Hoppa yfir valmynd

1/2010

Mál nr. 1/2010.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

 

Ár 2010, mánudaginn 13. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2010, upphaflega nr. 3/2009, Friðbjörn Ó. Valtýsson, Smáragötu 2, Vestmannaeyjum, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðisnefnd Suðurlands, Austurvegi 56, 800 Selfoss, hér eftir nefndur kærði. Uppkvaðning úrskurðar á endurupptöku málsins hefur tafist vegna anna nefndarmanna.

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

 

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23 febrúar 2009, kærði Friðbjörn Ó. Valtýsson únbogason HH hf.   (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands, (hér eftir nefnd kærði) frá 25. nóvember 2008 um útgáfu starfsleyfis til handa Höllinni í Vestmannaeyjum.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að starfsleyfið verði fellt úr gildi og nýtt stafsleyfi verði ekki veitt fyrr en tryggt er að starfsemin standist skilyrði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. 

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 23. febrúar 2009 ásamt fylgiskjölum. 

2. Athugasemdir kærða dags. 20. apríl  2009.

3. Bréf Umhverfisráðuneytis dags. 2. júlí 2009.

4. Bókun kærða dags. 31. ágúst 2009.

5. Greinargerð kærða dags. 4. febrúar 2010.

6. Andmæli kæranda dags. 18. febrúar 2010.    

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Stjórnsýslukæra barst þann 27. mars 2009. Kveðinn var upp úrskurður í málinu þann 11. júní 2009 þar sem kæru kæranda var vísað frá. Tilmæli bárust frá Umhverfisráðuneyti um endurupptöku málsins þann 2. júlí 2009 og féllst úrskurðarnefndin á endurupptöku málsins. Greinargerð kærða barst þann 4. febrúar 2010 og andmæli kæranda þann 18. febrúar s.á. Kæruheimild er í 4. gr. a, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

III. Málsatvik.

Þann 20. nóvember 2008 var skemmtistaðnum Höllinni í Vestmannaeyjum veitt starfsleyfi. Í því er staðurinn skilgreindur sem krá og kaffihús. Kærandi kvartaði undan ákvörðun kærða um að veita Höllinni framangreint starfsleyfi með tölvupósti þann 30. nóvember 2008 og óskaði eftir frekari upplýsingum sem lágu til grundvallar ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Kærði svaraði þeirri fyrirspurn kæranda með tölvupósti þann 1. desember 2008. Kærandi telur hávaða frá skemmtistaðnum óeðlilega mikinn og kveðst hafa kvartað mikið undan hávaða og ónæði sem má rekja til skemmtistaðarins.

Með stjórnsýslukæru dags. 23. febrúar 2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun kærða um veitingu starfsleyfis til handa Höllinni í Vestmannaeyjum til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæruheimild er í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Kærða var með bréfi dags. 27. mars 2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 20. maí 2009. Úrskurður var kveðinn upp 11. júní s.á. Málið var endurupptekið í júlí og barst greinargerð kærða 4. febrúar 2010 og andmæli kæranda 19. febrúar sama ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda. 

Kærandi er íbúi í efsta hverfi Vestmannaeyja sem er staðsett upp undir Helgafelli. Kærandi kveður mikinn hávaða stafa frá skemmtanahaldi í Höllinni og telur óásættanlegt að skemmtanaleyfi sé veitt til skemmtistaðar sem staðsettur er inni í friðsælu íbúahverfi, en húsveggur Hallarinnar er í um 45 m. fjarlægð frá íbúðarhúsnæði kæranda. 

Kærandi telur sig hafa orðið fyrir miklu ónæði vegna skemmtistaðarins og kveður rafmagnaða rokktónlist sem spiluð sé á staðnum verulega mikla og valdi áberandi miklu ónæði. Þá telur kærandi húsnæðið sem skemmtistaðurinn Höllin er til húsa í vera mjög óvandað, sérstaklega sem skemmtistaður, og bendir á niðurstöðu mælinga sem framkvæmdar voru árið 2002 af Steindóri Guðmundssyni verkfræðingi. Niðurstöðurnar voru á þá leið að hávaði frá starfseminni væru yfir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða og að nauðsynlegar úrbætur yrðu að fara fram á húsnæðinu til að koma í veg fyrir hljóðmengun.

Kærandi telur hávaða frá starfsemi Hallarinnar vera langt umfram það sem telst vera ásættanlegt fyrir íbúa innan íbúahverfis. Kærandi mótmælir harðlega þeim svörum sem borist hafa frá kærða varðandi það að ónæði frá starfseminni valdi ekki ónæði umfram það sem þegar er fyrir í umhverfinu.

 

Kærandi kærði útgáfu starfsleyfis til handa Höllinni frá 20. nóvember 2008 og krefst þess að starfsleyfið verði fellt úr gildi. Kærandi krefst þess að ekki verði gefið út nýtt stafsleyfi fyrr en tryggt er að starfsemi skemmtistaðarins Hallarinnar uppfylli ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða.

Við endurupptöku málsins bárust andmæli frá kæranda dags. 18. febrúar 2010. Þar kveður kærandi enga aðra truflun vera fyrir hendi en starfsemi skemmtistaðarins. Kærandi bendir á að hann búi í sveit og að engin utanaðkomandi hávaðamengun sé fyrir hendi. Kærandi kveður mikið ónæði vera á kvöldin og um helgar þegar dansleikir eru í Höllinni en hávaði sé einnig vegna umferðar bifreiða og gangandi vegfaranda vegna dansleikjanna.

 

Kærandi bendir á að hávaðamengun sé skaðleg fyrir þá sem fyrir henni verða. Kærandi telur með öllu óskiljanlegt af hverju reglugerð um hávaða sé túlkuð starfsleyfishafa í hag en ekki í hag nærliggjandi íbúum. 

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði telur sig hafa uppfyllt rannsóknarskyldur sínar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er varðar mælingar á hávaða frá starfseminni áður en starfsleyfi var veitt. Kærði studdi mælingar sínar við norræna staðla sem Umhverfisstofnun samþykkti að yrðu notaðir við mælingar á hávaða.

Kærði bendir á að mælingar á bakgrunnsgildum sýndu fram á að þau fara niður fyrir 40 dB seint á kvöldin og á nóttunni en fara yfir 70 dB þegar bifreið keyrir framhjá. Niðurstöður mælinga sem kærði hefur látið framkvæma sýna að átta mælingar af 13 eru undir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða, en þá sé bakgrunnsgildið einnig yfir viðmiðunarmörkum. Kærði telur  miðað við þær mælingar á hávaða frá skemmtistaðnum að þá hafi hávaði frá honum minnkað.

Kærði taldi ekki réttlætanlegt að synja skemmtistaðnum um endurnýjun á starfsleyfi á þeim forsendum að fimm mælingar af 13 fóru yfir 40 dB í ljósi þess að hávaði frá umhverfinu mælist á sama tíma vera yfir viðmiðunarmörkum, óháð atburðum sem fóru fram í Höllinni.

Kærði bendir á að ný skilyrði hafi verið sett í samræmd starfsleyfi fyrir þess konar starfsemi sem eiga að koma í veg fyrir hávaða. Skilyrðin kveða á um sérstakan hljóðvaka sem verður að vera til staðar innanhúss. Hljóðvakinn slær út tónlist ef hávaði fer yfir 95 dB sem er skilgreint hámark á hávaða sem má stafa frá skemmtistað samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hávaða. Kærði bendir á að starfsleyfishafi hafi einnig sett sér verklagsreglur til að koma í veg fyrir hávaða.  Kærði telur hvorki sanngjarnt né eðlilegt að synja um útgáfu á starfsleyfi á þeim forsendum að starfsleyfishafi eigi að tryggja lágmarkshljóðstig í nálægri íbúðarbyggð, þegar ljóst er að umhverfishljóð fara auðveldlega yfir þau viðmiðunarmörk. Kærði telur að starfsleyfishafi geti ekki einn borið ábyrgð á því að lækka hávaða sem fyrir hendi er í umhverfinu.

Kærði kveður hávaðamengun frá starfsemi Hallarinnar vera líklega til að vera innan viðmiðunarmarka í íbúðabyggð samkvæmt niðurstöðu þeirra mælinga sem hafa verið  framkvæmdar.

Kærði telur ástand hússins ekki eiga undir verksvið kærða heldur eigi ástand hússins undir byggingarfulltrúa og byggingarreglugerð og ber að vísa kröfum um einangrun húsnæðisins til þess embættis. Kærði telur nálgun sína aðeins varða hávaða sem stafar frá starfsleyfishafa en ekki húsbyggingunni. Kærði bendir hins vegar á að margvíslegar úrbætur hafi verið gerðar á húsnæðinu frá því 2002 til að koma í veg fyrir hávaðamengun.

Kærði bendir á að „ríkjandi tónn“ sé ekki skilgreindur í hávaðareglugerð nr. 724/2008 né öðrum íslenskum reglugerðum. Leitaði kærði til annarra heilbrigðisnefnda um túlkun á framangreindu orðalagi. Í svörum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi „ríkjandi tón- eða högghljóð“ verið skilgreint sem hljóð frá vélbúnaði eins og hávaði frá kælipressum og loftræstingu. Var það niðurstaða kærða að bæta ekki 5dB við mæligildið eins og um ríkjandi tón væri að ræða, en samkvæmt svörum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er það aðeins gert í algerum undantekningartilvikum. Dæmi um slíkt er stöðugur trommusláttur við afró-danskennslu í Kramhúsinu. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur bendir á að venjulegur tónlistarflutningur innihaldi sjaldnast ríkjandi tón- eða högghljóð.

Kærði bendir á að útreikningar á hávaða verði að vera þeir sömu hvort sem um er að ræða  Vestmannaeyjar eða höfuðborgarsvæðið samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint hafi 5 dB ekki verið bætt við mæligildi þar sem þær voru í samræmi við reglugerð, staðla og jafnréttissjónarmið.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði synjað.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Mál þetta snýst um útgáfu á starfsleyfi til handa skemmtistaðnum Höllinni í Vestmannaeyjum útg. af kærða þann 25. nóvember 2008.

Almenna kæruheimild til ráðherra er að finna í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Kæruheimild til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarir er að finna í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar segir að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim, heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til sérstakrar úrskuðarnefndar.

Stjórnsýslukæru kæranda var upphaflega beint til úrskurðarnefndar sem taldi málið ekki eiga undir valdsvið hennar, þar sem kærð var útgáfa starfsleyfis og vísaði kæru kæranda frá með vísan til 2. ml. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998. Umhverfisráðuneytið taldi að ágreiningurinn ætti undir úrskurðarvald hennar samkvæmt 4. gr. a og 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og taldi rétt að endurupptaka málið. Féllst úrskurðarnefndin á endurupptöku með bréfi til kæranda þann 14. júlí 2009.

Í 1. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 kemur fram að markmið laganna sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnareftirlits er kveðið á um setningu reglugerðar um hávaða og titring í 5. gr. laga nr. 7/1998 þar sem fram eiga að koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfishávaða, sbr. 15. tl. 5. gr. sömu laga.  Í 13. gr. laga nr. 7/1998 er svo skýrlega kveðið á um það að heilbrigðisnefndir beri ábyrgð á því að ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim sé fylgt eftir. Eftirlitsskylda kærða er svo ítrekuð í 10. og 11. gr. reglugerðar um hávaða. Í 10. gr. segir að heilbrigðisnefnd eigi að tryggja með nánar tilteknum hætti að hávaði frá skemmtistöðum sé lágmarkaður. Í 11. gr. er svo kveðið á um að heilbrigðisnefndir skuli tryggja framkvæmd reglugerðarinnar við eftirlitsmælingar á hávaða ef þurfa þykir.

Kæra kæranda er tvíþætt. Hún varðar annars vegar húsnæðið sem hýsir skemmtistaðinn Höllina og hins vegar hávaða frá starfseminni. Af gögnum málsins er húsnæði Hallarinnar lýst svo að húsið sé byggt sem límtrésskemma með veggi en þak þess er úr „yleiningum“ frá Límtré hf. Gluggar eru með tvöföldu og þreföldu einangrunargleri. Veggir hússins séu klæddir með 13 mm gipsplötum á grind án steinullar. Framkvæmdir fóru fram árið 2008 þar sem m.a. veggir voru klæddir með gipsi og einangraðir með steinull, þá var loft og þakgluggar klæddir með tvöföldu gipsi og einangrað með steinull. Þá kemur einnig fram að hljóðkerfi hússins hafi verið endurbætt  þannig að hægt er að stjórna betur hljóðstigi innanhúss. Af framangreindu er ljóst að úrbætur hafa átt sér stað á húsnæðinu sem eru allar til þess fallnar að koma í veg fyrir eða a.m.k. takmarka hljóðmengun. Framangreint er í samræmi við 8. gr. reglugerðar um hávaða. Þá verður að fallast á það með kærða að ágallar á húsnæðinu eiga undir byggingarfulltrúa og byggingarreglugerð og kemur það því ekki frekar til skoðunar hér.

Í viðauka við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða er að finna töflu nr. III um viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá atvinnustarfsemi. Viðmiðunarmörk hávaða við húsvegg íbúðarhúss eru 50 dB, inni í húsi 30 dB og yfir nótt 40 dB.  Í sama viðauka er að finna töflu nr. V er varðar viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá samkomum þar sem fólk dvelur í skamman tíma. Í töflu V. má jafngildishljóðstig inni á skemmtistaðnum ekki vera hærri en 95 dB og hámarkshljóðstig má ekki vera yfir 110 dB.  Í gögnum málsins kemur fram að mælingar hafi verið framkvæmdar af kærða í og við Höllina. Þar kemur fram að úti við heimili kæranda hafi hávaði verið mældur mestur 60,9 dB og minnstur 35,6 dB. Inni á skemmtistaðnum hafi hávaði minnstur 83,3 dB og mestur 103 dB. Samkvæmt framangreindri töflu má hljóðmengun á skemmtistað ekki fara yfir 95 dB. Af gögnum málsins má ráða að eitt skipti hafi hávaðinn farið umfram 95 dB. Í gögnum kærða kemur fram að hljóðmælingar voru framkvæmdar við hús kæranda í nokkur skipti árið 2008 og einnig í og við Höllina. Mældist jafngildishljóðstig 44,0 dB og hámarkshljóðstig 50,8 en voru hljóð frá hljómsveit og bílaumferð ríkjandi hljóð við mælinguna. Af framangreindum mælingum er ljóst að hávaði vegna starfsemi Hallarinnar fer ekki fram úr viðurkenndum lágmarksviðmiðum reglugerðar um hávaða. Til að takmarka enn frekar hávaða frá skemmtistaðnum hafa verklagsreglur verið settar fyrir skemmtistaðinn. Þær kveða á um skyldu hljóðmanns um að stilla hljóðvaka og hljóðkerfi þannig að skilyrði reglugerðar um hávaða séu uppfyllt. Þá hafa einnig verið sett samræmd starfsskilyrði fyrir samkomuhús, þar sem skýrlega er kveðið á um það að hljóðkerfi skuli ætíð að vera þannig tengt við hljóðvaka að hljóð verði aldrei meira en 95 dB, sem er hámark samkvæmt títtnefndri reglugerð um hávaða. Allt framangreint er til þess fallið að takmarka hávaða og hávaðamengun og uppfylla þannig skilyrði reglugerðar um hávaða og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á kröfur kæranda um að fella ákvörðun kærða um útgáfu á starfsleyfi til handa Höllinni Vestmannaeyjum úr gildi. Er það gert á þeim forsendum að hávaði frá skemmtistaðnum Höllinni fer ekki yfir viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða. Úrbætur hafa farið fram á húsnæði Hallarinnar, verklagsreglur og samræmdar reglur um starfsskilyrði hafa verið settar, allt til að takmarka hávaða. Með því verður að telja að kröfum kæranda í stjórnsýslukæru sé mætt um að starfsleyfi Hallarinnar uppfylli ákvæði reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

                                                            Úrskurðarorð:                                                           

Ekki er fallist á kröfur kæranda um að starfsleyfi til handa skemmtistaðnum Höllinni Vestmannaeyjum verði fellt úr gildi.

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira