Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 4/2001: Úrskurður frá 19. mars 2001.

Bifreiðastjórafélagið Sleipnir gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Allrahanda/Ísf

Ár 2001, mánudaginn 19. mars, var í Félagsdómi í málinu nr. 4/2001.

Bifreiðastjórafélagið Sleipnir gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Allrahanda/Ísferða ehf.

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 19. febrúar sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, kt. 600269-2409, Mörkinni 6, Reykjavík.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Garðastræti 41, Reykjavík, f.h. Allrahanda/Ísferða ehf., kt. 500489-1119, Funahöfða 17, Reykjavík.

  

Dómkröfur stefnanda

  1. Að viðurkennt verði með dómi, að kjarasamningur Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis og Vinnuveitendasambands Íslands, nú Samtaka atvinnulífsins, sem gerður var þann 21. júní 1997 sé gildandi kjarasamningur og bindandi fyrir aðila innan S.A. um störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra hjá hópferðafyrirtækjum í Reykjavík, uns nýr kjarasamningur verður gerður milli þessara aðila.
  2. Að viðurkennt verði með dómi, að kjarasamningur sá, sem nokkur aðildarfélög innan Verkamannasambands Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér þann 13. apríl 2000 um störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, taki ekki til hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, sem starfa hjá hópferðafyrirtækjum í Reykjavík.
  3. Að viðurkennt verði með dómi, að stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf., hafi verið óheimilt að greiða hópferðabifreiðastjórum í starfi hjá sér eftir þessum kjarasamningi Verkamannasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.
  4. Að viðurkennt verði með dómi, að stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., hafi brotið gegn 18. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
  5. Að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

  

Dómkröfur stefnda

  1. Að stefnda verði sýknað af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
  2. Að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Málavextir

Þann 21. júní 1997 gerði stefnandi kjarasamning við Vinnuveitendasamband Íslands (nú Samtök atvinnulífsins) vegna aðildarfyrirtækja, félaga í Félagi sérleyfishafa og annarra atvinnurekenda, sem aðilar voru að þeim kjarasamningi sem í gildi var næst þar á undan. Gildistími kjarasamnings þessa var til 15. febrúar 2000, en þá urðu kjarasamningar VSÍ (nú SA) við meginþorra aðildarsambanda og stéttarfélaga innan ASÍ lausir. Kjarasamningar náðust á næstu þremur mánuðum við flest öll landssambönd og stéttarfélög innan ASÍ, að undanskildu stefnanda. Þannig gerði Verkamannasamband Íslands vegna aðildarfélaga sinna kjarasamning við SA þann 13. apríl 2000 þar sem er að finna sérstakan kafla um hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra. Undanskilin þeim samningi voru Efling-stéttarfélag, Verkalýðsfélagið Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur. Þann 29. nóvember 2000 samdi Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur við SA um upptöku sérstaks kafla um hópferðabifreiðastjóra í kjarasamning sinn. Þann 4. janúar 2001 tók Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði einnig upp sérstakan kafla um hópferðabifreiðastjóra í kjarasamning sinn og 26. janúar 2001 endurnýjaði SA og Starfsgreinasamband Íslands kjarasamning sinn um hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra.

Á félagsfundi hjá stefnanda, sem haldinn var þann 22. maí 2000, var samþykkt að boða allsherjarvinnustöðvun á félagssvæði stefnanda frá og með þeim 8. júní 2000 kl. 00.01. Hófst þá verkfall stefnanda.

Af hálfu stefnanda er tekið fram að ljóst hafi verið mörgum vikum og jafnvel mánuðum fyrir verkfall í hvert stefndi og framundan yrðu hörð átök, sem kom á daginn. Leiddi það m.a. til þess að á tímabilinu 1.- 30. maí 2000 sögðu a.m.k. níu starfsmenn stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf., sig úr félagi stefnanda, Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, og tilkynntu að þær ætluðu að ganga í Verkalýðsfélagið Eflingu, Reykjavík, nema einn, sem ætlaði að ganga í Verslunarmannafélag Reykjavíkur, en hvorugt þessara félaga semji fyrir hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra. Í ljós hafi komið að aðeins einn þessara níumenninga hafi gengið í Verkalýðsfélagið Eflingu. Hefur stefnandi haldið því fram að stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., hafi beitt sér fyrir því, að þessir níu félagsmenn hjá stefnanda segðu sig úr Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, áður en verkfall skylli á.

Strax eftir að verkfall hófst þann 8. júní 2000 reyndi stefnandi að hindra að stefndi héldi uppi akstri með ófélagsbundnum aðilum eða bifreiðastjórum, sem voru í öðrum stéttarfélögum. Leiddi það til þess að stefndi óskaði þann 13. júní 2000 eftir því hjá sýslumanninum í Reykjavík, að lögbann yrði sett á verkfallsvörslu stefnanda, en tvö önnur hópferðabifreiðafyrirtæki höfðu fengið sett lögbann á aðgerðir félagsmanna stefnanda.

Stefnandi taldi að lögbannsbeiðnin ætti ekki að ná fram að ganga og byggði meðal annars á því, að stefndi bryti í bága við 18. gr. laga nr. 80/1938, þar sem stefndi væri að stuðla að því að afstýra löglega hafinni vinnustöðvun með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda sem að vinnustöðvuninni standa. Allir bifreiðastjórar hjá stefnda eru í verkalýðsfélögum innan ASÍ., fyrir utan nokkra ófélagsbundna bifreiðastjóra. Með ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, dags. 16. júní 2000, var lögbannsbeiðni stefnda hafnað.

Margir sáttafundir voru haldnir með samningsaðilum, án þess að það skilaði árangri. Á sáttafundi þann 15. júlí 2000 ákvað stefnandi einhliða að fresta verkfalli frá 16. júlí til 12. ágúst 2000. Héldu samningaviðræður aðila þó áfram án þess að um semdist með aðilum.

Með bréfi dags. 9. ágúst 2000 tilkynnti stefnandi að hann aflýsi verkfallinu, en tveggja mánaða verkfall stefnanda hafði engu skilað honum. Frá þeim tíma hafa samningaviðræður legið niðri, og er kjaradeila aðila enn óleyst.

Þann 17. október 2000 þingfesti stefnandi mál gegn stefnda fyrir Félagsdómi vegna meintra brota á 4. og 18. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Við aðalmeðferð málsins þann 21. nóvember 2000 felldi stefnandi málið niður, þar sem skorti sönnun þess að tilgreindir aðilar hefðu ekið í verkfalli stefnanda.

Mál þetta var þingfest fyrir Félagsdómi 9. janúar sl.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að mál þetta snúist um grundvallaratriði varðandi framkvæmd verkfalls stéttarfélags og lögmæta starfsemi meðan á því stendur og skýrir kröfugerð sína í því ljósi.

Hvað varðar kröfulið nr. 1 hjá stefnanda, þá sé tilgangur stefnanda með honum eftirfarandi: Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 séu félagsmenn stéttarfélags skuldbundnir að fara eftir kjarasamningi stéttarfélags síns, þar til þeir séu lausir fyrir uppsögn. Félagsdómur hafi túlkað þetta ákvæði þannig, sbr. Félagsdóm í máli nr. 2/1976, að meðan unnið sé eftir lausum kjarasamningi sé hann skuldbindandi fyrir aðila samningsins. Þetta þýði í raun að kjarasamningurinn gildi þangað til samningar takist að nýju milli viðkomandi aðila. Launþegar sem atvinnurekendur verði því bundnir af verkfallinu og vippi sér ekki yfir á einhvern annan kjarasamning til þess að geta haldið störfum sínum óhindrað áfram. Þetta sé sama reglan og gildi hjá opinberum starfsmönnum og sé lögfest í 2. mgr. 12. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Það sé því fullyrðing stefnanda að stefnda, Allrahanda/ Ísferðum ehf., hafi verið óheimilt að skipta yfir á annan kjarasamning gagnvart starfsmönnum sínum á gildistíma kjarasamnings stefnanda og stefnda Samtaka atvinnulífsins, í því skyni að reyna að losna undan fyrirhuguðu verkfalli starfsmanna sinna. Breyti engu í þessum efnum, þótt félagafrelsi ríki. Hér í máli þessu sé ekki verið að fjalla um skylduaðild að stéttarfélagi á nokkurn hátt og málinu algerlega óviðkomandi.

Hvað varðar kröfuliði nr. 2 og 3, þá séu þeir nátengdir 1. kröfulið. Tilgangur stefnanda sé sá að fá fram viðurkenningu Félagsdóms á því að kjarasamningur nokkurra aðildarfélaga innan Verkamannasambands Íslands, sem stefndi, Allrahanda/ Ísferðir ehf., hafi greitt níu starfsmönnum sínum og fyrrum félagsmönnum í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni eftir, gildi ekki í Reykjavík á samningsforgangs- réttarsvæði Sleipnis, þar sem stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., starfar.

Stefnandi telur að það hafi verið haldslaust hjá þessum aðilum að skipta um kjarasamning, þegar verkfall var að skella á til þess að reyna að losna undan þátttöku í verkfallsaðgerðum stefnanda. Stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf., hafi verið óheimilt að nota kjarasamning einhvers annars stéttarfélags, en verið bundinn af kjarasamningi Sleipnis og verkfalli því sem Sleipnir stofnaði til.

Kjarasamningur Verkalýðsfélagsins Eflingar, sem taki til Reykjavíkur, hafi ekki haft ákvæði um störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra. Þótt svo væri þá bendir stefnandi á þá staðreynd og leggur áherslu á það að samkvæmt 15. gr. laga Alþýðusambands Íslands sé félögum innan ASÍ skylt að gera með sér samkomulag um samningssvið, skarist samningssviðið. Áður en Verkalýðsfélaginu Eflingu hefði verið heimilt að semja um kaup og kjör hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, þá hefði stéttarfélagið fyrst orðið að fá samþykki Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis fyrir því, að annað verkalýðsfélag færi inn á sitt samningssvið og forgangsréttarsvið Sleipnis. Þetta hafi ekki verið gert og sé því tilgreindur samningur nokkurra aðildarfélaga VMSÍ í raun ógildur gagnvart stefnanda skv. lögum ASÍ.

Þá er bent á, að samkvæmt Félagsdómi 1974 - 154, þá segi dómurinn að hafi eitt stéttarfélag náð samningi við vinnuveitanda um forgangsrétt félagsmönnum sínum til handa, megi annað stéttarfélag í sömu starfsgrein ekki beita verkfalli til þess að knýja þann sama vinnuveitanda til að skuldbinda sig til að veita sér sama rétt, enda sé það andstætt réttum rökum, að tveir aðilar geti haft hliðstæðan forgangsrétt til vinnu. Með öðrum orðum: Hafi stéttarfélag náð gildum samningi um forgangsrétt félagsmanna sinna verði önnur stéttarfélög að hlíta þeim samningi og geti ekki heimtað í sínar hendur þann rétt á kostnað fyrri forgangsréttarhafa, sbr. og Fd. VI. 10. Samkvæmt V. kafla kjarasamnings stefnanda og stefnda SA, sé Reykjavík félags- og forgangsréttarsvæði Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis.

Þá sé tilgangur þessarar kröfu samkvæmt 3. tölulið af hálfu stefnanda ekki síst að fá dóm Félagsdóms fyrir því að sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E - 4691/2000 fái ekki staðist að kjarasamningar nokkurra aðildarfélaga innan VMSÍ. geti einnig gilt í Reykjavík á samningssvæði Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis.

Hvað kröfulið nr. 4 snertir, þar sem vitnað sé til 18. gr. laga nr. 80/1938, þá sé sú krafa í beinu samhengi við kröfulið 3, þar sem vitnað sé til 4. gr. sömu laga. Stefnandi telur að tilgangurinn með aðgerðum stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf., hafi eingöngu verið sá að reyna að koma í veg fyrir að stefnanda tækist með verkfallsaðgerðum að trufla eða draga úr möguleikum stefnda að halda áfram starfsemi sinni meðan á verkfalli stefnanda stæði.

Stefnandi byggir á því að með lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 hafi verið lögfest sú regla að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, ekki einungis fyrir félagsmenn þess félags sem þá gerir, heldur fyrir alla þá sem vinna þau störf sem kjarasamningurinn nái til, sbr. Félagsdóm í bindi IX - 182, sem fjallaði um það, hver væri réttur ófélagsbundinna starfsmanna að starfa eftir að verkfall skall á. Þessi dómur Félagsdóms eigi alfarið við í þessu máli.

Sömu sjónarmið og koma fram í þessum félagsdómi gilda í Danmörku og vísast til dóms Den faste Voldgiftsrets í máli nr. 5430 frá 10. maí 1961 og skýringarita um þann dóm, þar sem skýrt komi fram að ófélagsbundnu starfsfólki, sem vinnur sömu störf og félagsbundið eftir sama kjarasamningi, sé skylt að leggja niður störf sín í verkfalli félagsbundinna starfsmanna.

Sá kjarasamningur, sem gildi um störf hópferðabifreiðastjóra á Reykjavíkur- svæðinu, þar sem stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., starfar, sé kjarasamningur sem stefnandi gerði við VSÍ, nú stefnda, Samtök atvinnulífsins. Engir aðrir kjarasamningar gildi um störf hópferðabifreiðastjóra á þessu svæði.

Kjarasamningur nokkurra aðildarfélaga Verkamannasambands Íslands nái ekki til starfsemi hópferðafyrirtækja í Reykjavík, þar sem Verkalýðsfélagið Efling í Reykjavík hafi ekki verið aðili að þessum kjarasamningi, heldur hafi samið með svokölluðu Flóabandalagi, sem ekki hafi samið sérstaklega um störf hópferðabifreiðastjóra. Áréttað er að af þeim níu bifreiðastjórum í störfum hjá stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf., sem deilt sé um, hafi aðeins einn gengið í Verkalýðsfélagið Eflingu.

Kjarasamningur Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis sé sá samningur, sem gildi í merkingu 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. Þótt almenna reglan sé sú að hægt sé að semja um betri kjör en lágmarkskjör segja, þá sé atvinnurekanda óheimilt að semja um betri kjör í því skyni að koma sér undan lögmætum verkfallsaðgerðum stéttarfélags. Tilgangur laganna hafi ekki verið sá að gefa atvinnurekendum kost á að grafa undan kjarabaráttu verkalýðsfélaganna. Þvert á móti hafi tilgangur þessara laga verið að styrkja launþega og samtök launþega.

Stefnandi telur, að allir þeir sem starfað hafa við sömu störf eftir sama kjarasamningi ákveðins stéttarfélags á samningssvæði þess félags, séu bundnir af boðaðri vinnustöðvun, hvort heldur þeir séu félagsmenn í því félagi sem boðar verkfallið eða í öðru stéttarfélagi eða í engu stéttarfélagi. Dugi þá ekki að segja sig úr stéttarfélagi sínu rétt fyrir verkfall til þess eins að reyna að koma sér undan verkfalli stéttarfélagsins. Leggur stefnandi áherslu á, að umræddir níumenningar, að einum frátöldum, teljast ófélagsbundnir, þar sem þeir hafi ekki gengið í neitt stéttarfélag eftir að þeir sögðu sig úr félagi stefnanda. Um réttarstöðu ófélagsbundinna starfsmanna sem starfa samkvæmt kjarasamningum stéttarfélags sem eru í verkfalli, er vísað til Félagsdóms 1987 -182, þar sem fram komi að ófélagsbundnir starfsmenn séu bundnir því að leggja niður vinnu í verkfalli stéttarfélagsins.

Stefndi telur það augljóslega lögmætt til að komast fram hjá verkfalli stefnanda, að nóg sé að viðkomandi launþegi sé ekki félagsbundinn í stéttarfélagi stefnanda, þegar verkfall skelli á og jafnframt því hætti hann sjálfur að greiða eftir kjarasamningi stefnanda meðan verkfall hans standi yfir eða samningar séu lausir. Þá geti atvinnurekandinn haldið starfsemi sinni gangandi og um leið brotið niður áhrif stéttarfélagsins til að knýja fram kröfur sínar með verkfalli. Til þess að komast hjá verkfalli annarra starfsmanna sinna en félagsmanna stefnanda, þá hafi komið fram, að einhverjir félagsmenn stefnda, Samtaka atvinnulífsins, hafi beitt þeirri aðferð að ráða ekki í vinnu til sín menn, sem séu félagsbundnir í stéttarfélagi stefnanda. Jafnframt hafi einhverjir þeirra, þ.m.t. stefndi, beitt sér fyrir því að félagsmenn stefnanda segi sig úr stéttarfélagi sínu, þ.e. félagi stefnanda, þegar horfði í verkfall og verði í engu stéttarfélagi eða gangi í eitthvert annað óskylt stéttarfélag, t.d. Eflingu eða Verslunarmannafélag Reykjavíkur, sem hvorki semji um kaup og kjör fyrir hópferðabifreiðastjóra á samningssvæði stefnanda né annars staðar. Aðaláherslan hafi legið í því að fá félagsmenn í félagi stefnanda til að segja sig úr Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, áður en verkfall skelli á, sbr. hópúrsagnir starfsmanna stefnda úr félagi stefnanda. Þetta telur stefnandi að brjóti í bága við 18. gr. laga nr. 80/1938.

Í annan stað hætti stefndi að láta vinna eftir kjarasamningi stefnanda, sem hingað til og fram að verkfalli hafði verið unnið eftir, þannig að ekki verði fullyrt að greitt sé eftir kjarasamningi stefnanda og stefnda. Til þess að reyna að fara á bak við 1. gr. laga nr. 55/1980 notist stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., við kjarasamning um störf hópferðabifreiðastjóra, sem gildi ekki í Reykjavík, heldur annars staðar á landinu. Með þessum hætti hafði stefndi tök á að halda uppi a.m.k. töluverðri starfsemi, þrátt fyrir verkfall félagsmanna í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni. Um leið geti hann með þessum aðferðum dregið mikinn slagkraft úr verkfalli stéttarfélagsins og jafnvel eyðilagt kjarabaráttu þess félags, sem í hlut eigi, eins og halda mætti fram hvað varðar þessa deilu stefnanda og stefnda, en ekkert hafi þokast í kjaradeilu aðila, þrátt fyrir tveggja mánaða verkfall. Þetta séu þær aðferðir sem stefnandi fullyrðir að stefndi, Allrahanda/ Ísferðir ehf., hafi beitt og jafnvel fleiri aðilar í hópi þeirra sem reka hópferðafyrirtæki á samningssvæði stefnanda í vinnudeilu aðila. Þetta telur stefnandi að brjóti í bága við 18. gr. laga nr. 80/1938.

Hvað varðar þá níu aðila, sem sögðu sig úr Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, þá byggir stefnandi á því að sá atvinnurekandi sem fær launþega sína til að gerast verkfallsbrjóta eða stuðlar að því með einum eða öðrum hætti, brjóti í raun bæði 4. gr. og 18. gr. vinnulöggjafarinnar nr. 80/1938, sbr. ummæli Knud Illum í bók hans " Den kollektive arbedjsret" , 1964 á bls. 40-41.

Niðurstaða í því máli, sem er hér til umfjöllunar, skipti ekki eingöngu málsaðila máli, heldur skiptir hún sköpum fyrir alla aðila vinnumarkaðarins, varðandi það hver sé staða verkalýðshreyfingarinnar í kjaradeilum í framtíðinni. Séu þessi vinnubrögð, sem hér hafi verið lýst, lögmæt aðferð til þess að brjóta niður löglega boðuð verkföll stéttarfélaga. Um það snúist mál þetta og ekkert annað.

Stefnandi byggir á því að löglega boðað verkfall stéttarfélags taki til allra þeirra, sem hlíti kjörum samnings, sem deilt sé um og verið sé að knýja á um að gerður verði, þ.e. kjarasamningi stefnanda, Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis við stefnda, Samtök atvinnulífsins. Stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., reki fyrirtæki í Reykjavík. Samningssvæði stefnanda sé óumdeilanlega Reykjavík. Engin önnur stéttarfélög semji um störf hópferðabifreiðastjóra í Reykjavík, sbr. dóm Félagsdóms 1974-154 (168). "Flóabandalagið" hafi ekki samið um kjör hópferðabifreiðastjóra. Nýgerður kjarasamningur nokkurra aðildarfélaga innan Verkamannasambandsins nái ekki til Reykjavíkursvæðisins, heldur gildi á vissum stöðum úti á landi. Sá kjarasamningur sem varðar störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, sem VMSÍ hafi gert einhliða og án nokkurs samráðs við Bifreiðastjórafélagið Sleipni, brjóti í bága við 15. gr. laga ASÍ, þar sem ekki hafi legið fyrir áður samþykki Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis, enda hafi þessi störf verið á samnings- og forgangsréttarsviði Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis, nema á einstökum stöðum á landinu, svo sem í Borgarnesi og Húsavík.

Sú efnislega skoðun, sem fram komi í héraðsdóminum í málinu nr. 4691/2000: Austurleið gegn Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, að ekkert sé því til fyrirstöðu að beita ákvæðum kjarasamnings VMSÍ. hvar sem er á landinu, telur stefnandi að fái ekki staðist. Þar fyrir utan geti atvinnurekandi heldur ekki skotið sér undan kjarabaráttu verkalýðsfélags með því að starfsmenn hans skipti um og hlíti öðrum kjarasamningi, þegar verkfall skelli á, eins og stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., hafi gert í þessu tilviki. Eftir verkfall stefnanda hafi stefndi hætt að greiða eftir kjarasamningi stefnanda og stefnda, Samtaka atvinnulífsins (VSÍ), og greiði eftir kjarasamningi annars verkalýðsfélags innan Verkamannasambandsins, sem ekki taki til þess svæðis, þar sem stefndi starfar.

Hvort heldur farið sé að greiða eftir kjarasamningi annars stéttarfélags eða annarra stéttarfélaga, sem starfi annars staðar á landinu, þegar verkfall skelli á hjá stefnanda eða búinn sé til einhvers konar sérsamningur milli stefnda og þeirra bifreiðastjóra í hans þjónustu, sem ekki hafi lagt niður vinnu meðan aðilar deili um gerð nýs kjarasamnings, þá sé í báðum tilvikum verið að brjóta 18. gr. vinnulöggjafarinnar. Ljóst sé að væri þetta heimilt, gætu atvinnurekendur brotið á bak aftur allar tilraunir verkalýðsfélags til að ná fram kjarakröfum sínum með lögbundnum aðferðum til þess með verkfalli. Með þessum hætti hafi stefnda, Allrahanda/Ísferðir ehf., sem og öðrum hópferðafyrirtækjum, sem eins sé ástatt um og sem stefnandi boðaði verkfall hjá, tekist að draga mjög úr möguleikum stéttarfélagsins, þ.e. stefnanda, til þess að binda skjótan enda á vinnudeilu þá, sem hún sé sprottin af og þar með mesta slagkraftinn úr verkfallsvopninu hjá stefnda. Hafi það óumdeilanlega orðið raunin í vinnudeilu stefnanda og stefnda, Samtaka atvinnulífsins, sem leitt hafi til þess að vinnudeila aðila sé óleyst enn og í meiri hnút en nokkru sinni fyrr, þrátt fyrir rúmlega tveggja mánaða verkfall og mikil átök, eins og alkunna sé. Hálfu ári eftir að verkfall var boðað fyrst, sé kjaradeilan óleyst enn.

Stefnandi telur ekki leika vafa á því almennt séð, að réttarstaða ófélagsbundinna launþega í verkföllum sé hin sama og félagsbundinna launþega í sömu starfsgrein, enda hafi þeir ófélagsbundnu starfað eftir þeim sama kjarasamningi og vinnudeilan snúist um, eins og í þessu tilviki. Gildissvið kjarasamnings stefnanda og stefnda taki yfir félagsbundna sem ófélagsbundna bifreiðastjóra hjá stefnda, enda hafi stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., greitt bifreiðastjórunum eftir kjarasamningi stefnanda við stefnda fram að verkfalli. Sama gildi um þá launþega, sem séu félagsbundnir í öðrum stéttarfélögum, sem ekki semji um kaup og kjör á þessu ákveðna starfsviði né hafa samningsrétt um það eða forgangsrétt á viðkomandi starfsviði. Reykjavík sé samningssvæði og forgangsréttarsvæði stefnanda, hvað bifreiðastjóra hópferðabifreiða snertir, en ekki þeirra tveggja tilgreindra launþegafélaga, sem starfsmenn stefnda hafi verið félagsmenn í.

Stefnandi leggur sérstaka áherslu á eftirfarandi:

Þess séu dæmi að kjarasamningar nokkurra stéttarfélaga nái til sömu starfa á sama vinnustað, þar sem hvert stéttarfélag um sig hafi samið um kaup og kjör á þessu ákveðna sviði. Fari eitt stéttarfélag í verkfall bindi það ekki félagsmenn hinna stéttarfélaganna, sem ekki séu í verkfalli. Þeir haldi áfram störfum sínum eftir sínum kjarasamningi, eins og þeir hafi alltaf gert.

Þetta komi t.d. fram i Félagsdómum 1944-63, IX 182 og 23. október 1997, sbr. HRD 1964-596, þar sem fram komi, að hafi stéttarfélag boðað verkfall sé félagsmönnum annars stéttarfélags, sem vinna sömu störf, heimilt að halda áfram störfum sínum, þrátt fyrir verkfall fyrrnefnda stéttarfélagsins, enda starfi þeir samkvæmt sérstökum kjarasamningi, sem stéttarfélag þeirra hafi gert og taki einnig til þessa ákveðna starfsviðs. Þetta eigi ekki við í tilviki stefnanda og stefnda.

Í tilviki stefnda í þessu máli sé þessu þveröfugt farið. Allir starfsmenn stefnda hafi starfað samkvæmt kjarasamningi stefnanda, bæði félagsbundnir, ófélagsbundnir og einnig þeir starfsmenn stefnda, sem voru félagsmenn í öðrum stéttarfélögum. Á þessu sé allur munur, þar sem þeir starfsmenn stefnda, sem ekki hafi lagt niður vinnu í verkfallinu, hafi ekki starfað fyrir verkfall eftir kjarasamningi annars stéttarfélags við hlið félagsmanna stefnanda, sem störfuðu á kjarasamningi stefnanda og stefnda, Samtaka atvinnulífsins. Af þeim sökum taki ekki niðurstaða þessara tilgreindu Félagsdóma til þess tilviks, sem hér sé deilt um. Þvert á móti hafi allir starfsmenn stefnda, sem unnu við bifreiðaakstur starfað eftir sama kjarasamningi, þ.e. kjarasamningi stefnanda. Þetta geri það að verkum að stefndi braut í bága við 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að stöðva ekki alla starfsemi sína, þegar verkfall stefnanda hófst þann 8. júní 2000, heldur taka að greiða eftir öðrum kjarasamningi. Krafa stefnanda lýtur m.a. að viðurkenningu á þessu broti stefnda, Allrahanda/Ísferða ehf.

Stefnandi byggir kröfur sínar m.a. á lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, 18. gr. og 65. gr. Þá er byggt á 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. og kjarasamningi Bifreiðastjórafélagsins Sleipnis og Samtaka atvinnulífsins. Krafan um málskostnað er byggð á 65. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1988.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er tekið fram um formhlið málsins að stefnandi vilji með kröfugerð sinni fá lögfræðilegt álit á því hverjir megi vinna í næsta verkfalli stefnanda. Stefnandi vilji fá dóm Félagsdóms sem hann geti túlkað svo, að hann megi stöðva alla hópferðabifreiðastjóra í öðrum stéttarfélögum og ófélagsbundna menn í næsta verkfalli sínu. Allar kröfurnar séu því almennt orðaðar og engin dæmi séu tilgreind um það hvernig stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., hafi brotið gegn ákvæðum 18. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur í vinnustöðvun stefnanda sem stóð frá 8. júní til 16. júlí árið 2000. Kröfugerð og málatilbúnaður sé ekki í samræmi við 1. mgr. 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um sakarefni og stefnur. Stefndi telur því að dómurinn eigi að taka það til sérstakrar athugunar hvort ekki beri að vísa þessu máli ex officio frá dómi, sbr. 100. gr. fyrrnefndra laga. Málið hafi enga almenna þýðingu fyrir verkalýðshreyfinguna, eins og látið sé í veðri vaka í stefnu. Gögn málsins og málsástæður í stefnu þar sem meðal annars sé byggt á lögum ASÍ sýni hins vegar að ágreiningur sé milli stefnanda og annarra stéttarfélaga innan ASÍ um stefnukröfurnar.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi hvorki brotið gegn ákvæðum kjarasamnings SA við stefnanda né lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Lýsing stefnanda á aðdraganda og ástæðum úrsagna starfsmanna stefnda úr Bsf. Sleipni sé röng.

Hindrunaraðgerðir verkfallsvarða stefnanda gegn bifreiðastjórum í öðrum stéttarfélögum og ófélagsbundnum aðilum í verkfalli Bsf. Sleipnis, sem stóð frá 8. júní til 16. júlí 2000 hafi hins vegar verið ólögmætar, eins og staðfest hafi verið í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí 2000. Aðgerðirnar hafi ekki byggst á neinum réttarheimildum og verið gróft brot á atvinnufrelsi þeirra einstaklinga, sem ekki voru félagsbundnir í Bifreiðastjórafélaginu Sleipni og rétti þeirra til að velja sér stéttarfélag skv. ákvæðum laga nr. 80/1938 og stjórnarskrá.

Öll kröfugerð stefnanda í málinu beri þess vott að stefnandi virði ekki lögbundinn og samningsbundinn rétt hópferðabifreiðastjóra til að vera í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ rétt þeirra til að starfa í friði og til að taka laun samkvæmt kjarasamningum þessara félaga. Allar stefnukröfurnar séu nátengdar og hafi það sameiginlega markmið að fá það viðurkennt að stefnandi hafi eitt stéttarfélaga forgangs- og samningsrétt vegna hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra. Verði fallist á þessa kröfugerð jafngildir það því að aðildarskylda sé að Bsf. Sleipni á félagssvæði Sleipnis, sem dæmd var ólögmæt með dómi Héraðsdóms Rvk. frá 14. júlí 2000 vegna þess að forgangsréttarákvæði kjarasamnings aðila braut í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og lög ASÍ.

Samkvæmt 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 sé launafólki tryggður réttur til aðildar að stéttarfélagi. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994, sé óheimilt að skylda mann til aðildar að stéttarfélagi. Samkvæmt reglum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, feli félagafrelsið ekki aðeins í sér rétt til að ganga í stéttarfélög, heldur einnig að eiga val um það í hvaða félög menn ganga, sbr. 2. gr. ILO samþykktar nr. 87 um félagafrelsi.

Kröfur stefnanda í heild sinni feli efnislega í sér aðför að þessum grundvallarrétti launafólks og samningsbundnum rétti annarra stéttarfélaga til að taka við bifreiðastjórum samkvæmt kjarasamningum þeirra við SA. Í málatilbúnaði stefnanda felist að hann sættir sig einfaldlega ekki við að breyting hafi orðið á kjarasamningsaðild starfsmanna stefnda þrátt fyrir félagaskiptin. Hann byggi á því að þeir séu áfram bundnir af kjarasamningi Sleipnis, þrátt fyrir félagaskiptin, sem "heimili" Sleipni á grundvelli 18. gr. að stöðva þá í verkfalli sínu.

Staðreyndin sé hins vegar sú að eftir félagaskiptin fari annað stéttarfélag með samningsaðild vegna starfsmanna stefnda og laun þeirra hafi breyst í samræmi við kjarasamninga nýja félagsins og þess landssambands, sem stéttarfélögin hafi átt aðild að, eins og framlagðir launaseðlar sýni. Því fái tilvísun stefnanda til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 alls ekki staðist, þar eð starfsmennirnir hafi eftir félagaskiptin ekki verið lengur félagsmenn í Bsf. Sleipni. Þeir hafi heldur ekki unnið lengur eftir kjarasamningi Sleipnis og því sé tilvísun stefnanda til Fd. í málinu nr. 2/1976 á sama hátt röng.

Stefnda hafi sem atvinnurekanda verið með öllu óheimilt að hafa afskipti af ákvörðun starfsmanna sinna um félagaskipti fyrir eða eftir verkfall Sleipnis. Úrsagnir úr félaginu á meðan verkfallið stóð yfir hefðu hins vegar verið gildislausar en slíkt hafi ekki átt sér stað. Markmið kröfugerðar stefnanda í þessu máli og fyrra dómsmáli sé að fá félagsskipti allra þeirra félagsmanna, sem gengu úr Bsf. Sleipni bæði fyrir og eftir verkfallið, dæmd ólögleg og kjarasamningabrot.

Kröfugerðin sé sérstaklega undarleg í ljósi þess að um rétt launafólks til velja sér stéttarfélag sé stefnanda fullkunnugt. Um það beri Félagsdómsmál stefnanda gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar vitni, enda sé hún til komin vegna inngöngu nokkurra strætisvagnabifreiðastjóra sem starfa hjá SVR í félagsskap stefnanda, þrátt fyrir að Starfmannafélag Reykjavíkurborgar hafi um áratugaskeið eitt félaga hlítt kjarasamningum við Strætisvagna Reykjavíkur.

Á ákvörðun sinni um félagsskipti hafi starfsmenn stefnda enga skýringu þurft að gefa, ef eftir henni hefði verið leitað. Þar virðist þó langvarandi óánægja þeirra með félagsskap stefnanda hafa skipt máli. Þau stéttarfélög sem starfsmenn stefnda gengu í voru öll í ASÍ og höfðu einnig nokkru áður samið um breytingar á launakjörum félagsmanna sinna í almennum kjarasamningum. Engar kaupbreytingar hafi hins vegar átt sér stað samkvæmt kjarasamningi stefnanda, enda hafi hann verið laus síðan 15. febrúar 2000.

Þessa ákvörðun um félagsskipti hafi starfsmenn tilkynnt bæði stefnanda og stefnda bréflega. Hún hafi engum athugasemdum eða andmælum sætt hjá stefnanda enda í alla staði lögmæt. Strax í maí 2000 hafi stefnandi þannig vitað um afstöðu margra félagsmanna sinna til félagsins og kjarakrafna þess. Jafnframt hafi formanni stefnanda, Óskari Stefánssyni, verið gefinn kostur á að ræða úrsagnirnar á fundi starfsmannafélags stefnda áður en verkfall skall á. Formanni stefnanda virðist hins vegar á þessum tíma hafa verið sama um þessar úrsagnir félagsmanna sinna. Starfsmannafundurinn þar sem formaður Sleipnis hafi verið viðstaddur hafi ekki leitt til neinna viðbragða félagsins eða mótmæla til Allrahanda/Ísferða ehf. eða SA, þar sem lögmæti eða gildi úrsagnanna væri mótmælt. Það sé því rangt að félagsskipti hafi ekki átt sér stað eins og nú sé haldið fram í stefnu. Það sýni framlagðir launaseðlar starfsmanna og skilagreinar til stéttarfélagsins Eflingar. Fullyrðingar um að starfsmennirnir teljist "ófélagsbundnir" fái því ekki staðist, enda geti réttarstaða starfsmannanna ekki breyst við það eitt að stefndi hafi ekki skilað félagsgjöldunum á réttum gjalddögum.

Fullyrðingar stefnanda um að stefndi hafi skipt um og hlítt öðrum kjarasamningi á gildistíma kjarasamnings við stefnanda fái heldur ekki staðist. Í fyrsta lagi báðu starfsmennirnir um félagsskiptin og að greitt yrði eftir ákveðnum samningi, sem hafi falið í sér hærri laun en samningur Sleipnis, og í öðru lagi hafi gildistími kjarasamningsins VSÍ (nú SA) við Bsf. Sleipni verið útrunninn, því samningurinn varð laus þann 15. febrúar 2000. Stefndi beri enga ábyrgð á úrsögnum starfsmanna stefnda úr Sleipni, eins og haldið sé fram í stefnu. Þessar fullyrðingar séu algerlega ósannaðar. Stefnandi hafi sjálfur stuðlað að félagaskiptum starfsmanna stefnda. Úrsagnirnar séu alls ekki bundnar við stefnda eitt fyrirtækja, eins og gögn málsins sýni og þær hafi haldið áfram eftir að verkfalli stefnanda lauk.

Við flutning í annað stéttarfélag hafi starfsmenn stefnda öðlast aðild að kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Ráðningarkjör starfsmanna hafi breyst í samræmi við þær launahækkanir sem þessir kjarasamningar kváðu á um og þeir hafi jafnframt orðið bundnir friðarskyldu samkvæmt þeim samningi. Þannig hafi verkfall Sleipnis ekki heimilað félagsmönnum annarra stéttarfélaga að leggja strax niður störf, sbr. Fd. II, bls. 63. Sleipnismönnum hafi jafnframt verið óheimilt að hindra félagmenn í öðrum félögum við lögmæt störf sín á vinnustað, sbr. Hrd. 1964, bls. 596 og dómar Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí 2000.

Starfsmönnum stefnda sem voru orðnir félagsbundnir í öðrum stéttarfélögum bifreiðastjóra hafi því verið heimilt að starfa í verkfalli Sleipnis, sbr. Fd. 23. október 1997, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. desember 1997 og dóma frá 14. júlí 2000. Það hafi ekki verið þeirra hlutverk eða lagaskylda að heyja kjarabaráttu fyrir stefnanda, þannig að verkfallið fengi nægilegan "slagkraft" að mati stefnanda.

Nánar um kröfulið 1

Fyrsta krafa stefnanda virðist byggð á þeirri fullyrðingu að engir aðrir kjarasamningar gildi um störf hópferðabifreiðastjóra í Reykjavík heldur en samningur Bsf. Sleipnis við VSÍ frá 21. júní 1997. Þessi kröfugerð fái ekki staðist því óumdeilt sé að bifreiðastjórar hópferðabíla á höfuðborgarsvæðinu eigi í dag aðild að öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og hafi þegið laun samkvæmt kjarasamningum þeirra félaga, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí 2000. Um það sé hins vegar ekki deilt að samningur SA við Bsf. Sleipni gildi fyrir félagsmenn stefnanda sem starfa hjá aðildarfyrirtækjum stefnda, sbr. framlagt 19. bréf SA til ríkissáttasemjara frá 16. júní 2000. Víðtækara gildissvið hefur kjarasamningur Bsf. Sleipnis ekki.

Viðkomandi stéttarfélag þurfi ekki að semja sérstaklega um launakjör hópferða-sérleyfisbifreiðastjóra, t.d. sérstaka launaflokka en almenn ákvæði samningsins gildi þá um þessi störf sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí 2000 og dóm Fd. 9. mars 1989.

Með kjarasamningi VMSÍ við SA frá 13. apríl hafi ekki verið samið í fyrsta sinn um störf hópferðabifreiðastjóra, sem aðild áttu að stéttarfélögum innan VMSÍ, eins og ranglega sé haldið fram í stefnu, sbr. Fd. 19. janúar 1994 og Fd. 23. október 1997. Tilvísun stefnanda til Fd. 1974, 154, sem fjallar um það, að ekki sé hægt með verkfalli að knýja á um breytingar á óumdeildum forgangsrétti annars stéttarfélags, sé því röng.

Það eina sem gerst hafi með kjarasamningi VMSÍ (nú Starfsgreinasamband Íslands) og SA þann 13. apríl 2000 hafi verið það að samin voru nákvæmari ákvæði um þessi störf í samræmi við eðli þeirra ásamt sérstakri launaflokkun og þau tekin upp í sérstakan kafla. Með þessu hafi VMSÍ verið að árétta að verkalýðsfélög innan sambandsins hefðu í gildi kjarasamninga um þennan hóp bifreiðastjóra eins og aðra. Tilvísun stefnanda til 15. gr. laga ASÍ sé því þýðingarlaus og efnislega gildislaus gagnvart SA um gildi kjarasamninga þess við VMSÍ.

Félagsaðild bifreiðastjóra að öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og kjarasamningum þeirra sé beinlínis viðurkennd í forgangsréttarákvæði kjarasamnings Bifreiðastjóra- félagsins Sleipnis við SA, sbr. gr. 5.1. í kjarasamningi frá 21. júní 1997. Þar segi að vinnuveitandi geti haft bifreiðastjóra í starfi sem séu félagar í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ. Samkvæmt gr. 5.1.1. hafi vinnuveitendur hins vegar ávallt frjálst val um það hvaða félagsmenn þeir taki í vinnu.

Það hafi því ekkert verið athugavert við það að nokkrir starfsmenn stefnda hafi gengið í önnur stéttarfélög innan ASÍ eins og þeir hafi gert, enda hafi slík framkvæmd tíðkast um árabil án nokkurra afskipta stefnanda, eins og fram komi í forsendum dóma Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí 2000.

Í vinnulöggjöfinni séu engar hömlur á því að fleiri en eitt stéttarfélag geti starfað í sömu starfsgrein á sama svæði eða vinnustað. Um það eru fjölmörg dæmi. Hvert stéttarfélag hafi þá sjálfstæðan samningsrétt, verkfallsrétt og kjarasamninga fyrir sína félagsmenn. Stéttarfélagsaðild ákveði samningsforsvar, sbr. t.d. Fd. 17. október 1994 (FÍA gegn Atlanta), Fd. 27. júní 1997 (Sjúkraliðafélag Íslands gegn Reykjanesbæ) og Fd. 23. desember 2000 (Vélstjórafélag Íslands gegn Reykjavíkurborg og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar).

Nánar um kröfulið 2

Kröfuliður þessi byggist einnig á þeim misskilningi að kjarasamningar VMSÍ og aðildarfélaga, þ.m.t. þeirra stéttarfélaga sem starfa á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki tekið til hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra fyrr en með upptöku sérstaks kafla um hópferðabifreiðastjóra í kjarasamningi frá 13. apríl 2000. Kröfulið 1 sé eins og kröfulið 2 ætlað að staðfesta að Reykjavík sé samnings- og forgangsréttarsvæði Sleipnis og þar gildi engir aðrir kjarasamningar en kjarasamningar Bsf. Sleipnis um hópferðabifreiðastjórastörf, sem stefnda sé skylt að fara eftir. Þessar fullyrðingar stefnanda fái ekki staðist sbr. fyrrnefnda dóma Fd. 19. janúar 1994 og Fd. 14. júlí 2000. Störf hópferðabifreiðastjóra séu þannig í eðli sínu að þeir vinni við flutning á farþegum milli staða á landinu. Störf þeirra séu þannig með öllu óháð félagssvæðum stéttarfélaga, sbr. Fd. 23. október 1997.

Kjarasamningur VMSÍ frá 13. apríl 2000 hafi ekki verið takmarkaður landfræðilega enda sé Verkamannasamband Íslands landssamband. Samningar þess taki því efnislega til landsins alls ólíkt því sem gildi um kjarasamning stefnanda, sem ekki sé landsfélag eða landssamband. Ekkert sé því til fyrirstöðu að beita ákvæðum hans hvar sem er á landinu vegna starfa hópferðabifreiðastjóra. Þetta hafi dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. júlí staðfest og þeirri dómsniðurstöðu vilji stefnandi hnekkja með kröfugerð sinni fyrir Félagsdómi, eins og fram kom í stefnu. Stefnandi hafi getað áfrýjað niðurstöðunni til Hæstaréttar en ákveðið að falla frá áfrýjuninni og höfða í stað þess mál fyrir Félagsdómi.

Það að einstök aðildarfélög VMSÍ hafi ekki verið aðilar að þessum kjarasamningi á þessum tíma vegna þess að þau hafi samið á undan, þ.e. í mars 2000, breyti engu um landfræðilegt gildissvið kjarasamnings VMSÍ (nú Starfsgreinasamband Íslands), sbr. nú kjarasamning SA og Starfsgreinasambands Íslands frá 26. janúar 2001.

Stefnandi eigi enga aðild að kjarasamningi SA við VMSÍ frá 13. apríl 2000, sbr. einnig samning frá 26. janúar 2001. Það sé því ekki á valdi stefnanda eða hans hlutverk að túlka efni kjarasamninga SA við önnur stéttarfélög. Aðildarskortur stefnanda að þessari kröfu eigi því einnig að leiða til sýknu.

Nánar um kröfulið 3

Sú krafa stefnanda að stefnda hafi verið óheimilt að greiða starfsmönnum sínum samkvæmt kjarasamningi VMSÍ frá 13. apríl 2000 sé með öllu órökstudd, þótt krafan sé sögð byggð á 4. gr. laga nr. 80/1938, eins og fram komi í stefnu. Fullyrðingar um það að stefndi hafi fengið starfsmenn sína til að segja sig úr Sleipni fyrir verkfallið séu bæði rangar og algerlega ósannaðar. Sama gildi um þær fullyrðingar að aðrir atvinnurekendur neiti að ráða starfsmenn í vinnu, sem séu í Bsf. Sleipni.

Það hafi verið fullkomlega eðlilegt og í samræmi við lög nr. 55/1980 um starfskjör launafólks að stefndi yrði við óskum nokkurra bifreiðastjóra sinna um það að þeir tækju laun samkvæmt nýjum kjarasamningi VMSÍ 13. apríl 2000 eftir félagaskiptin. Stefnanda hafi augljóslega verið heimilt að verða við þessari ósk því kjarasamningur VMSÍ hafi falið í sér hærri laun og réttindi heldur en þeir höfðu haft samkvæmt kjarasamningi Sleipnis. Ástæðan hafi verið einföld, Bsf. Sleipnir hafði ekki samið og hafi raunar enn ekki samið við SA. Þegar af þessari ástæðu hafi stefnda verið heimilt að greiða starfsmönnum sínum samkvæmt þessum kjarasamningi að ósk þeirra. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1838 sé atvinnurekanda einungis óheimilt að greiða lakari laun heldur en kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags kveði á um.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 gildi kjarasamningar aðildarsamtaka vinnumarkaðarins sem lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein. Verkamannasamband Íslands sé landssamband og þegar það hafi tekið upp í kjarasamning sinn sérstakan kafla um hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, þá hafi samningsákvæðin öðlast gildi sem lágmarkskjör í starfsgrein hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, sbr. ársskýrslu SA. Kjarasamningur Sleipnis taki hins vegar aðeins til hópferða- og sérleyfisbifreiðstjóra, sem séu félagsmenn í Bsf. Sleipni enda sé stefnandi ekki landsfélag.

Nánar um kröfulið 4

Stefndi vísar á bug þeim fullyrðingum og málatilbúnaði stefnanda að stefndi hafi brotið 18. gr. laga nr. 80/1938 með því að stöðva ekki alla starfsemi sína eftir að verkfall stefnanda skall á. Í fyrsta lagi hafi starfsemi stefnda nær algerlega lamast frá fyrsta degi verkfalls. Í öðru lagi hafi enginn bifreiðastjóri stefnda starfað, sem var félagsbundinn í Sleipni nema samkvæmt undanþágu vegna aksturs fatlaðra, sem gefin var og enginn ágreiningur hafi verið um.

Sönnunarbyrði um að félagsmenn í Bsf. Sleipni hafi verið að störfum í verkfallinu með vitund stefnda hvíli á stefnanda. Af lyktum Félagsdómsmálsins nr. 13/2000 og málavaxtalýsingu í þessu máli sé ljóst að engin sönnunargögn liggi fyrir um það, þrátt fyrir ítarlega leit stefnanda. Fyrir utan þjónustu við fatlaða, sem ekki hafi verið ágreiningur um, hafi eigendur og stjórnendur fyrirtækisins verið að störfum í verkfallinu, sem til þess höfðu allan rétt samkvæmt lögum og réttarframkvæmd, sbr. Hrd. 1986,1206, Hrd. 1991, 443 og Hrd. 1994, 367.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 80/1938, telst einstaklingur verkfallsbrjótur, ef hann er félagsbundinn í því félagi, sem hefur boðað verkfall, en haldi þrátt fyrir það áfram störfum sínum, eins og fram komi í athugasemdum með lagagreininni. Sú fullyrðing að í íslenskri vinnulöggjöf, 18. gr. laga nr. 80/1938 felist, að allir þeir sem einhvern tímann hafi starfað samkvæmt kjarasamningi þess félags sem boðað hafi verkfall eigi að leggja niður störf í verkfalli, hvort sem þeir eru þá orðnir ófélagsbundnir eða komnir í annað stéttarfélag eigi sér hvorki lagastoð né dómafordæmi.

Tilvísun stefnanda til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks hafi heldur enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Hvorki samningsréttur né aðild að verkfalli verði byggð á þeim lagagrundvelli.

Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 1. og 2. tölulið í dómkröfum stefnanda er þess krafist annars vegar að viðurkennt verði að kjarasamningur stefnanda og Vinnuveitendasambands Íslands, nú Samtaka atvinnulífsins, frá 21. júní 1997 sé "gildandi kjarasamningur og bindandi fyrir aðila innan S.A. um störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra hjá hópferðafyrirtækjum í Reykjavík &," og hins vegar að viðurkennt verði "að kjarasamningur sá, sem nokkur aðildarfélög innan Verkamannasambands Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér þann 13. apríl 2000 um störf hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, taki ekki til hópferða- og sérleyfisbifreiðastjóra, sem starfa hjá hópferðafyrirtækjum í Reykjavík."

Samkvæmt 3. tölulið í dómkröfum stefnanda er krafist viðurkenningar á því að stefnda, Allrahanda/Ísferðum ehf., hafi verið óheimilt að greiða hópferðabifreiðastjórum í starfi hjá félaginu eftir kjarasamningi Verkamannasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 13. apríl 2000. Þá er þess krafist samkvæmt 4. tölulið í dómkröfum stefnanda að viðurkennt verði að stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., hafi brotið gegn 18. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

Stefnandi skýrir 1. tölulið í dómkröfunum með vísun til skuldbindingargildis fyrrgreinds kjarasamnings frá 21. júní 1997, svo sem nánar er lýst. Þá skýrir stefnandi 2. og 3. tölulið í dómkröfunum svo að þeir séu nátengdir 1. tölulið og sé tilgangurinn sá að fá viðurkenningu dómsins á því að fyrrgreindur kjarasamningur frá 13. apríl 2000, sem stefndi, Allrahanda/Ísferðir ehf., greiddi níu starfsmönnum sínum og fyrrum félagsmönnum í stefnanda eftir, gildi ekki í Reykjavík.

Stefnandi skýrir 4. tölulið í dómkröfunum, þar sem vitnað sé til 18. gr. laga nr. 80/1938 á þann veg að sú krafa sé í "beinu samhengi við kröfulið 3, þar sem vitnað er til 4. gr. sömu laga."

Vegna kröfugerðar stefnanda samkvæmt 3. tölulið í dómkröfum hans skal tekið fram að ekki er vísað til 4. gr. laga nr. 80/1938, heldur er sá töluliður sagður nátengdur 1. tölulið dómkrafnanna, eins og fyrr greinir. Að því er varðar ætluð brot stefnda gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 kemur fram af hálfu stefnanda að hann telur þau brot m.a. fólgin í því að greiða starfsmönnum sínum eftir kjarasamningum annarra stéttarfélaga og "með því að stöðva ekki alla starfsemi sína, þegar verkfall stefnanda hófst þann 8. júní 2000, &" svo og að "& fá félagsmenn í félagi stefnanda að segja sig úr Bifreiðastjórafélaginu Sleipni, áður en verkfall skellur á, sbr. hópúrsagnir starfsmanna stefnda úr félagi stefnanda." Er brotalýsing stefnanda að öðru leyti ómarkviss og óglögg.

Af hálfu stefnda er 4. tölulið í dómkröfum stefnanda alfarið mótmælt og bent á að starfsemi fyrirtækisins hafi nær alveg lamast í verkfallinu og enginn félagsmaður stefnanda hafi þá starfað nema samkvæmt undanþágu stefnanda.

Stefnandi hefur upplýst að ekki hafi tekist, þrátt fyrir tilraunir, að afla gagna um að tilgreindir starfsmenn stefnda, sem sögðu sig úr stéttarfélaginu, hefðu ekið í verkfallinu. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en málið sé að þessu leyti í sama fari og það var við lyktir þess máls sem stefnandi höfðaði gegn stefnda fyrir Félagsdómi (mál nr. 13/2000) og lauk með því að stefnandi felldi málið niður. Þá hefur stefnandi ekki heldur rennt stoðum undir staðhæfingar sínar um afskipti stefnda, Allrahanda/ísferða ehf., af úrsögnum félagsmanna stefnanda úr félaginu.

Samkvæmt framansögðu varða dómkröfur stefnanda efnislega annars vegar það að fá almennt viðurkennda túlkun um þýðingu kjarasamnings félagsins gagnvart öðrum kjarasamningum og hins vegar viðurkenningu á því að stefndi hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 án þess að ætluð brot stefnda gegn því lagaákvæði séu nægilega reifuð eða skýrð.

Þá ber einnig að líta til þess að stefnandi máls þessa, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, er aðili að Alþýðusambandi Íslands, eins og fram kemur í 1. gr. laga félagsins. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 skulu sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga reka fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir Félagsdómi. Ekkert er fram komið um það að Alþýðusamband Íslands hafi neitað að höfða mál þetta fyrir dóminum vegna stefnanda, sbr. 2. mgr. 45. gr. laganna.

Þegar kröfugerð stefnanda er virt, einstakir liðir hennar, og hún í heild sinni, verður ekki talið að hún sé dómhæf samkvæmt 1. mgr. 25. og d-, e- og f-liðum 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Vegna þessara annmarka á kröfugerð stefnanda, og þar sem lögboðinnar aðildarreglu samkvæmt 45. gr. laga 80/1938 hefur ekki verið gætt, ber að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.

Eftir þessum málsúrslitum ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem ákveðst 150.000 krónur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Bifreiðastjórafélagið Sleipnir, greiði stefnda, Samtökum atvinnulífsins f.h. Allrahanda/Ísferða ehf., 150.000 krónur í málskostnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira