Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Stjórn Villikatta kærir tölvupóst Matvælastofnunar um að eyrnaklippingar á geldum villiköttum séu óheimilar skv. lögum

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur þann 8. nóvember 2017 kveðið upp svohljóðandi:

Ú R S K U R Ð

Stjórnsýslukæra

Með stjórnsýslukæru dags. 18. júlí 2017 kærði stjórn Villikatta kt. 710314-1790, hér eftir nefnd kærandi, tölvupóst Matvælastofnunar, dags. 7. júlí 2017, um að eyrnaklippingar á geldum villiköttum séu óheimilar samkvæmt lögum.

Kröfugerð

Kærandi gerir ekki skýra kröfu, en af efni kæru af dæma verður að telja að kærandi krefjist þess að ráðuneytið staðfesti að kæranda sé heimilt að merkja gelda villiketti með því að klippa af eyra þeirra, svo unnt sé að greina gelda villiketti auðveldlega.

Málsatvik og málsmeðferð

Með hliðsjón af málsgögnum voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Dýralæknir hjá Matvælastofnun sendi sjálfstætt starfandi dýralæknum tölvupóst þann 7. júlí 2017, þar sem hann kveðst nefna að gefnu tilefni að bannað sé samkvæmt lögum um velferð dýra að fjarlægja líkamsparta, annað en að gelda eða taka úr sambandi eða önnur atriði af heilsufarslegum ástæðum. Hann ítrekar að eyrnaklipping feli í sér að fjarlægja líkamsparta og sé því brot á lögunum og að slíkar aðgerðir muni því verða að hljóta eftirfylgni sem lögin geri ráð fyrir. Þá veiti lög/reglugerðir enga undanþáguheimild frá því að örmerkja og skrá ketti.

Svo virðist sem dýralæknar hafi í kjölfarið synjað kæranda um að eyrnamerkja ketti, með vísan í framangreindan tölvupóst.

Kærandi virðist hafa ofangreindan tölvupóst með höndum og þann 18. júlí 2017 sendi hann kæru til ráðuneytisins vegna hans.

Um kærufrest og kæruheimild

Mál þetta varðar tölvupóst sem starfsmaður Matvælastofnunar sendi sjálfstætt starfandi dýralæknum, þar sem hann ítrekaði m.a. við dýralæknana að eyrnaklipping væri brot á lögum um velferð dýra nr. 55/2013.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir: Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju“. Það telst stjórnvaldsákvörðun þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds síns. Í stjórnvaldsákvörðunum er með bindandi hætti kveðið á um rétt og skyldur aðila í fyrirliggjandi máli. Því er gerður greinarmunur á stjórnvaldsákvörðunum og athöfnum og öðrum ákvörðunum stjórnvalda.

Í þessu tilfelli sendi Matvælastofnun tölvupóst til sjálfstætt starfandi dýralækna þar sem minnt var á gildandi lagaákvæði og bent á að brotum á þeim yrði fylgt eftir.

Ekki var verið að kveða einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Ekki var um neina ákvörðun að ræða, heldur var stofnunin að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt 4. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra. Verður umræddur tölvupóstur því ekki talinn stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og hann þar af leiðandi ekki kæranlegur til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ágreiningur er milli kæranda og Matvælastofnunar um túlkun lagareglna, þá sér í lagi um það hvort reglugerð um velferð gæludýra nr. 80/2016 geti átt um ketti sem enginn umráðamaður telst að og hvort það að marka þá ketti (klippa af eyrum) geti talist viðurkennd merkingaraðferð í samræmi við þau lög og reglugerðir sem Matvælastofnun hefur eftirlit með að sé framfylgt.

Hvað lagatúlkun varðar, telur ráðuneytið að reglugerð nr. 80/2016 um velferð gæludýra eigi við um alla ketti á Íslandi, enda villikettir hvergi skilgreindir sérstaklega í lögum. Sérstaklega var komið til móts við dýr án umráðamanns í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra, þar sem kveðið er á um skyldu sveitarfélags í slíkum tilfellum.

Ráðuneytið telur rétt að fagráð um velferð dýra fjalli um hvort eyrnaklippingar á villiköttum séu heimilar, þar sem slík ákvörðun telst stefnumótandi, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um velferð dýra. Fer ráðuneytið þess því á leit að Matvælastofnun leiti álits fagráðsins varðandi eyrnaklippingar.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Með vísan til ofangreinds telst tölvupóstur starfsmanns Matvælastofnunar til sjálfstætt starfandi dýralækna þar sem m.a. er bent á að eyrnamerkingar séu óheimilar samkvæmt lögum um velferð dýra nr. 55/2013, ekki vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Af því leiðir að hann er ekki kæranlegur til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga. Skal kæru því vísað frá ráðuneytinu.

Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til Matvælastofnunar að leita álits fagráðs um velferð dýra, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um velferð dýra, um hvort eyrnaklippingar á villiköttum séu heimilar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stjórnsýslukæru Villikatta, kt. 710314-1790, er vísað frá.

Ráðuneytið beinir þeim tilmælum til Matvælastofnunar að leita álits fagráðs um velferð dýra um hvort eyrnaklippingar á villiköttum séu heimilar.

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Ólafur Friðriksson

Birgitta Kristjánsdóttir

Birgitta Kristjánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum