Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 34/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála


Mál nr. 34/2015
Föstudaginn 22. apríl 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd B


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson, Guðfinna Eydal og Sigríður Ingvarsdóttir.

Með bréfi 24. nóvember 2015 kærði C hdl., fyrir hönd A, til kærunefndar barnaverndarmála úrskurð barnaverndarnefndar B frá X þess efnis að barnið D, væri tekið af F og vistað á vegum barnaverndarnefndar B á fósturheimili í tvær vikur.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er fædd árið X. Stúlkan er með ódæmigerða einhverfu og hefur sýnt erfiða hegðun á heimili sínu. Í samvinnu við kæranda, sem er móðir stúlkunnar, var sótt um styrkt fóstur og var hún í styrktu fóstri frá X til X. Stúlkan hóf nám í X og fékk stuðning frá F, sem er búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda, í X og X. Sá stuðningur var ekki talinn nægilegur og óskaði kærandi því eftir að stúlkan yrði vistuð tímabundið á F. Mat starfsmanna var að með fullri búsetu í nokkra mánuði væri hægt að vinna markvisst að því að aðlaga hana heim. Stúlkan var því vistuð samkvæmt 84. gr. bvl. frá X á F og gerður tímabundinn samningur við F um vistun stúlkunnar. Í samningnum var meðal annars tekið fram að eitt af verkefnum F væri að vinna að því að stúlkan færi aftur heim til kæranda. Umræddur samningur rann út X.

Lögmaður kæranda mótmælti í X þeim áformum barnaverndarnefndar B að binda enda á dvöl stúlkunnar í F og vista hana á fósturheimili eða senda hana heim til kæranda og veita þá heimilinu öflugan stuðning. Krafðist lögmaðurinn þess að D fengi að dvelja áfram í F til átján ára aldurs.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B þann  X og var bókun samþykkt þess efnis að barnaverndarnefndin teldi að ekki væri tilefni til að D yrði vistuð áfram í F. Aðstæður stúlkunnar væru þó ekki með þeim hætti að nauðsynlegt væri að úrskurða hana í fóstur gegn eindreginni andstöðu kæranda og stúlkunnar. Var því niðurstaða nefndarinnar sú að vistun stúlkunnar í F myndi ljúka X þegar samningurinn rynni út og að hún myndi dvelja frá þeim tíma á heimili kæranda með fjölþættum stuðningi. Samkvæmt bókun nefndarinnar X var beiðni kæranda um áframhaldandi vistun stúlkunnar á F til 18 ára aldurs synjað. Kærandi kærði þá synjun til kærunefndar barnaverndarmála sem úrskurðaði í málinu 1. júlí 2015.  Kærunefndin vísaði kærunni frá þar sem ekki var um kæranlega ákvörðun að ræða.

Vegna andstöðu kæranda og stúlkunnar við ráðstöfunina var áformum um för hennar af vistheimilinu frestað og samið við F um lengri dvalartíma fyrir stúlkuna.

Með bókun barnaverndarnefndar B þann X samþykkti nefndin á grundvelli greinargerðar starfsmanna að stúlkan færi í fóstur á vegum nefndarinnar til 18 ára aldurs. Fram kom í bókun barnaverndarnefndarinnar að ef stúlkan og/eða kærandi samþykktu ekki ráðstöfunina yrði málið tekið til úrskurðar. Kæranda og lögmanni hennar var tilkynnt að ef ekki lægi fyrir samþykki þeirra fyrir 18. nóvember 2015 yrði úrskurðað í málinu í samræmi við bókun nefndarinnar frá X.

Þann 18. nóvember 2015 var úrskurðað í málinu á grundvelli 31. gr. bvl. Í úrskurðinum segir að stúlkan hafi veitt munnlegt samþykki fyrir því að fara á fósturheimili og að kærandi hafi ekki getað tekið stúlkuna á heimili sitt en samþykki ekki að hún fari af F.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi:

„Barnið D skal tekið af F og vistað á vegum barnaverndarnefndar B á fósturheimili í 2 vikur.“

Stúlkan fór á fósturheimili sama dag en dvaldi þar aðeins skamman tíma.  

Vegna viðbragða kæranda við fósturráðstöfuninni og afturköllun stúlkunnar á samþykki fyrir fósturráðstöfun taldi barnaverndarnefndin að úrskurður um vistun samkvæmt 27. gr. bvl. myndi ekki þjóna tilgangi sínum eða skila þeim árangri sem að væri stefnt, sbr. bókun nefndarinnar frá X. Niðurstaðan hafi því verið sú að stúlkan myndi búa á heimili kæranda með öflugum stuðningi barnaverndarnefndar til 18 ára aldurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður barnaverndarnefndar B frá X, um að barnið D skyldi tekið af F og vistað á vegum barnaverndarnefndar B á fósturheimili í tvær vikur. Skilja verður kæruna á þann veg að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Kærandi vísar til þess að hinn kærði úrskurður hafi verið kveðinn upp á grundvelli 31. gr. bvl. sem fjalli um neyðarráðstafanir. Að mati kæranda hafi engin neyð verið til staðar og því hafi verið ólögmætt að beita slíkri undanþágureglu gegn kæranda sem vildi ekki samþykkja að barnið yrði sent í fóstur á þeirri stundu sem um ræddi. Afstaða kæranda hafi í fyrsta lagi byggst á því að farið hafi verið í aðgerðir án þess að skipuðum talsmanni barnsins hafi verið veitt tækifæri til að vera viðstödd þegar ákvörðun um fóstur gegn vilja foreldis var framkvæmd. Í öðru lagi byggist afstaða kæranda á því að hún hafði krafist þess að framkvæmd yrði frestað þar til svör sveitarfélagsins myndu liggja fyrir um spurningar kæranda um hvað myndi gerast ef fósturráðstöfun þjónaði ekki hagsmunum barnsins. Kærandi kveðst hafa gert hljóðupptöku af atburðum þeim sem áttu sér stað X og að hún geti lagt hana fram í málinu sé þess óskað. Í upptökunni komi ítrekað fram beiðni hennar um að talsmaður fái tækifæri til að vera viðstaddur og að framkvæmdinni verði frestað um einn dag til að svo megi verða. Á þetta hafi ekki verið fallist af hálfu fulltrúa sveitarfélagins þó að ekki hafi verið gefin ástæða fyrir því hvers vegna nauðsynlegt væri að framkvæma ákvörðunina með svo miklum flýti, en barnið hafði þá dvalið í F mánuðum saman.

Með kæru barst lýsing kæranda á atvikum málsins í tímaröð. Kærandi vísar til þeirrar lýsingar og telur að ljóst megi vera af lestri þeirra samantektar að úrræðið, sem þvingað var fram með hinum kærða úrskurði, hafði ekki tilætluð áhrif, enda virtust aðstæður á fósturheimilinu hafa verið ófullnægjandi og barninu gert óheimilt að draga til baka meint munnlegt samþykki um fóstur og fara aftur á fyrri umönnunarstað. Stúlkan dvelji nú á heimili kæranda en gögn málsins sýni að hún geti ekki dvalist þar til lengdar, meðal annars vegna fötlunar hennar, heilsu kæranda og andlegrar heilsu annars barns sem eigi lögheimili hjá kæranda sem þoli ekki álag sem slíku fyrirkomulagi fylgi.

Á því sé byggt að í fyrrgreindum úrskurði barnaverndar B felist gróft brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki hafi verið um nokkurs konar neyð að ræða sem réttlætti beitingu hins íþyngjandi úrræðis. Raunar megi fullyrða að ekkert í gögnum málsins styðji það að grunur um neyð hafi verið til staðar, heldur sýndu málsgögn þvert á móti að stúlkan dafnaði sérstaklega vel meðan á dvöl í F stóð. Þá hefði móðir margoft áréttað sáttavilja sinn að því gefnu að hún yrði upplýst um það hvernig staðið yrði að innleiðingu á þessu úrræði með nákvæmum hætti og upplýst yrði um hvað tæki við ef fósturráðstöfun þjónaði ekki hagsmunum barnsins.

Kærandi telur að í hinum kærða úrskurði felist brot gegn rannsóknarreglu enda liggi fyrir að  B hafi aldrei, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir, rökstutt hvernig hagsmunum stúlkunnar hefði verið betur borgið með fósturráðstöfun heldur en á F þar sem stúlkunni leið vel og hafi náð mestum framförum. Með fyrirspurn Barnaverndarstofu X hafi verið óskað eftir að barnaverndarnefnd B myndi veita upplýsingar um málið, meðal annars um ástæður þess að stúlkunni hafi verið synjað um áframhaldandi vistun í F og hvers vegna nefndin teldi hagsmunum hennar betur borgið í fóstri. Nefndinni var veittur frestur til þess að veita umbeiðnar upplýsingar en þær höfðu ekki verið veittar þegar kæra var lögð fram 24. nóvember 2015, þrátt fyrir ítrekun Barnaverndarstofu. Krafa um efnislegan rökstuðning hafi verið sérstaklega áréttuð af lögmanni kæranda með skriflegu erindi sem lagt hafi verið fram á fundi með barnavernd B þann X. Kærandi vísar til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 41. gr. bvl. hvað þetta varðar. Jafnframt sé vísað til reglu um rétt til skriflegs rökstuðnings, sbr. 20. og 21. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi kveðst hafa óskað eftir afriti af hinum kærða úrskurði við fulltrúa barnaverndar sem hafi lesið hann upp, en við því hafi hann ekki orðið. Þá hafi þurft fjölmargar áskoranir frá lögmanni kæranda til þess að fá afrit af úrskurðinum sem hafi svo borist með boðsendingu 20. nóvember 2015.

Þá telur kærandi að í hinum kærða úrskurði felist jafnframt alvarlegt brot gegn andmælarétti, bæði stúlkunnar og kæranda.  Hafi  talsmanni stúlkunnar ekki verið gert kunnugt um tímasetningu á umræddri aðgerð er stúlkan var tekin úr umsjá F og flutt í fóstur. Þá hafi talsmanni ekki verið gert ljóst að barnaverndarnefnd teldi að samþykki stúlkunnar hefði legið fyrir slíkri vistun, en stúlkan kveðist hafa verið beitt miklum þrýstingi til að heimila flutninginn en muni þó ekki til þess að hafa með afgerandi hætti samþykkt heldur einfaldlega verið ítrekað tjáð af hálfu fulltrúa barnaverndaryfirvalda B að hún hefði ekkert val. Slíkt sé í grófri andstöðu við barnaverndarlög og greinar þær sem fjalli um talsmenn og hlutverk þeirra í lögunum og reglugerð nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnavernd. Skipuðum talsmanni stúlkunnar hafi verið sagt upp störfum með tölvupósti sama dag og stúlkan hafi tilkynnt að hún hefði dregið meint munnlegt samþykki sitt um fóstur til baka, þ.e.a.s. X. Sama dag hafi lögmaður kæranda óskað eftir því að vera upplýst um leið og nýr talsmaður hefði verið skipaður en þeim upplýsingum hefði ekki verið komið á framfæri og því óljóst hvort stúlkan, sem sé í gríðarlega flókinni lögfræðilegri og sálrænni stöðu og glími auk þess við fatlanir og ýmsar aðrar raskanir, hafi fengið talsmann til að gæta réttar síns.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B þann X kemur fram að mál stúlkunnar hafi verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd frá árinu X en málið hafi fyrst komið til kasta nefndarinnar vegna erfiðleika stúlkunnar í skóla og samskiptaerfiðleika hennar og kæranda. Á þessum tíma hefðu verið gerðar fjórtán meðferðaráætlanir þar sem kveðið hafi verið á um hin ýmsu stuðningsúrræði. Þar sem stuðningsúrræði barnaverndarnefndar á heimili stúlkunnar hefðu almennt ekki skilað tilætluðum árangri hafi verið brugðið á það ráð haustið X að koma stúlkunni í styrkt fóstur um tíma. Þá hafi brugðið svo við að mun betur hafi gengið að setja stúlkunni mörk og halda skipulagi, bæði í skóla og annars staðar, og hafi hún verið glaðari og ánægðari en áður.

Haustið X, eftir að stúlkan kom úr styrktu fóstri, hafi verið fenginn stuðningur frá F og hafi stúlkan dvalið þar á kvöldin og stundum um helgar. Hún hafi notið þar stuðnings starfsmanna F, meðal annars varðandi nám og skólasókn. Að ráði sálfræðings F hafi dvalartími hennar þar verið aukinn og afráðið að hún skyldi vistast á F í X mánuði frá X á meðan unnið væri að því að gera þeim mæðgum kleift að flytja saman á ný. Þetta hafi verið samþykkt af öllum aðilum. Í samningi sem gerður hafi verið við F hafi verið tekið fram að eitt af meginverkefnum starfsmanna heimilisins væri að vinna stúlkuna aftur heim til kæranda. Það hafi því hvorki verið ætlun nefndarinnar né þeirra mæðgna að stúlkan dveldi á F til 18 ára aldurs. Mæðgunum hafi síðan líkað dvölin á F svo vel að hvorug þeirra hafi fengist til að samþykkja að stúlkan færi þaðan, hvorki á heimili kæranda né á fósturheimili. Barnaverndarnefnd hafi gert ítrekaðar tilraunir til að binda enda á dvöl stúlkunnar á heimilinu, en án árangurs. Kærandi hafi ekki treyst sér til að fá stúlkuna heim og hafi afsagt með öllu að hún færi á fósturheimili. Kærandi hafi margsinnis lýst því yfir að ekkert annað kæmi til greina fyrir dóttur hennar en áframhaldandi dvöl í F til 18 ára aldurs.

Fram kemur í greinargerðinni að F sé búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda þar sem stöðugt sé skipt um íbúa, húsnæði og jafnvel starfsmenn. Frá því að dvöl stúlkunnar hófst í F hafi hún búið á þremur stöðum á vegum F og hafi barnaverndarnefndin ekki getað fallist á að það þjónaði hagsmunum stúlkunnar best að hún væri þar í varanlegri búsetu. Barnaverndarnefndin hafi vistað þar börn með alvarlegri vandamál af því tagi að ekki hafi verið gerlegt að hafa þau í „venjulegu“ fóstri. Stúlkan sé greind með ódæmigerða einhverfu og samkvæmt mati Tryggingarstofununar sé fötlun hennar flokkuð í fjórða flokk. Að mati nefndarinnar sé sú fötlun og þau vandamál sem hún eigi við að stríða ekki þess eðlis að réttlætt geti vistun á heimili þar sem eingöngu búi einstaklingar með mun alvarlegri vanda. Það hafi því verið álit barnaverndarnefndarinnar að það væri ekki hagsmunum stúlkunnar fyrir bestu að búa við þær aðstæður til langframa, heldur væri henni fyrir bestu að búa annað hvort á heimili kæranda með öflugum stuðningi eða á fósturheimili þar sem aðstæður væru sem líkastar aðstæðum jafnaldra hennar, en stúlkan hafi verið í styrktu fóstri með góðum árangri. Barnaverndarnefnd hafi fundið fósturheimili á G sem talið hafi verið að hentaði stúlkunni. Margsinnis hafi verið áformað að hún færi af vistheimilinu en jafnoft hafi för hennar verið frestað vegna andstöðu og mótmæla kæranda. Hafi þá verið samið við F um viðbótardvalartíma á meðan reynt hafi verið til þrautar að ná samkomulagi í málinu. Neikvæð afstaða kæranda til fósturs hefði þannig legið fyrir í marga mánuði áður en til aðgerða barnaverndarnefndar kom, eða frá því að fyrst hafi verið minnst á að binda ætti enda á dvöl stúlkunnar í F. Stúlkan hafi svo samþykkt að fara á fósturheimilið, en að ráði starfsmanna F hafi verið afráðið að leggja ekki hart að henni með að undirrita samþykki á þeim tíma. Kæranda og lögmanni hennar hafi verið tilkynnt að ef ekki lægi fyrir samþykki þeirra fyrir X yrði kveðinn upp úrskurður í samræmi við bókun barnaverndarnefndar frá X. Jafnframt hefði starfsmönnum F verið gerð grein fyrir því að dvöl stúlkunnar myndi ljúka X og hafi verið gert ráð fyrir öðrum aðila á F í stað stúlkunnar. Með hliðsjón af framvindu málsins og árangurslausum tilraunum um samþykki kæranda fyrir því að stúlkan flytti úr F, annað hvort á heimili kæranda eða á fósturheimili eins og vilji barnaverndarnefndar hafi staðið til, hafi nefndinni verið nauðugur einn kostur að kveða upp úrskurð samkvæmt 31. gr. bvl. um að stúlkan skyldi færð af vistheimilinu og á fósturheimili. Fullyrðing um að ákvörðun barnaverndarnefndar um að binda enda á dvöl stúlkunnar í F hafi verið framkvæmd með miklum flýti eigi ekki við rök að styðjast því nokkrir mánuðir hafi liðið frá því að sú ákvörðun lá fyrir, en afdráttarlaus andstaða kæranda hafi komið í veg fyrir að framkvæmdin næði fram að ganga fyrr. Barnaverndarnefnd hafi reynt að vinna málið í sátt og hafi mikið kapp verið lagt á að finna lausn svo að ekki þyrfti að beita þvingunarúrræðum. Tekið hafi verið tillit til allra athugasemda kæranda eins og framast hafi verið unnt og hafi meðferðaráætlunum verið breytt með hliðsjón af athugasemdum hennar. Barnaverndarnefnd hafi því verið í stöðugum samskiptum við kæranda og lögmann hennar svo og stúlkuna sjálfa og starfsmenn F til að freista þess að leysa málin án þvingunarráðstafana.

Eftir að úrskurður samkvæmt 31. gr. bvl. var kveðinn upp hafi verið áform um að leggja málið fyrir barnaverndarnefnd með tillögu um áframhaldandi fóstur, en í ljósi viðbragða kæranda við fósturráðstöfuninni og þess að stúlkan hafi afturkallað samþykki sitt hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að úrskurður samkvæmt 27. gr. bvl. um vistun utan heimilis myndi ekki þjóna tilgangi sínum eða skila þeim árangri sem stefnt hafi verið að, sbr. bókun barnaverndarnefndar frá 8. desember 2015. Niðurstaða nefndarinnar hafi því verið sú að stúlkan byggi á heimili kæranda með öflugum stuðningi barnaverndarnefndar til 18 ára aldurs, en jafnframt tekið fram að samþykki nefndarinnar til fósturs lægi fyrir ef kæranda snérist hugur varðandi fósturráðstöfun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun starfsmanna barnaverndanefndar B sem tekin var X á grundvelli 31. gr. bvl. í umboði nefndarinar um að stúlkan D skyldi tekin af F og vistuð á vegum barnaverndarnefndar B á fósturheimili í tvær vikur.

Í kæru er vísað til kæruheimildar í 6. gr. barnaverndarlaga. Þá er vísað til þess að ólögmætt hafi verið að beita heimild 31. gr. gegn kæranda.

Í 31. gr. bvl. er fjallað um neyðarráðstafanir barnaverndarnefnda. Ef vinda þarf bráðan bug á ráðstöfun sem heyrir undir barnaverndarnefnd getur formaður hennar eða starfsmaður hennar í umboði hans, án undangenginnar málsmeðferðar samkvæmt VIII. kafla laganna, framkvæmt hana, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal barnaverndarnefnd án tafar taka málið til meðferðar og innan 14 daga kveða upp úrskurð eða taka ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi samkvæmt 28. eða 29. gr. Að öðrum kosti fellur ákvörðun samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins úr gildi.

Samkvæmt framangreindu er ákvörðun um framkvæmd samkvæmt 1. mgr. 31. gr. bvl. ekki úrræði sem gert er ráð fyrir að úrskurðað sé um heldur er um að ræða heimild formanns eða starfsmanns barnaverndarnefndar í hans umboði til að beita neyðarúrræðum, án samþykkis forráðamanna, þegar aðstæður barnsins eru með þeim hætti að ekki er hægt að bíða eftir því að barnaverndarnefnd komi saman til að úrskurða.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er hlutverk kærunefndar barnaverndarmála, nú úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015, afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til nefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum. Í lögunum er ekki kveðið sérstaklega á um það að framkvæmd á neyðarráðstöfun samkvæmt 1. mgr. 31. gr. bvl. sé kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í þessu sambandi verður jafnframt að horfa til þess að skýrt er kveðið á um það í 4. mgr. 33. gr. bvl., sbr. 18. gr. laga nr. 80/2011 að val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn, sem vistað er utan heimilis samkvæmt 25. og 27.-29. gr. bvl., er ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015. Meginástæður fyrir því koma fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til breytinga á barnaverndarlögum sem varð að lögum nr. 80/2011. Þar segir að ljóst sé að val barnaverndarnefndar á þeim sem falið er að annast barn, sem vistað er utan heimilis, sé mikilvægt og vandasamt verkefni. Vísað er jafnframt til þess að óvissu um kæruheimild þurfi að eyða og með lagabreytingunni væri því lagt til að slíkar ákvarðanir yrðu ekki kæranlegar. Lagt væri til það nýmæli að taka af skarið og mæla fyrir um að val barnaverndarnefndar á þeim sem tæki að sér að annast barn, sem vistað væri utan heimilis, væri ekki kæranleg ákvörðun. Það hafi í för með sér að hvorki foreldrar sem barn hafi búið hjá né þeir sem óski eftir að annast barn geti skotið ákvörðun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála eða annars stjórnvalds. Þetta eigi jafnt við þegar um er að ræða tímabundnar og varanlegar ráðstafanir. Ákvörðun um hver verði fyrir valinu byggist á heildstæðu mati á hagsmunum og þörfum barnsins að teknu tilliti til stöðu barnaverndarmálsins og eðlis ráðstöfunarinnar. Þá hafi það óhjákvæmilega allnokkur áhrif á barn að vistast utan heimilis. Öll óvissa um réttarstöðu barns á þessu viðkvæma tímamarki sé erfið og þess vegna nauðsynlegt að reglur um aðild og kæruheimildir séu skýrar. Þá sé þess loks að geta að þeir sem séu ósáttir við ákvörðun barnaverndarnefndar geti kvartað til Barnaverndarstofu sem geti metið hvort barnaverndarnefnd hafi gætt lögmætra sjónarmiða og komið á framfæri ábendingum ef þurfa þykir, þótt ekki sé unnt að fella ákvörðun úr gildi.

Þá telur úrskurðarnefndin að líta verði til þess að í III. kafla reglugerðar um kærunefnd barnaverndarmála nr. 1007/2013 eru taldar upp þær ákvarðanir og úrskurðir barnaverndarnefnda sem eru kæranlegir, en þar á meðal eru ekki taldar upp ákvarðanir sem teknar eru á grundvalli 31. gr. bvl.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur beint kvörtun til Barnaverndarstofu. Í tilefni af kvörtun kæranda óskaði Barnaverndarstofa, með bréfi 17. september 2015 til barnaverndarnefndar B, eftir upplýsingum og gögnum í máli stúlkunnar. Barnaverndarstofa ítrekaði beiðni um upplýsingar 15. og 30. október 2015. Þá sendi stofnunin barnaverndarnefnd B bréf 23. nóvember 2015 þar sem óskað var upplýsinga um ástæður þess að nefndin taldi það nauðsynlegt að beita 31. gr. bvl. í stað þess að úrskurða um vistunina samkvæmt 27. bvl. Þá óskaði Barnaverndarstofa eftir upplýsingum um það hvernig ákvörðun nefndarinnar um að beita 31. gr. bvl. var framkvæmd. Eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt bvl. er hjá Barnaverndarstofu á grundvelli þess sem fram kemur í 3. mgr. 7. gr. og 8. gr. bvl. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. bvl. skulu barnaverndarnefndir hafa tiltæk úrræði svo sem með rekstri vistheimila, sambýla eða á annan hátt sem nánar er kveðið á um í lagagreininni. Barnaverndarstofa skal samkvæmt 3. mgr. hafa yfirlit yfir þörf barna á heimilum og öðrum úrræðum samkvæmt 1. mgr. um land allt, hvetja sveitarfélög til hafa tiltæk nauðsynleg úrræði og liðsinna þeim í því efni eftir því sem þörf er á. Að mati úrskurðarnefndinnar snýst mál þetta um að finna barninu viðeigandi úrræði sem nauðsynleg eru til að þjóna hagsmunum þess og þörfum sem best.

Að öllu þessu virtu verður að telja að sú ákvörðun, sem tekin var af hálfu starfsmanna barnaverndarnefndar B á grundvelli 31. gr. bvl., sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt því ber að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefndinni.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A vegna ákvörðunar starfsmanna barnaverndarnefndar B í umboði nefndarinnar um að D skyldi tekin af F og vistuð á vegum barnaverndarnefndar B á fósturheimili í tvær vikur, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira