Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 37/2015

Umgengni

Úrskurðarnefnd velferðarmála

 

Mál nr. 37/2015
Þriðjudaginn 29. mars 2016

A

gegn

barnaverndarnefnd B


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi 21. desember 2015 kærði C hdl., f.h. A, til kærunefndar barnaverndarmála úrskurð barnaverndarnefndar B frá X, vegna umgengni kæranda við börn hennar, D, E, og F.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi flutti til Íslands frá G árið X með drenginn D sem er fæddur árið X. Hún fluttist til H og giftist íslenskum manni en þau skildu skömmu síðar. Árið X giftist kærandi J og eignuðust þau tvö börn, stúlkuna E, fædda árið X, og F, fæddan árið X. Hjónin búa ekki saman og samkvæmt gögnum málsins hafa þau óskað eftir skilnaði.

Drengurinn D er vistaður tímabundið utan heimilis hjá K og L til X samkvæmt dómsúrskurði X. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi X sama ár í máli nr. 520/2015. Stúlkan E og drengurinn F eru í umsjá J, föður þeirra.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi í X blóðtappa í framheila. Fram kemur að vegna þessa sé hún með lömun í vinstri hendi og fæti.

Barnaverndarnefnd B hefur þrívegis tekið mál barna kæranda fyrir eftir að vistun drengsins D hófst.

Þann X var úrskurðað að umgengni kæranda við D skyldi vera tvær klukkustundir í senn aðra hvora viku. Úrskurðurinn var kærður til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann X. Þann X úrskurðaði barnaverndarnefnd B að öðrum en fósturforeldrum væri óheimilt að fara með D úr landi á meðan hann væri vistaður utan heimilis. Úrskurðurinn var kærður til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann X.

Þann X var mál barnanna þriggja tekið til meðferðar á fundi barnaverndarnefndar B þar sem niðurstaða forsjárhæfismats kæranda lá fyrir. Barnaverndarnefnd B kvað upp svohljóðandi úrskurð vegna umgengni auk þess sem bent var á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

 „Barnaverndarnefnd ákveður að umgengni móður, A við D skuli fara fram í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar aðra hverja viku í 1 klst. í senn. Umgengni skal vera undir eftirliti.

Umgengni móður við þau E og F skal vera einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn. Umgengni skal vera undir eftirliti.“

Auk þess var úrskurðað um kyrrsetningu barnanna í allt að tvo mánuði frá og með X, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Fram kemur í úrskurðinum að barnaverndarnefnd B telji nauðsynlegt að vista börnin utan heimilis kæranda til 18 ára aldurs og hafi falið lögmanni velferðarsviðs að höfða mál þar sem þess verði krafist að kærandi verði svipt forsjá barnanna á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. bvl.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður barnaverndarnefndar B frá X vegna umgengni við börn kæranda D, E og F. Kærandi krefst þess að hafa umgengni við drenginn D einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn á heimili kæranda og án eftirlits. Einnig krefst kærandi þess að umgengni við E og F verði tvisvar í viku, tvær klukkustundir í senn og án eftirlits.

Fram kemur að kærandi hafi upphaflega komið frá G til Íslands árið X.  Hún hafi fengið blóðtappa í framheila í X á meðan hún dvaldi í G sem hafi valdið lömun í vinstri hendi og fæti. Kærandi hafnar því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði um skapbresti, tímaskyn og persónuleikabreytingar, þótt ljóst sé að kærandi hafi skaðast að einhverju leyti. Einnig hafnar kærandi því að tal hennar varðandi börnin sé þráhyggjukennt. Kærandi telur að þær staðhæfingar séu byggðar á frásögn eiginmanns hennar og tengdaforeldra, en fram hefur komið að kærandi og eiginmaður hennar standi í hjónaskilnaði og forræðisdeilu. Kærandi telur að af þeim sökum sé ljóst að þær upplýsingar sem fram komi frá eiginmanni hennar séu ómarktækar, enda hafi hann augljósra hagsmuna að gæta.

Í hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B sé vísað til þess að geðtengslum kæranda við börn hennar sé verulega ábótavant. Kærandi geti fallist á að tengsl hennar við börnin séu ekki eins góð og þau gætu verið. Af þeirri ástæðu telji kærandi einkar mikilvægt að hún fái að halda reglulegri umgengni við börn sín þrjú í því skyni að styrkja tengslin þeirra á milli. Kærandi tekur fram að hún sé vinna í sjálfri sér í því skyni að vera betur í stakk búin til að annast börn sín og telur kærandi því alls ekki tímabært að takmarka umgengni svo mikið sem úrskurðurinn geri ráð fyrir heldur þurfi að gefa kæranda möguleika á að sanna sig enn frekar.

Kærandi vísar til þess að stjórnvaldsákvörðun verði að standast meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl. nr. 80/2002 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun verði að vera til þess fallin að ná markmiðinu sem að er stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Það sé mikilvægt að kærandi hafi náin og góð samskipti við börn sín með rýmri umgengni en fyrirliggjandi úrskurður kveði á um á meðan kærandi sé að styrkja tengsl sín við börnin, sbr. 74. gr. bvl. Að mati kæranda er úrskurður barnaverndarnefndar ekki til þess fallinn að stuðla að þessu markmiði. Umgengni sem annars vegar sé tvisvar sinnum í mánuði í klukkustund í senn og hins vegar vikulega í tvær klukkustundir í senn við yngri börnin sé ekki til þess fallin að hjálpa kæranda að bæta samskipti sín og styrkja tengsl við börnin.

Kærandi telur brýnt að halda reglulegri umgengni milli hennar og barnanna á meðan úr því er skorið hvort kærandi fái forsjá yfir börnum sínum. Kærandi telur sig hæfa til þess að halda forsjá barnanna og telur að hún geti séð um börnin, fái hún viðeigandi stuðning, svo sem með meiri viðveru liðveitanda. Kærandi telur að þær skýrslur sem til staðar séu í málinu, bæði frá matsmanni barnaverndarnefndar B og frá læknum hvað varðar heilaskaða þann sem hún varð fyrir, valdi því ekki að hana eigi að svipta forsjá. Telur kærandi forsjárhæfni sína og jafnframt heilaskaða ekki jafn slæma og slegið hafi verið fram í umræddum skýrslum.

Í úrskurði barnaverndarnefndar sé vísað til þess að stuðla þurfi að samvistum barnanna við kæranda og að umgengni skuli fara fram af virðingu fyrir getu kæranda. Samvistirnar megi ekki gera meiri kröfur til kæranda en hún geti mætt og að þær megi ekki vara of lengi svo að kærandi og börn hennar geti notið þeirra. Þessu sé kærandi sammála að einhverju marki en telji þó niðurstöðu úrskurðarins alfarið á skjön við þessi sjónarmið. Kærandi telji að ekki sé gætt virðingar við hana með því að takmarka umgengni svo mjög, heldur muni það þvert á móti leiða til þess að þau tengsl, sem til staðar séu milli kæranda og barna hennar, verði rofin enn frekar.

Kærandi kveðst treysta sér vel til að hafa börnin meira en hinn kærði úrskurður geri ráð fyrir og nefnir sérstaklega drenginn D þar sem hann þarfnist ekki mikillar líkamlegrar umönnunar sökum aldurs og því ótækt að bera slíku við sem rök fyrir svo lítilli umgengni eins og raun ber vitni.

Kærandi telur að mikilvægt sé fyrir hana að umgengni fari öllum stundum fram á heimili hennar en ekki í húsnæði á vegum barnaverndar. Slíkt umhverfi sé ekki til þess að hvetja til tengslamyndunar milli kæranda og barna hennar og því eðlilegra að mati kæranda að börnin komi heim til kæranda á heimili þeirra og njóti þar umgengni við hana.

III.  Sjónarmið barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar B dags. X er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Nefndin byggir á því að sú umgengni, sem ákveðin var á fundi barnaverndarnefndar B hafi verið börnum kæranda fyrir bestu, sem sé að umgengni þeirra við kæranda sé ánægjuleg upplifun. Ákvörðunin byggi m.a. á tilmælum sálfræðings, sem hafi metið forsjárhæfni kæranda, og skýrslum frá eftirlitsaðilum með umgengni kæranda við drenginn D sem og vilja D.

Áður en niðurstaða forsjármatsins lá fyrir hafi kærandi sótt dóttur sína á leikskóla á hverjum degi þrátt fyrir tilmæli um að gera það ekki. Í fyrstu hafi hún sótt barnið upp úr hádegi en í X hafi náðst samkomulag við hana um að sækja hana síðar þar sem áhyggjur voru af þroskaframvindu stúlkunnar. Faðir hafi verið látinn vita þegar kærandi hafi sótt stúlkuna. Hann hafi þá farið samstundis úr vinnu og sótt barnið heim til kæranda. Kærandi hafi ekki sótt yngsta drenginn þar sem hún hafi ekki getað haldið á honum sökum fötlunar og starfsfólk leikskólans hafi ekki viljað aðstoða hana. Kærandi ferðist með ferðaþjónustu fatlaðs fólks í bifreið sem hafi ekki yfir að ráða nauðsynlegum öryggisbúnaði fyrir börn.

Að mati barnaverndarnefndar B hafi niðurstaða forsjárhæfnismatsins verið það afdráttarlaus, varðandi þá hættu sem börnunum gæti beinlínis verið búin með því að vera ein í umsjá kæranda, að ákveðið hafi verið að börnin yrðu kyrrsett á heimili föður svo að hægt væri að stjórna því hvenær kærandi hefði umgengni við þau. Faðir hafi fyrir þann tíma ítrekað reynt að semja við kæranda um umgengni aðra hvora helgi. Ekki hafi þurft að grípa til neyðarvistunar þar sem kærandi hafi samþykkt að sækja ekki börnin á leikskóla fram að fundi barnaverndarnefndar B þann X, nema þá daga sem liðveitandi hennar fylgdi henni. Á fundinum hafi nefndin ákveðið að kyrrsetja börnin á grundvelli a-liðar 27. gr. bvl. til tveggja mánaða og að höfða skyldi mál á hendur kæranda þar sem þess yrði krafist að hún yrði svipt forsjá barnanna þriggja. Þá hafi verið ákveðið að umgengni hennar við börnin skyldi vera undir eftirliti, aðra hvora viku við D en einu sinni í viku við þau E og F.

Umgengni kæranda við D sé ein klukkustund hálfsmánaðarlega en hafi áður verið tvær. Þessu hafi verið breytt þar sem umgengni hafi verið íþyngjandi fyrir drenginn og ekki virst honum til bóta. Eftirlit með umgengni hafi leitt í ljós að eftir um klukkustund hafi úthald, bæði drengsins og kæranda, verið búið og að tímalengd hverrar umgengni hefði verið drengnum erfið. Drengurinn verði mjög órólegur eftir klukkustund og líti oft út um glugga til að kanna hvort fósturforeldrar hans séu ekki að koma. Líkamleg snerting kæranda og drengsins hafi verið af skornum skammti og önnur samskipti ekki mikil. Til þess að tryggja að sú umgengni, sem fari fram séu gæðastundir, hafi verið talin þörf á að stytta hana.

Umgengni kæranda við þau E og F hafi verið ákveðin með hliðsjón af því sem fram hafi komið í forsjárhæfnismatinu:

„Stuðla þarf að samvistum hennar og barnanna, sem fari fram af virðingu við hana sem þá alvarlega fötluðu konu sem hún er og taki tillit til þess að börnin eru glaðleg og kraftmikil. Samvistir mega alls ekki gera meiri kröfur til hennar en hún getur mætt og þær þurfa að standa nægilega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið. Það væri beinlínis vanvirðing við hana ef reynt væri að gera til hennar kröfur um stærra hlutverk í uppeldi þeirra.“

Með hliðsjón af þessu hafi umgengni verið ákveðin einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn. Umgengnin fari fram á heimili kæranda með aðstoð liðveitanda frá þjónustudeild fatlaðra.

IV. Sjónarmið barna

Í  skýrslu talsmanns D frá X kemur fram að D vilji ekki búa hjá kæranda og sjái ekki framtíð sína með henni nema kannski bara til að fara í heimsókn til hennar og gista ekki. Í forsjárhæfnismati kæranda kemur fram að drengurinn hafi búið við mikla vanrækslu og að hann hafi endurtekið sagt frá því að kærandi hefði beitt hann ofbeldi. E og F hafi sökum ungs aldurs ekki tjáð sig um samskipti sín við kæranda. Í forsjárhæfnismati kemur fram að geðtengsl barnanna við kæranda séu ekki sterk.

V.  Niðurstaða

Drengurinn D er fæddur árið X og er í vistun hjá fósturforeldum sínum, K og L til X samkvæmt dómsúrskurði. Stúlkan E og drengurinn F búa hjá J föður þeirra. E er fædd árið X og F árið X.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar B frá X var ákveðið að drengurinn D hefði umgengni við kæranda í húsnæði á vegum barnaverndar aðra hvora viku í eina klukkustund í senn undir eftirliti. Umgengni kæranda við stúlkuna E og drenginn F var ákveðin einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn undir eftirliti.

Kærandi krefst þess að hafa umgengni við drenginn D einu sinni í viku, í tvær klukkustundir í senn á heimili kæranda og án eftirlits. Einnig krefst kærandi þess að umgengni við E og F verði tvisvar í viku, tvær klukkustundir í senn, án eftirlits. Kærandi telur að hinn kærði úrskurður sé ekki í samræmi við meginreglu barnaverndarlaga um meðalhóf, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Ef sérstök atvik valda því, að mati barnaverndarnefndar, að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að foreldri skuli ekki njóta umgengnisréttar. Samkvæmt meginreglu 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barns best þegar tekin er afstaða til umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. sömu laga skal taka réttmætt tillit til skoðana barns við úrlausn máls.

Hinn kærði úrskurður er byggður á því að umgengni kæranda við börnin verði ekki meiri en hún ráði við og að hún fái aðstoð frá eftirlitsaðila til að sinna þeim meðan á umgengni stendur. Í úrskurðinum er vísað til forsjárhæfnismats kæranda X. Í umræddu mati kemur fram að vegna heilaskaða kæranda sé hún með öllu ófær um að tengjast börnum sínum á náinn hátt og rækta með þeim þau nánu tengsl sem börn þurfi á að halda. Einnig sé hún með öllu ófær um að bera ábyrgð á börnunum og bregðast við þörfum þeirra. Þá sé hafið yfir allan vafa að kæranda skorti ýmsa greindarfarslega þætti sem séu nauðsynleg forsenda til að geta haft innsæi í þarfir barnanna og uppfyllt þær, annast um börnin, veitt þeim nauðsynlega athygli og örvun og tengst þeim á þann hátt sem börnunum sé nauðsynlegt. Skaði sá sem orðinn sé á heilastarfsemi kæranda sé óafturkræfur og engin þjálfun eða kennsla sé til sem geti bætt hann upp. Í matinu kemur fram að kærandi hafi engar forsendur til að bera ein ábyrgð á börnunum eina einustu stund en mikilvægt sé að börnin þekki kæranda. Stuðla þurfi að því að samvistir hennar og barnanna taki mið af fötlun hennar. Fram kemur að samvistir kæranda við börnin megi alls ekki gera meiri kröfur til hennar en hún geti mætt og þurfi að standa nægilega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið.

Kærandi kveðst treysta sér til að sinna meiri umgengni við D en úrskurðað hafi verið. Kærandi mótmælir því sérstaklega að umgengni fari ekki fram á heimili hennar, enda stuðli það að óeðlilegu sambandi hennar og drengsins að hittast ekki við eðlilegar aðstæður á heimilinu. Varðandi umgengni við yngri börnin telur kærandi að ekki eigi að minnka umgengni við þau, enda hafi umgengni við þau gengið prýðilega og án nokkurra uppákoma.

Úrskurðarnefndin telur að fyrir liggi í málinu að kærandi eigi í miklum erfiðleikum með umgengni vegna afleiðinga veikinda sem m.a. ollu lömun í vinstri handlegg og fæti. Í málinu liggur jafnframt fyrir ítarlegt forsjárhæfnismat á kæranda frá X þar sem fram kemur að vegna fötlunar hennar eigi hún ekki að vera ein með börnunum en mikilvægt sé að þau haldi sambandi við hana.

Kærunefndin telur að við úrlausn málsins sé nauðsynlegt að líta til þess sem fram kemur í umræddu forsjárhæfnismati. Í matinu eru þær ályktanir dregnar af gögnum málsins, niðurstöðum segulómskoðunar, taugasálfræðimats og athugunum sálfræðings að vegna heilaskaða sé kærandi með öllu ófær um að tengjast börnum sínum á náinn hátt og rækta með þeim þau nánu tengsl sem börn þurfa á að halda. Einnig sé kærandi með öllu ófær um að bera ábyrgð á börnunum og bregðast við þörfum þeirra.

Með vísan til þessa verður að hafna því að umgengni við börnin fari fram án eftirlits eins og kærandi krefst, en eins og að framan greinir er markmiðið með vistun barnanna utan heimilis að tryggja öryggi þeirra og veita þeim viðeigandi stuðning. Því ber að hafna þeirri kröfu kæranda að umgengni við börnin fari fram án eftirlits.

Í forsjárhæfnismatinu kemur einnig fram að greinilegt sé af gögnum málsins að drengurinn D hafi búið við mikla vanrækslu og hann hafi endurtekið sagt frá því að kærandi hafi beitt hann ofbeldi. Fram kemur í matinu að samverustundir drengsins með kæranda undir eftirliti hafi sýnt mjög vel fram á hve grunnt væri á samskiptum þeirra. Í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála frá X vegna umgengni kæranda við drenginn var staðfest niðurstaða barnaverndarnefndar B þess efnis að umgengni kæranda við drenginn, skyldi vera annan hvorn X í tvo tíma í senn undir eftirliti barnaverndarnefndar í húsnæði á vegum nefndarinnar. Um var að ræða umgengni kæranda á meðan barnið var vistað tímabundið utan heimilis. Með vísan til þess verður að hafna því að umgengni við drenginn fari fram á heimili kæranda en ekki í húsnæði á vegum barnaverndarnefndar B.

Varðandi tímalengd umgengni við börnin verður með vísan til forsjárhæfnismats að styðjast við það mat sálfræðings að umgengni verði ekki meiri en kærandi ráði við í hvert sinn og að hún fái aðstoð eftirlitsaðila til að sinna börnunum meðan á umgengni stendur. Fram kemur í matinu að samvistir við kæranda verði að standa nægjanlega stutt í einu til að börnin geti verið ánægð og verði ekki leið.  

Kærunefndin telur að með því að takmarka umgengni kæranda við börnin, eins og gert var með hinum kærða úrskurði, sé stefnt að því að börnin og kærandi njóti samverustunda með hliðsjón af veikindum kæranda og getu hennar til að sinna börnunum. Markmiðið með því er að tryggja hagsmuni barnanna, öryggi þeirra og þroskamöguleika. Verður að telja með hliðsjón af þessu að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra er ákveðin og að gætt hafi verið meðalhófs við úrlausn málsins. Kærunefndin telur að umgengni kæranda við börnin hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að nauðsynlegt sé að hún verði undir eftirliti eins og kveðið er á um í úrskurðinum. Verður því að hafna kröfum kæranda um lengri umgengni en metin var hæfileg í hinum kærða úrskurði og að hún fari fram án eftirlits á heimili kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með vísan til þess sem að framan greinir að umgengni kæranda við D, E og F hafi verið hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði og að þar hafi einnig verið réttilega mælt fyrir um framkvæmd umgengninnar.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður barnaverndarnefndar B frá X varðandi umgengni A við börn hennar, D, E og F, er staðfestur.

Kári Gunndórsson

Guðfinna Eydal

Sigríður Ingvarsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira