Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 32/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 32/2015
Þriðjudaginn 15. mars 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd Reykjavíkur


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með tölvubréfi 30. október 2015 kærði B hdl., f.h. A, til kærunefndar barnaverndarmála úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 27. október 2015 um að fella úr gildi fóstursamning kæranda við barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna C.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er fæddur árið X og lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hans, D, fór ein með forsjá drengsins en hún afsalaði forsjá hans til barnaverndarnefndar Reykjavíkur með dómsátt þann X. C dvaldi hjá kæranda, sem er faðir hans, frá X, fyrst í tímabundnu fóstri, en frá X í varanlegu fóstri samkvæmt fóstursamningi.

Tvær tilkynningar bárust í máli drengsins í X og X. Önnur þeirra var frá lögreglu vegna aksturs kæranda undir áhrifum fíkniefna en hin vegna þess að kærandi sótti ekki drenginn á leikskóla. Kærandi fór í meðferð X og lauk henni á Vogi og Staðarfelli. Þann tíma var drengurinn vistaður hjá föðursystur sinni og eiginmanni hennar. Kærandi dvaldi á heimili þeirra frá X þar til málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 26. maí 2015.

Á fundi barnaverndarnefndarinnar 26. maí 2015 var lýst þungum áhyggjum af aðstæðum drengsins í umsjá kæranda. Taldi nefndin þó ekki tímabært að fella fóstursamning úr gildi, sbr. 3. mgr. 77. gr. bvl., þar sem ekki lá fyrir sálfræðilegt mat á tengslum þeirra feðga og hugsanlegum áhrifum tengslarofs á sálarlíf drengsins. Nefndin ákvað að þétt eftirlit yrði með heimili kæranda og að fylgst yrði með stöðu hans í gegnum meðferðaraðila hans. Þann X var gengið frá meðferðaráætlun með kæranda í samræmi við bókun barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Í áætluninni kom fram að kærandi myndi ekki neyta vímuefna, taka á móti óboðuðu eftirliti, sinna meðferðaráætlun SÁÁ, undirgangast sálfræðimat og vera í samvinnu við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur.

Þann X barst aftur tilkynning til Barnaverndar Reykjavíkur þess efnis að drengurinn hefði ekki verið sóttur á leikskóla. Kærandi svaraði ekki síma. Starfsmaður E sótti drenginn á leikskólann. Um klukkan 20 hafði kærandi samband við starfsmann E og kvaðst hafa sofnað og því hafi hann ekki sótt drenginn á leikskóla. Að sögn starfsmannsins virtist kærandi allsgáður og því hafi verið ákveðið að drengurinn færi til kæranda en að daglegt eftirlit yrði með heimilinu dagana á eftir. Þann X var drengurinn tekinn úr umsjá kæranda í kjölfar þess að kærandi mældist jákvæður á vímuefnaprófi. Í þvagi kæranda mældist amfetamín, ritalín, ritalínsýra, búprenorfin og norbúprenorfin. Drengurinn var í kjölfarið vistaður á heimili föðursystur drengsins og eiginmanns hennar.

Þann X barst Barnavernd Reykjavíkur bréf frá Lögreglustjóranum á F þess efnis að embættinu hafi þann X borist tilkynning um að kærandi hefði ásamt tveimur öðrum mönnum brotist inn á heimili, ráðist þar á húsráðanda og tekið þaðan lyf ófrjálsri hendi.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 29. september 2015. Á fundinum lá fyrir greinargerð starfsmanna 23. september 2015 þar sem lagt var til að felldur yrði úr gildi fóstursamningur við kæranda um varanlegt fóstur C. Á fundinum lá fyrir sálfræðilegt mat G sálfræðings á tengslum kæranda og C og hugsanlegum áhrifum af tengslarofum við kæranda. Niðurstaða matsins var sú að aðstæður kæranda væru ekki boðlegar barni. Á fundi nefndarinnar kom fram að kærandi samþykkti fósturrof og óskaði hann þess að drengurinn færi í umsjá föðursystur drengsins og eiginmanns hennar.

Þann X óskaði föðursystir drengsins og eiginmaður hennar eftir því að taka C í varanlegt fóstur. Voru þau boðuð í viðtal þann X þar sem þau ítrekuðu afstöðu sína um að annast drenginn til 18 ára aldurs og var þeim leiðbeint varðandi umsókn þeirra um að gerast fósturforeldrar. Í kjölfarið var sótt um leyfi til Barnaverndarstofu um vistun drengsins á heimili þeirra samkvæmt 84. gr. bvl. Þann X hafði eiginmaður föðursystur drengsins samband við Barnavernd Reykjavíkur og greindi frá því að þau hjónin gætu ekki tekið drenginn í varanlegt fóstur en greindi ekki sérstaklega frá ástæðu þess. Í ljósi þess var drengurinn vistaður á H frá X til X en þá var hann fluttur á fósturheimili í Reykjavík. Kærandi hafði samband við starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur þann X og tilkynnti að hann drægi til baka samþykki sitt fyrir fósturrofi.

Málið var lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur 27. október 2015 og var það niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt væri að fella úr gildi fóstursamning sem gerður var við kæranda. Þar sem ekki hafði náðst samkomulag við kæranda um lok fóstursamnings var málið tekið til úrskurðar á fundinum, sbr. 3. mgr. 77. gr. bvl.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

„Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að fóstursamningur, dags. X, sem gerður var við A, um fóstur drengsins C, skuli felldur úr gildi, sbr. 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.“

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að með vísan til 3. mgr. 77. gr. bvl. sé kærður úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 27. október 2015 þar sem felldur var úr gildi fóstursamningur X við kæranda um fóstur sonar hans, A. Skilja verður kæruna á þann veg að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Fram kemur að kæran sé einkum byggð á þeim sterku tengslum sem séu milli feðganna sem staðreynd hafi verið af sálfræðingnum G í skýrslu sem gerð var að beiðni barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Kærandi hafi því miður fallið á bindindi sínu en hann hafi farið í meðferð til J sem ljúka eigi í X. Þess sé óskað að kæranda verði veitt tækifæri til að taka við syni sínum aftur í fóstur. Kærandi kveðst samþykkur því að drengurinn verði vistaður tímabundið utan heimilis á meðan.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 11. nóvember 2015 kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, enda sé ljóst að það séu hagsmunir drengsins og réttur hans til að alast upp við viðunandi uppeldisaðstæður sem fullreynt sé að faðir hans geti ekki veitt honum.

Drengurinn C hafi dvalið hjá kæranda fyrst í tímabundnu fóstri og síðar í varanlegu fóstri. Áður en gengið hafi verið frá varanlegu fóstri hafði verið stefnt að því að kærandi fengi forsjá drengsins. Vegna tilkynninga og upplýsinga sem borist hafi Barnavernd Reykjavíkur um neyslu og sölu kæranda á fíkniefnum hafi verið gerðar meðferðaráætlanir. Kærandi hafi hlotið skilorðbundinn dóm í X vegna vörslu og ræktunar á kannabis í X. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi fengið ítrekuð tækifæri varðandi drenginn vegna jákvæðra upplýsinga frá leikskóla og vegna þess að óboðað eftirlit hafi bent til þess að kærandi annaðist drenginn vel. Kærandi, sem hafi glímt við vímuefnavanda, hefði viðurkennt að hafa verið í neyslu í X og X. Tvær tilkynningar hafi borist í máli drengsins á þessum tíma, önnur frá lögreglu er varði akstur kæranda undir áhrifum amfetamíns og hin frá leikskóla sem hefði tilkynnt að drengurinn hefði ekki verið sóttur. Kærandi hafi farið í meðferð þann X og hafi hann lokið meðferð á Vogi og Staðarfelli. Þann tíma hafi drengurinn verið vistaður hjá föðursystur sinni og eiginmanni hennar, K og L. Dvöl drengsins hafi gengið vel en þau hafi átt erfitt með að annast drenginn áfram vegna anna í atvinnu þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá leikskóla hafi aðbúnaður drengsins á því tímabili, sem kærandi var í neyslu, verið slæmur og drengurinn hafi verið óöruggur í aðlögun að leikskóla. Þá hafi drengurinn verið viðkvæmur í leikskólanum, sótt í kennara og virst sakna kæranda þann tíma sem kærandi var í meðferð.

Málið var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 26. maí 2015 og var niðurstaða nefndarinnar sú að ekki væri tímabært að fella fóstursamning úr gildi þar sem ekki lægi fyrir sálfræðilegt mat á tengslum þeirra feðga og hugsanlegum áhrifum þess á sálarlíf barnsins. Þann X var C tekinn úr umsjá kæranda í kjölfar þess að hann mældist jákvæður á fíkniefnaprófi en þann X hafði kærandi ekki sótt drenginn á leikskóla.

Í skýrslu sálfræðings 14. september 2015 hafi komið fram að sterk tengsl væru milli feðganna og margt jákvætt talið til varðandi samband þeirra. Að mati sálfræðings skorti kæranda þó innsýn í þroska og þarfir drengsins. Sálfræðingurinn hafi talið að eflaust yrði það drengnum erfitt að fara úr umsjá kæranda og að tengsl þeirra rofnuðu. Hins vegar yrði að gæta þess að kærandi hafi ítrekað fallið á vímuefnabindindi sem hafi skapað óviðunandi aðstæður sem væru alls ekki boðlegar barni.

Málið hafi verið lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur 27. október 2015 og hafi þá legið fyrir greinargerð starfsmanna frá 20. október 2015 þar sem fram hafi komið að ljóst væri að kærandi hefði á tímabili fósturs skapað drengnum óviðunandi uppeldisaðstæður. Að mati starfsmanna uppfyllti kærandi ekki þær kröfur sem gerðar væru til fósturforeldra og að hagsmunum C væri best borgið með því að honum yrði fundið annað fósturheimili. Barnaverndarnefndin hafi tekið undir mat starfsmanna. Í bókun nefndarinnar sé vísað til þess að markmið fósturráðstöfunar samkvæmt 65. gr. bvl. sé að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem henti best þörfum þess. Barni skuli tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum og skulu fósturforeldrar sýna barni umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur beri að tryggja öryggi drengsins og viðunandi uppeldisaðstæður á fósturheimili hans. Ljóst sé af gögnum málsins að kærandi glími við vímuefnavanda og hafi drengurinn þess vegna búið við óviðunandi uppeldisaðstæður í umsjá hans. Þrátt fyrir að drengurinn sé augljóslega tengdur kæranda tilfinningaböndum hafi það verið mat nefndarinnar að hagsmunum drengsins yrði best borgið með því að finna annað fósturheimili þar sem honum yrðu tryggðar traustar og góðar uppeldisaðstæður. Niðurstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi því verið sú að fella úr gildi fóstursamning sem gerður var við kæranda þann X. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag við kæranda um lok fóstursamningsins hafi málið verið tekið til úrskurðar, sbr. 3. mgr. 77. gr. bvl.

Í viðbótargreinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 4. febrúar 2016 kemur fram að í C hafi aðlögum C að núverandi fósturheimili hafist. Varanlegur fóstursamningur hafi verið gerður við fósturforeldra hans X með fyrirvara um niðurstöðu kærumálsins. Aðlögun að fósturheimilinu hafi gengið vel og hafi drengurinn tekið breytingunum vel. Ekki hafi borið á vanlíðan hjá drengnum þann tíma sem hann hefði dvalið á fósturheimilinu og hefði hann tekið miklum framförum í þroska. Fram kemur að kærandi hafi farið til J í átta mánaða langa meðferð sem hófst í X. Hann komi þó til með að dvelja á Íslandi í tvær vikur í X og fyrirhuguð sé umgengni hans við drenginn X. Móðir drengsins, sem afpláni nú dóm í fangelsi, hafi óskað eftir umgengni við drenginn en fjallað verði um beiðni hennar að lokinni umgengni kæranda X nk.

IV.  Niðurstaða

Kærandi krefst þess að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að fella úr gildi fóstursamning kæranda vegna X ára drengs, C, verði felldur úr gildi. Varanlegur fóstursamningur var gerður við kæranda X. Kæruheimild er í niðurlagi 3. mgr. 77. gr. og 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Framangreindur fóstursamningur var felldur úr gildi með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 27. október 2015. Tilefni þeirrar ákvörðunar var að kærandi uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til fósturforeldra.

Kærandi styður kröfu sína í málinu þeim rökum að sterk tengsl séu milli þeirra feðga sem staðreynd hafi verið af sálfræðingi. Því miður hafi kærandi fallið í bindindi en hann sé nú í meðferð sem ljúka eigi í X. Hann óski því eftir að fá tækifæri til að taka við syni sínum aftur í fóstur. Kærandi kveðst samþykkur því að drengurinn verði vistaður tímabundið utan heimilis á meðan. Kröfur kæranda og röksemdir, er að þessu lúta, geta ekki haft þýðingu í málinu þar sem úrlausn þess takmarkast við að taka afstöðu til þess hvort skilyrði hafi verið fyrir hendi til að fella úr gildi fóstursamninginn frá X eins og gert var með hinum kærða úrskurði.

Í 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga segir að markmið fósturs samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar sé að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best henti þörfum þess. Barni skuli tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum og þeir skulu sýna fósturbarni umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess.

Í 77. gr. barnaverndarlaga er fjallað um endurskoðun fóstursamnings. Þar er í 1. málsgrein lögð sú skylda á fósturforeldra að tilkynna barnaverndarnefnd þegar tilteknar aðstæður breytast hjá þeim. Samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laganna ber enn fremur að beina tilkynningum um aðstæður barns hjá fósturforeldri og upplýsingum um að fósturforeldri vanræki hlutverk sitt til barnaverndarnefndar sem ráðstafað hefur barni í fóstur. Ber nefndinni þá að kanna málið tafarlaust og grípa til viðeigandi ráðstafana. Þá kemur fram í 3. mgr. 77. gr. að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi, náist ekki samkomulag við fósturforeldra um breytingu á fóstursamningi. Úrskurður barnaverndarnefndar var reistur á síðastnefndu ákvæði barnaverndarlaga. Af framangreindu verður ráðið að ógilding fóstursamnings er meðal þeirra lögbundnu úrræða sem barnaverndarnefnd getur þurft að grípa til vanræki fósturforeldrar verulega hlutverk sitt gagnvart fósturbarni.

Í 3. mgr. 31. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804 frá 27. september 2004, sem sett er á grundvelli 78. gr. barnaverndarlaga, er áréttað að barnaverndarnefnd sé heimilt að breyta fóstursamningi eða fella hann úr gildi náist ekki samkomulag milli nefndarinnar og fósturforeldra um endurskoðun hans vegna breytinga á högum fósturforeldra. Í 32. gr. reglugerðarinnar er fjallað um slit fóstursamnings. Í 3. málsgrein þeirrar greinar kemur fram að þegar fóstursamningur er gerður til lengri tíma en 12 mánaða geti hvor aðila óskað eftir því að breyta samningi eða fella hann úr gildi. Náist ekki samkomulag milli þeirra getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Í 4. mgr. 32. gr. reglugerðarinnar er síðan vikið að því að hvor aðila geti tafarlaust rift fóstursamningi ef hinn aðilinn vanefnir verulega skyldur sínar. Tekin eru dæmi um vanefndatilvik sem réttlæta riftun fóstursamnings, en meðal þeirra er að fósturbarn búi við slæman aðbúnað hjá fósturforeldri.

Slit á varanlegum fóstursamningi á grundvelli heimildar 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga er háð mati á aðstæðum með tilliti til þess hverra úrræða er nauðsynlegt að grípa til í þeim tilgangi að framfylgt verði þeirri meginreglu í 1. mgr. 4. gr. laganna þess efnis að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Ríkar ástæður þurfa að vera fyrir hendi til að slíta varanlegu fóstri í ljósi hagsmuna barnsins, einkum vegna mikilvægi þess að barn búi við stöðugleika í umönnun og fjölskyldutengslum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að kærandi hefur átt við alvarlegan vímuefnavanda að stríða á þeim tíma er drengurinn var hjá honum í fóstri samkvæmt fóstursamningnum milli kæranda og barnaverndarnefndar frá X. Hefur það leitt til þess að kærandi hefur ekki getað sinnt skyldum sínum gagnvart drengnum og barnaverndarnefndinni samkvæmt fóstursamningnum. Drengurinn hefur því á þeim tíma ekki notið þess öryggis, umönnunar og aðbúnaðar sem honum bar samkvæmt samningnum og meginreglunni, sem fram kemur í 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga um að börn eigi rétt á vernd og umönnun, auk þess sem líta verður til þess að barni í fóstri skal tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum samkvæmt 3. mgr. 65. gr. sömu laga. Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu verður að telja að aðstæður drengsins og aðbúnaður hjá kæranda hafi verið óviðunandi þegar fóstursamningurinn var felldur úr gildi með hinum kærða úrskurði. Þrátt fyrir sterk tengsl þeirra feðga breytir það ekki framangreindu mati nefndarinnar.

Með vísan til framangreinds og að teknu tilliti til hagsmuna drengsins svo og þeirrar skyldu barnaverndarnefndarinnar að tryggja öryggi hans og aðbúnað telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið hjá því komist að fella fóstursamninginn úr gildi.

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur 27. október 2015 um að fella úr gildi fóstursamning við kæranda frá X um varanlegt fóstur drengsins, C, verður því staðfestur.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 27. október 2015 um að fella úr gildi fóstursamning X við A um fóstur drengsins, C, er staðfestur.

 

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira