Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 6/2005: Dómur frá 21. desember 2005

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands f.h. Félags skipstjórnarmanna gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h. Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Soffaníasar Cecilssonar hf.

Ár 2005, miðvikudaginn 21. desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 6/2005:                                                         

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands f.h.

Félags skipstjórnarmanna

(Jónas Þór Jónasson hdl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna

Soffaníasar Cecilssonar hf.

(Magnús Helgi Árnason hdl.)

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R:

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 15. nóvember sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, kt. 520169-3509, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Félags skipstjórnarmanna, kt. 680104-2550, Borgartúni 18, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness, kt. 610100-3410, Grundarbraut 48, Snæfellsbæ, vegna Soffaníasar Cecilssonar hf., kt. 611292-2959, Borgarbraut 1, Grundarfirði.

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að Soffanías Cecilsson hf. hafi átta sinnum brotið gegn ákvæði greinar 3.07 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, með því að tryggja ekki Jónasi Sigmarssyni, kt. 251069-3879, og Kjartani J. Valdimarssyni, kt. 240861-4379, félagsmönnum Félags skipstjórnarmanna, frí frá skipstjórnarstörfum sínum á línu- og netabátnum Grundfirðingi SH-24, skipaskrárnúmer 1202, laugardagana 11. og 25. janúar, 8. og 22. febrúar og 8. og 22. mars 2003 og 14. og 28. febrúar 2004.

Að Soffaníasi Cecilssyni hf. verði gert að greiða Félagi skipstjórnarmanna févíti samtals að fjárhæð 2.903.560 krónur samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem renni í félagssjóð Félags skipstjórnarmanna, vegna átta brota á ákvæðum greinar 3.07 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, með því að veita ekki félagsmönnum Félags skipstjórnarmanna, skipstjóranum Jónasi Sigmarssyni, kt. 251069-3879 og Kjartani J. Valdimarssyni, kt. 240861-4379, 1. stýrimanni, á línu- og netabátnum Grundfirðingi SH-24, skipaskrárnúmer 1202, frí frá störfum dagana 11. og 25. janúar, 8. og 22. febrúar og 8. og 22. mars 2003 og dagana 14. og 28. febrúar 2004.

Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda   

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

 

Málavextir

Í upphafi árs 2004 barst til Félags skipstjórnarmanna kvörtun vegna meintra ítrekaðra brota tiltekinna útvegsmanna á Snæfellsnesi á ákvæðum kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna um helgarfrí á netabátum.  Soffanías Cecilsson hf. var á meðal hinna meintu brotlegu útgerða og voru í því sambandi tilteknir útgerðarhættir línu- og netabátsins Grundfirðings SH-24, skipaskrárnúmer 1202.  Stefnandi heldur því fram að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að útgerðin hafi ítrekað brotið gegn ákvæðum greinar 3.07 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Með bréfi, dags. 9. mars 2004, gerði Félag skipstjórnarmanna kröfu á hendur útgerðinni um greiðslu févítis að fjárhæð 2.903.560 krónur vegna samtals átta brota fyrirsvarsmanna Soffaníasar Cecilssonar hf. á fyrrgreindu kjarasamningsákvæði í útgerð línu- og netabátsins Grundfirðings SH-24.  Kveður stefnandi nokkrar útgerðir hafa fengið sams konar bréf og fyrirsvarsmenn Soffaníasar Cecilssonar hf. í mars 2004. 

Í kjölfar þessa hófust samningaviðræður milli talsmanna þessara útvegsmanna og formanns og framkvæmdastjóra Félags skipstjórnarmanna.  Stefnandi kveður öllum útgerðunum nema Soffaníasi Cecilssyni hf. hafa verið boðið að ljúka málinu með févítisgreiðslu að fjárhæð 500.000 krónur gegn því að láta endanlega af hafnarfrísbrotunum.  Fyrirsvarsmenn fjögurra brotlegra útgerðarfélaga hafi þegið þá sátt og hafi gengið frá sínum málum.  Vegna ítrekaðra brota fyrirsvarsmanna Soffaníasar Cecilssonar hf. á hafnarfrísákvæðunum hafi engin sátt verið boðin í þeirra tilfelli og útgerðin krafin um fullar févítisgreiðslur.  Á það hafi fyrirsvarsmenn útgerðarinnar ekki viljað fallast og því telur stefnandi málshöfðun þessa nauðsynlega.

Stefndi gerir athugasemdir við málsatvikalýsingu stefnanda og bendir á að skipverjar skipsins Grundfirðings SH-24, skipaskrárnúmer 1202, hafi gert samkomulag við stéttarfélög allra skipverja þess efnis að áhöfn skipsins Grundfirðings SH-24 væri skráð á netaveiðar á útilegu og í stað frítöku aðra hverja helgi tæki áhöfn skipsins frí alla sunnudaga. Stéttarfélög hafi ekki gert athugasemd við fyrirkomulag þetta og þá staðreynd að áhöfn væri skráð á netaveiðar á útilegu.

Hásetar og matsveinn hafi fengið skriflega staðfestingu frá verkalýðsfélaginu Stjörnunni, Grundarfirði.  Skipstjóri og yfirvélstjóri skipsins hafi fengið munnlega staðfestingu þess efnis frá félagi skipstjórnarmanna og félagi vélstjóra að ef allir í áhöfn skipsins væru sammála því að skrá skipið á útilegu og frítaka væri á hverjum sunnudegi í stað annarrar hverrar helgar gerðu félögin ekki athugasemdir við fyrirkomulag veiða skipsins.

Þegar þessi heimild lá fyrir frá stéttarfélögum skipverja hafi áhöfn skipsins óskað eftir því við útgerð skipsins, stefnda í þessu máli, að breyta frítöku og hafi stefndi samþykkt þá breytingu þar sem upplýst hafi verið að fyrirkomulag frítöku hentaði skipverjum betur og samkvæmt upplýsingum skipverja hafi legið fyrir samþykki stéttarfélaga; skriflega frá Verkalýðsfélaginu Stjörnunni og munnlega frá Vélstjórafélagi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna. Útgerð skipsins hafi metið það svo að samþykki stéttarfélaga við óskum launþega innan stéttarfélags jafngilti samningi um kjör svo fremi að útgerðin samþykkti ósk launþegans.

       

Málsástæður stefnanda og lagarök

Byggt er á því af hálfu stefnanda að Soffanías Cecilsson hf. hafi brotið gegn ákvæðum greinar 3.07 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands í útgerð línu- og netabátsins Grundfirðings SH-24, skipaskrárnúmer 1202, fiskveiðiárið 1. september 2002 til 31. ágúst 2003 og fiskveiðiárið 1. september 2003 til 31. ágúst 2004.

Samkvæmt ákvæðum greinar 3.07 skuli vera helgarfrí á netabátum aðra hverja helgi frá upphafi til loka netavertíðar og skuli helgarfrí vera laugardagur og sunnudagur og aldrei teljast minna en tveir sólarhringar eftir að allri vinnu við skipið er lokið.

Fiskveiðiárið 1. september 2002 til 31. ágúst 2003 sé fyrsta löndun Grundfirðings SH-24, eftir áramótin 2002/2003, tilgreind 5. janúar 2003 sem var sunnudagur.  Fyrsta helgarfríið hafi því átt að vera um helgina 11. og 12. janúar 2003 en landað var úr bátnum laugardaginn 11. janúar 2003.  Sé hér um fyrsta kjarasamningsbrot útgerðarinnar að ræða.  Halda mátti bátnum úti til veiða helgina 18. og 19. janúar 2003 og hafi svo verið gert enda hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 18. janúar 2003.  Frí hafi átt að vera helgina 25. og 26. janúar 2003 en landað hafi verið úr bátnum laugardaginn 25. janúar 2003.  Sé hér því um annað kjarasamningsbrot útgerðarinnar að ræða.  Halda mátti bátnum til veiða helgina 1. og 2. febrúar 2003 og hafi svo verið gert enda hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 1. febrúar 2003.  Veita átti hafnarfrí helgina 8. og 9. febrúar 2003 en svo hafi ekki verið gert og hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 8. febrúar 2003.  Sé hér því um þriðja kjarasamingsbrot útgerðarinnar að ræða.  Halda mátti bátnum út til veiða helgina 15. og 16. febrúar 2003 og hafi svo verið gert enda hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 15. febrúar 2003.  Veita átti helgarfrí 22. og 23. febrúar 2003 en það hafi ekki verið gert og hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 22. febrúar 2004.  Sé hér á ferðinni fjórða kjarasamningsbrot útgerðarinnar.  Halda mátti bátnum út til veiða helgina 1. og 2. mars 2003 og hafi það verið gert enda hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 1. mars 2003.  Veita átti helgarfrí 8. og 9. mars 2004 en það hafi ekki verið gert og hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 8. mars 2004.  Hér sé á ferðinni fimmta kjarasamningsbrot útgerðarinnar.  Halda mátti bátnum út til veiða helgina 15. og 16. mars 2003 og hafi það verið gert enda hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 15. mars 2003.  Veita átti helgarfrí 22. og 23. mars 2003 en það hafi ekki gert og hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 22. mars 2003.  Hér sé því á ferðinni sjötta kjarasamningsbrot útgerðarinnar.

Á árinu 2004 hafi fyrst verið landað úr bátnum að aflokinni veiðiferð þar sem veitt var í net mánudaginn 2. febrúar.  Landað hafi verið úr bátnum laugardaginn 7. febrúar og hafi því átt að veita helgarfrí 14. og 15. febrúar.  Það hafi ekki verið gert og hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 14. febrúar 2004.  Hér hafi útgerðin brotið af sér í sjöunda sinn.  Halda mátti skipinu til veiða helgina 21. og 22. febrúar og hafi það verið gert enda hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 21. febrúar 2004.  Taka átti helgarfrí 28. og 29. febrúar en það hafi ekki verið gert og hafi verið landað úr bátnum laugardaginn 28. febrúar 2004.  Hér sé því á ferðinni áttunda kjarasamningsbrot útgerðarinnar. 

Jónas Sigmarsson, kt. 251069-3879, hafi verið skipstjóri á Grundfirðingi SH-24 þegar framangreind átta kjarasamningsbrot voru framin og Kjartan J. Valdimarsson, kt. 240861-4379, hafi verið 1. stýrimaður en skipstjórnarmennirnir séu báðir félagsmenn Félags skipstjórnarmanna.

Einstakir skipverjar, eða eftir atvikum meirihluti skipverja, geti ekki vikið nefndum ákvæðum í kjarasamningi aðila til hliðar, þótt vilji hefði verið til þess, með samkomulagi við útgerð, sbr. ákvæði 1. mgr. greinar 1.52 í kjarasamningnum, þar sem segi orðrétt:

Sérsamningar milli einstakra útgerðarmanna og viðkomandi meðlima FFSÍ er hljóða upp á lægri kjör en tekið er fram í samningi þessum eru ógildir.

Þá séu ákvæði kjarasamningsins vernduð af ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en orðrétt hljóði ákvæðið svo:

Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.  Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.

Krafist sé óskerts févítis samkvæmt ákvæði greinar 1.54 í kjarasamningi aðila en þar segi orðrétt:

Brot gegn samningi þessum varða sektum allt að kr. 300.057,00, er renni í félagssjóð viðkomandi félags.  Sektarupphæðin skal síðan hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins. 

Við endurútgáfu kjarasamningsins milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hafi gleymst að uppfæra ákvæði greinar 1.54, en févíti samkvæmt ákvæðinu nemi nú allt að 362.944 krónum.  Til stuðnings þeirri fullyrðingu vísist til úrskurðar gerðardóms samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001, sem kveðinn var upp 30. júní 2001.  Þannig segi undir lið 1 á bls. 21, að hámarksfévíti fyrir brot á samningnum hækki um 10% við gildistöku úrskurðarins 30. júní 2001.

Fyrir gildistöku framangreinds úrskurðar hafi verið í gildi kjarasamningur milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands frá árinu 1998.  Samkvæmt grein 1.53 í þeim samningi hafi févítið (sektir) numið 300.057 krónum.  Févítið hafi hækkað um 3,65% 1. janúar 1999, sbr. grein 1.08 í samningnum, eða í 311.009 krónur.  Með framangreindum úrskurði gerðardóms hafi févítisfjárhæðin hækkað um 10% frá 30. júní 2001 að telja eða í 342.110 krónur.  Samkvæmt úrskurðinum hafi févítið hækkað um 3% 1. janúar 2002 eða í 352.373 krónur og aftur um 3% 1. janúar 2003 eða í 362.944 krónur og sé það févítiskrafa þessa máls.

Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur reki félög, sem ekki séu meðlimir sambandanna, mál sín og meðlima sinna.  Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé það verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísi út af kærum um brot á lögunum og tjóni sem orðið hafi vegna ólögmætra vinnustöðvana.  Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísi út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.  Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm af hálfu Farmanna- og fiskimannasambands Íslands f.h. Félags skipstjórnarmanna á hendur Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Soffaníasar Cecilssonar hf.

Stefnandi byggir á ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands greinum 1.52, 1.54 og  grein 3.07.  Þá byggir stefnandi á 44. og 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, ásamt síðari breytingum og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldurtryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993.  Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. EML. nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Aðalkrafa stefnanda

Sýknukröfu sína styður stefndi þeim rökum að skipið Grundfirðingur SH-24 og áhöfn skipsins hafi, af skipstjóra skipsins, verið  lögskráð á „útilegu“ samkvæmt grein 3.03 í kjarasamningi.  Samkvæmt 4. mgr. greinar 3.06 ofangreinds kjarasamnings skuli tryggja vélstjórum fjóra frídaga í mánuði.  Félagsmönnum Félags skipstjórnarmanna, þeim Jónasi Sigmarssyni, og Kjartani J. Valdimarssyni, hafi verið tryggðir fjórir frídagar í mánuði í samræmi við ákvæði kjarasamnings þannig að stefndi hafi ekki brotið gegn kjarasamningi stefnanda.

Við landanir 11. janúar 2003, 25. janúar 2003, 8. febrúar 2003, 22. febrúar 2003, 8. mars 2003, 22. mars 2003, 14. febrúar 2004 og 28. febrúar 2004 hafi skipið Grundfirðingur SH-24 og skipverjar skipsins verið skráðir á netaveiðar á útilegu.  Þá hafi stefnandi sjálfur ekki dregið í efa að skipverjar hafi verið skráðir til netaveiða á útilegu.

Skipstjóri Grundfirðings SH-24 hafi óskað efir því að skipið Grundfirðingur SH- 24 væri skráð á útilegu, þar sem á netaveiðum væri oftast komið með afla úr tveimur legum eins og grein 3.03 í kjarasamningi geri ráð fyrir.  Einstaka tilvik gátu komið upp svo að ekki var landað afla úr tveimur legum og vegna þessa hafi félagsmenn stefnanda haft símsamband við framkvæmdastjóra stefnanda.

Félagsmenn stefnanda meti það sjálfir hvort áhöfn sé skráð á útilegu og skrifi þeir ýmist sjálfir undir beiðni um lögskráningu á útilegu eða skipstjóri skipsins fyrir þeirra hönd.  Skipstjóri annist lögskráningu skipverja, sbr. 6. gr. laga 43/1987, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar 880/2001.  Það standi skipstjóra næst að meta hvort skip stundi útileguveiði eða ekki, eins og  grein 3.02 kjarasamnings geri ráð fyrir.  Rök skipstjóra fyrir skráningu Grundfirðings á útilegu komi fram í bréfi til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Vélstjórafélags Íslands, dags. 28. mars 2005, sem undirritað sé af skipstjóra Grundfirðings SH-24.

Stofnast hafi samkomulag milli félagsmanna stefnanda og stefnda um róðralag skipsins Grundfirðings SH-24.  Stéttarfélög áhafnar hafi skuldbundið sig munnlega til þess að gera ekki kröfu á útgerð bátsins ef öll áhöfn hans óskaði eftir því fyrirkomulagi á úthaldi skipsins, sem í útilegu felst.

Það sé grundvallarregla að sekt verði ekki lögð á aðila án sakar, þ.e. gáleysis eða ásetnings.  Undantekningar frá þessari meginreglu, þ.e. hlutlæg ábyrgð, séu fáar og slík ábyrgð rökstudd sérstaklega. Slík rök eigi ekki við varðandi févítisákvæði kjarasamninga, og vísi stefndi t.d. til 13. gr. laga 94/1986 um sakarmat.  Að mati stefnda beri að líta til ákvæðis 2. mgr. 10. gr. laga 7/1936, sbr. 1. mgr. 11. gr. sömu laga. 

Uppgjör skipverja og löndunarfrí hafi tekið mið af þeirri staðreynd að áhöfn skipsins Grundfirðings SH-24 var skráð á útilegu, sbr. grein 3.02 og 3.04 í kjarasamningi.

Þegar stefnandi hafi stefnt máli sínu til Félagsdóms hafi rúm tvö ár verið liðin frá því að elstu meintu kjarasamningsbrot voru framin.  Stefndi geri kröfu til þess aðila sem fari með kröfurétt samkvæmt grein 1.56 í kjarasamningi um févíti, að stefnandi sýni ekki af sér tómlæti eins og hann geri í máli þessu.  Stefnanda hafi verið ljóst þegar félagsmenn hafi haft samband við fulltrúa stefnanda, fyrir netaveiðar árið 2003, að til stæði að gera breytingu á netaúthaldi skipsins Grundfirðings SH-24.  Það hafi gefið stefnanda tilefni til þess að kanna í byrjun árs 2003 hvort úthald skipsins á netavertíð væri í samræmi við það sem stéttarfélagið hefði munnlega samþykkt og gera athugasemd ef svo væri ekki að mati stéttarfélagsins. Allar landanir Grundfirðings SH-24 séu skráðar á lóðskerfi Fiskistofu og séu aðgengilegar stefnanda.

 

Varakrafa stefnda

Varakrafa stefnda um lækkun dómkrafna er studd þeim rökum að ákvörðunin um fyrirkomulag hafnarfría og skráningu skipverja Grundfirðings SH-24 til útileguveiða hafi verið tekin af öllum skipverjum skipsins.  Þá sé ótvírætt að skriflegt samkomulag um fyrirkomulag netaveiða á úthaldi liggi fyrir frá einu af þremur stéttarfélögum skipverja skipsins.  Ágreiningur sé milli félagsmanna Vélstjórafélags Íslands og Félags skipstjórnarmanna um efni þess munnlega samkomulags sem sannanlega hafi verið gert milli fulltrúa stefnanda þessa máls og félagsmanna stefnanda sem ráðnir séu á skipið Grundfirðing SH-24.

Erfitt sé að vita nákvæmlega um efni hins munnlega samkomulags vegna hins langa tíma sem liðinn sé frá því að meint brot voru framin og þar til stefnukrafa kom fram.  Ákvæði gildandi kjarasamnings aðila um sektir í grein 1.54 séu hámarkssektir.

Það sé óeðlilegt að útgerð skipsins, stefnda í þessu máli, verði gert að greiða hámarkssekt þegar ástæða brots liggi í því að óljóst sé um efni samkomulags milli félagsmanna stefnanda og stefnda.  Þá óvissu sé einkum að rekja til þess hve langur tími sé liðinn frá því að atvik þau voru uppi sem stefnandi byggi kröfu sína á.

Í grein 1.54 í kjarasamningi segi: „Brot gegn samningi þessum varða sektum...“    Ef Félagsdómur fallist á rök stefnanda um að brot hafi verið framið þá felist það brot í því að veita ekki umsamin hafnarfrí netavertíðina 2003 og að veita ekki umsamin hafnarfrí netavertíðina 2004.  Skipið Grundfirðingur SH-24 sé að jafnaði á hverju ári í   9 mánuði á línuveiðum og 3 mánuði á netaveiðum. Litið sé á hvert ár sem tvö úthaldstímabil, línuveiðar og netaveiðar.  Ef Félagsdómur meti að útgerð skipsins hafi brotið kjarasamning á netavertíð 2003 þá sé það eitt kjarasamningsbrot. 

Brot samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningi taki að mati stefnanda til netavertíðar sem tímabils en ekki til hverrar löndunar í hafnarfríi,  eins og stefnandi geri ráð fyrir í stefnu.  Sem dæmi megi nefna að í tilvikum þar sem skip séu á sjó umfram hámarks úthald 40 sólarhringa gæti stefnandi allt eins miðað hvert brot við hverja klukkustund sem líði frá þeim tíma að hafnarfrí átti að hefjast.

Stefndi gerir kröfu til þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda  málskostnað sbr. 1. tölulið 130. gr. laga 91/1991.    

Stefndi byggir kröfu um sýknu á ákvæðum laga nr. 91/1991 um sönnun og sönnunargögn, samanber 69. gr. laga nr. 80/1938.  Stefndi byggir á lögum um lögskáningu nr. 43/1987.  Þá byggir stefndi á ákvæði kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einkum greinum 3.03 og 3.04 og varðandi sektir grein 1.54.  Þá styðst stefndi við ákvæði laga nr. 7/1936 um samningsgerð.  Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í máli þessu er um það deilt hvort hið stefnda útgerðarfélag, Soffanías Cecilsson hf., hafi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings milli stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og Landssambands íslenskra útvegsmanna um róðrarfrí á landróðrabátum og helgarfrí, sbr. grein 3.07 í kjarasamningnum, vegna úthalds línu- og netaveiðibátsins Grundfirðings SU-24 með því að tryggja ekki skipstjóra og fyrsta stýrimanni skipsins, félögum í Félagi skipstjórnarmanna, frí tilgreinda daga á árunum 2003 og 2004 í samræmi við greint ákvæði.  Þá er ágreiningur í málinu um ákvörðun sektar (févítis) samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningnum, verði niðurstaðan sú að hið stefnda útgerðarfélag hafi brotið gegn greindu ákvæði kjarasamningsins, sbr. varakröfu stefnda.

Stefnandi telur ótvírætt, miðað við upplýsingar um landanir Grundfirðings SU-24 og lögskráningu á skipið, að skipið hafi stundað landróðra og því eigi grein 3.07 í kjarasamningnum við.  Skráning skipsins í útilegu hafi hér ekki þýðingu, enda verði að taka mið af tilhögun úthalds í raun, auk þess sem engin gögn hafi verið lögð fram um að skilyrðum fyrir útilegu hafi verið fullnægt, sbr. grein 3.03 í kjarasamningnum. Þá er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að viðkomandi stéttarfélag, Félag skipstjórnarmanna, hafi samþykkt tilhögun fría og að samþykki skipverja skipti hér máli, sbr. grein 1.52 í kjarasamningnum og 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, um breytingar á lögum um vinnumarkaðsmál vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.  Af hálfu stefnanda kemur fram að hámarksfjárhæð sektar (févítis) samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningnum nemi 362.944 krónum, að teknu tilliti til hækkana miðað við hækkanir kaupgjaldsákvæða svo sem nánar greinir.  Stefnandi krefst þess að fjárhæð sektar (févítis) verði ákvörðuð 2.903.560 krónur og er sú fjárhæð reiknuð þannig að greind hámarksfjárhæð sektar, 362.944 krónur, er margfölduð með fjölda þeirra tilvika, átta talsins, sem stefnandi telur að hið stefnda útgerðarfélag hafi ekki veitt helgarfrí í samræmi við greint ákvæði kjarasamningsins.

Af hálfu stefnda er aðalkrafan um sýknu í fyrsta lagi á því byggð að greint ákvæði kjarasamningsins eigi ekki við þar sem Grundfirðingur SU-24 hafi stundað útileguveiðar á umræddum tíma, sbr. grein 3.03 í kjarasamningnum, og þess vegna hafi um frí farið eftir grein 3.06 í kjarasamningnum og þau ákvæði verið virt. Varðandi mörk dagróðra og útilegu verði í tilviki greinds skips að horfa til stærðar þess og gerðar og almennra þarfa við úthald þess.  Sérstaklega er vísað til þess að útileguveiðar hafi verið tilgreindar við lögskráningu, sbr. framlagt gagn þar um, sbr. lög nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna.  Þá hafi stofnast samkomulag milli útgerðarinnar og viðkomandi skipverja, auk þess sem munnlegt samkomulag hafi tekist við stéttarfélagið.  Ennfremur er borið við tómlæti af hálfu stefnanda. Viðvíkjandi varakröfu stefnda um lækkun sektar er meðal annars vísað til samkomulags við skipverja og samþykkis stéttarfélaga, auk þess sem stefndi telur að taka beri mið af netavertíðinni í heild við ákvörðun sektar, en ekki miða við hverja löndun, þ.e. meint brot verði virt sem eitt kjarasamningsbrot.

Í grein 3.07 í kjarasamningi aðila er tilgreint að á netabátum skuli vera helgarfrí aðra hverja helgi frá upphafi til loka netavertíðar.  Helgarfrí skuli vera laugardagur og sunnudagur og aldrei teljast minna en tveir sólarhringar eftir að allri vinnu við skipið er lokið.  Í grein 3.06 í kjarasamningnum er fjallað um hafnarfrí á skipum sem stunda veiðar með netum og eru á útilegu og ísa eða salta aflann um borð og landa innanlands eða utan.  Í lokamálsgrein greinarinnar er mælt svo fyrir að skipverjum skuli tryggðir minnst fjórir frídagar í mánuði.  Í 1. mgr. greinar 3.03 í kjarasamningnum eru útilegur skilgreindar svo að útilega teljist þegar komið er með veiði úr tveimur legum minnst, þar af aðra slægða og ísaða.

Þegar litið er til fyrirliggjandi landana Grundfirðings SU-24 á greindum tíma og annarra gagna málsins verður að taka undir það með stefnanda að skipið hafi að meginstefnu til stundað landróðra í raun, enda hefur ekkert komið fram af hálfu stefnda um að skilyrðum greinar 3.03 um útileguveiðar hafi verið fullnægt.  Þá verður ekki önnur ályktun dregin af málatilbúnaði stefnda, sbr. meðal annars það sem fram kom við munnlegan flutning málsins, en að öðrum þræði sé tekið undir það að um dagróðra hafi verið að ræða að nokkru leyti.  Hvað snertir skráningu útileguveiða við lögskráningu þá þykir það atriði ekki geta skipt máli við úrlausn málsins, enda verður ekki séð að slík tilgreining hafi neitt sjálfstætt gildi samkvæmt lögum nr. 43/1987.  Þá verður ekki talið, gegn andmælum stefnanda, að stefndi hafi sýnt fram á að stéttarfélagið, Félag skipstjórnarmanna, hafi samþykkt hina umdeildu tilhögun á fríum sem í máli þessu greinir.  Að því er varðar samkomulag við skipverja, þar á meðal greinda tvo félagsmenn í Félagi skipstjórnarmanna, skipstjóra og fyrsta stýrimann, verður að telja að umrætt ákvæði greinar 3.07 í kjarasamningnum sé skyldubundið og ófrávíkjanlegt ákvæði, sbr. orðalag þess og hagsmuni sem búa að baki ákvæðinu.  Varð ákvæðinu því ekki vikið til hliðar með neinu samkomulagi útgerðar og skipverja. Bar útgerðinni því að sjá til þess að fyrrgreint ákvæði yrði virt.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður að fallast á það með stefnanda að hið stefnda útgerðarfélag hafi brotið gegn grein 3.07 í kjarasamningi aðila í greind skipti.  Verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að það standi í vegi fyrir viðurkenningarkröfu hans í málinu.

Kemur þá til úrlausnar hvort dæma beri hið stefnda útgerðarfélag til greiðslu sektar (févítis) samkvæmt grein 1.54 í kjarasamningnum og ef sú verður niðurstaðan hvernig beri þá að ákvarða fjárhæð sektar.  Samkvæmt ákvæði þessu varða brot gegn samningnum sektum allt að 300.057 krónum er renni í félagssjóð viðkomandi félags. Sektarupphæðina skuli síðan hækka í hlutfalli við kaupgjaldsákvæði samningsins. Frekari ákvæði eru ekki um sekt þessa í kjarasamningnum, hvorki um beitingu hennar almennt né með tilliti til brota á einstökum ákvæðum kjarasamningsins, en ljóst þykir að sektinni er ætlað að tryggja samningsefndir.  Greint sektarákvæði er bersýnilega févítisákvæði á einkaréttarlegum samningsgrundvelli. Með vísan til fortakslauss ákvæðis greinar 1.54 um að kjarasamningsbrot varði sekt, ber að dæma stefnda, Soffanías Cecilsson hf., til greiðslu sektar samkvæmt greindu ákvæði kjarasamningsins.  Kemur þá til úrlausnar ákvörðun sektarfjárhæðar.

Það gefur augaleið að margvísleg álitamál geta komið upp við ákvörðun   sektarfjárhæðar samkvæmt fyrrgreindu ákvæði kjarasamningsins, enda hefur samningurinn að geyma margbrotin og fjölþætt ákvæði um laun og starfskjör svo sem altítt er um kjarasamninga.  Samkvæmt þessu og þar sem ákvæði kjarasamningsins láta alveg ósvarað hvernig beri að virða brot á samningnum með tilliti til ákvörðunar sektar leikur verulegur vafi á því hvernig beri að skilgreina brot í þessu sambandi, þar á meðal hvenær beri að virða fleiri brot heildstætt, þ.e. sem eitt brot, sem kann að koma til álita í máli þessu.  Ljóst er að himinn og haf skilja að sjónarmið málsaðila, samningsaðilanna sjálfra, í máli þessu hvað þetta varðar.  Aðferð stefnanda, sem felst í „kumulatívri“ samlagningu brota stefnda gegn greindu ákvæði kjarasamningsins til ákvörðunar á fjárhæð sektar, þykir byggjast á alltof víðtækri túlkun á hugtakinu brot, enda er með þessari túlkun ekkert tillit tekið til þess að um samkynja og áframhaldandi athafnir var að ræða sem leiddu af skilningi hins stefnda útgerðarfélags á því hvaða ákvæði um frí giltu um veiðar skipsins.  Á hinn bóginn verður að telja að viðhorf stefnda um túlkun, þ.e. að brot á sömu netavertíð skoðist sem eitt brot, feli í sér svo þröngan skilning að með engu móti fái staðist.  Önnur sjónarmið hafa ekki komið fram af hálfu málsaðila.  Í stefnu kemur fram að Félag skipstjórnarmanna samdi við nokkrar útgerðir á Snæfellsnesi um að ljúka málum af sama toga og mál þetta sem hér er til meðferðar með sektargreiðslu að fjárhæð 500.000 krónur hver útgerð gegn því að láta endanlega af hafnarfrísbrotum.  Hinu stefnda útgerðarfélagi hafi hins vegar ekki verið boðin hliðstæð sátt vegna ítrekaðra brota.  Samkvæmt þessu hefur stéttarfélagið tekið útgerðarfélagið út úr vegna slæms „sakarferils“ að því er virðist.  Þótt ekki liggi fyrir nánari upplýsingar um brotaferil í málum greindra útgerða, sem þannig var boðin sátt af hálfu Félags skipstjórnarmanna, þykir þó mega byggja á því að af hálfu stéttarfélagsins liggi engu að síður fyrir mat þess sjálfs á hæfilegri sektarfjárhæð í hliðstæðum tilfellum.  Að því athuguðu og með vísan til þess sem fyrr greinir um túlkun greinds ákvæðis og málatilbúnað í máli þessu þykir eftir öllu atvikum rétt að hafa hliðsjón af þessu og dæma stefnda, Soffanías Cecilsson hf., til greiðslu sektar að fjárhæð 500.000 krónur er renni í félagssjóð Félags skipstjórnarmanna.

Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Soffanías Cecilsson hf., braut átta sinnum gegn ákvæði greinar 3.07 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands með því að tryggja ekki Jónasi Sigmarssyni, kt. 251069-3879, og Kjartani J. Valdimarssyni, kt. 240861-4379, félagsmönnum Félags skipstjórnarmanna, frí frá skipstjórnarstörfum sínum á línu- og netabátnum Grundfirðingi SU-24, skipaskrárnúmer 1202, laugardagana 11. og 25. janúar, 8. og 22. febrúar og 8. og 22. mars 2003 og 14. og 28. febrúar 2004.

Stefndi, Soffanías Cecilsson hf., greiði 500.000 kr. í sekt er renni í félagssjóð Félags skipstjórnarmanna.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness, vegna Soffaníasar Cecilssonar hf., greiði stefnanda, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, fyrir hönd Félags skipstjórnarmanna, 200.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Gunnar Sæmundsson

Valgeir Pálsson

 

                                                               


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira