Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 1/2015

Umgengni

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 10. júní 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, og B, gegn barnaverndarnefnd C vegna umgengni við son þeirra, D, nr. 1/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 23. febrúar 2015 skaut E hdl., fyrir hönd A og B, úrskurði barnaverndanefndar C frá 26. janúar 2015, vegna umgengni kærenda við son sinn, D, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni D við foreldra sína fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti, í mars, júní, september og desember. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd C kveður á um að umgengni við foreldra, A og B, við drenginn, D, verði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Umgengnin verði í mars, júní, september og desember.

Kærendur krefjast þess að umgengni þeirra við drenginn, D, verði ákveðin annan hvern mánuð í einn sólarhring í senn og að drengurinn fái að gista yfir nótt á heimili þeirra.

Af hálfu barnaverndarnefndar C er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra drengsins kemur fram í tölvupósti 29. maí 2015 að þau geri ekki athugasemd við þá umgengni sem ákvörðuð var í hinum kærða úrskurði. Hins vegar séu þau mótfallin næturgistingu.

I. Málavextir

Mál D hefur verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd C frá árinu 2013. Samkvæmt foreldrahæfnismati frá 27. janúar 2014 sem E sálfræðingur framkvæmdi er kærandi A með þroskaskerðingu en ekkert liggur fyrir um greindarfarslega stöðu kæranda B. Kærandi A er með heilkenni sem hefur veruleg áhrif á þroska hennar og færni í daglegu lífi. D er með sama heilkenni og móðir hans, eins og fram kemur í læknisvottorði frá F 3. mars 2014, auk þess sem hreyfifærni hans hefur verið slök og þarf hann því á mikilli umönnun og örvun að halda.

Í apríl 2013 barst tilkynning frá Landspítala er varðaði líkamlega vanrækslu á drengnum og í september sama ár barst tilkynning frá G barnalækni þar sem hann lýsti yfir miklum áhyggjum af velferð drengsins. Í kjölfarið hófst vinnsla hjá barnaverndarnefnd C annars vegar og barnaverndarnefnd H hins vegar með það að markmiði að styðja foreldrana í að annast drenginn, en fram kemur í gögnum málsins að kærandi A hafi um tíma búið hjá móður sinni í J. Þau stuðningsúrræði sem lögð voru til báru lítinn árangur, eins og fram kemur í áðurnefndu foreldrahæfnismati, auk þess sem foreldrar voru ósáttir við afskipti barnaverndarnefnda af þeirra málum.

Með úrskurði barnaverndarnefndar C 24. febrúar 2014 var ákveðið að D yrði vistaður utan heimilis í tvo mánuði. Mál var höfðað fyrir Héraðsdómi C þann X sama ár gegn kæranda A þar sem farið var fram á hún yrði svipt forsjá drengsins en hún fór ein með forsjá hans. D var vistaður tímabundið hjá K og L 11. apríl 2014 á meðan málið var til meðferðar fyrir dómi. Með dómi héraðsdóms X var kærandi A svipt forsjá drengsins og staðfesti Hæstiréttur dóminn með dómi X. Frá þeim tíma hefur drengurinn verið í varanlegu fóstri.

Þegar D fór í vistun var gerður umgengnissamningur við foreldra hans, kærendur, þar sem þeir fengu umgengni við drenginn annan hvern laugardag í þrjá tíma í senn. Sá samningur gilti þar til dómur félli í málinu. Umgengnin fór fram á M og var eingöngu ætluð foreldrum D, en að sögn barnaverndarnefndar C mættu kærendur í flestum tilvikum með aðra fjölskyldumeðlimi sína í umgengnina. Starfsmenn barnaverndarnefndar C ræddu þetta við lögmann kærenda og báðu hann að koma því áleiðis að eingöngu foreldrar ættu að fara í umgengni og jafnvel tvö systkini drengsins, sem faðir hans á frá fyrra sambandi. Þrátt fyrir óskir starfsmanna varð þó ekki breyting á þessari framkvæmd umgengninnar.

Í desember 2014 var gerður umgengnissamningur við kæranda A sem gilti í tvö skipti og var það gert til að hún fengi einhverja umgengni áður en tekin yrði ákvörðun um hvernig umgengninni yrði háttað næsta árið. Fyrri umgengnin fór fram á M 29. desember 2014 þar sem kærandi A mætti ásamt foreldrum sínum, bróður og systkinum D auk móður þeirra. Seinni umgengnin fór fram í C 9. janúar 2015 og var hún undir eftirliti starfsmanna barnaverndar. Að sögn starfsmanns gekk umgengnin vel og var kærandi A ein með D fyrsta klukkutímann en næstu tvo klukkutímana voru foreldrar hennar með þeim og síðasta klukkutímann mætti systir D.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 26. janúar 2015 eins og áður segir. Var það gert í tilefni af því að barnaverndarnefndin taldi að umgengnin hefði ekki gengið sem skyldi og það talið vera drengnum og foreldrum hans fyrir bestu að eiga sem bestar gæðastundir saman. Þegar margir einstaklingar komi saman í umgengni, líkt og í tilviki kærenda, sé erfitt fyrir foreldra að einblína á umönnun barnsins og sinna því eins vel og völ væri á.

II. Afstaða kærenda

Í kærunni kemur fram að kærendur hafi metnað fyrir því að kynna fyrir barni sínu aðra meðlimi fjölskyldunnar og telji það brot á réttindum barnsins að fá ekki að kynnast sínum nánustu skyldmennum. Þá haldi kærendur því fram að því hafi jafnframt verið borið við af hálfu barnaverndarnefndar C að alvarleg veikindi kæranda A séu þess valdandi að það taki því ekki að barnið kynnist henni.

Það sé lagalegur réttur foreldra að umgangast barn sitt nema umgengni geti bersýnilega verið talin andstæð hagsmunum eða þörfum barnsins, eða ósamrýmanleg markmiðum með fóstri. Ekki hafi verið sýnt fram á það með málefnalegum hætti að umgengni þurfi að skerða með vísan til framangreinds. Jafnframt verði að forðast að brjóta á réttindum foreldra og beita mismunun á grundvelli stöðu foreldra. Kærandi A sé í þeirri stöðu að hún glími við alvarleg veikindi sem barnaverndarnefnd C noti gegn henni og takmarki umgengni vegna veikindanna og þeirrar óljósu framtíðar sem kærandi A eigi fyrir sér. Hún þurfi þvert á móti enn frekar af þeim sökum á umgengni við barn sitt að halda og reyni að gefa af sér í þess þágu þann tíma sem hún eigi eftir ólifað. Fósturforeldrar verði að huga að þörfum barnsins og bera sig eftir jákvæðum samskiptum við kærendur sem styrki tengsl og traust barnsins til beggja aðila, þ.e. fósturforeldra og kærenda.

Með því að takmarka umgengni barnsins við kærendur eins mikið og raun beri vitni sé verið að stuðla að því að þau tengsl sem nú þegar hafi verið mynduð séu slitin. Það liggi ekkert fyrir í máli þessu sem gæti talist andstætt hagsmunum barnsins. Það sé ekki andstætt hagsmunum þess að sjá aðra fjölskyldumeðlimi á heimsóknartíma. Það að mynda tengsl við kæranda A sem byggi á umgengni í einn sólarhring annan hvern mánuð geti ekki verið andstætt hagsmunum barnsins. Myndi slík umgengni teljast afar takmörkuð ef litið væri til umgengni barna við ættmenni sín. Þá beri að geta þess í því sambandi að sólarhringur annan hvern mánuð gæti talist afar takmörkuð umgengni afa og ömmu við barnabarn sitt eða systkini foreldra við barn.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi eftirlit með því á hvaða forsendum ákvarðanir stjórnvalda, sem takmarki mannréttindi samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu, séu teknar og meti hvort skilyrðinu um nauðsyn sé fullnægt. Í því samhengi virtist dómstóllinn ekki fallast á þær röksemdir að greindarskerðing foreldra eða samskiptaörðugleikar þeirra við þjónustuaðila nægi til að réttlæta aðskilnað barns og foreldris, heldur verði að hafa í heiðri þá meginreglu að reyna skuli vægari úrræði fyrst sem samkvæmt dómstólnum geti meðal annars falist í því að skipta um þjónustuaðila eða auka félagslegan stuðning, sbr. mál Mannréttindadómstóls Evrópu Kutzner gegn Þýskalandi. Í þessu sambandi megi nefna vægari úrræði á borð við aukna aðstoð við og í umgengni í stað þess að takmarka hana þannig að hún sé nánast engin. Það sé fátítt að fólk með þroskahömlun leiti réttar síns fyrir Mannréttindadómstólnum og sé fyrrnefndur dómur fyrsti slíki dómurinn sem lúti að 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks taki sérstaklega á málum sem varði virðingu fyrir fjölskyldulífi og kveði 23. gr. hans á um að uppræta skuli mismunun gagnvart fötluðu fólki, sem lúti að fjölskyldu og foreldrahlutverki.

Ekki hafi verið sýnt fram á það með nokkrum rökum að nauðsyn sé að takmarka umgengni foreldra við barn líkt og raun beri vitni í hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar C frá 26. janúar 2015. Barnaverndarnefndin hafi ekki sýnt fram á að aukin umgengni foreldra við D verði bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins.

Kærendur vísa í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í ágúst 2006 hafi verið samþykkt að efla réttindi og virðingu fatlaðs fólks ásamt því að fjallað hafi verið sérstaklega um rétt fatlaðra foreldra til þess að fá stuðning til að geta sinnt foreldrahlutverkinu. Nýr samningur hafi verið gerður sem beri heitið samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi barn sem vistað sé utan heimilis rétt á því að umgangast foreldra sína eða aðra sem séu því nákomnir enda samrýmist það hagsmunum barnsins. Ekkert í þessu máli bendi til þess að það sé andstætt hagsmunum D að umgangast kærendur. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga eigi foreldrar rétt á umgengni við barn í fóstri nema að umgengnin sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Í þessu máli sé ekkert sem bendi til þess að umgengni barnsins við kærendur sé bersýnilega andstæð hagsmunum þess eða þörfum. Barnið hafi að öllu jöfnu þörf á því að hitta kærendur eins og önnur börn og þá sérstaklega móður. Þá hafi veikburða móðir barnsins mikla þörf á að umgangast barnið reglulega meðan hún þó geti. Það eitt að missa forsjá yfir barni sínu sé mjög svo þungbært og veruleg skerðing á umgengni líkt og um ræðir í máli þessu sé ekki á veika konu leggjandi.

Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skuli þegar við ráðstöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna. Í þessu máli hafi foreldrar fengið umgengnisrétt við barnið en ekki aðrir nákomnir og því haldið fram að nákomnir ættingjar dragi úr verðleikum kynforeldra og rétti þeirra til sanngjarnar umgengni við barnið.

Þá beri að hafa meðalhófsreglu þá sem komi fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga að leiðarljósi, en þar segi að yfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að vægustu ráðstöfunum sé beitt til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Þegar barn hafi verið vistað í varanlegu fóstri megi ekki skerða umgengni að nauðsynjalausu svo mikið að það komi niður á bæði foreldrum og barni. Það sé ekki markmið barnaverndarlaga að rjúfa tengsl barns við kynforeldri ef tengsl séu ekki bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins.

III. Afstaða barnaverndarnefndar C

Í greinargerð barnaverndanefndar C kemur fram að þess sé krafist að hinn kærði úrskurður um umgengni kærenda við son sinn verði staðfestur. Af hálfu nefndarinnar sé á því byggt að hinn kærði úrskurður sé réttmætur að öllu leyti og hafi fengið lögformlega málsmeðferð.

Í kæru kæranda sé þess krafist að foreldrar fái umgengni við drenginn annan hvern mánuð í einn sólarhring í senn og að drengurinn fái að gista yfir nótt á heimili þeirra. Að mati barnaverndarnefndarinnar væri slík umgengni bersýnilega í andstöðu við hagsmuni drengsins og markmið fóstursins.

Það sé rétt sem fram komi í kæru að kærandi A glími við alvarleg veikindi. Hitt sé alrangt að barnaverndarnefndin hafi notað veikindin gegn henni og takmarki umgengnina vegna veikindanna og þeirra óljósu framtíðar sem kærandi A eigi fyrir sér. Þvert á móti sjáist í niðurstöðum hins kærða úrskurðar að nefndarmenn hafi tekið sérstakt tillit til stöðu kæranda A. Þannig liggi fyrir að í tillögum starfsmanns barnaverndarnefndarinnar hafi verið lögð til þrengri umgengni en ákveðin hafi verið í hinum kærða úrskurði, þ.e. tvisvar á ári undir eftirliti. Í hinum kærða úrskurði sé á þetta bent og tekið sérstaklega fram að í ljósi veikinda kæranda A vilji nefndarmenn koma til móts við foreldra með því að umgengni færi fram fjórum sinnum á ári undir eftirliti í þrjá tíma í senn.

Af hálfu barnaverndarnefndarinnar sé á því byggt að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við tilgang og markmið barnaverndarlaga og beitt hafi verið þeirri ráðstöfun sem hafi verið syni kærenda fyrir bestu.

Samkvæmt 70. gr. barnaverndarlaga eigi foreldri sem svipt hefur verið forsjá barns rétt á umgengni við það enda samrýmist það hagsmunum barnsins. Um umgengni fari í öllum tilvikum eftir 74. gr. barnaverndarlaga óháð því hver taki við umsjá eða forsjá barns. Samkvæmt síðarnefndu lagagreininni eigi foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmaleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars tekið tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Barnaverndarnefndin byggi á því að það þjóni hagsmunum sonar kærenda best að umgengni hans við kærendur verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið var í hinum kærða úrskurði.

Á því sé byggt af hálfu barnaverndarnefndarinnar að hinn kærði úrskurður sé í fullu samræmi við ákvæði 70. og 74. gr. barnaverndarlaga. Með úrskurðinum sé umgengni kærenda við drenginn takmörkuð þannig að umgengni verði fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Barnaverndarnefndin telji að rýmri umgengnisréttur sé bersýnilega andstæður hagsmunum og þörfum sonar kærenda. Í þessu samhengi vísast til forsendna hins kærða úrskurðar.

Kærandi A hafi með endanlegum dómi Hæstaréttar verið svipt forsjá sonar síns. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið á því reist að kærandi A uppfyllti ekki þær lágmarkskröfur sem gera yrði til hennar sem uppalanda þannig að hún gæti veitt drengnum sem búi við alvarlega þroskahömlun þau uppeldisskilyrði sem nauðsynleg séu miðað við aðstæður hans, heilsufar og þroska.

Mikilvægt sé við aðstæður eins og í máli þessu að barnið aðlagist fósturfjölskyldunni sem taki að sér uppeldi þess. Markmið fóstursins sé að drengurinn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni sem tekið hafi að sér uppeldi hans. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega. Á grundvelli meðal annars þessara sjónarmiða sé ákvörðun um hina takmörkuðu umgengni reist og byggð á því að rýmri umgengni sé andstæð hagsmunum drengsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun hans í fóstur.

Að mati barnaverndarnefndarinnar sé mikilvægt að umgengnin fari fram undir eftirliti. Í þessu sambandi vísast meðal annars til þess að alvarlegir vankantar hafi verið á að grunnþörfum drengsins hafi verið sinnt í umsjón kærenda, til dæmis hvað varðar næringu, hreinlæti, öryggi, lyfjagjöf og örvun. Ekki sé réttlætanlegt að mati nefndarinnar að umgengnin fari fram án eftirlits og í ljósi framangreinds komi ekki til álita að drengurinn fái að gista yfir nótt á heimili kærenda líkt og krafist sé af þeirra hálfu.

Af gögnum málsins megi ráða að kærendur hafi mætt með marga fjölskyldumeðlimi með sér í umgengni. Þetta hafi gert það að verkum að starfsmenn barnaverndarnefndarinnar hafi haft af því áhyggjur að drengurinn kynni að vera afskiptur í umgengninni. Kærendur hafi ekki brugðist við ábendingum starfsmanna nefndarinnar um að þau kæmu ein ásamt börnum sínum í umgengni. Með því að hafa umgengnina undir eftirlit sé unnt að takmarka þann fjölda sem komi í umgengnina hverju sinni, auk þess sem samskipti og samvera kærenda við drenginn verði ánægjulegri og þjóni betur hagsmunum hans. Þá sé einnig á það bent að fósturforeldrar drengsins hafi greint frá því að þau hefðu áhyggjur af því að drengurinn væri afskiptur í umgengninni og hafi fósturmóðir greint frá því að mikill munur væri á þegar umgengni færi fram undir eftirliti þar sem hægt væri að takmarka fjölda þeirra sem mæti.

Barnaverndarnefndin byggi á því að úrskurðurinn sé í fullu samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Með því að umgengnin verði takmörkuð með þeim hætti sem ákveðið sé í hinum kærða úrskurði séu þarfir og hagsmunir drengsins best tryggðir að mati nefndarinnar. Þá sé umgengnin í samræmi við markmiðin með fóstrinu um að drengurinn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu. Einnig sé tekið tillit til viðhorfa fósturforeldra sem hafi lýst því að þeim þyki erfitt að skilja drenginn eftir hjá kærendum.

Með vísan til gagna málsins og þess sem að framan sé rakið telji barnaverndarnefndin að rýmri umgengnisréttur en ákveðinn hafi verið í hinum kærða úrskurði sé ósamrýmanlegur þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun sonar kærenda í fóstur og því beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.

IV. Afstaða fósturforeldra

Í tölvupósti frá fósturforeldrum D, K og L, 29. maí 2015 kemur fram að þau geri ekki athugasemd við úrskurð barnaverndarnefndar C, sem kveði á um að umgengni við kærendur verði fjórum sinnum á ári undir eftirliti. Hins vegar séu þau mótfallin því að D sé hjá kærendum yfir nótt og þau sjái ekki hvernig það þjóni hagsmunum drengsins. Þau hafi frá því að D kom til þeirra reynt að skapa honum öryggi og stöðugleika til að honum líði sem allra best og finnst þeim það hafa tekist. Hann sé meðal annars orðinn vanur því að sofna á kvöldin hjá fósturmóður sinni sem syngi fyrir hann meðan hann sé að sofna. Á því ári sem liðið sé frá því að hann kom til þeirra hafi drengurinn aðeins gist þrjár nætur utan heimilis og þá á sama stað hjá fólki sem hann er í nánum tengslum við í daglegu lífi. Einnig benda þau á að D taki daglega lífsnauðsynleg lyf sem þeim þyki öruggast að sjá sjálf um að gefa honum.

V. Niðurstaða

D er X ára gamall drengur og hefur hann verið í fóstri hjá fósturforeldrum sínum, K og L, frá því X en kærandi A var svipt forsjá hans með dómi sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar þann X eins og áður hefur komið fram. Með hinum kærða úrskurði barnaverndanefndar C frá 26. janúar 2015 var umgengni drengsins við kærendur ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti, en umgengnin verði í mars, júní, september og desember. Kærendur krefjast þess að umgengni við drenginn verði ákveðin annan hvern mánuð í einn sólarhring í senn og að drengurinn fái að gista yfir nótt á heimili þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag gerir barnaverndarnefnd skriflegan samning við þá sem umgengni eigi að rækja. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Við úrlausn á máli þessu ber að líta til þeirrar stöðu sem barnið er í sem er gert í þeim tilgangi að unnt sé að greina hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Einnig ber að meta stöðu barnsins til þess að unnt verði að taka ákvörðun um umgengni barnsins við kærendur á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum barnsins og sé ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun barnsins í fóstur.

Kærandi A var svipt forsjá drengsins með dómi, eins og að framan greinir, þar sem fram kemur að hún uppfylli ekki, þrátt fyrir allan tiltækan stuðning, þær lágmarkskröfur sem gera verði til hennar sem uppalanda, þannig að hún geti veitt drengnum, sem býr við alvarlega þroskahömlun, þau uppeldisskilyrði sem nauðsynleg séu miðað við aðstæður drengsins, heilsufar og þroska. Þá ber enn fremur að líta til þess sem fram kemur í foreldrahæfnismati sálfræðings frá 27. janúar 2014 á kærendum. Þar kemur meðal annars fram að tengslahæfni kæranda A sé skert þar sem hún eigi erfitt með að setja sig í spor drengsins, lesa í líðan hans og bregðast við henni á viðeigandi hátt. Um kæranda B segir í matinu að innsæisskortur hans á veikleika sína í foreldrahlutverkinu auki líkur á að hann vanræki þarfir sonar síns. Enn fremur segir í matinu að alvarlegir misbrestir hafi orðið á því að kærendur sýni staðfestu og stöðugleika sem foreldrar, taki ábyrgð á barninu og verji það fyrir hættum og óþægindum. Innsæisskortur kærenda muni óhjákvæmilega leiða til vanrækslu í umönnun þeirra á drengnum. Í læknisvottorði barnataugalæknis 3. mars 2014 kemur fram að drengurinn þurfi daglega þjálfun og örvun og hann taki lyf vegna vanstarfsemi skjaldkirtils. Einnig kemur fram í læknisvottorðinu að drengurinn sé með genetískan sjúkdóm sem valdi þroskaskerðingu, hypotoniu og margvíslegum öðrum vandamálum.

Kærunefndin telur með vísan til alls þessa að kærendur geti ekki tryggt öryggi barnsins með viðunandi hætti. Verður þar með ekki hjá því komist að takmarka umgengni þeirra við barnið verulega. Með sömu rökum þykir ekki koma til greina að drengurinn fái að gista yfir nótt á heimili kærenda.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að barnaverndarnefndin hafi ekki sýnt fram á að aukin umgengni kærenda við drenginn verði bersýnilega andstæð hagsmunum hans. Kærunefndin telur að með aukinni umgengni kærenda við drenginn verði tekin veruleg áhætta á því að röskun verði á þeim stöðugleika sem drengurinn hefur ríka þörf fyrir og stefnt er að með hinni varanlegu fósturráðstöfun í þágu drengsins. Réttindi kærenda til umgengni við drenginn takmarkast af þessu en þegar réttur barns og foreldris fer ekki saman verður réttur foreldrisins að víkja. Með vísan til þeirra röksemda sem fram koma hér að framan er ekki fallist á að umgengni kærenda við drenginn hafi verið skert að nauðsynjalausu með hinum kærða úrskurði, eins og haldið er fram af hálfu kærenda.

Að öllu þessu virtu verður að telja að umgengni kærenda við barnið hafi réttilega verið ákveðinn í hinum kærða úrskurði og að hún skuli fara fram undir eftirliti. Með vísan til þess ber að staðfesta úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 26. janúar 2015 varðandi umgengni A og B við son þeirra, D, er staðfestur.

 

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Hrafndís Tekla Pétursdóttir

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira