Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 16/2014

Umgengni

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 18. febrúar 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hennar, B, nr. 16/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

1. Málsmeðferð og kröfugerð

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við dóttur sína, B. Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 14. október 2014 um umgengni kæranda við dóttur hennar, B. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við móður sína, A, tvisvar sinnum á ári í tvær klukkustundir í senn. Umgengni skal fara fram í maí og nóvember ár hvert. Skal umgengni fara fram í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.

Skilyrði fyrir umgengni er að móðir sé edrú og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir auk þess að móðir sé í andlegu jafnvægi. Þá er móður heimilt að senda telpunni afmælisgjafir og jólagjafir í gegnum skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur.

Umgengnin verði með þessum hætti í varanlegu fóstri.

Kærandi krefst þess að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir barnaverndarnefnd að taka fyrir umgengniskröfu kæranda að nýju og þá með tilliti til tengslasjónarmiða þeirra sem kærandi vísi til í kæru. Kærandi óskar þess enn fremur að málinu verði hraðað eins og kostur er.

Kærunefnd barnaverndarmála kallaði eftir afstöðu fósturforeldra B, þeirra C og D, til krafna kæranda varðandi umgengni hennar við stúlkuna. Í tölvupósti frá fósturforeldrum til kærunefndarinnar 28. janúar 2015  kemur fram að þeir telji það ganga gegn hagsmunum stúlkunnar að umgengni hennar við móður sína verði aukin frá því sem nú er.

2. Málavextir

B fæddist ..... og er því tæplega X ára gömul. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014 og var dóminum ekki áfrýjað. Stúlkan lýtur forsjár barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Faðir hennar er E. Foreldrarnir voru í hjúskap en skildu að borði og sæng [...] 2012. Stúlkan var vistuð utan heimilis frá því í september 2012, fyrst hjá föðurforeldrum sínum í tólf mánuði en síðan hjá fósturforeldrum þar sem hún er nú í varanlegu fóstri.

B er í varanlegu fóstri sem ætlað er að standa til 18 ára aldurs hennar. Fram kemur í gögnum málsins að stúlkan hefur aðlagast vel í fóstrinu, hún hefur tengst fósturforeldrum sínum vel og leitar hún eðlilega til þeirra um umhyggju og umönnun. Stúlkan er á leikskóla og samkvæmt gögnum málsins gengur vel þar, henni líður vel og hún sýnir aldurssvarandi hegðun í leik við önnur börn. Stúlkan er skýr og málþroski er góður.

Í gögnum máls þessa kemur enn fremur fram að kærandi hefur átt í langvarandi erfiðleikum vegna fíkniefnaneyslu, auk þess sem hún á að baki afbrotaferil og hefur hlotið nokkra dóma. Þá segir að kærandi eigi það enn fremur til að vera hömlulaus í samskiptum við annað fólk. Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 6. október 2014 kemur fram að kærandi hafi nýlokið afplánun og sé á skilorði. Hún sé að eigin sögn ekki í vímuefnaneyslu, leigi sér íbúð og sé að hefja nám til að ljúka stúdentsprófi.

Kærandi hafði umgengni við stúlkuna 14. febrúar 2014 í eina klukkustund undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Hún hafði aftur umgengni 9. ágúst 2014 í tvær klukkustundir einnig undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar Reykjavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum var stúlkan í nokkru ójafnvægi eftir fyrri umgengnina og hafi hún sýnt breytta hegðun í nokkra daga, verið reið og talað sjálf um að vera reið og leið. Hún hafi haft mikla þörf fyrir að vera í fangi fórsturforeldranna og hafi virst óörugg, auk þess sem hún hafi ítrekað þurft að fá staðfestingu á því að hún yrði áfram á fósturheimilinu. Fram kemur að síðari umgengnin hafi gengið vel að sögn eftirlitsaðila. Að sögn fósturforeldra hafi stúlkan verið í nokkuð góðu jafnvægi eftir þá umgengni en borið hafi á óöryggi þegar hún fór í leikskólann næsta dag.

Kærandi gerði kröfu fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur um töluvert mikla umgengni við stúlkuna eins og rakið er í bréfi lögmanns hennar til nefndarinnar 17. september 2014. Eins og fram hefur komið kvað barnaverndarnefndin upp úrskurð um umgengnina 14. október 2014 sem síðan var skotið til kærunefndar barnaverndarmála.

3. Afstaða kæranda

Fram kemur af hálfu kæranda að hún hafi verið svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014. Í dóminum sé talað um fíkniefnaneyslu hennar, afbrotahegðun og hömluleysi í framkomu við annað fólk. Kærandi telji að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi fyrirfram mótaða afstöðu til hennar og að hún njóti ekki sannmælis. Kærandi hafi ekki dregið dul á að heimilisaðstæður hennar hafi verið erfiðar þegar hún hafi verið í neyslunni en bendir á að þegar hún hafi verið ein með dóttur sinni hafi ekki verið nein vandamál. Foreldrar stúlkunnar séu skilin að borði og sæng og séu samskipti þeirra í algeru lágmarki, enda afpláni faðir X ára fangelsisdóm. Kærandi segir aðstæður sínar vera góðar í dag, hún sé að fara í nám, sé ekki í vímuefnaneyslu og leiti sér aðstoðar eftir þörfum.

Fram kemur að upplifun kæranda af umgengni við dóttur hennar hafi verið mjög góð. Þær mæðgur hafi tengst mjög vel. Hún bendir á að hún hafi sent upptökur og myndir með kærunni til kærunefndarinnar sem sýni gang umgengninnar. Kærandi gerir athugasemdir við lýsingar fósturforeldra á eftirköstum umgengninnar. Haft sé eftir fósturmóður að stúlkan hafi verið óörugg þegar hún fór í leikskólann. Engin gögn frá leikskóla styðji þessa lýsingu hennar, en ráða megi að barnið hafi notið umgengninnar. Kærandi gerir einnig athugasemdir við gagnrýnislausan trúnað á frásögn fósturforeldra sem eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu.

Lögmaður kæranda sendi Barnavernd Reykjavíkur 17. september 2014 tillögur kæranda um umgengni fram til loka ársins. Tillögurnar eru þær að umgengni verði aukin verulega frá því sem verið hafði, eins og rakið er í kæru. Fram kemur að kærandi hafi talið mikilvægt að ræktuð yrðu tengsl hennar og barnsins þannig að hún gæti haldið fram rétti sínum fyrir dómi, sbr. 34. gr. barnaverndarlaga. Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar kemur fram að umgengni kæranda við barnið hafi verið slitrótt og að stúlkan hafi aðeins hitt kæranda í þrígang. Varðandi þetta bendir kærandi á að hún hafi ítrekað óskað eftir umgengni, en athygli veki hve langan tíma það hafi tekið að afgreiða erindi hennar og hve litlu það hafi áorkað. Barnaverndarnefnd telji að umgengni tvisvar á ári sé fullnægjandi til þess að mæta þeim skilyrðum að stúlkan þekki uppruna sinn án þess að það raski högum hennar. Það sé sameiginlegt mat starfsmanna og fósturforeldra. Kærandi gerir athugasemdir við að fósturforeldrum sé veitt slík aðild að málinu að þeir hafi með ákvörðun um umgengni að gera. Það sé einnig mat barnaverndarnefndar að fullreynt hafi verið að styðja kæranda til að annast dóttur sína. Þessu hafnar kærandi og bendir á að þegar hún hafi verið ein með dóttur sína hafi það gengið vel. Barnið hafi verið tekið af henni þegar hún hafi verið í sambandi við barnsföður sinn en þau sé nú skilin. Hafi nefndin ekkert tilliti tekið til þess. Kærandi telji að barnaverndarnefnd leggi of mikla áherslu á aðskilnað þeirra mæðgna en taki ekkert tillit til þess að aðskilnaður hafi verið vegna seinnar afgreiðslu og óbilgirni starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.

Kærandi vísar til 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafi verið aðilar að síðan 1992. Þar komi fram að aðildarríki skuli virða rétt barns sem skilið hafi verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Kærandi telji að tveir stuttir umgengnistímar á ári séu ekki til þess fallnir að viðhalda persónulegum tengslum barnsins við hana og með því sé brotið á rétti barnsins. Þá sé ekki að sjá að umgengni kæranda og barnsins fari gegn hagsmunum þess, nema síður sé. Grundvöllur alls barnaverndarstarfs sé að tryggja börnum skilyrði til eðlilegs þroska og vaxtar sem og öryggi til þessa. Til þess beri yfirvöldum að styðja fjölskyldur og styrkja. Ákveðnar kringumstæður kunni að réttlæta viðurhlutamikil inngrip, sbr. neyðarvistun og forsjársviptingu. Löggjafinn geri líka ráð fyrir því að fólk geti rétt hlut sinn, náð tökum á tímabundnum erfiðleikum og þá sameinað fjölskylduna að nýju. Kærandi tekur fram að Barnasáttmálinn tiltaki að aðili sem sviptur sé forsjá barns síns geti borið undir dómstól forsjársviptinguna þegar ár er liðið frá því að dómur hafi síðast leyst úr máli með endanlegum dómi. Áskilnaður sé þó um að slík krafa þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna, raski ekki stöðugleika í uppeldi barnsins og taki mið af hag og þörfum barnsins. Fyrrgreind lagaákvæði séu þýðingarlaus ef forsjársviptur aðili sé útilokaður frá umgengni við barn sitt. Engar röksemdir eða álit sérfróðra aðila liggi til grundvallar þeirri ákvörðun að tvö skipti á ári þjóni best hagsmunum barnsins.

Kærandi bendir á að hún sé barninu ekki hættuleg og engin rök hafi verið færð fram fyrir þeirri nauðsyn að umgengni sé undir eftirliti. Hún telur eðlilegt að hún skili vímuefnaprófum áður en umgengni fari fram.

Í kærunni er sérstaklega vísað til þess að kærandi telji að starfsmenn barnaverndar hafi í störfum sínum engan stuðning sýnt hugmynd kæranda um endurupptöku á málinu á grundvelli 34. gr. barnaverndarlaga. Kærandi telur það í reynd brot á ákvæðum barnaverndarlaga. Barnavernd hafi tekið við forsjá barnsins samkvæmt dómi. Samkvæmt skilningi starfsmanna þá verði foreldri með því ekki lengur aðili að málefnum barnsins að öðru leyti en því sem tengist umgengni. Þennan skilning telji kærandi rangan og lýsa skort á innsæi. Á meðan foreldri eigi rétt til endurskoðunar á ákvörðun samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga njóti það aðildar, þótt takmörkuð sé. Starfsmönnum barnaverndar beri að gæta réttar beggja aðila. Kærandi hafi lýst fyrirætlan sinn á fundi með starfsmönnunum og óskað eftir virku eftirliti með högum sínum og stöðu. Beri starfsmönnunum við slíkar aðstæður skylda til að gæta réttar kæranda og um leið meta stöðugt hvort grundvöllur sé fyrir aukinni umgengni.

Í tilefni af upplýsingum frá leikskóla B 2. febrúar 2015 eru í tölvupósti lögmanns kæranda til kærunefndarinnar 11. febrúar 2015 gerðar eftirfarandi athugasemdir. Í bréf leikskólans vanti allar dagsetningar á því hvenær „erfiðrar hegðunar“ barnsins hafi orðið vart. Í bréfinu sé talað um að barnið „blómstri hjá fósturforeldrum“ og sérstaklega á það bent að „barninu líður vel hér“. Lögmaðurinn gerir athugasemdir við svo gildishlaðnar lýsingar, sem þjóni engum tilgangi. Leikskólinn hafi engar upplýsingar um fyrri stöðu barnsins né heldur hafi verið samskipti milli leikskólans og fyrri dagmömmu barnsins. Sú kona hafi gefið kæranda mjög góða umsögn. Umgengni barnsins við kæranda hafi ætíð gengið vel og barnið kalli kæranda mömmu sína. Vafalaust megi rekja einhverja háttsemi barnsins sem söknuð vegna kæranda.

4. B

B verður X ára .... Hún er í varanlegu fóstri eins og fram hefur komið og gengur fóstrið vel. Stúlkan hefur myndað tilfinningatengsl við fósturforeldrana og aðlagast vel á fósturheimilinu. Hún virðist upplifa þar öryggi og traust. Stúlkan er á leikskóla og gengur vel þar, hún er glöð og sýnir aldurssamsvarandi hegðun í leik við önnur börn. Félagsleg staða hennar er góð og stúlkan er skýr og hefur góðan málþroska.

Stúlkan hitti kæranda í umgengni tvisvar sinnum árið 2014, í febrúar og í ágúst. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum var B í nokkru ójafnvægi eftir fyrri umgengnina, sýndi óöryggi og þurfti ítrekað að fá staðfestingu á því að hún yrði áfram á fósturheimilinu. Síðari umgengnin gekk vel að sögn eftirlitsaðila. Að sögn fósturforeldra var stúlkan í nokkuð góðu jafnvægi eftir þá umgengni en borið hafi á óöryggi þegar hún fór í leikskólann næsta dag.

Í bréfi 2. febrúar 2015 frá leikskóla stúlkunnar, F, eru veittar upplýsingar um stúlkuna sem óskað var eftir í tilefni af málmeðferðinni fyrir kærunefndinni. Þar kemur fram að eftir heimsóknir til kynmóður finni starfsmenn deildarinnar breytingar á hegðun stúlkunnar. Þær birtist m.a. í því að hún fái skapköst, láti eins og smábarn, gráti og pissi á sig. Hún sé til baka og þurfi að vera nálægt konu og sé sífellt að sannfæra sjálfa sig og spyrji eða fullyrði hvort það sé ekki örugglega mamma C sem komi til að sækja sig. Oft taki það á þriðju viku fyrir hana að ná aftur að verða þessi skýra, duglega og dásamlega stelpa sem hún sé.

Fram kemur í bréfi leikskólans að stúlkunni líði vel. Hún blómstri hjá fósturforeldrum og hafi farið mjög mikið fram síðan hún hafi komið fyrst í F. Hún sé glöð og fagni þeim svo innilega þegar þau komi að sækja hana og þau henni. Það sama eigi við um fósturafa- og ömmu þegar þau komi.

5. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 8. desember 2014. Þar er því lýst að ekki hefði náðst samkomulag um umgengni í varanlegu fóstri og hafi málið því verið lagt fyrir nefndina 14. október 2014. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að ekki væru rök fyrir því að fallast á kröfur kæranda um umgengni. Hún hafi verið svipt forsjá barnsins með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014 þar sem talið hafi verið fullreynt að styðja hana til að annast dóttur sína. Stúlkan hafi verið í brýnni þörf fyrir öryggi og stöðugleika í uppvextinum sem kærandi hafi ekki verið fær um að veita hennar. Stúlkan hafi ekki getað beðið lengur eftir því að kærandi tæki á vanda sínum og yrði fær um að veita henni viðunandi uppeldisaðstæður. Það að kærandi hafi nú beint lífi sínu í jákvæðari farveg og haldið sig frá vímuefnum frá því að hún hafi lokið afplánun í júnímánuði 2014 sé jákvætt en breyti hins vegar ekki því sem liðið sé og áhrifum þess á aðstæður stúlkunnar. Ekki verði fallist á að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best nú að byggja upp á ný tengsl við kæranda í ljósi forsögu málsins og þeirra upplýsinga sem liggi fyrir um núverandi aðstæður barnsins. Stúlkan hafi aðlagast fósturforeldum mjög vel, myndað við þau tilfinningatengsl og tilheyri þeim eins og um eigið barn væri að ræða. Hún virðist upplifa þar öryggi og traust sem börnum sé mikilvægt í uppvexti. Ekki sé annað fyrirséð en að stúlkan verði vistuð utan heimilis kæranda til 18 ára aldurs. Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að mikilvægt væri að skapa stúlkunni áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt væri nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Að mati barnaverndarnefndar Reykjavíkur sé umgengni tvisvar á ári talin hæfileg til að mæta þeim markmiðum sem að sé stefnt með umgengni í varanlegu fóstri stúlkunnar. Telji nefndin nauðsynlegt að umgengni fari fram undir eftirliti í allt að tvo tíma í húsnæði á vegum nefndarinnar, í maí og nóvember ár hvert. Þá sé það skilyrði sett að kærandi undirgangist vímuefnapróf fyrir umgengni og sé í andlegu jafnvægi. Kæranda sé heimilt að senda stúlkunni afmælis- og jólagjafir.

Fram kemur að markmiðið með varanlegu fóstri sé að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu eins og um eigið barn væri að ræða og taki umgengni við kynforeldra mið af því, sbr. 65. og 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og reglugerð nr. 804/2004 um fóstur. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verður lögráða, eins og í þessu tilfelli, sé umgengi yfirleitt mjög takmörkuð. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Af gögnum málsins sé ljóst að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun barnsins eftir að hún flutti á heimili fósturforeldra sinna og virðist hún njóta ástar, umhyggju og öryggis í umsjá fósturforeldra.

6. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturforeldra B, þeirra C og D, kemur fram að það sé einlæg ósk þeirra að umgengni stúlkunnar við kynmóður sína verði ekki aukin umfram það sem hún sé í dag. Fósturforeldrarnir telji að það stuðli að því að B fái að þroskast og dafna í því örugga umhverfi sem hún búi við hjá þeim. Stúlkan hafi sýnt óeðlilega hegðun fyrstu vikurnar eftir að hún hafi hitt kynmóður sína. Greinilegt dæmi um það sé að hún haldi ekki þvagi, hvorki á daginn né á nóttunni, þrátt fyrir að vera löngu komin yfir þann þröskuld í þroska. Hún fyllist óöryggi, þurfi sífellda staðfestingu á veru sinni og hlutverki innan fjölskyldunnar, forðist að sofa í eigin rúmi og vilji ekki sleppa af þeim takinu og hafi mikla þörf fyrir að fósturforeldrarnir séu nærri henni öllum stundum. Starfsfólk leikskóla stúlkunnar geti staðfest þetta, enda beri greinilega á þessu þar eftir umgengni, en annars ekki.

Fram kemur að það sé réttur B að vita hver kynmóðir hennar sé og fósturforeldrarnir vilji að sjálfsögðu ekki leyna hana neinu. Hins vegar sé B á mikilvægu þroskastigi, hún sé að stíga sín fyrstu sjálfstæðu skref út í lífið og þurfi, eins og öll börn, á miklu öryggi að halda, hún þurfi að vita að hún eigi sterkt bakland og að fósturforeldrarnir séu reiðubúnir til að gera allt til að vernda hana og styðja. Fósturforeldrarnir sjái því ekki, í ljósi þess hversu slæm áhrifin séu, að það sé á neinn hátt hennar hagur að aukið verði við umgengni eins og staðan sé í dag.

B sé einstaklega lífsglöð og hjartahlý stúlka sem eigi rétt á því að búa við öryggi og umhyggju og fá tækifæri til að styrkja tengslin við fósturforeldrana þar sem hún sé í varanlegu fóstri. Fósturforeldrarnir loki ekki fyrir það að umgengnin verði aukin þegar B hafi náð meiri þroska og eigi auðveldara með að gera sér grein fyrir aðstæðum, en á meðan hún skilji aðstæðurnar ekki betur en nú, verði fósturforeldrarnir, vegna hags stúlkunnar, að fara fram á óbreytta stöðu.

7. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfum kæranda um rýmri umgengni við tæplega X ára gamla dóttur sína en hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur kveður á um. Stúlkan er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum. Í 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.

Stúlkan hefur verið í varanlegu fóstri frá október 2013 sem ætlað er að standa þar til hún verður sjálfráða. Foreldrar hennar voru í hjúskap en skildu að borði og sæng 2. október 2012. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014. Með fósturráðstöfuninni er ætlunin að tryggja barninu stöðugt og öruggt umhverfi hjá umönnunaraðilum sem gert er ráð fyrir að barnið líti á sem fjölskyldu sína. Samkvæmt 3. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga er markmið fósturs að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum þess og skal börnum tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum. Markmiðið með þessu þjónar ótvírætt hagsmunum barnsins en miklu máli skiptir fyrir þroska barnsins og heilbrigði til lengri og skemmri tíma að það njóti stöðugra og öruggra tengsla við ákveðna umönnunaraðila sem barninu er ætlað að tengjast á sama hátt og barn tengist foreldrum sínum. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best þegar tekin er afstaða til umgengni barns í fóstri við foreldra.

Kærandi gerir athugasemdir við að fósturforeldrum sé veitt slík aðild að málinu að þeir hafi með ákvörðun um umgengni að gera. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. a barnaverndarlaga, sbr. 42. gr. laga nr. 80/2011, eru fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri aðilar að máli um umgengni samkvæmt 74. gr. laganna. Segir enn fremur í lagaákvæðinu að þessir fósturforeldrar taki þannig þátt í gerð samnings um umgengni, geti óskað breytinga á áður ákvarðaðri umgengni, séu aðilar að úrskurðarmáli og geti skotið úrskurði um umgengni til kærunefndar barna­verndarmála. Með vísan til þeirrar réttarstöðu sem fósturforeldrar í máli þessu hafa samkvæmt framangreindu lagaákvæði er athugasemdum kæranda í þeim efnum hafnað.

Í kærunni er vísað til þess að kærandi hafi talið mikilvægt, þegar hún beindi kröfum um umgengni til barnaverndarnefndarinnar 17. september 2014, að ræktuð yrðu tengsl hennar og barnsins þannig að hún gæti haldið fram rétti sínum fyrir dómi, sbr. 34. gr. barnaverndarlaga.

Í þessu máli eru ekki áform um að byggja upp varanleg tengsl stúlkunnar við kæranda. Þær áætlanir sem gerðar hafa verið miða að því að tryggja öryggi stúlkunnar til lengri og skemmri tíma og þær ber að miða við þá stöðu sem stúlkan er í þegar ákvörðun er tekin um umgengni hennar við kæranda. Þótt kærandi hafi vísað til þess að hún ætli að láta á það reyna að fá forsjá stúlkunnar að nýju samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga verður ekki fallist á þær röksemdir kæranda að það hafi sérstakt vægi í málinu að hún eigi rétt á því að ákvörðun um forsjársviptingu sæti endurskoðun samkvæmt lagaákvæðinu. Með vísan til þess sem fram kemur í 2. mgr. 74. gr. sömu laga um rétt foreldris til umgengni við barn í fóstri verður að meta hvort umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósam­rýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Enn fremur verður að meta hvað þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt því ber að meta hverjir hagsmunir stúlkunnar eru út frá þörfum hennar og þeirri stöðu sem hún er nú í. Einnig verður að horfa til þess hverjir hagsmunir hennar eru til frambúðar. Þegar þarfir stúlkunnar eru metnar verður óhjákvæmilega að líta til þeirra breytinga og óstöðugleika sem hún hefur búið við á mikilvægu þroskaskeiði fyrstu eitt til tvö árin í lífi sínu, allt þar til hún fór í varanlegt fóstur í október 2013. Verður því að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að þarfir stúlkunnar séu augljóslega þær að sem minnst röskun verði á stöðu hennar og högum frekar en orðið er, en samkvæmt því sem fram hefur komið býr hún nú við öryggi og henni líður vel. Umgengni kæranda við stúlkuna verður að ákveða þannig að hún samræmist þessum sjónarmiðum og lögskýringum.

Þá er af hálfu kæranda vísað til þess að engar röksemdir eða álit sérfróðra aðila liggi til grundvallar þeirri ákvörðun að tvö skipti á ári þjóni best hagsmunum barnsins. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að stúlkan hafi verið í brýnni þörf fyrir öryggi og stöðugleika í uppvextinum þegar kærandi var sviptur forsjá hennar. Gögn málsins og mat kærunefndarinnar á þörfum stúlkunnar við slíkar aðstæður styðja þessa ályktun sem hinn kærði úrskurður er byggður á. Kærunefndin telur tvímælalaust að stúlkan hafi enn þörf fyrir stöðugleika í uppvextinum og að það sé henni mjög mikilvægt að traust og varanleg tengsl verði byggð upp áfram við fósturforeldra hennar. Þannig verði hagsmunir hennar best tryggðir. Ríkari umgengni en ákveðin var með hinum kærða úrskurði getur verið til þess fallin að valda barninu óróleika og slíkt getur teflt í tvísýnu þeim stöðugleika sem barnið hefur samkvæmt framangreindu þörf fyrir. Barnið á tvímælalaust rétt á því að fá tækifæri og frið til að aðlagast þeim aðstæðum sem það býr við í fóstrinu. Að mati kærunefndarinnar hefur dóttir kæranda ekki þörf fyrir ríkari umgengni við kæranda að svo komnu máli en lágmarksumgengni. Sú umgengni sem kærandi fer fram á við stúlkuna fer, að teknu tilliti til þess sem að framan greinir, augljóslega gegn hagsmunum stúlkunnar. 

Kærandi gerir athugasemdir við lýsingar fósturforeldra á eftirköstum umgengninnar. Haft sé eftir fósturmóður að stúlkan hafi verið óörugg þegar hún fór í leikskólann. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla stúlkunnar, sem aflað var eftir að hinn kærði úrskurður var kveðinn upp, hafa starfsmenn skólans fundið breytingar á líðan stúlkunnar eftir umgengni við kæranda. Þessum breytingum er lýst í bréfi leikskólans 2. febrúar 2015 eins og fram kemur hér að framan. Þótt ekki verði af þessum upplýsingum dregnar afgerandi ályktanir um áhrif umgengninnar á stúlkuna verður að taka tillit til þess að kærandi átti við alvarleg persónuleg vandamál að glíma, fíkniefnaneyslu, afbrotahegðun og persónuleikaröskun, sem leiddi meðal annars til þess að hún var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] 2014. Kærunefndin telur að kærandi þurfi lengri tíma til að sýna fram á að hún hafi náð tökum á þessum alvarlega vanda og að ekki verði unnt að ákveða rýmri umgengni hennar við stúlkuna fyrr en hún hefur öðlast færni til að rækja umgengni við dóttur sína á þann hátt að slíkt geti þjónað hagsmunum stúlkunnar. Kærandi getur að liðnum tólf mánuðum frá því að úrskurður um umgengni er kveðinn upp krafist þess samkvæmt 6. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga að barnaverndarnefndin endurskoði úrskurð um umgengni. Niðurstaða um umgengni, sem ákveðin verður með úrskurðinum, gæti því sætt endurskoðun samkvæmt þessu lagaákvæði.

Kærandi telur að hún sé barninu ekki hættuleg og engin rök hafi verið færð fyrir þeirri nauðsyn að umgengni sé undir eftirliti. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði taldi barnaverndarnefndin nauðsynlegt að umgengni færi fram undir eftirliti en barnaverndar­nefndin hefur úrskurðarvald um framkvæmd umgengnis­réttar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Þegar virt eru þau málsatvik, sem hér að framan er rakin og liggja til grundvallar úrlausn málsins, telur kærunefndin að barnaverndarnefndin hafi réttilega metið nauðsyn þess að ungengnin færi fram undir eftirliti. Með því verður unnt að fylgjast með líðan barnsins í umgengninni og að hún fari vel fram þannig að hagsmunir barnsins verði í fyrirrúmi. Jafnframt er eftirliti ætlað að tryggja að umgengnin gangi eðlilega fyrir sig og að unnt verði að grípa inn í ef eitthvað óvæmt gerist eða fer úrskeiðis í umgengninni. Með vísan til þess ber að staðfesta ákvörðun barnaverndarnefndarinnar um að umgengni kæranda við stúlkuna fari fram undir eftirliti.

Af framangreindu leiðir að hafna ber kröfum kæranda um rýmri umgengni við stúlkuna en ákveðin var af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur með vísan til 2. og 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Hinn kærði úrskurður barnaverndar­nefndarinnar frá 14. október 2014 er með vísan til þessa staðfestur.

 

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 14. október 2014 um umgengni A við dóttur sína, B, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira