Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

794/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Kærð var töf mennta- og menningarmálaráðuneytisins á afgreiðslu beiðni kæranda um rökstuðning og gögn vegna ráðningar í starf þjóðskjalavarðar. Kærandi var meðal umsækjenda um embættið og því aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga. Þar sem um aðgang kæranda að upplýsingum um málið færi eftir stjórnsýslulögum, og félli þar af leiðandi utan gildissviðs upplýsingalaga, var kærunni vísað frá.

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 794/2019 í máli ÚNU 19050020.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. maí 2019, kærði A töf mennta- og menningarmálaráðuneytisins á afgreiðslu beiðni kæranda um rökstuðning og gögn vegna ráðningar í starf þjóðskjalavarðar.

Með erindi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 14. mars 2019, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ráðningu í starf þjóðskjalavarðar. Jafnframt var óskað eftir afritum gagna hjá ráðuneytinu um ráðningarferlið auk annarra tiltekinna upplýsinga um ráðninguna. Kærandi ítrekaði erindið nokkrum sinnum.

Niðurstaða

Fyrir liggur í máli þessu að kærandi var meðal umsækjenda um stöðu embættis þjóðskjalavarðar. Er kærandi því aðili stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýslulaga. Um aðgang hans að upplýsingum sem tengjast því stjórnsýslumáli fer þar af leiðandi skv. 15.-19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af því leiðir enn fremur að þegar um gagnabeiðni fer samkvæmt stjórnsýslulögum verður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, ekki kærður til úrskurðarnefndar. Kæra þessi fellur því utan gildissviðs upplýsingalaga og er óhjákvæmilegt að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A vegna tafa mennta- og menningarmálaráðuneytisins á afgreiðslu beiðni um gögn vegna umsóknar um starf þjóðskjalavarðar er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira