Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2015

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Föstudaginn 7. ágúst 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við dóttur hans, B, nr. 7/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 23. mars 2015 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. febrúar 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, B, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni Bvið föður sinn fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Skilyrði er að kærandi sé allsgáður og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi umgengni við föður sinn, A, fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur eða á öðrum þeim stað sem starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur treysta sér til að hafa eftirlit á. Skilyrði er að faðir sé edrú og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir. Símtöl eru ekki heimiluð.

Kærandi krefst þess að stúlkan hafi umgengni við hann fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn. Umgengni fari fram í húsnæði á vegum barnaverndar Reykjavíkur eða á öðrum stað sem ákveðinn sé fyrirfram og í samráði við alla aðila. Skilyrði verði að faðir sé allsgáður og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir. Eftirlit verði við upphaf og lok umgengni. Faðir hafi heimild til að tala við stúlkuna í síma einu sinni í mánuði.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af hálfu fósturforeldra stúlkunnar kemur fram í tölvupósti þeirra 20. júní 2015 til kærunefndarinnar að þau séu andsnúin því að kærandi hafi heimild til að tala við stúlkuna í síma og tilgreina ástæður fyrir því eins og vikið verður nánar að síðar.

I. Málavextir

B er þrettán ára gömul stúlka sem lýtur forsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Móðir hennar fór ein með forsjá hennar en afsalaði sér forsjánni með yfirlýsingu 28. maí 2008. Báðir foreldrar stúlkunnar áttu við vímuefnavanda að etja. Stúlkan fór í tímabundið fóstur frá júní 2007 til júní 2008 á meðan móðir hennar ætlaði að taka á vímuefnavanda sínum og bæta aðstæður sínar. Það gekk ekki eftir og fór B í varanlegt fóstur árið 2008 til móðurömmu sinnar og eiginmanns hennar sem bjuggu þá í Reykjavík en fluttu síðar í D. Fósturrof varð í júlí 2010 og fór stúlkan þá á Vistheimili barna. Í september 2010 fór hún í fóstur á heimili í E sem ætlað var að standa til 18 ára aldurs. Sú fósturráðstöfun gekk ekki sem skyldi og varð fósturrof í janúar 2014 og fór B þá á ný í umsjá móðurömmu og stjúpafa í D. Hún er nú í varanlegu fóstri hjá þeim.

Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 18. september 2012 var umgengni B við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári, þrjá tíma í senn og var kveðið á um eftirlit við upphaf og lok umgengni. Þá voru símatímar ákveðnir einu sinni í mánuði. Kærunefnd barnaverndarmála staðfesti úrskurðinn með úrskurði 16. janúar 2013.

Samkvæmt því sem fram hefur komið af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur hefur umgengni gengið að mestu leyti vel fyrir utan einstaka skipti þegar kærandi óskaði eftir fresti sem leiddi til þess að skipulag umgengninnar raskaðist. Að sögn barnaverndarnefndarinnar hafa föðurforeldrar og fjölskylda kæranda oftast verið með kæranda í umgengni hans og hann hefur verið með foreldrum sínum í umgengni þeirra við stúlkuna.

Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 13. maí 2014 var úrskurðað um umgengni föðurforeldra B við stúlkuna og var sá úrskurður staðfestur af kærunefnd barnaverndarmála 25. ágúst 2014. Með úrskurðinum var málinu jafnframt vísað til barnaverndarnefndar Reykjavíkur til meðferðar að nýju, þar sem kröfugerð fósturforeldra, sem laut að því að þeir treystu sér ekki til að skapa B öruggar og þroskavænlegar uppeldisaðstæður ef hún væri í samskiptum við kæranda og föðurfjölskylduna og lögðu til að slitið væri á alla umgengni, hafði ekki komið fram við meðferð málsins hjá barnaverndarnefndinni.

Í mati F sálfræðings 11. desember 2014, sem gert var í tilefni af því að barnaverndarnefndin hafði óskað eftir sálfræðilegu mati á líðan og afstöðu stúlkunnar til umgengni við föðurfjölskyldu, kemur fram að stúlkan hafi greint frá vanlíðan sinni vegna ósættis sem ríkti milli móður- og föðurfjölskyldu. Í matinu segir að samskipti móður- og föðurforeldra virtust slæm og virtist stúlkan mjög meðvituð um þennan ágreining. Samskipti við föður og föðurforeldra hafi reynst stúlkunni krefjandi og virtist sem hún hefði verið dregin inn í deilumál. Stúlkan sé orðin langþreytt á ósættinu sem hafi verið á milli móður- og föðurfjölskyldu. Í matinu kemur enn fremur fram að B virtist líða vel á fósturheimilinu og virtust góð tengsl vera á milli stúlkunnar og móðurömmu sem er fósturmóðir hennar. B þyki einnig vænt um föðurfjölskylduna og vilji hún halda tengslum við þau. Svo virtist hins vegar vera að B hefði verið beitt þrýstingi af hálfu föðurfjölskyldunnar um varanlega búsetu sem veki bæði upp sektarkennd og óöryggi hjá stúlkunni um framtíðina. B sé mjög meðvituð um það ósætti sem sé á milli föður- og móðurfjölskyldna sinna og óski eftir því að vera haldið utan þess.

Mál kæranda og dóttur hans var tekið fyrir á fundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 7. janúar 2015. Lagt var til að umgengni yrði breytt þannig að hún yrði fjórum sinnum á ári undir eftirliti í húsnæði Barnaverndar í tvær klukkustundir í senn, með þeim skilyrðum að kærandi væri allsgáður og myndi undirgangast vímuefnapróf ef þurfa þætti. Bókun af fundinum var kynnt kæranda 8. janúar 2015 en ekki náðist samkomulag við hann um breytingar á þeirri umgengni sem hafði verið.

Málið var af þessu tilefni lagt fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 3. febrúar 2015 en meðferð þess frestað að beiðni kæranda. Þann 17. febrúar 2015 var málið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndarinnar að nýju og lá þá fyrir tillaga starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur um umgengni kæranda við stúlkuna.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 17. febrúar 2015 eins og áður segir. Til að koma til móts við sjónarmið kæranda taldi barnaverndarnefndin að hagsmunir B mæltu því ekki í mót að umgengni verði allt að þrír tímar í hvert sinn. Þá gerði nefndin ekki athugasemdir við að umgengni fari fram utan húsnæðis Barnaverndar Reykjavíkur telji starfsmaður sem fer með eftirlit mögulegt að sinna því utan þess. Í hinum kærða úrskurði kemur enn fremur fram að starfsmenn Barnaverndar hefðu lagt til að umgengni færi fram með þeim hætti að hægt yrði að fyrirbyggja að rætt væri við stúlkuna um málefni er varði búsetu hennar og umgengni. Í úrskurðinum er vísað til greinargerðar starfsmannanna frá 21. janúar 2015 þar sem fram komi það mat að umgengni við kæranda og föðurforeldra hafi haft neikvæð áhrif á stúlkuna og valdið mikilli togstreitu. Af hálfu barnaverndarnefndarinnar var tekið undir mat starfsmannanna eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni kemur fram að B hafi verið vistuð í varanlegu fóstri á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá því í maí 2008. Erfiðlega hafi gengið hjá Barnavernd Reykjavíkur að ná stöðugleika í fósturvistun barnsins. Hún hafi verið vistuð hjá þremur mismunandi fósturforeldrum auk vistheimilis barna. Þá hafi rof orðið á fósturvistun í tvígang, fyrst hjá núverandi fósturforeldrum sem séu „móðurmóðir“ og sambýlismaður hennar og síðan í fósturvistun hjá fósturforeldrum í E. Þrátt fyrir þessa erfiðleika hafi starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur aldrei haft samband við kæranda með það fyrir augum að barnið verði vistað hjá honum eða öðrum í föðurfjölskyldu barnsins.

Umgengni samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 18. september 2012 hafi gengið vel að mati kæranda. Kærandi hafi nýtt sér alla símatíma sem í boði hafa verið og eingöngu í eitt skipti hafi hann ekki getað nýtt sér þá umgengni sem honum hafi boðist. Kærandi hafi ávallt skilað vímuefnaprófi fyrir umgengni og hafi þau undantekningarlaust verið neikvæð. Mótmæli kærandi staðhæfingum í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur þess efnis að hann sé virkur fíkniefnaneytandi, enda sé þar ekki byggt á raunverulegum gögnum heldur getgátum starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur.

Samkvæmt dagálum og upplýsingum í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur og öðrum framlögðum gögnum sé ljóst að umgengni hafi að meginstefnu til gengið vel. Varðandi síðustu umgengni taki starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur sérstaklega fram að B hafi verið ánægð í lok umgengni og kærandi jafnframt rólegur og ánægður. Í úrskurði barnaverndarnefndar og í fylgiskjölum með greinargerð starfsmanna Barnaverndar sé vísað til samskipta við B eftir umgengni 29. júní 2014. Þar komi fram að í kjölfar umgengninnar hafi B verið í uppnámi og dónaleg og sagst vilja búa hjá föðurfjölskyldu sinni, hún væri ósátt við fósturforeldra og sagði þá útiloka föðurfólkið frá samskiptum við sig. Í viðtali starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur við B hafi hún sagst vilja flytja til föðurfjölskyldu og hafi hún greint frá því að systir kæranda hafi sagt henni að það biði hennar alltaf herbergi hjá henni. Hafi B lýst því í kjölfarið að hún vildi hitta föðurfjölskyldu sína meira en hún gerði í dag. Þessi lýsing hafi verið borin undir föður kæranda, sem hafi neitað því að rætt hafi verið um að barnið flytti til einhvers í föðurfjölskyldu. Kærandi telur þá takmörkun á umgengni sem lýst sé í hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur öðru fremur vera vegna umræddrar lýsingar. Í úrskurði barnaverndarnefndarinnar sé eingöngu verið að taka fyrir umgengni hans við barnið en ekki allra í föðurfjölskyldu. Miðað við þær lýsingar sem þarna sé að finna sé ekkert sem bendi til þess að kærandi sjálfur hafi verið að reyna að hafa áhrif á barnið heldur hafi það hugsanlega verið aðrir meðlimir fjölskyldu hans. Á því geti kærandi ekki borið ábyrgð né eigi að takmarka umgengni hans við B með nokkrum hætti vegna þess. Það sé einnig í samræmi við bréf F sálfræðings sem hafi verið með B í meðferð undanfarin ár. Lýsi B þar eingöngu að foreldrar kæranda ræði búsetumál hennar ítrekað við sig en ekki kærandi sjálfur.

Afstaða fósturforeldra til umgengni kæranda við barnið liggi fyrir en þau vilji slíta öll tengsl kæranda við barnið. Telur kærandi afstöðu fósturforeldra afar neikvæða sem litist af persónulegum skoðunum þeirra á kæranda og föðurfjölskyldu almennt, en ljóst sé að samskipti móður- og föðurfjölskyldu hafi verið erfið. Kærandi telur að ekki eigi að líta til staðhæfinga eða afstöðu fósturforeldra að neinu leyti, enda hafi þeir verulega hagsmuni af því að slíta þessi tengsl. Með því verði minna óhagræði fyrir þá í tengslum við umgengni og komi jafnframt í veg fyrir að föðurfjölskylda verði valkostur til fósturvistunar barnsins.

Eins og sjá megi af kröfugerð kæranda séu eingöngu tvö atriði sem hann sé ósáttur við í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Annars vegar það að hann fái ekki símatíma við barnið og hins vegar að eftirlit sé með umgengni kæranda.

Kærandi telur engar röksemdir benda til þess að slíta eigi þau reglulegu tengsl sem hann hafi haft við barnið með símatímanum. Hann hafi nýtt umgengnina vel og ljóst sé að barnið vilji halda símatímunum áfram miðað við afstöðu hennar sem lýst sé í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og öðrum framlögðum skjölum. Þá beri að líta til þess að stúlkan sé orðin þrettán ára gömul, en börn á þessum aldri gangi almennt með síma. Telur kærandi fyrirsjáanlegt að barnið gæti haft samband við hann beint væru þessir reglulegu símatímar lagðir niður. Kærandi vilji ekki vera settur í þá stöðu að þurfa að slíta samtali við dóttur sína þar sem honum sé óheimilt að ræða við hana. Telur kærandi betra að allt sé uppi á borðinu og ef hann fengi slíkt símtal gæti hann sagt „að þetta væri hægt að ræða í næsta símatíma“. Þá telur kærandi jafnframt koma til greina að B yrði heimilað að hringja í kæranda að eigin frumkvæði í stað þess að fastir símatímar væru milli hennar og kæranda.

Þá telur kærandi eftirlit með umgengni ekki vera nauðsynlegt. Af úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur megi álykta að ástæða eftirlitsins sé fyrst og fremst sú afstaða starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að föðurfjölskylda reyni að hafa áhrif á B með þeim hætti að hún skyldi þrýsta á það að fá að búa hjá þeim. Kærandi telur að hann hafi sjálfur aldrei lagt að barninu með þeim hætti en vísbendingar um slíkt varði ekki kæranda sjálfan heldur aðra ættingja hans. Kærandi telur það ekki í samræmi við meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. 7. mgr. 4. gr., að takmarka umgengni hans af þessum sökum. Ákvörðun um umgengni við föðurforeldra og aðra ættingja hafi verið tekin á öðrum fundi barnaverndarnefndar og eigi hugsanlegt framferði þeirra ekki að hafa nein áhrif á umgengni kæranda við barnið.

Kærandi krefst þess að einungis verði tekið mið af sameiginlegum hagsmunum kæranda og barnsins. Nauðsynlegt sé að rökstyðja betur niðurstöðu barnaverndaryfirvalda og rannsaka það betur eigi að takmarka umgengni með þeim hætti sem gert sé í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Kærandi telur að hagsmunir stúlkunnar standi til þess að hún haldi tengslum við kæranda. Gögn málsins bendi eindregið til þess að hún sé í þörf fyrir slíka umgengni við kæranda og vilji hana verulega.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur 7. maí 2015 kemur fram að kærandi telur í fyrsta lagi áberandi að þar sé ekki reynt að hrekja staðhæfingar kæranda um að það hafi fyrst og fremst verið aðrir ættingjar hans en ekki hann sjálfur sem hafi reynt að hafa áhrif á B varðandi búsetu hennar. Ef sú staðhæfing kæranda teljist rétt og sönnuð geri það að mati kæranda að verkum að ekki skuli takmarka að nokkru leyti samvistir þeirra, svo sem með eftirliti í umgengni eða afnámi símatíma. Barnaverndarnefnd hafi önnur úrræði til þess að útiloka umrædda ættingja frá umgengni við barnið, enda sé í úrskurði barnaverndarnefndar eingöngu verið að fjalla um umgengni kæranda við barnið en ekki umgengni annarra ættingja. Þá skorti jafnframt alla umfjöllun í greinargerð barnaverndarnefndar um ástæður þess að nauðsynlegt hafi þótt að takmarka umgengni með því að eftirlit yrði með umgengni sem og takmörkun á símatíma. Telur kærandi þetta benda til þess að ekki séu til staðar raunveruleg rök sem bendi til þess að takmarka þurfi umgengni að þessu marki.

Í greinargerð barnaverndarnefndar komi fram að ekki hafi legið fyrir ný talsmannsskýrsla. Jafnframt segi þar að ávallt hafi komið fram hjá B að hún vilji hitta foreldra sína oftar og í eldri talsmannsskýrslum hafi komið fram að hún hafi ýmist viljað hafa óbreyttan símatíma eða viljað fá að hringja í kæranda þegar hún sjálf vilji. Kærandi telur þá málsmeðferð barnaverndarnefndar að hafa ekki aflað talsmannsskýrslu brjóta í bága við rannsóknarreglu 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig til hliðsjónar 3. mgr. 46. gr. laganna. Stúlkan sem um ræðir sé orðið það stálpuð að eðlilegt sé að líta með ríkum hætti til vilja hennar þegar tekin sé ákvörðun um umgengni hennar við kæranda. Tillaga barnaverndarnefndar til takmörkunar á umgengni, hvað varði símatíma og eftirlit í umgengni, hafi ekki verið borin undir B. Kærandi telur að ef hennar vilji hefði verið kannaður til þessara ágreiningsatriða hefði það getað leitt til annarrar niðurstöðu hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Kærandi telur því koma til greina að vísa málinu aftur til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju, sbr. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

III. Afstaða B

Í sálfræðiskýrslu F frá 11. desember 2014, sem kallað var eftir með tilliti til umgengni og samskipta við föðurfólk hennar, kemur fram að B hafi greint frá vanlíðan vegna ósættis sem ríki milli móður- og föðurfjölskyldu. Stúlkan segi sálfræðingi að hún fái lítið að hitta föðurfólkið sitt sem vilji umgangast hana meira. Stúlkan segist náin frænku sinni í föðurætt og standi henni til boða að búa hjá henni. Þá kemur fram að í umgengni og í símtölum leyni föðurforeldrar ekki vonbrigðum sínum og óánægju með stöðu mála hvað varðar búsetu B og umgengni. Veki þetta upp mikla sektarkennd hjá stúlkunni sem finnist hún valda föðurfólkinu vonbrigðum. Þegar sálfræðingur hafi rætt um samskipti B við föðurforeldra hennar hafi stúlkan brotnað niður og virtist sem samræður þeirra á milli snúi mjög að óánægju föðurforeldra yfir núverandi aðstæðum um búsetumál. Samskipti við föður og föðurforeldra hafi reynst stúlkunni krefjandi og virtist sem hún sé dregin inn í deilumál. Samskipti stúlkunnar við móðurömmu sem snúi að föðurfólki reynist henni einnig krefjandi. Kemur fram að B sé orðin langþreytt á ósættinu sem hafi verið á milli móður- og föðurfjölskyldu. Hún hafi verið í pattstöðu og leitist við að þóknast öllum aðilum en aðstæður hafi eingöngu versnað. Fram kemur að stúlkan túlki reiði og pirring hjá fjölskyldumeðlimum vegna umgengni og búsetumála persónulega, líkt og að hún sjálf beri ábyrgð á að deilurnar skuli vera til staðar. B finni fyrir ábyrgðarkennd vegna ósættis og edrúmennsku foreldra.

Í sálfræðimatinu kemur fram að B virðist líða vel á fósturheimilinu og virtust vera góð tengsl á milli stúlkunnar og móðurömmu hennar. Stúlkunni þyki einnig vænt um föðurfjölskylduna og vilji halda tengslum við þau. B virtist hins vegar vera beitt þrýstingi af þeirra hálfu um varanlega búsetu sem veki bæði upp sektarkennd og óöryggi um framtíðina. Stúlkan sé mjög meðvituð um ósættið hjá öllum aðilum málsins og óski eftir því að vera haldið utan deilumála. Mikilvægt sé að verða við óskum stúlkunnar og að B búi við streituminni aðstæður þar sem hún verði ekki sett inn í deilumál sem teljist á engan hátt aldurssvarandi fyrir barn á hennar aldri. Umgengni við fjölskyldumeðlimi sé ætlað að auka frekari tengsl við barn á jákvæðan hátt.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 9. apríl 2015 segir að samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem eru því nákomnir. Þar sé kveðið á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Skuli taka mark á því hvað þjóni hagsmunum barnsins best og hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Þegar barni sé ráðstafað í varanlegt fóstur vegna vanhæfni forsjáraðila verði almennt að gera ráð fyrir því að forsjáraðili hafi ekki verið fær um að búa barninu viðunandi uppeldisaðstæður.

B sé vistuð í varanlegu fóstri og sé ekki annað fyrirséð en að hún verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til það verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki.

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 17. febrúar 2015 að mikilvægt væri að skapa B stöðugleika og öryggi. Hafi það verið mat barnaverndarnefndarinnar að slíkt hafi verið nauðsynlegt áfram til að hún fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem hún búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

Í ljósi þessa og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé því gerð sú krafa að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V. Afstaða fósturforeldra

Kærunefndin óskaði eftir afstöðu fósturforeldra B og með tölvupósti 20. júní 2015 gerðu þeir grein fyrir henni. Segja fósturforeldrarnir afstöðu sína varðandi símtöl kæranda við B vera skýra eins og fram hafi komið á fyrri stigum málsins. Þeir séu alfarið andsnúnir símtölum þar sem kærandi hafi ekki nýtt símatíma á eðlilegan hátt heldur verið að ræða hluti við B sem snúi að því að gera hana andsnúna fósturforeldrum og skapa vanlíðan og óöryggi hjá henni í fóstrinu.

VI. Niðurstaða

B er þrettán ára gömul stúlka og hefur hún verið í varanlegu fóstri frá 28. maí 2008. Móðir stúlkunnar fór ein með forsjá hennar en afsalaði sér forsjánni með yfirlýsingu 28. maí 2008. Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. febrúar 2015 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar Reykjavíkur eða öðrum þeim stað sem starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur treysta sér til að hafa eftirlit á. Jafnframt er sett það skilyrði að faðir sé allsgáður og undirgangist vímuefnapróf ef þurfa þykir. Símtöl eru ekki heimiluð.

Mál þetta lýtur að kröfum kæranda um rýmri umgengni við B. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag gerir barnaverndarnefnd skriflegan samning við þá sem umgengni eigi að rækja. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Kærandi vísar til kröfugerðar sinnar í málinu en samkvæmt henni sé hann eingöngu ósáttur við tvö atriði í hinum kærða úrskurði. Annars vegar sé hann ósáttur við að fá ekki símatíma við barnið og hins vegar að eftirlit sé með umgengninni.

Kærandi telur engin rök fyrir því að slíta þeim reglulegu tengslum sem hann hafi haft við barnið með símatímanum. Hann hafi nýtt umgengnina vel og ljóst sé að barnið vilji halda símatímunum áfram miðað við afstöðu hennar sem lýst sé í greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og öðrum framlögðum gögnum. Þá beri að líta til þess að stúlkan sé orðin þrettán ára gömul, en börn á þessum aldri gangi almennt með síma. Hún gæti því sjálf haft samband við kæranda verði þessir reglulegu símatímar lagðir niður. Þá telur kærandi jafnframt koma til greina að B yrði heimilað að hringja í kæranda að eigin frumkvæði í stað þess að fastir símatímar væru milli hennar og kæranda.

Kærandi vísar jafnframt til þess að eftirlit með umgengni sé ekki nauðsynlegt. Af úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur megi ráða að ástæða eftirlitsins sé fyrst og fremst sú afstaða starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að föðurfjölskylda reyni að hafa áhrif á B með því að þrýsta á það að hún fái að búa hjá þeim. Kærandi hafi sjálfur aldrei lagt slíkt að barninu. Hugsanlegt framferði föðurforeldra og annarra ættingja eigi ekki að hafa nein áhrif á umgengni kæranda við barnið.

Kærandi telur hagsmuni barnsins vera þá að hún haldi tengslum við kæranda. Gögn málsins bendi eindregið til þess að hún sé í þörf fyrir umgengni við kæranda og vilji hana. Röksemdir fyrir niðurstöðu barnaverndarnefndarinnar séu ófullnægjandi og rannsaka þurfi málið betur verði umgengni takmörkuð með þeim hætti sem gert sé í hinum kærða úrskurði.

Kærandi vísar enn fremur til þess að ekki hafi legið fyrir ný skýrsla talsmanns barnsins. Kærandi telur þá málsmeðferð barnaverndarnefndar að hafa ekki aflað talsmannsskýrslu brjóta í bága við rannsóknarreglu 2. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. einnig til hliðsjónar 3. mgr. 46. gr. laganna. Stúlkan sem um ræði sé orðið það stálpuð að eðlilegt sé að líta með ríkum hætti til vilja hennar þegar tekin sé ákvörðun um umgengni hennar við kæranda. Tillaga barnaverndarnefndar til takmörkunar á umgengni, hvað varði símatíma og eftirlit í umgengni, hafi ekki verið borin undir B. Kærandi telur að ef hennar vilji hefði verið kannaður til þessara ágreiningsatriða hefði það getað leitt til annarar niðurstöðu hjá barnaverndarnefndinni. Kærandi telur því koma til greina að vísa málinu aftur til barnaverndarnefndar til meðferðar að nýju, sbr. 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er vísað til þess að í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan stúlkunnar og gengi á fósturheimilinu hafi nefndin talið á fundinum 17. febrúar 2015 mikilvægt að skapa stúlkunni stöðugleika og öryggi.

Af hálfu fósturforeldra B er vísað til skýrrar afstöðu þeirra varðandi símtöl kæranda við B sem áður hafi komið fram. Þau séu alfarið mótfallin símtölum þar sem kærandi hafi ekki nýtt símatíma á eðlilegan hátt heldur hafi hann verið að ræða hluti við B sem snúi að því að gera hana andsnúna fósturforeldrum og skapa vanlíðan og óöryggi hjá henni í fóstrinu.

Af gögnum málsins verður ekki séð að stúlkunni hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið hvað varðar þær kröfur sem kærandi gerir í málinu en samkvæmt 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga skal gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn málsins.

Varðandi símtöl kæranda við stúlkuna liggur ekki fyrir með óyggjandi hætti að þau hafi haft slæm áhrif á hana eða valdið henni vanlíðan og óöryggi en staðhæfingum kæranda og fósturforeldranna ber ekki saman um það. Stúlkan hefur sjálf lýst því samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins að hún vilji fá að tala við kæranda í síma og hringja í foreldra sína þegar hana langar til. Að þessu virtu verður að telja að nauðsynlegt hafi verið að gefa stúlkunni kost á að tjá sig um það hvaða áhrif símtölin við kæranda hefðu á líðan hennar, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, eða að minnsta kosti ganga úr skugga um það betur en gert var af hálfu barnaverndar­nefndarinnar hvort símtölin við kæranda stríddu gegn hagsmunum og þörfum stúlkunnar, sbr. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Kærunefndin telur að brotið hafi verið gegn framangreindum lagareglum þegar tekin var ákvörðun um það af hálfu barnaverndarnefndarinnar að leyfa ekki símtöl kæranda við stúlkuna án þess að gefa henni kost á að tjá sig um að til stæði að heimila ekki símtöl þeirra í milli og hverjar ástæður barnaverndarnefndin taldi vera fyrir því. Með því að gefa stúlkunni kost á að tjá sig að þessu leyti var unnt að koma því til leiðar að tekið yrði réttmætt tillit til skoðana hennar við úrlausn málsins.  

Þá verður af gögnum málsins ráðið að stúlkan er ósátt við þá togstreitu sem ríkt hefur milli móður- og föðurfjölskyldu hennar. Stúlkan er í varanlegu fóstri og á viðkvæmum aldri. Hún hefur greinilega þörf fyrir að henni verði haldið utan við þann ágreining sem virðist halda áfram milli fósturforeldranna og föðurfjölskyldunnar. Hagsmunir hennar eru þeir að hún þurfi ekki að bera ábyrgð á vandamálum er að þessu lúta en hún hefur sjálf lýst því að hún sé orðin langþreytt á ósættinu milli móður- og föðurfjölskyldu hennar. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður að líta svo á að eftirlit með umgengni sé ætlað að þjóna þeim tilgangi að hægt verði að fyrirbyggja að rætt sé við stúlkuna um málefni er varða búsetu hennar og umgengni. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þau vandamál hafi komið upp í umgengni hennar við kæranda að öðru leyti en því að fram kemur að föðurfjölskylda komi líka í umgengni kæranda við stúlkuna sem talið er að valdi henni óöryggi þar sem hún sé látin hlusta á óánægju föðurfjölskyldunnar varðandi búsetu stúlkunnar og umgengni við hana sem veki upp mikla sektarkennd hjá stúlkunni og óöryggi. Verður ekki séð að stúlkunni hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um málið hvað þetta varðar áður en hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Var það þó nauðsynlegt þannig að unnt væri að meta með réttu hvort til bóta væri og í samræmi við hagsmuni stúlkunnar og þarfir að umgengni hennar við kæranda yrði undir eftirliti og til þess að unnt væri að taka réttmætt tillit til skoðana hennar hvað það varðar.

Með tillit til þessa leiða framangreindir ágallar á málsmeðferðinni til þess að fella ber hinn kærða úrskurð úr gildi. Samkvæmt 4. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga getur kærunefndin jafnframt vísað málinu til meðferðar að nýju hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur þar sem bætt verði úr þeim ágöllum á málsmeðferðinni sem að framan er lýst. Þar sem hinn kærði úrskurður hefur verið felldur úr gildi ber barnaverndarnefndinni að taka afstöðu til krafna kæranda og leysa þar með úr þeim. Með vísan til þessa er málinu vísað til barnaverndar­nefndarinnar til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. febrúar 2015 varðandi umgengni A við dóttur hans, B, er felldur úr gildi og málinu vísað til barnaverndarnefndarinnar til meðferðar að nýju.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira