Hoppa yfir valmynd

776/2019. Úrskurður frá 12. mars 2019

Úrskurður

Hinn 12. mars 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 776/2019 í máli ÚNU 17120005.

Kæra og málsatvik

Með erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 27. desember 2017, kærði A synjun sveitarfélagsins Borgarbyggðar á beiðni um aðgang að gögnum.

Mál þetta tengist leyfisveitingum Borgarbyggðar fyrir breytingum á húsnæði að [Y-götu nr. X] í Borgarnesi, en kærandi hefur aðsetur að [Y-götu nr. Z]. Haustið 2016 bárust sveitarfélaginu tvö erindi frá kæranda. Annað erindið, dags. 5. október 2016, var sent skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þar sem óskað var eftir afritum ýmissa gagna. Hitt erindið, dags. 9. október 2016, var sent sveitarstjóra Borgarbyggðar en þar var óskað upplýsinga um erindi kæranda til sveitarfélagsins á tilteknu tímabili. Svari sem kæranda barst frá sveitarstjóra Borgarbyggðar, dags. 25. október 2016, fylgdu flest þau gögn sem kærandi hafði farið fram á en hluti þeirra var ekki afhentur því gögnin töldust ekki vera fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Var kæranda í því sambandi bent á kæruleið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sbr. V. kafla upplýsingalaga.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2016, ítrekaði kærandi beiðni sína um framangreindar upplýsingar. Þar sem þær tengdust stjórnsýslumálum sem kærandi hefði stofnað til hjá sveitarfélaginu ætti hann rétt á þeim á grundvelli upplýsingaréttar aðila máls sem mælt er fyrir um í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Upplýsingalög ættu ekki við í þessu máli. Kærandi ítrekaði svo beiðni um ýmis önnur gögn og upplýsingar sem hann hafði óskað eftir aðgangi að en hefðu enn ekki borist honum frá sveitarfélaginu.

Erindi kæranda var lagt fyrir fund byggðarráðs Borgarbyggðar 17. nóvember 2016 og sveitarstjóra falið að svara því. Í bréfi sveitarstjóra, dags. 13. desember 2016, var farið yfir erindið og hverju atriði þess svarað. Kom þar fram hvaða gögn hefðu þegar verið afhent og hvaða erindi væru í vinnslu hjá skipulags- og byggingarfulltrúa. Einnig kom fram að tilgreind erindi til skipulags- og byggingarfulltrúa, sem nú hefði látið af störfum, hefðu ekki verið skráð hjá sveitarfélaginu og væri því ekki hægt að bregðast við þeim. Kæranda var bent á þann möguleika að endursenda erindin til sveitarfélagsins.

Í bréfinu var beiðni kæranda um afhendingu gagna og samskipta byggingarfulltrúa sveitarfélagsins við lögmannsstofuna Pacta lögmenn hafnað á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Beiðni kæranda um afrit af öllum tölvubréfum og bréflegum samskiptum frá 2013 til og með 2016 og þá sérstaklega frá 24. september 2015 til 1. nóvember 2016, á milli sveitarfélagsins og forráðamanna […], gistihússins sem rekið er í næsta húsi við kæranda að [Y-götu nr. X], var einnig hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga auk 15. gr. laganna vegna umfangs erindisins. Leiðbeint var um að synjun um afhendingu gagna væri kæranleg til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Með bréfi til byggðarráðs Borgarbyggðar, dags. 11. janúar 2017, kvartaði kærandi yfir því að beiðni sín um aðgang að gögnum hefði verið afgreidd á grundvelli upplýsingalaga en ekki stjórnsýslulaga. Fór hann fram á að fulltrúar byggðarráðs sæju til þess að sveitarfélaginu yrði gert að afgreiða þau gögn er um ræddi á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga. Á fundi byggðarráðs 26. janúar 2017 var afgreiðslu erindis kæranda frestað, en sveitarstjóra falið að undirbúa svar við því.

Í bréfi til kæranda, dags. 2. febrúar 2017, kom fram að byggðarráð hygðist ekki taka afstöðu til túlkunar sveitarstjóra á því hvaða lög ættu við í málinu. Hins vegar teldi byggðarráð að hvort sem upplýsingalög eða stjórnsýslulög ættu við myndi það leiða til sömu niðurstöðu, þ.e. að synja kæranda um aðgang að gögnum með vísan til umfangs beiðninnar og einkahagsmuna annarra. Byggðarráð styddi því ákvörðun sveitarstjóra um að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum. Bréfið var undirritað af formanni byggðarráðs. Með erindi til umboðsmanns Alþingis, dags. 19. febrúar 2017, kvartaði kærandi m.a. yfir því að Borgarbyggð hefði ekki afgreitt beiðni sína um gögn á réttum lagagrundvelli.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2017, benti kærandi á að ekki væri að sjá af fundargerðum byggðarráðs að ráðið hefði samþykkt svör formanns þess eða falið honum að svara kæranda og setti hann fram þá kröfu að byggðarráð afgreiddi erindi hans. Ítrekaði kærandi erindi sitt bréflega í júní og júlí sama ár.

Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 10. október 2017, bað kærandi í fyrsta lagi um aðgang að bréfi frá Pacta lögmönnum sem lagt hafði verið fram á fundi byggðarráðs 4. október 2017 í tengslum við stjórnsýslukæru vegna [Y-götu nr. X]. Í öðru lagi bað hann um afrit allra bréfa, tölvupósta og upplýsinga um öll skráð samskipti Borgarbyggðar við eigendur […] frá ársbyrjun 2013 til 10. október 2017, sem sneru að [Y-götu nr. X og Y] í Borgarnesi. Í þriðja lagi bað hann um öll skráð samskipti og afrit allra tölvupósta og skjala sem tengdust samskiptum Borgarbyggðar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna kærðs rekstrarleyfis [Y-götu nr. X] í Borgarnesi. Beiðni kæranda var svarað með bréfi, dags. 31. október 2017, þar sem upp voru talin gögn í átta tölusettum liðum. Fylgdi afrit gagnanna svarbréfinu til kæranda.

Með bréfi sveitarstjóra til kæranda, dags. 4. desember 2017, var vísað til erindis kæranda frá 18. apríl 2017 þar sem dregið hafði verið í efa að byggðarráð hefði samþykkt svör formanns ráðsins sem fram komu í erindi til kæranda frá 2. febrúar 2017. Fram kom að byggðarráð hefði bókað sérstaklega um athugasemdir kæranda á fundi sínum 23. nóvember 2017, á þá leið að þau sjónarmið sem fram hefðu komið í erindi til kæranda frá 2. febrúar 2017 og undirritað var af formanni byggðarráðs, nytu stuðnings ráðsins. Kom og fram í bréfi sveitarstjóra 4. desember 2017 að bréf hans væri ritað í framhaldi af og til staðfestingar á nefndri afgreiðslu ráðsins. Væru fyrri svör til kæranda ítrekuð.

Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 27. desember 2017, kemur fram að kæran sé lögð fram í samræmi við ábendingu umboðsmanns Alþingis til að kanna hvort málið sé tækt til úrskurðar hjá nefndinni.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 4. janúar 2018, var Borgarbyggð kynnt kæran og veittur frestur til 19. janúar 2018 til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Að beiðni Borgarbyggðar var fresturinn framlengdur til og með 15. febrúar 2018.

Í umsögn Borgarbyggðar, dags. 15. febrúar 2018, gagnrýndi sveitarfélagið kæruna í málinu, sem væri óskýr og ruglingsleg, auk þess sem í henni kæmi ekki fram hvaða gögn væri farið fram á. Af þeirri ástæðu væri sveitarfélaginu erfitt að taka til varna. Hvað varðaði bréf kæranda til Borgarbyggðar, dags. 10. október 2017, þar sem óskað hefði verið eftir tilteknum gögnum var tekið fram að erindinu hefði ekki enn verið svarað af hálfu sveitarfélagsins. Af þeirri ástæðu væri ótímabært af hálfu kæranda að fara fram á að úrskurðarnefnd úrskurðaði um afhendingu þeirra gagna.

Því næst var í umsögninni tekið fram að kæranda hafi láðst að tiltaka í kæru sinni að í svari frá sveitarstjóra Borgarbyggðar, dags. 13. desember 2016, við bréfi kæranda frá 6. nóvember 2016 hafi verið farið yfir öll eldri erindi kæranda og þeim svarað sem ekki hafði áður verið svarað. Sveitarfélagið teldi því að kærandi hefði þegar móttekið allar þær upplýsingar og gögn sem vörðuðu málið. Hvað varðaði þau gögn sem sveitarstjóri synjaði kæranda um aðgang að hafi honum verið leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í stað þess að leita til nefndarinnar hafi kærandi hins vegar kvartað til byggðarráðs sveitarfélagsins og umboðsmanns Alþingis. Sveitarfélagið legði áherslu á það að afstaða þess til ágreiningsefnisins sem fram kom í bréfi til kæranda 13. desember 2016 hefði ekki breyst. Það væri því ekki rétt að í bréfi sveitarstjóra, dags. 4. desember 2017, hefði komið fram ný niðurstaða í málinu. Þegar kærandi hafi loksins lagt fram kæru til úrskurðarnefndar, dags. 28. desember 2017, hafi því verið liðið meira en ár frá því honum var kynnt ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna kröfu hans um aðgang að gögnum. Kæran hafi þar af leiðandi ekki borist nefndinni innan lögboðins kærufrests, sbr. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.

Sveitarfélagið vakti jafnframt athygli á því að kærandi hefði, samhliða þeirri kæru sem hér væri til umfjöllunar, sent samhljóða kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Teldi sveitarfélagið að lögum samkvæmt gæti kærandi ekki verið með sama úrlausnarefnið til úrlausnar fyrir tveimur kærunefndum í einu. Í ljósi framangreindra atriða teldi sveitarfélagið eðlilegt að kannað yrði hvort kærunni skyldi vísa frá, í heild eða að hluta.

Hvað varðaði efnislega umfjöllun um atriði kærunnar teldi sveitarfélagið að hún ætti að einskorðast við tvö atriði. Fyrra atriðið varðaði beiðni kæranda um ljósrit allra tölvusamskipta eigenda […] vegna [Y-götu nr. X] frá 2013 til og með 2016 og viðbótarbeiðni um afrit allra tölvubréfa og bréflegra samskipta forráðamanna […], eða fulltrúa þess, við stjórnsýslu Borgarbyggðar frá 24. september 2015 til 1. nóvember 2016. Kæranda var synjað um aðgang að gögnunum á grundvelli 9. gr. og 15. gr. upplýsingalaga. Sveitarfélagið teldi að samskipti eigenda gistihússins við stjórnsýslu sveitarfélagsins væru einkamál viðkomandi aðila. Breytingar innanhúss í fasteign vörðuðu nágranna engu og því hefðu nágrannar enga hagsmuni af því að fá gögn tengd breytingunum afhent.

Sveitarfélagið taldi beiðni kæranda of umfangsmikla. Til að verða við beiðni kæranda þyrfti sveitarfélagið að kanna tölvupósthólf allra starfsmanna sinna. Við slíka yfirferð þyrfti að virða persónuvernd starfsmannanna, en óheimilt væri fyrir vinnuveitanda að skoða pósthólf starfsmanna án þeirra samþykkis.

Síðara atriðið sem sveitarfélagið taldi að efnisleg umfjöllun um kæruna ætti að einskorðast við varðaði beiðni kæranda um aðgang að afritum allra gagna og samskipta byggingarfulltrúa sveitarfélagsins við lögmannsstofuna Pacta frá 1. september 2015 til 30. júní 2016 o.fl. Þeirri beiðni hefði einnig verið hafnað með vísan til 9. gr. og 15. gr. upplýsingalaga. Sveitarfélagið teldi samskipti viðkomandi lögmanns og byggingarfulltrúa bæjarins vera einkamál. Þar sem lögmannsstofan ynni ýmiss konar verk fyrir sveitarfélagið og krafa kæranda næði til allra samskipta viðkomandi aðila yrði ekki séð að öll þau gögn sem kærandi krefðist aðgangs að vörðuðu meinta hagsmuni hans.

Einnig teldi sveitarfélagið að samskipti lögmannsins og byggingarfulltrúans væru að stórum hluta vinnugögn, sem fælu ekki í sér endanlegar ákvarðanir um afgreiðslu málsins, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga. Lögmaður veitti lögfræðilega ráðgjöf með sama hætti og bæjarlögmaður myndi gera í stærri sveitarfélögum, en ráðgjöf bæjarlögmanns í formi minnisblaða eða tölvupósta myndi teljast til vinnugagna.

Loks nefndi sveitarfélagið að ákvæði dönsku stjórnsýslulaganna, sem stjórnsýslulög nr. 37/1993 hafi að stórum hluta verið byggð á, um bréfaskipti stjórnvalda við sérfróða aðila hafi verið túlkað þannig af umboðsmanni danska þjóðþingsins að ákvæðið skyldi ná til bréfaskipta sem vörðuðu lögfræðileg álitaefni, óháð því hvort bein tengsl væru milli bréfaskiptanna og fyrirhugaðs dómsmáls. Teldi sveitarfélagið eðlilegt að efnislega samrýmanleg ákvæði stjórnsýslulaga hérlendis yrðu túlkuð með sama hætti og dönsku stjórnsýslulögin. Sömu sjónarmið hlytu jafnframt að gilda við túlkun á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2018, var kæranda kynnt umsögn Borgarbyggðar, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Með tölvupóstum, dags. 17. september 2018, bárust úrskurðarnefndinni umbeðin gögn í málinu.

Með erindi frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2018, var úrskurðarnefnd um upplýsingamál tjáð að kveðinn hefði verið upp úrskurður nefndarinnar í máli fyrir þeirri nefnd. Kærandi í málinu væri hinn sami og í þessu máli og sama beiðni um aðgang að gögnum hefði verið til umfjöllunar. Var niðurstaða nefndarinnar að leggja fyrir Borgarbyggð að taka beiðni kæranda um gögn frá 10. október 2017 til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar, þar sem henni hefði ekki enn verið svarað. Að öðru leyti var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með tölvupósti, dags. 27. september 2018, var úrskurðarnefnd um upplýsingamál upplýst um það að í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefði Borgarbyggð haft samband við nefndina og tjáð henni að erindi kæranda frá 10. október 2017 hefði í reynd verið svarað og honum send tiltekin gögn. Að sögn úrskurðarnefndarinnar væri það þvert á fullyrðingar lögmanns sveitarfélagsins sem fram kæmu í greinargerð hans. Sveitarfélagið hefði í samræmi við þetta óskað eftir því að málið yrði endurskoðað.

Með tölvupósti, dags. 15. október 2018, var úrskurðarnefndinni sent erindi Borgarbyggðar til kæranda, dags. 31. október 2017, og afrit þeirra gagna sem fylgdu svarinu.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað að nýju upp úrskurð í máli kæranda 20. desember 2018, þar sem nefndin afturkallaði úrskurð sinn frá 21. september 2018 á grundvelli 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, þar sem fyrri úrskurður byggði ranglega á því að erindi kæranda frá 10. október 2017 hefði ekki verið svarað. Úrskurðarnefndin taldi að svar sveitarfélagsins við erindinu, dags. 31. október 2017, teldist ekki vera fullnægjandi þar sem ekki fælist í svarinu afstaða til alls erindis kæranda. Í samræmi við það var niðurstaða nefndarinnar sú að leggja fyrir Borgarbyggð að taka til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar þann hluta erindis kæranda frá 10. október 2017 um aðgang að gögnum sem fram kæmi í annarri efnisgrein erindisins. Að öðru leyti var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi sveitarstjóra Borgarbyggðar, dags. 4. janúar 2019, var kæranda svarað í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hverjum lið erindis kæranda frá 10. október 2017 var svarað og honum látin í té afrit þeirra gagna sem fyrir lágu hjá sveitarfélaginu.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem varða gistihús að [Y-götu nr. X] í Borgarnesi, en kærandi hefur aðsetur að [Y-götu nr. Z]. Var kæranda m.a. synjað um aðgang að tilteknum gögnum á grundvelli 9. gr. og 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Kærandi heldur því fram að um rétt sinn til aðgangs að gögnunum fari eftir stjórnsýslulögum, nánar tiltekið 15. gr. þeirra, þar sem fjallað er um upplýsingarétt aðila máls.

Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur þrívegis lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna leyfisveitinga Borgarbyggðar fyrir breytingum á húsnæði að [Y-götu nr. X]. Nýjasti úrskurðurinn var kveðinn upp 21. september 2018 í kærumáli nr. 93/2017, þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að útbúa þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð [Y-götu nr. X] og breyta annarri hæð.

2.

Kærandi gerði kröfu um afhendingu ýmissa gagna á grundvelli stjórnsýslulaga í bréfi sínu til Borgarbyggðar 6. nóvember 2016. Hluta þeirrar kröfu var synjað af sveitarstjóra með bréfi, dags. 13. desember 2016, með vísan til 9. gr. og 15. gr. upplýsingalaga. Því mótmælti kærandi með bréfi, dags. 11. janúar 2017, og var því svarað af formanni byggðaráðs með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, þar sem tekið var undir sjónarmið sveitarstjóra. Verður litið svo á að í bréfi kæranda frá 11. janúar hafi falist endurupptökubeiðni samkvæmt yfirskrift þess og að henni hafi verið hafnað með bréfi formannsins frá 2. febrúar 2017. Hélt þá sá kærufrestur áfram að líða sem hófst þegar ákvörðun sveitarstjóra um að synja kæranda um aðgang að gögnum, dags. 13. desember 2016, var tilkynnt kæranda, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Þó að niðurstaðan yrði sú að um gagnabeiðni kæranda frá 6. nóvember 2016 færi eftir upplýsingalögum er ljóst að þegar kæra barst til úrskurðarnefndarinnar 27. desember 2017 var kærufrestur vegna efnislegrar afgreiðslu sveitarstjórans frá 13. desember 2016 liðinn, en samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga er hann 30 dagar frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnum var tilkynnt um ákvörðun. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er jafnframt óheimilt að sinna kæru sem berst meira en ári eftir að ákvörðun var tilkynnt aðila. Þar sem kæran barst nefndinni rúmu ári síðar verður afgreiðsla sveitarfélagsins á beiðni kæranda frá 6. nóvember 2016 ekki tekin til frekari skoðunar.

3.

Beiðni kæranda um aðgang að gögnum frá 10. október 2017 var svarað af sveitarstjóra Borgarbyggðar 31. október 2017. Í svarinu voru tilgreind í átta liðum sjö bréf og einn tölvupóstur og afrit þeirra látin kæranda í té. Í fyrsta töluliðnum var tilgreint bréf það sem kærandi fór fram á í fyrstu efnisgrein sinni. Þar sem kærandi hafði fengið bréfið afhent þegar kæra barst úrskurðarnefndinni verður sá liður beiðninnar ekki tekinn til frekari skoðunar af hálfu nefndarinnar. Í töluliðum 2-8 voru talin upp samskipti milli Borgarbyggðar og forráðamanna hins umdeilda gistihúss, sem farið var fram á af hálfu kæranda í annarri efnisgrein erindis hans. Hins vegar fylgdu svarinu engar frekari skýringar og var hvorki tiltekið hvort öll umbeðin gögn væru afhent né færður rökstuðningur fyrir því ef svo hefði ekki verið, sbr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Gat svar sveitarfélagsins til kæranda því ekki talist vera fullnægjandi, enda fólst ekki í því afstaða til alls erindis hans. Í því sambandi er rétt að benda á að kærandi bað ekki einungis um afrit allra bréfa og tölvupósta heldur líka um upplýsingar um öll skráð samskipti Borgarbyggðar við eigendur […] frá ársbyrjun 2013 til 10. október 2017. Að auki fór kærandi í þriðju efnisgrein erindis síns fram á gögn í tengslum við samskipti Borgarbyggðar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna kærðs rekstrarleyfis [Y-götu nr. X] í Borgarnesi. Sveitarfélagið tók heldur ekki afstöðu til þess liðar erindisins í svari sínu til kæranda.

Þótt kæranda hafi verið svarað með bréfi, dags. 4. janúar 2019, hafði þeim hluta beiðninnar sem ekki hafði verið tekin afstaða til í bréfi Borgarbyggðar frá 31. október 2017 ekki enn verið svarað þegar kæra þessi barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þar sem ekki lá fyrir synjun um þann hluta erindisins á kærufresturinn sem kveðið er á um í 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga ekki við og verður málinu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni af þeirri ástæðu að kæran hafi verið of seint fram komin.

4.

Beiðni kæranda í erindi sínu frá 10. október 2017 hljóðaði m.a. á um afrit allra bréfa og tölvupósta, sem og upplýsingar um önnur samskipti sveitarfélagsins við eigendur gistihússins að [Y-götu nr. X]. Á þeim tíma var hann aðili að kærumáli nr. […] fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem varðar sama mál og upplýsingabeiðni hans varðaði að hluta eða í heild. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. […], sem varðar aðgang kæranda að sömu gögnum og til umfjöllunar eru í þessu máli, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi teldist aðili málsins á sveitarstjórnarstigi í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og ætti rétt til aðgangs að gögnum á þeim grundvelli. Um þetta segir orðrétt í úrskurðinum:

„Ákvarðanir þær sem kærandi hefur kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eru til komnar vegna afgreiðslu sveitarfélagsins á umsóknum um byggingarleyfi vegna húss á næstu lóð við kæranda. Þegar sótt er um byggingarleyfi til sveitarfélags er almennt sá einn aðili málsins sem sækir um leyfið. Hins vegar er ljóst að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuni annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðarnefndinni vegna ákvarðana um slíkar leyfisveitingar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í nefndri lagagrein er kæruréttur til úrskurðarnefndarinnar bundinn við lögvarða hagsmuni rétt eins og almennt er gerð krafa um í stjórnsýslurétti og vísað er til í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum. Verður með hliðsjón af framangreindu að telja kæranda einnig aðila máls á sveitarstjórnarstigi í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og á hann þar með rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða þær þrjár afgreiðslur sem síðar var skotið til úrskurðarnefndarinnar.“

Kærandi fór í erindi sínu frá 10. október 2017 einnig fram á upplýsingar um öll skráð samskipti og afrit allra tölvupósta sem tengdust samskiptum Borgarbyggðar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna kærðs rekstrarleyfis [Y-götu nr. X] í Borgarnesi. Það kærumál er til meðferðar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, en kærandi í því máli er hinn sami og í þessu máli. Kæran lýtur að ákvörðun Sýslumannsins á Vesturlandi um að synja kröfu kæranda um að fella úr gildi útgefið leyfi til […] til reksturs á gistiþjónustu í fjórum íbúðum við [Y-götu nr. X] í Borgarnesi. Þar sem kærandi nýtur aðildar að því kærumáli fer um rétt hans til aðgangs að gögnum í tengslum við það mál eftir 15. gr. stjórnsýslulaga.

Af öllu framangreindu leiðir að um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum hjá Borgarbyggð fer eftir 15. gr. stjórnsýslulaga. Slíkur ágreiningur verður ekki borinn undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Er því óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 27. desember 2017, vegna afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni um afhendingu gagna.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira