Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2012

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, föstudaginn 28. september 2012, var tekið fyrir mál nr. 10/2012, A gegn barnaverndarnefnd B vegna ákvörðunar nefndarinnar um loka máli því sem var til meðferðar hjá nefndinni.

Kveðinn var upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Í máli þessu hefur A kært þá ákvörðun barnaverndarnefndar B að loka máli því sem var til meðferðar hjá nefndinni. Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi nefndarinnar 11. maí 2012 og segir í fundargerð nefndarinnar að undir könnun máls barna kæranda hefðu börnin flutt til C, en börnin eigi lögheimili hjá föður í D og hafi faðir ekki veitt samþykki sitt fyrir dvöl þeirra hér á landi.

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Kæra Vigdísar Ó. Sveinsdóttur héraðsdómslögmanns fyrir hönd A er dagsett 25. maí 2012. Þar er kærð sú ákvörðun barnaverndarnefndar B að loka máli því sem var til meðferðar hjá nefndinni, en ákvörðunin var tekin á fundi nefndarinnar 11. maí 2012. Af efni kærunnar má ráða að þess sé krafist að ákvörðun barnaverndarnefndar B verði hnekkt.


Kærunefnd barnaverndarmála óskaði eftir umsögn barnaverndarnefndar B með bréfi, dagsettu 30. maí 2012, og barst svar velferðarsviðs B til kærunefndarinnar með bréfi, dagsettu 6. júní 2012. Lögmanni kæranda var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina, með bréfi kærunefndar dagsettu 11. júní 2012, og bárust athugasemdir lögmannsins með bréfi dagsettu 22. júní 2012.

 

II.

Málavextir

 

Kærandi og E kynntust í D í lok árs 2002. Dóttir þeirra, F, fæddist árið 2004 og dóttirin G fæddist árið 2006. Fjölskyldan fluttist til Íslands í júní 2006. Árið 2007 fæddist þeim dóttirin H. Auk þessara telpna á kærandi soninn I, fæddan 1997. Öll börnin eru íslenskir ríkisborgarar. Í janúar 2009 fluttist fjölskyldan til D. Vegna erfiðleika í sambúð kæranda og föður barnanna fór hún til Íslands með börnin 22. mars 2010. Faðir barnanna tilkynnti brottför kæranda til J en kærandi sneri aftur til D með börnin 26. apríl 2010, en þá hafði faðirinn lagt fram kröfu um skilnað að borði og sæng. Aðalmeðferð um forsjárkröfu og kröfu um umgengni föður við börn sín var háð 17. september 2010 og var kveðinn upp úrskurður varðandi umgengni barnanna við föður sinn meðan á rekstri forsjármálsins stæði, 24. september 2010, en ákveðið var að forsjáin skyldi áfram vera sameiginleg. Með dómi K frá 28. október 2010 var úrskurðurinn staðfestur, en áður, eða 22. október 2010, hafði kærandi farið til Íslands með börn sín og flutt til C. Faðirinn lagði þá fram kröfu fyrir Héraðsdómi Austurlands um að dætur hans yrðu teknar úr umráðum kæranda og færðar sér. Kvað dómurinn upp úrskurð 7. febrúar 2011 þar sem fallist var á kröfu föðurins. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 7. mars 2011. Kærandi sneri aftur til D eftir að dómurinn féll en ákvað í janúar 2012 að fara með dæturnar aftur til Íslands. Lögmaður föðurins fór fram á afhendingu dætranna og hugðist sýslumaðurinn á C láta fara fram aðfarargerð 27. apríl sl. Tilkynning barst Barnavernd í B 24. apríl sl. um að áhyggjur væru af líðan dætranna og öryggi þeirra yrðu þær sendar til föður. Í tilkynningunni kom fram að móðirin væri búsett í B ásamt dætrum sínum. Upplýsinga og gagna var aflað frá barnaverndaryfirvöldum á C og var kærandi boðuð til viðtals 26. apríl sl. Kemur fram í gögnum barnaverndarnefndar B að starfsmenn nefndarinnar hefðu viljað ræða við dætur kæranda á meðan könnun máls færi fram, enda væri líklegt að þær þyrftu aðstoð í kjölfar skilnaðar foreldra þeirra. Í greinargerð barnaverndarnefndar B kemur fram að áður en til þess hafi komið hafi kærandi snúið aftur til C og hafi það fengist staðfest frá skólayfirvöldum og barnavernd á svæðinu. Lögsaga barnaverndar B hafi byggt á því einu að börnin hefðu dvalarstað og væru stödd í B, sbr. 5. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga.

 

 

III.

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi kveður að hún hafi ekki vitað að til stæði að ræða við dætur hennar af hálfu barnaverndarnefndar B, eins og fram komi í greinargerð barnaverndarnefndar. Það liggi heldur ekki fyrir af hálfu barnaverndarnefndar hvenær slíkt hafi staðið til. Lögmaður kæranda hafi ítrekað reynt að ná tali af starfsmönnum Barnaverndar B, án árangurs. Kærandi hafi þannig upplifað afskiptaleysi af hálfu Barnaverndar B. Kærandi kveðst hafa snúið aftur til C gagngert til að leyfa eldri börnum sínum að ljúka við síðustu daga skólaannar og til þess að ljúka við flutninga. Skólaskylda sé á Íslandi og beri forráðamaður barns ábyrgð á að barnið sæki skóla. Kærandi hafi því einungis verið að fullnægja lagaskyldu og tryggja lögbundin réttindi barna sinna til skólagöngu, með því að flytjast aftur til C.

 


 

 

IV.

Sjónarmið Velferðarsviðs B

 

Velferðarsvið B bendir á að skv. 2. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sé það hlutverk þeirrar nefndar sem hafi barnaverndarmál til meðferðar að tilkynna flutning til barnaverndarnefndar í umdæmið sem barnið flytji, veita upplýsingar og láta nefndinni té öll nauðsynleg gögn. Málið hafi ekki verið flutt aftur til Barnaverndar í B frá C eða Barnavernd B verið upplýst um það með öðru móti að kærandi hafi snúið aftur með dætur sínar og að þær hafi nú búsetu í B.

 

 

V.

Forsendur og niðurstaða

 

Í máli þessu er einvörðungu til úrlausnar hvort sú ákvörðun barnaverndarnefnd B, að loka máli því sem var til meðferðar hjá barnaverndarnefndinni, hafi verið lögmæt. Í 15. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um valdsvið og samstarf barnaverndarnefnda. Þar segir í 5. mgr. að „ef barn á ekki lögheimili á Íslandi eða er hér án forsjáraðila sinna skal barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn dvelst eða er statt fara með mál þess. Barnaverndarnefnd fer þá með umsjá barnsins eftir því sem þörf krefur og ber að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja hagsmuni þess.“

Fyrir liggur að enginn ágreiningur er um það milli barnaverndarnefndar B og C að Barnavernd á C hafði lögsögu í málefnum dætra kæranda á þeim tíma er ákvörðun barnaverndarnefndar B um að loka málinu var tekin. Þá liggur jafnframt fyrir að málið hafði þá ekki verið flutt aftur til Barnaverndar í B frá C.

Samkvæmt framangreindu var barnaverndarnefnd B rétt að loka málinu, þar sem ljóst er af gögnum málsins að mál dætra kæranda heyrði á þeim tíma er ákvörðun var tekin undir Barnavernd C, sbr. 5. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Staðfest er sú ákvörðun barnaverndarnefndar B frá 11. maí 2012 að loka máli því sem var til meðferðar hjá nefndinni vegna málefna dætra kæranda.

 

 

Ingveldur Einarsdóttir, formaður

Gunnar Sandholt

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira