Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 06050066

Þann 7. desember 2006 var upp kveðinn í ráðuneytinu svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

I. Hin kærða ákvörðun og málsmeðferð.

Umhverfisráðuneytinu hefur borist kæra Varmársamtakanna, Heimis Þórs Tryggvasonar, f.h. Ásgarðs handverkstæðis, Hildar Margrétardóttur f.h. húseigenda og hagsmunaaðila í Álafosskvos svo og Brekkulands 4a og Guðrúnar Ólafsdóttur, Inga Ragnars Pálmarssonar og Ólafar Oddgeirsdóttur vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 22. maí 2006 um matsskyldu vegna tengibrautar frá Vesturlandsvegi um Álafossveg og Helgafellsland, Mosfellsbæ. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að tengibraut frá Vesturlandsvegi um Álafossveg og Helgafellsland sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fram komnar kærur voru sendar til umsagnar Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar, Mosfellsbæjar, Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og Helgafellsbygginga ehf. með bréfum dags. 29. júní 2006 og 8. ágúst 2006.

Umsögn Skipulagsstofnunar barst með bréfi 7. september 2006, umsögn Umhverfisstofnunar með bréfi 28. ágúst 2006, umsögn Mosfellsbæjar með bréfi 28. júlí 2006, umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis með bréfi 19. júlí 2006 og umsögn Helgafellsbygginga ehf. með bréfi 14. júlí 2006. Kærendum voru sendar framangreindar umsagnir til athugasemda með bréfum, 31. ágúst 2006 og 12. september 2006. Athugasemdir frá Varmársamtökum bárust með bréfi 29. september 2006 og frá Hildi Margrétardóttur með bréfi 1. október 2006. Framkvæmdaraðili afhenti ráðuneytinu teikningar vegna fyrirhugaðar framkvæmdar ásamt greinargerð, dags. 9. október 2006 sem sýna grunnmynd og ásýndarmyndir vegna tengibrautarinnar, hljóðútreikninga og landmótun, Myndirnar sýna m.a. lækkun tengibrautarinnar og hvernig fyrirhugaður hleðsluveggur og hljóðveggur komi til með að líta út. Þá afhenti framkvæmdaraðili ráðuneytinu greinargerð dags. 1. desember 2006 um fyrirhugaða lækkun tengibrautarinnar ásamt skýringaruppdrætti.

II. Málsatvik.

 

Framkvæmdaraðili, Helgafellsbyggingar ehf. og Mosfellsbær tilkynntu fyrirhugaða tengibraut frá Vesturlandsvegi um Álafossveg og Helgafellsland í Mosfellsbæ samkvæmt 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 og lið c, 10. tölul. 2. viðauka laganna. Fyrirhugað er að leggja tengibraut frá hringtorginu á Vesturlandsvegi um Álafossveg og inn í fyrirhugaða íbúðarbyggð í Helgafellslandi. Tengibrautin verður á svipuðum stað og núverandi vegstæði Álafossvegar næst Vesturlandsvegi að Brekkulandi. Gert er ráð fyrir einni akrein í hvora átt og er heildarlengd brautarinnar 2.340 m. Gert er ráð fyrir 50 km/klst hámarkshraða frá Vesturlandsvegi að hringtorgi í Helgafellslandi og þar mun vegurinn greinast í tvær 30 km/klst götur sem sameinast á ný í hringtorgi og þaðan mun 50 km/klst vegur liggja áfram til austurs. Umferðarspá gerir ráð fyrir að þegar Helgafellsland er fullbyggt þá verði umferð á kaflanum næst Vesturlandsvegi um 10.000 bílar á sólarhring en nálægt 4.000 bílar á sólarhring á kaflanum við hringtorg í Helgafellslandi þar sem gert er ráð fyrir 30 km/klst. Vegna hæðarmunar milli fyrirhugaðar tengibrautar og tengivegar við Álafosskvos þarf að reisa 2-4 m háan og um 150 m langan varanlegan stoðvegg á móts við Álafosskvos.

Árið 1983 var fyrst gert aðalskipulag fyrir Mosfellsbæ, sbr. aðalskipulag Mosfellsbæjar 1983-2003 og er þar gert ráð fyrir íbúðarhverfi í Helgafellslandi. Árið 1999 hófst vinna við endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar 1992-2012. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 -2024 sem staðfest var 8. júlí 2003 er gert ráð fyrir að tengivegur liggi frá núverandi hringtorgi á Vesturlandsvegi í gegnum Helgafellsland og áfram inn á Hafravatnsveg. Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir því að í framtíðinni verði reist mislæg gatnamót við Vesturlandsveg í stað núverandi hringtorgs. Gerð var breyting á framangreindu aðalskipulagi, sbr. aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024, Helgafellshverfi, sem staðfest var 30. nóvember 2006. Breytingarnar vörðuðu m.a. afmörkun íbúðarsvæðisins í Helgafellslandi. Deiliskipulag fyrir framkvæmdina var auglýst til kynningar í júlí 2006 en þar mun vera fjallað um útfærslu hljóðvarna. Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ er nú unnið að breytingum á hinu auglýsta deiliskipulagi m.a. varðandi hönnun tengivegarins með það að markmið að lækka hann.

 

III. Kröfur kærenda.

 

Kærendur Ásgarður handverkstæði og Hildur Margrétardóttir f.h. húseigenda og hagsmunaaðila í Álafosskvos svo og Brekkulands 4a gera þá kröfu að tengibrautin verði færð af núverandi skipulagssvæði. Kærendur Varmársamtökin og Guðrún Ólafsdóttir, Ingi Ragnar Pálmarsson og Ólöf Oddgeirsdóttir gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði ómerkt og að umhverfisráðherra úrskurði framkvæmdina matsskylda.

IV. Einstök kæruatriði og umsagnir um þau.

 

1. Hljóðvist.

 

Í kæru Varmársamtakanna segir að hljóðútreikningar sem gerðir séu skv. samnorrænu líkani taki ekki mið af íslensku veðurfari, svo sem áhrifum ríkjandi vindátta og rigninga til hækkunar hljóðstigs. Gert sé ráð fyrir að 10.000 bílar, sem gert er ráð fyrir að aki um tengibrautina á sólarhring, aki á leyfilegum ökuhraða og er notkun nagladekkja ekki tekin með í reikningnum. Þá eru í kæru Varmársamtakanna og Hildar Margrétardóttur gerðar athugasemdir við að ekki sé gert ráð fyrir sammögnunaráhrifum frá Vesturlandsvegi né safnvegum í nánd við kvosina. Hljóðstig sé því ekki miðað við raunverulegar aðstæður á svæðinu og standist því forsendur framkvæmdarinnar ekki að þessu leyti. Þá séu ekki gerðar umferðarspár til framtíðar til að leggja mat á þróun umferðarhávaða, heldur sé eingöngu miðað við væntanlega umferð í lok byggingartíma í Helgafellslandi. Kærandi vísar til 5. liðar 5. gr. reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999 þar sem kveðið sé á um að hljóðstig frá umferð miðist við 55dB utanhúss. Þá er vísað til þess að sérfræðingar í hljóðvist telji ásættanlegan umferðarhávaða í íbúðarbyggð vera 45dB. Leiðbeiningargildi Umhverfisstofnunar fyrir nýbyggð hverfi sé einnig 45dB. Telur kærandi að sýnt hafi verið fram á að hávaði í íbúðarbyggð muni fara yfir framangreind viðmiðunarmörk.

Í kæru Guðrúnar Ólafsdóttur og fl. segir að í Brekkulandi og Hagalandi séu hljóðstigsútreikningar yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt reglugerð um hávaða. Í kæru Ásgarðs og Hildar Margrétardóttur segir að ekki hafi verið sýnt fram á að útreikningar um hljóðvist standist kröfur fyrir hús í Álafosskvos. Þá er bent á að í útreikningum sé ekki gerð grein fyrir, að umferðarhljóð sem fari um Álafosskvos vegna tengibrautar muni skella á umhverfinu.

Tveir kærendur gera kröfu um að kortlagning fari fram á hávaða við Vesturlandsveg af þar til bærum aðilum áður en ákvörðun er tekin um lagningu tengibrautarinnar, í samræmi við reglugerð um kortlagningu við hávaða og aðgerðaráætlun, nr. 1000/2005, en hún geri ráð fyrir að hávaði við stóra vegi verði kortlagðir fyrir 30. júní 2007. Þannig yrði lagt mat á áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar áður en ákveðnar eru lítt ígrundaðar framkvæmdir. Við slíka kortlagningu verði að taka tillit til þeirrar miklu hækkunar hljóðstigs sem fylgir því í náinni framtíð að byggja brú og hækka þar með núverandi vegstæði Vesturlandsvegar í um sex metra yfir landi.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að skv. hljóðstigsútreikningum verði hljóðstig yfir viðmiðunarmörkum reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða við núverandi hús við Brekkuland og Hagaland og nokkur hús í fyrirhugaðri íbúðabyggð. Einnig vestast í götu 2 í miðhluta fyrirhugaðrar íbúðabyggðar í Helgafellslandi. Grípa þurfi því til sérstakra aðgerða til að hljóðstig verði innan viðmiðunarmarka skv. reglugerðinni. Í umfjöllun um mótvægisaðgerðir af hálfu framkvæmdaraðila komi fram að gerðar verði manir þar sem hægt er. Umhverfisstofnun bendir á að gera þurfi ráðstafanir varðandi hönnun húsa við götu 2. Þá bendir Umhverfisstofnun á að mjög mikilvægt sé að hljóðvarnir verði hannaðar og kynntar íbúum áður en ákvörðun liggi fyrir enda þekkt að samspil útsýnis og hljóðvistar á upplifun íbúa sé flókið. Varðandi notkun hins samnorræna reiknilíkans við útreikninga á dreifingu hljóðs umhverfis umferðargötur segir að það sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um hávaða og uppfylli því kröfur í íslenskum reglugerðum. Slíkt samhæft líkan geti aldrei náð yfir alla þætti sem hafa áhrif á hljóðvist eða dreifingu hávaða, hvort sem er til lækkunar eða hækkunar og verður því aldrei annað en ákveðin nálgun sem síðar verður að staðreyna með mælingum. Hafa verði í huga að líkanið gefi mat á meðalhávaða en hvorki hæstu né lægstu gildi og að gert sé ráð fyrir halla vegar í útreikningum. Umhverfisstofnun telur að eðlilegt hefði verið að meta sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum, sbr. viðmið í 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Skv. þeim viðmiðunum þurfi að athuga eðli framkvæmdar m.a. með tilliti til sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum og skoða ber áhrif framkvæmdar m.a. í ljósi ólíkra umhverfisáhrifa á tilteknu svæði. Umhverfisstofnun benti á það í umsögn sinni um matsskyldu framkvæmdarinnar að þótt eingöngu tengibrautin væri tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu teldi stofnunin eðlilegt að metin væru áhrif vegaframkvæmda vegna nýrrar íbúðarbyggðar í heild sinni, þar sem um sammögnunaráhrif er að ræða, þ.m.t. á Varmá og umhverfi árinnar. Tvímælalaust hefði þó átt að meta saman áhrif fyrirhugaðrar tengibrautar og nýrrar tengingar við Álafosskvos þar sem tengingin við kvosina væri afleiðing af gerð tengibrautarinnar og í raun órjúfanlegur hluti þeirrar framkvæmdar.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis segir varðandi sammögnunaráhrif að við útreikning á hljóðstigi komi fram í 3. viðauka laga nr. 106/2000 að skoða þurfi sammögnunaráhrif vegna annarra framkvæmda. Framkvæmdaaðilar hafa einungis sýnt fram á að hljóðstig verði innan marka reglugerðar vegna þessarar tilteknu framkvæmdar. Þegar til komi sé það sammagnað hljóðstig á svæðinu sem reglugerðin tekur mið af, þó svo að aðferðafræði útreikninga sem framkvæmdaraðili hefur kynnt séu í samræmi við reglugerð um hávaða. Skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum ætti að taka tillit til sammögnunar vegna byggingu T-gatnamóta sem felur í sér breytta aðkomu að Álafossi auk fyrirhugaðra mislægra gatnamóta á Vesturlandsvegi. Í bréfi Mosfellsbæjar dagsett 8. maí 2006 sé umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis svarað en þar komi fram að sammögnunaráhrifa muni gæta í örfáum húsum næst Vesturlandsvegi. Ekki liggi fyrir hljóðstig við þessi hús ef tekið er tillit til sammögnunar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila hafi verið stuðst við aðferð um útreikninga á dreifingu hljóðs eins og kveðið er á í reglugerð nr. 933/1999 um hávaða. Skipulagsstofnun telur afar mikilvægt að útreikningarnir séu miðaðir við staðalaðstæður líkt og kveðið er á um í samnorræna reiknilíkaninu og gert hefur verið hér á landi við mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda. Ef reiknað er með bleytu, nagladekkjum og miklum vindi þá breytast öll umhverfishljóð til mikilla muna. Náttúrulegt bakgrunnshljóð hækkar þá verulega t.d. vegna hljóðs frá regninu sjálfu, rennandi vatni, skrjáfi í gróðri af völdum vinds og gnauði í mannvirkjum af sömu ástæðu. Einnig hefur nýfallinn snjór og snjóruðningar meðfram vegum mikil dempandi áhrif á útbreiðslu hljóðs. Skipulagsstofnun telur því að það sé afar villandi að búa til aðstæður sem hámarki útbreiðslu hljóðs auk þess sem slíkt er ekki heimilt skv. reglugerð um hávaða. Varðandi sammögnunaráhrif tengibrautarinnar og Vesturlandsvegar þá komi fram í svörum framkvæmdaraðila við umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis að sammögnunaráhrifanna muni gæta í örfáum húsum næst Vesturlandsvegi en á þorra svæðisins séu áhrifin engin m.a. vegna fjarlægðar frá Vesturlandsvegi og þess skjóls sem önnur hús veiti. Einnig hafi hljóð frá Vesturlandsvegi ekki áhrif á sömu hliðar húsa og tengibrautin, nema á gatnamótunum næst Vesturlandsvegi. Þar hafi verið hannaðar manir en framkvæmdum við þær sé ólokið m.a. vegna andstöðu íbúa.

Helgafellsbyggingar ehf. vísa varðandi hljóðvist til greinargerðar, útreikninga og hljóðvistarkorts Fjölhönnunar ehf. Þar kemur fram að umferðarhávaði frá Vesturlandsvegi hafi áhrif á hljóðvist við byggðina næst honum. Ákveðið hafi hins verið að taka ekki með í athugun umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi heldur eingöngu meta umferðarhávaða frá tengibrautinni. Aðstæður séu þannig að hávaði frá Vesturlandsvegi skermist að stórum hluta frá byggðinni næst tengibrautinni, bæði vegna hæðarmunar og byggðarinnar næst Vesturlandsvegi. Til að verjast umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi þurfi að koma fyrir hávaðavörnum meðfram honum, en þær varnir munu ekki hafa mikil áhrif á tengibrautina. Í frekari upplýsingum sem ráðuneytið aflaði sér hjá Fjölhönnun ehf. kom fram að gerð hafi verið gróf skoðun á hvaða áhrif Vesturlandsvegurinn hefði á hljóðvist við hús næst Helgafellsbraut, þ.e. umferðarhávaði reiknaður með umferð á Helgafellsbraut og Vesturlandsvegi á sama tíma.  Sett var inn umferð á Vesturlandsveg miðað við umferðarspá 2012 skv. umferðarspá höfuðborgarsvæðisins. Í ljós hafi komið að þegar Vesturlandsvegurinn var hafður með í útreikningum hafði það einungis áhrif á tvö hús næst Vesturlandsvegi, Hagaland 9 og 7 sem færu þá yfir viðmiðunarmörk reglugerðar. Önnur hús sem liggja meðfram Helgafellsbraut, og eru innan áhrifasvæði hans, séu undir viðmiðunarmörkum reglugerðar. Þá segir að umferðarhávaði frá væntanlegri safngötu ofan við Varmá hafi hverfandi áhrif á hljóðstig við byggðina næst tengibrautinni en hefur áhrif á byggð meðfram safngötunni.

Af hálfu Mosfellsbæjar kemur fram að útreikningar og hljóðvistarkort Fjölhönnunar ehf. sem vann hljóðútreikninga vegna framkvæmdarinnar sýni að hljóðstig vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar fari ekki upp yfir skilgreind mörk hljóðvista, 55dBA í núverandi aðliggjandi byggð. Einungis í jaðri fyrirhugaðar byggðar í Helgafellslandi ásamt svokölluðu auga hverfisins fari mörk hljóðvistar yfir 55dBA og verði gripið til mótvægisaðgerða þar, enda sé um það kvaðir í deiliskipulagi. Í umsögn Mosfellsbæjar til Skipulagsstofnunar dags. 8. maí 2006 segir að varðandi sammögnunaráhrif þú muni þau gæta í örfáum húsum næst Vesturlandsvegi en á þorra svæðisins séu áhrifin engin m.a. vegna fjarlægðar frá Vesturlandsvegi og þess skjóls sem önnur hús veita. Hljóð frá Vesturlandsvegi hafi ekki áhrif á sömu hliðar húsa og tengibrautin, nema á gatnamótum næst Vesturlandsvegi. Þar verði hannaðar manir en framkvæmdum sé ólokið m.a. vegna andstöðu við íbúa.

 

2. Sjónræn áhrif.

 

Varmársamtökin telja að lýsing framkvæmdaraðila á sjónrænum áhrifum tengibrautarinnar uppfylli ekki þær kröfur sem fram koma í e. lið, 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum sem fjallar um þau gögn sem fylgja skuli tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar vegna ákvörðunar um matsskyldu. Þar komi fram að fylgja eigi lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valdi helst áhrifum á umhverfið. Gert sé lítið úr sjónrænum áhrifum sem íbúar kvosarinnar eiga eftir að verða fyrir vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Telur kærandi að þar sem Skipulagsstofnun eigi að taka ákvörðun um matsskyldu á grundvelli framangreindra gagna, sé ljóst að hinn kærði úrskurður sé ólögmætur. Vanræksla á að leggja slíkar upplýsingar fram stangist á við það markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. gr. þeirra, að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar. Ekki sé nægjanlegt að koma með ábendingar til framkvæmdaraðila um að vanda til endanlegrar útlitshönnunar og útfærslu tengibrautarinnar eins og Skipulagsstofnun geri í hinni kærðu ákvörðun. Kynna þurfi á trúverðugan hátt áhrif framkvæmdarinnar og leggja fram gögn sem staðfesti að því markmiði laga um mat á umhverfisáhrifum sé fullnægt að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Kærandi vísar til þess að á móts við gömlu Álafossverksmiðjuna séu ca. 50 m frá bökkum Varmár að lóðarmörkum nærliggjandi húss upp í hlíðina við Brekkuland. Helgunarsvæði framkvæmdarinnar sé 30-50 m og akbrautin sjálf 7-8 m á breidd. Við þetta bætist 4-6 m háar jarðvegsmanir, með 1-2 m háum veggjum. Þá mun 150 metra langur stoðveggur blasa við íbúum neðan tengibrautarinnar við Álafossveg. Tengibrautin muni rísa í allt að 8 m hæð sem þýði að íbúar á þriðju hæð gamla verksmiðjuhússins verði í beinni sjónlínu við bílaumferðina þar sem ekki sé hægt að koma við hljóðvörnum vegna plássleysis. Sjónræn áhrif verði með þeim hætti að þessi útivistar- og náttúruperla muni heyra sögunni til. Í kæru Hildar Margrétardóttur eru gerðar sambærilegar athugasemdir við sjónræn áhrif framkvæmdarinnar. Í kærum annara kærenda kemur fram að sjónmengun sé gífurleg. Öll aðkoma að svæðinu muni breytast vegna vegalagningarinnar. Um sé að ræða viðbót við Álafossveg svo og T-gatnamót, mikill hæðarmunur sé milli veganna og stoðveggur muni gnæfa yfir Álafosskvos.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að ljóst sé að tengibrautin ásamt hljóðmönum, stoðveggjum og vegfyllingu muni hafa í för með sér töluverð sjónræn áhrif og breytingar á ásýnd lands í nágrenni við íbúðarbyggð og vera allnokkuð áberandi séð frá Álafosskvosinni. Ítrekað hafi verið bent á að hljóðvarnir séu þekkt ágreiningsefni íbúa og framkvæmdaraðila, enda er samspil útsýnis og hljóðvistar á upplifun íbúa flókið, og því mikilvægt að hljóðvarnir séu hannaðar í fullu samráði við íbúa áður en ákvörðun um framkvæmdir liggur fyrir. Mikilvægt sé að útfærsla samgöngumannvirkja og hljóðvarna liggi ljós fyrir við umfjöllun um framkvæmdir skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum til að hægt sé að meta umhverfisáhrif þeirra og almenningur hafi tök á að kynna sér framkvæmdirnar. Þegar um er að ræða tilkynningarskyldar framkvæmdir telur stofnunin ekki síst mikilvægt að virkt samráð hafi verið haft við íbúa og hagsmunaaðila og að fyrir liggi afstaða þeirra til framkvæmdanna, þar sem ekki er haft samráð við þá aðila við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda. Þá er bent á mikilvægi þess að gerð sé fullnægjandi grein fyrir þeim sjónrænu áhrifum sem fyrirhuguð framkvæmd muni valda.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að upplýsingar um sjónræn áhrif hljóðvarna hafi borist eftir að Umhverfisstofnun hafði fundið að því í umsögn sinni að slíka umfjöllun skorti. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar í hinni kærðu ákvörðun sé síst gert lítið úr þætti sjónrænna áhrifa. En þar segi: „Fyrirhuguð tengibraut ásamt hljóðvörnum sem ráðast þarf í vegna hávaða frá umferð, munu valda neikvæðum staðbundnum sjónrænum áhrifum í íbúðarbyggð næst veginum. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að vandað sé til endanlegrar útlitshönnunar og útfærslu tengibrautarinnar og hljóðvarna. Stofnunin telur jafnframt mikilvægt að í deiliskipulagi fyrir aðliggjandi svæði verði mörkuð skýr stefna um útlit og frágang tengibrautarinnar og hljóðvarna og sérstaklega verði hugað að því að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum á íbúðarbyggð og útivistarsvæði."

 

Fram kemur í umsögn Mosfellsbæjar að í tillögum Péturs Jónssonar landslagsarkitekts sé gert ráð fyrir að gerðar verði hljóðmanir beggja vegna við tengibrautina sem gróðursett verði í. Það geri það að verkum að sjónræn áhrif tengibrautarinnar séð frá Álafosskvos verði eins mild og mögulegt sé. Á þeim kafla sem hljóðmönum verði ekki viðkomið verið unnið að því að mannvirki verði sem minnst áberandi og ásýndin milduð með gróðri. Hafi þegar verið unnar tillögur að stöllun og uppbroti fyrirhugaðs stoðveggjar sem breyti ásýnd hans til hins betra. Vilji sé fyrir því að vinna endanlegar útfærslur landmótunar í kringum tengibrautina með eigendum aðliggjandi húsa svo sátt náist um hana.

3. Verndargildi Varmár og meðhöndlun ofanvatns.

3.1 Verndargildi Varmár.

 

Kærendur benda á að Varmá sé á náttúruminjaskrá. Í kæru Ásgarðs og Hildar Margrétardóttur er athugasemd við þá staðhæfingu framkvæmdaraðila að Varmá verði ekki raskað við framkvæmdina þrátt fyrir að hún taki yfir 30 m - 50 m svæði. Mælingar sýni að milli árfarvegs og girðingar Brekkulands 4a séu innan við 50 m. Það að framkvæmdasvæði sé í 30-50 m breiðu belti gefi til kynna brot á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Jafnframt brjóti það í bága við aðalskipulag Mosfellsbæjar um verndun svæða á náttúruminjaskrá. Varmársamtökin telja að fjalla eigi um verndargildi Varmár og hvort hægt sé að fara í mótvægisaðgerðir til að endurheimta rennsli heits vatns í ánni. Þá segir í kæru Varmársamtakanna að Varmá og 50 m belti sitt hvoru megin hennar njóti hverfisverndar. Þeirri vernd hafi ekki verið aflétt. Ólíku sé saman að jafna varðandi fjarlægð mannvirkja og framkvæmdar frá Varmá. Annars vegar sé um að ræða hús sem hafa atvinnu- og menningarsögulegt gildi sem tengjast sérstöðu árinnar. Hins vegar sé um að ræða mengandi og ónæðisvaldandi umferðarmannvirki sem muni skerða verndargildi Varmár og umhverfi hennar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að Varmá frá upptökum til ósa sé á náttúruminjaskrá, svæði nr. 139 og liggi tengibrautin að hluta til innan þess svæðis. Í lýsingu í náttúruminjaskrá segir að Varmá sé eitt fárra varmavatna á landinu og hafi mikið vísindalegt gildi. Við það sé almennt miðað þegar vötn, tjarnir og ár séu sett á náttúruminjaskrá að vernda beri vatnið sjálft, eða farveg þess, ásamt 100 m breiðu belti ofan eðlilegra flóðmarka eða gljúfrabrúna. Auk þessa hefur svæðið meðfram Varmá mikið útivistargildi fyrir íbúa Mosfellsbæjar. Varmá og 50 m breitt belti beggja vegna árinnar njóti einnig hverfisverndar samkvæmt staðfestu aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024. Í greinargerð með aðalskipulaginu komi m.a. fram að þar sem núverandi byggð eða fyrirliggjandi deiliskipulag er nær ánni eins og t.d. innan þéttbýlis við Varmá tekur hverfisverndarsvæðið mið af því. Þá segir að nú þegar hafi verið þrengt að Varmá með ýmsum framkvæmdum. Því sé mikilvægt að við val á staðsetningu og hönnun nýrra mannvirkja sé ekki farið nær ánni en nú þegar hefur verið gert. Þar sem því verði við komið eigi að skilja eftir um 100 m breitt belti meðfram ánni, beggja megin árinnar þar sem ekki er gert ráð fyrir öðrum mannvirkjum en þeim sem tengjast útivist. Með fyrirhugaðri tengibraut og nýrri vegtengingu við Álafoss verði þrengt enn meira að ánni, en tengibrautin mun liggja nær ánni en núverandi Álafossvegur. Áhrifasvæði framkvæmdarinnar liggur þó mun nær Varmá þar sem það svæði sem raskað verður meðan á framkvæmdum stendur er breiðara en sjálft vegstæðið. Þá telur Umhverfisstofnun að þrátt fyrir að ekki gæti lengur jarðhitaáhrifa í Varmá verði við umfjöllun um framkvæmdina að taka mið af því að áin er á náttúruminjaskrá. Auk þess hefur umhverfi árinnar útivistargildi fyrir íbúa svæðisins. Umhverfisstofnun bendir á að ekki er útilokað að áhrif núverandi jarðhitanýtingar myndu að einhverju leyti ganga til baka ef henni yrði hætt, sbr. ábendingar í kæru Varmársamtakanna. Einnig er vert að hafa í huga að aukin mengun í ánni gæti haft áhrif á lífríki í friðlandinu við

Varmárósa.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að skammt frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði séu nú þegar margvísleg mannvirki við Varmá, þar á meðal á milli fyrirhugaðrar tengibrautar og Varmár. Núverandi vegur að Álafosskvos liggi yfir ána á þeim stað sem tengibrautin verður hvað næst ánni og hús standi á bakka Varmár. Þess utan er augljóst að Varmá rennur ekki nema að litlu leyti í náttúrulegum farvegi í gegnum Álafosskvosina og tengibrautin spilli ekki náttúrulegum gróðri innan 50 m frá ánni.

Fram kemur í umsögn Mosfellsbæjar að á stuttum kafla fari tengibrautin inn fyrir það 50 m belti sem skilgreint sé sem hverfisvernd Varmár. Ekki sé hins vegar talið að verið sé að ganga á hverfisvernd á þeim kafla þar sem að tengibrautin hafi verið inn á aðalskipulagi um alllangt skeið og nú þegar sé vegur sem tengir Álafosskvos og aðra íbúðabyggð við Vesturlandsveg. Á þeim stað þar sem farið er örlítið nær Álafosskvos en núverandi vegur geri, verði sérstaklega hugað að umhverfi tengibrautarinnar í samræmi við tillögur landslagsarkitekts.

3.2 Meðhöndlun ofanvatns og vistkerfi Varmár.

 

Í kæru Varmársamtakanna kemur fram að þar sem Varmá sé á Náttúruminjaskrá og njóti hverfisverndar gildi um ána sérstök umhverfislagaákvæði sem geri strangar kröfur til meðhöndlunar ofanvatns. Vísar kærandi í þessu sambandi til 1. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999. Bæði Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis og Umhverfisstofnun leggi ríka áherslu á að endanleg hönnun hreinsibúnaðar liggi fyrir við upphaf framkvæmda og að ekki verði hægt að meta hvort um raunhæfa lausn á vandamálinu sé að ræða nema að hönnun og staðsetning búnaðarins liggi fyrir. Kærandi vísar til iii. liðar 2. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum sem segi að athuga þurfi hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á með tilliti til verndarsvæða, álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúrminjaskrá, sbr. d) iv. liðar.

Umhverfisstofnun tekur undir athugasemdir kærenda varðandi meðhöndlun ofanvatns. Ekki hafi verið sýnt fram á að vistkerfi Varmár skaðist ekki vegna framkvæmdarinnar og að ekki muni gæta aukinnar mengunar í ánni. Það var mat stofnunarinnar að óásættanlegt væri að gera ekki ráð fyrir mótvægisaðgerðum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Umhverfisstofnun bendir á að það hve mikið af uppleystum efnum í ofanvatni bindist jarðvegi er m.a. háð eiginleikum efnanna, jarðvegi, gróðurfari og tímanum sem vatnið er í snertingu við jarðveginn. Ekki liggi fyrir neinar athuganir á bindingu efnasambanda úr ofanvatni í jarðvegi á framkvæmdasvæðinu og því ekki ljóst hvaða jarðlög taka við ofanvatni vegarins. Þá vekur Umhverfisstofnun athygli á að á þeim árstíma sem jörð er freðin og ekki hægt að gera ráð fyrir bindingu mengunarefna í jarðvegi, má búast við að mest berist af mengunarefnum með ofanvatni, þar sem nagladekk, söltun og kuldi auka vegslit og þar með uppleyst efni í ofanvatni. Einnig er á þeim tíma að vænta meiri útblásturs bifreiða. Umhverfisstofnun telur því óásættanlegt að ekki verði strax gert ráð fyrir hreinsun ofanvatns. Þá segir að Varmá sé á náttúruminjaskrá auk þess sem Varmárósar séu friðlýstir en þar sé sérstætt gróðursamfélag. Umhverfisstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á að ekki muni gæta mengunaráhrifa í Varmá þegar ætlunin er í fyrstu að veita vatni af vegsvæði í ána án sérstakrar hreinsunar, ekki síst í ljósi aukinnar umferðar og uppbyggingar á svæðinu. Með hliðsjón af framangreindu leggur stofnunin ríka áherslu á að þess verði gætt að ofanvatni af tengibrautinni verði hvorki veitt burt af svæðinu né sett óhreinsað í Varmá.

Skipulagsstofnun bendir á að í hinni kærðu ákvörðun segir m.a:

„Umhverfisstofnun telur að ekki sé ásættanlegt að ofanvatn verði ekki hreinsað áður en því verði veitt í Varmá enda sé áin á náttúruminjaskrá og njóti hverfisverndar samkvæmt staðfestu aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024. Auk þess hafi Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis lagt til í skýrslu sinni að langtímamarkmið fyrir ástand árinnar verði flokkur A, þ.e. ósnortið vatn. Einnig þurfi að tryggja að vatnsbúskapur árinnar skerðist ekki. Að mati stofnunarinnar sé umfjöllun um meðhöndlun og áhrif ofanvatns í tilkynningu framkvæmdaraðila ófullnægjandi".

Og síðar í hinni kærðu ákvörðun kemur fram:

„Skipulagsstofnun telur að umhverfisáhrif vegna framkvæmdanna lúti einkum að vatnasviði Varmár. Stofnunin telur að með aðgæslu á framkvæmdatíma verði unnt að standa þannig að framkvæmdunum að þær valdi ekki raski á ánni. Eftir að framkvæmdum er lokið og tengibrautin komin í fulla notkun muni mengunarhætta aukast nokkuð. Skipulagsstofnun tekur undir ábendingar Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og Umhverfisstofnunar um að koma þurfi upp settjörnum eða öðrum nauðsynlegum hreinsibúnaði til að draga úr styrk mengandi efna sem kunna að berast út í Varmá án þess að dregið verði úr vatnsmagni árinnar. Skipulagsstofnun telur eðlilegast að uppsetning settjarna eða annars hreinsibúnaðar fari fram samhliða framkvæmdum við fráveitu fyrirhugaðs hverfis".

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis kemur fram að heilbrigðiseftirlitið telji niðurstöðu Skipulagsstofnunar um hreinsun ofanvatns ásættanlega. Að uppsetning settjarna eða annars hreinsibúnaðar fari fram samhliða framkvæmdum við fráveitu fyrirhugaðs hverfis. Nálægð vegar við ána þurfi ein og sér ekki að hafa áhrif á vatnsbúskap árinnar ef ofanvatn er leitt í hreinsibúnað. Æskilegt er að meta hreinsigetu þess ofanvatns sem rennur í gegnum jarðlög án þess að fara í gegnum siturlagnir. Á þessu stigi liggja svo vitað sé engar rannsóknir fyrir um virkni settjarna á Íslandi enda tiltölulega stutt síðan slík mannvirki voru tekin í notkun, þar af leiðandi er ekki gott að spá um hreinsivirkni slíkra kerfa en ljóst er að vatnsleysanleg efni munu ekki hreinsast þar út með góðu móti. Heilbrigðiseftirlitið mun fylgjast grannt með hönnun settjarna fyrir svæðið þannig að tryggt verði að hreinsun ofanvatns verði í samræmi við reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Fram kemur af hálfu Mosfellsbæjar að brugðist hafi verið við ábendingum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis varðandi það atriði að yfirborðsvatn af tengibrautinni fari ekki óhreinsað út í Varmá. Gert sé ráð fyrir að yfirborðsvatn verði leitt í regnvatnskerfi sem síðan verði hreinsað í gegnum settjarnir. Ráðgert sé að settjarnir verði staðsettar handan Vesturlandsvegar í landi Mosfellsbæjar undir Ullarnesbrekkum. Ekki eigi því að vera ástæða til að óttast vatnsmengun árinnar vegna tengibrautarinnar. Samráð verði haft við Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis meðan á hönnun og undirbúningi framkvæmda standi þannig að aðilar séu sáttir um að nægjanlega vel að málum sé staðið hvað hugsanlega mengun varðar. Áhrif tengibrautar á vistkerfi Varmár munu verða hverfandi, vegna aðgerða um afrennsli sem að framan er lýst og þar sem um mjög lítinn afrennslisflöt sé að ræða. Meginhluti mögulegrar mengunar muni koma frá íbúðarhverfum og götum þeim tengdum.

Varmársamtökin telja að ef settjarnir verði staðsettar handan Vesturlandsvegar þá þýði það að vatn verði leitt burt af svæðinu sem muni hafa áhrif á vatnabúskap Varmár og þar með lífríki árinnar. Gera samtökin þá kröfu að fram fari ítarleg rannsókn á því hvernig vörnum gegn mengun ofanvatns verði best við komið af þar til bærum aðilum. Hildur Margrétardóttir telur að með staðsetningu settjarna á milli Vesturlandsvegar og Varmársvæðisins á íþróttasvæði Mosfellsbæjar undir Ullarnesbrekkum sé lífi og heilsu barna sem séu á leið í skóla stofnað í hættu, þar sem í settjörnum sé mengað vatn og beri eftir fremsta megni að forðast aðgengi barna að þeim.

4. Loftmengun.

 

Í kæru Varmársamtakanna kemur fram að í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila hafi verið ófullnægjandi upplýsingar um loftmengun. Mikil umferð bíla sé um Vesturlandsveg og beri Mosfellsbæ, sbr. 3. viðauki laga um mat á umhverfisáhrifum að gera verkfræðilega úttekt á mengun, ónæði og sammögnunaráhrifum vegna tengibrautar og umferðar við Vesturlandsveg. Kærandi geri kröfu um fullnægjandi grunnvinnu. Í kæru Hildar Margrétardóttur segir að þrátt fyrir að Umhverfisstofnun telji ekki líklegt að loftmengun fari yfir skilgreind markmið, sé farið fram á að gerðar verði rannsóknir sem taka á þáttum svo sem útblástursmengun og svifryki með hliðsjón af staðháttum. Jafnframt að unnið verði að rannsóknum með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um loftgæði sem kveða á um að leyfileg mörk svifryksmengunar verði umtalsvert minni 2010 en þau séu nú. Þá vísar kærandi til reglugerðar nr. 1000/2005 um kortlagningu við hávaða og aðgerðaráætlun og þurfi að krefja framkvæmdaraðila um gögn er uppfylli kröfur reglugerðarinnar.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að töluverður fjöldi stofnbrauta hafi farið í mat á umhverfisáhrifum. Þrátt fyrir að umferðarspár hafi gert ráð fyrir allt að fimmfalt meiri umferð á þeim, heldur en þeirri tengibraut sem hér sé til umfjöllunar, þá verði styrkur mengunarefna þar fyrir neðan viðmiðunarmörk í reglugerðum. Þá segir að í ljósi reynslu sem fengist hefur af loftmengun frá umferð um önnur umferðarmannvirki hafi Skipulagsstofnun ekki þótt ástæða til að kalla eftir jafn ítarlegum gögnum og kærandi lýsi eftir. Í umsögn Umhverfisstofnunar segir að ekki sé líklegt að loftmengun muni fara yfir skilgreind markgildi þar að lútandi út frá þeirri umferð sem áætlað er að fari um tengibrautina eina og sér.

5. Skipulag.

 

Í kæru Varmársamtakanna er tekið fram að tengibrautin fari um svæði sem spanni nokkur deiliskipulög. Mosfellsbær hafi hafnað að setja þessi deiliskipulög í samhengi þrátt fyrir að tengibrautin fari inn á deiliskipulag kvosarinnar. Tengibrautin hefur m.a. þau áhrif að leggja þurfi nýjan veg sem tengist tengibrautinni með T-gatnamótum. Ofangreind aðgreining sé ósættanleg því hér sé um að ræða orsök og afleiðingu sem þýði að annað verði ekki metið án tillits til hins. Í kæru Ásgarðs og Hildar Margrétardóttur er bent á að óheppilegt sé að hafa deiliskipulag fyrir tengibraut og Álafosskvos í sitt hvoru deiliskipulaginu þar sem tengibrautin hafi óhjákvæmileg áhrif á Álafosssvæðið.

Skipulagsstofnun vísar til eftirfarandi í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar en þar komi fram að Skipulagsstofnun telur „mikilvægt að í deiliskipulagi fyrir aðliggjandi svæði verði mörkuð skýr stefna um útlit og frágang tengibrautarinnar og hljóðvarna og sérstaklega verði hugað að því að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum á íbúðarbyggð og útivistarsvæði...."

 

6. Annmarkar á málsmeðferð.

 

Varmársamtökin telja þá annmarka á málsmeðferð Skipulagsstofnunar að hún fullnægi ekki meginreglum stjórnsýslulaga og að hún tryggi ekki niðurstöðu sem samræmist markmiði laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Stofnunina hafi skort nauðsynleg gögn til að geta tekið ákvörðun á réttum og fullnægjandi forsendum og þar með brotið gegn rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 73/1997. Sú lagaskylda sem komi fram í lögum um mat á umhverfisáhrifum um að tilgreina eigi í matsskýrslu uppsöfnuð áhrif og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd kunni að hafa á umhverfið, hafi ekki verið fullnægt miðað við þau gögn sem ákvörðun Skipulagsstofnunar byggðist á. Þá hafi Skipulagsstofnun borið að leggja fyrir skipulagsyfirvöld í Mosfellsbæ að gera grein fyrir öðrum möguleikum á fyrirkomulagi umferðar vegna uppbyggingar í Helgafellslandi sem ef til vil hefði minni áhrif á umhverfið. Fram kemur að Varmársamtökin hafi ekki haldið því fram að eins og Skipulagsstofnun telji að það hafi borið á grundvelli 10. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum að skylda framkvæmdaraðila að gera grein fyrir mismunandi kostum. Átt sé við að með því að meta ekki með réttum hætti atriði sem sett séu fram í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum hafi stofnunin komið í veg fyrir að skipulagsyfirvöld Mosfellsbæjar geri grein fyrir flutningi á umferð til og frá byggð í Helgafellslandi. Skipulagsstofnun hafi tekið afstöðu til matsskyldu án þess að framkvæmdaraðili leggi fram nokkur gögn um kynningu fyrir íbúum og án þess að gerð sé grein fyrir sjónrænum áhrifum með fullnægjandi hætti og án þess að taka mið af umsögnum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis. Einnig gerir kærandi þær athugasemdir að ekki hafi verið leitað umsagnar Byggðastofnunar og Ferðamálaráðs en Varmársvæðið falli undir lög og reglugerðir þessara stofnana. Þá beri að leita umsagnar Félagsmálaráðuneytisins á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra og sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var 25. ágúst 2006 til að vernda og efla virðingu gagnvart einstaklingum með fötlun og samgönguráðuneytisins þar sem tengibrautin leiði af sér framkvæmd á þjóðvegi 1.

Í umsögn Skipulagsstofnunar er vísað til 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum varðandi aðra kosti á vegtengingu milli Vesturlandsvegar og Helgafellslands, þar sem tilgreind séu þau gögn sem skulu fylgja tilkynningarskyldum framkvæmdum. Þar sé ekki minnst á skyldu framkvæmdaraðila til að gera grein fyrir mismunandi kostum við framkvæmdir. Það sé því á misskilningi byggt að Skipulagsstofnun hafi borið að krefja Mosfellsbæ um að gera grein fyrir öðrum kostum.

 

V. Niðurstaða

1. Hljóðvist.

1.1 Hávaðamörk.

 

Í kærum er vísað til þess að skv. hljóðstigsútreikningum verði hljóðvist í Brekkulandi og Hagalandi yfir viðmiðunarmörkum reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða og að ekki hafi verið sýnt fram á að útreikningar um hljóðvist standist kröfur fyrir hús í Álafosskvos. Vísað er til 5. liðar 5. gr. reglugerðar um hávaða, þar sem kveðið er á um að hljóðstig frá umferð skuli miða við 55dB(A) utanhúss og að sérfræðingar í hljóðvist telji ásættanlegan umferðarhávaða í íbúðarbyggð vera 45(A) dB. Leiðbeiningargildi Umhverfisstofnunar fyrir nýbyggð hverfi sé einnig 45 dB(A). og að hávaði í íbúðarbyggð muni fara yfir framangreind viðmiðunarmörk.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er tekið undir þessar athugasemdir kærenda en þar segir að skv. hljóðstigsútreikningum verði hljóðstig yfir viðmiðunarmörkum reglugerðar um hávaða við núverandi hús við Brekkuland og Hagaland og nokkur hús í fyrirhugaðri íbúðarbyggð. Einnig vestast í götu 2 í miðhluta fyrirhugaðrar íbúðarbyggðar í Helgafellslandi. Grípa þurfi því til sérstakra aðgerða til að tryggja að hljóðstig verði innan viðmiðunarmarka skv. reglugerðinni. Í umfjöllun um mótvægisaðgerðir af hálfu framkvæmdaraðila komi fram að gerðar verði hljóðmanir þar sem hægt er. Umhverfisstofnun bendir á að gera þurfi ráðstafanir varðandi hönnun húsa við götu 2.

Í gögnum sem framkvæmdaraðili afhenti ráðuneytinu eru sýndir hljóðstigsútreikningar og hljóðvistarkort Fjölhönnunar ehf. sem vann hljóðútreikninga vegna framkvæmdarinnar. Þar kemur fram að hljóðstig vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar fari ekki upp yfir 55dB(A) mörk hljóðvistar í núverandi aðliggjandi byggð með þeim mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili leggur til. Einungis í jaðri fyrirhugaðar byggðar í Helgafellslandi ásamt svokölluðu auga hverfisins fari mörk hljóðvistar yfir 55dBA og verði gripið til mótvægisaðgerða þar, enda séu um það kvaðir í deiliskipulagi. Gert er ráð fyrir vegna hæðarmunar milli fyrirhugaðar tengibrautar og tengivegar við Álafosskvos þurfi að reisa 2-4 m háan og um 150 m langan varanlega stoðvegg á móts við Álafosskvos. Mótvægisaðgerðir felast í því að hljóðvarnir verði settar upp beggja megin tengibrautarinnar og settur verður upp stoðveggur.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 skal hávaði vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka við reglugerðina, sbr. þó 8. gr. Ennfremur skal leitast við að uppfylla þau leiðbeiningarmörk sem fram koma í viðauka. Fram kemur í lið 2.4. í viðaukanum að viðmiðunargildi er það gildi sem verður að uppfylla til þess að ástandið geti talist viðunandi. Ef þetta viðmiðunargildi er samt sem áður ekki uppfyllt, skal skilgreina hvernig hægt verður að uppfylla það innan ákveðins tíma. Leiðbeiningargildi er samkvæmt lið 2.5. sama viðauka það gildi sem ákjósanlegt er að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið, en leitast skal við að uppfylla það þar sem þess er nokkur kostur. Að mati ráðuneytisins er enginn efnismunur á hugtökunum viðmiðunargildi eða viðmiðunarmörk annars vegar og leiðbeiningargildi og leiðbeiningarmörk hins vegar.

Í 1. lið viðaukans eru almenn ákvæði þar sem segir að við nýskipulag hverfa skuli taka mið af töflu 1, sem sýnir viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi varðandi hljóðstig frá bílaumferð og atvinnustarfsemi. Samkvæmt töflu 1 er viðmiðunargildi fyrir hljóðstig fyrir íbúðarhúsnæði í nýskipulögðu hverfi, 55 dB(A) og leiðbeiningargildi 45 dB(A) vegna hávaða frá umferð. Í 5. lið viðaukans er síðan nánar fjallað um hljóðstig frá umferð.

Markmið reglugerðar um hávaða er samkvæmt 1. mgr. 1. gr. að draga úr og koma í veg fyrir hávaða. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skulu hávaðavarnir á hverjum tíma vera slíkar að hávaði sé innan viðmiðunarmarka samkvæmt 5. gr., sbr. þó 8. gr. Eins og áður segir er viðmiðunargildi það gildi sem verður að uppfylla til þess að ástandið geti talist viðunandi. Ef þetta viðmiðunargildi er samt sem áður ekki uppfyllt, skuli skilgreina hvernig hægt verður að uppfylla það innan ákveðins tíma. Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að meginreglan samkvæmt reglugerðinni sé sú að hávaði í íbúðarhverfum skuli vera innan viðmiðunarmarkanna 55 dB(A). Leiðbeiningargildi er einungis til leiðbeiningar eins og áður segir.

Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar og ráðuneytisins er gerð grein fyrir þeim hljóðvörnum sem fyrirhugaðar eru vegna tengibrautarinnar þannig að hljóðstig í núverandi aðliggjandi og fyrirhugaðri byggð verði undir viðmiðunarmörkum eða 55 dB(A). Í jaðri fyrirhugaðar byggðar í Helgafellslandi ásamt svokölluðu auga hverfisins fari mörk hljóðvistar yfir 55dB(A) og verði gripið til mótvægisaðgerða þar.

Ráðuneytið telur að í framangreindum gögnum sé áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á hljóðvist nægjanlega lýst og telur ráðuneytið þau áhrif ekki geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og eru því ekki þess eðlis að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á grundvelli laganna. Að mati ráðuneytisins hefur verið sýnt fram á með trúverðugum hætti að unnt er að halda hljóðstigi innan 55 dB(A) í aðliggjandi og fyrirhugaðri íbúðarbyggð.

 

1.2 Sammögnunaráhrif og samnorrænt reiknilíkan.

 

Í kæru Varmársamtakanna segir að í hljóðútreikningum sem gerðir eru skv. samnorrænu líkani sé ekki tekið mið af íslensku veðurfari, svo sem áhrifum ríkjandi vindátta og rigninga til hækkunar hljóðstigs. Gert sé ráð fyrir að 10.000 bílar, sem gert sé ráð fyrir að aki um tengibrautina á sólarhring, aki á leyfilegum ökuhraða og er notkun nagladekkja ekki tekin með í reikningnum. Þá eru í kæru Varmársamtakanna og Hildar Margrétardóttur gerðar athugasemdir við að ekki sé gert ráð fyrir sammögnunaráhrifum frá Vesturlandsvegi né safnvegum í nánd við kvosina. Hljóðstig sé því ekki miðað við raunverulegar aðstæður á svæðinu og standist því forsendur framkvæmdarinnar ekki að þessu leyti. Þá séu ekki gerðar umferðarspár til framtíðar til að leggja mat á þróun umferðarhávaða, heldur sé eingöngu miðað við væntanlega umferð í lok byggingartíma í Helgafellslandi. Þá er bent á að í útreikningum sé ekki gerð grein fyrir, að umferðarhljóð sem fari um Álafosskvos vegna tengibrautar, muni skella á umhverfinu.

Umhverfisstofnun bendir á að notkun samnorræna reiknilíkansins við útreikninga á dreifingu hljóðs umhverfis umferðargötur sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um hávaða og uppfylli því kröfur í íslenskum reglugerðum. Slíkt samhæft líkan geti aldrei náð yfir alla þætti sem hafa áhrif á hljóðvist eða dreifingu hávaða, hvort sem er til lækkunar eða hækkunar og verður því aldrei annað en ákveðin nálgun sem síðar verði að staðreyna með mælingum. Líkanið gefi mat á meðalhávaða en hvorki hæstu né lægstu gildi og að gert sé ráð fyrir halla vegar í útreikningum. Skipulagsstofnun telur afar mikilvægt að útreikningarnir séu miðaðir við staðalaðstæður líkt og kveðið er á um í samnorræna reiknilíkaninu og gert hefur verið hér á landi við mat á umhverfisáhrifum vegaframkvæmda.

Umhverfisstofnun telur að meta hefði átt sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar með öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum, sbr. viðmið í 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Undir þetta er tekið í umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og taka ætti tillit til sammögnunarárhrifa vegna byggingar T-gatnamóta sem feli í sér breytta aðkomu að Álafossi auk fyrirhugaðra mislægra gatnamóta á Vesturlandsvegi.

Af hálfu Mosfellsbæjar kemur fram að sammögnunaráhrifa muni gæta í örfáum húsum næst Vesturlandsvegi en á þorra svæðisins séu áhrifin engin m.a. vegna fjarlægðar frá Vesturlandsvegi og þess skjóls sem önnur húsi veiti. Hljóð frá Vesturlandsvegi hafi ekki áhrif á sömu hliðar húsa og tengibrautin, nema á gatnamótum næst Vesturlandsvegi. Þar verði hannaðar manir en framkvæmdum sé ólokið m.a. vegna andstöðu við íbúa. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis bendir á að ekki liggi fyrir hljóðstig við þessi hús ef tekið er tillit til sammögnunar. Helgafellsbyggingar ehf. segja að umferðarhávaði frá Vesturlandsvegi hafi áhrif á hljóðvist við byggðina næst honum. Ákveðið hafi hins vegar verið að taka ekki með í athugun umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi heldur eingöngu meta umferðarhávaða frá tengibrautinni. Hávaði frá Vesturlandsvegi skermist að stórum hluta frá byggðinni næst tengibrautinni bæði vegna hæðarmunar og vegna byggðarinnar næst Vesturlandsvegi. Til að verjast umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi þurfi að koma fyrir hávaðavörnum meðfram honum, en þær varnir munu ekki hafa mikil áhrif hljóðvist vegna tengibrautinnar. Hannaðar hafi verið manir næst Vesturlandsvegi en framkvæmdum sér þar ólokið vegna andstöðu íbúa. Í frekari upplýsingum sem ráðuneytið aflaði sér hjá Fjölhönnun ehf. kom fram að gerð hafi verið gróf skoðun á hvaða áhrif Vesturlandsvegurinn hefði á hljóðvist við hús næst Helgafellsbraut, þ.e. umferðarhávaði reiknaður með umferð á Helgafellsbraut og Vesturlandsvegi á sama tíma.  Sett var inn umferð á Vesturlandsveg miðað við umferðarspá 2012 skv. umferðarspá höfuðborgarsvæðisins. Í ljós hafi komið að þegar Vesturlandsvegurinn var hafður með í útreikningum hafði það einungis áhrif á tvö hús næst Vesturlandsvegi, Hagaland 9 og 7 sem færu þá yfir viðmiðunarmörk reglugerðar. Önnur hús sem liggja meðfram Helgafellsbraut, og eru innan áhrifasvæði hans, séu undir viðmiðunarmörkum reglugerðar.

Samkvæmt lið 3.2.2 í viðauka reglugerðar um hávaða skal útreiknað hljóðstig fundið með samnorrænu reiknilíkani fyrir umferðarhávaða. Ráðuneytið telur að hljóðútreikningar sem gerðir hafa verið um fyrirhugaða framkvæmd á grundvelli hins samnorræna líkans séu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til slíkra útreikninga í reglugerð um hávaða, nr. 933/1999

Samkvæmt 4. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skal við ákvörðun um matsskyldu fara eftir viðmiðum í 3 viðauka við lögin. Eitt af þeim viðmiðunum er að athuga ber eðli framkvæmdar, með tilliti til sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, sbr. ii. liður, 1. tölul. 3. viðauka laganna. Ráðuneytið tekur undir þau sjónarmið með kærendum, Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis að meta eigi sammögnunaráhrif framkvæmdarinnar með öðrum framkvæmdum, sbr. framangreint viðmið í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur hins vegar að þegar metin eru sammögnunaráhrif sé eingöngu hægt að taka mið af þeim framkvæmdum sem ákveðnar hafa verið á þeim tíma þegar áhrif af tiltekinni framkvæmd eru metin eins og á við um umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi. Af hálfu framkvæmdaraðila var ákveðið að taka ekki með í athugun umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi heldur eingöngu meta umferðarhávaða frá tengibrautinni þar sem aðstæður séu þannig að hávaði frá Vesturlandsvegi skermist að stórum hluta frá byggðinni næst tengibrautinni, bæði vegna hæðarmunar og byggðarinnar næst Vesturlandsvegi. Til að verjast umferðarhávaða frá Vesturlandsvegi þurfi að koma fyrir hávaðavörnum meðfram honum, en þær varnir munu ekki hafa mikil áhrif á tengibrautina. Í frekari upplýsingum framkvæmdaraðila til ráðuneytisins kom fram að gerð hafi verið gróf skoðun á því hvaða áhrif Vesturlandsvegurinn hefði á hljóðvist við hús næst Helgafellsbraut. Í ljós hafi komið að þegar Vesturlandsvegurinn var hafður með í útreikningum hafði það einungis áhrif á tvö hús næst Vesturlandsvegi, Hagaland 9 og 7 sem færu þá yfir viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða. Önnur hús sem liggja meðfram Helgafellsbraut, og eru innan áhrifasvæði hans, séu undir viðmiðunarmörkum reglugerðar. Varðandi sammögnunaráhrif vegna fyrirhugaðra T-gatnamóta og safnvegs þá eru þær framkvæmdir ekki hluti af þeirri framkvæmd sem hér er til skoðunar til ákvörðunar um matsskyldu. Ráðuneytið telur ekki líkur á að þau sammögnunaráhrif geti verið umtalsverð.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um sammögnunaráhrif og að þau áhrif geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og eru því ekki þess eðlis að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á grundvelli laganna.

Athugasemdir eru gerðar við að ekki liggi fyrir umferðarspár til framtíðar til að leggja mat á þróun umferðarhávaða, heldur sé eingöngu miðað við væntanlega umferð í lok byggingartíma í Helgafellslandi. Í gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að umferðarspá geri ráð fyrir að þegar Helgafellsland er fullbyggt þá verði umferð á kaflanum næst Vesturlandsvegi um 10.000 bílar á sólarhring en nálægt 4.000 bílar á sólarhring á kaflanum við hringtorg í Helgafellslandi. Umferðarforsendur miðast við áætlaða umferð til og frá nýrri íbúðarbyggð í Helgafellslandi.

Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um umferðarspá vegna framkvæmdarinnar til að unnt sé að taka afstöðu til matsskyldu hennar.

1.3 Kortlagning hávaða.

 

Tveir kærendur gera kröfu um að kortlagning fari fram á hávaða við Vesturlandsveg af þar til bærum aðilum áður en ákvörðun er tekin um lagningu tengibrautarinnar, í samræmi við reglugerð um kortlagningu við hávaða og aðgerðaráætlun, nr. 1000/2005, en hún geri ráð fyrir að hávaði við stóra vegi verði kortlagðir fyrir 30. júní 2007. Þannig yrði lagt mat á áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar áður en ákveðnar eru lítt ígrundaðar framkvæmdir. Við slíka kortlagningu verði að taka tillit til þeirrar miklu hækkunar hljóðstigs sem fylgir því í náinni framtíð að byggja brú og hækka þar með núverandi vegstæði Vesturlandsvegar í um sex metra yfir landi.

Í máli þessu er tekin afstaða til matsskyldu fyrirhugaðar tengibrautar í Mosfellsbæ en aðrar fyrirhugaðrar framkvæmdir eru ekki til skoðunar svo sem hugsanleg breyting á Vesturlandsvegi og því engin afstaða tekin til áhrifa slíkra framkvæmdar enda liggur útfærsla hennar ekki fyrir. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1000/2005 á að kortleggja hávaða frá þéttbýlissvæðum við stóra vegi við ákveðnar aðstæður sem tilgreindar eru í ákvæðinu og meta hvaða áhrif verða af völdum hans. Stór vegur er skilgreindur sem svæðisbundinn vegur, þjóðvegur eða annar vegur afmarkaður í skipulagi þar sem meira en þrjár milljónir ökutækja fara um á ári. Í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða segir að gerð hávaðakorta skuli lokið eigi síðar en 30. júní 2007. Kortlagning vega skv. reglugerðinni er unnin af veghaldara til að lýsa ástandi á þeim tíma sem kortlagning fer fram og er óháð vinnu við mat á umhverfisáhrifum einstakra framkvæmda.

2. Sjónræn áhrif.

 

Varmársamtökin telja að lýsing framkvæmdaraðila á sjónrænum áhrifum tengibrautarinnar uppfylli ekki þær kröfur sem fram koma í e. lið, 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum sem fjalli um þau gögn sem fylgja skuli tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar vegna ákvörðunar um matsskyldu. Telur kærandi að þar sem Skipulagsstofnun eigi að taka ákvörðun um matsskyldu á grundvelli framangreindra gagna, sé ljóst að hinn kærði úrskurður sé ólögmætur. Ekki sé nægjanlegt að koma með ábendingar til framkvæmdaraðila um að vanda til endanlegrar útlitshönnunar og útfærslu tengibrautarinnar eins og Skipulagsstofnun geri í hinni kærðu ákvörðun. Kynna þurfi á trúverðugan hátt áhrif framkvæmdarinnar og leggja fram gögn sem staðfesti að því markmiði laga um mat á umhverfisáhrifum sé fullnægt að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Skipulagsstofnun segir í hinni kærðu ákvörðun að fyrirhuguð tengibraut ásamt hljóðvörnum sem ráðast þarf í vegna hávaða frá umferð munu valda neikvæðum staðbundnum sjónrænum áhrifum í íbúðarbyggð næst veginum. Skipulagsstofnun telur mikilvægt að vandað sé til endanlegrar útlitshönnunar og útfærslu tengibrautarinnar og hljóðvarna. Umhverfisstofnun telur að tengibrautin ásamt hljóðmönum, stoðveggjum og vegfyllingu muni hafa í för með sér töluverð sjónræn áhrif og breytingar á ásýnd lands í nágrenni við íbúðarbyggð og vera allnokkuð áberandi séð frá Álafosskvosinni. Mikilvægt sé að útfærsla samgöngumannvirkja og hljóðvarna liggi ljós fyrir við umfjöllun um framkvæmdir skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum til að hægt sé að meta umhverfisáhrif þeirra og almenningur hafi tök á að kynna sér framkvæmdirnar.

 

Sjónræn áhrif framkvæmdarinnar felast einkum í fyrirhugaðri tengibraut ásamt hljóðvörnum norðan brautar í stöð 100-600 og sunnan brautar í stöð 175-300 og uppsetningu á 2-4 m háum og um 150 m lögnum stoðvegg til móts við Álafosskvos. Ráðuneytið tekur undir með Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun að sjónræn áhrif framkvæmdarinnar séu nokkur. Í þeim teikningum sem framkvæmdaraðili lagði fram er sýnt hvernig fyrirhugaður hleðsluveggur og hljóðveggir komi til með að líta út. Í lögum eða reglugerðum eru ekki sérstök ákvæði um takmarkanir á sjónrænum áhrifum vegna framkvæmda. Ráðuneytið bendir á að um er að ræða vegalagningu í þéttbýli þar sem nánast allt umhverfi er manngert. Tengibraut vegna Helgafellslands hefur verið inn á aðalskipulagi Mosfellsbæjar allt frá 1983 og því hefur legið fyrir í langan tíma að til þessarar vegalagningar myndi koma.

Unnið er að deiliskipulagi fyrir framkvæmdina en þar verður gerð grein fyrir útfærslu hljóðvarna. Samkvæmt upplýsingum frá Mosfellsbæ er nú unnið að breytingum á deiliskipulaginu m.a. varðandi hönnun tengivegarins með það að markmiði að lækka hann eins og kostur er þar sem hann liggur fram hjá Álaflosskvos og meðfram byggð við Brekkuland og draga þannig úr sjónrænum áhrifum vegarins. Ráðuneytið tekur undir með Skipulagsstofnun að mikilvægt sé að vandað verði til endanlegrar útlitshönnunar og útfærslu tengibrautarinnar og hljóðvarna og að í deiliskipulagi fyrir aðliggjandi svæði verði mörkuð skýr stefna um útlit og frágang tengibrautarinnar og hljóðvarna og sérstaklega verði hugað að því að draga úr neikvæðum sjónrænum áhrifum á íbúðarbyggð og útivistarsvæði. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 er gert ráð fyrir við gerð deiliskipulag auglýsi sveitarstjórn, hér Mosfellsbær, tillögu að deiliskipulagi og taki afstöðu að kynningartímabili loknu til athugasemda sem berast. Þannig er gert ráð fyrir kynningu fyrir íbúa sem málið varðar og að leitað sé eftir sjónarmiðum þeirra þar sem þeir geti komið athugasemdum sínum á framfæri um hönnun og útfærslu hljóðvarna.

Ráðuneytið telur að í framangreindum gögnum sé sjónrænum áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar nægjanlega lýst í skilningi e. liðar 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og telur ráðuneytið að þau áhrif geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og eru því ekki þess eðlis að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á grundvelli laganna..

3. Verndargildi Varmár og meðhöndlun ofanvatns.

3.1 Verndargildi Varmár.

 

Kærendur benda á að Varmá sé á náttúruminjaskrá og telja kærendur að Varmá verði raskað við framkvæmdina en hún taki yfir 30 m - 50 m svæði. Þetta gefi til kynna brot á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Jafnframt brjóti framkvæmdin í bága við aðalskipulag Mosfellsbæjar um verndun svæða á náttúruminjaskrá. Þá segir í kæru Varmársamtakanna að Varmá og 50 m belti sitt hvoru megin við hennar njóti hverfisverndar. Þeirri vernd hafi ekki verið aflétt.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að Varmá frá upptökum til ósa sé á náttúruminjaskrá, svæði nr. 139 og að tengibrautin liggi að hluta til innan þess svæðis. Í lýsingu í náttúruminjaskrá segir að Varmá sé eitt fárra varmavatna á landinu og hafi mikið vísindalegt gildi. Við það sé almennt miðað þegar vötn, tjarnir og ár séu sett á náttúruminjaskrá að vernda beri vatnið sjálft, eða farveg þess, ásamt 100 m breiðu belti ofan eðlilegra flóðmarka eða gljúfrabrúna. Auk þessa hafi svæðið meðfram Varmá mikið útivistargildi fyrir íbúa Mosfellsbæjar. Varmá og 50 m breitt belti beggja vegna árinnar njóti einnig hverfisverndar samkvæmt staðfestu aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024. Umhverfisstofnun telur mikilvægt að við val á staðsetningu og hönnun nýrra mannvirkja sé ekki farið nær ánni en nú þegar hefur verið gert. Þar sem því verði við komið eigi að skilja eftir um 100 m breitt belti meðfram ánni, beggja megin árinnar þar sem ekki er gert ráð fyrir öðrum mannvirkjum en þeim sem tengjast útivist. Með fyrirhugaðri tengibraut og nýrri vegtengingu við Álafoss verði þrengt enn meira að ánni, en tengibrautin mun liggja nær ánni en núverandi Álafossvegur. Einnig sé vert að hafa í huga að aukin mengun í ánni gæti haft áhrif á lífríki í friðlandinu við Varmárósa. Skipulagsstofnun bendir á að skammt frá fyrirhuguðu framkvæmdasvæði séu nú þegar margvísleg mannvirki við Varmá, þar á meðal á milli fyrirhugaðrar tengibrautar og Varmár. Núverandi vegur að Álafosskvos liggi yfir ána á þeim stað sem tengibrautin verður hvað næst ánni og hús standa á bakka Varmár.

Mosfellbær segir að á stuttum kafla fari tengibrautin inn fyrir það 50 m belti sem skilgreint sé sem hverfisvernd Varmár. Ekki sé hins vegar talið að verið sé að ganga á hverfisvernd á þeim kafla þar sem að tengibrautin hafi verið inn á aðalskipulagi um alllangt skeið og nú þegar sé vegur sem tengir Álafosskvos og aðra íbúðabyggð við Vesturlandsveg.

Eins og að framan er lýst er Varmá frá upptökum til ósa á náttúrminjaskrá. Fyrirhuguð tengibraut mun ekki þvera Varmá en hún fer á ákveðnum kafla inn fyrir 50 m belti sem skilgreint er sem hverfisvernd Varmár í aðalskipulagi Mosfellsbæjar.

Samkvæmt c. lið 68. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999 skulu í náttúrminjaskrá vera sem gleggstar upplýsingar um náttúrminjar, þ.e. landsvæði, náttúrmyndanir og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem rétt þykir að vernda. Leita skal umsagnar og tilkynna Umhverfisstofnun um framkvæmdir þar sem hætta er á að spillt sé náttúrminjum á náttúrminjaskrá öðrum en friðlýstum. Varmá hefur ekki verið friðlýst. Fyrirhuguð framkvæmd mun fara á ákveðnum kafla inn fyrir 50 m belti sem skilgreint er sem hverfisvernd í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Ekki er í lýsingu svæðisins í náttúruminjaskrá að finna afmörkun á stærð svæðisins umhverfis Varmá. Í gr. 1.3 gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 er hverfisvernd skilgreind sem ákvæði í svæðis-, aðal- og deiliskipulagi um verndun m.a. náttúrminja án þess að um lögformlega friðun sé að ræða. Sveitarstjórn setur fram stefnu sína um landnotkun og þróun byggðar í skipulagsáætlun. Þar eru sett m.a. fram markmið um einstaka þætti varðandi náttúruvernd. Ákvörðun um hverfisvernd er þannig einn af þeim þáttum sem sveitarstjórn tekur ákvörðun um við gerð aðalskipulags. Í svæðis- og aðalskipulagi ber að auðkenna og gera grein fyrir náttúruverndarsvæðum, svo sem eins og svæðum á náttúrminjaskrá, og hvaða landnotkun er fyrirhuguð á svæðunum. Ef mannvirkjagerð er fyrirhuguð á náttúruverndarsvæðum skal gera grein fyrir henni í deiliskipulagi, sbr. gr. 4.19.2 skipulagsreglugerðar. Einnig ber að gera grein fyrir svæðum sem njóta hverfisverndar í svæðis- og aðalskipulagi og hvaða reglur gilda á hverju þeirra um landnotkun, umgengni og mannvirkjagerð, sbr. gr. 4.22.2 skipulagsreglugerðar. Í skipulagsreglugerð er því gert ráð fyrir að mannvirkjagerð geti verið heimil á svæðum á náttúrminjaskrá eða svæðum sem njóta hverfisverndar.

Ráðuneytið telur með vísan til framangreinds að fyrirhuguð framkvæmd brjóti ekki gegn ákvæðum náttúruverndarlaga eða fari gegn ákvæðum náttúrminjaskrár sem gilda um Varmá.

3.2 Meðhöndlun ofanvatns og vistkerfi Varmár.

 

Í kæru Varmársamtakanna er bent á að Varmá sé á Náttúruminjaskrá og njóti hverfisverndar og því beri að gera strangar kröfur til meðhöndlunar ofanvatns. Kærandi vísar til 1. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun vatns nr. 796/1999 og til iii. liðar 2. tölul. 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum sem segi að athuga þurfi hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á með tilliti til verndarsvæða, álagsþols náttúrunnar, einkum með tilliti til náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúrminjaskrá, sbr. d) iv. liðar. Varmársamtökin telja að það að fyrirhugaðar settjarnir verði staðsettar handan Vesturlandsvegar þýði að vatn verði leitt burt af svæðinu sem muni hafa áhrif á vatnabúskap Varmár og þar með lífríki árinnar. Þá telur kærandi Hildur Margrétardóttir að staðsetning settjarna geti stofnað fólki í hættu.

Umhverfisstofnun telur að gera þurfi ráð fyrir mótvægisaðgerðum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar svo vistkerfi Varmár skaðist ekki og að ekki mun gæta aukinnar mengunar í ánni. Stofnunin leggur áherslu á að þess verði gætt að ofanvatni af tengibrautinni verði hvorki veitt burt af svæðinu né sett óhreinsað í Varmá. Í hinni kærðu ákvörðun er tekið undir ábendingar Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og Umhverfisstofnunar um að koma þurfi upp settjörnum eða öðrum nauðsynlegum hreinsibúnaði til að draga úr styrk mengandi efna sem kunna að berast út í Varmá án þess að dregið verði úr vatnsmagni árinnar. Þar segir að Skipulagsstofnun telji eðlilegast að uppsetning settjarna eða annars hreinsibúnaðar fari fram samhliða framkvæmdum við fráveitu fyrirhugaðs hverfis. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis kemur fram að heilbrigðiseftirlitið telji niðurstöðu Skipulagsstofnunar um hreinsun ofanvatns ásættanlega. Að uppsetning settjarna eða annars hreinsibúnaðar fari fram samhliða framkvæmdum við fráveitu fyrirhugaðs hverfis. Þá segir að heilbrigðiseftirlitið muni fylgjast grannt með hönnun settjarna fyrir svæðið þannig að tryggt verði að hreinsun ofanvatns verði í samræmi við reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Af hálfu Mosfellsbæjar kemur fram að brugðist hafi verið við ábendingum Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis varðandi það atriði að yfirborðsvatn af tengibrautinni fari ekki óhreinsað út í Varmá. Gert sé ráð fyrir að yfirborðsvatn verði leitt í regnvatnskerfi sem síðan verði hreinsað í gegnum settjarnir. Ráðgert sé að settjarnir verði staðsettar handan Vesturlandsvegar í landi Mosfellsbæjar undir Ullarnesbrekkum. Samráð verði haft við Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis meðan á hönnun og undirbúningi framkvæmda standi þannig að aðilar séu sáttir um að nægjanlega vel að málum sé staðið hvað hugsanlega mengun varðar. Áhrif tengibrautar á vistkerfi Varmár munu verða hverfandi, vegna framangreindra aðgerða.

Kærendur telja að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa áhrif á vistkerfi Varmá, verði ekki gripið til mótvægisaðgerða. Framkvæmdaraðili hefur lýst því yfir að þær mótvægisaðgerðir felast í að yfirborðsvatn verði leitt í regnvatnskerfi sem síðan verði hreinsað í gegnum settjarnir. Við þær framkvæmdir verður haft samráð við Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis þannig að tryggt sé að mengun sé haldið í samræmi við kröfur reglugerðar um mengun vatns nr. 796/1999 og mun Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis fylgjast með hönnun settjarna til að framangreint markmið verði tryggt.

Ráðuneytið telur með vísan til þeirra mótvægisaðgerða sem framkvæmdaraðili hyggst grípa til vegna áhrifa framkvæmdarinnar á vistkerfi Varmár að þau áhrif geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og eru því ekki þess eðlis að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á grundvelli laganna.

4. Loftmengun.

 

Kærandi Varmársamtökin telja að í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila hafi verið ófullnægjandi upplýsingar um loftmengun. Vegna mikillar umferðar um Vesturlandsveg beri, sbr. 3. viðauki laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 að gera verkfræðilega úttekt á mengun, ónæði og sammögnunaráhrifum vegna tengibrautar og umferðar við Vesturlandsveg. Kærandi geri kröfu um fullnægjandi grunnvinnu. Kærandi, Hildur Margrétardóttur telur að þrátt fyrir að Umhverfisstofnun telji ekki líklegt að loftmengun fari yfir skilgreind markmið, sé farið fram á að gerðar verði rannsóknir sem taka á þáttum svo sem útblástursmengun og svifryki með hliðsjón af staðháttum. Jafnframt að unnið verði að rannsóknum með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um loftgæði.

Skipulagsstofnunar segir að í ljósi reynslu sem fengist hefur af loftmengun frá umferð um önnur umferðarmannvirki hafi ekki þótt ástæða til að kalla eftir jafn ítarlegum gögnum og kærandi lýsi eftir. Umhverfisstofnun telur ekki líklegt að loftmengun muni fara yfir skilgreind markgildi þar að lútandi út frá þeirri umferð sem áætlað er að fari um tengibrautina eina og sér.

Í 10. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum er mælt fyrir um hvaða gögn eigi að fylgja tilkynningu framkvæmdaraðila um framkvæmd vegna ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdar. Þar segir e. lið 1. mgr. að fram eigi að koma lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valdi helst áhrifum á umhverfið, sbr. 3. viðauki reglugerðarinnar. Samkvæmt umsögnum Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar verður að líta svo á fyrir hafi legið nægjanlegar upplýsingar um loftmengun af fyrirhugaðri framkvæmd til að hægt væri að meta áhrif af þeim þætti hennar og að framkvæmdin muni ekki fara yfir skilgreindar kröfur um loftmengun. Kröfur um loftmengun er að finna í reglugerð um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings, nr. 251/2002. Markmið hennar er að setja umhverfismörk, gróðurverndarmörk og heilsuverndarmörk og viðvörunarmörk fyrir efnin sem miða að því að komast hjá, fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar skal styrkur brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða, bensens, kolsýrings, svifryks og blýs sem mældur er í samræmi við tilvísunaraðferðir í XI. viðauka með reglugerðinni ekki vera yfir umhverfismörkum sem skilgreind eru í I-VI viðauka reglugerðarinnar. Tilskipun um loftgæði hefur ekki verið felld inn í EES samninginn og hefur því ekki verið innleidd í lög eða reglur og kemur því ekki til álita í máli þessu.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að fullnægjandi grein sé gerð fyrir áhrifum fyrirhugaðar framkvæmdar á loftgæði. Að mati ráðuneytisins geta þau áhrif ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og eru því ekki þess eðlis að meta þurfi umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á grundvelli laganna.

 

5. Skipulag.

 

Í kæru Varmársamtakanna eru gerðar athugasemdir við að deiliskipulag vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og tengdrar framkvæmdar, T-gatnamóta við Álafosskvos verði ekki sett í samhengi. Aðgreining deiliskipulags sé ósættanleg því hér sé um að ræða orsök og afleiðingu sem þýði að annað verði ekki metið án tillits til hins. Í kæru Ásgarðs og Hildar Margrétardóttur er bent á að óheppilegt sé að hafa deiliskipulag fyrir tengibraut og Álafosskvos í sitt hvoru deiliskipulaginu þar sem tengibrautin hafi óhjákvæmileg áhrif á Álafosssvæðið.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er skv. a. lið 1. gr. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Hins vegar er það hlutverk sveitarfélags sem skipulagsyfirvalds að taka ákvörðun um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar, sbr. 9. mgr. 2. gr. og 16. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar, auk þess sem þar eru sett fram markmið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, samgöngur o.fl., sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Ráðuneytið telur því að það sé ekki á verksviði ráðuneytisins í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um áhrif framkvæmdarinnar á skipulag.

Eins og fram hefur komi hefur verið gert ráð fyrir tengibraut vegna Helgafellslands inn á aðalskipulagi Mosfellsbæjar allt frá 1983 og því hefur legið fyrir í langan tíma að til þessarar veglagningar myndi koma. Unnið er að deiliskipulagi fyrir framkvæmdina. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, segir í 7. mgr. gr. 3.1.1. að við skipulagsgerð skuli þess ávallt gætt að sérstökum kröfum sem gerðar eru í öðrum lögum og reglugerðum, svo sem kröfum um hljóðvist fyrir mismunandi landnotkun og starfsemi í mengunarvarnareglugerð sé unnt að framfylgja. Að mati ráðuneytisins er það viðkomandi skipulagsyfirvalda að tryggja að við gerð skipulags vegna tengdra framkvæmda eins og gerð T-gatnamóta við Álafosskvos verði farið að gildandi reglum svo sem um hljóðvist.

6. Annmarkar á málsmeðferð.

 

Í kæru Varmársamtakanna er talið að annmarkar séu á málsmeðferð Skipulagsstofnunar. Ekki hafi verið fullnægt meginreglum stjórnsýslulaga og að hún tryggi ekki niðurstöðu sem samræmist markmiði laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Stofnunina hafi skort nauðsynleg gögn til að geta tekið ákvörðun á réttum og fullnægjandi forsendum og þar með brotið gegn rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 73/1997. Þeirri lagaskyldu sem komi fram í lögum um mat á umhverfisáhrifum að tilgreina eigi í matsskýrslu uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd kunni að hafa á umhverfið, hafi ekki verið fullnægt miðað við þau gögn sem ákvörðun Skipulagsstofnunar byggðist á. Þá hafi Skipulagsstofnun borið að leggja fyrir skipulagsyfirvöld í Mosfellsbæ að gera grein fyrir öðrum möguleikum á fyrirkomulagi umferðar vegna uppbyggingar í Helgafellslandi sem e.t.v. hefði minni áhrif á umhverfið. Með því sé átt við að með því að meta ekki með réttum hætti atriði sem sett séu fram í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum hafi stofnunin komið í veg fyrir að skipulagsyfirvöld Mosfellsbæjar geri grein fyrir flutningi á umferð til og frá byggð í Helgafellslandi. Skipulagsstofnun hafi tekið afstöðu til matsskyldu án þess að framkvæmdaraðili legði fram nokkur gögn um kynningu fyrir íbúum. Einnig gerir kærandi þær athugasemdir að Skipulagsstofnun hafi ekki leitað umsagnar tiltekinna stofnanna eins og Byggðastofnunar, Ferðamálaráðs og Félagsmálaráðuneytisins.

Í köflum IV. 1.- 5. hér að framan hefur verið gerð grein fyrir athugasemdum kærenda sem varða skort á upplýsingum og gögnum sem þeir telja að ekki hafi legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Má þar nefna forsendur hljóðútreikninga skv. samnorrænu reiknilíkani, sammögnunaráhrif frá Vesturlandsvegi, kortlagning hávaða sbr. kafli IV. 1. upplýsingar um sjónræn áhrif og um hönnun hreinsbúnaðar, sbr. kafli IV. 2.-3. og ófullnægjandi upplýsingar um loftmengun, sbr. kafli IV. 4. Í niðurstöðukafla í úrskurði þessum, sbr. kafli V. 1.-4. er tekin afstaða til þessara athugasemda kærenda þar sem fram kemur að ráðuneytið telji að áhrifum sé nægjanlega lýst þar sem við það eru gerðar athugasemdir og að áhrif framkvæmdarinnar geti ekki haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið fellst því ekki á það að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 73/1997. Eins og fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar er við ákvörðun um matsskyldu ekki gerð sú krafa að gerð sé grein fyrir mismunandi kostum við framkvæmdir, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum og því var tilkynning framkvæmdarinnar í samræmi við kröfur þar um. Þegar um er að ræða tilkynningarskyldar framkvæmdir samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, eins og hér er um ræðir ber Skipulagsstofnun ekki að kynna framkvæmdina opinberlega. Kynning framkvæmdar á sér hins vegar stað þegar skipulag vegna framkvæmdarinnar er kynnt í aðal- og deiliskipulagi og gilda þá málsmeðferðarreglur um kynningu skipulagstillagna skv. skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Eins og fram kemur í kafla II. hefur kynning þessara skipulagstillagna farið fram gagnvart íbúum. Í 5. málsl. 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir að áður en tekin er ákvörðun um matsskyldu skuli Skipulagsstofnun leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annara eftir eðli máls hverju sinni. Það er háð mati Skipulagsstofnunar hvort leitað er annara aðila en þeirra sem tilgreindir eru í framangreindu ákvæði. Ráðuneytið telur að við það mat sé horft til þess að umsagnir veiti upplýsingar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Með vísan til framangreinds gerir ráðuneytið ekki athugasemdir við það að Skipulagsstofnun hafi ekki leitað til þeirra aðila sem kærendur benda á.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að ekki hafi verið neinir slíkir annmarkar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar að þeir brjóti gegn ákvæðum stjórnsýslulaga eða laga um mat á umhverfisáhrifum.

 

7. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins, að staðfesta beri ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. maí 2006 þess efnis að tengibraut frá Vesturlandsvegi um Álafossveg og Helgafellsland sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

 

Úrskurðarorð:

 

 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 22. maí 2006 um að tengibraut frá Vesturlandsvegi um Álafossveg og Helgafellsland sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum