Hoppa yfir valmynd

18/2011

Mál nr. 18/2011.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2011, mánudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Arndís Soffía Sigurðardóttir. Fyrir var tekið mál nr. 18/2011 Sigurbjörn Hjaltason, kt. 100658-5429, Kiðafelli 2, Kjósarhreppi gegn heilbrigðiseftirliti Vesturlands.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 26. júlí 2011, kærði Sigurbjörn Hjaltason (hér eftir nefndur kærandi) ólöglega förgun úrgangs í flæðigryfju á Grundartanga. Kæru sinni beindi kærandi til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 1. september 2011, þar sem fram kom að nánar tiltekið væri um að ræða kröfu um að meðhöndlun úrgangs og spilliefna á Grundartanga yrði í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003. Á þeim grundvelli og samkvæmt ákvæði 2. málsliðar 2. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs leit úrskurðarnefndin svo á að kæran beindist að heilbrigðiseftirliti Vesturlands (hér eftir nefnt kærði). Af hálfu kærða er því haldið fram að málinu sé lokið af hans hálfu þar sem engin gögn sé að finna á viðkomandi svæði og engin merki um að urðun hafi þar átt sér stað.

II. Málsmeðferð

Kærandi málsins beindi kæru sinni, eins og fyrr segir til umhverfisráðuneytisins sem framsendi erindið úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með bréfi, dags. 1. september 2011. Kæran byggir á kæruheimild í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. september 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Kærði gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum í greinargerð, dags. 14. september 2011. Úrskurðarnefndin kynnti kæranda greinargerð kærða og gaf honum kost á að koma á framfæri frekari athugasemdum af sinni hálfu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 29. september 2011. Auk framangreindra gagna er meðal gagna málsins bréf Umhverfisstofnunar, dags. 19. júlí 2011, sem stofnunin sendi umhverfisráðuneytinu að ósk ráðuneytisins áður en ráðuneytið framsendi kæru málsins til úrskurðarnefndarinnar.

III. Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum munu málsatvik hafa verið með þeim hætti að kærandi varð var við urðun bíldekkja á Grundartanga á svæði sem hann taldi vera flæðigryfju. Var upplýsingum þess efnis komið á framfæri við Umhverfisstofnun þann 24. júní 2011. Umhverfisstofnun setti sig í samband við Norðurál á Grundartanga og fékk þaðan upplýsingar um að umrædd urðun hefði átt sér stað á svæði utan við athafnasvæði Norðuráls, nánar tiltekið á svæði Faxaflóahafna sem ekki væri afgrit. Umhverfisstofnun mun þá hafa framsent erindið til hafnarstjórnar Faxaflóahafna og heilbrigðisnefndar Vesturlands. Af hálfu heilbrigðiseftirlitins var farið á vettvang þann 28. júní 2011 og hafði hreinsun þá farið fram.

IV. Málsátæður og rök kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann, ásamt tveimur öðrum einstaklingum, hafi orðið vitni að urðun bíldekkja í flæðigryfju Faxaflóahafna á Grundartanga. Kveður kærandi að álver Norðuráls hafi samkvæmt starfsleyfi heimild til að urða úrgang í flæðigryju, en sú heimild taki ekki til endurvinnanlegs úrgangs. Þá kveður hann að óljóst sé hverjir aðrir kunni að hafa slíkt leyfi og að ekki sé vitað að flæðigryfjan hafi sérstakt starfsleyfi sem feli í sér heimild til urðurnar á sorpi, heldur sé rekstur hennar inni í starfsleyfi Norðuráls.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða kemur fram að kærandi geri sér ekki fulla grein fyrir af hverju mál hans sé til úrskurðar hjá úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og tekur fram að ekki verði séð að um ágreining sé að ræða. Síðan segir kærandi að, að því gefnu að Norðurál hafi ekki notað umrædda flæðigryfju og að umrætt svæði tilheyri Faxaflóahöfnum, þá sé ágreiningslaust að Faxaflóahafnir hafi enga heimild til urðunar úrgangs á viðkomandi hafnarsvæði. Kveður kærandi það vera eðlilega niðurstöðu málsins að kærði grípi til viðurlaga gagnvart Faxaflóahöfnum vegna ólöglegrar förgunar og stöðvi þá þegar alla losnun í umrædda flæðigryfju/fyllingarsvæði, auk þess sem fyrirtækinu verði gert að sækja um starfsleyfi fyrir áframhaldandi losun á svæðinu. Þá kveður kærandi að upplýst hafi verið að ýmsum "burðarhæfum" úrgangi sé fargað í flæðigryfjuna/fyllingarsvæðið og að ótækt sé að fyrirtækið hafi frjálsar hendur í þeim efnum án gildra leyfa og eftirlits.

Í athugasemdunum segir kærandi jafnframt að samkvæmt myndum sem teknar hafi verið með þriggja vikna millibili sumarið 2011 sé ljóst að urðun í flæðigryfjuna/fyllingarsvæðið hafi verið eftirlitslaust um langt skeið og með öllu óljóst sé hvaða efni og hvaða úrgangi hafi verið fargað á umræddum stað síðustu misseri. Heldur kærandi því fram að eftirlit kærða hafi verið ábótavant og athafnir Faxaflóahafna ólögmætar.

V. Málsástæður og rök kærða

Í greinargerð kærða segir að kærða hafi þann 24. júní 2011 borist tölvupóstur frá Umhverfisstofnun þess efnis að kvörtun hefði borist vegna rusls í fjörunni við Grundartanga, starfsmenn kærða hafi farið á Grundartanga þann 28. júní 2011 og fundið út hvar meintur úrgangur hefði legið, en greinileg merki hafi verið um að hreinsun hefði farið fram í fjöruborðinu. Töldu starfsmenn kærða þá að ekkert væri frekar hægt að gera í málinu þar sem engin gögn væru til staðar til að fylgja eftir. Kærða hefði nokkru síðar borist upplýsingar frá Faxaflóahöfnum um að verktakar á svæðinu hefðu í heimildarleysi kastað úrgangi í fjöruna, þeim hafi verið skipað að hreinsa til eftir sig og það hefði verið gert.

Þá segir í greinargerð kærða að umrætt svæði á Grundartanga sé ætlað sem flæðigryfja, en hafi ekki verið tekið í notkun sem slíkt og jafnframt að framkvæmdum við þá flæðigryfju sé ekki að fullu lokið.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 1. mgr. 39. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 er kveðið á um að rísi ágreiningur, um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða samþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda, sé heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á grundvelli þessa ákvæðis var mál þetta framsent úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir til úrlausnar. Af málatilbúnaði verður ráðið að málið varði losun úrgangs á svæði við Grundartanga sumarið 2011, þar sem slík losun var óheimil, svo og ágreining um hvort eftirlit kærða á umræddu svæði hafi verið ábótavant eða ekki.

Fyrir liggja upplýsingar um að úrgangur hafi verið losaður í fjörunni við Grundartanga sumarið 2011, á svæði sem ekki var til þess ætlað og jafnframt að sá úrgangur hafi verið hreinsaður úr fjörunni. Losun úrgangs á svæði þar sem slík losun er ekki heimil brýtur gegn ákvæðum 10. gr. laga um meðhöndlun úrgangs þar sem segir í 1. og 2. mgr. að allur úrgangur skuli færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð eftir nánari ákvæðum og að óheimilt sé að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýtum á umhverfinu. Brot á þessum ákvæðum laga um meðhöndlun úrgangs geta varðað viðurlögum samkvæmt ákvæði 40. gr. laganna. Valdsvið úrskurðarnefndarinnar tekur hins vegar ekki til álagningar slíkra viðurlaga. Þar sem hreinsun hefur farið fram og ekki liggur fyrir hver stóð að hinn meintu ólögmætu förgun telur úrskurðarnefndin sér ekki fært að leysa úr því álitaefni.

Varðandi eftirlit kærða með umræddu svæði er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé unnt að slá því föstu á grundvelli gagna málsins að eftirlitinu hafi verið ábótavant, enda verður sú skylda ekki lögð á kærða að hann hafi af sjálfsdáðum stöðugt eftirlit með því hvort úrgangur sé losaður á svæðum sem ekki eru ætluð til losunar úrgangs. Þá telur úrskurðarnefndin að kærði hafi brugðist við innan hæfilegs frests er hann fór á vettvang þann 28. júní 2011, fjórum dögum eftir að honum barst tilkynning um hina meintu ólögmætu úrgangslosun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að eftirlit kærða hafi ekki verið ábótavant.

 Úrskurðarorð:

Ekki er fallist á að eftirlit heilbrigðiseftirlits Vesturlands með svæði við Grundartanga, sem sumarið 2011 var ekki ætlað til losunar úrgangs, hafi verið ábótavant.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal

Arndís Soffía Sigurðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira