Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 5/2012: Dómur frá 4. október 2012

Félag íslenskra atvinnuflugmanna v/Boga Agnarssonar gegn Samtökum atvinnulífsins v/Flugfélagsins Atlanta ehf.
Ár 2012, fimmtudaginn 4. október, er í Félagsdómi í málinu nr. 5/2012.   

 

Félag íslenskra atvinnuflugmanna

v/Boga Agnarssonar

gegn

Samtökum atvinnulífsins

v/Flugfélagsins Atlanta ehf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 29. ágúst 2012.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Lára V. Júlíusdóttir.

 

Stefnandi er Félag íslenskra atvinnuflugmanna, kt. 530169-3839, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, vegna Boga Agnarssonar, kt. 051249-3649, Esjugrund 31, Reykjavík.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, vegna Flugfélagsins Atlanta ehf., kt. 650387-1639, Hlíðarsmára 3, Kópavogi.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnanda, Boga Agnarssyni, hefði samkvæmt vaktakerfi 21/21 samkvæmt gr. 15-6 í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Flugfélagið Atlanta ehf., dagsettum 1. febrúar 2010, borið réttur til þess samkvæmt vinnuskrá fyrir tímabilið frá 16. febrúar til 10. maí 2011:

a)      að fá 21 vaktafrídag („vac“) dagana 9. mars t.o.m. 29. mars 2011.

b)      að fá 6 aukafrídaga samkvæmt 18. mgr. í gr. 15-6 („O60“) á tímabilinu 30. mars t.o.m. 4. apríl 2011.

 Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hver sem úrslit málsins verða. 

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins hvernig sem málið fer.

 

Málavextir

Félag íslenskra atvinnuflugmanna er stéttarfélag atvinnuflugmanna sem hefur m.a. með höndum gerð kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna um kaup og kjör samkvæmt samþykktum sínum. Félagið hefur um árabil gert kjarasamninga um störf atvinnuflugmanna, þ. á m. við stefnda, Flugfélagið Atlanta ehf. Með kjarasamningi aðila frá 14. maí 2008 voru þeir tveir kjarasamningar, sem áður giltu um störf flugmanna stefnda, Flugfélagsins Atlanta ehf., sameinaðir. Var annars vegar um að ræða samning flugfélagsins við Frjálsa flugmannafélagið, sem flugmenn félagsins tilheyrðu áður, og hins vegar kjarasamning Íslandsflugs við stefnanda en þessi flugfélög sameinuðust undir merkjum stefnda árið 2005. 

Kjarasamningurinn frá árinu 2008 var framlengdur 2010. Nýr kjarasamningur var gerður 10. ágúst 2011. Stefnandi, Bogi Agnarsson, starfar sem flugmaður í leiguflugi hjá stefnda á vaktakerfi 21/21. Í slíku vaktakerfi felst vinna/útivera í 21 dag og vaktafrí í 21 dag. Nánari skilgreiningu á vaktakerfinu er að finna í gr. 15-6 í kjarasamningi frá 30. apríl 2010, sem var í gildi er mál þetta kom upp. Samkvæmt vaktakerfinu er unnið eftir vaktaáætlunum og ferðast flugmaður til og frá vinnu á föstum dagsetningum, sbr. 8. mgr. ákvæðisins. 

Í 18. mgr. í gr. 15-6 er kveðið á um að flugmaður, sem er orðinn 60 ára, skuli fá úthlutaða sex aukafrídaga tvisvar á ári en geti ekki selt þá gegn greiðslu. Eiga því flugmenn 60 ára og eldri 12 fleiri frídaga á hverju ári en þeir flugmenn sem ekki hafa náð þeim aldri. Samkvæmt vinnuskrá stefnanda vegna tímabilsins frá 16. febrúar til 10. maí 2011 var stefnandi settur í umrætt aukafrí á því tímabili. Annars vegar dagana 16. til 21. febrúar 2011 og er óumdeilt að staðið hafi verið að veitingu þeirra aukafrídaga með réttum hætti. Hins vegar var stefnandi í umræddu fríi dagana 24. til 29. mars. Komu umræddir aukafrídagar annars vegar til fækkunar á vinnudögum stefnanda og hins vegar til fækkunar á vaktafrídögum hans. Stefnandi og Félag íslenskra atvinnuflugmanna voru ósáttir við framkvæmd stefnda á umræddu ákvæði í 18. mgr. þar sem þeir töldu að aukafrídagar gætu ekki komið til skerðingar á vaktafrídögum stefnanda. Fulltrúar félagsins og stefnda hafa átt í viðræðum um mál stefnanda og fleiri starfsmanna flugfélagsins, sem náð hafa 60 ára aldri, en þær hafa ekki leitt til niðurstöðu.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að úttalning og túlkun stefnda, Flugfélagsins Atlanta ehf., á aukafrídögum samkvæmt 18. mgr. í gr. 15-6 í kjarasamningi frá 30. apríl 2010 sé röng og í andstöðu við samninginn. Stefndi túlki ákvæðið þannig að fyrri sex aukafrídagarnir komi inn í vinnutímabil stefnanda þannig að hann vinni einungis 15 daga í kjölfarið, svo sem rétt sé, dagana 22. febrúar til 8. mars 2011. Dagana 9. til 23. mars 2011 hafi stefnandi síðan verið skráður í vaktafrí í 15 daga (vac) og í framhaldinu sex aukafrídaga (O60). Síðan hafi tekið við 21 dags vinnutörn dagana 30. mars til 19. apríl 2011. Stefnandi líti svo á að aukafrídaga hefði átt að veita í beinu framhaldi af 21 dags vaktafrítímabili þannig að vinnudögum hefði verið fækkað í 15 í framhaldinu með sama hætti og þegar fyrri 6 aukafrídagarnir voru veittir. Í tölvupósti frá Stefáni Eyjólfssyni, framkvæmdastjóra stjórnunar- og starfsmannamála hjá stefnda, Flugfélagsins Atlanta ehf., dagsettum 9. mars 2011, komi fram frekari útskýring á túlkun stefnda á framkvæmd ákvæðis 15-6 í kjarasamningnum milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna og stefnda sem stefnandi telji ranga.

Að mati stefnanda feli túlkun stefnda í sér að stefnandi og aðrir flugmenn, sem eins er ástatt um, séu vanhaldnir um 6 aukafrídaga á ári. Eðli máls samkvæmt beri að túlka ákvæði um aukafrídaga 60 ára og eldri þannig að umræddir 12 aukafrídagar komi til skerðingar á vinnutímabili flugmanna, enda sé það tilgangur ákvæðisins að stytta vinnutíma þeirra sem komnir eru á framangreindan aldur. Stefnandi telji því vaktaáætlun sína vegna tímabilsins 16. febrúar til 10. maí 2011 hafa átt að vera samkvæmt því sem fram kemur á framlögðu yfirliti stefnanda um túlkun hans á því hvernig hefði átt að veita umrædda aukafrídaga.

Flugmanni undir 60 ára aldri beri að vera 183 daga í útiveru og 183 daga í fríi. Flugmanni, sem náð hafi 60 ára aldri, beri hins vegar að vera 171 daga í útiveru og 195 daga í fríi. Flugmaður, sem náð hefur 60 ára aldri, eigi því 12 fleiri frídaga en flugmaður, sem er yngri en 60 ára, og eigi því að vera í vinnu 12 dögum skemur.

Stefnandi bendir sérstaklega á að við túlkun og skýringu á 18. mgr. í gr. 15-6 verði að horfa til þess sem fram kemur í 10. og 11. mgr. í sama ákvæði þar sem fjallað sé um vinnu flugmanna í vaktafríi samkvæmt vaktaáætlun. Í 11. mgr. komi fram að kjósi flugmaður að taka uppsafnaða frídaga sem frí í stað þess að fá þá greidda, komi þeir til frádráttar á útiverutímabili og hafi ekki áhrif á næsta frídaga-/orlofstímabil. Sömu reglur gildi um aukafrí samkvæmt 18. mgr.

Stefnandi vísar einnig til ákvæðis í 6. mgr. í gr. 05-2 í kjarasamningnum þar sem fram komi að flugmenn, sem eru 60 ára og eldri, skuli að auki eiga rétt á tveimur frídögum í hverjum mánuði. Sambærilegt ákvæði sé að finna í kjarasamningi stefnanda, Félags íslenskra atvinnuflugmanna, og Icelandair Group hf./Icelandair ehf. og hafi framkvæmdin á því verið í samræmi við skilning stefnanda. 

Mál þetta rekur stefnandi á grundvelli ákvæða laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, einkum 2. tl. 1. mgr. 44. gr. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til reglna XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað til ákvæða laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi vísar til þess að vaktakerfið 21/21 sé skýrt í gr. 15-6 í kjarasamningi frá árinu 2008 en þau ákvæði séu óbreytt í kjarasamningnum frá árinu 2010. Sé orlof innifalið í tuttugu og eins dags heimkomufríi, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá skuli Flugfélagið Atlanta ehf. tryggja að útivera hafi verið jöfn frídögum, sbr. 6. mgr. gr. 15-6.  

Vaktarkerfið hafi einnig verið til umfjöllunar í kjarasamningaviðræðum 2011 og sé nánar skýrt í viðauka 8.3. Þar sé að finna þá útreikninga sem stuðst hafi verið við þegar vaktakerfið var sett á 2008. Þar sé tekið fram að samið hafi verið um að notast yrði við meðaltal, þó svo orlofsdagar séu mismargir eftir starfsaldri.

Óumdeilt sé að gr. 15-6 um leiguflug erlendis eigi við um störf Boga Agnarssonar. Eigi hann rétt á að fá úthlutaða 6 frídaga tvisvar sinnum á ári samkvæmt ákvæðinu. Hafi honum því verið veittir umsamdir aukafrídagar, annars vegar dagana 16. til 21. febrúar 2011 og hins vegar dagana 24. til 29. mars 2011. Ágreiningur máls þessa snúist hins vegar um skilning á fyrrgreindu ákvæði kjarasamningsins. Krafa stefnanda feli í sér að Flugfélagið Atlanta ehf. láti Boga í té 24 auka frídaga árlega en ekki 12 daga eins og samningurinn segi til um.

Stefnandi hafi haft sömu kröfu uppi í kjarasamningaviðræðunum 2011 eins og hann geri nú en stefndi hafi hafnað henni. Nánar tiltekið sé í tillögum stefnda bætt við grein 3.3.5., áður gr. 15-6, 18. mgr., töflu með útreikningi á útiveru og frídögum flugmanna. Sama tafla sé lögð fram í máli þessu og sé grundvöllur kröfugerðar stefnanda í málinu. Hins vegar sjáist af framlögðum gögnum stefnda frá kjarasamningsviðræðunum 2008 að aðilar í báðum samninganefndum voru sammála um að leggja eftirfarandi útreikning til grundvallar:

60- 60+
Vinna 182,5 176,5 6
Heima 182,5 188,5 6
Samtals 365 365 12
Mismunur 0 12

 

Á ofangreindum grundvelli hafi stefnanda, Boga Agnarssyni, verið úthlutað hinum umdeildu aukafrídögum. Hann hafi því verið í fríi heima 12 dögum lengur en yngri flugmenn og hafi því fengið þá aldurstengdu frídaga sem honum hafi borið samkvæmt kjarasamningi aðila. Þá sé krafa stefnanda auk þess þeim annmörkum háð að gerð sé krafa um viðurkenningu á því að Boga hafa borið réttur til að fá umkrafða vaktafrídaga og aukafrídaga tiltekna daga í mars og apríl 2011. Slík krafa eigi sér ekki stoð í kjarasamningi aðila.   

Stefndi bendir jafnframt á að á árinu 2008 hafi verið sérstaklega samið um að aukafrídagar flugmanna, sem náð hefðu 60 ára aldri, skyldu meðhöndlaðir með mismunandi hætti eftir því hvort flugmenn störfuðu eftir vaktakerfunum tveimur (17/17 og 21/21) eða störfuðu frá Íslandi, líkt og flugmenn Icelandair. Taki grein 15-6 í kjarasamningi aðila, nú grein 3.3.5. í samningi frá árinu 2012, til þeirra, sem starfa á vaktakerfum eins og Bogi geri, en þar séu þeim tryggðir 6 aukafrídagar tvisvar á ári. Um aukafrí annarra eldri flugmanna fari samkvæmt grein 05-5, 6. mgr., í kjarasamningi aðila frá 2008 (2010) sem sé svohljóðandi: „Flugmenn sem eru 60 ára og eldri, skulu að auki eiga rétt á 2 frídögum í hverjum mánuði. (Gildir ekki um þá sem vinna samkvæmt vaktakerfi 17/17 og 21/21).“

Megi því ljóst vera að hvorki þetta ákvæði né samanburður við kjarasamning Icelandair eigi við í því máli sem hér er til úrlausnar, enda starfi Bogi samkvæmt vaktakerfi 21/21. Ofangreind aðgreining hefði lítinn tilgang ef ætlunin hefði verið að báðir hópar ættu rétt á 24 frídögum, eins og stefnandi geri kröfu um. Þá telji stefndi að áður tilvitnuð kröfugerð stefnanda við gerð kjarasamningsins 2011 feli auk þess í sér viðurkenningu á því að krafa stefnanda eigi ekki stoð í kjarasamningi aðila. Loks mótmælir stefndi því að sértæk ákvæði 10. og 11. mgr. í gr. 15- 6 hafi skýringargildi í deilu þessari. 

Stefndi byggir fyrst og fremst á kjarasamningum aðila og vísar um málskostnaðarkröfu sína til 129. og 130. gr.  laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Óumdeilt er að stefnandi, Bogi Agnarsson, vann samkvæmt svonefndu vaktakerfi 21/21 og að um það eiga við ákvæði gr. 15-6 í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugfélagsins Atlanta ehf. frá 2010. Eru ákvæðin óbreytt frá fyrri kjarasamningi sem gerður var 2008. Ágreiningur aðila lýtur að því, hvernig skilja beri ákvæði 18. mgr. gr. 15-6 þar sem mælt er fyrir um úthlutun aukafrídaga til flugmanna, sem náð hafa 60 ára aldri. Þar segir: „Flugmaður sem er orðinn 60 ára skal fá úthlutaða 6 frídaga tvisvar sinnum á ári, en getur ekki selt þá gegn greiðslu.“ Fram er komið að með kjarasamningi aðila frá 2011 var samningurinn frá 2008 framlengdur óbreyttur. 

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að eðli málsins samkvæmt beri að túlka ákvæðið þannig að umræddir 12 aukafrídagar komi til skerðingar á vinnutímabili flugmanna en það hafi stefndi ekki gert að því er varðaði seinni frítöku stefnanda Boga á árinu 2011, sem ákveðin var 24. til 29. mars 2011. Eins og að framan er rakið hafnar stefndi þessum skilningi stefnanda og kveður hann leiða til þess að stefnandi Bogi fái úthlutað 24 frídögum en ekki þeim 12 dögum sem samið hafi verið um. Byggir stefndi m.a. á efni skjals, sem hann kveður hafa verið vinnuskjal frá kjarasamningsviðræðunum í mars 2008, og samningsaðilar hafi verið sammála um að fara eftir henni við umræddan útreikning aukafrídaga starfsmanna sem náð hefðu 60 ára aldri. Taflan er svohljóðandi:

60- 60+
Vinna 182,5 176,5 6
Heima 182,5 188,5 6
Samtals 365 365 12
Mismunur 0 12

           

Af framburði þeirra, sem gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins, er ljóst að ágreiningur hafi komið upp um útreikning aukafrídaga samkvæmt 18. mgr. gr. 15-6 í kjarasamningi aðila og liggur fyrir að hann var ekki settur inn í kjarasamninginn. Stefán Eyjólfsson, stjórnarmaður í Flugfélaginu Atlanta ehf. og formaður samninganefndar félagsins frá 2008, bar á þann veg að ágreiningur að þessu leyti hefði komið upp í byrjun síðasta árs. Taldi Stefán framangreinda töflu vera í samræmi við kjarasamninginn og leiddi til þess að flugmenn yngri en 60 ára ynnu sex dögum lengur en þeir sem eldri væru. Þessum skilningi hefur stefnandi mótmælt og kom fram í skýrslu Ólafs Arnar Jónssonar, flugmanns hjá Flugfélaginu Atlanta ehf. og stjórnarmanni í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, sem sat í samninganefnd við kjarasamningsgerðina 2011, að ekki hefði náðst samstaða um notkun töflunnar og hefði orðið ljóst við samningsgerðina að ágreiningur aðila að þessu leyti færi fyrir Félagsdóm. Róbert Magnús Kristinsson, flugstjóri hjá Flugfélaginu Atlanta ehf., sem sat í samninganefnd af hálfu Félags íslenskra atvinnuflugmanna við kjarasamningsgerðina 2008, kannaðist ekki við að aðilar við kjarasamningsgerðina hefðu haft þann gagnkvæma skilning að framangreindir útreikningar stefnda skyldu liggja til grundvallar við útreikning aukafrídaga flugmanna 60 ára og eldri. Sigurður Magnús Sigurðsson, flugrekstrarstjóri hjá stefnda, sem situr í samninganefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna og tók þátt í kjarasamningsviðræðunum 2008, kvað ákvæði 18. mgr. gr. 15-6 bæði hafa komið til umræðu við kjarasamningsviðræðurnar 2008 og 2011. Ekki hefði náðst samstaða um útreikning á töku umræddra aukafrídaga, þrátt fyrir miklar umræður um hann.

Að framangreindu virtu verður að telja ósannað að einhvers konar samkomulag hafi náðst milli aðila um það, hvernig túlka bæri ákvæði 18. mgr. gr. 15-6 í kjarasamningi um frítökurétt flugmanna sem eru 60 ára eða eldri. Óumdeilt virðist hins vegar að á grundvelli ákvæðisins bar að úthluta þessum flugmönnum sex aukafrídögum tvisvar á ári. Af hálfu stefnda var því hreyft við munnlegan málflutning að ef eingöngu hefði staðið til að draga frídagana af vinnutímabilinu, hefði þurft að taka það sérstaklega fram í kjarasamningnum. Á þetta verður ekki fallist með stefnda, enda verður að telja að tilgangi ákvæðisins um sex daga aukafrí verði ekki náð nema með því að lengja frítíma umræddra starfsmanna og fækka vinnudögum þeirra. Þá verður heldur ekki ráðið af ákvæðum kjarasamningsins að taka aukafrídaganna eigi að raska þeim frítíma sem leiðir af vaktakerfi því sem stefnandi, Bogi Agnarsson, vann samkvæmt. Má hér jafnframt hafa hliðsjón af öðrum ákvæðum samningsins þar sem gert er ráð fyrir að taki starfsmaður uppsafnaða frídaga út sem frí, komi þeir til frádráttar á útiverutímabili, þ.e. vinnutíma, en hafi ekki áhrif á næsta frídaga- eða orlofstímabil.

Stefndi teflir fram þeirri málsástæðu að krafa stefnanda eigi sér ekki stoð í kjarasamningi aðila þar sem stefndi hafi hafnað kröfugerð stefnanda sem var á sömu nótum við kjarasamningsgerðina 2011. Eins og áður greinir virðist ágreiningur máls þessa hafa komið upp fyrir kjarasamningsviðræður aðila á síðasta ári og hefur enn ekki tekist að leysa hann. Svo virðist sem báðir aðilar hafi viðrað hugmyndir sínar um útfærslu frítökuréttar samkvæmt umræddu ákvæði kjarasamningsins en hvorugur hafi getað fallist á tillögu hins. Höfnun annars aðilans á útreikningi hins felur ekki í sér óræka sönnun þess, hver er rétt túlkun ákvæðisins. Þá verður ekki fallist á það með stefnda að viðurkenning á kröfugerð stefnanda um úthlutun aukafrídaganna sex á tilteknu tímabili feli í sér brot gegn stjórnunarrétti vinnuveitanda, enda liggur fyrir í framlagðri vinnuskrá stefnanda Boga, sem stefndi hefur ekki mótmælt efnislega, að stefnanda var úthlutað aukafrídögunum á þessu tímabili.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að fallast beri á kröfur stefnanda eins og þær eru fram settar í stefnu.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

 

D ó m s o r ð:

Viðurkennt er að stefnanda, Boga Agnarssyni, hefði samkvæmt vaktakerfi 21/21 samkvæmt gr. 15-6 í kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna við Flugfélagið Atlanta ehf., dagsettum 1. febrúar 2010, borið réttur til þess samkvæmt vinnuskrá fyrir tímabilið frá 16. febrúar til 10. maí 2011:

a)      að fá 21 vaktafrídag („vac“) dagana 9. mars til og með 29. mars 2011.

b)      að fá 6 aukafrídaga samkvæmt 18. mgr. í gr. 15-6 („O60“) á tímabilinu 30. mars til og með 4. apríl 2011.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins vegna Flugfélagsins Atlanta ehf., greiði stefnanda, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna vegna Boga Agnarssonar, 300.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Valgeir Pálsson

Lára V. Júlíusdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira