Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 8/2015

Umgengni

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

 

Föstudaginn 7. ágúst 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur vegna umgengni við börn hans, B og C, nr. 8/2015.

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

Með bréfi 8. apríl 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2015, vegna umgengni kæranda við börn sín, B, og C, til kærunefndar barnaverndarmála. Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni B og C við kæranda einu sinni í mánuði undir eftirliti í gegnum samskiptaforritið Skype í allt að hálftíma í senn. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að systkinin B, og C, hafi umgengni við föður sinn A, einu sinni í mánuði undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Umgengni fari fram í gegnum samskiptaforritið Skype og vari í allt að hálftíma í senn.

Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd barnaverndarmála úrskurði að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki lögsögu vegna málefna barna kæranda. Verði ekki á það fallist gerir kærandi þá kröfu að honum verði gert heimilt að hafa samband við börn sín í gegnum samskiptaforritið Skype oftar en einu sinni í mánuði, eftir mati kærunefndarinnar.

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að afstaða fósturforeldra barnanna til umgengni þeirra við kæranda sé jákvæð.

I. Málavextir

B er fæddur X og C er fædd Y. Er B því X ára gamall og C Y ára gömul. Þau lúta bæði forsjá kæranda en eru í umsjá barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Systkinin hafa verið vistuð utan heimilis á vegum Barnaverndar Reykjavíkur frá X er móðir þeirra lést, en kærandi er grunaður um að hafa orðið valdur að dauða hennar og hefur verið í haldi lögreglu frá þeim tíma. Er kærandi nú vistaður á E. Systkinin voru vistuð á vegum Barnaverndar Reykjavíkur á Vistheimili barna og hjá F frá 28. september 2014 en frá 20. nóvember 2014 hafa börnin verið í vistun á vegum Barnaverndar Reykjavíkur hjá móðurforeldrum sínum í G. Kærandi hefur skrifað undir yfirlýsingu um samþykki fyrir vistun barnanna til 1. október 2015.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að frá 28. september 2014 hafi B hitt kæranda einu sinni og þrisvar sinnum átt umgengni við hann í gengum samskiptaforritið Skype. Frá sama tíma hefur C hitt kæranda tvisvar sinnum og þrisvar sinnum átt umgengni í gengum Skype. Samkvæmt göngum málsins fór umgengni barnanna við kæranda fram 30. október 2014 í samræmi við bókun meðferðarfundar frá 29. október 2014. Fór umgengnin fram undir eftirliti félagsráðgjafa og sálfræðings Barnaverndar Reykjavíkur á E og stóð yfir í klukkustund. Var túlkur viðstaddur sem túlkaði samskipti kæranda við systkinin. Þá voru starfsmenn E og ...læknir einnig viðstödd umgengnina. Samkvæmt því sem kemur fram í hinum kærða úrskurði og gögnum málsins grét kærandi mikið þegar hann sá börnin og á meðan umgengni stóð. C hljóp strax í faðm föður síns og virtist ánægð að sjá hann, var blíð og góð við hann og reyndi að hugga hann og gleðja er hann grét. B virtist mun óöruggari og fór hikandi til kæranda þegar hann bað hann um að koma til sín. Virtist B ekki líða vel í þessum aðstæðum og horfði mikið á fólkið sem var viðstatt umgengnina. Hann grét tvisvar í umgenginni og virtust aðstæður hafa haft áhrif á hann en hann spurði endurtekið hvað allt þetta fólk væri að gera þarna og spurði einnig endurtekið hvort einhver af þeim væri frá lögreglunni. Við lok umgengninnar ætlaði B að fara án þess að kveðja kæranda en faðmaði hann svo þegar kærandi tók hann í faðm sér en honum virtist liggja á að fara sem fyrst úr aðstæðunum.

Þá er rakið í úrskurðinum að þegar fyrir lá að börnin yrðu vistuð í G óskaði kærandi eftir umgengni við þau til þess að kveðja þau. B var spurður að því hvort hann myndi vilja eiga umgengni við kæranda og greindi hann frá því að honum hefði fundist nóg að hafa hitt kæranda einu sinni og sagðist ekki vilja hitta hann aftur. Gat hann ekki gefið skýringar á því hvers vegna hann vildi ekki hitta kæranda. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 14. nóvember 2014 var fjallað um beiðni kæranda um umgengni við börnin. Í bókun frá fundinum kom fram að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur töldu það ekki þjóna hagsmunum drengsins að vera þvingaður til að hitta kæranda aftur. Hins vegar virtist umgengnin ekki hafa haft neikvæð áhrif á C og var á meðferðarfundi samþykkt að kærandi fengi umgengni við hana í klukkustund 17. nóvember 2014. Ákveðið var að umgengnin myndi fara fram undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur á E.

Umgengni kæranda við C fór fram undir eftirliti sálfræðings Barnaverndar Reykjavíkur og gekk hún vel. Kærandi grét mun minna en í fyrri umgengni og lék hann sér einnig meira við stúlkuna en þá. Mun færri voru viðstaddir umgengnina en áður. C var glaðleg og blíð við kæranda og virtist hún vera mjög ánægð með þær gjafir sem hún fékk frá kæranda.

Frá því að börnin voru vistuð á heimili móðurforeldra í G hafa þau alls fjórum sinnum átt viðtal við kæranda í gegnum Skype, eins og kemur fram í hinum kærða úrskurði. Í fyrsta skiptið 25. desember 2014, án vitundar Barnaverndar Reykjavíkur. Þá hafði systir kæranda samband við móðurömmu barnanna fyrir kæranda. Óskaði hún eftir því að börnin fengju að tala við kæranda í gegnum Skype um jól og urðu móðurforeldrar við því. Samkvæmt upplýsingum frá móðurforeldrum gekk umgengnin vel.

Önnur umgengnin fór fram 15. janúar 2015 í gegnum Skype og var starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur viðstaddur ásamt G túlki og hjúkrunarfræðingi á E. Sú umgengni gekk að mestu leyti vel og virtust börnin vera ánægð með að eiga samskipti við kæranda. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur ræddi við móðurömmu í síma 20. janúar 2015 og sagði hún að börnunum hefði liðið vel eftir umgengnina. Hún sagði að B hefði ekki verið sérlega spenntur fyrir umgengnina en var síðan sáttur þegar til kom. Í umgengninni spurði C um móður sína og kærandi sagði að hún hefði „gert ó ó“. Móðuramma var óánægð með að hann hefði útskýrt andlát móður barnanna með þessum hætti. Að lokinni umgengni var rætt við föður og hann beðinn um að greina ekki frá andláti móður barnanna með þessum hætti og tók kærandi þessum leiðbeiningum vel.

Þriðja umgengnin fór fram í gegnum Skype 16. febrúar 2015. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur og sálfræðingur voru viðstaddir umgengnina, ásamt túlki og hjúkrunarfræðingi á E. B átti afmæli þann dag sem umgengnin fór fram og snérist samtalið að mestu um það. Þegar tuttugu mínútur voru liðnar af samtali barnanna og kæranda virtust bæði börnin og kærandi vera búin að fá nóg af samtalinu og lauk því stuttu síðar. Í hinum kærða úrskurði segir jafnframt að í viðtali við móðurömmu í gegnum Skype í kjölfar umgengninnar hafi komið fram að umgengnin virtist ekki hafa raskað ró barnanna og virtist þeim líða vel eftir umgengnina.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir því við Barnavernd Reykjavíkur að umgengni yrði einu sinni í viku og var málið tekið fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 21. janúar 2015. Niðurstaða fundarins var að umgengni yrði einu sinni í mánuði í gegnum Skype undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur en ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 17. mars 2015 þar sem lögmaður kæranda mætti á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir sjónarmiðum kæranda. Fyrir fundinum lá tillaga starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur um að umgengni yrði einu sinni í mánuði í hálfa klukkustund í gegnum Skype undir eftirliti. Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni barnanna í tímabundnu fóstri var hinn kærði úrskurður kveðinn upp 17. mars 2015, eins og áður segir.

Fjórða umgengnin fór fram 16. apríl 2015 í gegnum Skype á E og eins og áður var starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur viðstaddur ásamt túlki. Samkvæmt dagál vegna eftirlits í umgengni gekk umgengnin að mestu vel og virtust börnin kát að ræða við kæranda. Í lok viðtalsins sagði drengurinn að hann vissi að kærandi hefði kyrkt móður sína. Kom þetta kæranda verulega á óvart. Sagði drengurinn að amma hans hefði sagt honum það, en kærandi sagði við drenginn að þetta væri ekki rétt. Kæranda var leiðbeint varðandi það að kveðja börnin og varð hann við því og kvaddi þau á léttum nótum þrátt fyrir óánægju með það sem drengurinn hafði sagt. Eftir umgengnina skrifaði kærandi undir samþykki fyrir vistun til 16. maí 2015 og aftur til 1. október 2015.

Í kæru sinni vísar kærandi til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði. Er því ekki ágreiningur um það sem þar kemur fram.

II. Afstaða kæranda

Í kærunni kemur fram að kærandi byggi kröfu sína varðandi lögsöguleysi barnaverndarnefndar Reykjavíkur á þeirri málsástæðu að í 2. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga komi fram að lögin taki til allra barna, sem séu á yfirráðasvæði íslenska ríkisins. Í tilviki barna kæranda, sem séu G ríkisborgarar, þá dvelji þau nú utan þess svæðis, þ.e. þau dvelji hjá móðurömmu í G og ekkert sem bendi til annars á þessari stundu en að um framtíðardvöl sé að ræða.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi hafnað þessari málsástæðu kæranda með vísan til 1. og 4. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga. Þarna gæti misskilnings hjá barnaverndarnefndinni þar sem framangreind ákvæði eigi eðli máls samkvæmt eingöngu við samskipti milli barnaverndarnefnda í mismunandi umdæmum á Íslandi. Fortakslaust ákvæði 2. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga taki af öll tvímæli varðandi lögsögu barnaverndarnefnda. Við flutning barna kæranda til ættingja í G hafi lögsagan fallið niður. Það sé því ekki í verkahring barnaverndarnefndar Reykjavíkur að taka ákvarðanir varðandi samskipti kæranda við börnin.

Ákveði kærunefnd barnaverndarmála að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi lögsögu í málinu geri kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og að kæranda verði heimilt að hafa samband við börnin oftar, allt eftir mati kærunefndarinnar. Öll samskipti milli barnanna og kæranda hafi gengið vel, fyrir utan fyrstu samskiptin sem hafi reynt á eldra barnið og kæranda. Þrátt fyrir þann voðaatburð, sem leyst hafi upp heimili barnanna, þá sé mikilvægt að tengsl milli þeirra og kæranda rofni ekki, en veruleg hætta sé á því, ef samskipti verði svo stopul eins og ákveðið sé í hinum kærða úrskurði.

Kærandi meti það svo, eftir að hafa rætt við börnin og móður sína, sem búi skammt frá dvalarstað barnanna, að þeim líði vel og dafni vel hjá móðurömmunni. Þó svo að samskiptin verði tíðari, þá telji kærandi að það muni ekki raska jafnvægi og vellíðan barnanna. Fer kærandi þess á leit við kærunefndina að hann fái að hafa samskipti við börnin í gegnum samskiptaforritið Skype a.m.k. vikulega eða í það minnsta oftar en kveðið sé á um í hinum kærða úrskurði.

Sá möguleiki blasi við að kærandi verði vistaður í fangelsi eða á viðeigandi stofnun á Íslandi næstu árin og muni þar af leiðandi ekki ná fundum barnanna í persónu. Styðji þetta kröfu hans um rýmri samskipti milli hans og barna hans.

III. Afstaða B og C

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að sökum ungs aldurs barnanna hafi þeim ekki verið skipaður talsmaður. Þar kemur einnig fram að starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi í tvígang verið viðstaddir umgengni barnanna við kæranda í gegnum Skype. Hafi börnin virst ánægð að eiga samskipti við kæranda á Skype og hafi þau fagnað honum. Í viðtali starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við börnin í gegnum Skype 24. febrúar 2015 hafi þau verið spurð út í umgengni þeirra við kæranda. Aðspurður hvort B hefði fundist gaman í umgengninni svaraði hann því játandi. Þegar B var spurður nánar út í það sagðist hann ekki vilja tala aftur við föður sinn, án þess að geta útskýrt það frekar. C tjáði sig ekki um umgengni við föður.

IV. Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Í greinargerð barnaverndarnefndar Reykjavíkur til kærunefndarinnar 5. maí 2015 kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga eigi barnaverndarnefnd í umdæmi þar sem barn eigi fasta búsetu úrlausn um málefni þess. Fyrir liggi að börn kæranda hafi verið búsett og með lögheimili hér á landi að H þegar móðir þeirra lést og faðir þeirra hafi verið handtekinn. Hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur því haft úrlausn um málefni þeirra samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Börnin hafi verið vistuð á vegum barnaverndarnefndarinnar hjá móðurforeldrum þeirra í G með samþykki kæranda. Í 4. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga komi fram að ef barnaverndarnefnd ráðstafi barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari hún áfram með málið. Í frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum komi fram í athugasemdum við 4. mgr. 15. gr., þar sem fjallað er um ábyrgð barnaverndarnefndar á barni eftir að hún hefur ráðstafað því í fóstur eða vistun í annað umdæmi, að gert sé ráð fyrir því að nefndin beri áfram fulla ábyrgð á barninu en hún geti hins vegar farið þess á leit að barnaverndarnefnd í dvalarumdæmi barnsins beri tilteknar skyldur.

Að mati barnaverndarnefndarinnar komi því skýrt fram í barnaverndarlögum, sbr. umfjöllun að framan, að lögsaga málsins heyri undir barnaverndarnefnd Reykjavíkur þar sem börnin hafi verið búsett í umdæmi hennar þegar til vistunar utan heimilis kom og þótt þau séu nú vistuð í öðru landi á vegum nefndarinnar breyti það ekki þeim heimildum. G ríkisborgararéttur hafi heldur ekki þau áhrif að börnin séu undanskilin lögsögu nefndarinnar. Krefst barnaverndarnefndin því þess að kærunefnd barnaverndarmála staðfesti lögsögu barnaverndarnefndar Reykjavíkur í málum barnanna.

Hvað varðar umgengni kæranda við börn sín segir hann að börnin hafi alls fjórum sinnum átt umgengni við hann í gegnum Skype frá því að þau hafi farið til G. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið viðstaddur þá umgengni ásamt túlki. Börnin hafi virst ánægð að eiga samskipti við föður sinn. Samtölin hafi staðið yfir í 20 til 30 mínútur og virtust hvorki börnin né kærandi hafa haft úthald í lengri samtöl. Í viðtali starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við drenginn í gegnum Skype í lok febrúar 2015 hafi komið fram að hann vildi ekki hitta föður sinn aftur í gegnum Skype, en drengurinn hafi ekki getað útskýrt það nánar.

Kærandi hafi óskað eftir því að umgengni hans við börnin yrðu vikuleg í gegnum Skype. Ekki hafi náðst samkomulag við kæranda um umgengni við börnin í tímabundnu fóstri og hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur 17. mars 2015.

Fyrir fundinum hafi legið greinargerð starfsmanna frá 11. mars 2015 þar sem fram komi það mat að rök séu fyrir því að regluleg umgengni verði á milli barnanna og kæranda. Börnunum virtist líða vel í umgengninni og eftir umgengnina. Þau hafi fagnað kæranda þegar þau hafi átt við hann umgengni í gegnum Skype. Börnin hafi búið á heimili kæranda til 28. september 2014 og virtust vera tengd honum. Í greinargerðinni sé lagt til að kærandi eigi mánaðarlega umgengni við börnin undir eftirliti starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur. Lögmaður kæranda hafi mætt á fund barnaverndarnefndarinnar og gert grein fyrir sjónarmiðum kæranda. Komið hafi fram að lögmaðurinn telji málið falla utan lögsögu Barnaverndar Reykjavíkur þar sem um G ríkisborgara sé að ræða sem séu vistuð í G. Hafi hann vísað til 2. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga máli sínu til stuðnings. Kærandi hafi farið fram á rýmri Skype umgengni þar sem sú umgengni hafi gengið vel. Komið hafi fram að kærandi sé undir handleiðslu sálfræðings og sé betur settur nú en áður. Vonast sé til að kærandi verði dæmdur ósakhæfur. Fram hafi komið hjá lögmanninum að kærandi sé opinn fyrir meiri umgengni þó svo hún verði ekki einu sinni í viku eins og hann óski eftir. Kærandi sé sáttur við vistun barnanna hjá móðurforeldrum þeirra.

Í bókun sinni frá 17. mars 2015 hafi barnaverndarnefnd Reykjavíkur tekið undir mat starfsmanna og telji það þjóna hagsmunum barnanna að umgengni verði einu sinni í mánuði undir eftirliti og standi ekki lengur en í hálftíma í senn. Umgengnin fari fram í gegnum samskiptaforritið Skype. Að mati nefndarinnar gæti tíðari umgengni skapað óþarfa álag á börnin og fósturheimilið. Börnin hafi þurft að þola miklar breytingar á högum sínum eftir fráfall móður sinnar og sé því öryggi og ró á fósturheimilinu mikilvægur þáttur í því að aðstoða þau við að ná stöðugleika og fótfestu í lífínu á ný.

Með vísan til gagna málsins og með hagsmuni barnanna að leiðarljósi sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

V.A fstaða fósturforeldra

Af gögnum málsins má ráða að afstaða fósturforeldra til umgengni barnanna við kæranda sé jákvæð. Í dagál vegna viðtals við móðurömmu frá 29. desember 2014 kemur fram að fósturforeldrar séu jákvæðir gagnvart umgengni í gegnum Skype og sagðist hún myndi verða við því sem yrði ákveðið varðandi það. Í bókun meðferðarfundar frá 7. janúar 2015 kemur einnig fram að fósturforeldrarnir hafi ekki ákveðnar skoðanir á því hversu oft umgengni eigi að vera.

VI. Niðurstaða

B er X ára gamall drengur og C er Y ára gömul stúlka og hafa þau verið vistuð utan heimilis á vegum Barnaverndar Reykjavíkur síðan 28. september 2014 en móðir þeirra lést þann dag og er kærandi grunaður um að hafa orðið valdur að dauða hennar. Hefur kærandi verið í haldi lögreglu frá þeim tíma og er nú vistaður á E. Ekki liggur fyrir úrlausn dómstóla í máli kæranda. Frá 20. nóvember 2014 hafa börnin verið vistuð á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur hjá móðurforeldrum í G. Kærandi hefur með yfirlýsingum samþykkt vistun barnanna á vistheimili eða fósturheimili á vegum barnaverndarnefndarinnar til 1. október 2015. Enn fremur eru í gögnum málsins leyfi Barnaverndarstofu fyrir vistun barnanna á heimili móðurforeldra þeirra, annars vegar leyfi 1. apríl 2015, sem gildir frá 1. desember 2014 til 1. júní 2015, og hins vegar leyfi 30. júní 2015 sem gildir frá 2. júní 2015 til 2. september 2015.

Með hinum kærða úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 var umgengni barnanna við kæranda ákveðin einu sinni í mánuði undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur. Með úrskurðinum var enn fremur ákveðið að umgengnin fari fram í gegnum samskiptaforritið Skype og vari í allt að hálftíma í senn. Kærandi krefst þess að umgengni við börnin verði ákveðin oftar, eftir mati kærunefndar barnaverndarmála.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála eftir því sem kveðið er á um í lögunum. Kærunefndin getur samkvæmt 4. mgr. 51. gr. ýmist staðfest úrskurð barnaverndarnefndar að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eð henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Kröfu kæranda um að kærunefndin úrskurði að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki lögsögu vegna málefna barnanna verður að skýra með hliðsjón af þessu þannig að þar sem barnaverndarnefndin hafi ekki lögsögu í málinu beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Börn kæranda fóru á vistheimili barna 28. september 2014 eins og þegar hefur verið rakið. Hafa þau frá þeim tíma verið vistuð á vistheimili eða fósturheimili á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur með samþykki kæranda. Heimild til þessa úrræðis er í b-lið 1. mgr. 25. gr. barnaverndarlaga. Með því að vista börnin tímabundið í G hjá móðurafa þeirra og -ömmu gildir ekki um þá ráðstöfun að börnin eigi ekki lengur fasta búsestu á Íslandi í skilningi barnaverndarlaga enda eru börnin enn í umsjá barnaverndarnefndarinnar samkvæmt framangreindu. Í 4. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að ef barnaverndarnefnd ráðstafi barni í fóstur eða vistun í annað umdæmi fari hún áfram með málið. Röksemdir kæranda fyrir því að ekkert bendi til annars en að um framtíðardvöl barnanna sé að ræða breyta ekki framangreindri túlkun á réttarstöðu barnanna gagnvart íslenskum barnaverndaryfirvöldum að þessu leyti. Þá er og vísað til þess í hinum kærða úrskurði að börnin séu í tímabundnu fóstri og því hafi barnaverndarnefndin úrskurðað samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga um umgengni kæranda við börnin þar sem ekki hafi náðst samkomulag við kæranda um umgengni. Í lagaákvæðinu segir að barnaverndarnefnd hafi úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd. Að framangreindu virtu ber að líta svo á að 2. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga standi ekki í vegi fyrir því að barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi lögsögu í málinu. Verður krafa kæranda sem að þessu lýtur því ekki tekin til greina.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Náist samkomulag gerir barnaverndarnefnd skriflegan samning við þá sem umgengni eigi að rækja. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Við úrlausn á máli þessu ber að líta til þeirrar stöðu sem börnin eru í sem er gert í þeim tilgangi að unnt sé að greina hvað þjóni hagsmunum barnanna best. Einnig ber að meta stöðu barnanna til þess að unnt verði að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún fari ekki bersýnilega gegn hagsmunum og þörfum barnanna og sé ekki ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þeirra í fóstur. Um er að ræða ung börn sem hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli. Endanleg ákvörðun um framtíð barnanna liggur ekki fyrir í dag. Hagsmunir barnanna eru að öryggi þeirra verði sem best tryggt og að þau verði vernduð gegn því að upplifa erfiðar tilfinningar og vanlíðan. Ber með vísan til þessa að staðfesta mat barnaverndarnefndarinnar á því að umgengni sé hæfilega ákveðin í hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt því er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 17. mars 2015 varðandi umgengni A við börn hans, B og C, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira