Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir umhverfisráðuneytis

Mál 03070051

Reykjavík, 11. desember 2003

Tilvísun: UMH03070051/10-02-0503

Hinn 10. desember 2003 var kveðinn upp í umhverfisráðuneytinu svohljóðandi:

Úrskurður:

Ráðuneytinu hefur borist kæra frá Ólafi R. Dýrmundssyni f.h. samtaka íbúa í Seljahverfi í Breiðholti dags. 1. ágúst 2003 vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar dags. 4. júlí 2003.

I. Hinn kærði úrskurður og málsatvik

Skipulagsstofnun kvað þann 4. júlí 2003 upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá Reykjanesbraut til Breiðholtsbrautar og tengibraut um Hörðuvelli í Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar var að fallist var á fyrirhugaða framkvæmd, en framkvæmdaraðili er Vegagerðin.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur fram að hin kærða framkvæmd tók nokkrum breytingum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Féllst Skipulagsstofnun á þá útfærslu sem kynnt var í kjölfar athugasemda íbúa í Seljahverfi sem felur í sér hliðrun Arnarnesvegar ofan Seljahverfis.

Arnarnesvegur skammt ofan byggðar í Vatnsendahvarfi hefur verið á skipulagi Reykjavíkurborgar frá því að Seljahverfi var deiliskipulagt með samþykkt í borgarráði þann 18. janúar 1980 og var þá lega vegarins áætluð innan við 50 m frá lóðarmörkum byggðarinnar ofan Jaðarsels. Sú áætlun var óbreytt til ársins 2001 þegar fulltrúar vegagerðarinnar unnu tillögu að breytri legu vegarins í samráði við Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg. Breytingar hafa einnig orðið á hæðarlegu vegarins frá upphaflegum áætlunum en áður var gert ráð fyrir að vegurinn lægi á yfirborðinu.

Starfsmenn ráðuneytisins fóru í vettvangsferð þann 19. september 2003, ásamt Ólafi R. Dýrmundssyni f.h. samtaka íbúa í Seljahverfi í Breiðholti.

II. Kröfur kæranda og umsagnir um þær

Kærandi Ólafur R. Dýrmundsson f.h. samtaka íbúa í Seljahverfi í Breiðholti setur fram þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að Arnarnesvegur í Vatnsendahvarfi upp af Seljahverfi í Breiðholti verði færður upp að núverandi Vatnsendavegi til að draga úr skaða á vel grónu og vinsælu útivistarsvæði. Telja kærendur að slíkur kostur sé skikkanleg málamiðlun, svigrúm sé enn fyrir slíka málamiðlun án þess að þrengja að núverandi og fyrirhuguðum mannvirkjum í Kópavogi austan vegar. Auk þess komi fram í úrskurði Skipulagsstofnunar að þessi kostur sé tæknilega framkvæmilegur en að ókostur sé að sá kostur muni leiða til meiri skerðingar og til falli meira umframefni. Kærendur benda þó á að norðaustan í Vatnsendahvarfi sé verið að vinna úr berginu gott uppfyllingarefni og gæti því aukinn uppgröftur úr vegastæði Arnarnesvegar komið í stað jarðefna sem áætlað að komi úr Bolöldu við Vífilsfell. Í öðru lagi gera kærendur þá kröfu að Arnarnesvegur í Vatnsendahvarfi verði allur grafinn það mikið niður að engin umferð sjáist frá Seljahverfi. Að lokum að tryggð verði örugg leið yfir Arnarnesveg í Vatnsendahvarfi fyrir gangandi og ríðandi fólk með a.m.k. einni brú miðað við að vegurinn verði allur niðurgrafinn.

Tekið er fram að samtök íbúa í Seljahverfi hafi í um 20 ár gert athugasemdir við fyrirhugaða legu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi á öllum skipulagsstigum, bæði í Reykjavík og Kópavogi.

Framangreind kæra var send með bréfum dagsettum 18. ágúst 2003 til eftirtalinna aðila og óskað eftir umsögnum um hana: Kópavogsbæ, Garðabæ, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Vegagerðinni sem er framkvæmdaraðili. Frestur til að veita umsagnir var veittur til 1. september 2003. Umsagnir bárust frá Tæknideild Kópavogs með bréfi dagsettu þann 1. september 2003, frá Garðabæ með bréfi dagsettu 26. ágúst 2003, frá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur með bréfi dagsettu 16. október 2003, frá Umhverfisstofnun með bréfi dagsettu 23. september 2003, frá Skipulagsstofnun með bréfi dagsettu 10. september 2003, frá Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis með bréfi dagsettu 22. ágúst 2003 og frá Vegagerðinni með bréfi dagsettu 29. ágúst 2003 sem barst ráðuneytinu 1. október 2003. Kæranda Ólafi R. Dýrmundssyni f.h. samtaka íbúa í Seljahverfi í Breiðholti var sent afrit af innkomnum athugasemdum með bréfum dagsettum 6. október og 21. október 2001 og kærendum gefinn frestur til 17. og 27. október 2003 til að senda inn umsagnir. Athugasemdir kærenda bárust ráðuneytinu með bréfum dagsettum 16. og 23. október 2003

Ráðuneytið tilkynnti með bréfi dagsettu 21. október 2003 Ólafi R. Dýrmundssyni f.h. samtaka íbúa í Seljahverfi í Breiðholti og framkvæmdaraðila Vegargerðinni um seinkunn á úrskurði ráðuneytisins til 14. nóvember 2003, og í bréfi dagsettu 19. nóvember til sömu aðila var þeim tilkynnt að ráðuneytið frestaði enn áætluðum úrskurðardegi til 8. desember 2003.

1.

Varðandi þá kröfu að Arnarnesvegur verði færður upp að núverandi Vatnsendavegi bendir Tæknideild Kópavogs á í umsögn sinni að sú lega sem kærendur leggja til sé ekki í samræmi við nýsamþykkta tillögu að deiliskipulagi byggðar í suðurhlíðum Vatnsendahvarfs. Lega vegarins yrði vegtæknilega erfiðari, lengdarhalli vegar aukist og skeringar yrðu meiri. Tæknideild Kópavogs telur að ávinningur af því að færa legu Arnarnesvegar ofar í hlíðina verði að öllu samanlögðu minni en gallar. Að auki tekur umsagnaraðili fram að bæjaryfirvöld telji að færsla á veginum sé fyrst og fremst skipulagsmál, ef unnt er að uppfylla þá kröfu að umhverfisáhrif verði ekki umtalsverð.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis leggst gegn færslu Arnarnesvegar að núverandi Vatnsendavegi þar sem slík færsla muni hafa í för með sér mikla aukningu á umferð bæði í íbúðarbyggð og inn á vatnsverndarsvæði.

Í umsögn sinni bendir Skipulagsstofnun á að í kjölfar athugasemda samtaka íbúa í Seljahverfi og annarra við staðsetningu Arnarnesvegar ofan Seljahverfis í Breiðholti hafi framkvæmdaraðili komið til móts við sjónarmið þeirra með hliðrun vegarins fjær Jóruseli og Kaldaseli. Einnig telur Skipulagsstofnun að ábendingar kærenda um að efnisnám í vegstæði Arnarnesvegar gæti komið í stað efnistöku utan framkvæmdarsvæðis séu á misskilningi byggð og að stofnuninni sé kunnugt að mismunandi kröfur séu gerðar til jarðefna í vegagerð.

Umhverfisstofnun telur að með færslu vegarins að núverandi vegstæði Vatnsendavegar megi minnka áhrif á tegundina Blátoppu sem er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Útivistargildi gróðursvæðisins ofan Seljahverfis sé mikið en íbúar svæðisins hafi nýtt það í langan tíma og því ljóst að með tilkomu vegarins muni breytingar á útivistarmöguleikum og útivistarvenjum íbúanna verða miklar. Telur Umhverfisstofnun að færsla Arnarnesvegar að núverandi Vatnsendavegi og stækkun á óröskuðu svæði ofan byggðar samhliða niðurgreftri vegarins verði því til mikilla bóta.

Vegagerðin tiltekur í umsögn sinni að komið hafi verið að hluta til móts við óskir íbúa um tilfærslu Arnarnesvegar og legu hans í skeringum. Vegagerðin telur að færsla veglínu lengra upp í Vatnsendahvarfið hafi í för með sér að fjarlægja þurfi mikið efni úr vegstæði sem veldur vandkvæðum um ráðstöfun á umframefni. Auknar skeringar mun leiða af sér aukinn kostnað og fleiri vandamál vegna skafrennings og snjósöfnunar. Vegagerðin vísar einnig til niðurstöðukafla í matskýrslu með framkvæmdinni þar sem segir að áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á útivist verði talsverð en hins vegar hafi verið gert ráð fyrir þessari uppbyggingu í stefnumörkun sveitarfélaganna í skipulagsmálum. Hvað varðar ábendingu um notkun umframefnis þá tók Vegagerðin það fram að hún sé fylgjandi því að nýta efni sem fellur til við aðrar framkvæmdir og að hún muni hafa samráð við Kópavogsbæ um mögulega nýtingu á umframefni úr skeringum sem falla til við framkvæmdir á Arnarnesvegi. Vegagerðin metur það svo að komið hafi verið til móts við óskir íbúa Seljahverfis eins mikið og hægt er, en ef vegurinn verði færður meira muni skeringar aukast og kostnaður því hækka, líkur á snjósöfnun og kófi aukast og að vegurinn muni skerða land Kópavogsbæjar og nýtingarmöguleika þess.

Kærendur telja það ekki við hæfi að fulltrúi Vegagerðarinnar skuli taka afstöðu til nýtingarmöguleika lands sveitarfélaganna, Kópavogi í vil. Einnig að við síðustu breytingu á væntanlegu vegastæði hafi miðlína Arnarnesvegar verði færð 28 m nær Klyfjaseli.

2.

Varðandi þá kröfu að Arnarnesvegur verði allur grafinn það mikið niður að engin umferð sjáist frá Seljahverfi bendir Tæknideild Kópavogs á í umsögn sinni að tekið hafi verið tillit til athugasemda íbúa Seljahverfis við mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar með því að breyta legu vegarins á þann hátt að hann verði að stærstum hluta eða allur í skeringum.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis telur jákvætt að grafa Arnarnesveg meira niður, en þar sem sjónmengun er ekki skilgreind í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er ekki tekin afstaða til þess atriðis.

Skipulagsstofnun tiltekur í athugasemdum sínum að framkvæmdaraðili hafi með hliðrun vegarins komið til móts við athugasemdir íbúa Seljahverfis á ásættanlegan hátt. Jafnframt vísar stofnunin til úrskurðar síns frá 4. júlí 2003 þar sem segir: "Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Arnarnesvegar felist í sjónrænum áhrifum og skerðingu á svæðum sem nýtt hafa verið til útivistar. Skipulagsstofnun telur til bóta að komið hafi verið til móts við athugasemdir íbúa Seljahverfis og vegurinn færður frá íbúðarbyggðinni ofan Jórusels og Kaldasels. Vegurinn mun ekki sjást frá íbúðarhúsunum og óþarft verður að reisa hljóðmön milli vegarins og íbúðarbyggðarinnar í Seljahverfi."

Vegagerðin bendir á að vegurinn verði að langmestu leyti í hvarfi frá íbúðum í Seljahverfinu.

3.

Varðandi þá kröfu kærenda að tryggð verði örugg leið yfir Arnarnesveg í Vatnsendahvarfi fyrir gangandi og ríðandi fólk segir í umsögn Tæknideildar Kópavogs að það sé rýmileg krafa að gangandi fólki verði tryggð örugg leið yfir Arnarnesveg í Vatnsendahverfi en að þar sem ekki sé mikill von á ríðandi umferð yfir veginn sé hæpið að leggja í kostnað við undirgöng/brú fyrir ríðandi umferð. Einnig að bæjaryfirvöld í Kópavogi stefni að því að breyta aðalskipulagi bæjarins á þann veg að gert sé ráð fyrir brú fyrir gangandi umferð yfir Arnarnesveg í vesturhlíðum Vatnsendahvarfs.

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis telja að öryggissjónarmið réttlæti að koma á betri tengslum milli Seljahverfis og Vatnsendasvæðis sem myndi um leið einfalda umferð fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur.

Skipulagsstofnun bendir á að í hinum kærða úrskurði stofnunarinna hafi verið bent á nauðsyn tengingar fyrir gangandi og ríðandi vegfarendur milli Kópavogs og Reykjavíkur og að Vegagerðin hafi lýst yfir vilja til að koma á slíkum tengslum milli sveitarfélaganna. Einnig er tekið fram í hinum kærða úrskurði að Vegagerðinni beri að hafa samráð við íbúa Seljahverfis og koma til móts við þeirra hugmyndir eftir því sem kostur er.

Umhverfisstofnun telur að tryggja eigi aðgengi íbúa Seljahverfis yfir fyrirhugaðan Arnarnesveg til jafns við önnur hverfi aðliggjandi honum, en stofnunin telur að eðlilegt sé að tryggja íbúum Seljahverfis áframhaldandi aðgengi sérstaklega ef haft er í huga eðli byggðarinnar sem jaðarbyggð með hesthúsalóðum. Stofnunin telur að það sé á ábyrgð framkvæmdaraðila að stuðla að nauðsynlegum mótvægisaðgerðum vegna áhrifa vegarins og að tengingar reið- og göngustíga séu hluti af því. Umhverfisstofnun telur því að ekki hafi verið ráðist í fullnægjandi mótvægisaðgerðir til að tryggja aðgengi íbúa Seljahverfis að útivistarsvæðum sunnan og austan fyrirhugaðs Arnarnesvegar.

Vegagerðin vísar í bréf sitt frá 4. apríl 2003 þar sem kemur fram að stofnunin geti tekið undir ábendingar um tengingar göngu- og reiðleiða milli Kópavogs og Reykjavíkur en slíkar tengingar og skipulag landnotkunar séu ekki á forræði Vegagerðarinnar. Að lokum bendir Vegagerðin á að allar niðurstöður sérfræðinga um hljóðvist, gróðurfar, fuglalíf, útlitsbreytingar og fornleifar hafi verið á þann vega að vegurinn kæmi ekki til með að valda verulegum áhrifum á umhverfisþætti og að á engan hátt væri hægt að skilgreina áhrifin sem umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Kærendur gera athugasemdir við hve Kópavogsbær hafi lítinn skilning á sjónarmiðum íbúanna og mótmælir því að bærinn dragi í efa þörfina á brú fyrir ríðandi umferð. Gera kærendur því athugasemd við að skipulagsforsendur sem varða reiðhestahald í Jóruseli, Kaldaseli og Klyfjaseli verði brotnar með þessum hætti sem undirstriki enn og aftur að Arnarnesvegur sé fremur staðsettur með tilliti til sveitarfélagsmarka en með hliðsjón af aðstæðum í Vatnsendahverfi.

Kærendur benda á að það sé ekki réttmæt afstaða Reykjavíkurborgar að halda því fram að hún geti ekki tjáð sig um málefnið þar sem sveitarfélagamörk voru færð að væntanlegu vegarstæði Arnarnesvegar í sumar. Það sé því á misskilningi byggt að umrætt útivistarsvæði sé að mestu utan borgarmarka Reykjavíkur.

III. Niðurstaða

1.

Kærendur gera þá kröfu að Arnarnesvegur verði færður upp að núverandi Vatnsendavegi. Fram hefur komið að Arnarnesvegur, skammt ofan byggðar í Vatnsendahvarfi, hafi verið á skipulagi Reykjavíkurborgar frá því að Seljahverfi var deiliskipulagt með samþykkt í borgarráði þann 18. janúar 1980 og var þá lega vegarins áætluð innan við 50 m frá lóðarmörkum byggðarinnar ofan Jaðarsels. Sú áætlun var óbreytt til ársins 2001 þegar fulltrúar Vegagerðarinnar unnu tillögu um breyta legu vegarins í samráði við Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg. Fram kemur í umsögn Vegagerðarinnar að miklar breytingar hafa orðið á hæðarlegu vegarins, en áður hafi verið gert ráð fyrir að vegurinn lægi á yfirborði lands. Ljóst er því að á síðastliðnum árum hefur legu Arnarnesvegar í Vatnsendahverfi verið breytt í skipulagsáætlunum skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar og Kópavogs m.a. vegna athugasemda og óska íbúa Seljahverfis. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur einnig fram að framkvæmdaraðili hafi komið til móts við sjónarmið samtaka íbúa í Seljahverfi með hliðrun vegarins fjær Jóruseli og Kaldaseli við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Kærendur óska eftir að Arnarnesvegur verði færður upp að núverandi Vatnsendavegi til að draga úr skaða á vel grónu og vinsælu útivistarsvæði. Telja kærendur að enn sé svigrúm til slíkrar málamiðlunar. Slík tilfærsla sé tæknilega framkvæmanleg en ókostur sé að hún mun leiða til meiri skeringar og aukins umframefnis. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi metið það svo að Vatnsendahæð hafi ekki sérstakt náttúruverndargildi, en að röskun verði engu að síður á grónu svæði sem skerði útivistarsvæði. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telji að færsla Arnarnesvegar upp að núverandi Vatnsendavegi væri til mikilla bóta vegna útivistarsjónarmiða. Vegagerðin bendir á að ef Arnarnesvegur verði færður meira muni skeringar aukast og kostnaður því hækka, líkur á snjósöfnun og kófi aukast og að vegurinn muni skerða land Kópavogsbæjar og nýtingarmöguleika þess. Tæknideild Kópavogs tiltekur í umsögn sinni að af öllu samanlögðu yrði ávinningur af því að færa legu Arnarnesvegar ofar í hlíðina mun minni en gallarnir og að færsla vegarins sé fyrst og fremst skipulagsmál að uppfylltri þeirri kröfu að umhverfisáhrif verði ekki umtalsverð.

Markmið laga um mat á umhverfisáhrifum, 106/2000 er skv. a. lið 1. gr. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að sveitarstjórnir annist gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana en af því leiðir að það er hlutverk sveitarfélaga sem skipulagsyfirvalds að taka ákvörðun um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar, auk þess sem þar eru sett fram markmið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, samgöngur o.fl., sbr. 2. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Ráðuneytið vill benda á að Arnarnesvegur ofan byggðar í Vatnsendahvarfi hefur verið á skipulagi Reykjavíkurborgar frá því að Seljahverfi var deiliskipulagt í byrjun árs 1980. Samtök íbúa í Seljahverfi hafa í um 20 ár gert athugasemdir við fyrirhugaða legu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi á öllum skipulagsstigum og nú við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og hefur verið tekið tillit til athugasemda þeirra að mörgu leyti. Meðal annars var vegurinn færður ofar í Vatnsendahvarfið fjær íbúðarbyggð en upphaflegt deiliskipulag gerði ráð fyrir og einnig verður vegurinn að mestu leyti í skeringum en átti upphaflega að vera ofan lands. Ráðuneytið telur að umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar sé nægjanlega lýst í matskýrslu og í hinum kærða úrskurði og tekur undir það mat Skipulagsstofnunar að hin kærða framkvæmd muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Ráðuneytið telur með hliðsjón af framangreindum umsögnum að ekki séu forsendur til að taka kröfu kærenda til greina á grundvelli mats á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur eins og máli þessu er háttað að ákvörðun um færslu á legu Arnarnesvegar falli undir skipulagsvald sveitarfélagsins. Með vísun til framangreinds fellst ráðuneytið ekki á kröfu kærenda.

2.

Kærendur gera þá kröfu að Arnarnesvegur verði allur grafinn það mikið niður að enginn umferð sjáist frá Seljahverfi. Tæknideild Kópavogs tekur fram að tekið hafi verið tillit til þessara athugasemda kærenda og að lega vegarins hafi verið breytt frá því sem áður var þannig að nú verði hann að stærstum hluta eða allur í skeringum en áður hafi verið gert ráð fyrir að vegurinn lægi á yfirborðinu. Skipulagsstofnun tiltekur í úrskurði sínum að vegurinn muni ekki sjást frá íbúðarhúsunum og að óþarfi verði að reisa hljóðmön milli vegarins og íbúðarbyggðarinnar. Vegagerðin tiltekur einnig að vegurinn verði að lang mestu leyti í hvarfi frá íbúðum í Seljahverfinu.

Ráðuneytið bendir á að framangreindir umsagnaraðilar eru sammála um að vegurinn muni að lang mestu leyti vera í hvarfi frá íbúðum í Seljahverfinu. Telur ráðuneytið að komið hafi verið til móts við kröfur kærenda hvað þennan lið varðar að lang mestu eða öllu leyti og því sé ekki tilefni til að taka hana til greina.

3.

Kærendur gera þá kröfu að tryggð veri örugg leið yfir Arnarnesveg í Vatnsendahvarfi fyrir gangandi og ríðandi fólk. Tæknideild Kópavogs tekur fram í umsögn sinni að hún telji það sanngjarna kröfu að gangandi fólki verði tryggð örugg leið yfir Arnarnesveg í Vatnsendahvarfi en að þar sem ekki sé mikil von á ríðandi umferð yfir veginn sé hæpið að leggja í þann aukakostnað. Einnig er tekið fram að bæjaryfirvöld í Kópavogi stefni að því að breyta aðalskipulagi bæjarins á þann veg að gert sé ráð fyrir brú fyrir gangandi umferð yfir Arnarnesveg. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis telja það öryggismál að koma á betri tengslum milli Seljahverfis og Vatnsendasvæðis. Vegagerðin bendir á það í umsögn sinni að tenging milli Kópavogs og Reykjavíkur sé skipulagsmál. Kærendur gera athugasemd við að Kópavogsbær hafi lítinn skilning á sjónarmiðum bæjarbúa og mótmæla því að bærinn dragi í efa þörfina á brú fyrir ríðandi umferð og að skipulagsforsendur fyrir reiðhestahaldi í Jóruseli, Kaldaseli og Klyfjaseli verði brotnar.

Sveitarstjórnir annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 2. mgr. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Reið- og göngustígar falla undir samgöngur skv. skilgreiningu í lið 4.16.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, í lið 4.16.2 sömu reglugerðar segir ennfremur að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir göngu- og reiðstígum. Einnig að við deiliskipulag svæða skuli gerð grein fyrir fyrirkomulagi göngu- og reiðstíga. Ráðuneytið bendir á að Kópavogsbær stefnir að því að breyta aðalskipulagi bæjarins þannig að gert sé ráð fyrir brú fyrir gangandi umferð. Hins vegar telur ráðuneytið með vísan til framangreinds að sú ákvörðun hvort og hvernig brú skuli vera yfir Arnarnesveg sé skipulagsmál og því á forræði sveitarfélagsins að fjalla um slíkt. Með vísun til framangreinds fellst ráðuneytið ekki á kröfu kærenda.

Úrskurðarorð

Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar dags. 4. júlí 2003 er staðfestur.

F. h. r.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum