Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 49/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 49/2017

Föstudaginn 24. febrúar 2017

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 31. janúar 2017 kærði A hrl., f.h. Barnaverndarnefndar B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndarstofu 23. desember 2016 þar sem synjað var umsókn um styrkt fósturheimili fyrir C. Gerð er krafa um að ákvörðuninni verði hrundið og breytt á þá leið að fallist verði á að C verði vistaður á styrktu fósturheimili til 18 ára aldurs.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvik eru þau að með ákvörðun 23. desember 2016 synjaði Barnaverndarstofa beiðni Barnaverndarnefndar B um styrkt fóstur fyrir C. Í ákvörðuninni kom fram að samkvæmt 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) væri styrkt fóstur tímabundin ráðstöfun sem kæmi í stað vistunar á stofnun samkvæmt 79. gr. bvl. Væri gert ráð fyrir að barn gæti snúið aftur til foreldra í lok hins styrkta fósturs, sbr. skilgreiningu á styrktu fóstri í 3. tölulið 3. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804/2004. Ástand drengsins væri ekki talið tímabundið þannig að styrkt fóstur ætti við. Heildstætt mat hefði verið lagt á stöðu drengsins og samkvæmt því væri greind hans á mörkum tornæmis og þroskahömlunar auk þess sem hann hefði hlotið greiningu um ADHD. Vandi drengsins væri margþættur og samsettur, líf hans hefði einkennst af miklum óstöðugleika og hann ætti langa sögu um hegðunarvanda. Að mati Barnaverndarstofu væri fullreynt að hægt væri að aðstoða drenginn með sérstakri umönnun og þjálfun. Hefði drengurinn ítrekað verið vistaður tímabundið utan heimilis, bæði í fóstri og styrktu fóstri, en nú hefði drengurinn þörf fyrir varanlegt visturnarúrræði.

Þann 3. febrúar 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra Barnaverndarnefndar B vegna málsins. Kærð var ákvörðun Barnaverndarstofu um að synja kæranda um styrkt fósturheimili fyrir drenginn.

Kærandi kveðst ósammála mati Barnaverndarstofu og telur að hin kærða ákvörðun sé efnislega röng og andstæð hagsmunum drengsins. Frá árinu X hafi drengurinn dvalið á þremur fósturheimilum, þar af tvívegis í styrktu fóstri. Kærandi tekur undir sjónarmið Barnaverndarstofu um að finna þurfi framtíðarúrræði fyrir drenginn en telur að slíkt úrræði eigi að vera á grundvelli barnaverndarlaga fremur en laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 eða laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Þó að erfiðlega hafi gengið á fósturheimilum, þar sem umönnunarþörf drengsins sé mikil, telur kærandi að vistun utan heimilis hafi ekki verið fullreynd en það úrræði henti drengnum best, fái hann öflugan stuðning. Það sé skoðun kæranda að hegðunarvanda og hömluleysi drengsins megi fremur rekja til erfiðra uppeldisaðstæðna en fötlunar hans. Loks vísar kærandi til þess að drengurinn sé X ára gamall og vilji hans standi til vistunar á fósturheimili.

Samkvæmt móttökustimpli kæranda á ákvörðun Barnaverndarstofu veitti hann ákvörðuninni viðtöku 28. desember 2016.

Með tölvupósti til lögmanns kæranda 8. febrúar 2017 óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvers vegna kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þau svör bárust frá lögmanninum að samkvæmt upplýsingum kæranda sjálfs hefði bréf Barnaverndarstofu ekki borist kæranda fyrr en 3. janúar 2017.

II. Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Ákvörðun í máli þessu fellur undir þessi lagaákvæði. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Kæran barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 3. febrúar 2017. Kærandi tók á móti ákvörðun Barnaverndarstofu 28. desember 2016 svo sem móttökustimpill kæranda á ákvörðuninni ber með sér. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag og honum lauk 25. janúar 2017. Þegar úrskurðarnefndinni barst kæran 3. febrúar 2017 voru liðnir níu dagar umfram kærufrest.

Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

ÚRSKURÐARORÐ

Kæru Barnaverndarnefndar B á ákvörðun Barnaverndarstofu 23. desember 2016, þar sem synjað var umsókn um styrkt fósturheimili fyrir C, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lára Sverrisdóttir

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira