskýrslan verið aðgengileg á heimasíðu Línuhönnunar, Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Auglýsingar um kynningartíma matsskýrslunnar og hvar hægt væri að nálgast skýrsluna hafi verið birtar í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu 21. maí 2004. Haldnir hafi verið tveir kynningarfundir austan og vestan Kleppsvíkur á vegum framkvæmdaraðila sem báðir hafi verið auglýstir í fjölmiðlum. Í ljósi framangreinds telur Skipulagsstofnun að staðið hafi verið að kynningu matsskýrslu 1. áfanga Sundabrautar á fullnægjandi hátt og í samræmi við 21. gr. reglugerðar nr. 671/2000. Skipulagsstofnun bendir á að þau gögn sem hafi borist frá framkvæmdaraðilum á meðan athugun Skipulagsstofnunar stóð yfir hafi verið viðbrögð framkvæmdaraðila við umsögnum leyfisveitenda og fagstofnana, athugasemdum almennings, félagasamtaka og hagsmunaaðila og fyrirspurnum Skipulagsstofnunar. Þessi gögn hafi ekki falið í sér það umfangsmiklar breytingar á fyrirhuguðum framkvæmdum við 1. áfanga Sundabrautar að Skipulagsstofnun teldi að ástæða væri til að kynna þau sérstaklega.

 

10. Tenging yfir Elliðaárósa að Bryggjuhverfi.

Íbúar Grafarvogs telja að óljóst sé hvernig hringtorg við Gelgjutanga yfir Elliðavoginn og áfram yfir í fyrirhugaða stækkun Bryggjuhverfis muni verða. Þar vanti nánari skýringar sem ekki séu til staðar í gögnum.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að umrædd tenging yfir Elliðaárósa að Bryggjuhverfi kallist Ósabraut og sé hún sjálfstæð tengibraut sem ekki tengist fyrsta áfanga Sundabrautar. Ósabraut sé því ekki hluti af umræddri framkvæmd.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að umrætt hringtorg að Ósabraut sé ekki hluti af fyrirhugaðri framkvæmd. Tenging Ósabrautar við hringtorgið sem sýnd sé á myndum 2.21 og 2.23 á bls. 34 og 35 í matsskýrslu sé eingöngu til þess að sýna hvar brautin muni tengjast við fyrirhugaða framkvæmd en ekki hafi verið teknar ákvarðanir um gerð brautarinnar sjálfrar. Skipulagsstofnun telur því Ósabraut ekki vera hluta 1. áfanga Sundabrautar og því hafi ekki verið fjallað um þann veg í hinum kærða úrskurði.

 

11. Kröfur um aðra legu Sundabrautar.

a. Kæra íbúa Grafarvogs.

Íbúar Grafarvogs krefjast þess að Sundabraut austan Kleppsvíkur verði færð eins langt frá íbúðarbyggð og hægt er. Vegurinn verði færður niður fyrir sjávarbakka, á landfyllingu, og muni þetta að þeirra mati draga verulega úr sjón- og hávaðamengun. Einnig verði tvær umferðarslaufur á haugasvæðinu sameinaðar í eina á lóð Áburðarverksmiðjunnar eins langt frá íbúðabyggð og unnt er. Hallsvegur tengist þá Strandvegi frá þessari umferðarslaufu, beina línu á Gylfaflöt norðan gömlu hauganna.

Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að fyrstu hugmyndir þeirra og ráðgjafa þeirra varðandi þverun Kleppsvíkur á leið III hafi gert ráð fyrir því að Sundabraut færi út fyrir Gufuneshöfðann. Síðan hafi verið valin sú leið að fara beinni leið yfir víkina og í gegnum Gufuneshöfðann í jarðgöngum. Eftir að framkvæmdaraðilar hafi skilað inn matsskýrslu fyrir þá leið hafi Skipulagsstofnun óskað eftir því að framkvæmdaraðilar legðu fram upplýsingar um áhrif þess kosts að færa legu Sundabrautar niður fyrir bakkann á mörkum fyrirhugaðra landfyllinga í Gufunesi og Gufuneshöfðann. Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að sú lausn að fara með leið III út fyrir Gufuneshöfðann hafi þann kost að hljóðvandamál í Hamrahverfinu minnka. Ekki verði þó hægt að losna algjörlega við hljóðvarnir. Hægt yrði að velja á milli hljóðmanar uppi á Gufunesinu eða 1,5 metra hás skerms á brúna. Sú ákvörðun að fara með brautina í jarðgöngum í gegnum höfðann hafi byggst á nokkrum rökum. Framkvæmdaraðila hafi þótt brautin fara þannig betur í landi, veglínan væri beinni og vegalengd eftir Hallsvegi styttri. Sýn á Gufuneshöfðann yrði óbreytt. Á móti kæmi að vegalengdir umferðar norður Hallsveg yrðu eitthvað lengri. Kostir við að fara út fyrir Gufuneshöfðann væru eitthvað lægri framkvæmdarkostnaður þar sem ódýr vegur á fyllingu kæmi í stað tiltölulega dýrra jarðganga. Þessi sparnaður væri metinn u.þ.b. 400 milljónir króna. Þá væri reiknað með að eyjan og aðrar fyllingar héldu sér og að vegurinn gæti legið á uppfyllingu út frá Gufuneshöfðanum að norðan þannig að vatnsopin yrðu þau sömu og fyrir eyjalausn. Ef fyllingum út frá Gufuneshöfðanum að norðan væri sleppt, lengdist nyrðri brúin hins vegar verulega og þessi tegund eyjalausnar yrði þá ca. 500 milljón króna dýrari en upprunalega eyjalausnin. Lausnin færi einnig betur með Gufuneshöfðann þar sem göngunum fylgi töluverðar skeringar í höfðanum að sunnan. Göngu og reiðhjólatengsl yrðu einnig mun auðveldari. Á hinn bóginn tæki hún töluvert land frá fyrirhugaðri byggð á fyllingum við Gufuneshöfðann og skapaði hljóðvandamál þar. Yrði að setja upp manir eða hljóðskerma og skipuleggja nýju byggðina þannig að slíkt væri mögulegt. Ekki væri talið að breyting yrði á áætluðu umferðarmagni né umferðaröryggi þó þessi breyting yrði gerð á leið III.

Framkvæmdaraðilar benda síðan í umsögn sinni á að Skipulagsstofnun hafi hafnað því að fara með leið III á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfðann þar sem óvissa ríkti um hver áhrif hennar kynnu að verða á lífríki svæðisins vegna þess að ekki lægju fyrir upplýsingar um stærð og staðsetningu landfyllinga neðan höfðans og áhrif á strauma og lífríki. Fram kemur í umsögninni að framkvæmdaraðilar hefðu miðað við að brúarop væru miðuð við sömu forsendur og fyrir eyjalausnina og meginniðurstöður fyrri straumfræðilíkana sem segðu fyrir um áhrif framkvæmdanna á lífríki innan þverunar yrðu því þær sömu og áður. Engar ábendingar hafi komið frá Skipulagsstofnun um að þær upplýsingar dygðu ekki til fyrr en úrskurður hafi legið fyrir. Samkvæmt úrskurði Skipulagsstofnunar sé því þessi lausn ekki meðal samþykktra lausna. Ljóst sé að mati framkvæmdaraðila að umfang landfyllinga í sjó aukist með fyllingum út fyrir Gufuneshöfðann og Kleppsvíkin þrengist eitthvað enda þótt vatnsop haldist þau sömu. Við nánara mat á þessari leið yrði að endurskoða straumlíkan fyrir svæðið og meta gruggmyndun sem af viðbótarfyllingum stafaði. Einnig þyrfti að skoða ásýnd fyllinganna og áhrif á siglingar. Að mati framkvæmdaraðila sé þetta ekki vænlegri kostur en þeir sem fram eru komnir og framkomnar athugasemdir krefjist þess ekki að umhverfisáhrif þessarar tilhögunar verði sérstaklega metin.

Hvað snertir kröfur um að færa gatnamót Sundabrautar og Hallsvegar nokkuð langt til norðurs í framlengingu af Gylfaflöt þá mun það að mati framkvæmdaraðila rýra gildi þessarar tengingar og draga úr arðsemi og flytja mislæg gatnamót inn á Gufuneshaugana.

Skipulagsstofnun bendir á að í hinum kærða úrskurði hafi komið fram að ekki yrði verulegur munur á áhrifum Sundabrautar á hljóðstig í Hamrahverfi eftir því hvort útfærslan á leið III, þ.e. um jarðgöng í gegnum Gufuneshöfða eða vestur fyrir höfðann, yrði fyrir valinu þar sem augljós skerming fælist í því að hafa veginn í göngum. Helsti ávinningurinn af færslu Sundabrautar vestur fyrir Gufuneshöfða fyrir hljóðvist í Hamrahverfi fælist í því að brautin liggur heldur fjær íbúðarbyggðinni þar sem hún nálgast höfðann. Á móti vegur að sú útfærsla hefur í för með sér að hljóðstig á fyrirhuguðum landfyllingum við Gufunes verður hærra. Eins og fram hafi komið í hinum kærða úrskurði hafi Skipulagsstofnun talið að óvissa ríkti um hver áhrif leiðar III á landfyllingum vestur fyrir Gufuneshöfða kynnu að verða á lífríki svæðisins þar sem ekki hafi legið fyrir upplýsingar um stærð og staðsetningu landfyllinga neðan höfðans og áhrif á strauma og lífríki og var því hafi ekki verið fallist á lagningu 1. áfanga Sundabrautar skv. þessum kosti.

Varðandi kröfu kærenda um að tvær umferðarslaufur verði sameinaðar á lóð Áburðarverksmiðjunnar, bendir Skipulagsstofnun í umsögn sinni á að í því felist umræða um nýjan kost við 1. áfanga Sundabrautar umfram þá kosti sem kynntir hafi verið í framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og lagðir voru fram til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun telur að tillaga kærenda haggi ekki niðurstöðu úrskurðar stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem þar voru til umfjöllunar og fallist var á.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnunin hafi áður bent á að fyrir framan Gufuneshöfðann og norður fyrir áburðarverksmiðjuna í Gufunesi væri áætluð landfylling. Samkvæmt henni yrði ströndin þar, fyrir neðan bakkana sem þar eru, eyðilögð. Hafi stofnunin bent á að í matsskýrslu kæmu engin rök fram fyrir því hvers vegna lega Sundabrautar væri ekki færð niður fyrir bakkana og þannig myndað hljóðrænt skjól fyrir íbúa Rima- og Hamrahverfis. Í þeirri tillögu Umhverfisstofnunar hafi ekki verið gert ráð fyrir að landfyllingar yrðu gerðar vestan við Gufuneshöfða heldur eingöngu nýttar landfyllingar sem fyrirhugaðar væru. Bendir Umhverfisstofnun á að fyrir liggi úrskurður Skipulagsstofnunar um landfyllingar við Gufunes frá 7. janúar 2002 þar sem fallist er á framkvæmdir með skilyrði. Í svörum framkvæmdaraðila við framangreindum athugasemdum Umhverfisstofnunar hafi m.a. komið fram að skoðað hafi verið í byrjun að fara með leið III út fyrir Gufuneshöfðann og að kostir við að fara út fyrir höfðann væru eitthvað lægri framkvæmdarkostnaður þar sem ódýr vegur á fyllingu kæmi í stað tiltölulega dýrra jarðganga. Ef hins vegar fyllingum út frá Gufuneshöfðanum að norðan yrði sleppt, sbr. tillaga Umhverfisstofnunar, lengdist nyrðri brúin verulega og þessi tegund Eyjalausnar yrði u.þ.b. 500 milljón krónum dýrari en upprunalega eyjalausnin. Að mati Umhverfisstofnunar ætti að bera kostnað þessarar leiðar saman við valkosti framkvæmdaraðila en ekki þær leiðir sem upprunalega voru skoðaðar. Í svörum framkvæmdaraðila komi einnig fram að leið III sem fari út fyrir Gufuneshöfða fari betur með höfðann en valin leið þar sem göngunum fylgi töluverðar skeringar í höfðanum að sunnan og einnig verði göngu- og reiðhjólatengsl auðveldari. Hins vegar taki sú leið töluvert land frá fyrirhugaðri byggð á fyllingum við Gufuneshöfðann og skapi hljóðvandamál þar. Bendir Umhverfisstofnun á að við skipulag nýrra hverfa og þegar um sé að ræða nýja vegi sé hægt að tryggja viðunandi hljóðstig utan við hús skv. ákvæðum reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða og ekki nauðsynlegt að grípa til sértækra lausna.

Kærendur Bjarki Júlíusson og Jón V. Gíslason benda í athugasemdum sínum á að ekki sé hægt að skilja umsögn framkvæmdaraðila öðruvísi en svo að þeir mæli með því að farið sé með Sundabraut vestur fyrir Gufuneshöfða. Allt bendi til þess að sá kostur sé vænlegri en sá sem Skipulagsstofnun hafi fallist á. Telja kærendur að framkvæmdaraðilar taki óeðlilega mikið mið af því að ekki megi skerða landsvæði fyrir fyrirhugaða byggð á landfyllingu í Gufunesi á kostnað þeirra íbúa sem þegar eru á svæðinu. Kærendur mótmæla sérstaklega þeim fullyrðingum framkvæmdaraðila að tillaga kærenda um færslu Hallsvegar til norðurs og fækkun gatnamóta dragi úr arðsemi framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðilar hafi ekki sýnt fram á útreikninga að baki þeirri fullyrðingu sinni. Ennfremur mótmæla kærendur þeirri afstöðu Skipulagsstofnunar að í tillögum þeirra séu lagðir fram nýir kostir sem ekki sé unnt að taka afstöðu til. Vísa kærendur m.a. til þess að um sé að ræða framkvæmd samkvæmt 15 ára gömlu skipulagi sem íbúar hafi ekki átt kost á að hafa áhrif á. Tillaga þeirra hljóti, með vísan til andmælareglu stjórnsýsluréttar, að vera metin jafnrétthá og aðrar tillögur í málinu.

b. Kæra Árna B. Helgasonar.

Árni B. Helgason bendir í kæru sinni á að í þeim tillögum sem fjallað er um í úrskurði Skipulagsstofnunar sé í öllum tilfellum gert ráð fyrir mikilli samþjöppun umferðar ásamt mjög umfangsmiklum, mislægum gatnamótum, sem jafnvel teygi sig inn í íbúðabyggð. Þetta eigi ekki síst við um hverfin sem liggi næst Sæbraut, þ.e. frá Holtagörðum suður að Knarrarvogi og Voga/Sund ofan og neðan Sæbrautar, allt niður að Gelgjutanga. Telur kærandi að með framkomnum tillögum og úrskurði Skipulagsstofnunar sé alls ekki tekið tillit þess til hve tenging Sundabrautar ylli mikilli röskun í hverfunum í kringum Sæbraut, nánast burtséð frá því hver leiðanna yrði fyrir valinu, leið I, II eða III. Gerir kærandi tillögu um að í stað einnar umfangsmikillar Sundabrautar komi tvær tveggja akreina leiðir yfir Kleppsvík þ.e. önnur þar sem gert var ráð fyrir leið III og hin þar sem gert var ráð fyrir leið I skv. matsskýrslu. Einnig eru lagðar til breytingar á tengingum beggja vegna Kleppsvíkur. Nánar tiltekið er tillögu kæranda lýst svo í kæru: „Má þá hugsa sér að með fyrsta áfanga yrði lögð einföld tvístefna yfir Elliðaárvog - um ein tveggja akreina göng gegnum Gufuneshöfða og þaðan á samsvarandi brúm og fyllingu yfir að Gelgjutanga, en að auk einfaldrar tengingar við Kleppsmýrarveg upp af tanganum myndi meginleiðin síðan liggja suður með vesturálum Elliðaáa, rétt austan Súðarvogs og Knarrarvogs, að hún svo tengdist sem fjórbreið braut gatnamótum Vesturlandsvegar-Miklubrautar og Reykjanesbrautar-Sæbrautar og þá með hringtorgi af stærri sortinni."

Með þessu móti er að mati kæranda sneitt hjá allri byggð og byggingum en á hinn bóginn mynduð greið tengsl til allra átta. Allt hverfið frá Holtagörðum suður að Knarrarvogi stæði þá eftir sem ein órofa heild og umferðaraukning um Sæbraut á þeim kafla myndi vera óveruleg, sérstaklega að hábrúnni gerðri. Að mati kæranda myndi þannig áhrifa Sundabrautar gæta mun minna en ella í byggðinni beggja vegna Sæbrautar, sbr. skilyrði nr. 5, 6, 10 og 11 í hinum kærða úrskurði, og nánast ekki neitt ef gerð yrði hábrú í 2. áfanga ef og þegar umferðarþungi krefðist. Að mati kæranda myndi einföld hábrú kosta um 60% af fjórbreiðri brú. Kærandi bendir einnig á að til lengri tíma litið þá gæti 3. áfangi falið í sér gerð ganga af Gufunessvæðinu að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar, jafnvel einungis hönnuð sem sérleið fyrir meðalstóra bíla og minni. Jafnframt gerir kærandi tillögu að gerð lágganga undir Langholt er lægju frá Sæbraut/Holtavegi að Suðurlandsbraut, sem myndu að hans mati létta verulega umferð af hverfunum vestan Sæbrautar.

Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að í öllu hönnunarferli Sundabrautar hafi framkvæmdaraðilar haft í huga að leiða sem minnsta umferð af Sundabraut inn í íbúðarhverfin í kring. Þannig hafi verið reynt að tengja Sundabraut við Sæbraut framhjá helstu leiðunum inn í hverfin. Hvað varðar leið I þá telur framkvæmdaraðili að tillögur kæranda hafi síst minni áhrif en tillögur framkvæmdaraðila þar sem í þeirri síðarnefndu sé reiknað með að lækka Sundabrautina niður og fara með hana undir Holtaveg til að minnka áhrif Sundabrautar á umhverfið, bæði hvað varðar hávaða og sjónræn áhrif. Varðandi leið III segir í umsögn framkvæmdaraðila: „Leið III eins og hún var kynnt í umhverfismati þrengir að Barðavogi og Snekkjuvogi og krafðist uppkaupa á fjórum húsum við Barðavog og einu við Snekkjuvog. Gert var ráð fyrir kostnaði við þessi uppkaup í kostnaðarmati leiðar III. Hægt er að milda þetta með því að sleppa samtengingu Barðavogar og Snekkjuvogar. Skipulagsstofnun óskaði eftir því að framkvæmaraðilar legðu fram og mætu til kostnaðar aðgerðir á leið III sem miðuðu við það að sleppa við rif þessara húsa. Framkvæmdaraðilar lögðu þá fram tillögu að lengingu stokks um ca. 150 metra. Sæbrautin er þá leidd inn í stokkinn og fléttast þar við Sundabrautina. með því gengur Sundabrautin og gatnamót hennar ekki lengur inn í íbúðarhverfið. Lauslegt kostnaðarmat gaf niðurstöðu upp á ca. 650 milljón króna kostnaðarauka. Þessi kostnaðarauki er langtum hærri en kostnaður við uppkaup eignanna."

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að þeir hafi snemma skoðað að leggja göng frá Sæbraut til suðurs, bæði við Skeiðarvog og Holtaveg í átt að Suðurlandsbraut en hvorug lausnanna hafi sýnt viðunandi arðsemi. Hvað varðar lagningu lágganga, þ.e. ganga einungis fyrir meðalstóra bíla og minni, þá er mat kæranda á kostnaði við lagningu slíkra ganga ekki rétt að mati framkvæmdaraðila. Einnig bendir framkvæmdaraðili á að slysahætta fylgi slíkum göngum. Sú slysahætta væri veruleg á Sæbraut þar sem hlutfall þungra (stórra) ökutækja þar sé töluvert yfir meðallagi.

Skipulagsstofnun segir í umsögn sinni að í kæru Árna sé lögð til ný útfærsla á framlögðum kostum við 1. áfanga Sundabrautar umfram þær sem kynntar voru í framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar og lagðar voru fram til athugunar og úrskurðar Skipulagsstofnunar. Umrædd tillaga hafi ekki komið fram við gerð matsáætlunar eða við umfjöllun um matsskýrslu og hafi því ekki verið fjallað um hana í úrskurði Skipulagsstofnunar. Skipulagsstofnun telur að hún haggi ekki niðurstöðu úrskurðar stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem þar voru til umfjöllunar og fallist var á. Í ljósi þessa telur Skipulagsstofnun að vísa beri kærunni frá.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að ekki liggi fyrir upplýsingar um hugsanleg umhverfisáhrif tillagna kæranda, t.d. varðandi hljóðvist. Stofnunin geti því ekki fjallað um jafn viðamikið frávik frá tilkynntri framkvæmd án ítarlegri gagna. Umhverfisstofnun bendir þó á varðandi hugmynd um Sundabraut um Elliðaárvog að slík braut myndi liggja yfir Háubakka sem séu friðlýst náttúruvætti sbr. auglýsing nr. 347/1983, og séu mikilvæg jarðmyndun í jarðsögu Reykjavíkur. Þar sé að finna þykk setlög sem í séu steingervingar og í surtarbrandslagi sé að finna fræ, aldin og frjókorn ýmissa jurtategunda. Umhverfisstofnun sjái því mikla annmarka á þeirri legu.

Fram kemur í athugasemdum kæranda að honum hafi ekki verið kunnugt um að Háubakkar væru friðlýstir en telur að unnt væri að hliðra innri leiðinni þannig að hún lægi ekki yfir hið friðlýsta svæði.

 

12. Kæra Eimskipafélags Íslands.

Fram kemur í kæru Eimskipafélags Íslands að félagið hafi hinn 24. júní 2004 lagt fram athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar. Í aðalatriðum hafi athugasemdirnar falist í því að ekki væri nægjanlega fjallað um aðgengi og aðkomu að hafnarsvæðum í Sundahöfn sem sé skv. aðalskipulagi Reykjavíkur helsta höfn landsins og flutninga- og dreifingarmiðstöð alls landsins. Hliðstæðar athugasemdir við matsskýrsluna hafi komið fram frá Reykjavíkurhöfn. Engin af þeim skilyrðum sem sett hafi verið í hinum kærða úrskurði lúti að lausnum á umferðartengingum eða umferðarflæði á hafnarsvæðinu. Í greinargerð með úrskurðinum sé á nokkrum stöðum stuttlega fjallað um áhrif á bílaumferð að og frá hafnarsvæði Sundahafnar. Þar komi fram að ekki sé ólíklegt að lagfæra þurfi gatnamót innan hafnarsvæðisins en þær framkvæmdir séu ekki hluti af framkvæmd við 1. áfanga Sundabrautar. Kærandi telur ekki unnt að fallast á þessa afgreiðslu þar sem hluti gatnamóta innan hafnarsvæðisins séu beinlínis inni á skilgreindu framkvæmdasvæði eins og skýrt komi fram í matsskýrslu. Að mati kæranda er þjónustustig á gatnamótum við Holtaveg og einnig Kleppsmýrarveg tæpast viðunandi eins og það er kynnt, bæði gatnamótanna í heild og ekki síst fyrir vinstri beygjur að og frá hafnarsvæðinu. Jafnframt komi fram að tengingar við hafnarsvæðin verði ekki takmarkandi fyrir umferðarflæðið heldur stofnbrautirnar sjálfar, Sæbraut og Sundabraut. Kærandi bendir á að í úrskurði Skipulagsstofnunar eða svörum framkvæmdaraðila við athugasemdum félagsins komi ekki fram hvort byggt sé á nýjustu upplýsingum um umferðarmagn til og frá Sundahöfn og hlutfalli þungra ökutækja.

Í umsögn framkvæmdaraðila um kæru Eimskipafélags Íslands kemur fram að Sundabrautin sé afmarkað verkefni og með henni leysist ekki öll umferðartæknileg vandamál hafnarsvæðisins. Það muni því koma til ýmsar aðrar framkvæmdir til að bæta umferð innan hafnarsvæðisins sem og tengingar þess við stofnbrautir. Í umsögninni er síðan fjallað um Sundabrautina og sýnt fram á hvaða áhrif hún hafi á hina ýmsu umferðarstrauma.

Í umsögn framkvæmdaraðila kemur fram að ef ekkert verði gert í stofnbrautarmálum muni það innan fárra ára leiða til þess að stofnbrautartengingar hafnarinnar muni ekki anna umferðinni og verða þar af leiðandi hamlandi fyrir uppbyggingu á svæðinu. Með Sundabraut sem leið III muni stofnbrautartengingum fjölga og hafnarumferð verða greiðari, sérstaklega á svæði sunnan Holtavegar. Tengingin sé í suðurjaðri hafnarsvæðisins, og valdi ekki breytingum á tengingum við athafnasvæði Eimskipa. Úrbætur á gatnamótum Sæbrautar við Holtaveg og Sægarða og tengingar við athafnasvæði Eimskipa muni koma til sjálfstæðrar skoðunar með vaxandi umferð frá hafnarsvæði Sundahafnar. Með Sundabraut sem leið I muni stofnbrautartengingum einnig fjölga. Sundabraut komi inn á Sæbrautina um mitt hafnarsvæðið. Á þessari leið yrðu gerðar tvær mislægar tengingar á Sæbraut við hafnarsvæðið, þ.e. ein við Kleppsmýrarveg og önnur við Holtaveg. Sú við Holtaveg valdi því að í tengingu Sægarða við Sæbrautina séu eingöngu leyfðar hægri beygjur vegna nálægðar við gatnamótin. Síðan er í umsögninni nánar fjallað um það hvað þetta þýðir fyrir umferð til og frá Sundahöfn. Fram kemur að með nýjustu upplýsingum og mati á umferðarsköpun frá hafnarsvæðinu megi reikna sem fyrr með að það yrðu ekki tengingarnar við stofnbrautirnar sem yrðu takmarkandi fyrir umferðarflæðið á svæðinu heldur öllu frekar stofnbrautirnar sjálfar.

Framkvæmdaaðilar telja sig hafa sýnt fram á að umferðartengingar hafnarsvæðisins batni verulega með tilkomu Sundabrautar. Tekið er í umsögn þeirra undir það sjónarmið að rétt sé að yfirfara gatnamótalausnir á Sæbraut og greiða fyrir umferð um Sæbraut en það sé ótengt mati á umhverfisáhrifum Sundabrautar. Verði aukin áhersla á uppbyggingu á hafnarsvæðum verði einnig að horfast í augu við það að flutningsgeta núverandi gatnakerfisins kunni að vera takmarkandi til langs tíma litið enda erfitt um vik að breikka götur og breyta gatnamótum í þegar byggðu umhverfi. Skoðun og lausn þess vanda sé hins vegar utan við það verkefni sem nú liggi fyrir. Í mati á umhverfisáhrifum hafi verið settir fram þrír mismunandi valkostir. Þegar matsferli sé lokið liggi fyrir að velja einn kost til framkvæmda og þá hefjist vinna við útfærslu deililausna. Innan framkvæmdasvæðis Sundabrautar vestan Kleppsvíkur að Sæbraut verði nauðsynlegt að gera deiliskipulag samhliða nánari útfærslu gatnamótalausna. Í því ferli verði haft samráð við Eimskip og aðra hagsmunaaðila og skipulagstillaga auglýst opinberlega og þeim gefinn kostur á að hafa áhrif á útfærslu mannvirkja. Eindregið er í umsögn framkvæmdaraðila lagt til að mat á umhverfisáhrifum fái að standa og fjallað verði nánar um umferðartengingar á hafnarsvæðinu við útfærslu gatnamótalausna og með sérstakri skoðun á Sæbraut.

Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni á að í svörum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar frá 8. september 2004 og sem fram koma á bls. 16 í hinum kærða úrskurði, sé bent á að með byggingu einna (skv. leið III) til tveggja (skv. leið I) mislægra gatnamóta við Sæbraut ættu tengingar við hafnarsvæðið að batna til muna. Fram kemur að það séu ekki tengingarnar sem takmarki umferðarflæðið heldur stofnbrautirnar (Sæbraut og Sundabraut) og sýni umferðargreiningar að gatnamótin anni þeirri umferð sem um þau muni fara með viðunandi þjónustustigi en stofnbrautirnar séu komnar að hámarks umferðarrýmd. Samkvæmt leið I verði ljósagatnamót sett á efri hæð mislægra gatnamóta Sæbrautar og Holtavegar og muni aðeins sú umferð sem erindi á til eða frá íbúðarsvæði vestan Sæbrautar eða hafnarsvæði fara um þau, þar sem stærsti hluti umferðar Sæbrautar og Sundabrautar fari undir gatnamótin í stokki. Þar af leiðandi muni græni ljósatíminn fyrir hafnarumferð stóraukast um gatnamótin með jafnvel minni umferð en um þau fari í dag. Samkvæmt leið III, eyjalausn, verði tenging hafnarsvæðis við Sundabraut um hringtorg og við norðurreinar Sæbrautar um ljós en suðurreinar í römpum í stokkum án ljósa.

Skipulagsstofnun bendir á að miðað við lagningu Sundabrautar skv. leið III verða gatnamót Vatnagarða og Sægarða annars vegar og Holtavegar og Sæbrautar hins vegar ekki hluti af fyrirhugaðri framkvæmd og munu gatnamótin haldast óbreytt miðað við núverandi ástand. Samkvæmt leið I verða bæði gatnamótin hluti af framkvæmdinni og er gert ráð fyrir ljósagatnamótum á efri hæð mislægra gatnamóta Sæbrautar og Holtavegar og muni umferð sem erindi á til hafnarsvæðis fara um þau. Í frekari gögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar frá 8. september 2004 sem hafi borist Skipulagsstofnum á athugunartíma hafi verið lagðar fram tillögur að útfærslu á gatnamótum Vatnagarða og Sægarða og flæði umferðar frá hafnarsvæðinu norður og suður Sæbraut og austur Sundabraut. Skipulagsstofnun telur afmörkun framkvæmdasvæðis 1. áfanga Sundabrautar í matsskýrslu eðlilega. Samkvæmt henni eru götur utan þess, þ.e. innan hafnarsvæðis, ekki hluti af fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði Sundabrautar og því ekki viðfangsefni úrskurðarins að fjalla um lagfæringar á þeim. Samkvæmt framlögðum gögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar frá 8. september 2004 hafi legið fyrir að ekki væri ólíklegt að lagfæra þyrfti gatnamót innan hafnarsvæðisins sbr. umfjöllun á bls. 16 og 42 í hinum kærða úrskurði. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdaraðilar hafi í framlögðum gögnum skýrt á fullnægjandi hátt hvernig fyrirhugað er að tengja hafnarsvæðið við stofnbrautirnar. Skipulagsstofnun telur ennfremur, sbr. bls. 42 í hinum kærða úrskurði, miðað við forsendur í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila að umferðartengingar við hafnarsvæði Sundahafnar verði ásættanlegar með tilkomu 1. áfanga Sundabrautar. Af þessum sökum hafi ekki verið sett skilyrði um umferðarflæði eða umferðartenginu í úrskurðarorðum hins kærða úrskurðar varðandi tengingar við hafnarsvæði Sundahafnar.

Varðandi þá fullyrðingu í kæru Eimskipafélagsins að ekki sé ljóst í hinum kærða úrskurði Skipulagsstofnunar eða svörum framkvæmdaraðila við athugsemdum fyrirtækisins hvort byggt hafi verið á nýjustu upplýsingum um umferð til og frá Sundahöfn og hvert hlutfall þungra ökutækja hafi verið, bendir Skipulagstofnun á að í svörum framkvæmdaraðila frá 13. september 2004, sem vitnað er til á bls. 15 í hinum kærða úrskurði, komi fram að gerð hafi verið umferðarspá fyrir árið 2024 sem byggð hafi verið á nýjum upplýsingum sem fengnar hafi verið frá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar um framtíðaruppbyggingu á hafnarsvæði Sundahafnar. Í svörum framkvæmdaraðila við athugasemdum Reykjavíkurhafnar sem vitnað er til á bls. 16 í hinum kærða úrskurði komi fram að athugun hafi verið gerð á afköstum gatnamóta og í þeim útreikningum hafi hlutur þungra ökutækja verið metinn 6% á Sundabraut og Sæbraut og 3% á þvergötum Sæbrautar. Skipulagsstofnun telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við forsendur í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila.

Umhverfisstofnun telur í umsögn sinni að efni kæru Eimskipafélags Íslands falli utan við starfssvið stofnunarinnar þar sem hún varði umferðarrýmd og umferðarflæði að og frá hafnarsvæði. Stofnunin telur hins vegar eðlilegt að lausnir á vegtengingum tryggi nægjanlegt umferðarflæði á gatnamótum til að koma í veg fyrir umferðarteppu og þar með aukna loftmengun.

Í umsögn Faxaflóahafna kemur fram að við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun hafi ekki verið óskað umsagnar Reykjavíkurhafnar eða skipafélaganna Eimskipa og Samskipa. Þessir aðilar hafi því að eigin frumkvæði sent inn athugasemdir í því skyni að benda á þau atriði varðandi 1. áfanga Sundabrautar sem þörfnuðust frekari skoðunar við. Í þeim ábendingum hafi umferðarmál og umferðartengingar verið eitt helsta áhyggjuefnið. Bent hafi verið á að í matsskýrslu hafi ekki verið tekið mið af aukinni starfsemi á Sundahafnarsvæðinu og aukningu umferðar. Bent hafi verið á að öll umferð frá norðurhluta Sundahafnar skv. leið I yrði að fara um Vatnagarða inn á gatnamót við Holtaveg og þaðan inn á tengingu við Sundabraut en núverandi tengingu Sægarða við Sæbraut yrði lokað. Taldi Reykjavíkurhöfn ljóst að í því umferðarlíkani sem lagt væri til grundvallar veghönnun og umferðartengingum hafnarsvæða við Sundabraut væri umferðarmagn og umferðarsköpun svæðisins í framtíðinni vanmetið. Þessi umferðarlausn væri því ekki nægjanleg hvað varðar hafnarsvæðið og notendur þess. Varðandi leið III þá hafi Reykjavíkurhöfn bent á að ekki væri nein grein gerð fyrir því hvað gerist norðan þverunar á Sæbrautinni í framtíðinni. Bent hafi verið sérstaklega á gatnamót Sæbrautar og Holtavegar í því sambandi. Engin grein hafi verið gerð í matsskýrslu fyrir þeim endurbótum sem nauðsynlega þyrfti að gera á Sæbraut í framtíðinni vegna aukinnar umferðar.

Að mati Reykjavíkurhafnar eru þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar umferðarhönnun og umferðarskilgreiningum varðandi tengingar við hafnarsvæðin gamlar og úreltar. Þessu til stuðnings er bent á skýrslu Línuhönnunar frá október 2004 „Umferðarsköpun Sundahafnar í nútíð og framtíð" sem unnin hafi verið fyrir Reykjavíkurhöfn. Um niðurstöður skýrslunnar segir í umsögninni: „Samanlögð umferð Sundahafnar skv. talningu 2004 er í dag 37.000 bílar. Umferðarlíkan Aðalskipulags 2001-2024 spáði tölunni 40.000 bílum á árinu 2024. Endurskoðuð spá Aðalskipulags (leiðrétt haustið 2004) hækkar þessa tölu í 52.000 bíla, en heldur spánni 38.000 bílum árið 2012 óbreyttri. Skýrslan áætlar umferð Sundahafnar á árinu 2024 á bilinu 54.000-70.000 bílar. Þegar að umferð er annars vegar eru meiri líkur á að hærri talan reynist rétt spá. Ef það reynist rétt verður umferð því að jafnaði um 75% meiri en Aðalskipulagsforsendur miðuðu við. Það er síðan breytilegt á milli einstakra vegtenginga hversu frávik umferðarmagns verður stórt."

Í athugasemdum Eimskipafélags Íslands kemur fram að félagið telji að umferðartengingar til og frá athafnasvæði Eimskipafélagsins í Sundahöfn séu ekki leystar á viðunandi hátt í matsskýrslu. Félagið geti hins vegar fallist á að umhverfisráðherra fallist á umrætt mat með eftirfarandi skilyrðum:

„1. Útfærsla umferðartenginga við athafnasvæði Eimskips verði bætt verulega frá því sem miðað er við í matsskýrslunni, sbr. t.d. hugmyndir í greinargerð framkvæmdaraðila mynd 7 óháð því hvort leið I eða leið III verður valin.

2. Miðað verði við nýjustu upplýsingar um umferðarsköpun Sundahafnar sbr. meðfylgjandi greinargerð frá Faxaflóahöfnum (áður Reykjavíkurhöfn) dags. 15.02.2005 ásamt skýrslu Línuhönnunar dagsettri í október 2004 sem dreift var til ýmissa aðila í byrjun nóvember 2004.

3. Að tryggt verði viðunandi þjónustustig á öllum gatnamótum en það var á mörkum þess að vera viðunandi skv. framlögðum útfærslum í matinu og var þó miðað mun minni umferð en nýjustu upplýsingar frá Faxaflóahöfnum (áður Reykjavíkurhöfn) gefa til kynna."

 

IV. Niðurstaða.

1. Hljóðvist.

Kærendur, íbúar Grafarvogs, telja að ekki komi nægjanlega skýrt fram í umhverfismati Sundabrautar hvernig eigi að fullnægja reglugerðarákvæðum um hljóðvist vegna framkvæmdanna. Til að fullnægja reglum um umferðarhávaða þurfi sértækar aðgerðir við fjölda húsa sem geti verið íþyngjandi fyrir íbúa. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa um slíkar aðgerðir sem muni skerða rétt íbúanna til útsýnis og annarra réttmætra nota af eignum sínum. Einnig sé ljóst að allar hljóðmælingar eigi einungis við um fyrstu hæð húsa en ekki komi fram hvernig halda skuli hljóðstigi undir viðmiðunarmörkum á annarri hæð húsa með mótvægisaðgerðum.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999, skal hávaði vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka við reglugerðina. Í 1. lið viðaukans eru almenn ákvæði þar sem segir að við nýskipulag hverfa skuli taka mið af töflu 1, sem sýnir viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi varðandi hljóðstig frá bílaumferð og atvinnustarfsemi. Samkvæmt töflu 1 er viðmiðunargildi fyrir hljóðstig fyrir íbúðarhúsnæði í nýskipulögðu hverfi 55 dB(A) á jarðhæð og utan við opnanlegan glugga. Skipulagsstofnun setur það sem skilyrði í úrskurði sínum að hljóðstig fari ekki yfir 55 dB(A) í Hamrahverfi í Grafarvogi.

Umhverfisstofnun og Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur gerðu athugasemdir í umsögnum sínum til Skipulagsstofnunar um að ekki væri í matsskýrslu gerð grein fyrir hljóðstigi við efri hæðir húsa. Í viðbótargögnum framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar kemur fram að hljóðstig hafi verið reiknað fyrir allar efri hæðir húsanna á svæðinu þar sem hljóðstig var reiknað. Reikningslegt hljóðstig fyrir allar hæðir þeirra húsa sem voru skoðuð er birt í töflu í viðbótargögnum framkvæmdaraðila. Eitt af markmiðlum laga um mat á umhverfisáhrifum er að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. c. liður 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Að mati ráðuneytisins hefði átt að birta framangreindar upplýsingar um hljóðstig á annarri hæð húsa í matsskýrslu og kynna þær fyrir almenningi eins og gert var varðandi hljóðstig á fyrstu hæð húsa. Ráðuneytið telur þó að ekki sé um verulegan ágalla á matsskýrslu að ræða.

Í hinum kærða úrskurði, matsskýrslu og viðbótargögnum framkvæmdaraðila er gerð grein fyrir þeim hljóðvörnum sem fyrirhugaðar eru við Sundabraut þannig að hljóðstig í íbúðarbyggð í Hamrahverfi verði almennt undir 55 dB(A). Gert er þó ráð fyrir að hávaði verði yfir þeim mörkum á fyrstu hæð tveggja húsa við Leiðhamra og á annarri hæð sex húsa við Leiðhamra og Neshamra. Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að hægt sé að ná hljóðstigi á fyrstu hæð allra húsa undir 55 dB(A) með því að bæta við þær varnir sem raktar eru í matsskýrslu. Þannig sé unnt að lengja gangamunnan þar sem Sundabraut fer í gegnum Gufuneshöfðann um rúma 100 metra og setja vegg á brúna þar sem Sundabraut fer yfir Hallsveg. Með þessari lausn náist þó ekki alveg að uppfylla kröfuna fyrir aðra hæð í þremur húsum. Munurinn sé þó mjög lítill nema í Leiðhömrum 46 þar sem hljóðstigið verði 55,9 dB(A) á annarri hæð.

Ráðuneytið tekur undir það með Skipulagsstofnun að framkvæmdaraðilar hafi með framlögðum gögnum sýnt nægilega fram á að mótvægisaðgerðir muni geta tryggt að hljóðvist í íbúðarbyggð í Hamrahverfi verði undir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða. Hugsanlega mun þó verða þörf á sértækum aðgerðum við þrjú hús til að tryggja viðunandi hljóðvist við opnanlega glugga á annarri hæð. Miðað við framlagða tillögu framkvæmdaraðila er ekki gert ráð fyrir að útsýni frá íbúðarbyggðinni skerðist að ráði. Meðal þeirra hljóðvarna sem lagðar eru til er þó 2 m hár veggur nánast á lóðarmörkum framan við Leiðhamra og Neshamra. Að mati ráðuneytisins er nauðsynlegt við nánari útfærslu hljóðvarna að haft verði samráð við þá íbúa sem málið varðar með beinum hætti, enda eru þeir jafnframt þeir sömu og verið er að vernda gegn hávaða með mótvægisaðgerðum.

Fram kemur í umsögnum framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar að ákvarðanir um endanlega gerð, hæð og útfærslu hljóðvarna þurfi að taka við gerð deiliskipulags að höfðu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. Í úrskurðum ráðuneytisins frá 13. maí 2002 vegna mats á umhverfisáhrifum Hallsvegar og frá 14. júlí 2003 vegna mats á umhverfisáhrifum tvöföldunar Reykjanesbrautar, voru sett þau skilyrði að framkvæmdaraðilar hefðu samráð við fulltrúa íbúa um hönnun og útfærslu mótvægisaðgerða og að leitast yrði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst. Að mati ráðuneytisins eiga sömu sjónarmið við í máli þessu. Ráðuneytið telur því rétt að bæta við hinn kærða úrskurð eftirfarandi skilyrði:

Skilyrði: Framkvæmdaraðilar hafi samráð við fulltrúa íbúa Hamrahverfis um hönnun og útfærslu hljóðvarna og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst."

Kærendur gagnrýna ennfremur að hljóðvistarmælingar framkvæmdaraðila taki ekki tillit til ríkjandi vindáttar né landfræðilegra þátta.

Samkvæmt lið 3.2.2 í viðauka reglugerðar um hávaða skal útreiknað hljóðstig fundið með samnorrænu reiknilíkani fyrir umferðarhávaða: „Nordisk beräkningsmodell för vägtrafikbuller". Fram kemur í matsskýrslu að útreikningar framkvæmdaraðila á hljóðstigi byggja á framangreindri aðferð. Athuganir og mælingar sem gerðar hafa verið hafa sýnt að framangreint reiknilíkan fyrir hávaða gefur vísbendingu um raunverulegan hávaða með ásættanlegri nákvæmni enda þótt ekki sé tekið tillit til allra þátta sem áhrif kunna hafa á hljóðstig svo sem breytileika í veðurfari. Að mati ráðuneytisins er um viðurkennda aðferð til hljóðútreikninga frá bílaumferð að ræða og hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til að efast um forsendur framkvæmdaraðila við notkun líkansins né niðurstöður útreikninga á umferðarhávaða og dreifingu hans.

Að mati kærenda mun umferðarhávaði í byggð á fyrirhuguðu fyllingarsvæði við Gufunes vestan Sundabrautar verða yfir hávaðamörkum.

Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, segir í 7. mgr. greinar 3.1.1. að við skipulagsgerð skuli þess ávallt gætt að sérstökum kröfum sem gerðar eru í öðrum lögum og reglugerðum, svo sem kröfum um hljóðvist fyrir mismunandi landnotkun og starfsemi í mengunarvarnareglugerð sé unnt að framfylgja. Að mati ráðuneytisins er það viðkomandi skipulagsyfirvalda að tryggja að við uppbyggingu fyrirhugaðs hverfis við Gufunes verði farið að þeim reglum sem þá munu gilda um hljóðvist.

Ráðuneytið telur að í framangreindum gögnum sé áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á hljóðvist nægjanlega lýst og telur ráðuneytið þau áhrif ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Að mati ráðuneytisins hefur verið sýnt fram á með trúverðugum hætti að unnt sé að halda hljóðstigi innan 55 dB(A) í Hamrahverfi.

 

 

2. Loftgæði.

Íbúar Grafarvogs telja í kæru sinni að ófullnægjandi upplýsingar séu í matsskýrslu um skaðleg loftmengandi efni og svifryk í andrúmsloftinu.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila er við útreikninga á áætlaðri loftmengun vegna umferðar um Sundabraut notað loftmengunarlíkan, byggt á tilteknum forsendum, og sjónum einkum beint að útblæstri bifreiða og hvernig sú mengun dreifist og breytist. Fram kemur í hinum kærða úrskurði að styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) verði vel undir viðmiðunarmörkum reglugerðar nr. 251/2002 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings. Styrkur kolmónoxíðs (CO) og köfnunarefnisoxíða (NOx) geti farið yfir viðmiðunarmörk við munna botnganga á leið I. Setur Skipulagsstofnun það skilyrði í úrskurði sínum að Reykjavíkurborg og Vegagerðin standi fyrir reglubundnum mælingum á styrk köfnunarefnisoxíða og kolmónoxíðs og ráðstöfunum til úrbóta ef hætta er á því að styrkur efnanna geti ná heilsuspillandi mörkum við gangnamunna botnganga skv. leið I. Að mati ráðuneytisins er í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði fjallað með fullnægjandi hætti um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á loftgæði hvað varðar brennisteinsdíoxíð, kolmónoxíð og köfnunarefnisoxíð.

Umhverfisstofnun og Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur töldu við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun að útreikningar byggðir á reiknilíkani einu og sér gæfu ekki nægjanlegar upplýsingar til að unnt væri að meta líkleg áhrif framkvæmdarinnar á loftmengun, sérstaklega hvað varðaði svifryk. Í viðbótargögnum Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar sem send voru Skipulagsstofnun við meðferð málsins er leitast við að áætla líkleg svifryksgildi við Sundabraut út frá mælingum sem gerðar hafa verið á svifryki á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar. Þar kemur fram að samanburður á mælingum á svifryki við gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar og áætlaðri umferð um gatnamót Sundabrautar og Sæbrautar annars vegar og Sundabrautar og Hallsvegar hins vegar fyrir árið 2024 sýni að búast megi við að styrkur svifryks geti í mesta lagi orðið af svipaðri stærðargráðu og nú er við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar en þar hafi styrkurinn farið yfir viðmiðunarmörk nokkrum sinnum á ári. Um sé að ræða gróft mat þar sem gatnamót Grensásvegar og Miklubrautar eru í plani en gatnamót Sundabrautar og Sæbrautar annars vegar og Sundabrautar og Hallsvegar hins vegar verða mislæg. Þar megi því búast við jafnari hraða sem geri það að verkum að slit á vegum verði mun minna.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 251/2002 skal styrkur brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks og blýs sem mældur er í samræmi við tilvísunaraðferðir í XI. viðauka reglugerðarinnar ekki vera yfir umhverfismörkum sem skilgreind eru í I-VI viðaukum reglugerðarinnar. Árið 2005 er samkvæmt reglugerðinni heimilt að fara 35 sinnum á ári yfir heilsuverndarmörk reglugerðarinnar fyrir svifryk (sólarhringsgildi). Á árunum 2006-2010 mun þeim skiptum fækka sem heimilt er að fara yfir þessi mörk og árið 2010 mun mega fara 7 sinnum yfir þau á ári, sbr. viðauki III reglugerðar nr. 251/2002. Fram kemur í reglugerðinni að framangreind ákvæði skulu endurskoðuð fyrir árið 2005. Þeirri endurskoðun er ekki lokið þar sem ekki liggur fyrir endanleg tilskipun af hálfu Evrópusambandsins sem byggt verður á við endurskoðun reglugerðarinnar. Ráðuneytið tekur undir með Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun að búast megi við því að styrkur svifryks vegna 1. áfanga Sundabrautar fari nokkrum sinnum á ári yfir viðmiðunarmörk reglugerðar nr. 251/2002. Ennfremur tekur ráðuneytið undir með Skipulagsstofnun að það sé erfiðleikum bundið að greina áhrif einstakra framkvæmda á borð við Sundabraut frá almennum áhrifum umferðar á höfuðborgarsvæðinu á loftgæði. Hafa framkvæmdaraðilar bent á að Sundabraut muni minnka heildarfjölda ekinna kílómetra í umferðarkerfi borgarinnar og svifryk muni því minnka í borginni vegna hennar. Fyrir liggur að ákvæði reglugerðar nr. 251/2002 varðandi svifryk verða endurskoðuð í nánustu framtíð, sbr. ákvæði viðauka III með reglugerðinni. Ráðstafanir í framtíðinni til að tryggja viðunandi loftgæði munu ráðast af þeim ákvæðum sem gildandi eru á hverjum tíma. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 787/1999 um loftgæði skal Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, eða viðkomandi heilbrigðisnefnd eftir því sem við á gera ráðstafanir til að dregið verði úr loftmengun og umhverfismörkin virt fari loftmengun yfir umhverfismörk. Unnt er að grípa til ýmissa ráðstafanna til að draga úr svifryksmyndun en að mati ráðuneytisins er rétt að það sé gert með almennum hætti en ekki í tengslum við einstaka framkvæmd. Ráðuneytið telur því að fjallað sé með fullnægjandi hætti í hinum kærða úrskurði um loftmengun vegna svifryks.

Að mati ráðuneytisins er í matsskýrslu, hinum kærða úrskurði og öðrum gögnum málsins gerð fullnægjandi grein fyrir áhrifum 1. áfanga Sundabrautar á loftgæði. Að mati ráðuneytisins eru þau áhrif ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

3. Aflagður sorpurðunarstaður í Gufunesi.

Íbúar Grafarvogs benda í kæru sinni á að fram komi í skýrslum Umhverfisstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd muni liggja yfir aflagðan sorpurðunarstað í Gufunesi þar sem urðuð hafi verið mjög hættuleg efni í áratugi. Jafnframt sé vitað að undirlagið sé óstöðugt vegna rotnandi úrgangs með gasmyndun.

Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að það sé stefna þeirra að hanna mannvirkið þannig að ekki þurfi að koma til sneiðings ofan í urðunarstaðinn. Ef mannvirkin verði hönnuð þannig að líklegt þyki að sneitt verði ofan í hauginn muni verða sett upp áætlun um förgun spilliefna og annars úrgangs í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerðum og í samvinnu við Umhverfisstofnun. Sömuleiðis muni áætlun um vöktun gasútstreymis og sigvatns sett upp á hönnunarstigi framkvæmdarinnar. Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið fram Skipulagsstofnun hafi í hinum kærða úrskurði tekið tillit til athugasemda Umhverfisstofnunar varðandi sorpurðunarstaðinn í Gufunesi og m.a. sett það skilyrði fyrir framkvæmdinni að Reykjavíkurborg og Vegagerðin setji fram áætlun um förgun úrgangs og vöktun á gasútstreymi og sigvatni. Ráðuneytið telur því að í hinum kærða úrskurði sé fjallað með fullnægjandi hætti um þær ráðstafanir sem gerðar verða vegna hins aflagða sorpurðunarstaðar á framkvæmdasvæðinu.

4. Náttúruminjar.

Í kæru íbúa Grafarvogs er bent á að allir fyrirhugaðir valkostir framkvæmdarinnar muni raska þeim svæðum sem séu á náttúruminjaskrá auk svæða sem falli undir hverfisvernd. Þar megi nefna Gufuneshöfðann og hamrasvæðið norðanvert í Hamrahverfi.

Fram kemur í matsskýrslu að á framkvæmdasvæði Sundabrautar séu Elliðaárdalur, Gufuneshöfði og Háubakkar við Elliðavog á náttúruminjaskrá. Enginn leiðanna þriggja mun hafa í för með sér skerðingu á Elliðaám eða Háubökkum. Gufuneshöfði mun skerðast við jarðgangamunna á leið III og að norðanverðu á leið I. Hvorki Skipulagsstofnun né Umhverfisstofnun telja að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif á náttúruminjar. Að mati ráðuneytisins er áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á náttúruminjar nægjanlega lýst í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði. Tekur ráðuneytið undir það mat framangreindra sérfræðistofnanna að þau áhrif séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

5. Sjónræn áhrif.

Íbúar Grafarvogs telja að sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verði veruleg fyrir íbúa svæðisins. Ekki séu færð nein rök fyrir því í matinu af hverju Sundabraut sé ekki færð niður fyrir sjávarbakka en það myndi að þeirra mati veita sjónrænt og hljóðrænt skjól fyrir nærliggjandi íbúðahverfi.

Í matsskýrslu kemur fram að botngöng á leið I muni hafa minnst sjónræn áhrif í för með sér en hábrú á sömu leið mest áhrif. Hábrúin verði eitt mest áberandi mannvirki borgarinnar. Sjónræn áhrif eyjalausnar á leið III verði lítil vegna þess hve lágreist mannvirkin verði. Sjónræn áhrif gatnamóta vestan Kleppsvíkur verði meiri á leið I en leið III en austan Kleppsvíkur verði áhrifin sambærileg milli leiðanna þriggja. Í viðbótargögnum framkvæmdaraðila sem bárust Skipulagsstofnun er á þremur tölvugerðum myndum sýnd sjónræn áhrif hábrúar (leið I) og tvær myndir af leið III annars vegar séð frá Bryggjuhverfi og hins vegar frá Gufunesi. Að mati ráðuneytisins er sjónrænum áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar nægjanlega lýst í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði. Ráðuneytið tekur undir það með Skipulagsstofnun að allir framlagðir kostir eigi það sameiginlegt að valda verulegum staðbundnum sjónrænum áhrifum næst fyrirhuguðum mislægum gatnamótum, þ. á m. gatnamótum Sundabrautar og Hallsvegar. Þar verði áhrifin líklega talin neikvæð, vegna þess að gatnamótin standi nærri íbúðarbyggð og upplifun af mannvirkjum geti tengst umferðarhávaða og loftmengun. Ráðuneytið telur hins vegar ekki að framangreind sjónræn áhrif framkvæmdarinnar geti talist umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

6. Lífríki.

Fram kemur í kæru íbúa Grafarvogs að nálægð við náttúru og fuglalíf sé hluti af lífsgæðum íbúanna. Benda kærendur á að Umhverfisstofnun hafi talið neikvæð áhrif þessara framkvæmda á lífríki og náttúru veruleg með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Kærendur telja að ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmdirnar hafi ekki neikvæð áhrif á lífríki í Kleppsvík.

Í matsskýrslu og viðbótargögnum framkvæmdaraðila eru birtar niðurstöður útreikninga á straumum og seltu við Elliðavog og Grafarvog. Niðurstöður þeirra útreikninga eru að fyllingar við Gufunes og fyllingar og þrengingar vegna brúarops á leið III hafi hverfandi áhrif á strauma í ósum Elliðaánna og í Grafarvogi. Ennfremur kemur fram að framangreindar framkvæmdir breyti seltustigi í Elliðavogi og Grafarvogi ekkert. Eins og fram kemur í umsögnum Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar er Kleppsvík talin hafa mikla þýðingu fyrir vistkerfi Elliða- og Grafarvogar, þ.m.t. fyrir laxfiska Elliðaár og fugla. Svæðið er undir álagi vegna mengunar m.a. frá umferð og mengandi starfsemi á svæðinu. Til að koma í veg fyrir veruleg neikvæð áhrif 1. áfanga Sundabrautar á laxfiska og fugla þarf að mati framangreindra stofnana að tryggja full vatnsskipti við Elliðavog og Grafarvog, óbreytt seltustig, draga úr raski á botnseti í Kleppsvík þ.a. mengunarefni í seti berist ekki um víkina og koma í veg fyrir að óhreinsuðu ofanvatni verði veitt í Kleppsvík í næsta nágrenni Elliðaárósa. Í þessu skyni eru í hinum kærða úrskurði sett fjögur skilyrði sem lúta að vatnsskiptum, gruggmyndun, mengunarefnum í botnseti, ofanvatni og vöktun, sbr. skilyrði 1-4 í hinum kærða úrskurði. Að mati ráðuneytisins er áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á lífríki í Elliða- og Grafarvogs nægjanlega lýst í matsskýrslu, viðbótargögnum framkvæmdaraðila og hinum kærða úrskurði. Telur ráðuneytið að teknu tilliti til þeirra mótvægisaðgerða sem framkvæmdaraðilar hafa lagt til og þeirra skilyrða sem sett eru í hinum kærða úrskurði að framkvæmdin muni ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á vistkerfi Elliða- og Grafarvogs.

 

7. Útivistarsvæði.

Fyrirhuguð framkvæmd mun að mati íbúa Grafarvogs hafa alvarleg áhrif á útivistarsvæði Grafarvogsbúa við Gufunes, en þar hafi verið gert ráð fyrir útivistarsvæði (grænu svæði) í aðalskipulagi frá upphafi.

Samkvæmt umferðarspá svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2024 verður umferð um Sundabraut, leið I, um 53 þúsund bifreiðir á sólarhring en heldur minna ef valin verður leið III. Sú umferð skiptist síðan niður á Hallsveg til austurs og norðurs auk þeirrar umferðar sem heldur áfram Sundabraut til norðausturs. Af framkvæmdalýsingu í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði er ljóst að gert er ráð fyrir að Sundabraut austan Kleppsvíkur verði fjögurra akreina. Hugsanleg framtíðarumferð yfir 100.000 bíla á sólarhring á sex akreina vegi er ekki til skoðunar í máli þessu eins og kærendur halda fram. Ráðuneytið telur eðlilegt að miðað sé við fyrrnefnda umferðarspá svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins til 2024 við mat á framtíðarumferð um Sundabraut.

Fram kemur í hinum kærða úrskurði og umsögn framkvæmdaraðila að lækka megi hljóðstig á útivistarsvæðinu með hljóðmön meðfram Hallsvegi og rampa af Hallsvegi á Sundabraut. Með því mætti lækka hljóðstig niður fyrir 55 dB(A) á stærstum hluta svæðisins milli Gufunesbæjarins og Sundabrautar og Hallsvegar. Framkvæmdaraðili bendir þó á að umferð á Strandvegi komi til með að hafa afgerandi áhrif á hljóðstig á svæðinu næst honum. Ráðuneytið telur að með framangreindum mótvægisaðgerðum verði unnt að halda hljóðstigi á framangreindu útivistarsvæði innan 55 dB(A) viðmiðunarmarka reglugerðar um hávaða. Ráðuneytið telur því að í matsskýrslu, hinum kærða úrskurði og viðbótargögnum framkvæmdaraðila sé fjallað með fullnægjandi hætti um áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á útivistarsvæðið við Gufunes.

 

8. Heildaráhrif framkvæmdarinnar.

Að mati íbúa Grafarvogs ber að kynna lagningu Hallsvegar frá byrjun til enda og framkvæmdir við hann sem eina heild en ekki hlutaframkvæmd.

Samkvæmt matsskýrslu er þriðji verkhluti fyrirhugaðrar framkvæmdar tenging Sundabrautar við Hallsveg á Gufunesi með mislægum gatnamótum og lagning Hallsvegar að Strandvegi. Fram kemur í umsögn framkvæmdaraðila að gert sé ráð fyrir Hallsvegi sem fjögurra akreina götu í framtíðinni enda sýni umferðarspár að full þörf sé fyrir þeim afköstum á þessum kafla Hallsvegar. Fram kemur í matsskýrslu að samkvæmt umferðarspá svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins sé gert ráð fyrir 28 þúsund bifr. umferð á sólarhring á Hallsvegi milli Sundabrautar og Strandvegar ef leið I verði valin. Sambærilegar umferðartölur fyrir leið III eru 26 þúsund bifr. á sólarhring.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 13. maí 2002 er fjallað um mat á umhverfisáhrifum tveggja akreina Hallsvegar austan Strandvegar, þ.e. frá Fjallkonuvegi að Víkurvegi. Í því mati var við gerð umferðarspár til framtíðar gert ráð fyrir tengingu Hallsvegar við Sundabraut annars vegar og við Vesturlandsveg hins vegar. Niðurstaða ráðuneytisins í framangreindum úrskurði var að lagning umrædds kafla Hallsvegar væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Í því mati sem hér er til umfjöllunar er gerð grein fyrir umhverfisáhrifum lagningar annars kafla Hallsvegar, þ.e. vestan Strandvegar að Sundabraut. Ráðuneytið telur ekkert hafa komið fram í máli þessu sem gefi tilefni til að gera athugasemdir við að umhverfisáhrif lagningar Hallsvegar séu metin á þennan hátt í tvennu lagi. Telur ráðuneytið að í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði sé fullnægjandi grein gerð fyrir umhverfisáhrifum Hallsvegar frá Strandvegi að fyllingarsvæði við Gufunes.

Kærendur benda ennfremur á að að í skilyrðum fyrir framkvæmdinni sé þess krafist að vaktaðar mælingar verði viðhafðar. Hins vegar komi hvergi fram hvað gera eigi ef mælingar fara fram úr viðmiðunarmörkum.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar um hávaða hefur heilbrigðisnefnd undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Reynist hávaðavarnir ekki nægilegar skal heilbrigðisnefnd gera tillögur til sveitarstjórnar um aðgerðir til að halda hávaða innan viðmiðunarmarka reglugerðarinnar, sbr. 10. gr. Eins og fram kemur í kafla 1 hér að framan er endanlegri hönnun hljóðvarna vegna framkvæmdarinnar ekki lokið en ráðuneytið telur að framkvæmdaraðili hafi sýnt fram á með trúverðugum hætti að unnt verði að halda hljóðstigi innan viðmiðunarmarka reglugerðar um hávaða. Ráðuneytið telur því ekki ástæðu til að mæla fyrir um aðgerðir ef hávaði reynist yfir viðmiðunarmörkum enda er það hlutverk heilbrigðisnefndar og sveitarstjórnar að grípa til aðgerða reynist þess þörf.

9. Kynning matsskýrslu og annarra gagna.

Íbúar Grafarvogs benda á að margvísleg gögn sem lögð hafi verið fram í svörum framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar, sem og þau gögn sem þegar vanti, ætti að kynna almenningi, hagsmunaaðilum og íbúum svo að þeir geti kynnt sér heildaráhrif framkvæmdanna. Ennfremur telja kærendur að framkvæmdir við I. áfanga Sundabrautar hafi verið illa kynntar á kynningartíma.

Samkvæmt 21. gr. reglugerðar nr. 671/2000 um mat á umhverfisáhrifum skal framkvæmdaraðili kynna almenningi framkvæmd og matsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun eftir að stofnunin hefur auglýst matsskýrsluna í Lögbirtingablaði, dagblaði sem gefið er út á landsvísu og, eftir því sem við á, í fjölmiðli sem ætla má að nái til þeirra sem búa nærri framkvæmdasvæði. Matsskýrslan skal liggja frammi á aðgengilegum stað nærri framkvæmdasvæði og hjá Skipulagsstofnun í sex vikur eftir að Skipulagsstofnun hefur kynnt hina fyrirhuguðu framkvæmd, sbr. 3. mgr. 21. gr.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði lá matsskýrslan frammi til kynningar frá 21. maí til 2. júlí 2004 á Aðalsafni, Foldasafni og Sólheimasafni Borgarbókasafns Reykjavíkur, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Einnig var matsskýrslan aðgengileg á heimasíðu Línuhönnunar, Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Auglýsingar um kynningartíma matsskýrslunnar og hvar hægt væri að nálgast skýrsluna voru birtar í Lögbirtingablaðinu og Morgunblaðinu 21. maí 2004. Haldnir voru tveir kynningarfundir austan og vestan Kleppsvíkur á vegum framkvæmdaraðila sem báðir voru auglýstir í fjölmiðlum. Að mati ráðuneytisins var framangreind kynning matsskýrslu í samræmi við 21. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

Hvað varðar þau viðbótargögn sem framkvæmdaraðilar sendu Skipulagsstofnun við meðferð málsins þá er í 1. lið þessa kafla gerð grein fyrir því áliti ráðuneytisins að birta hefði átt í matsskýrslu og þá jafnframt kynna fyrir almenningi upplýsingar um hljóðstig á annarri hæð þeirra húsa sem voru innan þess svæðis sem hljóðvistarútreikningar náðu til. Ráðuneytið telur þó að ekki sé um verulegan ágalla á matsskýrslu að ræða. Að mati ráðuneytisins er fullnægjandi grein gerð fyrir framangreindum viðbótarupplýsingum í úrskurði Skipulagsstofnunar sem kynntur var almenningi í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur því að framangreindur ágalli á matsskýrslu hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Hvað varðar aðrar viðbótarupplýsingar um væntanleg umhverfisáhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar sem send voru Skipulagsstofnun við meðferð málsins þá telur ráðuneytið að þær hafi ekki verið svo umfangsmiklar að það hefði haft áhrif á þá lýsingu umhverfisáhrifa sem fram kemur í matsskýrslu. Viðbótargögnin innihalda svör og nánari útskýringar framkvæmdaraðila vegna umsagna leyfisveitenda og fagstofnana, athugasemda almennings, félagasamtaka og hagsmunaaðila og í kjölfar fyrirspurna Skipulagsstofnunar. Að mati ráðuneytisins er um eðlilega málsmeðferð að ræða og í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 13. gr. sömu laga um andmælarétt.

 

10. Tenging yfir Elliðaárósa að Bryggjuhverfi.

Íbúar Grafarvogs telja að óljóst sé hvernig hringtorg við Gelgjutanga yfir Elliðavoginn og áfram yfir í fyrirhugaða stækkun Bryggjuhverfis muni verða. Þar vanti nánari skýringar sem ekki séu til staðar í gögnum.

Í umsögnum framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar kemur fram að umrædd tenging yfir Elliðaárósa að Bryggjuhverfi kallist Ósabraut og sé hún sjálfstæð tengibraut sem ekki sé hluti af umræddri framkvæmd. Tenging þessi hafi einungis verði sýnd í matsskýrslu til skýringar en ekki hafi verið teknar ákvarðanir um gerð Ósabrautar. Ráðuneytið telur því ekki efni til að taka til greina athugasemdir kærenda hvað þennan þátt varðar.

 

11. Kröfur um aðra legu Sundabrautar.

a. Kæra íbúa Grafarvogs.

Íbúar Grafarvogs krefjast þess að Sundabraut austan Kleppsvíkur verði færð eins langt frá íbúðarbyggð og hægt er. Vegurinn verði færður niður fyrir sjávarbakka, á landfyllingu og muni þetta að þeirra mati draga verulega úr sjón- og hávaðamengun.

Skipulagsstofnun taldi í hinum kærða úrskurði að ekki yrði verulegur munur á áhrifum Sundabrautar á hljóðstig í Hamrahverfi eftir því hvort útfærslan á leið III, þ.e. um jarðgöng í gegnum Gufuneshöfða eða vestur fyrir höfðann, yrði fyrir valinu þar sem augljós skerming fælist í því að hafa veginn í göngum. Helsti ávinningurinn af færslu Sundabrautar vestur fyrir Gufuneshöfða fyrir hljóðvist í Hamrahverfi fælist í því að brautin liggi heldur fjær íbúðarbyggðinni þar sem hún nálgast höfðann. Á móti vegi að sú útfærsla hefur í för með sér að hljóðstig á fyrirhuguðum landfyllingum við Gufunes verði hærra. Eins og fram kemur í kafla 1 hér að framan er það álit ráðuneytisins að framkvæmdaraðilar hafi sýnt nægilega fram á að mótvægisaðgerðir muni geta tryggt að hljóðvist í íbúðarbyggð í Hamrahverfi verði undir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða miðað við að vegurinn liggi um jarðgöng í gegn um Gufuneshöfðann. Að mati ráðuneytisins eru því engin efni til að hafna þeirri leið á grundvelli áhrifa á hljóðvist í Hamrahverfi.

Í matsskýrslu eða öðrum gögnum máls er ekki gerð grein fyrir þeirri útfærslu að færa leið III niður fyrir Gufuneshöfðann. Er sú útfærsla ekki einn af valkostum framkvæmdaraðila og hefur umhverfisáhrifum þess kosts ekki verið lýst. Ekki liggja fyrir upplýsingar um stærð og staðsetningu þeirra landfyllinga sem sú útfærsla myndi krefjast eða áhrif slíkra landfyllinga á strauma og lífríki né hugsanleg sjónræn áhrif þeirra, þ.m.t. áhrif þeirra á ásýnd Gufuneshöfðans eða áhrif á siglingar. Vegna framangreindra atriða hafnaði Skipulagsstofnun í úrskurði sínum þessari útfærslu á leið III. Eins og áður segir telur ráðuneytið að útfærsla framkvæmdaraðila á leið III, þ.e. í jarðgöngum í gegn um Gufuneshöfðann, hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ráðuneytið telur því engin efni til að krefjast þess af framkvæmdaraðila að metin verði umhverfisáhrif annarra kosta á þessum kafla Sundabrautar en þess sem fjallað er um í matsskýrslu. Kröfum kærenda hvað þetta atriði varðar er því hafnað.

Kærendur, íbúar Grafarvogs, krefjast þess einnig að tvær umferðarslaufur á haugasvæðinu verði sameinaðar í eina á lóð Áburðarverksmiðjunnar eins langt frá íbúðabyggð og unnt er. Hallsvegur tengist þá Strandvegi frá þessari umferðarslaufu, beina línu á Gylfaflöt norðan gömlu hauganna.

Framangreind tillaga kærenda er ekki einn af þeim kostum sem fjallað er um í matsskýrslu. Framkvæmdaraðili bendir á að þessi útfærsla myndi rýra hagkvæmni tengingar Hallsvegar við Sundabraut. Eins og fram kemur í kafla 13 hér á eftir telur ráðuneytið að umhverfisáhrifum þeirra kosta sem framkvæmdaraðilar leggja fram í matsskýrslu vegna lagningar 1. áfanga Sundabrautar nægjanlega lýst og að þau séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur því engin efni til að krefjast þess að teknir verði til athugunar aðrir kostir um tengingu Hallsvegar og Sundabrautar í Grafarvogi.

b. Kæra Árna B. Helgasonar.

Árni B. Helgason bendir í kæru sinni á að í þeim tillögum sem fjallað er um í úrskurði Skipulagsstofnunar sé í öllum tilfellum gert ráð fyrir mikilli samþjöppun umferðar ásamt mjög umfangsmiklum, mislægum gatnamótum, sem jafnvel teygi sig inn í íbúðabyggð. Þetta eigi ekki síst við hverfin sem liggja næst Sæbraut, þ.e. frá Holtagörðum suður að Knarrarvogi og Voga/Sund ofan og neðan Sæbrautar, allt niður að Gelgjutanga. Telur kærandi að með framkomnum tillögum og úrskurði Skipulagsstofnunar sé alls ekki tekið tillit þess til hve tenging Sundabrautar ylli mikilli röskun í hverfunum í kringum Sæbraut, nánast burtséð frá því hver leiðanna yrði fyrir valinu, leið I, II eða III. Gerir kærandi tillögu um að í stað einnar umfangsmikillar Sundabrautar komi tvær tveggja akreina leiðir yfir Kleppsvík þ.e. önnur þar sem gert var ráð fyrir leið III og hin þar sem gert var ráð fyrir leið I skv. matsskýrslu. Einnig eru lagðar til breytingar á tengingum beggja vegna Kleppsvíkur.

Í kæru Árna B. Helgasonar eru lagðar til aðrar útfærslur á 1. áfanga Sundabrautar en þær sem kynntar eru í matsskýrslu. Umhverfisáhrif tillögu kæranda liggja ekki fyrir. Eins og fram kemur í kafla 13 hér á eftir telur ráðuneytið að umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar sé nægilega lýst í matsskýrslu og hinum kærða úrskurði og að þau áhrif séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur því engin efni til að krefjast þess af framkvæmdaraðila að metin verði umhverfisáhrif annarra kosta Sundabrautar en þeirra sem fjallað er um í matsskýrslu. Kröfum kæranda hvað þetta atriði varðar er því hafnað.

 

12. Kæra Eimskipafélags Íslands.

Í kæru Eimskipafélags Íslands er því haldið fram að í matsskýrslu sé ekki nægjanlega fjallað um aðgengi og aðkomu að hafnarsvæðum í Sundahöfn. Engin af þeim skilyrðum sem sett hafi verið í hinum kærða úrskurði lúti að lausnum á umferðartengingum eða umferðarflæði á hafnarsvæðinu. Að mati kæranda er þjónustustig á gatnamótum við Holtaveg og einnig Kleppsmýrarveg tæpast viðunandi eins og það er kynnt, bæði gatnamótanna í heild og ekki síst fyrir vinstri beygjur að og frá hafnarsvæðinu. Kærandi bendir á að í úrskurði Skipulagsstofnunar eða svörum framkvæmdaraðila við athugasemdum félagsins komi ekki fram hvort byggt sé á nýjustu upplýsingum um umferðarmagn til og frá Sundahöfn og hlutfalli þungra ökutækja.

Miðað við lagningu Sundabrautar skv. leið III verða gatnamót Vatnagarða og Sægarða annars vegar og Holtavegar og Sæbrautar hins vegar ekki hluti af fyrirhugaðri framkvæmd og gerir framkvæmdaraðili ráð fyrir að gatnamótin muni haldast óbreytt miðað við núverandi ástand. Samkvæmt leið I verða hins vegar bæði gatnamótin hluti af framkvæmdinni og er gert ráð fyrir ljósagatnamótum á efri hæð mislægra gatnamóta Sæbrautar og Holtavegar og mun umferð sem erindi á til hafnarsvæðis fara um þau. Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við afmörkun framkvæmdasvæðisins í matsskýrslu en telur hins vegar ekki unnt að líta fram hjá þeim áhrifum sem framkvæmdin hefur á umferðarflæði til og frá hafnarsvæði Sundahafnar óháð því hvaða leið verður valin. Í gögnum kæranda og umsögn Faxaflóahafna koma fram ábendingar um að áætluð umferð og hlutfall þungra ökutækja frá hafnarsvæðinu sé vanáætlað í matsskýrslu og öðrum gögnum framkvæmdaraðila sem geri það að verkum að þjónustustig tenginga við hafnarsvæðið sem sýndar eru í matsskýrslu verði ekki viðunandi. Ráðuneytið telur að eðlilegt að framkvæmdaraðili taki tillit til framangreindra ábendinga kæranda og hafnaryfirvalda og hafi samráð við þá um hönnun og nánari útfærslu umferðarmannvirkja sem tengja hafnarsvæðið við Sæbraut og Sundabraut þannig að tryggt sé að byggt sé á nýjustu upplýsingum um áætlað umferðarmagn frá hafnarsvæðinu. Ráðuneytið telur því rétt að bæta við hinn kærða úrskurð eftirfarandi skilyrði:

„Framkvæmdaraðilar hafi samráð við hafnaryfirvöld og hagsmunaaðila í Sundahöfn við hönnun og nánari útfærslu þeirra umferðarmannvirkja sem kynnt eru í matsskýrslu og tengja hafnarsvæðið við Sæbraut og Sundabraut."

 

13. Niðurstaða.

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar sé nægjanlega lýst í matsskýrslu, hinum kærða úrskurði og öðrum gögnum málsins og að þau áhrif séu ekki umtalsverð í skilingi laga um mat á umhverfisáhrifum. Staðfestur er því hinn kærði úrskurður Skipulagsstofnunar frá 19. nóvember 2004 að viðbættum tveimur skilyrðum sem gerð er grein fyrir í úrskurðarorði.

 

Úrskurðarorð.

Staðfestur er úrskurður Skipulagsstofnunar frá 19. nóvember 2004 um mat á umhverfisáhrifum 1. áfanga Sundabrautar að viðbættum eftirfarandi skilyrðum:

Framkvæmdaraðilar hafi samráð við fulltrúa íbúa Hamrahverfis um hönnun og útfærslu hljóðvarna og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst

Framkvæmdaraðilar hafi samráð við hafnaryfirvöld og hagsmunaaðila í Sundahöfn við hönnun og nánari útfærslu þeirra umferðarmannvirkja sem kynnt eru í matsskýrslu og tengja hafnarsvæðið við Sæbraut og Sundabraut.
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum