Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 21. janúar 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd B vegna umgengni við dóttur hennar, C, nr. 17/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:


Með bréfi 5. nóvember 2014 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar B frá 22. október 2014 vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að barnið C skuli hafa umgengni við móður sína, A, sem hér segir:

a) Annan hvern laugardag frá hádegi til kl. 18 á sunnudegi. Heimild til þess að lengja þennan tíma í samkomulagi aðila eftir 1. desember 2014, enda sé það í eðlilegu samhengi við aðra vinnslu barnaverndarmálsins. Næsta umgengni samkvæmt þessu hefst laugardaginn 1. nóvember 2014.

b) Umgengni í jólaleyfi verði frá 22. desember til 29. desember, (nánari tímasetningar ákveðnar í samráði aðila). Umgengni hefst svo skv. lið a) þann 9. eða 10. janúar. Athugað verði í samráði við báða foreldra barnsins hvort barnið geti átt kost á umgengni við aðra nána ættingja sína á þessu tímabili.

c) Símtöl: Móðir hringir í barnið kl. 10 þá laugardaga sem önnur umgengni er ekki.

d) Önnur atriði er varða umgengni á næstu mánuðum:

              a. Þar sem um nokkuð tíð samskipti er að ræða má gera ráð fyrir ýmsum atvikum sem erfitt er að úrskurða um fyrirfram með nákvæmum hætti. Nefndin felur því starfsmönnum sínum að leita samkomulags við móður og eftir atvikum fósturforeldra barnsins þegar slík atvik kunna að koma upp, s.s. varðandi aðkomu móðurinnar að skóla- og tómstundaviðburðum hjá barninu. Við þær aðstæður ber ávallt að hafa markmið fósturs í huga og taka ákvarðanir í samræmi við það.

              b. Umgengni skv. þessum úrskurði skal taka til endurskoðunar eigi síðar en 1. febrúar 2015 með það í huga að gera samning um umgengni barnsins við móður sína til loka fósturtímans. Takist ekki samningar skal málið tekið til úrskurðar á ný á fundi nefndarinnar eigi síðar en 18. febrúar 2015.

Kröfur kæranda eru svohljóðandi:

Að umgengni frá úrskurðardegi til 15. janúar 2015 verði aðra hverja helgi frá föstudegi klukkan 18:00 til klukkan 18:00 á sunnudegi. Sé frí í skóla eftir 15. nóvember, öðru hvorum megin við umgengnishelgi kæranda, lengist umgengnin sem því munar.

Að umgengni um jól og áramót 2014 verði frá 21. desember 2014 til 4. janúar 2015. Umgengni verði á þeim tíma sameiginleg kæranda og föður og með samkomulagi þeirra í milli.

Að umgengni frá 15. janúar 2015 verði eins og framangreint, en auk þess verði fósturfjölskyldu og kæranda heimilt að víkka umgengni eftir efnum. Þar að auki verði stefnt að því eftir efnum að auka umgengni eins og hægt er þar til stúlkan flytur alfarið heim að nýju.

Að kærandi fái að sækja íþróttaviðburði, skólaviðburði og taka þátt í foreldraviðtölum. Kærandi fái að taka þátt í öllum stærri áföngum í lífi barnsins á meðan hún er í fóstri.

Kærandi óskar einnig eftir fjárstyrk frá Barnavernd B að fjárhæð 70.000 krónur auk virðisauka til þess að standa straum af kostnaði við kæruna.

Af hálfu fósturföður stúlkunnar, E, kemur fram í tölvupósti 7. janúar 2015, að fósturforeldrunum sýnist að þegar hafi að töluverðu leyti verið komið til móts við kröfur kæranda um rýmri umgengni við stúlkuna. Varðandi kröfu kæranda um að lengja helgarumgengnina sjái fósturfaðirinn ekki að neitt mæli gegn því færi umgengnin fram á F, en hann viti ekki betur en kærandi sé nú flutt til G. Hann geti ekki mælt með ferðalagi fyrir barnið aðra hverja helgi til G.

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

I. Málavextir

Stúlkan C er fædd [...] og verður því X ára gömul á þessu ári. Hún er dóttir kæranda og H, en foreldrar slitu samvistir árið X. Stúlkan var tekin úr umsjá kæranda með úrskurði barnaverndarnefndar B 12. mars 2014 sem kveðinn var upp á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og henni ráðstafað í fóstur til tveggja mánaða. Barnaverndarnefndin krafðist þess síðan fyrir dómi að fósturráðstöfunin héldist til eins árs og var fallist á kröfuna með dómi héraðsdóms [...] 2014 sem Hæstiréttur staðfesti [...] 2014. Ástæða þess að stúlkan var tekin úr umsjá kæranda var langvarandi og víðtæk vanræksla af hálfu forsjáraðila hennar sem mátti meðal annars rekja til andlegrar og líkamlegrar vanlíðunar kæranda að því er fram kemur í gögnum málsins.

Í greinargerð starfsmanna sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar B 22. október 2014 kemur meðal annars fram að fósturráðstöfunin hafi í heild gengið vel þrátt fyrir erfiðan aðdraganda og hafi stúlkan aðlagast vel á fósturheimilinu. Varðandi umgengnina hafi hún verið ákveðin í skamman tíma í senn fyrstu mánuði fóstursins en aldrei hafi liðið lengri tími en fjórar vikur á milli þess að umgengni átti sér stað. Umgengnin hafi ekki verið hnökralaus og hafi orðið óheppilegar uppákomur [...] og [...] og [...] júní 2014 eins og rakið er í greinargerðinni. Stefnt hafi verið að því af hálfu barnaverndarnefndar að ef samskipti yrðu átakaminni, reynsla yrði komin á aðlögun barnsins á fósturheimilinu og kærandi komin á rekspöl í endurhæfingu sinni, skyldi umgengnin verða reglulegri. Í samræmi við þetta hafi barnið farið reglulega til kæranda aðra hverja helgi og gist yfir nótt frá 4. október 2014. Símtöl hafi verið þá laugardaga sem stúlkan hafi ekki farið til kæranda. Umgengnin hafi í heild gengið vel en nokkrir erfiðleikar hafi verið í upphafi.

Af gögnum málsins má ráða að samskipti kæranda, barnaverndaryfirvalda og fósturforeldra hafa ekki alltaf verið góð eftir að stúlkunni var ráðstafað í fóstur og er uppi nokkur ágreiningur um eðli þess ósamkomulags, ástæður þess og leiðir til úrbóta. Sérstaklega virðast hafa verið erfiðleikar í samskiptum kæranda og fósturforeldra og heldur kærandi því fram að þeir erfiðleikar komi niður á líðan stúlkunnar.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að í heild hafi umgengni gengið vel. Nokkrir erfiðleikar hafi komið fram í upphafi en síðan hafi gengið betur. Þá er í úrskurðinum vísað til þess að þar sem ekki hafi lengur verið fyrir hendi samkomulag um að fylgja tillögum starfsmanna barnaverndarnefndarinnar um umgengnina hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd til úrskurðar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga.

Barnaverndarnefnd B fól H sálfræðingi að taka viðtal við C, sbr. skýrslu þar að lútandi 9. júlí 2014. Helstu niðurstöður sálfræðingsins eru þær að að svo miklu leyti sem eitt viðtal gefi tilefni til að álykta að hagur C hafi verið býsna farsæll til þessa í vist hjá fósturforeldrum á J. Þar sé hún umkringd vinum og hafi margt fyrir stafni alla daga. Af þessu leiði að C gefist ekki tóm til sinnuleysis eða deyfðar, þvert á móti, dagarnir séu ævintýralegir og hún taki þátt af krafti. Svo hafi einnig verið að sjá og heyra að samfélagið á J, skólinn þar með talinn, taki henni vel. C segi fjölskylduna sem hún dvelji hjá vera sér góða, sérstaka hlýju beri hún til fósturmóður sinnar. Hún beri fósturföður almennt góða sögu, segi hann góðan en þó ekki jafn indælan og fósturmóður og hún tengist honum síður en henni. Þá sé C sérlega viðkvæm fyrir neikvæðum orðum sem hún beri að fósturfaðir hafi í eitthvert skiptið viðhaft um móður C. Fóstursystkinum beri C einnig vel söguna, þau virðist vera henni góð og samskiptin eðlileg, stundum jafnvel skemmtileg eins og þegar farið sé í sund eða bíó. C virðist skilja að hún eigi ekki afturkvæmt til móður fyrr en að ári en henni sé umhugað um að komast til ættmenna í K og vera þar með bróður sínum. Sú ósk virðist sálfræðingnum fremur stafa af söknuði eftir bróður en að hún búi við daglega vansæld þar sem hún dvelji í fóstri. Svo virðist sem C uni sér vel með vinum og fjölskyldunni, hún eigi auðvelt með að dreifa huganum við leik og störf og hafi áhuga á því sem hún taki sér fyrir hendur. Þrátt fyrir þetta megi merkja djúpan söknuð vegna fjarvista frá eigin fjölskyldu þótt hún reyndar nefni aðeins bróður en ekki móður í því tilliti og hún virðist ekki skilja hvers vegna svo sé komið að hún þurfi að búa annars staðar.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni er vísað til sömu sjónarmiða og fram koma í greinargerð kæranda sem lögð var fyrir Barnavernd B 21. október 2014. Kærandi leggur sérstaka áherslu á eftirtalin atriði.

Í fyrsta lagi sé með hinni kærðu ákvörðun verið að draga úr umgengni kæranda við dóttur sína og sé enginn sérstakur rökstuðningur gefinn fyrir þeirri niðurstöðu.

Í öðru lagi byggist ákvörðun barnaverndarnefndar á því að sá þáttur málsins sem lúti að því að bæta aðstæður hjá kæranda til undirbúnings fyrir heimkomu stúlkunnar hefði gengið hægar en vonast hafi verið til. Kærandi bendir á, varðandi þetta, að eina atriðið sem hún hafi ekki náð að uppfylla sé að sækja starfsendurhæfingu. Hún hafi sótt tíma hjá sálfræðingi, hafi leitast við að leiðrétta fjármál sín eftir fremsta megni, þegið tilsögn og taki engin önnur lyf en þau sem henni séu ætluð af lækni. Hún hafi leitað til L, forstöðumanns geðlækningasviðs við Sjúkrahúsið á F, og hafið undirbúningsferli að því að sækja endurhæfingu á M eða í N.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að hún sjái ekki hvernig umgengni frá föstudegi til sunnudags í staðinn fyrir umgengni frá laugardegi til sunnudags samræmist síður markmiðum fóstursins. Sú vanræksla sem lögð hafi verið til grundvallar ákvörðun um að setja börn hennar í fóstur hafi fyrst og fremst verið byggð á því að skólasókn barnanna hafi ekki verið sem skyldi. Kærandi fái ekki séð að aukadagur í umgengni geti haft ríkjandi áhrif á ákvörðunina um að vista barnið í fóstri. Mat starfsmanna sé að það hafi engin neikvæð áhrif á stúlkuna að vera hjá kæranda í tvær nætur. Það hafi ekki þótt tiltökumál þótt stúlkan væri hjá kæranda í fjórar nætur. Fyrir liggi að stúlkan komi heim í góðu jafnvægi og að umgengni hafi gengið vel. Hvorki komi fram í rökstuðningi hins kærða úrskurðar né greinargerð starfsmanna hvaða neikvæðu áhrif það ætti að hafa á gang málsins að kærandi fái að umgangast barnið frá föstudegi til sunnudags í stað laugardags til sunnudags.

Kærandi telur að með því að fá rýmri umgengni geti hún tengst barni sínu betur. Styttri tími fari þá í að stúlkan komi sér fyrir og sé fyllilega örugg á heimili kæranda svo tími þeirra saman geti verið ánægjulegri og nýtist þeim sem skyldi. Kærandi byggi á því að það standi til að börnin komi heim að loknu því tímabili sem fóstrinu hafi verið ætlað að vara.

Loks er bent á að lítil stúlka bíði þess að fá að umgangast móður sína og vilji ekkert öðru fremur en að fá að hitta hana og vera með henni. Hafi umgengnin engin sýnileg neikvæð áhrif á rétt barnsins til að umgangast foreldri sitt sé engin ástæða til að heimila ekki hefðbundna helgarumgengni.

Af hálfu kæranda er í athugasemdum til kærunefndarinnar 3. desember 2014 fundið að því að starfsmaður barnaverndarnefndar F hafi svarað kærunefndinni fyrir hönd barna­verndar­nefndarinnar. Með vísan til þess að sami starfsmaður hafi lagt hina kærðu ákvörðun til úrskurðar hjá barnaverndarnefndinni hefði formaður nefndarinnar átt að rökstyðja ákvörðunina til að tryggja að nefndin starfi sjálfstætt án áhrifa frá starfsmönnum. Í jafn viðkvæmum málum sem þessum sé þetta í besta falli óheppilegt en í versta falli óásættanlegt.

III. Afstaða barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B 27. nóvember 2014 til kærunefndar barnaverndarmála kemur fram að ágreiningur um fyrirkomulag umgengninnar sé ekki stórvægilegur, enda blasi við að umgengni barnsins við móður sína sé rúm. Af hálfu barnaverndarnefndar sé þó lögð þung áhersla á að ávallt verði að hafa hliðsjón af heildarstöðu barnaverndarmálsins þegar umgengni sé ákveðin og að lengd samveru móður og barns taki meðal annars mið af því að móðirin sé að bæta hæfni sína sem forsjáraðili samkvæmt gildandi áætlun um meðferð málsins. Þannig sé dregið úr líkum á því að þeir þættir sem valdið hafi vanrækslu barnsins séu enn til staðar þann tíma sem barnið dvelji hjá móður sinni. Umgengninni sé ætlað að viðhalda tengslum og byggja frekar upp heilbrigð tengsl, sem krefjist þess að móðirin nái nokkrum bata.

Barnaverndarnefndin hafni því að kröfur kæranda um breyttan úrskurð nái fram að ganga en vísi jafnframt til þess að aukin umgengni sé möguleg innan ramma núgildandi úrskurðar. Þannig sé samkomulag um að umgengni hefjist þegar klukkan 15:00 [...] nóvember á J þegar kæranda sé boðið að vera viðstödd fótboltaæfingu hjá dóttur sinni og í framhaldi af því að taka þátt í skólahátíð. Stúlkan fari svo heim með kæranda um kvöldið og gisti hjá henni í tvær nætur. Ekkert sé því til fyrirstöðu að þetta megi endurtaka í góðu samkomulagi aðila ef heilsufar kæranda leyfi.

Kröfu kæranda um að úrskurðað sé um lengri umgengni um jólahátíðina sé sömuleiðis hafnað, enda liggi nú fyrir samkomulag við báða foreldra um dvöl barnsins hjá þeim yfir jól og áramót. Þannig hátti til að foreldrar stúlkunnar, sem ættaðir séu frá O og G, muni dvelja þar vestra um hátíðirnar. Þyki óhætt að stúlkan dvelji þar með kæranda hjá móðurforeldrum yfir jól og með föður og ættingjum hans yfir áramót. Þessi umgengni, sem foreldrar skipti á milli sín, vari frá 22. desember til 4. janúar.

Að öðru leyti sé vísað til þeirra sjónarmiða og rökstuðnings sem lesa megi í hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar frá 22. október 2014.

IV. Afstaða fósturforeldra

Af hálfu fósturföður kemur fram að hann telji að flestar kröfur sem koma fram í kærunni séu þegar gengnar í gegn, svo sem lengri umgengni um helgar sem breyst hafi í einhver skipti í nóvember og desember 2014. Þá viti hann ekki betur en aðgangur kæranda að kennurum og varðandi íþróttaiðkun stúlkunnar sé opinn og kærandi hafi samband beint við skólann og kennarana varðandi fundi og fleira sem henni hafi staðið til boða eftir hennar beiðni varðandi það að koma í íþróttatíma. Hún hafi þó ekki nýtt sér þetta en ekkert sé því til fyrirstöðu að hún mæti til að fylgjast með æfingum.

Fram kemur að fósturforeldarnir hafi farið á fund með kæranda í desember 2014 sem haldinn hafi verið á vegum Fjölskyldudeildar F til að gefa upplýsingar um hagi C, upplýsa um hverjir séu vinir hennar, ástundun íþrótta o.s.frv. Með kæranda hafi komið kona til að aðstoða hana. Fósturfaðir sjái ekkert að því að halda upplýsingafundi með kæranda undir stjórn þeirra sem fari með málið.

Varðandi lengingu á umgengni í helgarheimsóknum sem kærandi fari fram á, þ.e. frá föstudegi til sunnudags í stað þess að vera frá laugardegi til sunnudags, kveðst fósturfaðir ekki vita betur en að kærandi sé flutt  á G. Ef til standi að láta barnið ferðast á G aðra hverja helgi geti hann ekki mælt með því fyrir 

Verði heimsóknirnar hins vegar á F sé engin ástæða til að setja sig upp á móti því. Stúlkan viti að alltaf hafi staðið til að lengja heimsóknir og það væri rétt að gera það þegar kærandi yrði tilbúin til þess að teknu tilliti til barnaverndarsjónarmiða.

V. Niðurstaða

C verður X ára gömul á þessu ári. Hún lýtur forsjá kæranda og föður síns, H, en foreldrar slitu samvistir árið X. Stúlkan var vistuð utan heimilis með úrskurði barnaverndarnefndar B 12. mars 2014, upphaflega í tvo mánuði en vistunin var framlengd í eitt ár með dómi héraðsdóms [...] 2014 sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar [...] 2014. Með hinni kærðu ákvörðun var tekin afstaða til þess hvernig umgengni kæranda við dóttur hennar skyldi háttað. Jafnframt kemur fram í úrskurðarorði að umgengni samkvæmt úrskurðinum skuli tekin til endurskoðunar eigi síðar en 1. febrúar 2015 með það í huga að gera samkomulag um umgengni barnsins við kæranda til loka fósturtímans. Takist samningar ekki skuli málið tekið til úrskurðar á ný á fundi barnaverndarnefndarinnar eigi síðar en 18. febrúar 2015.

Af hálfu kæranda er fundið að því að starfsmaður barnaverndarnefndar F hafi svarað kærunefndinni fyrir hönd barna­verndar­nefndarinnar en vísað er til þess að sá háttur dragi mjög úr trausti þess að nefndin starfi sjálfstætt. Í 1. mgr. 14. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að barnaverndarnefnd skuli ráða sérhæft starfslið eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti. Í 3. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barnaverndarnefnd er heimilt að fela starfsmönnum sínum könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka samkvæmt reglum sem hún sjálf setur. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er síðan tiltekið að óheimilt sé að framselja til einstakra starfsmanna nefndanna vald til að kveða upp úrskurði, taka ákvarðanir um málshöfðun, setja fram kröfu um sjálfræðissviptingu og taka ákvarðanir um að krefjast brottvikningar heimilismanns eða nálgunarbanns. Barnaverndarnefnd B setti reglur [...] um könnun og meðferð mála sem undir hana heyra, umboð starfsmanna og fleira. Þar kemur fram að reglurnar taki fyrst og fremst til þeirra barnaverndarmála sem kalla á formlegar umsagnir, úrskurði eða þvingunaraðgerðir af hálfu barnaverndarnefndar. Í 1. gr. reglnanna segir að starfsmenn barnaverndarnefndar kanni og fari með einstök barnaverndarmál í umboði nefndarinnar og undir stjórn deildarstjóra Fjölskyldudeildar F. Í reglunum er sérstakur kafli um málsmeðferð barnaverndarmála en þar kemur berlega fram að barnaverndarnefnd hefur rúmar heimildir til þess að fela starfsmönnum sínum að annast alla daglega meðferð barnaverndarmála. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að telja að barnaverndarnefnd B hafi falið starfsmanni nefndarinnar að annast meðferð máls kæranda, meðal annars að skrifa greinargerð þá sem hann sendi kærunefndinni, og að barnaverndarnefndinni hafi með vísan til framangreindra reglna verið heimilt að standa þannig að verki við málsmeðferðina. Að mati kærunefndar barnaverndarmála þykja ekki fram komin rök fyrir því að slík málsmeðferð dragi úr trausti á því að nefndin starfi sjálfstætt án áhrifa frá starfsmönnum.

Kröfur kæranda eru eins og að framan greinir þær að umgengni frá úrskurðardegi til 15. janúar 2015 verði aðra hverja helgi frá föstudegi klukkan 18:00 til klukkan 18:00 á sunnudegi. Sé frí í skóla eftir 15. nóvember öðru hvorum megin við umgengnishelgi kæranda lengist umgengnin sem því munar.

Að umgengni um jól og áramót 2014 verði frá 21. desember 2014 til 4. janúar 2015. Umgengni verði á þeim tíma sameiginleg kæranda og föður og með samkomulagi þeirra í milli.

Að umgengni frá 15. janúar 2015 verði eins og framangreint, en auk þess verði fósturfjölskyldu og kæranda heimilt að víkka umgengni eftir efnum. Þar að auki verði stefnt að því eftir efnum að auka umgengni eins og hægt er þar til stúlkan flytur alfarið heim að nýju.

Að kærandi fái að sækja íþróttaviðburði, skólaviðburði og taka þátt í foreldraviðtölum. Kærandi fái að taka þátt í öllum stærri áföngum í lífi barnsins á meðan hún er í fóstri.

Kærandi óskar einnig eftir fjárstyrk frá Barnavernd B að fjárhæð 70.000 krónur auk virðisauka til þess að standa straum af kostnaði við kæruna.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þegar barni er ráðstafað í fóstur. Skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag ber barnaverndarnefnd að gera skriflegan samning við þá sem umgengni eiga að rækja. Barnaverndarnefnd getur samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar ef sérstök atvik eru talin valda því að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum. Barnaverndarnefnd hefur úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttar eða framkvæmd.

Af hinum kærða úrskurði og öðrum gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi farið fram á rýmri umgengni en starfsmenn barnaverndarnefndar F gerðu ráð fyrir. Í hinni kærðu ákvörðun er í niðurstöðu hennar vísað til þess að umgengni skuli vera áfram eins og hún hafi verið en hana megi rýmka með samkomulagi aðila eftir því sem aðstæður kærandi fari batnandi. Í úrskurðarorði segir að umgengni verði annan hvern laugardag frá hádegi til klukkan 18:00 á sunnudegi. Heimilt sé að lengja þennan tíma með samkomulagi aðila eftir 1. desember 2014 enda sé það í eðlilegu samhengi við aðra vinnslu barnaverndarmálsins. Enn fremur er í úrskurðarorðinu vísað til þess að þar sem um nokkuð tíð samskipti sé að ræða megi gera ráð fyrir ýmsum atvikum sem erfitt sé að úrskurða um fyrirfram með nákvæmum hætti. Nefndin feli því starfsmönnum sínum að leita samkomulags við kæranda og eftir atvikum fósturforeldra barnsins þegar slík atvik kunni að koma upp. Við þær aðstæður beri ávallt að hafa markmið fósturs í huga og taka ákvarðanir í samræmi við það.

Samkvæmt því sem fram hefur komið virðist vandamálið sem upp kom varðandi umgengni kæranda við dóttur sína vera það að kærandi hafi ekki viljað hlíta ákvörðunum starfs­mannanna um umgengni og var hinn kærði úrskurður kveðinn upp í tilefni af því. Í úrskurðinum er tekin afstaða til þess að umgengnin sé hæfileg og skuli hún vera áfram með sama hætti að teknu tilliti til þess að hana megi rýmka í samkomulagi aðila eftir því sem ætla megi að aðstæður kæranda fari batnandi. Þess verði hins vegar að gæta að umgengni barnsins við kæranda verði ekki aukin ef hætta er á að slíkt samræmist ekki markmiðum fóstursins. Síðan segir að eins og sakir standi telji nefndin óhætt að fallast á þá tillögu starfsmanna að gerð verið undantekning á reglulegri umgengni um jólahátíðina. Krafa kæranda fyrir kærunefndinni er sú að umgengni frá 15. janúar 2015 verði aðra hverja helgi frá föstudegi klukkan 18:00 til klukkan 18:00 á sunnudegi. Sé frí í skóla öðru hvorum megin við umgengnishelgi kæranda lengist umgengnin sem því muni. Auk þess verði fósturfjölskyldu og kæranda heimilt að víkka umgengni eftir efnum. Þar að auki verði stefnt að því eftir efnum að auka umgengni eins og hægt sé þar til stúlkan flytji alfarið heim að nýju. Að kærandi fái að sækja íþróttaviðburði, skólaviðburði og taka þátt í foreldraviðburðum.

Samkvæmt því sem að framan greinir á barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd, eins og segir í 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Úrskurður barnaverndarnefndar skal vera rökstuddur eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 29. gr. laganna. Þar segir enn fremur að í úrskurði skuli rekja málavexti og greina forsendur og niðurstöður. Með vísan til þessa eru lögboðnar skyldur og hlutverk barnaverndarnefndarinnar að ákveða umfang umgengninnar og framkvæmd. Jafnframt ber henni að rökstyðja þær ákvarðanir sem hún tekur í þessum efnum.

Þegar litið er til þess sem að framan er rakið verður að telja að með hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið leyst úr því með nægilega skýrum og afgerandi hætti hvernig umgengninni skyldi háttað og hverjar nefndin telji vera röksemdir fyrir því. Jafnframt verður þó að líta til þess að engum tilgangi muni nú þjóna að taka afstöðu til umgengni á þeim tíma sem liðinn er. Hins vegar skiptir miklu eins og málið liggur nú fyrir og kröfugerð kæranda er háttað að látið verði á það reyna hvort unnt verður að ná samkomulagi um umgengni kæranda við dóttur hennar þann tíma sem framundan er. Með vísan til þessa ber að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og vísa málinu samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga til barnaverndarnefndar F til meðferðar að nýju.

Krafa kæranda um fjárstyrk til að standa straum af kærunni á stoð í 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga en þar segir að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar og í tengslum við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem nefndin setji. Með vísan til þess ber kæranda að beina kröfunni að barnaverndarnefnd B.

Úrskurðarorð

 Úrskurður barnaverndarnefndar B um umgengni A við dóttur sína, C, er felldur úr gildi og er málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira