Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 3/2015

Fóstursamningur

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 6. maí 2015 var tekið fyrir mál nr. 3/2015, A og B gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna fóstursonar þeirra, C.

Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 17. febrúar 2015, þar sem ákveðið var að fella úr gildi fóstursamning frá 17. október 2014, sem gerður var við kærendur um fóstur drengsins C.

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

Ú R S K U R Ð U R

I. Málavextir og kröfugerð

Mál þetta varðar barnaverndarmál A og B, vegna fóstursonar þeirra, C, en fóstursamningi kærenda og barnaverndarnefndar Reykjavíkur var rift með úrskurði nefndarinnar 17. febrúar 2015.

Kæra lögmanns kærenda, D hrl., til kærunefndar barnaverndarmála er dagsett 26. febrúar 2015. Kærendur krefjast þess að felldur verði úr gildi úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. febrúar 2015 um að fóstursamningur nefndarinnar frá 17. október 2014 sem gerður hafi verið við hjónin A og B um fóstur drengsins C skuli felldur úr gildi sbr. 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.   

C er X ára gamall drengur sem lýtur forsjár barnaverndarnefndar Reykjavíkur en móðir hans, E, var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X. Hann var vistaður í varanlegu fóstri hjá hjónunum A og B frá því í X en hafði áður verið í tímabundnu fóstri hjá þeim frá því í X. Fram kemur í gögnum málsins að drengurinn eigi við ýmis konar vanda að stríða og taki hann lyf við einkennum ADHD. Drengurinn er í F-skóla og nýtur stuðnings í skólanum.

Barnavernd Reykjavíkur barst tilkynning frá F-skóla þann X þess efnis að drengurinn hefði komið með áverka í skólann um morguninn og hefði hann sagt að fósturfaðir hans, B, hefði tekið hann hálstaki þá um morguninn. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur sóttur drenginn í kjölfarið og fóru með hann á G.

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur, sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar 17. febrúar 2015, kemur fram að kærendur, B og A, hafi gengið í hjónaband X. Þeir búi í fjögurra herbergja íbúð að H. Í barnaherberginu hafi þeir komið fyrir barnarúmi og leikföngum. Það sé rúmgott í íbúðinni. Lítill bakgarður fylgi henni og í nágrenni séu góðar gönguleiðir og leikvellir. Fjárhagsstaða kærenda sé góð. Þeir búi endurgjaldslaust í íbúðinni sem sé í eigu móður A en þeir greiði hita og rafmagn af íbúðinni. Þá eigi þeir bíl sem þeir skuldi lítilsháttar í.

Í greinargerðinni segir að 19. janúar 2015 hafi C komið í skólann með áverka á hálsi sem hann hafi sagt að væri eftir að B hefði tekið sig hálstaki. Drengurinn hafi í kjölfarið farið í læknisskoðun þar sem fram hafi komið að áverkarnir gætu samrýmst lýsingu hans á hálstaki. C hafi farið á G eftir þetta. Hann hafi farið í könnunarviðtal í Barnahúsi þar sem hann hafi lýst því sem gerst hefði og sagst vera hræddur við B og óttast að hann meiddi sig aftur. C hafi ítrekað greint frá því að hafa verið beittur alvarlegu ofbeldi af hálfu fósturföður. Hann hafi sagt það við starfsmann skóla, Barnaverndar, í Barnahúsi og við lækni. Fósturfaðir neiti að hafa gert það sem C segi frá en engar skýringar séu á áverkunum og segist fósturforeldrar ekki hafa tekið eftir þeim. C hafi einnig sagt að B sé leiðinlegur, hann hafi áður meitt sig og að hann sé hræddur við B. Það sé hins vegar ljóst að C sé tengdur A og virðist sakna hans.

Í áðurnefndri greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur kemur einnig fram að þegar starfsmenn barnaverndarinnar hafi sótt C í skólann þann X hafi hann verið í götóttum stígvélum og þunnum götóttum vindjakka þrátt fyrir aftakaveður og auka stígvél sem fósturforeldrar hafi komið með á G hafi einnig verið götótt.

Í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, 2. febrúar 2015, kemur fram að C hafi upplifað ítrekuð fósturrof en þrátt fyrir það telji starfsmenn að drengurinn verði að fá að njóta vafans í þetta sinn. Starfsmennn telji því að drengurinn geti ekki farið aftur á fósturheimilið þar sem öryggi hans sé ekki nægilega vel tryggt og líklegt að hann hafi verið beittur ofbeldi. Auk þess að svo virðist sem hann hafi verið vanræktur, meðal annars með tilliti til umhirðu. Það sé mat starfsmanna að það þjóni hagsmunum drengsins best að honum verði fundið nýtt fósturheimili. Það sé einnig mat starfsmannanna að stuðningur við  fósturheimilið dugi ekki til að tryggja öryggi drengsins þar sem ekki virðist vera um eitt einangrað tilfelli að ræða.

II. Sjónarmið kærenda

Fram kemur af hálfu kærenda að þeir kannist ekki við að hafa valdið C þeim áverkum sem á þá hefur verið borið. Umræddan dag, X, hafi verið vont veður í Reykjavík, rigning og rok og hálka á götum. [...] B hafi fylgt honum í skólann og hafi þeir gengið þangað saman. C hafi dottið á leiðinni og kannist B við að hafa kippt honum upp í fallinu. B hafi síðan skilið við hann í anddyri skólans, nokkuð blautan eftir gönguferðina og fallið. Í anddyrinu hafi verið staddur gangavörður í F-skóla.

Kærendur telja sig hafa náð ótrúlegum árangri með drenginn á þeim tíma sem hann hefur búið hjá þeim. Hann hafi t.d. ekki þekkt stafina í nafninu sínu við komuna til þeirra, en sé nú að ná góðum tökum á lestri. Verkefnið sem fósturforeldrarnir hafi tekið að sér hafi verið erfitt og flókið, enda sé C með erfiðari börnum við að eiga. Hann eigi það til að missa algerlega stjórn á sér, bíta, klóra, lemja og ganga í skrokk á þeim sem fyrir verða. Kærendur hafi þrátt fyrir þetta aldrei beitt C né önnur börn sem þeir hafi haft í fóstri, ofbeldi. Þeir telji það fráleitt að öryggi C sé ótryggt á heimili þeirra. Sá áverki sem verið hafi á hálsi C sé ekki af völdum fósturföður hans. Þeir telji að C hafi að öllum líkindum fengið áverkann í fatahenginu við komi sína í skólann um morguninn eða áður en hann hafi farið inn í skólastofnuna í stimpingum við önnur börn eða jafnvel dyravörðinn í skólanum. Þá um nóttina hafi C pissað undir og dreift síðan pissublautum fötum um alla íbúðina. B hafi fundið að þessu við C þegar hann hafi vaknað um morguninn. Hann telji því að C hafi verið í fúlu skapi út í sig fyrir að hafa fundið að þessu og viljað ná sér niður á B með því að segja að hann hafi meitt sig. Þegar barn missi stjórn á sér sé hins vegar nauðsynlegt að taka barnið út úr þeim aðstæðum og setja barninu mörk. Það séu viðurkenndar uppeldisaðferðir sem skili árangri. Það séu þær aðferðir sem kærendur hafi notað við fósturbörn sín. Árangurinn sem þeir hafi náð með C sé vafalaust að þakka því hve vel hafi tekist til með að setja drengnum ramma. C hafi verið afar ósáttur við þau mörk sem honum hafi verið sett og gjarnan kvartað undan þeim. Þá hafi aldrei verið fundið að aðbúnaði C hjá kærendum og hafi umhirða hans líka verið góð samkvæmt upplýsingum frá skólanum.

Fram kemur af hálfu kærenda að þeir byggi mál sitt á því að rannsókn málsins hafi að verulegu leyti verið ábótavant af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur, en í rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 felist að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

Ekki hafi verið aflað upplýsinga um það hvaða starfsmaður hafi tekið við C í skólanum umræddan morgun, né hafi starfsmaður verið spurður út í það hvort einhverjar stimpingar hafi átt sér stað í fatahengi eða á göngum. Samkvæmt upplýsingum sem kærendur hafi sjálfir aflað sér með símtali við starfsmann F-skóla hafi deildarstjóri sérkennslu í skólanum verið í löngu veikindaleyfi og hafi því ekki verið við þegar þetta gerðist. Stuðningsfulltrúar C samkvæmt tölvu séu tveir, I og J. J sé ekki í skólanum á mánudögum. I sé í skólanum frá kl. 10.00 til 11.30. Það sé því ljóst að enginn stuðningsfulltrúi hafi tekið á móti C þennan morgun. B hafi sagt að þennan morgun hafi starfsmaður í fatahengi, K, verið í anddyrinu þegar C og B hafi komið í skólann. Hvergi í gögnum frá skóla eða barnavernd sé minnst á þennan K og ekki verði séð að haft hafi verið samband við hann til að greina frá því hvað hafi gerst þarna þennan morgun.

Eina skjalið í málinu sem greini frá atvikum málsins frá F-skóla sé bréf skólastjóra til Barnaverndar Reykjavíkur þann X. Þar segi að hjúkrunarfræðingur hafi komið á skrifstofu skólastjóra kl. 8.40 með C og beðið sig um að líta á áverka á hálsi drengsins. Drengurinn hafi sýnt áverkana og sagt hjúkrunarfræðingi og skólastjóra að B, fósturfaðir sinn, hefði tekið hann hálstaki vegna þess að hann hafi pissað í rúmið þá um nóttina. Hann hafi jafnframt sagt að B væri oft reiður þegar það gerðist að pissa undir. C hafi sagt að A hefði verið að hvíla sig í rúminu þegar þetta atvik hafi átt sér stað. Í þessu bréfi komi ekkert fram um það hver hefði tekið á móti C í skólann þennan morgun, hvorki minnst á stuðningsfulltrúa né gangavörð, ekkert haft eftir kennara hans um það hvort hún hafi hitt hann þennan morgun eða neitt frekar um tímasetningar. Með því að kanna ekki frekar tildrög þessa máls alls sé rannsóknarskyldu Barnaverndar svo áfátt að það eitt og sér nægi til að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Í stað þess að hafa strax samband við fósturforeldra barnsins og leitast við að upplýsa hvað í raun hafi gerst bregðist skólinn þannig við að C, sem sé þekktur fyrir að hagræða sannleikanum eftir því sem honum henti hverju sinni, sé trúað og farið með mál þett allt eins og sakamál og fósturfaðir hafi ráðist á barnið.

Kærendur byggja mál sitt enn fremur á því að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Þar segi að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru eða vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.

Greinargerð starfsmanns fjalli í löngu máli um það hvað sé athugavert við umönnun og uppeldisaðferðir fósturforeldra, athugasemdir sem þeir hafni sem röngum og finnist afar ósanngjarnt að bornar séu fram. Segi þar m.a. að þegar C hafi verið vistaður á vistheimili hafi hann verið í götóttum stígvélum og þunnum, götóttum vindjakka þrátt fyrir aftakaveður. Eftir að hann hafi verið vistaður á vistheimili, hafi hann komið með betra nesti, skipt hafi verið um skilaboðaskjóðu og að C sé rólegri. Einnig sé dregin upp mynd af því að betur megi halda utan um heimanám og að hann sé enn slakur í lestri og að heimanám sé ekki klárað á réttum tíma. Auk þess sem hér sé ekki greint rétt frá sé með þessu leitast við að finna viðbótarrök svo að rifta megi fóstursamningi í stað þess að rannsaka frekar hvað hafi valdið áverkanum á barninu. Í stað þess að ræða við fósturforeldra, leiðbeina og hjálpa við þær erfiðu aðstæður sem upp hafi komið, hafi starfsfólk Barnaverndar gengið fram í því að taka undir aðfinnslur og ala á tortryggni í garð kærenda. Með þessu hafi þeir aðilar brugðist sem átt hafi að vera sérfræðingar á sviðinu. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins gangi út á það að alltaf eigi að grípa til þess úrræðis sem minnsta röskun hafi, en hér hafi verið gengið þvert gegn því og fóstursamningi foreldra, sem náð hafi góðum árangri við uppeldi mjög erfiðs barns, rift án þess að neinna frekari leiða væri leitað.

Kærendur telja að skilyrði reglugerðar nr. 804/2004 um tafarlausa riftun fóstursamnings hafi ekki verið fyrir hendi. Ekki hafi verið farið að ákvæðum 32. gr. reglugerðarinnar. Í hinum kærða úrskurði sé ekki vísað í framangreint reglugerðarákvæði né önnur þau lagaákvæði sem ákvæði þetta byggi á. Samkvæmt 32. gr. reglugerðarinnar séu skilyrði fyrir tafarlausri riftun fóstursamnings veruleg vanefnd og þar séu talin upp atriði sem teljist veruleg vanefnd. Í b. lið reglugerðargreinarinnar sé talað um heimild til fyrirvaralausrar riftunar ef fósturforeldri fremji brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða 18. kafla barnaverndarlaga gagnvart fósturbarni eða öðru barni. Samkvæmt þessu þurfi brot að liggja fyrir. Kærendur hafi marglýst því yfir að þeir hafi ekki gerst brotlegir gagnvart barninu. Þeir kannist ekki við að hafa valdið barninu þeim áverkum sem það hafi verið með í skólanum þennan tiltekna dag. Engin sönnun liggi fyrir um að fósturforeldri hafi framið þetta brot gegn barninu. Ýmislegt bendi aftur á móti til þess að rannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant og málið hafi hvorki verið rannsakað með fullnægjandi hætti af hálfu skólans né Barnaverndar. Þar sem brot liggi ekki fyrir séu ekki lagaskilyrði fyrir tafarlausri riftun.

III. Sjónarmið C

L, félagsráðgjafi, var skipuð talsmaður C 11. febrúar 2015. Í bréfi hennar, 15. febrúar 2015, kemur fram að talsmaðurinn hafi rætt við drenginn 12. febrúar 2015 á G. Drengurinn hafi verið í súperman búningi og hafi verið upptekinn af því allt viðtalið að ljúka því og hafi sagt að hún væri að trufla hann. Hann vildi fara og leika við krakkana og að þeir ætluðu að leika sér. Hann hafi verið eirðarlaus allt viðtalið. Hann hafi sagt aðspurður að honum fyndist gaman á G. Hann hafi sagt að hann vissi ekki hvers vegna hann væri þar en B hefði meitt hann en hann muni ekki hvernig og vildi ekki tala um það. Hann hafi sagt í byrjun samtals að honum fyndist leiðinlegt hjá B en gaman hjá A. B væri vondur við sig og hann vildi helst eiga heima á G, það væri skemmtilegt þar. B væri reiður við krakka sem geri ekki eins og hann vilji. B hefði oft meitt hann. Hann hafi sagt að hann vildi ekki eiga heima hjá A og B heldur hjá mömmu og pabba eða á G. Kannski væri í lagi að búa hjá A og B því B væri hættur að vera vondur. Aðspurður hvernig hann vissi það hafi hann sagt að A hefði sagt sér það. Drengurinn hafi sagt að honum litist ekki vel á að fara á annað fósturheimili nema kannski þangað sem bróðir hans væri. Hann væri ánægður á G en yrði mikið ánægðari ef bróðir hans kæmi þangað til hans.

Síðar þegar talsmaðurinn hitt drenginn, fóru þau í bíltúr og kom fram að hann hefði verið mikið rólegri í bílnum einn með talsmanninum þar sem lítið áreiti hafi verið.

IV. Sjónarmið Barnaverndar Reykjavíkur

Í greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur 4. mars 2015 kemur fram að í bókun sinni frá 17. febrúar 2015 bendi barnaverndarnefnd Reykjavíkur á að markmið fósturráðstöfunar samkvæmt 65. gr. barnaverndarlaga sé að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem henti best þörfum þess. Barni skuli tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum og skuli fósturforeldrar sýna fósturbarni umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess. Beri barnaverndarnefnd Reykjavíkur að tryggja öryggi drengsins og viðunandi uppeldisaðstæður á fósturheimili hans. Fyrir liggi að fóstrið hafi að mörgu leyti gengið vel og sé drengurinn tengdur A fósturförður sínum tilfinningaböndum. Hins vegar sé ljóst að flesti bendi til þess að drengurinn hafi orðið fyrir ofbeldi þann X en drengurinn hafi verið stöðugur í frásögn sinni af atburðinum þ.á.m. í Barnahúsi. Engar aðrar trúverðugar skýringar hafi fengist og sé það mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að undir þeim kringumstæðum verði barnið að njóta vafans auk þess sem svo virðist sem hann hafi að einhverju leyti verið vanræktur að því er varði aðbúnað. Að framangreindu virtu hafi því þótt, með vísan til 3 mgr. 77. gr. barnaverndarlaga að brýnir hagsmunir C mæltu með því að fóstursamningur frá X við fósturforeldra hans, A og B, yrði felldur úr gildi frá og með X. Þar sem samþykki fósturforeldra um lok fósturs skorti, sbr. 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga, hafi málið verið tekið til úrskurðar. 

Því sé mótmælt sem fram hafi komið í greinargerð lögmanns fyrir hönd kærenda að rannsókn málsins hafi að verulegu leyti verið ábótavant af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur. Fyrir liggi að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi farið í skóla drengsins daginn sem tilkynning um meint ofbeldi hafi borist X síðastliðinn og rætt við drenginn og starfsmenn skólans. Ekkert hafi komið þar fram um að móttaka drengsins þá um morguninn hefði verið með öðrum hætti en venja sé eða nokkuð óeðlilegt hafi komið upp. Þá hafi starfsmaður rætt við skólastjóra þann X sem hafi lýst því hvernig morguninn hefði verið. Enn fremur hafi drengurinn farið í könnunarviðtal í Barnahúsi og lýst þar ofbeldi sem hann hefði orðið fyrir.

Þá sé því mótmælt að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Beri gögn málsins með sér að drengurinn hafi ítrekað lýst meintu ofbeldi við ólíka aðila. Hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að flest bendi til þess að drengurinn hefði verið beittur ofbeldi af hálfu fósturföður og við það verði ekki unað. Hagsmunir drengsins, sem hafi búið við ofbeldi og vanrækslu í umsjá foreldra sinna, krefjist þess að hann njóti vafans og honum verði fundið framtíðarheimili þar sem öryggi hans og þroskavænlegar uppeldisaðstæður séu tryggðar um leið og það sé tryggt að hann sé elskaður og ekki beittur ofbeldi.

Þá sé að lokum mótmælt þeirri fullyrðingu sem fram komi í greinargerð lögmanns kærenda að skilyrði reglugerðar nr. 804/2044 um tafarlausa riftun fóstursamnings hafi ekki verið fyrir hendi. Eins og ítrekað hafi komið fram hafi drengurinn lýst harðræði af hendi fósturföður við fjölmarga aðila og sé því ljóst að skilyrði reglugerðar sem og 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga séu fyrir hendi. Í frumvarpi því sem orðið hafi að barnaverndarlögum nr. 80/2002 komi fram að í 3. mgr. 77. gr. laganna sé kveðið á um rétt barnaverndarnefndar til breytingar á fóstursamningi eða niðurfellingar. Miðað sé við að barnaverndrnefnd geri þetta með rökstuddum úrskurði. Hafi það og verið gert. Í reglugerðarákvæðinu komi fram að veruleg vanefnd teljist meðal annars vera fyrir hendi ef ákveðnar aðstæður séu fyrir hendi. Það sé ljóst að ekki sé um tæmandi talningu að ræða en engu síður verði ekki annað séð en að atvik máls þessa falli undir þau tilvik sem þar séu talin upp, enda geti það varla verið tilgangur löggjafans að börn búi áfram á fósturheimili þar sem allt bendi til að þau séu beitt ofbeldi.

Þá er tekið fram að málið hafi verið tekið fyrir að nýju á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 25. febrúar síðastliðinn. Hafi þá legið fyrir upplýsingar frá föðurömmu drengsins um að hann hafi einnig tjáð sig við föður sinn um að hafa áður verið tekinn hálstaki af öðrum kæranda málsins, B. Í bókun meðferðarfundar komi fram það mat starfsmanna að málið sé þess eðlis að tilefni sé til að óska eftir lögreglurannsókn. Muni starfsmaður senda bréf til lögreglu þar sem þess verði óskað.

V. Forsendur og niðurstaða

Kærendur krefjast þess að ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að fella úr gildi fóstursamning við þá vegna X ára gamals drengs, C, verði felld úr gildi. Varanlegur fóstursamningur var gerður við kærendur þann X, en áður höfðu þeir haft drenginn í tímabundnu fóstri frá X. Kæruheimild er í niðurlagi 3. mgr. 77. gr. og 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Framangreindur fóstursamningur var felldur úr gildi með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur X sl. Af lestri úrskurðarins verður ráðið að tilefni þeirrar ákvörðunar var að X sl. urðu starfsmenn F-skóla þess varir að drengurinn var með áverka á hálsi sem hann kvað kærandann, B, hafa valdið sér. B hefur staðfastlega neitað því. Barnaverndarnefnd komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að engar aðrar trúverðugar skýringar hefðu komið fram á áverkanum og yrði barnið að njóta vafans. Þá taldi barnaverndarnefnd að svo virtist sem aðbúnaði drengsins hafi að einhverju leyti verið áfátt.

Í 4. mgr. 65. gr. barnaverndarlaga segir að markmið fósturs samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar sé að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best henti þörfum þess. Barni skuli tryggður góður aðbúnaður hjá fósturforeldrum og þeir skulu sýna fósturbarni umhyggju og nærfærni og leitast við að efla andlegan og líkamlegan þroska þess.

Í 77. gr. barnaverndarlaga er fjallað um endurskoðun fóstursamnings. Þar er í 1. málsgrein lögð sú skylda á fósturforeldra að tilkynna barnaverndarnefnd þegar tilteknar aðstæður breytast hjá þeim. Samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laganna ber enn fremur að beina tilkynningum um aðstæður barns hjá fósturforeldri og upplýsingum um að fósturforeldri vanræki hlutverk sitt til barnaverndarnefndar sem ráðstafað hefur barn í fóstur. Ber nefndinni þá að kanna málið tafarlaust og grípa til viðeigandi ráðstafana. Þá kemur fram í 3. mgr. 77. gr. að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi ef ekki næst samkomulag við fósturforeldra um breytingu á fóstursamningi. Úrskurður barnaverndarnefndar var reistur á síðastnefndu ákvæði barnaverndarlaga. Af framangreindu verður ráðið að ógilding fóstursamnings er meðal þeirra lögbundnu úrræða sem barnaverndarnefndum er unnt að grípa til vanræki fósturforeldrar verulega hlutverk sitt gagnvart fósturbarni.

Í 3. mgr. 31. gr. reglugerðar um fóstur nr. 804 frá 27. september 2004, sem sett er á grundvelli 78. gr. barnaverndarlaga, er áréttað að barnaverndarnefnd sé heimilt að breyta fóstursamningi eða fella hann úr gildi náist ekki samkomulag milli nefndarinnar og fósturforeldra um endurskoðun hans vegna breytinga á högum fósturforeldra. Í 32. gr. reglugerðarinnar er síðan fjallað um slit fóstursamnings. Í 3. málsgrein þeirrar greinar kemur fram að þegar fóstursamningur er gerður til lengri tíma en 12 mánaða geti hvor aðila óskað eftir því að breyta samningi eða fella hann úr gildi. Náist ekki samkomulag milli þeirra getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði breytt fóstursamningi eða fellt hann úr gildi. Í 4. mgr. 32. gr. reglugerðarinnar er síðan vikið að því að hvor aðila geti tafarlaust rift fóstursamningi ef hinn aðilinn vanefnir verulega skyldur sínar. Tekin eru dæmi um vanefndatilvik sem réttlæta riftun fóstursamnings, en meðal þeirra er að fósturforeldri fremji brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða XVIII. kafla barnaverndarlaga gagnvart fósturbarni eða öðru barni.

Í ljósi þess sem fram kemur í úrskurði barnaverndarnefndar verður að leggja til grundvallar að ákvörðun hennar um slit á fóstursamningi við kærendur hafi verið reist á heimild 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga, sem áréttuð er í 3. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 804/2004, en ekki á því að rifta bæri fóstursamningnum tafarlaust vegna verulegra vanefnda kærenda á grundvelli 4. mgr. 32. gr. reglugerðarinnar.

Slit á ótímabundnum fóstursamningi á grundvelli heimildar 3. mgr. 77. gr. barnaverndarlaga er háð mati á aðstæðum með tilliti til þess hvað er barni fyrir bestu í samræmi við meginreglu 1. mgr. 4. gr. laganna. Ríkar ástæður þurfa að vera fyrir hendi til að slíta varanlegu fóstri í ljósi hagsmuna barnsins, einkum mikilvægi þess að það búi við stöðugleika í umönnun og fjölskyldutengslum. Ákvörðun þess efnis er stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því hvílir sú skylda á barnaverndarnefndum að sjá til þess að slík mál séu nægjanlega upplýst áður en slík ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Sama regla gildir í barnaverndarmálum, sbr. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga. Í 2. málsgrein sömu greinar kemur fram að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur og að henni skuli hraðað svo sem kostur er. Sú regla er í samræmi við viðtekna skýringu á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sem og málshraðareglu 9. gr. sömu laga.

Kærendur telja rannsókn barnaverndarnefndar hafa verið verulega ábótavant, einkum þar sem ekki var upplýst um atvik eftir að B skildi við drenginn í F-skóla X sl. Við úrlausn á þessu ber að hafa í huga að þegar barnaverndarnefnd tók hina kærðu ákvörðun lá fyrir tilkynning skólastjóra þann X þar sem fram kom að hjúkrunarfræðingur skólans hafi komið með drenginn á skrifstofu skólastjóra kl. 8.40 þar sem greinilegir áverkar voru á honum. Skýrði drengurinn þá frá því að B hefði tekið hann hálstaki vegna þess að hann hefði pissað undir þá um nóttina.

Af greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur verður ennig ráðið að starfsmenn Barnaverndar hafi komið á vettvang X sl. Hafa þeir eftir starfsmanni skólans að stuðningsfulltrúi þar hafi tekið eftir áverkanum og farið með drenginn til hjúkrunarfræðings. Mun drengurinn einnig hafa greint starfsmönnunum við þetta tækifæri frá því að B hafi tekið hann hálstaki og sýnt hvernig það eigi að hafa gerst. Nánari upplýsinga um þessa atburðarás var aflað með símtali við skólastjóra þann X. Þar er haft eftir skólastjóranum að stuðningsfulltrúi hafi fylgt drengnum í talþjálfun er hann mætti í skólann að morgni X, en talþjálfarinn hafi ekki verið við. Við það hafi stuðningsfulltrúinn tekið eftir áverkanum á hálsi drengsins.

Enn fremur lágu fyrir barnaverndarnefnd minnispunktar vegna rannsóknarviðtals í Barnahúsi, dags. X sl. Þar greindi drengurinn frá atvikum á sama hátt og að framan greinir, að B hafi verið reiður og tekið fast um hálsinn á sér með báðum höndum. Í viðtalinu mun drengurinn hafa sýnt með látbragði hvernig þetta átti að hafa gerst.

Að lokum lá fyrir vottorð barnalæknis, dags. X, um niðurstöðu skoðunar sem fram fór á drengnum X. sama mánaðar, auk ljósmynda af áverkanum. Í vottorðinu kemur fram að drengurinn hafi skýrt lækninum á sama hátt frá því hvernig hann fékk áverkann. Þar segir jafnframt að áverkar sjáist á hálsi sem lýkist helst "petechium eftir þrýsting". Þar kemur fram að þarna sé um "að ræða för sem gætu verið fingraför eða klórför", eða tvær "lesionir hægra megin á hálsi" og önnur heldur daufari vinstra megin. Í áliti læknisins kemur fram að greinanlegur áverki sé hægra megin á hálsi sem geti samrýmst lýsingu drengsins á hálstaki.

Auk framangreinds voru fyrirliggjandi lýsingar B á atvikum um morguninn þegar drengurinn var áminntur af honum fyrir að hafa dreift pissublautum fötum um íbúðina, hvernig hann hafi runnið til á leiðinni í skólann og B kippt honum upp í fallinu, sem og með hvaða hætti hann hafi skilið við drenginn í fatahengi skólans. Ítarlegar athugasemdir kærenda lágu jafnframt fyrir barnaverndarnefnd.

Þegar á allt framangreint er litið telur kærunefndin að barnaverndarnefnd hafi fullnægt skyldu sinni til að upplýsa það atvik með viðhlítandi hætti sem var tilefni ákvörðunar nefndarinnar um að fella fóstursamninginn úr gildi. Nægar upplýsingar lágu með öðrum orðum fyrir svo unnt væri að álykta að engar trúverðugar skýringar hefðu komið fram á áverkunum á hálsi drengsins aðrar en þær sem hann hafði ítrekað haldið fram, meðal annars í rannsóknarviðtali í Barnahúsi, um að B hafi tekið um hálsinn á sér. Sú frásögn fær einnig stoð í framangreindu vottorði barnalæknisins.

Kærunefnd telur að umrætt atvik hafi réttlætt tafarlaust inngrip af hálfu barnaverndarnefndar. Drengurinn virðist glíma við ADHD, en fyrir liggur að hann tekur lyf við því. Ekki er ástæða til að draga í efa að á meðan hann var í fóstri hjá kærendum hafi að mörgu leyti gengið vel og að honum hafi farið fram. Hins vegar verður ekki hjá því litið að drengurinn hefur þróað hjá sér afar neikvæða afstöðu til B, en hann virðist að mestu hafa haft daglega umsjón með drengnum. Atvikið X sl. var alvarlegt og ákvað Barnavernd Reykjavíkur að tilkynna málið til lögreglu X sl. Ætla verður að mjög erfitt geti reynst fyrir B að mynda jákvæð tengsl við drenginn eftir það sem á undan er gengið og hafa kærendur ekki sýnt fram á það hvernig það eigi að vera mögulegt. Í þessu ljósi og að teknu tilliti til hagsmuna drengsins telur kærunefndin ekki efni til að grípa til vægari úrræða en að fella fóstursamninginn úr gildi.

Ekki liggur því fyrir að hin umdeilda ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi verið haldin neinum þeim annmörkum sem gefa tilefni til þess að fella hana úr gildi. Því ber að hafna kröfum kærenda. Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann X, um að fella úr gildi fóstursamning þeirra og nefndarinnar frá X um varanlegt fóstur drengsins, C, verður því staðfestur.


Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá X um að fella úr gildi fóstursamning við A og B vegna drengsins C er staðfestur.

 

Ásmundur Helgason

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira